Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
Peningaveldi eða lýðveldi?
31.12.2011 | 07:52
Í þrjú ár hefur öll þjóðin mátt vita að lýðveldið, sem á að heita að hafi verið komið á hér árið 1944, hefur sennilega aldrei virkað. Frá haustinu 2008 hefur það orðið sífellt berara að stjórnskipulagið sem við búum við er miklu nær að kenna við peningaveldi en sennilega hljómar lýðveldið Ísland betur en peningaveldið Ísland.
Það er reyndar staðreynd að skortur á lýðræði er ekki séríslenskt vandamál enda hafa einstaklingar og fjöldahreyfingar um allan heim vakið athygli á því að í raun eru það peningarnir sem stýra jafnt lýðræðislega kjörnum fulltrúum sem og öðrum þáttum samfélagsheildarinnar.
Occupy-hreyfingin hefur m.a.s. haldið því fram að þetta þýði það í reynd að 99% jarðarbúa hafi tapað réttindum sínum til þess eina prósents sem hefur sölsað undir sig eignum og völdum í krafti þess að þeirra er einkarétturinn til peningaprentunar.
Hér á landi eru það rúmlega 3000 fjölskyldur sem hafa komið sér þannig fyrir að þær sitja að öllum verðmætum þjóðarinnar. Meðal þeirra eru einstaklingar sem eignuðust bankana fyrir u.þ.b. áratug síðan með þeim glæsilega árangri að keyra efnahag almennings í stjarnfræðilegt hrun.
Í stað þess að þeir séu látnir gjalda fyrir glæpsamlega glæframennsku þá valsa þeir áfram óáreittir við peninga-prentunarvélarnar og ráða þannig áfram lífi og örlögum lands og þjóðar.
Með einkavæðingunni, sem tröllreið löndum á síðustu öld, komst peningaprentunin í hendur einstaklinga sem veruleiki nútímans hefur leitt í ljós að eru verulega andlýðræðislega sinnaðir. Fyrir tilstilli slíkra einstaklinga var mafíustarfsemi gerð lögleg með aðstoð ginkeyptra stjórnmálamanna eða þeir nýttu aðstöðu sína til að kaupa fólk sem þeir kostuðu inn á þjóðþing viðkomandi landa.
Grunlaus almenningur var þannig settur í þá aðstöðu að kjósa yfir sig mútuþæga og kostaða stjórnmálmenn sem höfðu það eina hlutverk að fórna lýðræðinu fyrir sérhagsmunagæslubræðralagið sem hafði komist yfir peningaprentunarvélarnar. Sök almennings er því ekki önnur en grandvaraleysið að láta sér ekki detta það í hug að þannig væri í pottinn búið.
Sérhagsmunamiðaður hugsunarháttur óhófsins, sem var lagður undir fallöxina í frönsku byltingunni, hefur vaxið ásmeginn og náð undirtökunum með afar skjótum hætti. Íslendingar hafa gjarnan talið sér trú um að hugsunarháttur hérlends forréttindahóps óaðlsbændasamfélagsins hafi látið í minni pokann með sjálfstæðinu og stofnun lýðveldisins árið 1944.
Ég reikna með að flestir átti sig á því núna að hann hefur lifað blómlegu lífi í bakherbergjum ýmis konar klíkubræðrafélaga og breiðst þaðan út með ógnarhraða um alla helstu kima eigna- og valdasamfélgsins. Þessir kimar hafa étið upp lýðræðið með þeim afleiðingum að íslenskur almenningur er jafn ofurseldur hinu óseðjandi peningavaldi og almenningur annarra þjóðríkja á jarðarkúlunni.
Eðlilega eru þeir margir sem spyrja sig hvað veldur þeirri blindu núverandi stjórnmálastéttar að leiðrétta ekki það hrópandi misrétti sem kemur fram í því að almenningur þarf ekki aðeins að borga forsendubrestinn sem kom í ljós við hrunið heldur er honum ætlað að taka á sig síhækkandi skatta og gjöld fyrir ýmis konar þjónustu þrátt fyrir óbreytt laun? Á sama tíma og hérlendum almenningi er ætlað að beygja sig undir óheyrilegar lífskjaraskerðingar af ýmsu tagi þá fá gerendur hrunsins sínar skuldir afskrifaðar. Almenningur er að kikna undan byrðinni og sífellt fleiri missa eigur sínar í hendur lána- og innheimtustofnana sem selja margar þeirra síðan á helmingsafslætti til meðlima forréttindahópsins.
Óréttlætið sem þetta endurspeglar heyrði áður undir starfshætti glæpagengja, sem var kennt við mafíu, en nýtur núorðið lögverndar ægivalds peningaveldisins. Almennir borgarar hafa yfirleitt ekki áttað sig á þessu samhengi en eiga þó langflestir eftirfarandi spurningu sameiginlega: Hvað veldur því að stjórnmálastéttin lætur þetta óréttlæti viðgangast?!?
Svarið liggur e.t.v. ljóst fyrir í augum sumra en það er sársaukafullt að skilja það að fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem meginþorri þjóðarinnar treysti fyrir atkvæðum sínum sjá ekkert athugavert við gjörðir sínar. Það er þó nauðsynlegt að horfast í augu við það að þess vegna ætla fulltrúar fjórflokksins, svonefnda, ekki að breyta neinu. Til að nálgast svarið við því hvað ræður gjörðum þeirra er e.t.v. gagnlegt að varpa fram þessum spurningum.
- Trúði hvíti maðurinn í Ameríku að hann beitti svarta órétti?
- Trúðu nasistar Þýskalands að þeir væru að fremja þjóðarmorð á gyðingum?
- Trúði kaþólska kirkjan í Evrópu að hún væri að ástunda blekkingar með því að selja meintum syndurum aflátsbréf?
Svörin við þessum spurningum ættu að leiða fram svörin við því hvaða augum íslenskur eigna- og valdaaðall lítur almenna borgara og hvort þessir líta á afstöðu sína og gjörðir sem dæmi um siðferðisbrest eða eiginhagsmunagæslu. Svörin ættu líka að færa okkur heim sanninn um það að fyrir tilstilli þeirra verður íslenskum mannslífum áfram fórnað til að þau geti viðhaldið stöðu sinni og lífsstíl.
Það er sem sagt undir þér og mér komið hvort við ætlum að sætta okkur við núverandi ástand þar sem 300.000 manna samfélag framselur öllum sínum réttindum fyrir sífellt dýrkeyptari forréttindi 3.000 óseðjandi fjölskyldna sem svífast einskis til að viðhalda stöðu sinni.
Það er íslensks almennings að taka afstöðu til þess hvort sívaxandi eignatap, - fátækt, - brottflutningur og fleiri ótaldar hörmungar, sem á hann eru lagðar, eru réttlætanlegur fórnarkostnaður til að viðhalda núverandi kerfi bara fyrir það að það hossar því sem við þekkjum þrátt fyrir að það innihaldi ekkert annað en: handónýtt flokkakerfi, siðvillta stjórnsýslu, hrunið fjármálakerfi, villuráfandi þjóðkirkju og sérhagsmunamiðaða verkalýðsforystu.
Katrín mun fá ráðuneyti eftir orlofið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.1.2012 kl. 02:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Af von og trú
15.12.2011 | 03:39
Ég var að kenna í gærkvöld sem er ekki í frásögur færandi þar sem ég er kennari. Ég skrifa þetta því ekki til að segja frá því hvað mér finnst gaman að kenna heldur langar mig til að deila hér dásamlegu ljóðadæmi sem ég var að vinna með í þeim tilgangi að fjalla um stílbragðið vísun.
Höfundur ljóðsins hét Ari Jósefsson. Hann fæddist árið 1939 en hvarf af Gullfossi árið 1964. Aðeins þremur árum eftir að fyrsta og eina ljóðabók hans kom út. Ari varð því ekki nema 25 ára gamall. Ljóðin hans hafa náð að lifa helmingi lengur en hann.
Ljóðin hans eldast virkilega vel og eiga fullt eins erindi við nútímann eins og þann samtíma sem þau voru gefin út á. Hér á eftir birti ég tvö ljóð eftir Ara. Það fyrra heitir Stríð en því miður veit ég ekki hvað það seinna heitir. Það er hins vegar ljóðið sem varð kveikjan að þessum skrifum.
Ef einhver vill fræðast meira um skáldið má m.a. vísa á þessa slóð og þessa hér sem fjallar reyndar um miklu fleiri skáld en Ara Jósefsson.
Stríð
Undarlegir eru menn
sem ráða fyrir þjóðum
Þeir berjast fyrir föðurland
eða fyrir hugsjón
og drepa okkur sem eigum
ekkert föðurland nema jörðina
enga hugsjón nema lífið
Þar sem kveikjan að þessum skrifum var umfjöllun um stílbrað má ég til að benda á eitt slíkt sem kemur fram í lok þessa kvæðis. Þetta eru þversagnirnar tvær þar sem segir: að eiga ekkert föðurland nema jörðina og eiga enga hugsjón nema lífið.
Og þá ljóðið sem ég nota gjarnan sem dæmi um stílbragðið vísun:
Ég trúi á moldina
og son hennar manninn
fæddan af skauti konunnar
sem er píndur á okkar dögum
krossfestur drepinn og grafinn
en mun rísa upp á morgun
og krefjast réttar sín til brauðsins
ég trúi á anda réttlætisins
samfélag mannanna
Ræður af samstöðufundi á Austurvelli 10. des.
11.12.2011 | 20:42
Það var býsna kalt í veðri í gær en það hindraði ekki að hörðustu lýðræðisnaglarnir kæmu saman á Austurvelli. Sennilega vita þeir það sem er að kuldinn í lífskjörunum framundan mun verða miklu langvinnari en sá sem sótti að í þá örfáu klukkutíma sem samstöðufundur á Austurvelli stóð yfir.
Meginefni fundarins var sú von að landinn vaknaði til meðvitundar um það að leiðin til breytinga liggur í því að við stöndum betur saman. Halldór Grétar Gunnarsson bar hitann og þungann af undirbúiningi þessa útifundar. Fjórir ræðumenn fluttu ræður og einn las upp úr nýútkominni ljóðabók. Hljómsveitirnar: Lame Dude og Blússveit Þollýjar fluttu nokkur lög auk þess sem Jólakór Grasrótarmiðstöðvarinnar flutti nokkur lög við undirleik Hjartar Howser.
Þeir voru ekki margir sem höfðu úthald til að staldra við þá tvo tíma sem útifundurinn stóð en þó voru þar 20-30 manns þegar flest var.
Þeir sem fluttu ræður voru eftirtaldir:
Rakel Sigurgeirsdóttir en ræðuna mína má nálgast hér.
Jóna Guðleif Sigurjónsdóttir sem er áttræður ellilífeyrisþegi. Ræðan hennar er hér:
Kristján Jóhann Matthíasson, flutti ræðu fyrir hönd öryrkja. Ræðan hans er hér:
Jón Bjarki Magnússon las ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni. Hér er eitt þeirra:
Á milli atriða héldu Lame Dudes og Blússveit Þollýjar hita á mannskapnum með tónlistarflutningi sem áheyrendur dilluðu sér óspart undir. Jólasveinar létu sjá sig en dagskráni lauk með því að Jólakór Grasrótarmiðstöðvarinnar flutti tvö jólalög við umbylta texta Páls Heiðars við undirleik Hjartar Howsers.
Ég ætla hins vegar að ljúka þessu með því að birta lokaræðuna á þessum útifundi en það var fundarstjórinn og sá sem sá um undirbúning þessa útifundar, Halldór Grétar Gunnarsson, sem flutti hana:
Ástandið eins og við erum búin að sjá það er á engan hátt viðunandi. Það virðist vera sama hvar við grípum niður. Það er ekkert annað en rústir að sjá.
Ef við byrjum á því að nefna einkavæðingu banka hina seinni þá er það fyrsta sem við verðum vör við, að það er sama regluverk hjá þeim og var hjá gömlu hrunbönkunum. Sem sagt ekkert [hefur breyst] fyrir utan það að þeir eru afhentir erlendum vogunarsjóðum sem við höfum ekki hugmynd um hverjir eru á bak við.
Ég spyr: Hvernig er hægt að afhenda bankana fólki sem engin veit hver er?! og veita þeim svo bónus með því að selja þeim BYR?! þannig að þeir komist yfir fleiri fórnarlömb sem þeir hafa þegar gert með uppsögnum starfsfólks.
Þessir vogunarsjóðir æða um landið eins og þeim sé ekkert heilagt og skilja fjöskyldur í landinu eftir í rústum. Margar hverjar sundraðar. Aðrar sjá sér ekki annað fært en að flýja land. Landið sem þær eru fæddar og aldar upp í.
Ég spyr hefur fólk sem orðið hefur fyrir forsendubresti ekki neinn RÉTT?!
Á meðan að þeir sem sátu, og sitja sumir hverjir enn á þingi og í stjórnsýslu landsins, áttu að sjá til þess að regluverkið í kringum fjármálakerfið ætti að vernda okkur.
Þetta er liðið sem ekki hefur orðið fyrir neinum skerðingum á neinn hátt.
Þetta er liðið sem er ekki í neinu sambandi við þjóð sína.
Þetta er liðið sem situr á feitum og jafnvel margföldum eftirlaunum.
Liðið sem átti vernda þjóðina fyrir þessum hamförum sem hér urðu.
Hvernig stendur á því að það heldur að við komum til með að sætta okkur við þetta? Það vill kannski losna við okkur líka þannig að það geti haldið áfram að stela af þjóðinni.
Á meðan flokkarnir skammta sér 300 milljónir úr okkar vösum horfum við upp á það að sjúkrahúsum er lokað. Starfsfólki sagt upp og meira álag lagt á þá sem eftir eru. Það ríkir ringulreið á íslenskum sjúkrahúsum.
Hvernig stendur á því að forgangsröðunin er svona?
Er það vegna þess að við erum svona illa samstillt og fáum bara að ráða í einn dag á fjögurra ára fresti?
Eru ekki þessir svokölluðu fjórflokkar að ganga frá þjóðinni með hugsunarhættinum: Ég um mig, til mín, frá mér - já og líka frá þér?
Hverjir hafa notið góðs af öllum þeim einkavæðingum sem átt hafa sér stað hér síðustu 20 árin? og hvernig tengist það flokkunum fjórum sem hér ráðstafa öllu til sinna vildarvina?
Er ekki kominn tími á að þetta verði rannsakað? eða er það ekki hægt vegna þess að vildarvinaplottið er svo rótgróið inn í samfélagið að of mikil hætta er á að spilaborgin hrynji hjá þeim?Hvað ætlum við að bjóða börnum framtíðarinnar? Það sama og við höfum fengið með reglulegu millibili? eða ætlum við að standa upp og segja: Nei. takk!?!
Hvar eru öflin sem eiga að standa með fólkinu? að undanteknum Villa, Skagamanni, þá er ég að tala um verkalýðsfélögin? ASÍ, lífeyrissjóðina og það sem þeim tengist, vel launað fólk á okkar framfæri. Þetta kalla ég spenaræbbla!
En það má ekki gleyma því að það er til fólk með hlýjan hug. Það sáum við best í gær er Fjölskylduhjálpinni voru afhentir 300 kuldagallar.
Það er fullt af flottu fólki til í landinu og margir til í að leggja mikið á sig til að koma hlutunum í lag en til þess að það geti orðið þurfum við að standa saman og hætta að hugsa um eigin rass.
Hér þarf að taka til ansi víða en það gerist ekki nema með SAMSTÖÐU!
Hún er í okkar höndum. Við höfum sýnt það á margan hátt að við getum sýnt SAMSTÖÐU.
Ef nokkurn tímann hefur verið þörf á því að standa saman þá er það NÚNA!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.12.2011 kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ræða haldin á Austurvelli þ. 10. des.
11.12.2011 | 18:49
Í gær var boðað til samstöðu- og sameiningarfundar á Austurvelli. Fjórir ræðumenn fluttu ræður og einn las úr nýútkominni ljóðabók sinni. Lame Dudes og Blússveit Þollýjar skemmtu með tónlistaratriðum auk þess sem Jólakór Grasrótarmiðstöðvarinnar kyrjaði umbylt jólalög við undirleik Hjartar Howser.
Einn ræðumannanna var ég sjálf. Ræðan mín er hér:
Virðulegu viðspyrnendur!
Mér þykir vænt um að sjá ykkur hér í dag! þó ég harmi tilefnið. Ég harma það að við séum ekki komin lengra eftir að hafa mótmælt nær samfleytt í yfir þrjú ár. Það er þó gott að sjá að þið eruð ekki tilbúin til að gefast upp og þyki ástæða til að minna á það að þið munið hvergi hvika í kröfum ykkar.
Þið kannist sennilega öll við spurninguna: Hverju ertu að mótmæla? eða: Hverju eruð þið eiginlega að mótmæla?
Ég gisti tvær nætur í tjöldum Occupy-hreyfingarinnar hér á Austurvelli í síðasta mánuði en þessar spurningar voru langflestum gestum þeirra greinilega efst í huga.
Ég get ekki svarað þessari spurningu fyrir alla þá sem hafa mótmælt hér á undanförnum þremur árum og óvíst að þó ég geri heiðarlega tilraun til að útskýra af hverju ég er hér að svör mín samræmist því, sem ykkur sem eru hér líka, er efst í huga.
Allt frá haustinu 2008 hafa mörg okkar reynt að koma því á framfæri að hér þurfi að fara fram heiðarlegt uppgjör. Sumir hafa ekki látið þar við sitja heldur sett fram hugmyndir og komið með prýðilegar lausnir varðandi það hvernig megi bregðast við þeim lýðræðishalla sem almenningur býr við.
Ég geri ráð fyrir því að þið sem eruð hérna í dag séuð flest búin að átta ykkur á að það eru ekki hagsmunir almennings sem eru í forgrunni núverandi ríkisstjórnar. Ég vona að þið séuð líka búin að átta ykkur á það voru ekki heldur hagsmunir okkar sem voru í forgrunni þeirra ríkisstjórna sem sátu áratugina fyrir kosningarnar vorið 2009.
Ég reikna þess vegna með því að þið hafið áttað ykkur á því að Alþingi er að langstærstum hluta skipað einstaklingum sem er ekki treystandi.
- Þar situr nefnilega fólk sem þáði styrki, öðru nafni mútur, til að komast inn á þing.
- Þar sitja einstaklingar sem steinhéldu kjafti yfir því að efnahagur landsins stefndi í hrun.
- Þar situr fólk sem hylmdi yfir stöðu og staðreyndir og laug sig til kosningasigurs
- Þar situr fólk sem tók, og tekur enn, afdrifaríkar ákvarðanir um samtryggingarplott til bjagar fjármálavaldinu á bak við tjöldin.
- Þar situr fólk sem hefur logið svo oft um svo þýðingarmikla hluti að ef ekki væri fyrir björgunarsveitirnar í grasrótinni þá væri landið komið á opinbera útsölu!
- Þar situr fólk sem er orðið svo vant því að ljúga að það þekkir ekki muninn á lygum og staðreyndum; réttu og röngu.
- Þar situr fólk sem hefur gert sig sekt um svo stóra glæpi gangvart landi og þjóð að stór hluti þjóðarinnar situr enn uppi lamaður af sorg.
Núverandi valdastétt á í ofbeldissambandi við almenning í landinu. Í þeirra augum liggur virði okkar í því hvort og hvernig við getum viðhaldið þeim lífsstíl óhófs og græðgi sem hún hefur tileinkað sér af þeim sem fara með hið raunverulega vald í landinu. Það er fjármálavaldinu.
Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins í síðustu viku kom í ljós að það eru aðeins 6 þingmenn af 63 sem finnst eitthvað athugavert við það að handónýtu flokkakerfi sé viðhaldið á okkar kostnað og það á sama tíma og samfélagsþjónustan liggur undir blóðugum niðurskurðarhnífum.
Íslenskir viðspyrnendur höfðu mótmælt óréttlætinu, sem er tilkomið vegna ofvaxins fjármálakerfis og spilltrar stjórnsýslu, í hart nær þrjú ár þegar Spánverjar hrundu af stað mótmælum 15. maí síðastliðinn sem breiddust síðan hratt út um alla Evrópu.
Það er nefnilega ekki bara á Íslandi sem stjórnvöld hafa skorið niður velferðarkerfið og tekið veð í framtíð þjóðarinnar til að tryggja afkomu fjármálastofnananna. Þetta eru staðreyndir sem blasa við íbúum allar álfunnar. Þessar staðreyndir hafa reyndar verið vandamál í öðrum heimsálfum líka.
Vesturlandabúar hafa horft aðgerðarlitlir upp á það hvernig fjármálastofnanir heimsins hafa farið með Afríku, Suður-Ameríku og Asíu. En eftir að Occupy-ið byrjaði á Wall Streat 17. september er eins og fleiri séu að átta sig á þeirri staðreynt að núverandi kerfi er gengið sér til húðar.
Í því sambandi er ef til vert að minna á að þetta kerfi byggir á hagfræðikenningum og hugmyndum um lýðræði og ríkisvald sem var tekið upp eftir fámennum hópi heimspekinga sem voru uppi um aldamót 17. og 18. aldar. Kerfið sem við byggjum á í dag er því orðið þriggja alda gamalt sem ætti að segja okkur að það er svo sannarlega komið að fótum fram.
Sú fullvissa er ekki óalgeng að nútíminn sé miklu betur upplýstur en fortíðin og er þá gjarnan vísða til þeirra framfara sem orðið hafa í upplýsingatækni. Það vill hins vegar gleymast að langflestir fjölmiðlar heimsins eru einkarekin markaðsfyrirtæki sem vilja umfram allt viðhalda núverandi kerfi.
Þeim er þar af leiðandi enginn akkur í því að upplýsa almenning en eigendur þeirra eru sér hins vegar fullkomlega meðvitaðir um hvurs lags verkfæri þeir eru með í höndunum og beita því með sama hætti og miðaldakirkjan verkfærum kaþólskunnar á sínum tíma.
Það er á okkar ábyrgð að við látum ekki hneppa okkur í sömu fjötra og kaþólska miðaldakirkjan bjó skjólstæðingum sínum með hugmyndinni um himnaríki og helvíti.
Eina hérlenda ógnin við þá úreltu hugmyndafræði, sem við búum við, hefur blómstrað hér í grasrót Austurvallar. Þeir sem hafa staðið hér lengst eru sér fullkomlega meðvitaðir um það hverju samstaða okkar hefur skilað. Ef það hefði ekki verið fyrir grasrótina sætum við ekki aðeins uppi með skuld við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heldur hefði Icesaveskuldum Landsbankans verið þröngvað upp á okkur líka.
Markmið okkar er að breyta núverandi kerfi sem ,samkvæmt hinni alþjóðlegu Occupy-hreyfingu, þjónar ekki nema einu prósenti mannkyns. Við hin, eða 99%-in, getum staðið saman, eins og heimspekingar 17. og 18. aldar, og skapað nýjan grundvöll til að byggja framtíð okkar á.
Við eigum val um það hvort við höldum áfram að trúa á þá heimsmynd, sem boðið er upp á af altari einkarekinna fjölmiðla, um að ómeðvituð neysla sé himnaríki en meðvituð viðspyrna helvíti.
Við getum vaxið og náð árangri ef við hættum að láta fjölmiðlastýra okkur af álitsgjöfum valdsins.
Annar veruleiki er mögulegur en því aðeins að við hættum að láta þá sem hafa hag af því að sundra okkur fæla okkur frá því að standa saman.
Við skulum átta okkur á því að sú þöggun og afbökun sem viðspyrnuöflin búa við eru staðfesting á því að þau eru valdinu hættuleg. Hvert og eitt okkar skiptir máli og það skiptir líka máli að þó við stöndum ekki endilega hlið við hlið þá þurfum við að vinna betur saman.
Og nú er kominn vettvangurinn til að byggja upp slíkt samstarf. 9. september sl. var stofnaður hópur sem hefur tekið Brautarholt 4. á leigu og opnað þar Grasrótarmiðstöð. Í Grasrótarmiðstöðina er vettvangur fyrir ykkur öll til að koma saman, hittast og spegla skoðanir ykkar og viðhorf í fleirum. Byggja brýr og skapa samstöðu við að ryðja burt handónýtu kerfi fyrir mannvænlega framtíð.
Við skulum nefnilega átta okkur á því að það verða engar breytingar ef við hrindum þeim ekki í framkvæmd sjálf!
Það er svo staðreynd að þegar fólk hjálpast að þá ganga hlutirnir hraðar. Það er líka staðreynd að því fleiri sem standa saman því meiri líkur eru á því að sameiginlegir hagsmunir heildarinnar nái fram að ganga.
Ég vænti þess að sjá ykkur öll og miklu fleiri í Grasrótarmiðstöðinni í Brautarholti 4 strax á nýju ári.
Þangað til gleðilega jóla- og áramótahátíð!
Sjáumst í Grasrótarmiðstöðinni ekki seinna en eftir áramót!
Samstöðufundur viðspyrnunnar á Austurvelli
9.12.2011 | 02:07
Á morgun, laugardag, verður samstöðu- og sameiningarsamkoma á Austurvelli. Dagskráin hefst klukkkan 14:00 og lýkur klukkan 17:00 en hún samanstendur af framsögum og músíkatriðum en auk þess koma jólasveinar í heimsókn.
Af þessu tilefni hefur verið stofnaður viðburður inni á Facebook (sjá hér). Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega áttatíu manns meldað sig en plakatið sem er á myndinni til hliðar hefur líka verið dreift víða um höfuðborgarsvæðið.
Í texta viðburðarins inni á Facebokk segir:
Að standa saman er enginn skömm...
Þú veist að það sem þú þarf að gera er að takast á við vandann en ekki að geyma hann og bíða eftir að hann hverfi. Þú þarf að stíga fyrsta skrefið. Raunveruleg endurreisn mun ekki takast nema með sátt og samstöðu okkar allra.
Þess vegna er boðað til samstöðu- og sameiningarsamkomu með framsögum og músík á AUSTURVELLI þann 10. des þar sem við munum minnast þess sem liðið er og láta vita að við erum ennþá til staðar.
Eins og við vitum þá er ekkert sameiningarafl sem er virkt í samfélaginu. Það er því í okkar höndum að haldast í hendur sama hvort þú ert: leikskólakennari, heilbrigðisstarfsmaður, smiður, sjómaður, bankastarfsmaður, kennari, nemandi, ellilífeyrisþegi, öryrki, atvinnulaus eða eitthvað annað.
Framsögumenn eru eftirtaldir:
Ásgerður Jóna Flosadóttir, frá Fjölskylduhjálpinni
Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari
Jóna Guðleif Sigurjónsdóttir, ellilífeyrisþegi (áttræð)
Kristján Jóhann Matthíasson, öryrki
Jón Bjarki Magnússon les upp úr ljóðabók sinni: Lömbin í Kambódíu (og þú)
Á milli verður lifandi tónlist í flutningi: LAME DUDES, Blússveitar Þollýar og Jólakórs Grasrótarmiðstöðvarinnar við undirleik Hjartar Howsers.
Fundarstjóri er Halldór G. Gunnarsson sem segist hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að jólasveinar muni líka láta sjá sig á þessari samkomu.
*************************************************************
Í sambandi við það hvort þú mætir eða situr heima langar mig til að endurbirta hér fundargerð sem er gerð eftir fyrirlestri Þórodds Bjarnasonar, prófessor við félagsvísindadeildina við Háskólann á Akureyri, sem hann kallaði Félagslegur auður Akureyrar: Brýr eða bönd? Þessi fyrirlestur var fluttur á borgarafundi á Akureyri sem var haldinn í mars 2010. Fundurinn bar yfirskriftin: Samheldnin í akureysku samfélagi
Ég vil vekja athygli á að glærur Þórodds, sem eru mjög skemmtilega myndskreyttar, fylgja þessari færslu. Krækja sem leiðir inn á þær er að finna hérna neðst.
Framsaga Þórodds Bjarnasonar
Þóroddur byrjaði á því að útskýra hvað hugtakið samfélagssamheldni stendur en það eru: fjárhagslegur auður, mannauður (menntun, hæfileikar, reynsla) og félagslegur auður og tók það fram að í meginatriðum myndi framsaga hans fjalla um það sem sneri að því sem felst í hugmyndinni um félagslegan auð eða auðnum sem er fólginn í tengslunum á milli fólks.
Í því sambandi talaði hann um að þegar fólk hjálpast að gangi hlutirnir hraðar fyrir sig eins og þegar ráðist er í stórframkvæmdir líkt og það að að byggja hlöðu. Slík samhjálp kostar ekkert nema stuðninginn. Þá vék hann að því að peningar geta orðið jafnt til góðs eða ills og að menntun gerir engan góðan. Hana má nota bæði til góðra og illra verka.
Í framhaldinu nefndi Þóroddur nokkur dæmi um það hvernig þessir þættir nýttust í mismunandi verkefnum en sneri sér þá aftur að aflinu sem byggi í hinum félagslega auði. Þar nefndi hann búsáhaldabyltinguna sem gott dæmi um það hverju samvinna og samstaðan getur skilað. Samstaðan sem skapaðist þar varð til þess að koma heilli ríkisstjórn frá.
Hann tók það fram að ýmis samfélög eða hópar verða til þar sem aðilar hjálpast að. Sumir til góðs aðrir til ills. Sem dæmi um jákvæða samhjálp nefndi hann íbúa stúdentagarða sem hlaupa undir bagga hver með öðrum. T.d. í sambandi við barnapössun. Hins vegar benti hann á að hópurinn sem hefur orðið til getur upplifað samstöðuna og hlunnindin sem hann nýtur af tengslunum innan hans sem eitthvað jákvætt.
Upplifun hópsins á gæðum samstöðunnar segir hins vegar ekkert til um það hvernig hún kemur út fyrir þá sem standa utan hans. Sem dæmi um þetta nefndi Þóroddur m.a. Hells Angles og hópinn sem er samankominn á myndinni hér fyrir neðan.
Næst sneri Þóroddur sér að því að skýra hugtakið félagslegan auð enn frekar en það samanstendur að eftirtöldum þáttum: trausti, samstöðu og gagnkvæmum stuðningi. Í gegnum hópinn verður svo til ákveðið tengslanet sem getur einkennst af tvennu. Annars vegar böndum innan hópa en hins vegar brúm á milli hópa.
Félagslegu böndunum, sagði Þóroddur, fylgir eftirtalið:
- Fjöltengsl styrkja innviði samfélagsins.
- Langvarandi samskipti byggja traust.
- Viðhald sameiginlegra viðmiða.
- Virkt félagslegt taumhald.
- Heildin er sterkari en summa hlutanna
Félagslegu brúunum aftur þetta:
- Veik tengsl stækka tengslanet.
- Fjölbreytt tengsl virkja margar bjargir.
- Nýsköpun og miðlun nýrra hugmynda.
- Frelsi til að byggja sitt eigið net.
- Heildin er sterkari en summa hlutanna.
Í framhaldi þessara skilgreininga varpaði Þóroddur fram spurningunni um það að hve miklu leyti akureyskt samfélag einkenndist af böndum og brúm? Í því samhengi byrjaði hann að skoða hvar íbúar Akureyrar eru fæddir.
Eins og sjá má á glæru 19 (sjá viðhengi með glærum Þórodds neðst í þessari færslu) þá eru 61% Akureyringar fæddir hér en 39% eru fæddir annars staðar. Samkvæmt skilgreiningu Þórodds mynda þessir 39% félagslegar brýr vegna þess að þeir hafa tengsl út fyrir virkið.
Þá vísaði Þóroddur í heimild frá Birgi Guðmundssyni (sjá glæru 20 í glærupakkanum sem er krækt neðst við þessa færslu) sem er samantekt frá árinu 2006 á því hversu lengi akureyskir kjósendur hafa búið á Akureyri. Niðurstöður Birgis sýna að árið 2006 hafði um þriðjungur Akureyringa alltaf búið hér en annar þriðjungur hafið líka búið annars staðar en á Akureyri í meira en 20 ár.
Akureyringar sem eru fæddir á Akureyri eru 10.000 en alls eru íbúar bæjarins 17.000 á móti 250.000 sem búa á Suðvesturhorninu. Ef við lítum á sveitarfélögin við Eyjafjörðinn þá verðum við 24.000. Ef við víkkum sjóndeildarhringinn enn frekar og samsömum okkur með þeim sem búa í nágrenni við okkur þá telur heildin 36.000 íbúa.
Þóroddur endaði framsögu sína á því að benda á að brýr liggja í báðar áttir og því fleiri sem standa saman þeim mun líklegra er að sameiginlegir hagsmunir heildarinnar nái fram að ganga. Hins vegar varpaði hann fram þeirri spurningu hvort annað þyrfti endilega að útiloka hitt? Þ.e. að ef við kjósum að byggja félagslegar brýr yfir til nágrannabyggðarlaganna þá þarf það ekki að þýða að við þurfum að henda kostum félagslegra banda.
Siðmenntun fylgir sú ábyrgð að taka afstöðu
3.12.2011 | 03:21
Kæra fólk!
Við erum stillt og siðmenntuð og það er sú mynd sem við viljum viðhalda af sjálfum okkur. Siðmenntun felur það meðal annars í sér að taka ábyrgð. Ábyrgðinni fylgir meðal annars að mynda sér skoðun um mikilvæg mál.
Myndin um siðprýði þarf því að taka mið af aðstæðum. Sá sem vill telja sig til sið- menntaðs þjóðfélagsþegns þarf þess vegna að bregðast við því sem er að eiga sér stað í kringum hann.
Við lifum á furðulegum tímumm þar sem samfélagið, sem þú hélst að væri heilt, hefur verið rjúkandi rústir í a.m.k. þrjú undanfarin ár. Ég veit að marga langar til að taka til hendinni við að byggja upp nýtt af því það vita það allir að við þurfum á slíku að halda.
Fámenn þjóð sem býr saman á stórri eyju þarf ekki síst að byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir öllum. Fámennið og vegalengdirnar gera það að verkum að við ráðum ekki við það að hér búi tvær þjóðir; 3.000 á móti 270.000 eða fámenn valda- og eignaelíta á móti þrælum hennar. Við þessi 270.000 verðum þess vegna að bregðast við því hvað hin 3.000 hafa í hyggju varðandi lífskjör okkar.
Við þurfum að vinna saman og breyta samfélaginu þannig að framtíð okkar verði önnur en þrældómur við að halda uppi innlendum græðgisfíklum og alþjóðlegum fíknsystkinum þeirra. Við þurfum að horfast í augu við það að þessi virða líf okkar og framtíð aðeins út frá því hve mikið við getum lagt að mörkum til viðhalds lífsstíls þeirra.
Við sem höfum ekkert að verja nema lífið þurfum að bregðast við því hvernig fyrir okkur er komið vegna fámenns eigna- og valdahóps sem á lífsvenjur sínar undir því að við tökum kerfinu, sem það hefur byggt upp þeim til varnar, með stillingu og afskiptaleysi.
Við eigum val um það hvort við viljum lifa öðrum eða okkur sjálfum. Við eigum val um það hvort við viljum gefa vinnuframlag okkar til viðhalds því kerfi sem þessi hópur hefur byggt upp til að þjóna blautum draumum sínum um óhóf eigna og valda.
Þeim sem eiga sér annan draum skal bent á að Grasrótarmiðstöðin, Brautarholti 4, er prýðilegur vettvangur fyrir alla sem eru tilbúnir til að leggja sitt að mörkum við uppbyggingu lífvænlegrar framtíðar fyrir þig, mig og hin 99% mannkynsins sem standa frammi fyrir því að vera aðeins skiptimynt í firrtum heimi óforbetranlegra eigna- og valdafíkla.
752 sagt upp í hópuppsögnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |