Borgarafundur: Eitthvað jákvætt?

Fimmtudaginn 23. febrúar var haldinn enn einn borgarafundurinn hér á Akureyri. Þetta var líka annar fundurinn á þessu ári. Þessi var hugsaður sem framhald þess síðasta sem fjallaði um Sálarheill þjóðar á krepputímum. Þar var m.a. komið inn á mikið atvinnuleysi meðal ungs fólks og svo karlmanna á besta aldri.

Fundurinn sl. fimmtudag var því hugsaður sem kynning á því hvað stæði þessum hópum til boða eða m.ö.o. hvort og hvernig væri reynt að mæta afleiðingum efnahagskreppunnar hér á Akureyri. Það var ekki síður markmið þessa fundar að leiða þá sem vinna að slíkum úrræðum saman. Fundinum var þess vegna ekki bara kynningar- og upplýsingafundur heldur var honum ekki ætlað að kveikja hugmyndir. M.a. hugmyndir að auknu samstarfi.

Umgjörð þessa fundar var með töluvert öðru sniði en þeir sem hafa verið haldnir hér fyrir norðan hingað til. Átta fulltrúum samtaka, nefnda og/eða stofnana var boðin þátttaka. Þeir kynntu þá starfsemi sem þeir voru fulltrúar fyrir og hefur orðið til sem viðbragð við hruninu. Þetta voru fulltrúar grasrótarhópa, nefnda og stonana sem hafa á einn eða annan hátt komið að því að bregðast við þeim staðreyndum sem akureyskt samfélag hefur staðið frammi fyrir vegna efnahagskreppunnar.

Tveir boðuðu forföll þannig að kynningarnar urðu sex og fékk hver 15-20 mínútur til að segja frá og taka við fyrirspurnum. Gestir þessa fundar urðu reyndar ekki nema rúmlega tuttugu en þrátt fyrir það spunnust gjarnan fjörugar umræður þannig að fundarstjórinn, sem var ég sjálf, neyddist stundum til að skera á umræðurnar til að tryggja að allir kæmust að.

Er eitthvert grasrótarstarf á Akureyri?

Guðrún Þórs leiðir fyrstu mótmælin á AkureyriFyrst sagði Guðrún Þórs, sem leiddi mótmælin hér á Akureyri sl. vetur, frá Byltingu fíflanna. Guðrún leit til baka og rifjaði upp sjokkið sem fyrstu fréttir af efna- hagshruninu ollu henni en sagði að það sem hefði kveikt hana til athafna hefði verið fræðsla sem hún fékk hjá kunningja sínum um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Eftir það var hún óstöðvandi og dreymdi um að virkja fólk í kringum sig til viðbragða. Hún hitti svo nokkra sem voru sama sinnis sem leiddi til fyrsta mótmælafundarins hér á Akureyri en hann var haldinn þ. 25. október 2008. Á sama tíma voru mótmæli á Ísafirði, Seyðisfirði og í Reykjavík. Þessar göngur voru farnar á hverjum laugardegi uns ríkisstjórnin sem sat þá fór frá í lok janúar.

Það varð að hefð hér á Akureyri að mótmælendur hittust fyrir framan Leikhúsið og þrömmuðu svo inn á Ráðhústorg þar sem þeir hlýddu á ræður. Guðrún sagði að þegar hún liti til baka þá gæfu minningarnar frá þessum tíma henni kraft. Það er nefnilega hægt að koma ýmsu til leiðar ef fólk stendur saman.

Eftir fyrstu gönguna hér á Akureyri varð til grasrótarhópur sem kallaði sig Byltingu fíflanna eftir leiksýningu sem Kristján Ingimarsson setti upp á Akureyrarvöku sumarið 2007 (Sjá hér). Meðal meðlima voru Sigurbjörg Árnadóttir og George Hollanders. Fljótlega eftir stofnun skiptu hún og þau tvö með sér verkum þannig að Guðrún sá um mótmælin, Sibba Árna. um borgarafundina og George um grasrótina og Bylting fíflannafundi grasrótarhópsins.

Mig langar til að bæta því við þetta að þó starf Byltingar fíflanna liggi niðri um þessar mundir þá er þessi vettvangur til. Þess vegna er hægt að endur- vekja hann. Það má líka segja að hann lifi enn í fánanum hans Kristjáns sem setti svip sinn á mótmælin hér fyrir norðan.

Fáninn er nefnilega tekinn að dreifa sér um landið þó dreifing hans gangi hægt þá hefur hann skotið upp kollinum á nokkrum stöðum og þar á meðal nokkrum sinnum í Reykjavík. Ef þú vilt panta þér fána þá gerir þú það hér.

Edward H. HuijbensNæstur á mælendaskrá var Edward H. Huijbens en hann sagði frá borgarafund- unum hér á Akureyri. Hann sagði líkt og Guðrún að þegar hann liti til baka þá fyndist honum tíminn frá hruni búinn að vera magnað tímabil ekki síst fyrir þá vakningu sem hefur orðið í samfélaginu síðan þá. Borgarafundirnir er einn vitnisburður þeirrar vakningar.

Edward rifjaði upp frumkvöðlastarf Sigurbjargar Árnadóttur þegar hún hratt borgarafundunum af stað hér fyrir norðan og hvernig hún fékk hann til að stýra fundi en það varð svo að hefð enda hefur hann stýrt langflestum fundunum síðan.

Edward velti því fyrir sér hvaða þýðingu fundirnir hefðu haft fyrir hann persónulega og fullyrti að þeir hefðu orðið honum vakning til pólitískrar meðvitundar. Nú er hann sjálfur kominn á lista til bæjarstjórnarkosninga hér á Akureyri þannig að hann á ekki eftir að stýra fleiri borgarafundum. A.m.k. ekki í bráð.

Hann benti líka á að með borgarafundunum hefði verið skapaður merkilegur samræðuvettvangur en þeir hafa ekki síður orðið til að skapa samkennd um leið og þeir hafa verið útrás fyrir reiðina þar sem fundargestum hefur m.a. gefist tækifæri til að tala beint við stjórnmálamennina. Að lokum hrósaði Edward okkur sem höfum haldið utan um fundina fyrir það að hafa ávallt leitast við að skapa sem breiðastan umræðuvettvang með því að leiða saman andstæð sjónarmið og ólíkar stefnur þar sem það hefur átt við.

Það er e.t.v. við hæfi hér að þakka Edward fyrir fundarstjórnina og óska honum velfarnaðar í pólitíkinni. Mig langar svo að bæta því við að hann hefur staðið sig frábærlega sem stjórnandi fundanna. Ég leyfi mér að fullyrða það að það hefur ekki verið síst fyrir fundarstjórn hans sem fundirnir hér fyrir norðan hafa haldið velli.

Kristinn H. Þorsteinsson er verkefnastjóri Grasrótar: Iðngarða og nýsköpunar og sagði frá starfsemi sem er á þeirra vegum. Þetta verkefni var fyrst í höndum Georges Hollanders og Rúnars  Þórs Björnssonar en það hefur vaxið svo á því rúma ári frá því það fór af stað að það er núna komið með húsnæði og verkefnastjóra. Ég vek athygli á því að glærur sem Kristinn útbjó fyrir þessa kynningu eru í viðhengi neðst í þessari færslu.Kritinn H. Þorsteinsson Kristinn hóf mál sitt á því að benda á að Grasrótin: Iðngarða og nýsköpunar væri sameiginlegur vettvangur til að skapa atvinnutækifæri. Þar væri horft mikið til vistvænna þátta og endurnýtingar. Kristinn er nýfluttur til Akureyrar til að taka við starfinu sem hann gegnir nú. Hann lýsti því hvernig hann kom uppfullur af hugmyndum tilbúinn til að taka til hendinni og hreifa við hlutunum.

Það sem kom honum hins vegar á óvart er það hve margt er í gangi hér á Akureyri. Frá hans bæjardyrum séð er margt jákvætt þegar litið er til þeirrar starfsemi sem er í boði fyrir atvinnulausa og á vettvangi nýsköpunar. Hann benti hins vegar á að sá hópur, þ.e. atvinnulausir, sem hann vildi þjóna biði ekki beinlínis í röðum eftir því að taka þátt eða koma hugmyndum á framfæri. Eina ráðið var því að fara af stað og sækja þetta fólk.

Það hefur tekist að einhverju leyti með samstarfi við m.a: Vinnumiðlunarstofnun, Akureyrarstofu, Símey, Rósenborg, Menntasmiðju unga fólksins, Fjölsmiðjuna, Punktinn og Sigurhæðir. Fleiri eru að bætast við en það gleðilegasta við þetta allt saman er að ýmsir hafa lýst sig tilbúna til að styðja við þá starfsemi sem fram fer í Grasrót: Iðngarða og nýsköpunar. Það eru einkum fyrirtæki og einstaklingar sem eru tilbúnir til að miðla af þekkingu sinni og hugviti.

Það verkefni sem hefur farið mest fyrir er kajaksmíði en auk þess eru eftirtalin verkefni farin af stað eða um það bil að verða að veruleika: margmiðlunarsmiðja sem Sóley Björg Stefánsdóttir (einn fyrrverandi fulltrúa í borgarafundanefndinni) sér um, umhverfisverkefni: breytt verklag, hljóðfærasmiðja, raftækjasmiðja, heimilissmiðja og úrskurðarsmiðja. Kristinn nefndi að það væru Símey og Rósenborg sem hefðu komið með sum þessara verkefna til þeirra en sum hefðu orðið til þannig að fólk fengi hreinlega hugmynd, kæmi henni á framfæri og hann ásamt fleirum sæju til þess að hún yrði að veruleika. 

Verkefni Grasrótar: Iðngarða og nýsköpunar hafa vakið athygli fjölmiðla og þannig hafa þeir náð í enn fleiri sem nýta sér það sem þar er í boði. Kristinn nefndi t.d. að eftir Kastljósþáttinn þar sem sagt hefði verið frá starfsemi þeirra þá hefði verið stríður straumur gesta sem vildi kynna sér starfsemi þeirra. Margir gestanna eru nú þátttakendur í verkefnunum þeirra.
Borgarafundur á Akureyri 25.02.2010Kristinn talaði sérstaklega um verkefnið Ungt fólk til athafna sem hann sagði tilkomið vegna samstarfs margra aðila. Hann hrósaði þætti Vinnumálastofnunar sérstaklega í því efni og sagði að hér á Akureyri væri verið að vinna mjög gott starf í samstarfi margra aðila í því markmiði að koma atvinnulausum í virkni.

Undir lokin benti Kristinn á að það væri þó enn áhyggjuefni hvernig ætti að ná í óvirka hópinn. Hann talaði um að samkvæmt nýlegri rannsókn þá mætti rekja ástæður lélegrar virkni til uppeldisins eða þess að foreldrar hefðu ekki fylgt þeim nægilega vel eftir. En það er ekki bara ungt fólk sem hefur fallið niður í óvirkni í því atvinnuleysi sem nú ríkir. Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af fullorðnu fólki sem þannig er ástatt fyrir. Kristinn undirstrikaði það að brýnasta spurningin nú væri sú hvernig væri hægt að ná til þessa hóps.

Hvernig er hlúð að atvinnulausum og einstaklingum í vanda á Akureyri?

Gunnar Gíslason, verkefnastjóri, Almannaheillanefndar tók næstur til máls. Kynning hans var studd glærum. Þær eru aðgengilegar með því að fylgja krækju sem er að finna neðst í þessari færslu.

Gunnar byrjaði á því að segja frá því hver viðbrögð bæjarins voru við efnahagshruninu haustið 2008 sem voru þau að boða til samráðsfundar í byrjun október skömmu eftir hrunið. Á þessum fundi sátu fulltrúar frá skólanefnd og félagsmálaráði, bæjarstjóri, bæjarritari ásamt fleiri starfsmönnum Akureyrarbæjar. Í framhaldinu var skipaður stýrihópur með fulltrúum frá skóla-, búsetu- og fjölskyldudeild ásamt bæjarritara og fulltrúa frá heilsugæslunni.

Gunnar GíslasonFyrstu skref stýrihópsins voru að halda tvo fundi. Annan með fulltrúum kirkna á svæðinu, sjúkrahússins, Rauða krossins, verkalýðsfélag- anna og háskólans. Hinn með bankastjórum stóru bankanna. Auk þess stóð hópurinn fyrir námskeiðum í sálrænni áfallahjálp sem var annars á vegum Rauða krossins. Tæplega 200 starfsmenn Akureyrarbæjar sóttu þessi námskeið. 

17. október 2008 var svo Almannaheillanefndin stofnuð. Hana skipa fulltrúar frá hinum ýmsu deildum og stofnunum sem starfa að fjölskyldu og félagsmálum á vegum Akureyrarbæjar auk fulltrúa frá Sjúkrahúsinu, Háskólanum, Rauða krossinum, Vinnumálastofnun, kirkjunum, framhaldsskólunum og verkalýðsfélögunum. Til að byrja með fundaði nefndin hvern föstudag. Í dag hittist nefndin þriðja hvern föstudag. 

Gunnar fór því næst yfir hlutverk nefndarinnar sem hann sagði vera m.a. það að greina sögusagnir frá staðreyndum og bregðast við og koma staðreyndum á framfæri. Auk þess vann nefndin og vinnur enn að því að efla þá þjónustu sem er til staðar og fylla upp í þar sem eru göt í þjónustunni. Gunnar sagði að margar bjargir hefðu verið til staðar en Almannaheillanefndin stóð frammi fyrir því verkefni að samhæfa þær og auka samstarfið á milli þeirra sem buðu upp á þær.

Mig langar til að vekja athygli á glæru númer 6 í glærupakkanum frá Gunnari. Þar er finna net yfir þá þjónustu sem stofnanirnar sem eiga fulltrúa í Almannaheillanefndinni standa fyrir.

Verkefni Almannaheillanefndar hefur verið og er mjög víðtækt. Gunnar sagði að í aðalatriðum væri það að fylgjast með öllum breytingum sem má tengja efnahagshruninu og bregðast við þeim. Uppsagnir á þjónustu á vegum bæjarins til barna, unglinga, öryrkja og aldraðra eða brottfall úr skóla og/eða íþróttum gæti verið vísbending um vandamál sem sprottið er af versnandi efnahag. Aukin eftirspurn eftir fjárhagsaðstoð er það tvímælalaust.

En það hefur ekki bara verið hlutverk nefndarinnar að bíða átekta og fylgjast með. Gunnar sagði að nefndarmenn hefðu velt því fyrir sér hvaða ráðgjöf væri nauðsynleg við slíkar aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu. Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar brást t.d. við með því að bjóða upp á lengri opnunartíma. Ráðgjafastofa um fjármál bauð um tíma upp á ókeypis ráðgjöf í samstarfi við fjölskyldudeild bæjarins. Boðið var upp á leiðbeiningar um fjármál heimilanna á fimmtudögum milli kl. 17:00 og 19:00. Í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju var líka starfandi ókeypis lögmannavakt á þessum tíma en á mánudögum. (Sjá glærur 10 til 13 í glærupakkanum hans Gunnars).

Þessi þjónusta var hins vegar lítið sem ekkert nýtt þannig að hún er ekki lengur til staðar. Gunnar velti því fyrir sér hvað það þýddi að þessi þjónusta hefði ekki verið meira nýtt en raun varð á. Kannski þurfti fólk ekki á henni að halda þá. Kannski vissi það ekki af því að hún var fyrir hendi. Í framhaldinu benti hann á heimasíðu Akureyrarbæjar þar sem er að finna upplýsingar á Ráðgjafartorgi. Hins vegar velti hann því fyrir sér hvort þessi síða nægði til kynningar á þeim úrræðum sem Almannaheillanefndin heldur utan um.
Gunnar GíslasonEinn fundargesta benti á að honum þætti það ekki líklegt að fólk sem væri í vanda færi inn á akureyri.is til að leita eftir úrræðum. Hann spurði jafnframt eftir því hve margir í Almannaheillanefndinni hafa verið eða eru atvinnulausir? Gunnar svaraði að það væri enginn. Fyrirspyrjandi spurði þá hvort það veikti ekki trúverðugleika og traust til nefndarinnar að enginn sem væri að fjalla um og reyna að bregðast við stöðu þeirra sem efnahagsástandið bitnaði verst á hefði reynslu af því að t.d. að missa vinnuna?

Gunnar þakkaði fyrir þessa ábendingu og bætti því við að þau í Almannaheillanefndinni reyndu að hlusta og læra. Hann benti jafnframt á að þau stæðu gjarnan frammi fyrir spurningunni um það hvað sveitarfélagið ætti að gera og hvað ríkið ætti að gera. Að lokum sagði hann að þau mál sem væru á könnu Almannaheilanefndar væru samfélagsmál sem þyrfti að ræða á miklu breiðari grundvelli.

Álfheiður KristjánsdóttirÁlheiður Kristjánsdóttir er verkefnastjóri átaksins Ungt fólk til athafna hér á Akureyri. Hún studdi kynninguna sína með glærum og fylgja þær þessari færslu eins og hinna. Krækja inn á þær er neðst í þessari færslu.

Verkefnið, Ungt fólk til athafna, fór af stað hér á Akureyri 11. janúar sl. (Sjá t.d. hér). Álfheiður benti á að hið eiginlega upphaf væri það að Félags- og tryggingamálaráðuneytið fól Vinnumálastofnun að tryggja það markmið að aldrei skyldi líða meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur verður atvinnulaus þar til honum er boðið starf, námstækifæri, starfs- þjálfun eða þátttaka í öðrum verðugum verk- efnum. Þessu markmiði skyldi náð gagnvart fólki á aldrinum 18-24 ára fyrir 1. apríl 2010 í nánu samstarfi við stéttarfélög, fyrirtæki og sveitarfélög.

Næst setti Álfheiður upp glæru sem sýnir hlutfall atvinnulausra á aldrinum 16 til 24 ára af heildarfjölda. Þessar tölur eru frá því í desember á síðasta ári. Ég leyfi mér að birta hana hér (sjá glæru 3 í glærupakkanum hennar Álfheiðar).

Hlutfall atvinnulausra ungmenna af heildar þeirra sem eru atvinnulausir Eins og sjá má þá er hlutfallið hvergi hærra en á Suðurnesjum en næst á eftir kemur Norðurland eystra. Það vekur hins vegar athygli að hlutfallið á Suðurnesjum er helmingi hærra. Af því tilefni varpaði einn fundargesta fram eftirfarandi spurningu: „Hefur það verið kannað hvort lágt íbúðaverð á Keflavíkurflugvelli ýkir e.t.v. þessar atvinnuleysistölur á þessu svæði?“ Álfheiður þorði ekkert að fullyrða í því sambandi en taldi þó að það hefði ekki verið gert.

Þá hélt hún áfram að rekja aðdraganda þessa atvinnuátaks. Hún benti á að rýnihópagreining hefði leitt í ljós að frumkvæði þessa hóps, þ.e. atvinnulausra ungmenna, væri nánast ekkert. Hópurinn fengi heldur enga hvatningu frá kerfinu. Fæstir höfðu t.d. heyrt frá Vinnumálastofnun frá því þeir misstu vinnuna. Það væri heldur ekki um að ræða neina kynningu á úrræðum eða hvatningu til að breyta ástandinu sem þessir byggju við.

Langflestir í þessum hópi eru einungis með grunnskólapróf og meiri hlutinn býr enn í foreldrahúsum. Frá þeirra bæjardyrum séð búa þeir við þokkalegan fjárhag. Atvinnuleysisbæturnar eru nefnilega ágætur vasapeningur fyrir ungling sem býr í foreldrahúsum og þarf ekki að standa straum af matarkaupum, leigu eða öðrum kostnaði í kringum það að halda heimili.

Niðurstaða skýrslunnar sem varð til í kringum þessa rannsókn voru m.a. þær að: „Aðgerðarleysi gæti haft svipaðar afleiðingar og í Finnlandi þar sem heil kynslóð týndist með hörmulegum afleiðingum fyrir fjölmarga einstaklinga og samfélagið í heild.“

Álfheiður sagði að „meginmarkmið aðgerða gegn atvinnuleysi ungs fólks á að vera skipulögð virkni eða sjálfboðaliðastörf og aukin menntun fremur en afskiptaleysi á atvinnuleysisbótum.“ Verkefnið snýst um þá sem eiga rétt á bótum. Hér á Akureyri er þetta samstarfsverkefni margra aðila. Þar má nefna: Grasrót: Iðngarða og nýsköpunar, Menntasmiðju ungs fólks, Akureyrarstofu, Rauða krossinn, Símey, Fjölsmiðjuna og Verkmenntaskólann á Akureyri.

Hún lýsti ferlinu hér á Akureyri sem er það að ungir atvinnuleitendur fá sent bréf þar sem þeir eru boðaðir til fundar í Rósenborg. Þar fer fram kynning á þeim úrræðum sem eru í boði síðan velja ungmennin virkniúrræði í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Þau hafa hins vegar ekki val um að gera ekki neitt. Þeir fáu sem velja þá leið missa bótarétt.

Í lok kynningar sinnar minnti Álfheiður á það að Akureyri væri frumkvöðull hvað þetta verkefni varðaði. Hún sagði að það hefði kallað á mjög jákvæð viðbrögð víða að og líka töluverða athygli fjölmiðla. Að hennar mati er þess vegna óhætt að segja það að það er ýmislegt jákvætt að gerast. Svo vildi hún nota tækifærið til að hrósa Kristni H. Þorsteinssyni, verkefnastjóra Grasrótar: Iðngarða og nýsköpunar sérstaklega og sagði að það væri hægt að hrinda ótrúlegustu hugmyndum í framkvæmd ef fólk kæmi þeim á framfæri við hann.

Ég ætla að taka það fram hér að ég átti von á fulltrúum frá Starfsendurhæfingu Norðurlands og Rósenborg: Möguleikamiðstöð á þennan fund en þeir afboðuðu sig því miður báðir. Skilaboðin frá þeim komu seint til að ég gæti brugðist við þeim með því að boðið einhverjum öðrum að taka þátt.

Er hægt að binda vonir við nýsköpun eða ný atvinnutækifæri í Eyjafirði?

Síðastur á mælendaskrá var Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Hann var með glærusýningu með sinni kynningu sem er í viðhengi neðst í þessari færslu.

Hann byrjaði á að kynna Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar (AFE); starfsvæði, rekstrargrundvöll og markmið. Starfssvæðið er allur Eyjafjörðurinn. Þ.e. frá Siglufirði til Grenivíkur. Efnahagskreppan hefur haft sín áhrif á rekstrargrundvöll Atvinnuþróunarfélagsins sem kemur m.a. fram í því að framlög frá ríkinu og sveitarfélögum á svæðinu fara minnkandi.
Hjalti Páll ÞórarinssonMarkmið AFE er að „bæta búsetuskilyrði og samkeppnishæfni,og auka aðdráttarafl Eyjafjarðarsvæðisins fyrir núverandi og tilvonandi íbúa, ferðamenn og atvinnulíf“ svo fátt eitt sé talið (sjá glæru 3 í glærupakkanum frá Hjalta Páli). Hjalti Páll sagði að árangurinn af starfi þeirra væri m.a. sá að þeir hefðu fengið Becromal hingað sem hefði reist hér aflþynnuverksmiðju og það væri nýbúið að skrifa undir rammasamning um koltrefjaverksmiðju sem væri líka að hluta til á þeirra vegum (sjá t.d. hér).

Ég má til að skjóta því hérna inn í að því miður var enginn á fundinum sem gerði neina athugasemd varðandi Becromal eða þeirra umsvif á svæðinu. Það má auðvitað gagnrýna það að ég hafi ekki gert það sjálf en einhvern veginn fannst mér það ekki alveg við hæfi þar sem ég var fundarstjórinn á þessum fundi.

Næst vék Hjalti Páll að vaxtasamningi Eyjafjarðar sem tók gildi í upphafi árs 2008 en rennur út í árslok 2010. „Markmið samningsins er að efla nýsköpun atvinnulífsins á starfssvæði Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.“ Þegar hefur verið úthlutað 48 milljónum til fjörutíu og tveggja verkefna. Verði verkefnin, sem um ræðir, að veruleika má gera ráð fyrir að þau skapi 116 störf.

Sem dæmi um verkefni nefndi Hjalti Páll: tilraunir með framleiðslu lífeldsneytis, fiskvinnsluklasa á Dalvíkursvæðinu, nýjungar í lyfjaframleiðslu á Grenivík, duftlökkun með bakteríudrepandi efnum og þyrluskíðun á Tröllaskaga (sjá nánar glæru 7 í glærupakka Hjalta Jóns)

Mig langar sérstaklega að vekja athygli á síðasta verkefninu sem ég taldi Á skíðum á Tröllaskagaupp hér að framan en það er Jökull Bergmann sem stendur á bak við það. Verkefni hans er að ganga upp og hefur eftirspurnin eftir þyrluskíðaferðunum á Tröllaskaganum aukist jafnt og þétt. En þetta er ekki það eina sem hann býður upp á í fjallaferðum. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þetta betur bendi ég á að fylgja þessari krækju á heimasíðu Bergmanna. Myndin er einmitt „fengin að láni“ af síðu þeirra. Hún gefur væntanlega einhverja hugmynd líka.

Þá vék Hjalti Páll að Sprotasetri Vaxeyjar sem er angi af fyrrnefndum vaxtasamningi. Þar er hægt að sækja um aðstöðu og handleiðslu hjá AFE til að koma atvinnuskapandi hugmynd á laggirnar. Núna er full nýting á aðstöðu Sprotasetursins en reglulega er auglýst eftir þátttakendum eftir því sem húsrúm leyfir (Sjá nánar hér).

Undir lok kynningar sinnar fór Hjalti Jón yfir stöðuna eins og hún er í dag og dró þar saman það helsta sem fram kom í kynningu hans varðandi nýtilkomin störf í aflþynnuverksmiðju Becromals og væntanleg störf ef endanlegur samningur um koltrefjaverksmiðju verður að veruleika. Þar sagði hann líka frá því að starfsmenn Atvinnuþróunarfélagsins hefðu farið í fjölda fyrirtækjaheimsóknir á Eyjarfjarðarsvæðinu undanfarna mánuði til að kanna stöðu og horfur.

Miðað við það sem kom út úr þessum heimsóknum er staðan utan Akureyrar yfirleitt ekki verri en hún hefur verið undanfarin ár. Atvinnurekendur á þessu svæði voru sammála um að kreppan á þessum stöðum hafi byrjað miklu fyrr eða fyrir 5 til 10 árum. Þar af leiðandi er staða þeirra síst verri nú en þessi ár aftur í tímann. Sumir fullyrtu m.a.s. að þeir hefðu það betra nú en fyrir haustið 2008. Hins vegar kom það fram í þessari yfirreið starfsmanna AFE að kreppan bitnar verulega á verslun og þjónustu hér á Akureyri.

Einn fundargesta spurði sérstaklega eftir því hvort þeir hefðu heimsótt byggingarfyrirtæki sem hann nefndi á Dalvík. Hjalti Páll kannaðist við það og minntist þess að þeir hefðu borið sig vel og sagst hafa verkefni átta mánuði fram í tímann. Fundargesturinn benti honum á að nú væri þetta fyrirtæki samt sem áður búnir að segja upp öllum sínum starfsmönnum.

Margir fleiri höfðu áhuga á að spyrja Hjalta Pál út í það sem fram kom í kynningu hans. Ekki síst varðandi það sem hafði komið fram í fyrirtækjaheimsóknum Atvinnuþróunarfélagsins og ekki síður hvaða spurningar höfðu verið lagðar fram í þessum heimsóknum. Þar sem tíminn var kominn nokkuð fram yfir áætluð fundarlok var fundi slitið en gestum boðið að koma spurningum sínum á framfæri við Hjalta Pál eftir fundinn.

Það varð úr að það mynduðust umræðuhópar vítt og breitt um salinn þannig að það var ljóst að efni fundarins vakti marga til umhugsunar og kveikti hugmyndir. Það er a.m.k. jákvætt ekki satt? Þeir sem þekkja skrif mín hér vita að ég geri mér fulla grein fyrir þeirri myrku ógn sem efnahagshrunið 2008 leiddi yfir íslenskt samfélag. Við verðum hins vegar að bregðast við og byggja upp. Jákvæðnin er sennilega besta verkfærið til slíkrar uppbyggingar.

Það jákvæðasta sem ég heyrði þetta fimmtudagskvöld kom reyndar fram eftir lok fundarins. Það var hugmynd um enn stærri fund eða ráðstefnu þar sem þeir sem höfðu verið með kynningar á þessum fundi, og allir þeir sem eru að vinna að uppbyggingu af því tagi sem var kynnt á þessum fundi, kæmu saman til að kynna sig og kynnast innbyrðis. Markmiðið væri ekki bara kynning heldur líka það að vinna betur saman og bæta þjónustuna við þá sem þyrftu á henni að halda. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband