Af „siðferði og góðum starfsháttum“

Spurningar um siðferði Mér finnst full ástæða til að vekja vel og rækilega athygli á þessu bloggi hér þar sem leshópur um Rannsóknarskýrsluna setur jafnt og þétt inn stutt blogg í tengslum við lesturinn. Flestir í hópnum eru nú að lesa 8. bindið þannig að flest það sem er verið að skrifa þar núna tengist því.

Eins og áður hefur komið fram þá var vinnuhópnum, sem stóð að 8. bindinu, gert að svara spurningunni „hvort efnahags- hrunið megi að einhverju leyti skýra með starfsháttum og siðferði.“ ( bls. 7 (leturbreytingar eru mínar)) Þess vegna er ekki óeðlilegt að gera nokkra grein fyrir þeim hugmyndum höfunda sem koma fram um hvoru tveggja.   

Höfundarnir benda á að því sé gjarnan haldið fram að það sé erfitt að festa hendur á siðferðinu. Samt þurfum við ekkert að hugsa okkur um þegar við kennum börnunum okkar að það er rangt að: meiða, stela og ljúga enda mynda þessi grundvallaratriði kjarna mannlegs siðferðis.

Í störfum fagstétta er siðferði svo samofið góðum starfsháttum að það verður ekki sundur skilið.
Þetta á til dæmis við um siðferði í viðskiptum og stjórnmálum. Vandaðir og viðurkenndir starfshættir á þessum sviðum mynda þá viðmið fyrir gagnrýna siðferðilega greiningu. Spurningarnar í slíkri greiningu ættu að vera um það hvort menn efni þau loforð sem hugmyndir um:

  • fagmennsku
  • vandaða starfshætti
  • lýðræðislega stjórnarhætti og
  • góða viðskiptahætti

fela í sér. Vandaðir og góðir stjórnsiðir einkennast til að mynda af því að „embættismenn og kjörnir fulltrúar gegna skyldum sínum af heilindum og samviskusemi. Þær skyldur taka öðru fremur mið af því að störfin fela í sér almannaþjónustu.“ (bls. 10)

Höfundar árétta svo enn frekar hvaða siðferðilegu viðmið embættismenn og kjörnir fulltrúar þurfa að temja sér svo vel fari með eftirfarandi orðum:

Á opinberum vettvangi þarf siðferðileg hugsun öðru fremur að lúta viðmiðum um almannahagsmuni enda ber almannaþjónum að efla þá og vernda gegn hvers konar sérhagsmunum. Það er einkenni siðferðilegrar hugsunar að hún metur gæði þeirra markmiða sem stefnt er að. Tæknileg hugsun aftur á móti snýst um að velja áhrifaríkustu leiðirnar að völdu markmiði óðháð því hvert það er.

Siðferðileg hugsun hefur átt erfitt uppdráttar meðal annars vegna þess að ákveðið viðmiðunarleysi hefur verið ríkjandi um ágæti markmiða og vantrú á rökræðu um þau. Slík afstaða býr í haginn fyrir að sérhagsmunir þrífist á kostnað almannahagsmuna en það er eitt megineinkenni á því hugarfari sem ríkti hérlendis í aðdraganda bankahrunsins. (bls. 10 (leturbreytingar eru mínar))


Björk er tilbúin til að leggja sitt á vogarskálarnar!

Björk SigurgeirsdóttirMér þykir ástæða til að vekja athygli á síðasta helgarviðtali inni á Svipunni. Viðmælandinn að þessu sinni er kjarnakonan Björk Sigurgeirsdóttir. 

Björk bauð sig fram fyrir Borgarahreyfing- una í norðaustur í síðustu alþingis- kosningum en situr nú í nefnd um erlenda fjárfestingu fyrir hana og Hreyfinguna. Margir muna líka eflaust eftir henni fyrir vasklega framgöngu hennar þar en hún og Silja Bára Ómarsdóttir skiluðu séráliti þar sem þær segja m.a. að þann vafa sem ríkti um heimilisfestu Magma Energy í Svíþjóð „beri að túlka íslenskum almenningi í hag og til verndar auðlindum landsins, samkvæmt markmiðum“ (sjá hér) laga um fjárfestingu erlendra aðila í hérlendum atvinnurekstri.

Það fer ekki fram hjá neinum sem les viðtalið við Björk að hér fer skelegg kona með ríka réttlætiskennd. Í viðtalinu segir hún að hér sé þörf á grundvallar- breytingum og hún sé tilbúin til að leggja sitt að mörkum til að leggja þeim lið. Hún segir ýtarlega frá vinnu sinni með nefnd um erlenda fjárfestingu hingað til, úrskurði nefndarinnar varðandi kaup Magma Energy á hlutum í HS-orku og að lokum sínum hugmyndum um stjórnlagaþing.

Það er trú Bjarkar að stjórnarskrá með skýrari texta sem allir geta skilið myndi stuðla að því að fleiri Íslendingar tækju samfélagslega ábyrgð. „Við þurfum á því að halda að fólk setji sig inn í hlutina, myndi sér skoðun og taki þátt. Við búum í litlu samfélagi þar sem hver og einn getur haft mikil áhrif hvort sem það er með almennri uppbyggingu samfélagsins eða beinni þátttöku í stjórnmálum.“  (Sjá viðtalið í heild)


Gengdarlaus græðgin neitar að læra

Eins og hefur komið fram hér á blogginu mínu þá er ég í leshóp sem var stofnaður í þeim tilgangi að lesa Rannsóknarskýrsluna og freista þess að opna meiri umræðu um innihald hennar. Við ákváðum að byrja á 8. bindi hennar og eins og er þá er ég að lesa um þá fyrirtækjamenningu sem mótaðist hér á landi um og upp úr síðustu aldamótum.

Eitt af því sem vekur athygli í því sambandi er að eigendur banka og fyrirtækja svo og stjórnendur eftirlitsstofnana og síðast en ekki síst stjórnmálamennirnir hlustuðu ekki á neinar viðvaranir og útilokuðu reynslu fortíðarinnar. Eftirfarandi gátlista yfir lærdóma sögunnar er að finna í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar bls. 14. Ég reikna með að lesendur sjái strax að rekstur bankanna hér var (og er kannski enn?) uppskrift af gjaldþrot

Lærdómar af fyrri bankakreppum:

1. Fylgjast þarf staðfastlega með hæfni þeirra sem ráða fyrir bönkum sem eigendur og stjórnendur. Því að menn með vafasama fortíð eða kunnáttu sækjast þar til áhrifa.

 2. Aldrei má slaka á settum reglum um mat á tryggingum og útlánaáhættu, engir „forgangs“-viðskiptavinir eiga að vera til.

3. Vakandi auga þarf að hafa með þeim sem eru fundvísir á leiðir framhjá reglum, skráðum og óskráðum, í leit að hagnaði.

4. Innherjaviðskipti eru sérstaklega hættuleg afkomu banka.

5. Þar sem innherjar eru að verki fylgja oftast önnur brot á starfsreglum í kjölfarið.

6. Eftirlitsaðilar þurfa að vera vel upplýstir um allar ákvarðanir og eftirlit, bæði með kröfum umskýrslugjöf og virku eftirliti á staðnum.

7. Þekkingarskortur og sofandaháttur, ekki síst af hálfu bankaráðsmanna, eru meðal helstu orsaka áfalla í rekstri banka.

8. Séu lög og reglur varðandi rekstur og endurskoðun banka ófullnægjandi verða eftirlistaðilar að hlaupa í skarðið og vera á verði gagnvart óheilbrigðri starfssemi.

9. Mat á því hvort eigið fé sé nægilegt er ekki nóg. Athuga verður hvaða veikleikar í rekstrinum valda veikri stöðu eigin fjár.

10. Skipulag banka með mikil og margbrotin viðskipti þarf að vera skýrt með ljósum starfsreglum um ábyrgð og starfssvið hvers og eins. 

11. Ekkert er mikilvægara en að eftirlitsaðilar séu óháðir og að heimildir þeirra og geta til að knýja aðila til að fylgja settum reglum séu ótvíræðar.

 
Ég vil einnig vekja athygli á því að vinnuhópurinn sem vann að 8. bindinu „lítur svo á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verði grundvöllur fyrir upplýsta og málefnalega umræðu um starfshætti og siðferði í íslensku þjóðfélagi.“ Hvort það nái fram að ganga ræðst hins vegar af móttökunum sem hún fær. Ég reikna með að þeir séu fleiri en við sem skipum áðurnefndan leshóp sem blöskrar tómlætið og þögnin sem er ríkjandi varðandi Rannsóknarskýrsluna.

Það er ljóst að nefnd skipuð þingmönnum samræmist ekki þeirri hugmyndafræði sem sett eru fram í Skýrslunni varðandi það hvernig heillavænlegast sé að nýta hana „til þeirra þjóðfélagsbreytinga“ sem nauðsynlegar eru (8. bindi bls. 14). Ef þú vilt taka þátt í að skapa opnari umræðu um innihald Rannsóknarskýrslunnar hvet ég þig að kíkja á þessa bloggsíðu.          
mbl.is Prófmál gegn fimm hluthöfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarskýrslublogg hefur hafið göngu sína

RannsóknarskýrslanMeð þessari færslu langar mig til að vekja athygli á bloggi sem var stofnað í síðustu viku. Þetta er blogg sem leshópur sem hefur verið stofnaður í kringum lestur Rannsóknar- skýrslunnar hefur sett á laggirnar til að birta útdrætti, samantektir, vangaveltur og ályktanir um það sem þar kemur fram.

Tilkoma leshópsins stafar ekki síst af þeirri staðreynd að meðlimum hópsins finnst óviðunandi að búa við þá þögn sem er í kringum niðurstöður Skýrslunnar. Það er ekki nóg að setja saman nefnd og vinnuhóp til að framkvæma rannsókn á aðdraganda og orsökum á falli íslensku bankanna haustið 2008. Það er heldur ekki nóg að setja niðurstöðurnar saman í langa og ýtarlega skýrslu. Það verður að nýta þessar upplýsingar til að læra af þeim. Þær upplýsingar sem koma fram í Skýrslunni ættu að leggja til grundvallar uppbyggingu og breytingum á þeim þáttum sem skýrsluhöfundar benda á að sé ábatavant.

Til þess að það sé gerlegt þarf að kynna sér innihald Skýrslunnar. Leggjast yfir hana og lesa hana frá orði til orðs og draga fram mikilvægustu atriðin hvað þetta varðar. Framundan er kosning til stjórnlagaþings sem er ætlað það hlutverk að setja saman nýja stjórnarskrá. Lagaramminn í kringum þennan gjörning er að mörgu leyti gallaður. Meðal annars vegna þess að tíminn sem þessu er gefinn er alltof stuttur og þátttaka þjóðarinnar engan veginn nógu vel tryggð.

Hins vegar hlýtur það að vera ein af meginforsendum þess að eitthvert vit verði í þeirri vinnu, sem framundan er við ritun hennar, að þátttakendur hafi kynnt sér ágallana sem dregnir eru fram í Rannsóknarskýrslunnii. Skýrslan var líka skrifuð í þeim tilgangi að hún yrði lesin og lærdómar dregnir af niðurstöðum hennar. Þetta kemur m.a. fram í inngangi 8. bindisins þar sem segir:

Þessir stóru atburðir [þ.e. bankahrunið] draga fram margvíslega veikleika íslensks samfélags. Það er mat vinnuhóps um siðferði og starfshætti að höfuðmáli skipti að þjóðin geri sér grein fyrir þeim og að við öll lærum af þeim mistökum sem gerð voru. Íslendingar þurfa að velta því skipulega fyrir sér hvernig vinna eigi að betri fyrirtækjamenningu, bættum stjórnsiðum og öflugra lýðræðissamfélagi. (8. bd. Skýrslunnar bls. 8 (leturbreytingar eru mínar))

Höfundar 8. bindisins taka það fram í inngangi þess að þeir líti svo á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis skapi grunvöll fyrir upplýsta og málefnalega umræðu um starfshætti og siðferði í íslensku samfélagi en benda jafnfram á að til að svo megi verða verður allt samfélagið að taka þátt. Þeir segja:Það ræðst hins vegar ekki síður af móttökunum í samfélaginu hvort skýrslan verður hvati til þeirra þjóðfélagsbreytinga sem nauðsynlegar eru.“ (8. bd. Skýrslan bls. 8 leturbreytingar eru mínar)

„Stofnunum framkvæmdavaldsins beitt til að reka ákveðna pólitík“

Þórður Björn SigurðssonMig langar til að vekja athygli á viðtali við Þórð Björn Sigurðsson inni á Svipunni. Sjá hér.

Í viðtalinu rekur Þórður pólitíska fortíð sína, aðdragandann að stofnun Hagsmunasamtök heimilanna og tillögur samtakanna að aðgerðum til hjálpar húsnæðislánagreiðend- um. Hann segir segir frá þróuninn sem hefur orðið frá stofnun HH hvað varðar stjórnmálastéttina til dagsins í dag. Í upphafi var tilvera þeirra nánast hundsuð en nú er stjórn samtakanna einn þeirra umsagnaraðila sem stjórnvöld leita til varðandi þau málefni sem samtökin standa utan um.

Undir lok samtalsins víkur Þórður að störfum sínum fyrir Hreyfinguna en hann hefur verið starfsmaður hennar í bráðum ár. Eðlilega barst talið að núverandi ríkisstjórn og öðru sem viðkemur pólitíksu landslagi. Í því sambandi sagði Þórður m.a. þetta:

Að afloknum síðustu alþingiskosningum var Þórði svipað innanbrjósts og mörgum öðrum; vongóður um betri tíma. Hann hafði því ákveðna þolinmæði gagnvart þessari nýju stjórn. Hún hefur hins vegar sýnt það að hún mun ekki leysa okkar vandamál. Hægri stjórnin gerði það ekki heldur. Þar sem það er orðið ljóst að vinstri stjórnin ætlar ekki að nota tækifærið er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvað tekur við, bætir Þórður með áhersluþunga.


mbl.is Dómari víkur ekki sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar tíminn stendur í stað:-(

Af glópaskýjum sem verða að dimmviðrisskýjum...

Eins og ég hef vikið að hér áður líður mér vægast sagt mjög undarlega. Ég reyni að ná áttum með því að horfa til baka og rifja upp aðdragandann og nýliðna atburði. Einkanlega atburðarrás síðastliðins vetrar. Ég reyni að raða minningarbrotunum saman og fá út úr þeim heildræna en ekki síður vitræna mynd. Þrátt fyrir allt gengur mér það misjafnlega.

Orustugyðja orðsins Ég sé út úr myndinni svikna þjóð. Fórnarlömb sem urðu fyrir barðinu á græðgi og spillingu en þau tóku sig saman og létu í sér heyra. Ég sé óreynda hermenn réttlætisins rísa upp og brýna vopn orðræðunnar. Ég sé fólk sem hrinti af stað nýrri aðferð í íslenskri þjóðmálaumræðu. Þetta eru einstaklingar sem unna friði og réttlæti en var svo nóg boðið að það gat ekki látið sem ekkert væri lengur.

Allt þetta fólk reyndi að ná til skynsemi stjórnarelítunnar og vekja athygli þeirra á skyldum þeirra gagnvart landi og þjóð. Það kostaði tíma, hugvit og orku. Lengi vel voru viðbrögðin engin. Þetta fólk var algjörlega hundsað en einhverjir voru úthrópaðir fyrir að vera eitthvað annað en það sem þeir sögðust vera. Ég gaf mér ekki mikinn tíma til að hugsa um þessa hlið málanna í hita leiksins en þetta vakti mér gjarnan bæði furðu og reiði.

Mér fannst undarlegt að bera það saman hvernig útrásarvíkingar höfðu lagt undir sig fjölmiðlana áður en þegar tími frelsishetjanna rann upp voru þær hundsaðar. Fólk sem hélt ræður uppfullar af lausnum og góðum ráðum var þagað í hel. Það var meðvitað látið sem það hefði ekkert til málanna að leggja en rokið upp til handa og fóta í hvert skipti sem einhver vildi vefengja og ófrægja tilgang þeirra sem vildu bregðast við af skynsemi við því ástandi sem upp var komið í samfélaginu.

Í stað þess að sökudólgar og klíkubræður þeirra stæðu upp og sættu ábyrgð var ákveðið að efna til nýrra kosninga í því ruglingslega ástandi sem búið var að skapa með þögninni fyrst og fremst. Strax í aðdraganda kosninganna var augljóst að það var hyldýpi á milli þess hvernig ástandið blasti við þjóðinni. Margir fögnuðu því þó að fá tækifæri til að kjósa en aðrir sáu enga lausn fólgna í þeirri ákvörðun.

Í mjög einfaldaðri mynd má segja að ástandið hafi verið og sé enn þetta: Einhverjir vilja halda í það sem var og fá aftur tækifæri til að hámarka gróða sinn við erlend spilaborð en hinir vilja umbylta hugsunarhættinum. Ég tilheyri þeim hópi sem vill bylta hugsunarhættinum og verðmætamatinu. Það má kalla mig afturhaldssegg fyrir það að segja að rót vandans sem við stöndum frammi fyrir er gróðahyggjan. Lausn vandans er því fólgin í því að setja mennskuna í öndvegi.  Kannski þurfum við að henda peningunum til að slík forgangsröðun verði að veruleika.

Ég vil að við snúum okkur að því að koma okkur saman um það hvernig við getum lifað í sátt og samlyndi á eyjunni okkar Íslandi. Horfum okkur nær og hættum að góna og gapa eftir háreistum peningaveldisturnum handan við hafið. Einbeitum okkur að framleiðslu á matvælum og verðmætum sem gera okkur kleift að lifa af. Hættum að byggja skýjaborgir úr peningum því peningar eru og verða aldrei sönn verðmæti!


Peningar eru valtir og gildi þeirra getur hrunið án nokkurs fyrirvara. Peningar verða heldur aldrei étnir frekar en málmurinn eða pappírinn sem þeir eru gerðir af. Þessi einföldu sannindi ætti öllum að vera ljós. Þess vegna er það undarlegt að horfa upp á þá sem hafa viljað kenna sig við jöfnuð og sósíalisma berjast fyrir því að allir haldi kjafti, hlýði og verði góðir gagnvart þeirri forgangsröðun sem varð ofan á eftir kosningar. Þeirri forgangsröðun sem miðar að því að þjóna peningaöflunum á kostnað okkar, íslensku vinnuafli.

Ég hafði af því gífurlegar áhyggjur að síðustu kosningar myndu fyrst og fremst snúast um það sem hefur svo komið fram svo stuttu síðar. Þetta er þetta ofurkapp að koma þjóðinni að evrópska spilavítisborðinu. Ofurkappið er svo mikið að það er rétt eins og allur vandinn fyrir kosningar hafi gufað upp! Það fór ekki hátt en miðað við úrslitin varð mörgum ljóst í hvað stefndi. Ég leyfði mér enn að vera bjartsýn en sú bjartsýni er orðin að engu...

Það er ljóst að við verðum að spyrja okkur nokkurra spurninga í sambandi við þær staðreyndir sem bankahrunið slengdi framan í okkur. Staðreyndir sem ekkert hefur verið tekist á við og er ekki útlit fyrir að eigi að takast á við. Stóra spurningin er auðvitað fyrst og fremst hvað verður næst! Henni fylgja nokkrar minni spurningar sem er vert að íhuga rækilega áður en næstu skref verða tekin:

Erum við tilbúin til að gleyma, beygja okkur undir okið og sætta okkur við það að sumir eru jafnari en aðrir? Erum við tilbúin til að sætta okkur við meðferðina á okkur sjálfum, afkomendum okkar og meðbræðrum? Erum við tilbúin til að búa við lélegri menntun, heilbrigðisþjónustu og réttargæslu um langa framtíð vegna þess að eigendur bankanna tæmdu ríkiskassann í gegnum bankanna? Erum við tilbúin að láta þetta yfir okkur ganga á meðan það fjármagn sem er til er látið ganga í hina botnlausu hagsmunahít fjármagnseigenda?

Auk þess þurfum við að velta eftirfarandi fyrir okkur líka: Erum við tilbúin til að selja erlendum stórfyrirtækjum vatnsbólin okkar, ræktarlönd, virkjunarmöguleika og fiskinn í sjónum ásamt öðrum auðlindum? Erum við tilbúin til að greiða erlendum samsteypum afnotagjöld af hita, rafmangi og vatni? Erum við tilbúin til að kaupa íslenskar landbúnaðar- og fiskiafurðir af erlendum risafyrirtækjum?

Viðreisn framtíðarinnar Erum við tilbúin til að selja frá okkur eignaraðild að innlendri framleiðslu? Erum við tilbúin til að vera ódýrt vinnuafl erlendra risasamsteypufyrirtækja sem reisa verksmiðjur sínar þar sem þeir geta bolað þeim niður? Erum við tilbúin til að búa í landi sem verður okkur meira og minna lokað eftir að hér hafa risið landfrekar risaverksmiðjur og virkjanir sem knýja þær áfram? Erum við tilbúin til að vera útilokuð frá þeim landssvæðum sem þær þekja ásamt helstu náttúruperlum landsins sem erlendir auðjöfrar hafa sölsað undir sig og sína sem sumarbústaðalönd?

Er þetta marklaust svartsýnishjal? Ég viðurkenni að þetta er svört framtíðarsýn en ég minni á að hún er eingöngu sprottin upp úr þeim raunveruleika sem er orðinn nú en var kallaður svartsýnishjal síðastliðið haust og langt fram á vetur! Hún er sprottin upp úr órökréttri forgangsröðun sem tekur ekki tillit til mannúðar, skynsemi eða réttlætis. Framtíðarsýn mín byggir á þeirri staðreynd að við búum við ótrúlega blint og heimskt stjórnarfar sem neitar að fara að skynsemisráðum en hleypur alltaf eftir gróðahyggjuráðum!

Ég bið guð að hjálpa landi og þjóð þannig að við eigum mannvænlegri framtíð en þá sem liggur í spilunum mínum núna!


mbl.is „Farið hefur fé betra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Við verðum að vera breytingin sem við viljum ná fram“

Margrét TryggvadóttirMig langar til að vekja athygli á viðtali við Margréti Tryggvadóttur inni á Svipunni. Sjá hér.

Í viðtalinu rekur Margrét ástæður þess að hún tók sæti á lista Borgarahreyfingarinnar í síðustu alþingiskosningum. Hún segir frá þeim mikla meðbyr sem þau nutu fyrstu vikurnar eftir kosningar og hvaða áhrif klofningurinn hafði á hann.

Margrét dregur líka fram nokkur þeirra atriða sem Hreyfingin hefur náð fram og að lokum undirstrikar hún hvaða málefni er brýnast að vinna að fyrir þjóðina á þessum tímum.

Í viðtalinu er Margrét „sjálfri sér lík. Heiðarleg, hlý og með svo sanna lýðræðislega og heilbrigða sýn á þjóðfélagið okkar.“ (Guðbjörn Jónsson í athugasemdakerfinu við viðtalið).

Ég læt nægja að vitna í lok viðtalsins þessu til áréttingar:

Til að breyta því sem hrjáir íslenskt samfélag nú þarf fyrst og fremst hugafarsbreytingu. Almenningur þarf að átta sig á því hvað hann sættir sig við og hvernig þjóðfélagi hann vill búa í, segir Margrét. Hver og einn þarf að gera það upp við sig hvort hann ætlar bara að vera farþegi í þessu þjóðfélagi eða taka til sinna ráða og leggja þeim breytingum lið sem eru nauðsynlegar.

Sem borgarar höfum við réttindi en líka ákveðnar skyldur. Okkur ber að standa vörð um lýðræðið og samfélagið. Mörg okkar sváfu á verðinum og því þarf að taka til hendinni nú, bætir hún við.

Að áliti Margrétar Tryggvadóttur eru það einkum þrjú málefni sem er brýnast að vinna að í dag. Í fyrsta lagi er það leiðrétting á skuldum heimilanna, þá lýðræðisumbæturnar og svo auðlindamálin sem eru einmitt í brennidepli núna. Það er mikilvægt að fólk gefi sért tíma til að setja sig inn í þessi mál og taki afstöðu.

Það er nefnilega ekkert eins hættulegt og það að þjóðin fljóti sofandi að feigðarósi. Það er það sem við gerðum fyrir hrun þannig að við höfum einfaldlega ekki efni á að halda slíku áfram, segir Margrét að lokum.


Draumur markaðshyggjunnar um Evrópusambandsaðild

Ræða flutt á útifundi Rauðs vettvangs sem var haldinn fyrr í dag. Ræðumenn auk mín voru: Anna Ólafsdóttir Björnsson og Þorvaldur Þorvaldsson. Ræðurnar munu birtast innan tíðar á bloggi Rauðs vettvangs en hér er ræðan mín:

Ágætu borgarar þessa lands!

Breyttur fáni ESBMig langar til að höfða til ykkar, sem hér eruð viðstödd, þegar ég vara við draumi markaðshyggjunnar um aðild að Evrópusambandinu. Það skiptir ekki máli hvort sú markaðshyggja vill kenna sig við hægri eða vinstri. Við höfum líka öll reynslu af því að það markaðshyggjusamfélag, sem hér hefur verið rekið á undanförnum árum, skilar okkur, almennum borgurum, engan veginn réttlátu þjóðfélagi!

Ég er ein af ykkur. Flest ykkar hafið sennilega fæðst hér eins og ég, alist hér upp og gert ykkar framtíðarplön út frá því að hér væri gott að búa. Sjálf ólst ég upp í íslenskri sveit, sótti alla mína menntun hérlendis og hef alið hér manninn alla tíð. Þó útþráin hafi stundum togað í mig þá ákvað ég að vera hér kyrr. Það sem réð mestu í því sambandi voru börnin mín. Mér fannst það nefnilega vera eigingirni af minni hálfu ef ég sliti þau upp og flytti þau burt frá rótum sínum.

En nú er allt breytt! Ég reikna líka með að flest ykkar deilið áhyggjum mínum af framtíð kynslóðanna í þessu landi með mér. Ógnirnar sem að okkur steðja eru margvíslegar en frá mínum bæjardyrum séð er markaðshyggjan, sem setti okkur í þau spor sem við stöndum í núna, rót þeirra allra. Draumurinn um að tilheyra Evrópusambandinu er ein af þeim alvarlegri því að ef af verður þá höfum við ofurselt okkur lögmálum markaðarins þar með um ókomna framtíð.

Frá höfuðstöðvum ESB í BrusselÉg hef alltaf goldið varhug við því að setja örlög mín í hendur fjöldaframleiddra fræðinga í háreistum skrifstofubyggingum. Það er því síst til að draga úr áhyggjum mínum varðandi framtíðina þegar það á að setja örlög heillar þjóðar í hendurnar á þannig liði! Takið líka eftir því að við erum að tala um lið þar sem æðstu stjórnendurnir verða staðsettir í allt öðru landi! Þetta lið er í aðalatriðum skipað langskólagengnum fræðingum sem ég leyfi mér í fullri alvöru að efast um að hafi kynnst þeim yfirgripsmikla veruleika sem þeir eru að fást við nema af Exel-skjölum framan á tölvuskjá.

Íslensk stjórnvöld, með Samfylkinguna í fararbroddi, keppast samt við að selja okkur þá hugmynd að okkur sé best borgið í exelskjalabólstruðum faðmi slíks fræðimannahers sem Evrópusambandsbáknið er. Einn ráðherra Samfylkingarinnar hefur meira að segja reynt að halda því fram að hér hefði aldrei skollið á nein kreppa ef við hefðum þegar verið gengin inn í sambandið! Eins og þið áttið ykkur á er ég að vísa til orða núverandi utanríkisráðherra sem höfð voru eftir honum fyrir ekki svo löngu síðan.
Össur lofaði krafti (ESB með hraði?) gegn kreppuMaður sem tók þátt í að setja landið á hausinn með heimsku sinni er ekki maður sem mér þykir vert að hlusta á! Skiptir engu þó hann hafi af einhverjum ástæðum verið gerður að utanríkisráðherra! Þeir sem hafa lesið tilsvör hans í Rannsóknarskýrslunni, 7. bindinu, velkjast varla í vafa um það að Össur Skarphéðinsson hefur ekki hundsvit á því sem hann er að fást við! Það er því út í hött að taka nokkurt mið af því sem hann segir um ástand efnahagsmála í fortíð, nútíð eða framtíð enda er haft eftir honum í Skýrslunni að „hann hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum!“ (bls. 26 í 7. bd. Skýrslunnar)

Það þarf ekki nema meðalskynsemi til að skilja það að maður bankar ekki upp á í fullbyggðu húsi á nærbuxunum einum fata og býður upp á sambúð! Hins vegar er rétt að benda á það að þó Evrópusambandið líti út fyrir að vera fullbyggt hús þá eru innviðir þess allt annað en glæsilegir enda eru þeir af sama efni og settu hér allt á hausinn haustið 2008. Innviðirnir í þeirra húsum eru líka ESB vill alla 
Evrópu undir einn hattteknir að fúna.

Það nægir að líta til nokkurra nágranna okkar til að átta sig á þessari stað- reynd. Ég læt mér nægja að minna á Írland og Grikkland í þessu sambandi og spyr mig og ykkur öll: Að hvaða leyti er staða okkar nú verri en þeirra þjóða sem byggja þessi lönd? Er líklegt miðað við það hvernig hefur verið brugðist við þeim vanda sem hefur steðjað að hagkerfum þessara þjóða að okkur sé betur borgið í Evrópu- sambandinu? Ég segi: NEI!

Evrópusambandið og ungur gjaldmiðill þess riða til falls og mun taka þær þjóðir sem hafa ánetjast því með sér! Það verður fámenn auðmannastétt sem hagnast á falli þess en hinn almenni borgari mun standa eftir fátækari en nokkru sinni. Evrópusambandið varð heldur ekki til í því markmiði að bæta lífskjör hins almenna borgara heldur til að stjórna markaðinum og í þeim tilgangi hafa æðstu stjórnendur þess gefið út ótrúlegt langlokuregluverk um hvaðeina.

Regluverk Evrópusambandsins hefur sett danska blómaræktendur á hausinn en tryggt Hollendingum einokunarstöðu á blómamarkaðinum. Ávaxtaframleiðendur víða á Evrópusvæðinu geta ekki lengur keppt við þá sem búa við Miðjarðarhafið vegna staðla Evrópusambandsins sem kveða m.a. á um það hvernig lögun og lengd bananans á að vera til að hann lendi í söluvænlegasta flokknum.

Ef við göngum inn í Evrópusambandið þurfa íslenskir bændur, meðal annarra, að taka mið af reglum sambandsins varðandi það hvað má bera á tún og hvaða fóður skepnur eiga að nærast á. Svo nokkur dæmi séu tekin. Samkvæmt reglum sambandsins má t.d. ekki nýta innihald haughússins til að bera á tún og kálfar sem eru aldir upp fyrir kjötmarkaðinn má ekki setja í hagagöngu.

Ekki stóll?Síðasta dæmið sem ég nefni hér sel ég ekki dýrara en ég keypti það. En það er að staðlaráð Evrópusambandsins hefur m.a.s. gefið út nákvæm fyrirmæli um það hvað fætur undir stólum eiga að vera margir til að þeir geti talist til slíkra. Hvaða stólahönnuður ætli hafi komið þessu þröngsýnissjónarmiði sínu að inn í reglugerðarfarganið?

Ég gæti haldið upptalningu af þessu tagi áfram en þessi ætti að duga til að færa ykkur heim sanninn um það að það að ganga inn í Evrópusambandið tryggir okkur ekki fyrir því sem varð íslensku hagkerfi að falli! Þ.e. einkavinavæðingunni og/eða krosstengslunum. Í kerfi sem byggist á markaðinum þá verða alltaf einhverjir sem reyna að sölsa hann undir sig með áhrifum sínum, völdum og peningum. Markaðskerfið sem Evrópusambandið byggir á er ekkert öðru vísi hvað það varðar!

Til að draga það enn skýrar fram hvers vegna ég er á móti inngöngu inn í Evrópusambandið vil ég undirstrika það að af gildum ástæðum, sem öll þjóðin hefur reynt á eigin skinni, þá trúi ég ekki á þau lögmál markaðarins sem sambandið byggir á. Ég trúi heldur engan veginn á sanngirni reglugerðarfargansins sem sambandið hefur smíðað utan um hann.

Ég minni á að saga okkar geymir reynslu forfeðra okkar af því að fela öðrum stjórn landsins. Ég efast um að við verðum í reynd mikið betur stödd með ákvarðanatöku varðandi öll mikilvægustu mál lands og þjóðar í háreistri skrifstofubyggingu í Brussel en við vorum þegar við vorum undir nágrönnunum í Kaupmannahöfn. Ég leyfi mér að efast um að einokunarverslun undir flaggi ESB eigi eftir að reynast okkur mikið betur en sú sem var rekin hér í aldaraðir undir því danska.
Á engu nema 
nærhaldinu
Það vekur mér líka mjög mikla tortryggni að þjóð sem kemur á nærbuxunum og biður um Evrópusambandsaðild skuli yfir höfuð fá áheyrn! En þegar betur er að gáð þá erum við nefnilega alls ekki eins illa stödd og af er látið! Lítið allt í kringum ykkur og munið eftir forferðum okkar sem þrátt fyrir enga tæknikunnáttu gátu tórað hér undir danskri einokun. Þeir höfðu ekkert að treysta á nema það sem landið gaf af sér og eigið þolgæði.

Við höfum hér allt til alls til að lifa hér góðu lífi! Við eigum nú þegar gríðarlega öfluga matvælaframleiðslu sem við nýtum okkur þó engan veginn til fulls. Við gætum t.d. framleitt allt okkar grænmeti sjálf! Ef við höguðum okkur skynsamlega þá gætum við t.d. nýtt jarðvarmaorkuna frá Þeystareykjum fyrir grænmetisver á Húsavík í stað þess að samþykkja að hún verði nýtt til að knýja enn eitt álverið!

Við eigum enn þá: fiskinn, vatnið, jarðvarmann og fallvötnin en þetta er allt í bráðri hættu ef þjóðin ætlar að fljóta sofandi að þeim feigðarósi sem markaðshyggjuöflin innan hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórn stefnir okkur í.

Ég hvet ykkur hvert og eitt ykkar til að  spyrna við fótum og vakna til meðvitundar um það hverjum er best treystandi fyrir framtíð þinni og afkomenda þinna.

Ég fullyrði að framtíð okkar er engan veginn skynsamlega tryggð með því að setja hana í hendurnar á skrifstofubákni sem er stjórnað af erlendum fræðingaher Evrópusambandsins!

Af öllu framansögðu ætti að vera ljóst hvers vegna ég hafna alfarið inngöngu Íslands inn í Evrópusambandið!

Ég þakka áheyrnina


mbl.is Útifundur gegn ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram mótmælendur!

Vilhjálmur BirgissonVilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er fyrsti forystumaður verkalýðsfélaga í landinu sem þorir að standa með launþegum þegar hann hvetur íslenskan almenning til að standa saman. Fyrir það hlýtur hann óskoraða virðingu mína!

„Formaður Verkalýðsfélags Akraness hvetur alþýðu þessa lands til að standa saman og sýna íslenskum stjórnvöldum fulla hörku og það verði ekki liðið að dómar Hæstaréttar gildi ekki fyrir alla í þessu landi. Oft hefur verið þörf fyrir samstöðu en nú er nauðsyn.“

Það hefur sýnt sig að samstaða almennings skilar árangri. Sjá tilraun til yfirlits um það sem slík samstaða hefur skilað okkur nú þegar hér.


mbl.is Segir níðst á alþýðunni á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju skila mótmæli?

Þær eru ótrúlega margar aðferðirnar og úrtöluraddirnar sem reyna með öllum ráðum að draga úr mótmælendum kraftinn. Ein aðferðin er að fjalla ekkert um mótmæli. Önnur er að birta myndir frá mótmælum án nokkurrar umfjöllunar um tilgang þeirra og markmið. Þetta hafa fjölmiðlar stundað lengi en þó eru nokkrir farnir að bregðast við núna í sambandi við mótmælin fyrir framan skrifstofur sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ástæðan fyrir því hve mörgum aðferðum er beitt til að draga úr mótmælendum kjarkinn tel ég að sé ekki síst sú að mótmæli skila árangri! Til að rökstyðja það ætla ég að freista þess að telja upp nokkur atriði sem mótmæli hafa skilað frá haustinu 2008. Ég hvet ykkur til að bæta við listann ef ég er að gleyma og/eða vanmeta eitthvað:

  • Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks segir af sér. 
  • Skipt er um í stjórnum Seðlabankans og Fjármáleftirlitsins.
  • Borgarahreyfingin kemur fram sem nýtt afl í stjórnmálum.
  • Fjórir þingmenn sem styðja kröfur mótmælenda komast inn á þing (hér á ég við þau: Birgittu Jónsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Margréti Tryggvadóttur og Þór Saari).
  • Skilmálar, sem verja hagsmuni Íslendinga, eru settir inn í Icesave-samning I
  • Icesave-samningur II fer í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Tregða þjóðarinnar til að ganga inn í Evrópubandalaginu tefur fyrir inngönguferlinu.
  • Einkavina- og fyrirtækjastyrktir þingmenn neyðast til að meta stöðu sína. Þrír fara í tímabundið leyfi. Einn segir af sér.
  • Samtök fjármálafyrirtækja senda frá sér tilmæli í síðustu viku sem taka greinilega tillit til dóms Hæstaréttar frekar en tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitins.
  • Stóru bankarnir þrír senda frá sér tilkynningu um að þeir ætli að fara eftir þessum tilmælum (Sjá hér).
  • Vakning varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem kemur best fram í fjölmiðlum á undanförnum dögum.
Ég tek það fram að ég ætla ekkert að leggja dóm á það hvort ofantalinn atriði hafi skilað nákvæmlega því sem mótmælendur ætluðust til. Fyrir mína parta liggur það í augum uppi að svo hefur alls ekki verið í öllum tilvikum. Ég tel þau samt til árangurs. Árangurs sem má ekki vanmeta þó betur megi ef hann á að duga til þeirra breytinga sem mig dreymir um. Árangurinn sem mig dreymir um er í einföldu máli sá að ég vil réttlátara samfélag sem byggir á jöfnuði og lýðræði.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband