Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Capacent setur niður
23.11.2012 | 02:50
Mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessari frétt af heimasíðu SAMSTÖÐU:
Capacent er án efa eitt þekktasta fyrirtækið á sviði samfélagsrannsókna hér á landi. Á heimasíðu þeirra segir: Capacent er leiðandi þekkingarfyrirtæki á sviði ráðgjafar, rannsókna og ráðninga. (sjá hér) Það er líka ljóst að ýmsir miða sig við niðurstöður kannana þeirra. Þetta á líka við um kannanir sem eru gerðar varðandi fylgi stjórnmálaflokka.
Miðað við það hvernig er vísað til niðurstaðna kannana sem gerðar hafa verið á vegum Capacent má ganga út frá því að almennt sé gert ráð fyrir því að forráðamenn fyrirtækisins leggi metnað sinn í vönduð vinnubrögð þegar kemur að frágangi skoðanakannana. Það sætir því furðu að fá af því rökstuddar fréttir að í viðhorfskönnun fyrirtækisins skuli einum stjórnmálaflokki vera sleppt. Óstaðfestar fréttir bárust reyndar af því strax á vormánuðum að SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar væri ekki með á listanum yfir stjórnmálaflokka í könnunum á vegum umrædds fyrirtækis. Á þeim tíma mældist SAMSTÐA þó með á milli 9-11% fylgi.
Þegar á eftir þessu var gengið vildu forsvarsmenn Capacent ekki kannast við að þetta ætti við rök að styðjast. Eins og meðfylgjandi skjámynd úr könnun fyrirtækisins á viðhorfum fólks til stjórnmála sýnir er SAMSTAÐA óvéfengjanlega ekki með á listanum í yfirstandandi könnun og því eðlileg krafa að forsvarsmenn fyrirtækisins útskýri hvers vegna henni er sleppt þegar önnur framboð, sem hvorki eiga félagsmenn sem sitja á yfirstandandi þingi né hafa haldið landsfund, eru höfð á honum.
Í bréfi Capacent til þátttakenda segir um þá könnun sem ofangreind spurning er tekin úr: Könnunin er hluti af stórri rannsókn á viðhorfum fólks til stjórn- og þjóðmála sem er framkvæmd er [svo] reglulega. Í þessu ljósi er það grafalvarlegt mál að einum stjórnmálaflokki er sleppt úr í valmöguleikunum. Það er heldur ekki hægt að taka mark á niðurstöðunni sem fæst út úr spurningu sem er þannig úr garði gerð að ekki er boðið upp á velja alla möguleika sem eru fyrir hendi.
Í svarbréfi framkvæmdastjóra Capacent, Einars Einarssonar, til formanns SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, Birgis Arnar Guðjónssonar, sem barst í dag við fyrirspurn formannsins, gefur framkvæmdastjórinn þessa skýringu:
Þessi könnun er hvorki gerð með það að markmiði að mæla fylgi flokkanna né til birtingar. Þessari spurningu er ætlað að sía út þá sem eiga fá [svo] áframhaldandi spurningar um ákveðna stjórnmálaflokka.
Í öllum könnunum sem Capacent framkvæmir með það að markmiði að mæla fylgi flokka eru öll framboð talin upp og þar með talin Samstaða.
Hann svarar því hins vegar ekki af hverju SAMSTÖÐU er sleppt á meðan önnur ný framboð, sem hvorki hafa haldið landsfund né eiga þingmann inni á þingi, eru höfð með. Hann skýrir það ekki heldur hvernig þessi spurning á að sía út þá sem eiga að fá áframhaldandi spurningar um ákveðna stjórnmálaflokka. Þeirri spurningu er t.d. ósvarað hvernig þessari viðhorfskönnun er ætlað að sía út þá sem styðja SAMSTÖÐU þegar SAMSTAÐA er ekki með á listanum.
Eftir situr að það er ekki hægt að ætlast til þess að mark sé tekið á niðurstöðum þessarar könnunar Capacent til viðhorfa fólks til stjórnmála. Vissulega vekur þetta líka upp spurningar um það hvort mark sé takandi á þeim niðurstöðum sem hafa verið kynntar að undanförnu um þetta efni á vegum Capacent. Þeir eru reyndar einhverjir sem vilja halda því fram að lítið mark sé takandi á skoðanakönnunum almennt en þó er ekki hægt að líta fram hjá því að þær eru skoðanamótandi.
Ef Capacent vill viðhalda þeirri stöðu að vera leiðandi á sviði viðhorfskannana skyldi maður ætla að forsvarsmenn fyrirtækisins líti þau mistök sem þeir hafa nú orðið uppvísir að mjög alvarlegum augum. Maður skyldi því ætla að forráðamenn þess komi með viðunandi skýringar á því hvernig stendur á því að þeir bjóða þátttakendum í könnunum Capacent upp á það að gefa upp afstöðu sína til stjórnmálaflokka án þess að þeir séu allir hafðir með. Svör þeirra hingað til hafa því miður ekki verið til þess fallin að byggja upp traust til þess. Á meðan þau hafa ekki borist er ekki hægt að líta þetta öðrum augum en Capacent hafi sett verulega niður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Skipuð kynningar- og tengslafulltrúi SAMSTÖÐU
15.11.2012 | 03:07
Eftirfarandi frétt var birt á heimasíðu SAMSTÖÐU í gærkvöldi:
Rakel Sigurgeirsdóttir hefur verið skipaður kynningar- og tengslafulltrúi SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar. Skipunin gildir út janúar á næsta ári. Fulltrúahlutverk hennar er ólaunað eins og önnur verkefni innan SAMSTÖÐU.
Rakel gekk til liðs við flokkinn um miðjan febrúar. Á félagsfundi sem haldinn var þann 12. mars var hún kjörin formaður aðildarfélags SAMSTÖÐU í Reykjavík. Allt frá stofnun hefur félagið verið mjög öflugt í að standa fyrir fundum og öðrum opnum viðburðum sem hafa þann tvíþætta tilgang að kynna stefnu SAMSTÖÐU og opna félögum og fleirum aðgengi að forystu flokksins.
Áður en Rakel gekk til liðs við SAMSTÖÐU hafði hún tekið virkan þátt í viðspyrnunni. Fyrst á Akureyri og síðar í Reykjavík. Á Akureyri byrjaði hún á að taka þátt í mótmælagöngum þar haustið 2008 og átti síðar sæti í borgarafundanefnd sem skipulagði reglulega fundi tvo fyrstu veturna eftir hrun. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur hefur hún síst dregið af í viðspyrnunni.
Hún var einn aðalskipuleggjandi Tunnumótmælanna haustið 2010 og var í hópi kjosum.is sem safnaði undirskriftum til að krefjast þjóðaratkvæðagreislu um Icesave-samninginn fyrri hluta árs 2011. Eftir það hélt hún áfram í Samstöðu þjóðar gegn Icesvave þar sem hún stóð að framleiðslu myndbandasyrpunnar: Af hverju NEI við Icesave? Frá haustinu 2011 lagði hún hönd á plóg við uppbyggingu Grasrótarmiðstöðvarinnar þar sem hún stóð m.a. fyrir reglulegum laugardagsfundum. Auk þessa stýrði hún undirbúningi tveggja borgarafunda sem haldnir voru síðastliðinn vetur í Háskólabíói um lánamál heimilanna.
Rakel starfaði áður með Hreyfingunni. Hún var fimmta á lista Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 2009. Varamaður í stjórn Hreyfingarinnar frá haustinu 2009 og í stjórn hennar frá júní 2011. Hún sagði sig frá henni í október það sama ár.
Rakel er með BA-próf í íslensku og fjölmiðlafræði og eins árs viðbótarnám í hagnýtri fjölmiðlun. Hún starfaði eitt ár á svæðisútvarpi Norðulands en frá útskrift frá Háksóla Íslands hefur hún lengst af verið framhaldsskólakennari. Núverandi starf Rakelar er íslenskukennsla fyrir útlendinga.
Sem kynningar- og tengslafulltrúi SAMSTÖÐU mun Rakel annast ritsjórn heimasíðunnar og önnur kynningar- og tengslmál SAMSTÖÐU auk verkefnisstjórnunar ýmissa skyldra verkefna á vegum flokksins.
Rekstur skóla og menntun nemenda er sitt hvað
11.11.2012 | 23:55

Ekki er heldur annað að sjá en menntamálaráðherra gangist við þessu ástandi í grein sinni Snúum vörn í sókn" sem birtist í Fréttablaðinu 9. nóvember síðastliðinn. Þó þar sé því haldið fram að núverandi ástand megi bæta þá er það viðurkennt að á sama tíma og skorið hefur verið niður" í framhaldsskólunum þá hafi nemendum fjölgað meira en nokkru sinni fyrr".
En það er ekki bara fjölgun nemenda með auknu vinnuálagi á kennarana sem ógnar þeirri menntun sem skólunum er ætlað að veita. Sú hugmyndafræði að skóla eigi að reka eins og hvert annað fyrirtæki sem skilar hagnaði á þar ekki síðri þátt. Hér mætti líka líta til afleiðingar þessarar markaðsdrifnu hugmyndafræði á fleiri opinberar stofnanir en hér verður horft til þeirra sem hafa grafið undan þeirri samfélagsþjónustu sem lýtur að rekstri skóla og menntunar nemenda.
Misvísandi stefna í rekstri skóla
Það skortir mikið á að hér sé rekin samræmd stefna í skólamálum þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Þetta kemur meðal annars fram í því að landsmenn sitja ekki lengur við sama borð hvað þessi mál varðar frekar en þegar kemur að annarri samfélagsþjónustu sem þeir taka þó þátt í að reka með skattgreiðslum sínum. Sú ákvörðun að færa rekstur grunnskóla yfir til sveitarfélaga er skýrt dæmi um skortinn á ígrundaðri stefnu í þessum málaflokki.
Á meðan tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga byggja á sömu forsendum og áður þá er sveitarfélögunum gert að sinna þeirri ríkisskyldu að halda uppi skyldunámi grunnskólans. Afleiðingarnar þekkja þeir best sem búa í dreifðari byggðum landsins. Skólar eru lagðir niður og skólabörnin þurfa að sækja skóla langt að heiman. Þessi ráðstöfun grefur ekki aðeins undan menntuninni heldur ógnar hún áframhaldandi búsetu á sífellt fleiri stöðum úti á landsbyggðinni.
Á sama tíma og ríkið hefur velt rekstri og ábyrgð grunnskólans yfir á sveitarfélögin með framangreindum afleiðingum hefur verið ráðist í að opna tækifæri til framhaldsmenntunar í ýmsum fámennari byggðarlögum landsins. Þetta skýtur nokkuð skökku við í ýmsum skilningi en þó einkum þeim að á sama tíma og rekstrarfé rótgróinna framhaldsskóla er skorið niður er umtalsverðum fjármunum varið til uppbyggingar nýjum framhaldsskólum og framhaldsdeildum.
Tvíbent stefna í menntamálum
Tilfinnanlegt misræmi er líka að finna á núverandi stefnu og viðhorfum varðandi menntunina sjálfa. Í þessu sambandi er einboðið að vísa til þess hvernig hefur verið staðið að innleiðingu nýrra laga um framhaldsskólann frá vorinu 2008. Þrátt fyrir allan þann tilkostnað og tíma sem fór í að setja lögin saman var ýmsum spurningum varðandi menntun nemenda og vinnuþátt kennara enn ósvarað þegar lögin voru samþykkt. Þrátt fyrir þann tíma og þá vinnu sem hefur farið í það að hrinda þeim til framkvæmda síðan hafa svörin ekki fengist enn.
Í fyrstu var áætlað að innleiðingu laganna yrði lokið eigi síðar en 1. ágúst 2011. Fullri gildistöku hefur hins vegar verið frestað til ársins 2015 vegna fjárhagsvanda ríkissjóðs. Það hefur legið fyrir frá upphafi að innleiðingin kostaði peninga. Á meðan þeim er ekki veitt í þetta verkefni og ekki nást samningar sem miða að því að bæta kjör kennara er ljóst að óánægja þeirra eykst. Við slíkar aðstæður búa kennarar ekki aðeins við óviðunandi ástand sem ógnar kjörum þeirra heldur er metnaði stéttarinnar til að veita nemendum góða menntun stefnt í voða.
Misvísandi stefnur menntamálayfirvalda varðandi rekstur menntastofnana, starfið sem þar fer fram og hvernig því skuli háttað teflir ekki aðeins vinnuaðstæðum kennara og menntun nemendanna í hættu heldur grefur það undan framtíð íslensks þekkingarsamfélags. Við því þarf að bregðast tafarlaust með afgerandi hætti ef ekki á illa að fara.
Höfundur er varaformaður framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU og fyrrverandi framhaldsskólakennari.
![]() |
Samræmda stefnu í skólamálum vantar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.11.2012 kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Græðgisstýrð kaupstefna
26.10.2012 | 03:26
Þessi lesning varð fyrir mér í Spámanninum eftir Kahlil Gibran. Hún fjallar um kaup og sölu:
Jörðin gefur ykkur ávöxt sinn og ykkur mun ekkert skorta ef þið kunnið að taka á móti gjöfum hennar.
Með því að deila rétt gjöfum jarðarinnar fáið þið auð og allsnægtir.
En ef þið deilið ekki af kærleika og réttsýni verða sumir ágjarnir og aðrir svangir.
Þegar þið sem erfiðið á sjónum, á akrinum og í víngarðinum, mætið vefaranum, leirkerasmiðnum og kryddsalanum á markaðstorginu biðjið þá anda jarðarinnar að stjórna voginni svo að framlög ykkar séu rétt metin.
Og leyfið ekki okraranum, sem vill kaupa erfiði ykkar fyrir orð sín, að taka þátt í viðskiptunum.
Við slíka menn skuluð þið segja:
Plægið með okkur jörðina eða farið með bræðrum okkar út á miðin og leggið netin því að landið og sjórinn geyma nægtir gulls handa okkur öllum.
Og komi til torgsins söngvarar, listamenn og skáld þá kauptu einnig þerra gjafir því að einnig þeir safna ávöxtum og reykelsi og þó að varningur þeirra sé gerður úr draumum er hann fæða og klæði sálarinnar.
Og gættu þess áður en þú ferð af torginu að enginn hverfi heim tómhentur því að andi jarðarinnar hvílist ekki fyrr en þörfum hins minnsta bróður er fullnægt.
Indíánar orðuðu kjarna þessara orða Spámannsins þannig:

Mér sýnist full ástæða til að rifja þessa visku upp nú þegar sitjandi ríkisstjórn og áhangendur hennar hafa opinberað hversu langt þessir eru tilbúnir til að ganga í þjónustu sinni við fjármagnseigendur...
![]() |
Íslendingar vinna mest Norðurlanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mismunandi málefnaáherslur
24.10.2012 | 05:45
Síðastliðinn fimmtudag, þ. 18. október, birti Ómar Geirsson pistilinn: Fár til að fífla fólk á blogginu sínu. Ég skildi eftir athugasemd við þessa færslu hans sem er grunnurinn að því sem mér þykir ástæða til að koma á framfæri hér. Ástæðan er sú að ég get ekki annað en tekið undir það sem hann segir þar um andófið. Mér þykir það miður og þykist þess líka fullviss að einhverjum kunni að renna það, sem Ómar segir þar, þannig til rifja að honum finnist hann óþarflega grimmur í garð þess.
Sjálf lifði ég og hræðist í reykvískri grasrót í rúmlega eitt og hálft ár áður en ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar sem er þó vissulega líka sprottin af þeirri grasrót sem kom fram hér strax í kjölfar hrunsins. Af þessum ástæðum fannst mér það sanngjarnt að bregðast við bloggfærslu Ómars og staðfesta það fyrir honum að austanmaðurinn greindi þann viðsnúning sem hefur orðið í kringum meginstraum andófsins rétt.
Ég kann ekki skýringuna á því hvers vegna hlutirnir hafa farið eins og Ómar lýsir þeim þó ég hafi vissulega velt þessu lengi fyrir mér en það var strax í Tunnubyltingunni sem ég þóttist sjá merki þess í hvað stefndi. Tímamótin þar sem klofningur grasrótarinnar verður að veruleika er e.t.v. runninn upp en það skal þó tekið fram að hann hefur kannski verið þarna frá upphafi. Það er a.m.k. ljóst að þegar stór hluti þeirrar grasrótar, sem varð til haustið 2008 undir leikstjórn Harðar Torfasonar, hefur gert stjórnarskrá sjálfskipaðrar samfylkingarelítu að aðalatriðinu þá er eitthvað mikið að!
Það er líka ljóst að þegar þessi sami hópur gerir allt til að gera þau sem setja leiðréttingu lífskjaranna í gegnum nauðsynlegar efnahagsaðgerðir á oddinn að óvinum sínum þá liggja leiðir ekki lengur saman. Því miður er líka útlit fyrir að þetta stjórnarskrárblinda andóf hafi gert þá, sem mæla fyrir skynsamlegum lausnum bundnar sjálfstæðum þjóðargjaldmiðli, að sínum höfuðóvinum.
Það er nákvæmlega í þessu sem ein meginskýringin liggur fyrir því að stjórnmálaöflin, sem sumum finnst að ættu að vera eitt, eru tvö. Þeir sem vilja sjá og skilja eru væntanlega búnir að átta sig á því að skýringin liggur ekki í persónulegum ágreiningi, eins og sumir hafa kosið að halda fram, heldur gerólíkum málefnaáherslum og hugmyndafræði.
Á meðan Dögun hefur gert stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðsins að slíku meginatriði að einhverjir þar hafa reynt að halda því fram að ný stjórnarskrá hafi verið krafa búsáhaldabyltingarinnar þá liggur megináherslan hjá SAMSTÖÐU á lífskjörin og fjármálastefnuna.
Þeir sem sjá og skilja vita að Ómar er að benda á að þingmennirnir sem eru í Dögun svo og aðrir Dögunarfélagar hafa sett allan sinn kraft í það að verja stjórnarskrána sem Samfylkingin sagði strax í upphafi árs 2009 að þyrfti að aðlaga að því að Ísland kæmist inn í ESB. Skoðun SAMSTÖÐU er hins vegar sú að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB.
Landsfundur SAMSTÖÐU sem var haldinn dagana 6. til 7. október sendi frá sér ályktun hvað þetta varðar en frá honum fóru líka fimm ályktanir þar sem stefna SAMSTÖÐU í lífskjara- og efnahagsmálum er dregin fram á skýran og afdráttarlausan hátt. Hér er yfirlit yfir heiti þeirra með krækjum í greinarnar á heimasíðu SAMSTÖÐU þar sem þær standa:
- Ályktun um verðtryggingu, framfærsluvanda og skuldamál heimilanna
- Ályktun um stöðu bótaþega og annarra sem þurfa á stuðningi velferðarkerfisins að halda
- Ályktun um gjaldmiðilskreppuna
- Ályktun um aðskilnað peningaprentunar og útlánastarfsemi bankakerfisins
- Ályktun um gjaldeyrislán til bjargar fjármagnseigendum á kostnað skattgreiðenda
Einhverjir kunna að sakna þess að engin ályktun var gefin út á vegum landsfundar SAMSTÖÐU varðandi stjórnarskrármálið. Ástæðu þess, að slíkt var ekki gert, má sennilega rekja til þess að þeim samstöðufélögum sem sóttu fundinn fannst önnur mál meira aðkallandi og þess vegna ekki viturlegt að kalla yfir sig fyrirsjáanlegar skærur þeirra sem hafa gert stjórnarskrármálið að oddamáli sínu. Hins vegar má benda á að Lilja Mósesdóttir, sem stofnaði og starfar með SAMSTÖÐU, flutti afar kjarnyrta og afdráttarlausa ræðu í umræðum um stjórnarskrána sem fram fóru á Alþingi sama dag og Ómar Geirsson birti pistilinn Fár til að fífla fólk. Niðurlag ræðu Lilju er hér:
Niðurstaða mín er sú að stjórnarskrártillögurnar verði að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu í öllum málum. Icesave-málinu er ólokið og fleiri sambærileg mál munu koma upp. Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs mun forsetinn geta vísað öllum málum í þjóðaratkvæði. Afar ólíklegt er að forsetinn vísi máli í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ný stjórnarskrá bannar að greidd verði þjóðaratkvæði um.
Ég mun því hafna stjórnarskrártillögum sem takmarka möguleika kjósenda til að krefjast þjóðaratkvæða-greiðslu. Við lifum á tímum harðnandi átaka um hvernig eigi að verja skattpeningum kjósenda. (sjá hér (leturbreytingar eru mínar))
Því má svo við þetta bæta að það var niðurstaða þeirra sem nú mynda stjórn SAMSTÖÐU að skærur um málefni eins og stjórnarskrármálið væru líklegri til að draga athyglina frá oddamálum SAMSTÖÐU sem eru eins og áður sagði lífskjör heimilanna í landinu sem er grundvöllur þess að skapa framtíðinni þá reisn að hún geti sett saman stjórnarskrá sem hefur hagsmuni almennings; þ.e. íslensku þjóðarinnar, að leiðarljósi.
Málið snýst sem sagt ekki um það að vera með eða á móti nýrri stjórnarskrá heldur forgangsröðunina. Þjóð sem býr við slíkt siðferði að lífsafkoman er sett í öndvegi er nefnilega mun líklegri til að skapa þá samstöðu meðal landsmanna að þeir komi sér saman um grundvallarsáttmála samfélagsins sem byggir á siðferðilegum forsendum réttlætis, mannúðar og heiðarleika í þeim tilgangi að viðhalda grunngildum jafnaðar, samvinnu og varanleika íslensks samfélags.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ofbeldissamband yfirvalda við almenning
14.10.2012 | 06:38
Það varð mörgum reiðarslag að lesa fréttir af nýjustu tilnefningu Nóbelsverðlaundanefnd-arinnar til friðarverðlaunanna þetta árið. Tilnefningin var réttlæt með upprifjun á þeim texta sem settur var saman við stofnun Evrópusambandsins án þess að það væri vikið einu orði að þeim ófriði sem niðurskurðarstefna þess hefur valdið um gjörvalla Evrópu þó einkum í suðurhluta álfunnar.
Það er í rauninni ekki hægt að segja annað en að þessi tilnefning til friðarverðlauna Nóbels sé partur af því ofbeldi sem Evrópusambandið og þeir sem því eru bundnir standa á bak við. Sjálf upplifði ég ofbeldið af lestri fréttarinnar í gegnum augnabliks lömun. Ég var slegin af þögn furðulostinna geðshræringa um leið og það smaug í gegnum hug minn að bilunin er sennilega miklu alvarlegri en við sem spyrnum á móti höfum sannfærst um nú þegar.
Með því að Nóbelsverðlaunanefndin tilnefnir Evrópusambandið til friðarverðlaunanna er það nefnilega ljóst að valdhafarnir eru haldnir svo alvarlegri blindu að þeir eru hættulegri mannfólkinu, lífinu og heiminum en flestir hafa hingað til gert sér grein fyrir! Sjálfhverfa þeirra er svo fullkomin að verk þeirra munu eyða núverandi ásýnd jarðlífsins fyrr en síðar. Þessar fréttir hafa komið mér til þeirrar niðurstöðu að það er ekki spurning um það hvort heldur hvenær...
Eina huggunin er sú að þegar valdakerfið sem við er að etja opinberar sig á þennan máta þá er líklegt að milljónir bregðist við á sama hátt þegar þeir átta sig á því hvurs lags klikkun er við að eiga, rísi upp á afturlappirnar með hinum og segi: Hingað og ekki lengra! Ég hef ekkert með samband við ofbeldisseggi eins og Evrópusambandið og áhaggendur þess að gera þannig að verið þið úti!
Það er auðvitað óskandi að sá fámenni en háværi hópur Íslendinga sem enn reynir að halda því fram að hagsmunum lands og þjóðar sé best borgið innan ESB hafi sjálfum brugðið nógu mikið við þessar fréttir að þeir áreiti þjóð sína ekki frekar með blindu auga og hálfum sannleik varðandi bandalag sem er að leggja ásýnd og menningu landanna, sem standa okkur næst í efnahagslegu tilliti, í rúst.
![]() |
Fjölmenn mótmæli gegn stjórnvöldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Íslendingar eru á gálgafresti...
27.9.2012 | 04:40
Sú staða sem Grikkland og Spánn eru í nú er sú staða sem Ísland væri í líka ef hér hefðu ekki farið fram tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave-samningana og Tunnumótmæli haustið 2011. Það heyrast samt enn raddir sem segja að viðspyrnan hér á landi hafi ekki skilað neinu.
En ef ekki hefði verið fyrir Indefence-hópinn sem vann ötulega að því að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslurnar í byrjun árs 2010 og Samstöðu þjóðar gegn Icesave fyrri hluta árs 2011 þá væru kjör almennings á Íslandi þau sömu og Grikkir og Spánverjar standa frammi fyrir nú. Tunnumótmælin í októbermánuði 2011 knúðu svo fram sérstakar vaxtaniðurgreiðslur sem hafa haldið stórum hluta lánagreiðenda góðum síðan. Samkvæmt nýjum fjárlögum er gert ráð fyrir að viðlíka plástrameðferð verði framhaldið fram yfir kosningar.
Viðspyrnan hér á landi hefur skilað íslensku þjóðinni gálgafresti. Því miður eru þeir allmargir sem átta sig ekki á árangri hennar. Í stað þess að honum sé fylgt eftir hefur árangurinn orðið til þess að slá viðspyrnuna niður. Í skjóli viðspyrnuleysisins er stefna stjórnvalda sú sama og hefur leitt lífskjör almennings í Grikklandi og á Spáni til þeirra hörmunga að stefnir til alvarleika borgarastyrjaldar í báðum löndum.
Á þriðjudaginn var mótmælt á Spáni og aftur í gær. Í Grikklandi var mótmælt í gær. Kannski halda mótmælin þar áfram í dag. Það sem veldur ekki sístum ónotum yfir fréttum af mötmælunum í báðum löndum er sú staðreynd að þær fjölþjóðlegu fjármálastofnanir sem íslensk stjórnvöld hafa ofurselst varðandi stefnu og leiðir í efnahagsmálum eru orsakavaldar þeirrar stórfelldu lífskjaraskerðingar sem almenningur beggja landa er að mótmæla.
Í stað þess að grísk og spænsk stjórnvöld mæti kröfum kjósenda sinna víggirðast þau með lifandi her vígbúinna lögreglumanna. Í báðum löndum fer lögreglan fram með slíku offorsi að það vekur ekki aðeins furðu heldur líka illan grun. Hér er myndband frá óháða fréttamiðlinum therealnews.com sem sýnir mjög vandaða frétt þeirra frá mótmælunum á Spáni sl þriðjudag:
Þessi frétt kveikti upp eftirfarandi hugleiðingar sem ég lét fylgja krækju á myndbandið sem ég setti inn á Fésbókina:
Hér er frétt af mótmælum gærdagsins á Spáni sem er unnin skv. því sem fréttamönnum var a.m.k. einu sinni kennt að fara eftir. Það er að fréttir þeirra uppfylltu alltaf háin sex. Það er: HVAÐ, HVAR, HVENÆR, HVER/HVERJIR, HVERS VEGNA og HVERNIG.
Fréttamaðurinn sem vinnur þessa frétt vinnur á óháðum fréttamiðli sem hefur ekki yfir miklum peningum að ráða. Það er kannski þess vegna sem hann segir okkur: HVAÐ er um að vera. HVERJU er verið að mótmæla. HVERNIG mótmælin fóru fram og HVERS VEGNA kom til átaka á milli lögreglu og mótmælenda.
Útkoman er ekki aðeins upplýsandi frétt heldur áhrifarík. Hún leiðir í ljós nöturlegan sannleika um það hverjir etja einkennisbúnum mönnum gegn almenningi sem er í nákvæmlega sömu stöðu og þeir sjálfir. Hún fær mann líka til að hugsa hvers vegna lögreglan fer fram gegn almenningi og hvaða afleiðingar það muni hafa.
MÍN NIÐURSTAÐA ER ÞESSI: Það eru peningaöflin sem etja lögreglumönnunum fram í krafti þess að þeir eru menn sem eru að verja lífsviðurværi sitt. Ef peningaöflunum tekst ætlunarverk sitt verður borgarastyrjöld á milli lögreglu/hers og almennings. Í þvi stríði munu átökin stöðugt harðna með tilheyrandi líkams- og sálarmeiðingum. Borgarastríðið þjónar engum nema peningaöflunum vegna þess að í skjóli þess tekst eigna- og valdastéttinni að viðhalda forréttindum sínum í nokkrar kynslóðir til viðbótar.
Á meðan almenningur berst í tveimur fylkingum, þar sem önnur er í einkennisbúningi þeirra sem byggja lífsviðurværi sitt á því að verja valdhafa og peningamarkaðinn en hin stendur saman af öðrum atvinnustéttum, fara átökin sífellt harðnandi þar til þau ná hámarki í blóðsúthellingum. Það tekur næstu kynslóðir einhverja áratugi að græða sárin.Borgarastríðið þjónar því engum nema eigna- og valdastéttinni og þess vegna mun hún ekki gera neitt til að binda enda á það heldur kynda undir... m.a. með hjálp peningastýrðra fjölmiðla!
Af þessu tilefni langar mig til að hrósa þessari óvenjulega vönduðu frétt á mbl.is af mótmælunum á Spáni. Íslensk kona sem er búsett í Grikklandi lýsir samskiptum lögreglu og almenning á þann hátt að það vekur ekki ósvipaðar hugrenningar og hér að ofan en það var þetta sem hreyfði mest við mér: Íslensk kona sem búsett er í Grikklandi fylgdist með mótmælunum og segir suma mótmæla þó ekki sé nema sjálfsvirðingarinnar vegna en margir hafi misst trúna á að hægt sé að sporna við málum.
Við lesturinn var mér óneitanlega hugsað til Íslendinga. Þrátt fyrir árangurinn sem hefur náðst með viðspyrnunni hér á landi eru þeir þó nokkrir sem aldrei hafa haft neina trú á að það að sporna á móti beri árangur. Enn fleiri hafa verið að gefast upp á síðasliðnu eina og hálfa ári þrátt fyrir dæmin sem ég taldi upp hér að ofan. Miðað við fjöldann sem mótmælti við setningarræðu forsætisráðherra þ. 12. september þá er hægt að segja að þeir eru sorglega fáir meðal íslensku þjóðarinnar sem hafa nægilega sjálfsvirðingu til að mótmæla óréttlætinu sem þeir mæta sjálfir og/eða horfa upp á að meðbræður þeirra verða fyrir...
Maður spyr sig óneitanlega að því hvað veldur? Því það eitt er víst að hér á landi hefur náðst tvímælalaus áragnur með mótmælum og annars konar viðspyrnu. Íslenska lögreglan hefur heldur ekki sýnt sig í að koma fram gagnvart samborgurum sínum eins og sú gríska og spænska þó íslensk stjórnvöld þiggi vel flest sín ráð frá sömu stofnunum og stjórnvöld Grikklands og Spánar.
![]() |
Grikkir hræddir og vilja breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Exelskjalið og raunveruleikinn
12.9.2012 | 02:07
Í stefnuræðu sinni í kvöld mun forsætisráðherra tala upp af Exel-skjali um hagtölur sem urðu til í tölvum líkt og tölvufærðar peningaeignir bankanna sem ullu hruninu haustið 2008. Á grunni tölvufærðu hagtalnanna mun Jóhanna Sigurðardóttir halda því fram að Íslendingum líði almennt betur og að vísbendingar séu um að það fari að draga úr óeðlilegri tíðni vanskila. (heimildin)
Þó forsætisráðherra stigi upp í ræðustól Alþingis í kvöld og haldi slíku fram þá breytir hún ekki raunveruleikanum sem íslenskur almenningur stendur frammi fyrir. Hér á eftir verða dregnir fram þrír litlir raunveruleikamolar sem fá ekkert rúm í Excel-skjalinu hennar Jóhönnu. Sögurnar eru allar teknar upp af Facebook þar sem þær voru birtar sem stöðuuppfærslur.
1. Fyrst er það saga ungs læknis á Landspítalanum sem er nýkominn heim úr námi:
Í gær gat ég ekki fengið hjartaómskoðun í gegnum vélinda af sjúklingi vegna þess að ómhausinn á eina tækinu til þess á Landspítalanum er bilaður og það er ekki til annar haus til vara.Í dag gat ég ekki fengið kyngingarmynd af sjúklingi vegna þess að það er ekki til skuggaefni á Landspítalanum :) Vona að forstjórinn kippi þessu í lag þegar hann er komin á hærri laun. Hahahaha :-D
2. Svo er það stadus frá móður sem hefur þungar áhyggjur af framtíð barna og tengdabarna:Ég er nú svo heppinn að börn mín og tengdabörn eru ágætlega menntuð og hafa ágætis laun. Þau eiga marga vini í þessum hærri launakanti og margir skulda 40-70 milljónir og eiga á bilinu 0-40% af sínum eignum.
Þetta fólk hefur getað greitt af sínum lánum og flest lifað sparlega en vandinn er í raun að lánin hækka um 2-3 hundruð þúsund á mánuði. Og vegna þess að þau geta greitt og staðið í skilum er engin lækkun eða annað í boði fyrir þetta fólk.
Nú er ég að heyra að margir séu að gefast upp, séu hættir eða ætli að hætta greiðslum, láta bankann hirða eignina og flytjast erlendis.
Þetta er svo grafalvarlegt ástand að ég skil ekki í hvaða ríki flestir alþingismenn búa. Þeir eru ekki að skilja samhengið svo mikið er víst.
Og mér skilst að Drómi sem er í eign Seðlabankans og þar með ríkisins sé einna verstur viðureignar.
Svo er hægt að moka tugum milljarða í SP-KEF HÍTINA sem dæmi (en kratar voru þar við stjórnvölinn síðustu metrana) og auðvitað hugsar Samfylkingin um sitt Pakk.
Guð blessi unga menntafólkið okkar sem af dugnaði og eljusemi menntaði sig og byggði sér heimili af dugnaði. Mér virðist að stjórnvöldum sé alveg sama þó þessir krakkar yfirgefi landið.
* Sparnaðurinn er búinn!
* Kaupmátturinn hefur minnkað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Leiðin til árangurs
9.9.2012 | 05:27
Frá því að ég byrjaði sjálf að taka þátt í mótmælunum, sem spruttu upp fyrir fjórum árum, hef ég komið víða við og tekið þátt í margvíslegum viðspyrnuverkefnum. Upphafið var mótmælagöngur sem voru gegnar frá Samkomuhúsinu á Akureyri inn á Ráðhústorg þar sem var hlustað á ræður. Einnig var ég viðstödd nokkra laugardagsfundi á Austurvelli þennan fyrsta vetur eftir hrunið, Kryddsíldarmótmælin á gamlársdag 2008 og sat langflesta borgarafundina sem voru haldnir reglulega á Akureyri tvo fyrstu veturna eftir hrun.
Frá sumrinu 2009 tók ég þátt í mun margvíslegri viðspyrnuverkefnum og þá fyrst og fremst í Reykjavík. Fjölbreytnin gerir það að verkum að ég hef kynnst mjög ólíkum viðhorfum og hugmyndum um það hvað beri árangur. Sumir halda því reyndar statt og stöðugt fram að hvers konar viðspyrna skili engu. Reynsla mín hefur sannfært mig um að það er alls ekki rétt.
Skiljanlega skilar árangurinn sér hægt enda við ofurefli að etja. Það er þó ekki ofureflið sem mér finnst erfiðast heldur óeiningin sem kemur stundum fram meðal þeirra sem spyrna við fótum. Mér hefur frá upphafi sviðið það að horfa upp á og hlusta á það þegar viðspyrnuöflin geta ekki staðið saman og stutt hvert annað.
Ég skal þó viðurkenna það að ég treysti mér ekki til að taka þátt í hverju sem er en ég treysti mér ekki heldur til að setja mig í það dómarasæti að halda því fram að ein viðspyrnuaðferð sé árangursríkari en önnur. Þess vegna styð ég jafnt þá viðspyrnu sem kemur fram í því að finna lausnir og leiðir, eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa t.d. einbeitt sér að, og þá sem kemur fram í því að fólk standi saman og verji hvert annað eins og bæði Heimavarnarliðið og Tunnurnar hafa gert að aðalatriði.
Öll sundrung sem snýst um það að gera lítið úr heiðarlegu framlagi einnar viðspyrnu-aðferðar en upphefja aðrar dregur úr þeim krafti sem er mest um verður en það er samstöðunnar. Ég viðurkenni það fullkomlega að í gegnum þessi fjögur ár hef ég frekar aðhyllst hófsamari byltingaraðferðir.
En um leið verð ég að viðurkenna að ég hef leyft mér að efast um að hófsemin sé vænlegasta leiðin gegn því blinda óhófi sem við er að etja. Það reynir líka á að sýna hófsemd og koma fram af stillingu gagnvart þeim sem svífast einskis við að viðhalda forréttindum sínum á kostnað síversnandi lífskjara almennings. Þess vegna skil ég vel þá sem grípa til ofsafengnari byltingaaðgerða.
Það eru reyndar eðlileg viðbrögð að bregðast við miklu óréttlæti með ofsa og reiði en því miður skilar það sjaldnast fullum árangri heldur. Þess vegna verður að fara einhverja millileið þó hún kosti meiri útsjónarsemi og þolinmæði. Viðspyrnuöflin verða þó að læra að standa saman og temja sér það að fordæma ekki það sem miðar að sama markmiði.
Það er að rétta kjör almennings gagnvart þeim sem viðhalda óréttlætinu sem hann er beittur. Íslendingar eiga sér ekki margra ára mótmælahefð eins og mörg fjölmennari samfélög en þó hefur bæði fjölbreytnin og hugmyndaflugið sem hefur einkennt viðspyrnuna hér vakið athygli langt út fyrir landssteinana.
Í þessu sambandi má t.d. benda á að tunnumótmælin hér hafa að öllum líkindum haft áhrif á það að í nýlegum mótmælum í Japan voru tunnur mjög áberandi. (Hér er t.d. hljóðdæmi frá Tokyo) Þegar tunnurnar komu fyrst fram í mótmælum hér á landi fyrir bráðum tveimur árum vöktu þær nefnilega ekki bara athygli hér heima heldur líka víða um heimsbyggðina.
Það var ekki bara fjöldinn sem mætti niður á Austurvöll að kvöldi þess 4. október fyrir tveimur árum sem vakti athyglina heldur ekki síður kraftmikill og áhrifaríkur tunnutakturinn sem sumir hafa kennt síðan við hjartslátt þjóðarinnar. Við tunnumótmælin undir stefnuræðunni í fyrra voru ekki jafnmargir mættir og árið áður en þó voru þeir allnokkrir sem komu við niður á Austurvelli þetta kvöld til að berja tunnu um stund eða bara til að staldra við og skynja kraftinn í öflugum tunnuslættinum.
Það er nefnilega eitt sem vill gjarnan gleymast í þeirri fjögurra ára linnulausu viðspyrnusögu sem við eigum þegar að baki en það eru tilfinningarnar. Það er nokkuð klárt að það er miklu stærri hluti þjóðarinnar sem upplifir óréttlæti en þeir sem hafa látið sjá sig á mótmælum og/eða borgarafundum. Hins vegar er ég nokkuð viss um að allir sem hafa einhvern tímann mætt á slíka viðburði geti tekið undir það hvað það var gott fyrir sálina að sitja eða standa innan um fólk sem skildi óréttlætið sem allir almennir launþegar og lántakendur í landinu hafa setið undir á undanförnum árum.
Það er fyrir þennan hóp sem Tunnurnar hafa ákveðið að koma saman einu sinni enn og nú í tilefni enn einnar stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur sem að öllum líkindum verður hennar síðasta í embætti forsætisráðherra. Það mætti auðvitað telja upp mörg tilefni sem ástæða er til að mótmæla. Sum þeirra hafa verið talin upp á fésbókarviðburðinum sem hefur verið stofnaður af þessu tilefni en það er von skipuleggjenda að fjöldinn verði nægur til að halda uppi slíkum hávaða að enginn sem taki til máls innan veggja Alþingis geti haldið því fram að árangurinn á þessu kjörtímabili til leiðréttingar lífskjara almennings hafi verið slíkur að Austurvöllurinn sé þagnaður.
Staðreyndin er sú að stjórnvöld hafa ekki farið út í neinar raunhæfar aðgerðir til að leiðrétta stöðu skuldugra heimila. Verðbólga og verðtrygging hefur jafnharðan étið upp þá mola sem hrokkið hafa til heimilanna og gott betur. Einu leiðréttingar lána hafa fengist með dómum Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána. Bankakerfið neitar að fara eftir þeim dómum og nýtur til þess fulltingis umboðsmanns skuldara og Fjármálaeftirlitsins. Stjórnvöld hafa stillt sér upp með bönkunum andspænis fólkinu. (sjá hér)
![]() |
Mótmælt í Grikklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Samfélagsleg meðvitund
8.9.2012 | 04:47
Sú samfélagslega meðvitundarvakning sem hefur orðið á Íslandi og víðar í heiminum í kjölfar hruns efnahagskerfisins hefur ekki farið fram hjá neinum. Á Íslandi kom hún fyrst fram í reglulegum laugardags- og borgarafundum. Á Akureyri tók fólk þátt í mótmælum undir merkjum Byltingar fíflanna en í Reykjavík voru það Raddir fólksins sem stóðu fyrir reglulegum laugardagsfundum á Austurvelli.
Opnir borgarafundir voru haldnir í Reykjavík í Iðnó eða Háskólabíói. Á Akureyri fóru langflestir borgarafundirnir fram í Deiglunni eða Ketilhúsinu. Laugardagsmótmæli og borgarafundir fóru líka fram víðar á landinu þó það hafi verið með óreglulegri hætti. Í kringum kosningarnar 2009 fór mesti krafturinn úr viðspyrnunni. Hún reis þó upp aftur á Austurvelli þegar forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar kom í ljós sumarið 2009.
Þessi fyrsti þáttur Icesave-viðspyrnunnar náði svo hámarki í desember það sama ár og í upphafi ársins 2010. Við þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave, sem fram fór 6. mars 2010, kyrrðust öldurnar eitthvað en Alþingi götunnar hélt þó úti reglulegum laugardagsfundum á Austurvelli fram á vorið.
Mótmælin tóku sig svo upp aftur sumrið 2010 og var mótmælt á ýmsum stöðum af nokkrum tilefnum. Stærstu mótmælin þessa sumars var fyrir framan Seðlabankann. Tilefnið var það að bankinn hafði gefið út í tilmæli um að vextir gengislána miðuðust við vexti Seðlabankans en ekki samningsvexti.
Svo rann upp 1. október þetta ár en þá söfnuðust nokkur þúsund saman á Austurvelli við þingsetninguna sem fram fór þann dag. Tilefnið var ekki síst sár vonbrigði blönduð djúpri vanþóknun gagnvart þinginu sem hafði nokkrum dögum fyrr opinberað fullkomna vanhæfni sína gagnvart því verkefni að gera upp við hrunið.
Þennan dag kviknaði hugmyndin að því að boða til tunnumótmæla. Settur var upp viðburður á Facebook með þessum texta:
Næstkomandi mánudagskvöld er stefnuræða Jóhönnu Sigurðardóttur á dagskrá þingsins. Við skulum skapa henni réttan undirleik og umgjörð. Ómsterkir eða stórir hljómgjafar afar vel séðir. Mætum í öllum okkar fjölbreytileik og stöndum saman í því að koma vantrausti okkar á því sem fram fer innan þingsins á framfæri.
Gleymum því ekki að stofnunin sem steypti fjármálakerfinu í glötun fyrir tveimur árum, með vanhæfni sinni og spillingu, steypti lýðræðinu sömu leið í atkvæðagreiðslunni um landsdóm síðastliðinn þriðjudag. Því er komið að okkur almenningi að spyrna við fótum áður en þeir missa landið okkar niður um svelginn vegna áframhaldandi afglapa. (sjá hér)
Á bak við viðburðinn voru 10 einstaklingar; 5 konur og 5 karlar. Þessi lögðust á eitt við að safna tunnum, útvega ásláttarverkfæri, bjóða á viðburðinn, deila honum á síðunum sínum og dreifa honum á veggi hjá öðrum. Á rúmum þremur dögum var yfir 30.000 gestum boðið. Framhaldið þekkja eflaust flestir en myndbandið hér á eftir sýnir hvernig gestir byrjuðu að tínast niður á völlinn u.þ.b. einum og hálfum klukkutíma fyrir auglýstan upphafstíma.
Tunnunum fjölgaði og fleira fólk dreif að. Völlurinn fylltist svo fljótlega upp úr átta og var stappaður af fólki á öllum aldri í yfir tvo klukkutíma. Þó margir láti eins og Tunnubyltingin hafi aldrei átt sér stað þá gleymir enginn sem var viðstaddur fyrstu tunnumótmælin þeirri upplifun að standa í nálægð þess kraftmikla tunnutakts sem hljómaði linnulaust í rúma fimm klukkutíma að kvöldi 4. október 2010:
Það muna vonandi allir eftir því að í kjölfar stóru tunnumótmælanna 4. október 2011 kallaði forsætisráðherra saman samráðshóp um skuldavanda heimila og fyrirtækja. Þann 3. desember 2010 lá ákvörðun fyrir í nokkrum liðum. Einn þeirra var sérstök vaxtaniðurgreiðsla sem lögð var inn á reikning þeirra sem hlutu 1. maí 2011 (sjá hér). Þrjár slíkar greiðslur hafa komið til viðbótar.
Reyndar er gert ráð fyrir því nú að framlengja upphaflegri áætlun um að þessi vaxtaniðurgreiðsla næði eingöngu til áranna 2011 og 2012 og bæta við einni helmingi lægri niðurgreiðslu sem verður greidd út örðu hvoru megin við alþingiskosningarnar á næsta ári. Því er ekki að leyna að sumir hafa spurt sig hvort það voru sérstöku vaxtaniðurgreiðslurnar, sem fulltrúar úr öllum þingflokkum náðu við fulltrúa lánastofnana og lífeyrissjóði, sem dugðu til að kæfa niður kraftinn í viðspyrnunni? Kannski framlengingin hangi eitthvað saman við það hversu vel hinar hafa dugað til að halda almenningi afskiptalitlum á því rúma ári síðan þessar niðurgreiðslur hófust.
Næsta miðvikudagskvöld flytur núverandi forsætisráðherra væntanlega sína síðustu stefnuræðu í því embætti. Þar má búast við að Jóhanna Sigurðardóttir lýsi afrekum þeirrar ríkisstjórnar sem hún hefur leitt á þessu kjörtímabili. Það er líklegt að hún láti þess getið hversu vel hefur verið gert við heimilin á hennar vakt. Tunnunum, sem náðu einhverjum árangri fyrir hönd heimilanna haustið 2010, finnst það fráleitt að hún fái að halda slíku fram óáreitt.
Það er ekki síst þess vegna sem þær hafa freistað þess að boða til enn einnar mótmælastöðunnar við þinghúsið með hávaðatólum af öllum stærðum og gerðum. Stefnuræðan fer fram n.k. miðvikudagskvöld sem er 12. september. Hávaðinn hefst kl. 19:30. Tuttugu mínútum síðar stígur Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustól Alþingis þar sem hún mun halda fram staðreyndum eins og þessum:
Það hefur verið sérstakt markmið ríkisstjórnarinnar að draga úr ójöfnuði með því að beita skattkerfinu og bótakerfinu og draga úr byrðum þeirra sem síst geta borið þær. Það hefur borið ríkulegan árangur. Árið 2010 vorum við loks í hópi þeirra 10 þjóða sem búa við minnstan ójöfnuð í heiminum en á árunum fyrir hrun stefndi Ísland hraðbyri í að verða eitt af mestu ójafnaðarlöndum okkar heimshluta. Fátt sýnir með áþreifanlegri hætti muninn á stjórnarstefnu velferðarríkisstjórnar Samfylkingar og VG og þeirra hægristjórna hér sem hafa starfað undir leiðsögn Sjálfstæðisflokksins. (sjá hér)
Þeir eru væntanlega sífellt fleiri og fleiri sem sjá engan mun þeirrar velferðarstjórnar sem situr nú eða hægristjórnanna sem mótuðu landslag þeirrar nýfrjálshyggju sem stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur endurreist. Það væri óskandi að allir sem hafa vaknað til þessarar meðvitundar mæti niður á Austurvöll n.k. miðvikudagskvöld og láti í sér heyra!
![]() |
Steingrímur sigraðist á Kerlingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)