Þingmenn í óþurft þjóðarhagsmuna
28.4.2010 | 03:40
Þeir sem fylgjast með þessu bloggi blandast vart hugur um það hver afstaða mín til kostaðra þingmanna er. Í mínum huga er engin spurning um að þeir verða að víkja skilyrðislaust! En þeir ætla heldur betur að þrjóskast við. Sannast sagna finnst mér viðbrögð þeirra vera til enn frekari vitnis um sekt þeirra og vanhæfni.
Þeir eru ekki aðeins sjálfum sér til skammar með gelgjulegum yfirgangi sínum og afneitun heldur setja þeir Alþingi okkar Íslendinga niður með háttalagi sínu. Þeir vanvirða ekki aðeins íslenska kjósendur heldur halda þeir öllu þjóðfélaginu í gíslingu með siðvilltu framferði sínu.
Alþingi nýtur ekki trausts á meðan myrkur siðblindu þeirra, sem eru grunaðir, hvílir yfir störfum þess. Ég leyfi mér líka að efast um að þingið sé almennilega starfhæft með þá innanborðs vegna þess skugga sem áframhaldandi vera grunaðra ráðherra og þingmanna hlýtur að varpa á hina og þar með öll störf þingsins.
Það er aðeins einn hinna grunuðu sem ég hef séð að gefur það a.m.k. í skyn að hann hafi velt því fyrir sér hvort hann er að gera gagn með veru sinni inni á þingi. Hann tekur það reyndar ekki fram hvort upplýsingarnar um styrk sem Landsbankinn veitti honum, sem segir af í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar, hafi einhver áhrif á þessar vangaveltur hans. (Eftirfarandi er tekið úr Fréttablaðinu en tilsvarið sem ég vísa til er litað með gulum áherslupenna) Ég hef áður birt töflur yfir þá þingmenn sem samkvæmt gögnum hafa þegið styrki frá Landsbanka og Kaupþingi og/eða ættu að víkja vegna annars konar fríðinda sem þeir þáðu af gerendum bankahrunsins. Sjá hér og hér. Þrír þeirra sem þar er getið hafa þegar vikið þingsæti en einn þeirra varamanna sem tóku sæti í kjölfarið er ekki síður vanhæfur á sömu forsendum og þeir sem tóku sér tímabundið orlof.
Sigurður Kári Kristjánsson sem kom inn á þing í fjarveru Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er líka kostaður þingmaður eins og Þorgerður Katrín þó hann hafi ekki verið jafndýr. Hér að neðan er tafla til upprifjunnar því um hvaða þingmenn er að ræða og hve dýrt þeir seldu sig. Tölurnar eru byggðar á þeim upplýsingum sem koma fram í töflum 4 og 6 í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar.
Nafn | Kaupþing | Landsbanki | Samtals |
Steinunn Valdís Óskarsdóttir | 3.500.000 | 3.500.000 | |
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir | 1.500.000 | 2.500.000 | 3.000.000 |
Guðlaugur Þór Þórðarson | 1.000.000 | 1.500.000 | 2.500.000 |
Kristján L. Möller | 1.000.000 | 1.500.000 | 2.500.000 |
Össur Skarphéðinsson | 1.500.000 | 1.500.000 | |
Björgvin G. Sigurðsson | 100.000 | 1.000.000 | 1.100.000 |
Guðbjartur Hannesson | 1.000.000 | 1.000.000 | |
Helgi Hjörvar | 400.000 | 400.000 | 800.000 |
Sigurður Kári Kristjánsson | 750.000 | 750.000 | |
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir | 250.000 | 300.000 | 550.000 |
Ragnheiður Elín Árnadóttir | 250.000 | 300.000 | 550.000 |
Árni Páll Árnason | 300.000 | 300.000 | |
Jóhanna Sigurðardóttir | 200.000 | 200.000 | |
Katrín Júlíusdóttir | 200.000 | 200.000 | |
Valgerður Bjarnadóttir | 200.000 | 200.000 |
Ég vek athygli á því að undir nöfnum þingmannanna hér að ofan eru tenglar inn á æviágrip þeirra inni á vef Alþingis. Ástæðan fyrir því að enginn slíkur tengill er undir nafni Sigurðar Kára er sú að af einhverjum ástæðum hefur listinn yfir þingmenn ekki verið uppfærður þrátt fyrir það að þrír þeirra grunuðu hafa vikið og þrír nýir tekið þeirra sæti. Kann að vera að ástæðan sé sú að þeir sem viku sögust eingöngu ætla að taka sér tímabundið orlof frá þingstörfum.
Þeir ætla e.t.v. að bíða þess að stormurinn í kjölfar Rannsóknarskýrslunnar lægi. En ætlum við að sætta okkur við það? Örfáir eitilharðir kjósendur hafa fylgt kröfunni um afsögn framantaldra eftir. Það hefur kostað oft og tíðum ótrúleg viðbrögð þar sem útlit er fyrir að ákveðin hagsmunaklíka hafi risið upp kostuðu þingmönnunum sínum til varnar.
Það eru einkum stuðningsmenn Steinunnar Valdísar, svo og hún sjálf, sem hafa staðið að baki þeirri óvægnu varnarbaráttu siðvillunnar. Þessir hafa jafnvel gengið svo langt að tala um mannréttindabrot þeirra sem vilja minna þingmenn á siðferðislegar skyldur sínar gagnvart íslensku þjóðinni. Þetta er auðvitað ekkert annað en að snúa sannleikanum á hvolf því það er miklu frekar mannréttindabrot að bjóða þjóðinni upp á að grunaðir sitji áfram á þingi.
Aðalheiður Ámundadóttir, sem stundar meistaranám við Háskólann á Akureyri, skrifar ágætan pistil um þetta efni sem var birtur á vef Smugunnar í gær. (Sjá hér) Í pistli sínum bendir hún á misbeitingu ofangreindra á hugtakinu mannréttindi og útskýrir hvað það felur í sér út frá lagalegri skilgreiningu: Mannréttindi eru ætluð til að vernda hinn almenna borgara gagnvart ríkisvaldinu en ekki öfugt. Hinn almenni borgari getur ekki framið mannréttindabrot, hann er ekki í stöðu til þess. Síðar bætir hún við:
Hinn almenni borgari þarf að virða hin almennu lög. Stjórnarskrár hafa hins vegar þann tilgang að ákvarða stjórn landsins og setja valdhöfunum skorður. Og hvers vegna skyldu nú mannréttindin vera tryggð í stjórnarskrá frekar en með almennum lögum? Jú vegna þess að það er valdhafana að virða mannréttindin.
Það er ekki bara dapurlegt að horfa upp á grunaða þingmenn haga sér eins og óstöðuga unglinga sem eru svo sjálflægir að þeir verjast allri gagnrýni með yfirgangi og misbeitingu tungumálsins. Það er skuggalegt að hugsa til þess að örlög okkar séu undir þeim komið sem hafa ekki nægilegan siðgæðisþroska til að viðurkenna mistök sín og horfast í augu við afleiðingar þeirra.
Það er ekki nóg að segjast hafa samvisku og vilja vel. Í heimi þeirra sem hafa þroskast upp úr rokgjarnri dramatík gelgjuáranna þá eru það fyrst og fremst verkin sem dæma menn.
Það getur vissulega verið virkilega gaman að unglingum. Maður getur m.a.s. hlegið að dramaþáttunum sem þeir setja upp við óútreiknanlegar aðstæður. Stundum a.m.k. En það er ekkert fyndið við það þegar fullorðið fólk notar þessa stjórnunartaktík. Síst af öllu þegar viðkomandi er meðal æðstu stjórnenda landsins.
Það er reyndar stórhættulegt! Við verðum að hætta þessari meðvirkni og losa þjóðfélagið úr þeirri gíslingu sem dramadrottningarnar og -prinsarnir halda samfélaginu í. Þau ógna trúverðugleika Alþingis okkar Íslendinga með því að neita að víkja sæti á meðan mál þeirra sem koma fram í Rannsóknarskýrslunni eru rannsökuð til hlítar.
Áframhaldandi vera þeirra er lífshættuleg fyrir samfélagið og því í raun mannréttindabrot gagnvart íslensku þjóðinni að ráðherrar og þingmenn, sem voru kostaðir af gerendum hrunsins, skuli sitja í stjórn landsins.
Óþægilegt fyrir Samfylkinguna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er frábær pistill hjá þér Rakel mín, ég fæ hann hér með lánaðan.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.4.2010 kl. 11:04
Set þetta inn á Þingmenn samþykkið lyklafrumvarpið! síðuna og bið þig um að pósta þar líka greinar sem eiga heima þar. Höldum áfram að hamra á sukkpöddunum.
Ævar Rafn Kjartansson, 28.4.2010 kl. 15:13
Takk bæði fyrir að vilja dreifa þessari grein. Ævar, ég st ósk þína á bak við eyrað og vona að hún týnist ekki þar.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.4.2010 kl. 18:35
Góðan daginn Rakel.
Frábær skrif hjá þér og ekki er Alla síðri ..............
Sammála í öllum atriðum.
Níels A. Ársælsson., 1.5.2010 kl. 09:19
Alla er frábær! og ég er sennilega ágæt líka Takk fyrir!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.5.2010 kl. 15:13
Þú er ekki bara ágæt þú ert "stór fín" og glæsileg.
Níels A. Ársælsson., 1.5.2010 kl. 21:07
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.5.2010 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.