Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Hugsunarháttur sem ýtir undir alvarlega firringu

Mér var bent á myndbandið, sem ég ætla að vekja athygli á hér, fyrir allnokkru. Mér var brugðið og ekki síst fyrir það að þetta á að vera fyndið. Mér fannst þá, og finnst enn, það grafalvarlegt mál að það „eigi að vera“ fyndið að grípa til „hreinsana“ á þeim sem eru fyrir. Mér finnst það líka grafalvarlegt mál að þeir sem skilja ekki svona „grín“ séu sakaðir um „húmorsleysi“ því hér á það við eins og annars staðar að öllu gamni fylgir nokkur alvara.

Að mínum dómi er þetta ekki dæmi um grín heldur firringu. Ég velti því líka óneitanlega fyrir mér hvort það sé ekki þannig komið að við verðum að horfast í augu við það að þegar morð „á að vera“ fyndið þá hefur eitthvað mikilvægara glatast? Þarf ekki að velta því fyrir sér líka hvort það hafi ekki afleiðingar? Í mínum augum er alvarleiki þess sem „grínið“ hér á að snúast um það mikill að mér finnst það jaðra við ábyrgðarleysi að finnast það fyndið.

Fyrir þá sem þekkja ekki „Steindann okkar“ þá skal það tekið fram að þetta er sjónvarpsþáttur sem var, og kannski er, sýndur á Stöð 2. (Sjá nánar hér) Þátturinn er með Fésbókarsíðu sem á yfir 15.000 aðdáendur.

Hérna er myndbandið. Þegar tvær mínútur eru liðnar af myndbandinu hefst það sem ég vil vekja athygli á og setja spurningarmerki við. Ég tek það fram að það þarf enginn að ómaka sig við að reyna að útskýra fyrir mér hvað á að vera fyndið við þetta. Það hefur þegar verið reynt með nákvæmlega engum árangri.


mbl.is Slapp lifandi úr hildarleiknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syngjum til breytinga

Austurvallarkórinn ætlar að koma saman og syngja nokkur kreppulög í Kolaportinu klukkan 14:00 í dag. Tilefnið er ekki eingöngu mótmælin úti Evrópu og víðar heldur það að vekja áheyrendur til glaðvakandi meðvitundar um óréttlætið og lýðræðishallann sem við búum við. Við höfum nefnilega ekki efni á því að sitja þegjandi undir þeim hörmungum sem stjórnsýslan og fjármálastofnanirnar eru að leggja á þjóðina.

Austuvellingar

Flestir textarnir á söngdagskránni eru við þekkt íslensk lög en hefur verið snúið þannig að þeir fjalla um alþekktar afleiðingar kreppunnar á lífskjör almennings. Auk þeirra eru tvö lög eftir Magnús Þór Sigmundsson. Annað við texta eftir Hallgrím Helgason, sem hann orti upp úr Ísland er land þitt, en hitt er við texta Magnúsar Þórs. Viðlagið á einkar vel við um þessar mundir þar sem segir: „Hvar er skjaldborgin mín, þessi skjöldur og hlíf? / Hvar er skjaldborgin mín, hvar er hús mitt og líf?“

Austurvallarkórinn skipa samfélagslega meðvitaðir einstaklingar sem hafa staðið fyrir ýmsum viðspyrnuaðgerðum frá haustinu 2008. Guðbjörg Elísa Hafsteinsdóttir, sem tók þátt í Idolinu árið 2005, syngur einsöng með kórnum en hljómborðsleikarinn Hjörtur Howser hefur útsett lögin og spilar undir.

Við syngjum því við viljum breytingar. Við hvetjum alla til að taka þátt og taka undir sameiginlegrar kröfur mótmælenda víðs vegar um jarðarkringluna:

Við viljum ekki að það verði tekið veð í framtíð okkar.
Við viljum ekki greiða niður ólöglegar skuldir.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í menntakerfinu.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni.
Við viljum ekki meiri skerðingu á kjörum almennra launþega.
Við viljum sanngjarnan starfslokaaldur og eftirlaunagreiðslur.
Við krefjumst þess að þeir sem ullu kreppunni gjaldi fyrir hana sjálfir.
Við krefjumst ríkisstjórna sem vinna með almenningi en ekki á móti honum.

Meðlimir Austurvallarkórsins munu dreifa söngtextahefti á staðnum þannig að allir sem vilja geta tekið undir eða rifjað upp það óréttlæti sem við búum undir að hálfu fjármálastofnanna og stjórnvalda. Þeir sem ekki komast geta kynnt sér textana í krækjunni hér að neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Grafskrift þjóðar

BlóðmjólkunKveikjan að þessum skrifum er Fésbókarstatus sem Daði Ingólfson setti á vegginn hjá sér sl. miðvikudag. Þar sagði hann: „Að lesa fyrirsagnir netmiðla í dag er að lesa grafskrift þjóðar.“ Í framhaldinu vísaði hann í nokkrar fréttir frá þessum sama degi.

Sú sem ber hæst í þessari upptalningu hans er fréttin af sýknu, fyrrum yfirmanna í íslensku fjármálalífi, í svoköllluðu Exeter-máli af öllum ákærum sérstaks saksóknara. Einn af þeim sem tjáir sig í framhaldinu bendir á enn eina fréttina af starfsglöpum hins vanhæfa Alþingi.

Málið snýr að greiðslu hlutabóta til þeirra sem ekki eru í fullri vinnu. Þessar bætur falla niður um næstu mánaðarmót vegna þess að í öllum atganginum sem einkenndi störf þingsins fyrir þinglok núna í júní þá gleymdist að framlengja bráðbirgðaákvæði sem hafði verið sett um þess konar bætur.

„Þetta bara gleymdist,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra „og var alveg sameiginlegt klúður allra.“ Meginvandinn í þessu máli virðist vera spurningin um það hvort skiptir meira máli að þingmenn haldi sumarfríi sínu óröskuðu eða að þeir sem þurfa að treysta á þessar bætur haldi þeim. Það er rétt að taka það fram að þær falla niður nema þing komi saman fyrir þennan tíma og samþykki framlengingu.

Það væri endalaust hægt að bæta við og dettur mér þá ekki síst í hug frétt á DV um að rússnesnka mafían hefur fengið forsvarsmann í Geira í Goldfinger til að atast í því að hún fái að opna spilavíti í Perlunni.

Rússneska mafían
Og svo var það viðtalið við Michael Porter í Kastljósþættinum á þriðjudagskvöldið. Mér var svo lokið að mér datt helst í hug að græðgisöflin væru að auka í áróðursstríðið gegn hrelldri þjóð til að keyra hana endanlega með höfuðið niður á milli hnjánna. Það er a.m.k. ljóst að þannig verður auðveldara að koma því tvennu í kring sem er opinbert um fyrirætlanir stjórnvalda til að blása lífi í næstu bólu.

Samkomulag um græðgi

Það var örugglega engin tilviljun að Porter fékk þetta drottningarviðtal í Kastljósinu í sömu viku og formlegar aðildarviðræður Íslands að ESB hófust. Það er líka ljóst hverjum eftirfarandi orð hans eru ætluð: „Möguleikar Íslendinga eru svo óendanlega miklir á sviði jarðvarma að það væri mikil synd og skömm að bíða með framkvæmdir þar til aðrir hafa tekið fram úr ykkur." Þeir sem hann talar til eru þeir hinir sömu sem trúa því enn að varanleg verðmæti verði til með því að eyða því sem er ekki til!

Þetta er stjórnmálamannakynslóðin sem tekst ekki að þroskast upp úr minnimáttarkenndinni gagnvart smæð okkar og sögu. Þetta er stjórnmálastéttin sem berst fyrir því að koma fulltrúum sínum að við það háborð sem minnimáttarkenndin gerir Evrópusambandið að í hugum þeirra.

Hin minnmáttarkomplexaða og nýríka valda- og eignastétt landsins hefur nýtt sér áróðursmiðla sína af miklu móð í þessari viku til að halda fríðindunum af því að ganga inn í ESB á lofti. Þetta sást m.a. á forsíðu Fréttablaðsins sl. miðvikudag þar sem ein fyrirsögnin segir: „Vísinda- og menntasamstarf Ísland við ESB skilar miklu meiru en það kostar: Ávinningurinn tíu milljarðar“ Það skiptir auðvitað engu hvað Ísland greiðir í þáttökugjald eða í hverju þessu ávinningur er fólgin fyrir aðra en styrkþegana sjálfa.

VandamálagreiningSamkvæmt þeim sem reka áróður sinn í gegnum fjölmiðla þá er peningaupphæðin ein og sér ávinningur en við lesendur kunnum að sjálfsögðu að lesa á milli línanna. Það  kemur nefnilega í ljós við lestur þessarar fréttar hverjir eru stærstu styrkþegarnir. Í tilfelli næststærsta styrkþegans er ávinningurinn fyrir þá sem vilja ganga í Evrópusambandi a.m.k. greinilegur spurning með þann stærsta.

Stærsti styrkþeginn er Íslensk erfðagreining sem er í mínum huga eitt dularfyllsta fyrirtæki landsins. Þrátt fyrir að nú séu liðin 10 ár frá því að Kári Stefánsson, vinur Davíðs Oddssonar, barði þetta fyrirtæki fram þá er ekkert hægt að segja um starfsemi þessa fyrirtækis sem byggjandi er á. Það eru alltaf sömu innantómu klisjurnar um það hvað þetta er einstakt fyrirtæki og mikilvægt en aldrei neitt um raunveruleg dæmi sem rökstyðja markvirði þess!

Hvers vegna ætli þetta fyrirtæki fái 1,4 milljarð í styrk í gegnum ESB? Ég man ekki eftir einni einustu stóruppgötvun sem hefur verið gerð í glerhýsinu úti í mýrinni sem hefur breytt neinu nema maður eigi að telja Hannes Smárason til slíkra. Er það ekki annars rétt munað að hann hóf feril sinn þar? Það skyldi þó aldrei vera að það í hverju markvirði Íslenskrar erfðagreiningar liggur þoli ekki frekar dagsins ljós en starfs- og fjármálaferill Hannesar Smárasonar.

Næstsærsti styrkþeginn er svo Háskóli Íslands með rúman milljarð (eða eitthvað svolítið minna en Íslensk erfðagreining) Hér er kannski komin skýringin á því að það heyrast engar alvöru gagnrýnisraddir úr fræðimannasamfélaginu varðandi það sem fram fer í samfélaginu. Mér, eins og mörgum, hefur fundist þögn þess skerandi en meðvirkni þeirra sem opna munninn er eiginlega hálfu verri.

Mennska framtíðÞað er ekki síður undarlegt að þeir fáu sem hafa tekið sig til og gagnrýnt hafa aldrei horft á heildarsamhengið heldur taka einungis afstöðu til vel valinna og þægilegra smápúsla í heildarmyndinni. Það vantar alltaf einhvern grundvöll í málflutnning þeirra eða þeir þora ekki að taka alla samfélagsgerðina ásamt uppbyggingu fjármálakerfisins til gagn- gerrar umræðu. Það er þess vegna lítið eða ekkert gagn af innleggjum þeirra í samfélagsumræðuna og nú ætti það að vera ljóst hvers vegna.

Það er fínt að fá ESB til að kosta rannsóknarleyfin þeirra. Skítt með hitt pakkið! Ég gef lítið fyrir menntun og sérfræðinþekkingu þeirra sem sjá ekki samhengið á milli sinna eigin styrkveittu leyfa og þess hvaðan peningarnir koma?

Ef menntun er orðin einn helsti útvörður græðginnar þá er ljóst að mennskan, sem orðið er dregið af, hefur verið úthýst og því varla hægt að tala um neina menntun lengur! en sérhæfð vanhæfing á hins vegar afar vel við um fræðimann sem sér ekki út fyrir þann fílabeinstrun sem Evrópubáknið hefur kostað utan um hann.

Verðmætasköpunin sem kemur út úr ofantöldum styrkjum er ekki tíunduð í Fréttablaðinu enda fréttin greinilega byggð á skrifum forstöðumanns þeirrar Rannskóknarþjónustu Háskólans sem rannsóknarstyrkir Evrópusambandisins fara í gegnum. Þar er aðeins talað um mikilvægar upphæðir til reksturs og reyndar til rannsókna.

Ég er hædd um að verðmætin sem hægt er að telja séu heldur rýr og leyfi ég mér því að halda því fram það að tala um ávinning í þessu sambandi sé hrein og bein glópska! Nema það væri nær að kalla slíkan málfltuning um ofangreind atriði hreinan áróður!

Minn tími er núna!

Allt leiðir til þeirra niðurstöðu að það er við hæfi að tala um grafskrift þjóðar og rétt að árétta það að þeir sem trúa því enn að varanleg verðmæti verði til með því að eyða því sem er ekki til í eitthvað sem verður ekki að neinu hafa ekkert lært frá því þeir prentuðu peninga fyrir óhrygnda fiska!


mbl.is Aukin samþjöppun hefur jákvæð áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband