Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012
Einræðið á Alþingi
30.12.2012 | 21:29
Það eru litlar sem engar líkur á því að nokkur þeirra fjölmiðla sem hefur umtalsverða útbreiðslu muni vekja athygli á eða fjalla um það alvarlega atvik sem átti sér stað í þingsal nú fyrir jólin. Á síðasta þingfundi Alþingis, nánar tiltekið að kvöldi þess 21. desember, beitti forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þvingunarvaldi til að freista þess að knýja fram aðra niðurstöðu í atkvæðagreiðslu sem hún vildi ekki una.
Í eftirfarandi myndbandi má setja sig inn í þessa atburðarrás sem átti sér stað við atkvæðagreiðslu um breytingartillögu við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hér sést hvernig Jóhanna Sigururðadóttir bregst við þegar hún áttar sig á því að tillaga Lilju Mósesdóttur og Eyglóar Harðardóttur um lækkun á virðisaukaskatti á taubleium úr 25% niður í 7% hefur fengist samþykkt.
Jóhanna bókstaflega sprettur upp úr sæti sínu og grípur til aðgerða. Eftir að hafa ætt nánast fnæsandi um þingsalinn endar hún á því að skipa forseta Alþingis að boða til þinghlés og láta endurtaka atkvæðagreiðsluna að því loknu:
Þinghléið hefur væntanlega verið notað til að tala yfir hausamótunum á heimilisköttunum. Árangurinn af tiltalinu og e.t.v. atlögu Jóhönnu Sigurðardóttur í þingsalnum eru breytingar sem koma fram með því að bera myndirnar hér að neðan saman:
Niðurstaðan varð sú að breytingartillagan var samþykkt í báðum tilvikum en í fyrri atkvæðagreiðslunni með 27 atkvæðum gegn 21 en í þeirri seinni með 24 gegn 23. Það má líka benda á að í stað þess að aðeins einn þingmaður sæti hjá í fyrri atkvæðagreiðslunni eru þeir þrír í þeirri seinni.
Nei sögðu eftirtaldir: Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Björn Valur Gíslason, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús Orri Schram, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þráinn Bertelsson, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson.
Þeir sem sögðu já eru: Atli Gíslason, Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Eygló Harðardóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þór Saari.
Hér er svo núverandi sætaskipan á Alþingi svo hægt sé að átta sig á hvaða þingmenn það eru sem létu Jóhönnu Sigurðardóttur segja sér fyrir verkum:
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.12.2012 kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Vegvillt viðspyrna
20.12.2012 | 11:13
Ein grundvallarforsenda þess að ná góðum árangri í hverju því sem maður tekur sér fyrir hendur er að gera sér skýra grein fyrir markmiðinu sem maður vill ná. Það er þó ekki alltaf alveg nóg því ef markmiðið er hugmyndafræðilegs eðlis þá þarf ýmislegt fleira að koma til. Eitt grundvallaratriðið er þó að gera sér fulla grein fyrir merkingu hugtakanna sem eru bundin markmiðinu og því hvernig þeim verður best þjónað þannig að markmiðið geti orðið að veruleika.
Viðspyrna verður til
Það leggur engin af stað í langt og strangt ferðalag sem samfélagslega meðvituð viðspyrna útheimtir nema vera knúin áfram af markmiði. Viðspyrnulestin sem lagði af stað haustið 2008 fylltist af farþegum sem töluðu sumir hærra en aðrir um réttlæti, jöfnuð, gangsæi og fleiri hugmyndafræðileg hugtök sem flestir hugðu að um ríkti sameiginlegur skilningur.
Eftir því sem liðið hefur á ferðalagið er þó ljóst að þeir sem tóku sér far með þessari lest voru margir hverjir með annaðhvort afar óljósar hugmyndir um hvert ætti að stefna eða tilgangur þeirra var frá upphafi allt annar en sá að vinna að hagsmunum samfélagsheildarinnar.
Á því fjögurra ára ferðalagi sem ég á að baki innan viðspyrnunnar hefur það runnið upp fyrir mér að viðspyrna alltof margra hefur aldrei snúist um annað en koma sér og sínum að við stýrishjólið án þess að skeyta nokkuð um heiðarleik- ann, lýðræðishallann eða kerfisvilluna.
Þrátt fyrir að þessir hafi barist undir sömu merkjum og aðrir innan við- spyrnunnar hefur barátta þeirra snúist um tilteknar persónur eða andlit en ekki málefni. Þessir hafa haldið á lofti merkjum gegn því sem allir eru sammála um að sé óréttlæti, misskipting og spilling með annarri hendinni en á sama tíma hefur hin strokið malandi fressköttum misskiptingarinnar.
Hin eiginlega grasrót lét lengi vel blekkjast en nú þegar raunverulegur tilgangur þeirra sem skipuðu sjálfa sig til forystu hefur verið að koma æ, betur í ljós er grasrótin sundruð og villuráfandi enda alls ekki allir sem vilja kannast við að viðspyrna þeirra hafi verið misnotuð á þennan hátt. Þar af leiðandi hefur komið upp ágreiningur um það hvað hrinti viðspyrnunni af stað í upphafi og hvað hefur knúið hana áfram síðan.
Í síðustu alþingiskosningum varð töluverð endurnýjun á þingmönnum bæði í gegnum gamla fjórflokkinn og svo með mótmælaframboðinu sem bauð sig fram í fyrsta skipti. Margir væntu breytinga með nýsamsettri stjórn en flestir þeirra áttu líka í erfiðleikum með að viðurkenna það í orði að Samfylkingin var í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum þegar efnahagskerfið hrundi. Úrslit kosninganna var því ekki sú endurnýjun sem margir vildu halda fram.
Hálmstráin í grasrót viðspyrnunnar
Eins og alþjóð veit er vanhæfnin síst minni í núverandi stjórnarsamstarfi en árin á undan enda einhverjir sem áttuðu sig á því fyrir kosningarnar að litlar líkur væru á breytingum þar sem engin meðal núverandi stjórnarflokka talaði af sannfæringu fyrir raunverulegum breytingum í aðdraganda þeirra. Þvert á móti var talað í óljósum slagorðum sem innihéldu traustvekjandi hugtök eins og: skjaldborg heimilanna, uppgjör við hrunið og samfélagssáttmáli.
I reynd getur engin mótmælt því að núverandi stjórn hafi ekki unnið að þessu hörðum höndum en það var aldrei ætlunin að útkoman tæki til alls samfélagsins eins og að var látið liggja. Það er útlit fyrir að örlög viðspyrnunnar gætu orðið þau sömu. Þeir sem höfðu hæst þar skipuðu sjálfa sig foringja hennar og leiddu hina með sér eftir ógreinilegum vegvísum sem miðuðu að því að koma þeim sjálfum eitthvað áleiðis.
Áföllin sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum frá haustinu 2008 eru mörg og kreppurnar sem þau hafa orsakað margvíslegar. Þær eru ekki aðeins af veraldlegum toga heldur andlegum líka.
Það er óneitanlega aðgengilegra að bregðast við því sem er áþreifanlegt en hinu sem byggir á hugmyndafræðilegum grunni. Þannig má frekar búast við fjöldaaðgerðum við efnahagshruni sem kemur fram í heimilisbókhaldinu en því þegar hugmyndafræðilegum innistæðum er rænt í þeim tilgangi að endurreisa áhrifahópa sem stjórnuðu öllu fyrir hrun.
Það sem dregur enn frekar úr líkum þess að fjöldinn bregðist við þessum svikum er að meðal þeirra sem vinna þeim brautargengi eru andlit margra sem komust til áhrifa í krafti þess að vera hugmyndafræðilegir leiðtogar viðspyrnu fólksins.
Mótmælaframboðið sem kom fram í síðustu kosningum setti ekki síður en hinir flokkarnir fram óljós slagorð sem innihéldu traustvekjandi hugtök eins og: brú þjóðarinnar inn á þing, vera rödd grasrótarhópa og opna glugga þingsalarins út á Austurvöll. Í stuttu máli var svo að sjá að hér væri lýðræðið, sem viðspyrnan var sammála um að hefði verið fótum troðið, komið í góðar hendur. Þar af leiðandi bjuggust þeir sem studdu mótmælaframboðið við því að hagsmunir almennings fengju meira vægi með því að fulltrúar þess komust inn á þing.
Til að byrja með var ekki annað að sjá en það framboð sem eignaði sér mótmælin og grasrót þeirra væri trútt upprunanum sem það kenndi sig við. En frá og með haustinu 2011 fóru línurnar að skýrast þannig að hverjum mátti vera það ljóst í hvað stefndi. Grasrótin varð óskilgreindur massi sem fleytti þeim sem komust inn á þing í þægilegri staði en misstórfenglegar mótmælaaðgerðir og oft og tíðum gustmiklar umræður grasrótarinnar um lausnir.
Fæstir átta sig á því hvar og hvernig þessi atburðarrás byrjaði og þeir eru nokkrir sem vilja ekki skilja það enn að þeir sem skipuðu sér til forystu þess málstaðar sem mótmælin gengu út á hafa flestir heillast af misvitrum en slóttugum einstaklingum sem tilheyra hópnum sem viðheldur núverandi kerfi.
Sviðinn viðspyrnuvöllur
Það er ekki annað að sjá en þeir sem komu sér til áhrifa á hávaðaöldum búsáhaldanna hafi verið fljótir að læra. Þeir hafa því ekki aðeins sagt skilið við baráttumál grasrótarinnar heldur tekið upp málstað hópsins sem á enga hugsjón nema viðhalda eigin sérhagsmunum. Það hefur heldur ekki farið fram hjá neinum sem vill við þetta kannast hvernig þessi hópur hefur tileinkað sér hugsjónir þeirra og aðferðir sem byggja stöðu sína og forréttindi á því að þeir séu réttbornir til valda.
Kannski fór þetta svona af því markmiðin sem lagt var af stað með í upphafi voru ekki nógu skýr. Kannski fór þetta svona af því skilningurinn á grundvallarhugtökum eins og réttlæti og jöfnuði var aldrei sameiginlegur. Kannski er grundvallarmisskilningurinn tengdur hugmyndinni um lýðræðið. Kannski má líka skrifa þessa útkomu á skortinn á spurningum og svörum eða m.ö.o. að engin uppdráttur var til af því hvernig útkoman skyldi líta út eða leiðarvísir að áfangastaðnum eða markmiðinu.
Hins vegar er það ljóst nú í aðdraganda næstu alþingiskosninga að stór hluti þeirra sem hafa komið sér til áhrifa í krafti þess að hafa verið meðal Austurvellinganna haustið 2008 hafa tekið sér sama vald og aðrir pólitíkusar á undan þeim. Þ.e. að nýta sér hópa til að koma sér áfram án þess að vera í vitsmunalegu og/eða jafnræðislegu sambandi við þá.
Sá hópur sem hefur komið sér saman um annars ágæta stefnuskrá Dögunar hefur þannig sett á svið það sem má kenna við lýðræði, málfrelsi og gangsæi. Útkoman hefur verið sú að sá frekasti hefur ráðið, lokað hefur verið á þá sem eru ekki sammála eða þeir verið gerðir brottrækir og stjórnmálaflokknum hefur verið tryggt fjármagn úr ríkissjóði fyrir opnum tjöldum með því að taka upp kennitölu þess stjórnmálaflokks sem þingmennirnir í hópnum tilheyrðu í upphafi núverandi kjörtímabils.
Einhverjum kann að finnast að það verði ekki betur farið með lýðræðið en láta þeim sem eru flinkastir að beita valdi það eftir að ráða og loka um leið háværar og/eða hvassyrtar gagnrýnisraddir úti. Einhverjum kann jafnvel að finnast að það sé líka eðlilegt að stéttskipta lýðræðinu þannig að sú grasrót sem mótmælaframboðið byggði tilveru sína á sé öguð til þess að líta upp til malandi fresskatta í tækifærisbúningi viðspyrnupenna.
Penna sem komu e.t.v. aldrei nær mótmælunum en svo að þeir voru áhorfendur þeirra á einhverju kaffihúsinu við Austurvöllinn þar sem þeir höfðu tyllt sér niður til að upplifa stemminguna í kringum það að þá hnarreist grasrót berði sér til hita í baráttunni fyrir samfélagsumbótum haustið 2008 fram til janúarloka 2009. Þessir jafnt og aðrir fulltrúar nýja framboðsins, sem vill rekja uppruna sinn í þennan vettvang, koma sér þannig undan því að viðurkenna það fyrir vinum sínum í grasrótinni að þeir eru og hafa aðallega alltaf verið uppfyllingaratriðið til að koma tilteknum einstaklingum til valda.
Eins sorglegt og það er að segja það þá er útkoman, þegar upp er staðið, út úr þeirri viðspyrnu, sem margir hafa lagt ómældan tíma, orku og vitsmuni í, sú að ótrúlega stór hópur einstaklinga sem áttu ekki aðra hugsjón en leiðrétta stöðu sína í samfélaginu hefur væntanlega tekist að lappa upp á sitt eigið egó.
Viðspyrnan á betra skilið
Allur sá fjöldi sem hefur hvað eftir annað fyllt Austurvöllinn og aðra vettvanga víða um land frá efnahagshruninu haustið 2008 á annað og betra skilið en að barátta þeirra sé misnotuð í þágu þeirra sérhagsmuna sem grundvalla og viðhalda óréttlætinu sem rak það til viðspyrnunnar. Fólkið, sem mætti til að mótmæla eða hlusta á erindi á borgarafundum og víðar til að standa með viðspyrnunni án þess að trana sér fram til stórtækari áhrifa af því það treysti, verðskuldar ekki slík svik.
Þetta fólk treysti þeim sem töluðu um leiðréttingu gjaldeyrislána, afnám verðtryggingar, lýðræðisumbætur, uppgjör við hrunið, aukið réttlæti og plan B í efnahagsaðgerðum. Fólkið sem hefur komið tugþúsundum saman til að berja búsáhöld og síðar tunnur stóð saman í kröfunni um að fá tækifæri til að lifa af.
Það barðist fyrir launakjörum sem dygðu fyrir framfærslunni, vörn gegn bönkum og innheimtustofnunum sem ógna eignarétti heimila og smáfyrirtækja, vörn gegn stórfyrirtækjunum sem ógna atvinnuvegunum í landinu og krafðist þess að þingið settu heimilin og atvinnuvegina í forgang.
Það treysti að einmitt þeir sem fóru inn á þing fyrir mótmælin myndu hlusta. Þeir sem vilja við það kannast sjá það hins vegar af málefnaáherslum framboða þeirra að hlustir þeirra hafa bilað. Annað er upptekið af vernd heimildamanna og hitt stjórnarskrármálinu.
Það átakanlegasta er þó það að í stað þess að þingmennirnir í þessum hópi standi með þeim fáu á Alþingi sem hafa reynt að standa uppi í hárinu á ríkisstjórninni þá hafa þeir orðið stöðugt ríkisstjórnarhollari eftir því sem liðið hefur nær næstu alþingiskosningum.
Sannir viðspyrnendur snúa baki við þeim sem bregðast en gefast aldrei upp enda framtíð heils samfélags í húfi. Samfélags sem við búum í og berum ábyrgð á að hlúa þannig að, að það komist heilt í hendur næstu kynslóða.
Viðspyrnendur, sem átta sig á því að það að gefast upp nú er það sama og leyfa því sem olli hruninu að blómstra hér á ný, spyrna enn við fótum. Engin sem kann að hugsa það til enda myndi heldur kæra sig um að verða undir í þannig samfélagi sem tekur við ef ekkert verður að gert. Engin sem á afkomendur getur heldur óskað þeim þeirrar framtíðar sem blasir við fái fjármálaöflin að leika hér óheft sinn gráa leik með afkomu og líf óbreyttra borgara.
Allt sem þarf til að viðspyrnan nái árangri er: Að skapa samstöðu fólks með ólíkan bakgrunn, með ólíkar lífsskoðanir en á það sameiginlegt að eiga líf sem þarf að vernda og vilja til að vernda það. (sjá þessa færslu Ómars Geirssonar) Við þurfum að mynda samstöðu þar sem málefnin ráða för frekar en persónur og læra að greina á milli. Við þurfum líka að átta okkur á því hvaða persónur standa fyrir málefnum sem varða almannahagsmuni og hvaða persónur standa bara fyrir sitt eigið egó.
Við þurfum nefnilega að hlusta eftir innihaldi og kynna okkur málin. Við þurfum líka að gæta okkar sérstaklega gagnvart eftirprentunum og leita að frumútgáfunni. Við þurfum að gera kröfur! Það er ekki nóg að sópa upp flokkum og fólki. Því miður duga þeir sem ástunda sófabyltingar í plussófum með lærðar kenningar um mannréttindi að vopnum lítt gegn þeim hrægömmum sem hafa blóðmerkt sér Ísland. Í slíkt sérverkefni þarf þéttan hóp sem endurspeglar a.m.k: þekkingu, færni, úthald og skynsemi!
Þetta var aldrei einleikið
19.12.2012 | 00:47
Ekkert sem ég hef skrifað hingað til hefur tekið jafnlangan tíma og það sem fer hér á eftir. Ritunartíminn er orðinn að fullu hálfu ári en úrvinnslutími sumra atriðanna sem hér eru leidd fram hafa tekið miklu lengri tíma. Sum þeirra hafa valdið mér miklum heilabrotum. Það sem um er að ræða er eiginlega yfirlit eða uppgjör við þann tíma sem ég var samferða Hreyfingunni og grasrót hennar sem ég hef komist að niðurstöðu um að eigi erindi við fleiri en mig eina.
Grasrót verður til
Þegar ég las um fyrstu atvik hrunsins mánudaginn 29. september 2008 þá áttaði ég mig strax á því að þau væru ekki einleikin. Viðspyrnan sem byrjaði að láta á sér kræla í október var ekki einleikin heldur þó hún hafi reyndar strax í upphafi leitt fram nokkra einleikara sem urðu fyrirferðarmeiri en aðrir. Það er þó rétt að taka það fram að þetta var og hefur verið meira áberandi á viðspyrnuvettvangi höfuðborgarinnar en annars staðar á landinu.
Í hinum frjóa jarðvegi viðspyrnunnar í kringum miðju Reykjavíkurborgar spruttu líka upp hugmyndirnar um stofnun nýs stjórnmálaafls sem tæki meginkröfur mótmælanna upp á sína arma. Það er ljóst að þessar umræður voru á engan hátt einleiknar en alveg frá upphafi tókust ýmsir einleikarar þar á með þeim lyktum að einhverjir urðu ofan á og aðrir undir.
Þeir sem þekkja til vita að ég var búsett á Akureyri á þessum tíma þannig að ég var ekki viðstödd þessar fæðingarhríðir Borgarahreyfingarinnar en fylgdist með úr fjarlægð. Sú fjarlægð gerði það að verkum að margt af því sem fram fór í fæðingarferlinu skilaði sér ekki til mín fyrr en miklu síðar.
Ég get ekkert fullyrt um það rúmum þremur árum síðar hvort það sem ég veit nú hefði breytt einhverju um það að ég ákvað að taka þátt í að bjóða fram fyrir Borgarahreyfinguna vorið 2009. Það hefur hins vegar aldrei verið neitt launungamál að krafa mín í viðspyrnunni hefur aldrei snúist um það að knýja fram nýjar alþingiskosningar án þess að reyna einhverjar aðrar leiðir fyrst.
Hins vegar varð niðurstaðan í ársbyrjun 2009 sú að boða til alþingiskosninga og í því ljósi get ég ekki annað en fagnað því að Borgarahreyfingin hafi orðið til þó það sé langur vegur frá því að ég geti fagnað öllu því sem að tilveru hennar hefur snúið síðan. Það er ekki mitt að meta hver ber ábyrgðina á öllu því sem hefur gengið á þann tíma sem er liðinn frá því sú niðurstaða lá fyrir að Borgarahreyfingin kom fjórum þingmönnum inn á þing en þó tel ég einsýnt að ein ástæðan sé sú að einleikarnir voru of margir.
Fyrsta þingár grasrótarframboðsins
Það leið eitt ár frá því að þingmennirnir fjórir tóku sæti á Alþingi þar til ég flutti til höfuðborgarinnar. Ég hélt því áfram að horfa á framvinduna úr fjarlægð. Það er engan veginn hægt að gera sér grein fyrir því nú hver afstaða mín hefði verið, hvað varðar sundurlyndið milli þingmannanna og grasrótarinnar, hefði ég verið á staðnum. Þó finnst mér líklegra að ef ég hefði treyst mér til að velja þá hefði ég gert það sama og ég gerði þá einfaldlega af þeirri ástæðu að í mínum augum þá var von til þess að nýorðnir þingmenn myndu standa við það sem þeir sögðust ætla að gera.
Þ.e. það er mitt mat að það að viðspyrnan átti fulltrúa inni á þingi skipti meira máli en þær furðulegu skærur sem ég hafði veður af. Ég sat líka á fundinum haustið 2009 þar sem þingmennirnir tóku sig saman og gengu út af aðalfundi Borgarahreyfingarinnar. Það sem ég sá og heyrði á þeim fundi hefur fylgt mér síðan sem vitnisburður um það að þingmennirnir áttu engan betri kost en kljúfa sig frá þeim hópi sem þar sat eftir.
Auðvitað fannst mér það furðulegt að allur peningurinn sat eftir hjá flokknum en sú staðreynd var líka til vitnis um það hvurs konar hópur sat eftir í stjórn Borgarahreyfingarinnar. Ég vissi það þá og hef nokkrum sinnum síðar orðið beinlínis vitni að því hvurs lags áfall allur leikþáttur sumarsins 2009 var þingmönnunum þremur sem stofnuðu nýtt stjórnmálaafl. Stjórnmálaafl sem var nánast kópering af Borgarahreyfingunni sem kemur kannski ekki síst fram í því að heiti þess nýja varð eins og stytting á heiti móðurflokksins.
Frá mínum bæjardyrum séð var Borgarahreyfingunni hróflað upp á ótrúlega skömmum tíma og eflaust má skrifa ýmisleg byrjunarmistök hreyfingarinnar á þann stutta tíma sem einstaklingarnir, sem lögðu nótt við dag, höfðu til að koma framboðinu saman. Ég ætla ekki að tíunda þau hér en eins og áður sagði þá grunar mig að stærsta þáttinn megi rekja til þess að of margir einleikarar kölluðust til þessa verkefnis.
Þetta kom fram í undirbúningnum, röðuninni á lista og fyrstu vikurnar og mánuðina eftir að Borgarahreyfingin komst inn á þing. Svo kom skellurinn og Borgarahreyfingin sat eftir þingmannslaus. Einn þingmannanna var farinn yfir til Vinstri grænna en hinir þrír stofnuðu nýja hreyfingu og réðu til sín starfsmann. Á stofnfundi Hreyfingarinnar var ég kjörin varamaður í stjórn en var ekki viðstödd fundinn og vissi ekki af þeirri ráðstöfun sem mig varðaði fyrr en hálfu ári síðar.
Ræturnar stóðu ekki lengi
Sumarið eftir klofninginn flutti ég svo til borgarinnar og fór að taka virkari þátt. Þar var ýmislegt öðru vísi en ég hafði ímyndað mér úr fjarlægðinni. Þetta var að mörgu leyti góður hópur en hann var frekar einsleitur. Ef það var eitthvað sem einkenndi hann öðru fremur þá var það hvatvísin. Það var kannski fyrir hana sem Tunnumótmælin 4. október 2010 urðu að veruleika en við vorum þó ekki nema tvær sem stóðu þeim að baki sem tilheyrðum svokölluðum kjarnahópi Hreyfingarinnar. Hinir komu úr ýmsum áttum. Sumir flokksbundnir og aðrir ekki.
Það var hins vegar í Tunnubyltingunni sem það fóru að renna á mig tvær grímur varðandi það hvort ég væri á réttum stað með því að fylgja Hreyfingunni. Ástæðan fyrir því að ég hafði leiðst út í það að styðja þingmennina með svo áberandi hætti að mæta á landsfund Borgarahreyfingarinnar haustið 2009 og ganga með þeim út af fundinum var sú grundvallarhugsun sem kom fram í slagorði Borgarahreyfingarinnar: þjóðin á þing og sú yfirlýsing að þingmennirnir ætluðu sér að brúa bilið á milli þjóðarinnar og þingsins og stuðla að bættri samvinnu við grasrótina sem hafði að mestu sprottið upp úr sama jarðvegi og Borgarahreyfingin.
Í Tunnubyltingunni gat ég ekki betur séð en þessu væri þveröfugt farið. Þó einhverjir þingmannanna þriggja auk starfsmannsins tækju þátt í því að vekja athygli á Tunnuviðburðunum náðist aldrei samhent átak í þessum hópi við það sem Tunnurnar voru að gera. Starfsmaður Hreyfingarinnar setti saman hugmynd upp úr hugmynd einnar úr Tunnuhópnum sem Hreyfingin lagði fram á þingi á svipuðum tíma og undirskriftarsöfnun um utanþingsstjórn var í undirbúningi á vegum tveggja úr Tunnuhópnum.
Einn þingmannanna kórónaði svo verknaðinn með því að eigna þingflokki Hreyfingarinnar þann titring sem varð í kjölfar þess að undirskriftarsöfnunin fór í loftið án þess að víkja að því einu orði að hugmyndin var fengin að láni frá grasrótinni. Hvað þá að hann hefði fyrir því að minnast á undirskriftarsöfnun hennar. Þetta svo og viðbrögðin við gagnrýni á þessa framkomu vöktu mér tortryggni. Tortryggnin í garð Hreyfingarinnar minnkaði ekki þegar þingflokkurinn tók að hrósa þremur Samfylkingarþingmönnum sérstaklega fyrir mannkosti sem ég átti erfitt með að kannast við að þeir stæðu undir.
En svo kom Icesave. Það voru einhverjir sem veltu vöngum yfir því hvar þingmenn Hreyfingarinnar væru þar sem þeir höfðu vænst þess að stuðningur þeirra yrði meira afgerandi. Ég ætla ekkert að efast um afstöðu þeirra í Icesave-málinu en ég var líka of upptekin af þátttöku minni í einum baráttuhópanna til að velta því sérstaklega fyrir mér hvað þeir voru að gera. Hins vegar vakti það athygli mína að Hreyfingin ákvað að halda sérstaka kosningavöku, að kvöldi dagsins sem þjóðin kaus með eða á móti þessum þætti Icesave vorið 2011, þó þeim væri boðið að taka þátt í þeirri sem baráttuöflin héldu sameiginlega.
Í stað þess að þingmenn Hreyfingarinnar þæðu boð Samstöðu þjóðar gegn Icesave og Advice-hópsins, sem þessi öfl héldu sameiginlega með öllum þeim sem vildu koma og vera með, héldu þeir sína eigin kosningavöku með starfsmanni sínum og tryggustu stuðningsmönnum Hreyfingarinnar. Engin þeirra hafði tekið virkan þátt í viðspyrnunni sjálfri.
Þegar blómin fölna
Á fámennum aðalfundi Hreyfingarinnar í júní 2011 var ég sjálfri mér til mestrar undrunar kosin í stjórn Hreyfingarinnar en þá þegar var ég komin að þeirri niðurstöðu að tíma mínum væri betur varið í vinnu með grasrótinni en Hreyfingunni. Auk þess sem ég var tekin að hafa verulegar áhyggjur af þeirri gjá sem ég hafði áttað mig á þegar í Tunnubyltingunni að var á milli Hreyfingarinnar og hinnar eiginlegu grasrótar en hún hafði farið sístækkandi síðan.
Kannski var gjáin þarna á milli fyrir Tunnubyltingu en ég varð hennar ekki áþreifanlega vör fyrr en þá. Út frá mínum bæjardyrum séð þá hélt sú gjá áfram að breikka með ógnarhraða á meðan þingflokkurinn týndi sér alltaf meir og meir í því að hylla bæði menn og málefni sem þjónuðu frekar sérhagsmunahópum en almannahagsmunum.
Þetta kom ekki síst fram sumarið 2011 þar sem ég lagði það til að þingmenn Hreyfingarinnar legðu sig fram um að komast að samkomulagi við Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur um samstarf sem fór þannig að þegar þing kom saman þá um haustið varð ljóst að samstarf við ríkisstjórnina var Hreyfingunni mikilvægara en styðja þau málefni sem urðu til þess að Atli og Lilja sögðu sig frá ríkisstjórninni.
Þetta kemur líka fram í því sem kom út úr stofnun Grasrótarmiðstöðvarinnar. Ég, ásamt fleirum, lögðum okkur fram um að treysta því að allir þeir sem komu fram fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar við stofnun hennar væru ærlegir í því að skapa grasrótinni vettvang til að vaxa og dafna við lífvænlegar aðstæður. Að Grasrótarmiðstöðinni væri ætlað að verða vettvangur allra sem vildu vinna að heillavænlegum lausnum þeirra kreppna sem hafa komið út úr efnahagshruninu haustið 2008. Ég reyndar kom mér hjá því að sitja í stjórn Grasrótarmiðstöðvarinnar en lagði mig engu að síður fram um að gera hana að þeim vettvangi sem ég vildi trúa að henni væri ætlað að verða.
Auðvitað varð það mjög snemma ljóst að Grasrótarmiðstöðin var fyrst og fremst vettvangur umræðna sem leiddu til stofnunar þess stjórnmálaafls sem hefur kosið að kenna sig við Dögun. Það skal tekið fram að sjálf tók ég aldrei þátt í umræðunum sem leiddu til stofnunar Dögunar en fyrir tengsl mín við marga þeirra sem þar komu að vissi ég oft meira um það sem þar fór fram en ég kærði mig um að vita.
Skömmu eftir þingbyrjun haustið 2011 lét ég verða af því að segja mig úr stjórn Hreyfingarinnar með formlegum hætti. Þar benti ég á að mér fyndist kröftum mínum betur varið í að byggja upp grasrótina en sitja þar í stjórn. Það er að öllum líkindum skýring þess að þeir sem stýrðu þessari umræðu buðu mér aldrei til hennar.
Í nóvember 2011 varð ég þess áskynja að ýmsir í hópi Hreyfingar/Borgarahreyfingar höfðu hug á því að efna til samstarfs við ríkisstjórnina. Þegar umræðurnar fóru af stað var þingmönnunum gerð grein fyrir því af fulltrúum ríkisstjórnarinnar að samstarf kæmi ekki til greina nema þeir tækju stjórnarskrármálið fram yfir baráttuna fyrir heimilin. Þó þingmennirnir hafi reynt að neita því að af nokkru samkomulagi hafi orðið er ljóst að baráttumál þeirra frá síðustu áramótum hafa hvorki verið í takt við þá grasrót sem Borgarhreyfingin/Hreyfingin byggði tilveru sína á né í tengslum við grundvallaratriði lífsafkomunnar.
M.ö.o. þá hafa þingmennirnir fjórir sem komust inn á þing í kjölfar mótmælanna haustið 2008 glatað sambandinu við stærstan hluta þeirra kjósenda sem treystu þeim fyrir atkvæði sínu. Þeir hafa lokað sig af líkt og langflestir fulltrúar fjórflokksins inni í sínum eigin heimi. Þessi dapurlega staðreynd veldur mér sárari harmi en svo að mér takist að koma honum í orð. Harmurinn snertir þau sjálf, grasrótina sem treysti þeim, kjósendur þeirra og mig sjálfa.
Önnur leið
Til að fara hratt yfir sögu þá skráði ég mig í SAMSTÖÐU í febrúarbyrjun þessa árs. Á þessum tíma hafði ég setið í stjórn Grasrótarmiðstöðvarinnar um nokkurt skeið í afleysingum fyrir gjaldkera hennar. Í anda þess markmiðs sem Grasrótarmiðstöðinni var sett við stofnun hennar og í ljósi þess að SAMSTAÐA var húsnæðislaus vildi ég kanna hug annarra stjórnarmeðlima til þess að SAMSTAÐA fengi inni í Grasrótarmiðstöðinni.
Hugmyndin féll í afar misjafnan jarðveg og fannst einhverjum á fundinum það á engan hátt sanngjarnt að bera hugmyndina upp miðað við það hver staða innanhússumræðunnar um sameiningu ýmissa eldri smáflokka til nýs framboðs var stödd. Það var líka áberandi að þeir sem ætluðu sjálfum sér og sínum stað innan þess stjórnmálaflokks sem út úr sambræðslunni kæmi voru af einhverjum ástæðum viðkvæmari fyrir þeirri ákvörðun minni að gerast félagsmaður í SAMSTÖÐU.
Vissulega var þetta ekki einleikið en það var ljóst að ákvörðun mín ógnaði þeim sem voru uppteknari af sjálfum sér en hugsjónunum sem gerðu það að verkum að ég hafði lagt mig alla fram við að vinna að samvinnu og samtöðu allra þeirra sem eru sammála um að það eru lífskjör almennings, heimilin og atvinnulífið sem við þurfum að verja. Til að tryggja framtíð lands, þjóðar og menningar þarf meira til. Það þarf nýja hugsun og hugrekki til að reisa efnahagskerfið á innlendum stoðum.
Í aðdraganda þess að Borgarahreyfingin varð til fylgdist ég grannt með bloggum margra þeirra sem gengu síðar til liðs við Borgarahreyfinguna. Það fór ekki framhjá mér að margir þeirra tóku undir orð Lilju Mósesdóttur úr ræðum hennar á opnum borgarafundum í Iðnó og á Austurvelli. Það var svo að heyra þá að hugmyndir þeirra og hennar um ógnirnar sem steðjuðu að íslensku samfélagi og leiðirnar til lausnar færu saman.
Í kosningabaráttunni vísuðu frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar mjög í orð og hugmyndir Lilju varðandi hver vandamálin væru og hvaða lausnir bæri að skoða. Framan af var svo ekki annað að skilja en að þingmenn Borgarahreyfingar/Hreyfingar væru tilbúnir til að leggja hugmyndum Lilju lið og þessi ættu í nánu samstarfi við hana. Því miður bar þeim ekki nema takmörkuð gæfa til þessa samstarfs enda flest sem bendir til að hugur hafi ekki fyllilega fylgt máli.
Það má alla vega vera ljóst að þingmenn Hreyfingarinnar og þó nokkrir meðal þeirra dyggustu stuðningsmanna hafa ekki legið á liði sínu við þá ófrægingarherferð sem hefur verið viðhöfð til að kæfa niður vitræna og málefnalega umræðu um þær lausnir sem Lilja Mósesdóttir hefur lagt fram á kjörtímabilinu. Það er sanngjarnt að taka það fram að það bar ekki á þessu í fyrstu þó eitthvað hafi kraumað undir lengi vel þá heyrðu hnútur á borð við þær sem hafa sést á þessu ári bæði á Fésbókinni og víðar til undantekninga fram til haustsins 2011.
Ástæða þess að ég hef látið verða af því að birta þetta, sem hefur tekið mig hálft ár að setja saman, er sú að mér finnst innihaldið koma fleirum við en mér einni. Ástæða þess að ég byrjaði að reyna að koma þessu efni niður á blað var sú hvernig margt af þessum fyrrum félögum og kollegum opinberuðu sig í framkomu sinni við mig eftir að ég kaus að fara aðra leið en villigötuna sem ég get ekki betur séð að þau hafi ratað til. Þessi skrif eru þar af leiðandi ekki einleikin frekar en annað sem þau innihalda en þau eru fyrst og fremst uppgjör mitt við þann tíma sem ég átti með Hreyfingunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Alvarlega vegið að lýðræðinu
18.12.2012 | 11:28
Opið bréf frá forystu SAMSTÖÐU
Í samfélagi sem vill kenna sig við upplýsingu og lýðræði ætti ekki að vera erfiðleikum bundið að stofna stjórnmálaflokk og koma honum á framfæri við kjósendur. Ekki síst þegar um er að ræða samfélag þar sem ríkið rekur bæði útvarps- og sjónvarpsmiðil af skattfé almennings.
Eins og kunnugt er stofnaði Lilja Mósesdóttir stjórnmálaflokkinn SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar fyrr á þessu ári ásamt hópi einstaklinga sem höfðu unnið að því með henni að setja flokknum grundvallargildi og stefnuskrá. Frá upphafi hafa fjölmiðlar sýnt þessu nýja framboði daufar undirtektir og stefnumál hans því lítið komið fyrir sjónir eða eyru almennings. Skylt er þó að taka fram að nokkur landsmálablaðanna hafa staðið sig vel í að koma mismunandi sjónarmiðum á framfæri við lesendur sínar og birt greinar frá flokksfélögum SAMSTÖÐU.
Nú þegar líður að næstu alþingiskosningum hafa ný framboð fengið aukið rými í öllum stærri fjölmiðlum landsins með viðtölum við forystuaðila og aðra fulltrúa þessara flokka. Öll nema SAMSTAÐA. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir við bæði dagskrárgerðarmenn og þáttastjórnendur einkum hjá RÚV hefur fulltrúum flokksins ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum og stefnu flokksins á framfæri í þeim málaflokkum sem hafa verið til umræðu hverju sinni.
Það að fulltrúar SAMSTÖÐU hafa ekki fengið tækifæri til að koma stefnumálum flokksins á framfæri í útbreiddasta fjölmiðli landsins er mjög líklega ein þeirra skýringa að fylgi flokkins hefur fallið mjög hratt. Fleira kemur þó til en líkur benda til að Capacent beri þar ábyrgð líka. Staðfestar heimildir hafa nefnilega komið fram um það að nafn SAMSTÖÐU var ekki með á lista yfir aðra stjórnmálaflokka í viðhorfskönnun Capacent sem gerð var nú í nóvember en könnuninni var ætlað að mæla viðhorf fólks til stjórn- og þjóðmála.
Af framantöldu þykir fulltrúum stjórnar og framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU ástæða til að koma eftirfarandi á framfæri: Hvað Capacent varðar þá verða stofnanir og fyrirtæki sem gefa sig út fyrir það að vera hlutlausir aðilar við framkvæmd skoðanakannana að viðhafa vinnubrögð sem viðhalda trúverðugleika með gangsæi þannig að hægt sé að staðreyna niðurstöður sem birtar eru m.a. varðandi fylgi stjórnmálaflokka. Forráðamenn Capacent hljóta að taka þetta til alvarlegrar athugunar vilji þeir halda stöðu sinni sem leiðandi fyrirtæki á sviði rannsókna á viðhorfum fólks til stjórn- og þjóðmála.
Ástæða er til að hvetja fréttamenn RÚV til að taka upp fréttaflutning sem styrkir gagnrýna og lýðræðislega umræðu og framfylgja þannig lögum um ríkisútvarpið þar sem segir um hlutverk þess og skyldur: Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend [...] málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða. (sjá 7. lið 3. gr. laga nr. 6/2007)
Dagskrárgerðarmenn og þáttastjórnendur RÚV eru líka hvattir til að leggja sig fram um það við val á viðmælendum að raddir ólíkra sjónarmiða fái að heyrast í þeirri pólitísku umræðu sem þeir stýra og gæta þannig fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð (sbr. 5. lið 3. gr. laga nr. 6/2007).
Í aðdraganda alþingiskosninga ætti vantraust almennings, sem óneitanlega hefur verið mjög áberandi á undanförnum fjórum árum, að vera merki um ný vinnubrögð allra helstu stofnana samfélagsins. Miðað við skyldur fjölmiðla er ekki óeðlilegt að ætla þeim sem hafa atvinnu að fjölmiðlun að gera það að kappsmáli sínu að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi auk þess að gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram. (26 gr. laga nr. 38/2011)
Fjölmiðlar sem fjalla um nýjar hugmyndir og lausnir á þeim vandamálum sem grundvalla óánægjuna í samfélaginu munu að öllum líkindum laða að sér fleiri hlustendur og/eða lesendur auk þess að ávinna sér traust fyrir að uppfylla þær skyldur sínar að endurspegla ólík sjónarmið.
Fyrir hönd stjórnar og framkvæmdaráðs
SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar,
Rakel Sigurgeirsdóttir, kynningar- og tengslafulltrúi flokksins
Segja vegið að lýðræðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Í myrkviðum þagnarinnar
15.12.2012 | 00:14
Ég hef velt því fyrir mér að undanförnu hvort einelti geti orðið svo víðtækt að það sé hægt að tala um að það sé orðið á samfélagslega vísu...
... hvað annað skýrir það að eini þingmaðurinn sem hefur virkilega verið að vinna að því að setja fram heildrænar lausnir á því sem rak Íslendinga út á mótmælavöllinn haustið 2008 er í þeirri stöðu sem Lilja Mósesdóttir stendur frammi fyrir nú. Fjölmiðlar þegja þunnu hljóði yfir því sem hún leggur til umræðunnar og SAMSTAÐA nýtur engrar athygli þeirra; fréttatilkynningar frá flokknum eru hundsaðar svo og þeir sem eru þar í forystu.
SAMSTAÐA er eina nýja framboðið sem er undanskilið í þekktasta umræðuþætti í sjónvarpi. SAMSTAÐA er eini nýi flokkurinn sem er undanskilin á lista yfir stjórnmálaflokka í könnun um viðhorf fólks til stjórnmála. Fæstir þora að stíga fram til að viðurkenna stuðning sinn við stjórnmálflokkinn sem Lilja Mósesdóttir stofnaði. Samt voru þeir hátt í 1.000 sem kusu hana til öruggs sætis í prófkjöri VG vorið 2009.
Engin þeirra innlendu aðila sem hafa lagt til umræðunnar um hagstjórn eða annarra efnahagsaðgerða hefur þorað að leggja henni lið. Það er þó skylt að geta þess að einhverjir hafa stutt hana án þess að vilja gera þann stuðning opinberan eða ganga til liðs við flokkinn sem hún stofnaði. Frosti Sigurjónsson hefur þó ekki legið á fögnuði sínum yfir þingályktunartillögu Lilju Mósesdóttur um aðskilnað peningaprentunar og útlánastarfsemi bankakerfisins þó hann hafi frekar kosið að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn en SAMSTÖÐU.
Þeir eru nokkrir sem vilja halda því fram að þeir berjist fyrir sömu málum og Lilja Mósesdóttir hefur barist fyrir inni á þingi allt þetta kjörtímabil en í stað þess að þeir styðji hana í verki þá ganga þeir til liðs við aðra flokka, stofna sína eigin eða eyða tímanum í að finna flöt á því hvernig þeir fái hana til sín eða sölsa bara blátt áfram hugmyndir hennar undir sig.
Svo eru þeir því miður nokkrir sem leggja sig fram um að gera hana tortryggilega og viðhalda illa rökstuddum sögum um bakgrunn hennar. Það sem er enn dapurlegra er að þeir eru vissulega til sem taka slíkum sögusögnum gagnrýnislaust og hafa þar af leiðandi ekkert fyrir því að kynna sér verk hennar inni á þingi, málstað eða stefnuskrá SAMSTÖÐU.
Getur verið að ástæðan sé sú að fjármagns-eigendurnir eigi fjölmiðlana og fyrirtækin sem gera út á mælingar á viðhorfum fólks? En þeir eiga þó varla skoðanir almennings, eða hvað!?!
Í ljósi þess sem hefur verið vísað til hér að ofan er varla of langt gengið að spyrja sig hvort að fjármangseigendur óttist svo þekkingu og lausnarmiðaða hugsun Lilju að þeir hafi skipað undirsetum sínum að gera nú allt til að halda rödd hennar og viðhorfum fyrir utan alla miðla og mælingar? En er það ekki hæpið að þeir hafi gengið svo langt að búa líka til röngu myndina af Lilju sem eineltið þrífst á...
Þeirri spurningu er líka ósvarað hvers vegna pólitíkin kemur fram við Lilju Mósesdóttur á þann hátt sem raun ber vitni. Getur verið að pólitíkusarnir óttist ekkert frekar en hugmyndir hennar og verk dragi úr því sem þeir hafa lagt fram sjálfir? eða eigum við að gera ráð fyrir að fjármagnseigendur eigi þá líkt og fjölmiðlana og fyrirtækin sem gera út á mælingar á viðhorfum fólks?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)