Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Útrýmingaraðgerðir nútímans

Það eru uppi undarlegir tímar sem kristallast mjög skýrt í Grikklandi nú um mundir. Myndin hér að neðan ber þessum tímum líka sorglegt vitni en hún er tekin í Madrid.

Brimvarnargirðing fjármálavaldsins gegn almenningi

Myndin sýnir það ástand sem hefur komið fram um allan heim eða berskjaldaðan almenning gagnvart brimvarnargirðingunni sem fjármálavaldið hefur reist í kringum sig þannig að það fái mergsogið hann óáreitt!

Efniviðurinn í brimvarnargirðingunni eru forblinduð verkfæri sem gera sig sek um viðlíka glæpi gagnvart samborgurum sínum og nasistarnir í Þýskalandi. Munurinn er að nasistarnir öttu þúsundum í gasfylltar útrýmingarbúðir. Forblinduðu verkfæri nútímans etja þúsundum og aftur þúsundum í einangrunarbúðir allsleysisins sem er ekki síður bráðdrepandi en gasið!


Tilraunaeldhúsið Grikkland!

Mörgum finnst hún eflaust þægileg fjarlægðin frá því sem þeir vilja ekki sjá. Þetta hefur greinilega átt við um Grikkland sem margir Íslendingar láta eins og þeim komi ekki við um þessar mundir. Sumir auka enn í fjarlægðina sem er á milli landanna og tyggja upp eineltisfrasa varganna sem hafa sest um fjöregg grísku þjóðarinnar.

I am a Greek

Efnahagsböðlarnir sem ráða grimmum örlögum Grikkja hafa verið kallaðir þrenningin en þeir eru: Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Íslendingar ættu allir að þekkja afleiðingarnar af aðgerðarpakka AGS hér á landi þó þeir séu alltof margir sem þykjast ekki sjá þær þrátt fyrir að þær séu upp við nefið á þeim.

Íslendingar hafa líka fengið smjörþefinn af því hvaða fjármálaþvingunum ESB-hagsmunaklíkan beitir þær þjóðir sem eru fjármálavaldinu ekki undirgefnar í gegnum Icesave-hasarþættina þrjá. Það vekur auðvitað athygli að meðulin eru reyndar þau sömu og AGS beitir í sínu þvingunarstríði gegn þjóðum sem hafa orðið fyrir efnahagsáföllum.

Það vekur líka athygli þeirra sem hafa lagst yfir að kynna sér það sem fram fer í Grikklandi að þar verða fyrir manni sömu pyntingartólin og var beitt gegn íslensku þjóðinni í þeim Icesaveþáttum sem við höfum þegar horft upp á en þetta eru: bresk lögsaga tekur yfir rísi upp ágreiningur um fjárhagslegu þvingunaraðgerðinar, hollenskur fjármálaráðherra belgir sig út og fnæsir og hvæsir svo er það Lee nokkur Buchheit sem veitir „hollvinaráð“ varðandi þjóðarskuldavandann.

Miskunnarleysi efnahagsböðlanna í Grikklandi

Efnahagshremmingarnar sem gríska þjóðin hefur þurft að þola eru ólýsanlegar en ástandið minnir svo sannarlega á lönd Afríku og Suður-Ameríku þar sem nýlenduherrar fóru yfir með miskunnarlausum græðgislúkum sem engu eirðu. Gríska þjóðin hefur reynt að vekja athygli á þessu og kallað til annarra þjóða í yfir hálft ár. Fæstir hafa hlustað og á meðan eykst neyðin.

Sumir hafa bent á að hörmungarnar sem efnahagsböðlarnir hafa leitt yfir Grikkland sé bara forsmekkurinn eða generalprufan að því sem bíður annarra þjóða. Þar á meðal Íslendinga. Komist peningamafían upp með það að fara svona með Grikki þá breiðist faraldurinn út. Það er því ljóst að á meðan fólk situr með hendur í skauti eða vinnur hvert í sinni mauraþúfu þá breiðist eignaupptökufarladurinn út og brýtur sér leið inn fyrir þröskulda hvers einasta heimilis sem ekki er merkt eigna- og peningaelítunni.

Það er nefnilega enginn munur á Grikkjum og öðrum þjóðum í augum efnahagsböðlanna sem eira engu. Þetta vita Grikkir og þeir sem ákváðu að svara kalli þeirra og sýna þeim táknrænan stuðning síðastliðinn laugardag. Þann dag boðuðu Attac-samtökin hér á landi til samstöðu með Grikkjum. Fólk safnaðist saman í Grasrótarmiðstöðinni þar sem Andres Zoran Ivanovic tók þessa mynd.

Við erum öll Grikkir

Við sama tækifæri flutti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Íslandsdeildar Attac-samtakanna, Yfirlýsingu herferðarinnar fyrir endurskoðun grískra skulda, frá 13. febrúar 2012, í íslenskri þýðingu. Sjá hér:



Gunnar Skúli Ármannsson, sem allir ættu að þekkja fyrir beinskeytt bloggskrif, flutti líka virkilega flotta tölu sem hann gaf heitið: Við erum öll Grikkir í dag! Sjá hér:


Hvernig virkar lýðræðislegur stjórnmálaflokkur?

Eins og öllum er sennilega ljóst hafa sprottið upp margir athyglisverðir grasrótarhópar á undanförnum misserum. Einn þeirra er Alda: Félag um sjálfbærni og lýðræði. Félagið var stofnað 20. nóvember 2010 og hefur komið ótrúlega miklu í verk á stuttum starfstíma.

Alda er líka einn þeirra grasrótarhópa sem koma að rekstri Grasrótarmiðstöðvarinnar þar sem hópurinn fundar gjarnan einu sinni í viku. Félagið er líka með heimasíðu en hún vitnar um þá miklu virkni sem er í félaginu. Í stuttu máli má segja að félagið vinni að því að lýðræðisvæða allt samfélagið en eins og heiti þess ber vitni vinnur hópurinn líka að tillögum um sjálfbærni.

 Alda: Félag um sjálfbærni og lýðræði

Til að fræðast frekar um félagið bendi ég á heimsíðu þess svo og þennan fyrirlestur Kristins Más Ársælssonar sem er varðveittur inni á You Tube. Hér er hins vegar ætlunin að vekja sérstaka athygli á tillögum Öldu um lýðræðislegan stjórnmálaflokk sem fulltrúar félagsins kynntu m.a. á laugardagsfundi í Grasrótarmiðstöðinni 21. janúar sl.

Guðmundur D. Haraldsson kynnti tillögurnar og má nálgast kynningu hans hér. Tillögurnar má líka nálgast á heimasíðu félagsins (sjá hér). Í kjölfar kynningarinnar spunnust mjög fjörugar umræður um tillögurnar en þær voru allar teknar upp og eru nú aðgengilegar í þremur hlutum. 

Alvöru lýðræðiÍ ljósi þess hvernig komið er fyrir lýðræðinu er ekki óeðlilegt að við spyrjum okkur hvernig alvöru lýðræði verði komið á? Það liggur væntanlega í augum uppi að í gömlu flokkunum liggur alltof mikil forræðishyggja og þess vegna líklegt að margir komist að þeirri niðurstöðu að það sé aðkallandi að lýðræðisvæða stjórnmálin.

Ef til vill er gömlu flokkunum ekki viðbjargandi enda útlit fyrir að stór hluti þjóðarinnar treysti þeim ekki lengur fyrir atkvæðum sínum. Að undanförnu hafa þrjú ný framboð verið kynnt til sögunnar og ef til vill er von á fleirum. Allir þeir sem hafa kallað eftir breytingum ættu að fagna því að fá loksins tækifæri til að leggja fjórflokknum sem með verkum sínum hefur nánast gert út af við lýðræðið.

Það er hins vegar stór spurning hvort nýju framboðunum tekst að höfða þannig til kjósenda að af því geti orðið. Leiðin til þess gæti verið sú að þessir nýju flokkar temdu sér lýðræðisleg vinnubrögð frá upphafi og takist þannig að laða til sín algerlega nýtt fólk. Fólk sem er tilbúið til að byggja upp lýðræðislegt samfélag. En hvaða leiðir er hægt að fara til að auka lýðræðið og er ekki fullt af hættum í því fólgið að gefa lýðnum tækifæri til að ráða of miklu?

Hér á eftir eru þrjú myndskeið frá laugardagsfundinum þar sem tillögur Öldu um lýðræðislegan stjórnmálaflokk voru kynntar í Grasrótarmiðstöðinni. Fundurinn bar yfirskriftina: Lýðræðið er lykillinn. Hér eru að finna spurningar og svör sem snerta hugmyndir Öldu t.d. um slembival og 80%-leiðina. Það er Kristinn Már Ársælsson sem svarar spurningum áheyrenda.

Hér er fyrsti hlutinn en hann inniheldur m.a. spurningar og svör um það hvernig á að verjast spillingu og um slembival:



Hér er svo annar hlutinn þar sem spurningarnar snúast aðalalega um: slembivalið, stefnuskrána, stofnun lýðræðislegs stjórnmálaflokks og málefnahópa.



Hér er svo þriðji og síðasti hlutinn þar sem umræðan snýst aðallega um 80%-in, fjármál stjórnmálaflokka, slembivalið og ábyrgð fjölmiðla.



Að lokum langar mig til að mælast til þess að þessum myndböndum verði dreift sem víðast.

Svar til Sigrúnar

Tilefni þessara skrifa er eftirfarandi innlegg inni á Fésbókarsíðunni minni: Rakel, af hverju þurfum við alla þessa fundi? Alla þessa upplýsingu og alla þessa vinnu af ykkar hendi? Þurfum við ekki, sem viljum breytingar, að skilgreina óútskýranlega hjarðhegðun, flokkadrætti og milljóna fífla sem vinna í stjórnsýslunni? Byrjum þar - sópum og - skúrum. Þeirra er ábyrgðin. Við höfum ekki sönnunarbyrðina.“

Ég svaraði Sigrúnu og sagði henni að við spurningu hennar væri ekki til neitt eitt stutt eða einfalt svar en lofaði henni bloggfærslu í staðinn. Þetta er hún en hér ætla að ég að reyna að svara þeim hluta spurningarinnar sem snýr að mér.

Einfalda svarið væri e.t.v. að vísa í bloggfærslu mína frá 3. desember 2008 sem ég nefndi „Þess vegna er ég mótmælandi“ en henni lýkur á þessum orðum: „Ég er mótmælandi og á meðan frelsi, öryggi, réttlæti og virðing íslensku þjóðarinnar er svívirt á þann hátt sem það er nú þá verð ég það áfram. Ég á ekki annarra kosta völ!“

En þá er það spurningin um það hvers vegna „alla þessa fundi“ og af hverju „alla þessa vinnu“ af hálfu þeirra sem eru að vinna í grasrótinni? Það er nefnilega svo að ég er langt frá því að vera sú eina sem hef unnið nær sleitulaust frá haustinu 2008 að því að spyrna við fótum. Margir hafa verið mun einbeittari en ég og sett krafta sína í eitt afmarkað og mikilvægt verkefni eins og það að berjast fyrir leiðréttingu á lánum heimilanna eða réttindum bótaþega. Aðrir hafa unnið ekki síður óeigingjarnt starf við að setja fram hugmyndir að lýðræðisumbótum  eða lagt heilmikla vinnu í brautargengi nýrrar stjórnarskrár.

Það er ljóst að stærstu fjölmiðlar landsins hafa gert lítið af því hingað til að vekja athygli á þessari vinnu eða þeim einstaklingum sem standa að baki henni. Það ætti hins vegar ekki að stöðva einn né neinn. Það útheimtir hins vegar vinnu að vekja athygli á þessu starfi og hugmyndunum sem hafa komið út úr því. Þeir eru þó nokkrir í grasrótinni sem hafa sett sér það markmið að koma þessu öllu betur á framfæri og einhverjir miðlar hafa lagst á árarnar með okkur.

Að öðrum ólöstuðum mætti nefna: Hjara veraldar, Svipuna, Kryppu og Útvarp Sögu en svo eru það einstaklingarnir í grastótinni. Þar eru ljósmyndarar sem eiga orðið ótrúlegt safn ljósmynda af alls konar viðspyrnuaðgerðum stórum og smáum. Þeir sem standa að baki því sem að ofan er talið verða seint taldir en þar sem spurningunni var beint til mín ætla ég að tala út frá sjálfri mér.

Frá fyrstu mótmælunum á Akureyri haustið 2008

Þegar ég fór af stað haustið 2008 ætlaði ég mér aðeins að taka þátt með því að taka mér skilti í hönd og halda mig einhvers staðar aftarlega í mótmælagöngunum sem hófust á Akureyri í október þetta ár. Ég byrjaði líka að blogga af alvöru en ég notaði bloggið til að segja frá þeim viðspyrnuaðburðum sem voru á Akureyri. Bæði mótmælunum og borgarafundunum. Í byrjun árs 2009 var ég komin í það sem við kölluðum borgarafundanefnd á Akureyri. Ég átti eftir að starfa að þessum fundum fram til vorsins 2010 en þá skipti ég um búsetu.

Af öllum þeim verkefnum sem ég hef tekið þátt í frá hruni þá eru það borgarafundirnir fyrir norðan sem hafa gefið mér mest. Ástæðan fyrir því að mér fannst vinnan í kringum þá svona gefandi er án efa töluvert bundin því hve dásamlegar samstarfskonur mínar í þessu verkefni eru. Það skiptir líka máli að við misstum aldrei sjónar á því að tilgangurinn með þessum fundum var að skapa samræðu sem myndu leiða til skilnings og breytinga.

Sibba, Sóley, Embla og Rakel

Við vildum skapa samræðuvettvang á milli ólíkra hópa samfélagsins. Í þeim tilgangi reyndum við að taka alltaf á einhverju efni sem snerti samfélagsumræðu líðandi stundar. Við létum fátt ef nokkuð okkur óviðkomandi og fengum jafnt lærða og leika til að halda framsögur en í pallborð voru gjarnan fengnir stjórnmálamenn og aðrir sem fengust við málefni sem snerta almannahag.

Bæði þá, og núna þegar ég horfi til þessara funda úr fjarlægð, finnst mér að á fundunum hafi skapast ótrúlega flottar umræður. Því miður entust þær yfirleitt ekki fram á næsta dag enda voru þessi fundir nær algjörlega hundsaðir af fjölmiðlum norðan heiða og þrátt fyrir að ég hafi bloggað fundargerðir eftir hvern fund  og Sóley tekið nokkra þeirra upp rataði ekkert sem þar var sett fram áþreifanlega út fyrir fundina sjálfa.

Hins vegar vissum við allar að það voru margir ánægðir með þessa fundi. Kómískast var náttúrulega að heyra til þeirra sem aldrei mættu en voru samt svo himinlifandi að vita af því að það var einhver viðspyrna í gangi í þeirra bæjarfélagi. 

TunnaÞegar ég flutti suður byrjaði ég á því að taka þátt í ýmsum viðspyrnu- verkefnum sem fram fóru undir berum himni. Þann 4. október 2010 var sá stærsti en ég var ein þeirra sem tóku þátt í að skipuleggja hann. Engu okkar datt þó í hug fyrirfram að þetta yrðu stærstu mótmæli Íslandssögunnar a.m.k. hingað til. Ég var ein þeirra sem hafði af því stórar áhyggjur að það var ekki fyrirliggjandi neitt plan. 

Það var hins vegar sett fram undir lok þess sama mánaðar eftir að við fórum nokkur og heimsóttum forsetann. Ríkisstjórnin ásamt öðrum, sem vilja ríghalda í kerfið sem þjónar fáum útvöldum, tókst að leiða almenning á asnaeyrunum til trúarinnar á það að þar væri einhver vilji til að koma á móts við þá sem hefðu orðið verst úti í hjáverkum voru svo raddir og hugmyndir Tunnanna þaggaðar niður með hræðsluáróðri um m.a. fasisma.

Á síðasta ári hélt ég áfram að taka þátt í ýmis konar viðspyrnuverkefnum og ber þar hæst þátttaka í Samstöðunni gegn Icesave. Síðastliðið haust var svo Grasrótarmiðstöðin opnuð. Um svipað leyti leitaði Sturla Jónsson til mín vegna þess að hann hafði áhuga á að koma á borgarafundi til að segja frá baráttu sinni við að halda í það sem hann á eftir af ævistarfinu. Það er að segja húsnæði sitt og fjölskyldunnar.

Grasrótarmiðstöðin

Í framhaldi borgarafundarins kom svo hugmyndin að laugardagsfundunum í Grasrótarmiðstöðinni. Mörg okkar sem höfum verið virk í viðspyrnunni höfum staðið frammi fyrir því að fólk hefur einangrað sig svo frá því sem fram fer í samfélaginu sem það býr í að það veit lítið sem ekkert um það sem á hefur gengið. Þannig þekkir það í mesta lagi það sem fram hefur komið í fréttum um málið. Það veit þess vegna ekkert um að það eru til aðrar hliðar á málunum.

Mörg okkar hafa líka staðið frammi fyrir einstaklingum sem vita nánast ekkert um það sem fram hefur komið hjá þeim fjölda grasrótarhópa og einstaklinga sem hafa látið sig hagsmuni almennings varða. Þessir vita lítið sem ekkert um þær samfélagsumbætur sem hafa orðið til í grasrótinni. Ef þessar upplýsingar skila sér ekki til samfélagsins er hætt við að öll sú vinna sem þessir aðilar hafa lagt að mörkum verði til lítils.

Sú leið sem sum okkar trúa a.m.k. að sé fær til að koma þeim áleiðis er að halda fundi. Við höfum reynt að vekja athygli á þeim með stofnun viðburða inni á Facebook. Með því að auglýsa þá á heimasíðu Grasrótarmiðstöðvarinnar. Með því að koma fyrirlesurum í fjölmiðla og með því að taka fundina upp til að koma því sem þar kemur upp áleiðis. 

Í mínum huga er það svo að við þurfum að koma upplýsingunum um það að það eru komnar fram hugmyndir um það hvernig við getum skapað nýtt samfélag en við þurfum að koma þeim áleiðis þannig að þeir sem vilja eitthvað nýtt þori að grípa til aðgerða. Það er löngu tímabært að „sópa og skúra“ en á meðan fólk heldur að sér höndum fyrir það að það veit ekki hvað á að taka við eftir hreingerninguna er ekkert við því að gera annað en halda upplýsingafundi og reyna að vona að það færi því kjarkinn til að ráðst í nauðsynlegar hreingerningaraðgerðir.

Þetta útheimtir vinnu og að sjálfsögðu óskum við þess mörgum sinnum að við fengjum feiri með okkur. Því það er staðreynd að okkur veitir ekkert af fleiri höndum. Ég vona að Sigrún og aðrir sem hafa spurt sig þess sama og hún séu sáttir við þetta svar þó þeir séu því ekkert endilega sammála.


Viðburðarrík helgi framundan í Grasrótarmiðstöðinni

Hlýddu og vertu góðurÞorbjörn Broddason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, flytur erindi í Grasrótarmiðstöðinni núna á laugardaginn undir yfirskriftinni: Samfélagsleg ábyrgð samfélagsfirrtra fjölmiðla. Fyrirlesturinn hefst kl. 13:00 og lýkur kl. 15:00. Þorbjörn er löngu þekktur fyrir fjölþættar fjölmiðlarannsóknir sínar en niðurstöður þeirra hafa birst í fjölda fræðirita og -greina sem hafa komið út eftir hann bæði á íslensku og ensku.

Í erindi sínu mun Þorbjörn m.a. benda á að valdhafar á öllum tímum og í öllum heimshlutum hafa haft eitt höfuðmarkmið; sem er það að halda völdum. „Í þessu augnamiði hafa skynsamir þjóðaleiðtogar komið sér upp tækjum til að móta hugsun og umhugsunarefni alþýðunnar.“

Þorbjörn mun líka tala um þau tímamót sem runnin eru upp með því sem hann nefnir ofurmiðla og örmiðla. Ofurmiðlarnir eru þeir sem eru miðstýrðir, búa yfir óhemjufármagni, virða engin landamæri og eru þar með utan allrar pólitískrar lögsögu. Örmiðlarnir eru aftur á móti þeir sem eru í höndum mjög fámennra hópa, jafnvel bara eins, og eru veikburða eftir því en geta eigi að síður náð til milljóna og aftur milljóna fyrir atbeina samskiptaforrita á netinu.

Þessi tímamót eru svo stórkostleg að Þorbjörn hikar „ekki við að jafna þeim við byltingu Gutenbergs.“

Það eru allir velkomnir á þennan fund en  fjölmiðlamenn ofur- og örmiðla eru sérstaklega hvattir til að mæta á þennan fund!
Sjá líka viðburð á Facebook

Fleiri grasrótarviðburðir

Hálftíma eftir að þessum fundi lýkur hefst samstöðusamkoma í Grasrótarmiðstöðinni sem Attac-samtökin á Íslandi hafa boðað til stuðnings Grikkjum en grískur almenningur þarfnast stuðnings í baráttu sinni gegn árásum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og auðvaldsins.“ Í viðburðinum sem hefur verið stofnaður á Facebook af þessu tilefni segir að:

Það sem á sér stað á Grikklandi núna er stórkostleg aðför að réttindum almennings. Stórfelldar launalækkanir, uppsagnir opinberra starfsmanna, skerðing lífeyrisréttinda, niðurskurður opinberra útgjalda og þyngri skattbyrðar á hina lægst launuðustu ásamt fleiri lífskjaraskerðingum.

Aðstandendur viðburðarins hvetja fólk til að standa saman og standa með þeim sem nú fara út á götur í Grikklandi og mætum í Grasrótarmiðstöðina.
 
Á sunnudaginn bjóða svo nokkrir þeirra sem stóðu á bak við Occupy-ið niður á Austurvelli fyrr í vetur til kynningar og umræðna um það hvað er vænlegast til árangurs í því þeirri viðleitni að frelsa jörðina og lífið undan þeim ógnum sem steðja að hvoru tveggja í nútímanum. Sjá nánari upplýsingar á Facebook.

Útrýmingaraðgerðir peningavaldsins

Maður á að bera harm sinn í hljóði segir einhvers staðar en ég ætla samt að segja frá sögunni á bak við tárin sem ég horfði flæða niður svipbrigðalausar kinnar 30 ára karlmanns sem er á örorkubótum.

Honum er ætlað að lifa á 150.000,- á mánuði. Þessir peningar eiga að duga honum fyrir öllu því sem peningakerfið hefur ákveðið að er aðeins ætlað þeim sem peningamaskínan hefur útvalið. Þetta eru atriði eins og: það að borða, búa undir húsþaki, komast á milli staða, sinna eigin heilsu, ástunda einhverja uppbyggilega afþreyingu o.s.frv. o.s.frv.

Nú er svo komið að ungi maðurinn sem grét á ekkert annað eftir en Útrýmingarbúðir peningavaldsinshalda í þakið og reyna að ráðstafa því sem er eftir fyrir mat til að borða út mánuðinn. Eina von hans um það að komast úr landi var bílinn sem hann hefur ekki getað selt en verður tekinn af honum mjög fljótlega vegna vangoldinna rekstrargjalda.

Tár hans fóru samt ekki að flæða fyrir alvöru fyrr en hann sagði mér frá því að hann væri nýbúinn að missa tvo bestu vini sína. Þeir voru í sömu stöðu og hann hefur verið í síðastliðna þrjá mánuði. Hann missti þá báða fyrir það að þeir gáfust upp og sviptu sig lífi með stuttu millibili.

Það versta var samt það þegar hann sagði mér að þar sem hann hefði leitað sér hjálpar Mannfyrirlitning peningavaldsinsog reynt að vekja athygli á stöðu sinni fyndi hann fyrir fyrirlitningu og skilaboðum um að hann beri sjálfur ábyrgð á öllu saman!

Ég spyr hvernig ber hann ábyrgð á því að honum er ætlað að lifa á 150.000 á mánuði þegar það er sama stjórnsýsla sem skammtar honum þessa upphæð og „tjúnnar“ upp verðlagið!?!?

Óneitanlega hvarflaði það að mér þegar ég horfði á társokkin en sviplaus augun í svipbrigðalausu andliti þessa unga manns hvort ég ætti að gera eitthvað meira en þrýsta handlegg hans og krefjast þess að sjá hann aftur eftir hálfan mánuð eins og til stendur.

Kannski er þessi færsla örvona viðleitni til að gera eitthvað meira...

(Einnig birt sem glósa á Facebook)


Hann er runninn upp...

Frasar eins og hugarfarsbreyting, nýtt Ísland, uppgjör og gangsæi hafa verið áberandi veifur í hérlendri dægurmálaumræðu allt frá hruni. Lítið hefur þó farið fyrir öllu þessu í reynd enda öflugir flöskuhálsar sem liggja einkum í eigna- og valdablokkunum sem hafa komið sér upp nöðruhreiðrum í samfélaginu. Nú virðist hins vegar hylla undir nýja tíma bjartsýnar vonar um að ofantalið verði loks að raunveruleika.

Samstaða: Flokkur lýðræðis og velferðarSamstaða er nýtt stjórnmálaafl sem lofar góðu bæði þegar tekið er mið af stefnu og fylgi. Í dag verður svo stofnfundur breiðfylkingar ýmissa stjórnmálaafla sem standa saman að rekstri Grasrótarmiðstöðvarinnar. Hver veit nema það eigi líka eftir að koma fram fleiri framboð sem verða álitlegur kostur þeim sem hafa kallað eftir alvöru breytingum samhliða alvöru uppgjöri.

Eftir fréttir föstudagsins, sem leiddu í ljós stórkostlegt fylgi við Samstöðu, hafa vonir manna um að tími fjórflokksins sé útrunninn glæðst verulega. Styrmir Gunnarsson segir í pistli sínum inni á Evrópuvaktinni„þeir sem áður töldu ólíklegt að ný stjórnmálaöfl mundu koma að ráði við sögu í næstu þingkosningum eða skipta máli verða að endurskoða það mat sitt“ og er ekki annað hægt en taka undir þessi orð!

Fylgi Samstöðu ætti að vera fagnaðarefni öllum sem hafa óskað þess í orði eða á torgi að fjórflokkurinn legðist af. Í því felst tækifærið til að gera alvöru úr því að koma fjórflokknum fyrir kattarnef enda nauðsynlegt almannahagsmunum.

Loks er tíminn runninn upp þar sem við getum gert okkur raunverulegar vonir um að koma fylgi gömlu flokkanna allra vel undir 15%-in. Þeir sem hafa áttað sig á því að þessir vinna aðeins að hagsmunum rétt rúmlega 3.000 fjölskyldna í landinu hafa þess vegna fullt tilefni til að hætta öllum barlómi og leggjast á eitt um að gera næstu alþingiskosningavöku að líkvöku fjórflokksins en um leið sigurhátíð þess sem viðspyrnan í landinu hefur barist fyrir í bráðum þrjú og hálft ár!

Að þessu sögðu er ekki úr vegi að hvetja alla til að horfa á myndbandið hér að neðan sem var tekið upp á laugardagsfundi í Grasrótarmiðstöðinni þ. 21. janúar sl. en þá sögðu fulltrúar Öldu: Félags um sjálfbærni og lýðræði frá tillögum félagsins um lýðræðislegan stjórnmálaflokk. Í myndbandinu svarar Kristinn Már Ársælsson ýmsum spurningum um það hvernig slíkur flokkur virkar:


mbl.is Möguleikar nýju framboðanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ísleifsson: Lífeyrissjóðirnir í ólgusjó

Ólafur ÍsleifssonÓlafur Ísleifsson, hagfræðingur og lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, leiðir næsta laugardagsfund sem verður haldinn í Grasrótar- miðstöðinni, Brautarholti 4. Fundurinn hefst kl. 13:00 laugardaginn 11. febrúar en þar mun Ólafur fjalla um lífeyrissjóðakerfi landsmanna.

Í umfjöllun sinni mun Ólafur fara yfir forsendur fyrir þróun og fjárhagsstöðu lífeyrissjóða. Auk þess sem hann mun ræða um hætturnar sem steðja að lífeyrissjóðum landsmanna og nauðsynlegar úrbætur í ljósi nýútkominnar skýrslu nefndar sem starfaði á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða.

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að Ólafur Ísleifsson er meðal þeirra hagfræðinga sem hafa verið ómyrkir í gagnrýni sinni á stjórn efnahagsmála í landinu, þ.m.t. fjármál lífeyrissjóðanna. Það má því búast við virkilega áhugaverðu erindi og eldfjörugum umræðum í framhaldinu.

Bent skal á að viðburður hefur verið stofnaður inni á Facebook til að auglýsa þennan fund (sjá hér). Grasrótarmiðstöðin er líka komin með heimasíðu þar sem viðburðir á vegum grasrótarinnar eru auglýstir (sjá hér)

Grasrótarmiðstöðin

Laugardagsfundirnir eru orðnir fastur liður í dagskrá Grasrótarmiðstöðvarinnar. Þeir sem hafa leitt fundina hafa bæði verið einstaklingar og fulltrúar grasrótarhópa sem hafa verið virkir í viðspyrnunni frá hruni. Á þessu ári hafa nú þegar verið haldnir þrír slíkir fundir.

Á þeim hafa fulltrúar Öldu: Félags um sjálfbærni og lýðræði kynnt tillögur sínar um lýðræðislegan stjórnmálaflokk, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna sagt frá kröfunum á bak við undirskriftarsöfnun Samtakanna og viðtökum stjórnvalda og síðasta laugardag útskýrði Jón Þór Ólafsson, höfundur bókarinnar „The Game of Politics“ hvaða leiðir væru vænlegastar til árangurs í viðleitninni við að hafa áhrif á stjórnvöld. Gestir á þessum fundum hafa að jafnaði verið á milli 50-70.

Fyrirlestrarnir sem hafa verið fluttir á þessu ári hafa verið teknir upp og eru nú aðgengilegir á myndbandsvefnum You Tube. Það á þó eftir að vinna eitthvað úr umræðunum í framhaldi þeirra þannig að það má vera að það eigi eftir að bætast meira við.   Hér sjá t.d. þessa klippu úr fyrirlestri Andreu J. Ólafsdóttur, formanns Hagsmunasamtaka heimilanna).

Það er hægt að finna þau öll með því að slá inn: Grasrótarmiðstöðin í leit á You Tube. Með tíð og tíma verða þau svo vonandi öll aðgengileg inni á heimasíðu Grasrótarmiðstöðvarinnar.


Ræður af síðasta borgarfundi s.hl.

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að viðspyrnuöflin í grasrótinni stóðu fyrir borgarafundi í Háskólabíói þ. 23. janúar sl. Yfirskrift fundarins var: Er verðtryggingin að kæfa heimilin? Fundurinn var tvískiptur þar sem fyrri hlutinn var helgaður reynslusögum en í seinni hlutanum var fjallað um verðtrygginguna og hugað að lausnum.

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir og Karl Sigfússon  byrjuðu fundinn. Það er vika síðan ræður  þeirra voru settar inn á You Tube. Ég birti þær á þessu bloggi í síðustu viku. (Sjá hér) Myndbandið með ræðu Karls er núna myndband mánaðarins inni á eyjan.is (sjá hér) og áhorfið á það að nálgast 1300.

Nú eru myndböndin með ræðum Marinós G. Njálssonar og Guðbjörns Jónssonar líka komin inn á You Tube. Þeir styðjast báðir við glærur í fyrirlestrum sínum sem sjást ekki í upptökunum hér að neðan en það er rétt og skylt að taka það fram að notandi sem kallar sig kryppadotcom inni á You Tube tók upp nær allan fundinn og setti myndböndin þangað inn í fjórum hlutum tveimur dögum eftir fundinn. Hér er fyrsti hlutinn. Glærurnar sem ræðumenn vísa til sjást í upptökunni hans.

Marinó G. Njálsson setti líka glærurnar sem hann styðst við í fyrirlestrinum sínum inn á bloggið sitt en ræðan hans er hér:



Hér er svo ræða Guðbjörns Jónssonar en það má benda á það hér að hann hefur sjálfur gert You Tube myndbönd í þremur hlutum þar sem hann fer ýtarlega yfir verðtrygginguna. Bæði lög og framkvæmd. Hér er krækja í fyrsta hluta þeirra.



Að lokum má láta það fylgja þessari færslu að til stóð að halda framhaldsfundi í Háskólabíó þann 20. febrúar n.k. þar sem megináherslan yrði lögð á spurninguna um eignaréttinn. Þ.e. hvort það stangist virkilega ekki á við nein lög að lánveitandi geti hirt eignir lántakenda skilyrðislaust upp í hvaða skuldaupphæð sem er algerlega óháð því hvernig lánið stendur að öðru leyti.

Það má vera að af þessum fundi verði þegar líður að vorinu en viðspyrnuöflin sem hafa staðið að borgarafundum um málefni lántakenda, fyrst í september sl. og svo núna í janúar, sáu sig tilneydd til að fresta fyrirhuguðum framhaldsfundi um óákveðinn tíma.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband