Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011
Hvert klúðrið á fætur öðru!
25.1.2011 | 19:10
Það væri hægt að segja svo margt. Rekja söguna, segja frá voninni sem margir bundu við stjórnlagaþingið, telja upp áhyggjur sumra sem vöruðu við því að fjórflokkurinn myndi sjá til þess að eyðileggja drauminn um stjórnlagaþingið. Það hefur tekist og ljóst að landið og þjóðin hefur orðið fyrir enn einum álitshnekkinum.
Íslensk stjórnvöld hafa gert lítið annað á undanförnum misserum en sannfæra bæði innlenda og erlenda aðila um vanhæfni sína. Þeim er gersamlega fyrirmunað að vinna að hagsmunum lands og þjóðar. Þau hafa gefið fjármála- kerfinu ákveðið sjálfdæmi og komið sér þægilega fyrir í bólstruðum setustofum þess og þykjast þess vegna óhult. Fulltrúar valdsins eru velflestir orðnir svo veruleikafirrtir að þeir eru farnir að trúa því að þau séu réttborin til valda.
Þau neita að horfast í augu við það sem blasir hvarvetna við. Þau hafa steypt íslensku samfélagi í glötun. Annar hver maður veltir því fyrir sér í fullri alvöru að flytja úr landi af ástæðum sem stjórnmála- og embættismannastéttin þykjast ekki skilja. Á meðan þessir ganga erinda græðgismafíu fjármálastéttarinnar þá eru kjör almennings klessukeyrð með alls konar aðgerðum sem stuðla öll að því að hér er orðin til fjármagnseigenda- aðall sem lifir í vellystingum á öllum þeim gjaldtökum sem almenningur þarf að þola.
Ég gæti haldið áfram en ég minni á það enn einu sinni að ef við ætlum ekki að láta hrekja okkur úr landi þá verðum við að grípa til aðgerða. Við höfum reynt mótmæli. Þau hafa skilað árangri en við sitjum þó alltaf uppi með sams konar stjórnendur og sama embættismanna- og fjármálakerfið. Sömu verkalýðsforystu og sömu stjórnendur i lífeyrissjóðunum. Á meðan engu verður breytt innan þessara kerfa þá mun þetta brjálæði sem við búum við núna halda áfram.
Við getum spyrnt við fótum. Við höfum til þess nokkrar leiðir. Við getum haldið áfram að mótmæla og krafist kosninga. En hvað ætlum við að kjósa? Fjórflokkarnir, svokölluðu, hafa sýnt það og sannað á undanförnum árum að þeir gegna allir einum og sama herranum. Þ.e. fjármálakerfinu. Hreyfingin ætlar að leggja sig niður þegar hún hefur náð fram lýðræðisumbótum. Henni hefur heldur ekki tekist að þjappa óánægðum kjósendum utan um sig.
Ef það kæmi fram réttlætissinnað framboð sem setti brýnustu hagsmunamál þjóðarinnar á oddinn þá myndi ég hvetja til þess að við sameinuðumst öll í viðlíka byltingu og þeirri sem hefur verið kennd við búsáhöld og linntum ekki látum fyrr en Jóhanna og Steingrímur segðu af sér. En miðað við núverandi aðstæður hvet ég alla til að kynna sér vel og rækilega þennan undirskriftarlista hér: http://www.utanthingsstjorn.is/
Það er ljóst að það eru margir hræddir við hugmyndina um utanþingsstjórn en ég minni á að við sem settum þessa kröfu fram höfum hvatt þingmenn til að búa skipun utanþingsstjórnar lýðræðislegri umgjörð þannig að víðtækt samráð verði um skipun slíkrar stjórnar sem mætti líka kalla neyðarstjórn og/eða bráðabirgðastjórn. Ég myndi vilja sjá þjóðaratkvæðagreiðslu um bæði þá sem tækju sæti í slíkri stjórn og sérfræðingana sem yrðu þeim til ráðgjafar.
Staðan er í reynd sú að það verður hver og einn að gera það upp við sig hver af eftirtöldum kostum honum líst best:
a) Óbreytt ástand
b) Aukinn landflótti
c) Blóðug bylting
d) Kosningar
e) Utanþingsstjórn
Ég sé það líka þannig fyrir mér að slíkt andrúm myndi skapa kærkomið tækifæri til að byggja upp nýja stjórnmálaflokka og/eða -öfl sem myndu bjóða fram til kosninga í lok stjórnartímabils utanþingsstjórnarinnar. Ég bendi á að ég tók saman nokkrar spurningar og svör varðandi utanþingsstjórnina hér.
Íhaldið er skíthrætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er engin ástæða til að gefast upp!
20.1.2011 | 19:30
Tunnurnar voru skildar eftir niður á Austurvelli eftir mótmælin sl. mánudag. Við enduðum fyrir framan nefndarsvið Alþingis þar sem við komum hinum dimma takti kröfunnar um réttláta skynsemi inn til fulltrúa fjárlaganefndar sem funduðu um Icesave III. Lögregluliðið í kringum okkur var eiginlega fjölmennara en við sem slógum taktinn.
Ég minni á að mótmælin sem Tunnurnar hafa staðið fyrir hingað til hafa alltaf farið friðsamlega fram og því lítið reynt á lögregluna. Þess vegna er spurning hvort ekki megi túlka þetta fjölmenna lögreglulið á þann veg að nærvera þeirra hafi verið fyrir það að það standi með kröfum okkar um að skuldum Landsbankamanna verði ekki velt yfir á almenning í landinu.
Það að tunnurnar voru skildar eftir þýðir ekki að kröfur Tunnanna um almenna leiðréttingu, siðbót, uppgjör og uppstokkun innan embættismanna- og stjórnkerfi séu þagnaðar. Öðru nær! Við sem höfum haft okkur mest í frammi erum að upphugsa nýjar leiðir. Nokkur okkar erum þegar farin að vinna að nýjum áætlunum. A.m.k. ein þeirra hefur að einhverju leyti verið unnin samhliða mótmælunum sl. október en skipulagning og utanumhald í kringum tunnurnar tóku slíkan tíma að það var lítið afgangs til að fylgja þeim eftir.
Ég ýjaði að einu verkefninu sem við höfum verið að vinna að í bréfi sem við sendum á alþingismenn sl. mánudag. (Sjá hér) Til gamans má geta þess að við fengum lítil viðbrögð frá þingmönnum að þessu sinni en þó fékk ég eitt bréf sem ég hef svolítið gaman af. Það er hér:
Sæl Rakel.
Það er alltaf sami rostinn í þér.
Kk, xxx
Af viðbúnaðinum sem mætti Tunnunum sl. mánudag; bæði að hálfu lögreglu og sjálfskipaðra verjenda núverandi stjórnvalda, er ljóst að töluverður ótti hefur gripið um sig meðal þeirra sem vilja halda í það gamla kerfi sem ver forréttindi valda- og eignastéttarinnar í landinu. Það er deginum ljósara að þeir sem þurfa aldrei að taka afleiðingum gjörða sinna heldur láta þær bitna á almenningi vilja engu breyta enda þjónar núverandi kerfi þessum einstaklingum.
Það má hins vegar velta því fyrir sér hvers vegna svo stór hluti almennings lætur það yfir sig ganga að fámennur forréttindahópur skerði lífskjör heils samfélags til að viðhalda forréttindum fámennrar valda- og eignaklíku í þessu litla landi. Svörin liggja á engan hátt ljós fyrir mér nema ef vera skyldi að stór hluti þjóðarinnar sé sofandi gagnvart þessum staðreyndum enn þá.
Maður spyr sig auðvitað hvernig getur þjóðin sofið þegar staðreyndirnar blasa við hvarvetna? Mögulega liggur svarið í því að mikill meiri hluti sé undir svo sterkum áhrifum af því sem er kallað áfallastreituröskun, vegna þess sem hefur verið að koma í ljós frá bankahruninu 2008, að þeir sem þetta á við um hafi ekki orku til að spyrna á móti. Svo eru það auðvitað einhverjir sem vilja engu breyta því þeim stendur á sama þó núverandi kerfi sé óréttlátt á meðan ranglætið ógnar ekki þeim þægindaramma sem það hefur byggt utan um sína eigin tilveru.
Þeir sem geta ekki sætt sig við slíka tilveru heldur vaka yfir réttindum sínum og annarra hafa gjarnan verið kallaðir hugsjónafólk. Þeir sem starfa með Hagsmunasamtökum heimilanna eru þannig fólk. Þeir sem standa á bak við Tunnurnar eru af sama meiði. Mig langar til að benda ykkur á að í Bítinu á Bylgjunni, sl. mánudagsmorgun, var viðtal við fulltrúa úr báðum þessum hópum sem svöruðu því hvers vegna það var mótmælt á mánudaginn og/eða hverju var mótmælt.
Fyrir þá sem eru ekki með svörin við þessum spurningum á hreinu enda ég þessa færslu á krækju í þetta viðtal.
Í Bítið - Rakel Sigurgeirsdóttir og Ólafur Garðarsson um fyrirhuguð mótmæli í dag
Að lokum þá er rétt að minna á það að hugsjónafólk finnur alltaf leið til að halda málstað réttlætisins á lofti Það er eins og fífillinn sem brýtur sér leið í gegnum malbikið, jafnvel þó það sé malbikað yfir hann aftur og aftur. Hér verður þess vegna mótmælt þar til óréttlætið verður endanlega tunnað!
Tap hjá Samfylkingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lýðræði eða opinbert lögregluríki?
20.1.2011 | 01:24
Stuðningshópur 9-menninganna boðar til hávaðamótmæla kl. 11:00 í dag fyrir framan Héraðsdóm. Við ætlum að mótmæla þeirri aðför sem þar er höfð í frammi gegn níu einstaklingum. Í grófum dráttum þá er því haldið fram að þessir níu hafi gert tilraun til valdaráns þ. 8. desember árið 2008. Ákæran, málatilbúnaðurinn og skrípaleikurinn innan og utan dómsalarins eru svo yfirgengileg að það sætir furðu að ekki sé löngu búið að vísa málinu frá!
Undanfarna daga hafa farið fram vitnaleiðslur í málinu en þeim verður framhaldið í dag. Það má fylgjast með þeim hér og hér. Það er svo margt við þetta mál sem vekur bæði furðu og vandlætingu að of langt mál væri að telja það allt. Það er líka ljóst af framburði vitna ákæruvaldsins að forsendurnar eru byggðar á afar veikum grunni. Aftur á móti fer ásetningurinn um misbeitingu valdsins varla fram hjá neinum sem kynnir sér málin til hlítar. Það má m.a. gera hér.
Þegar gripið er niður í framburð vitna ákæruvaldsins er áberandi hve algeng eftirfarandi orðasambönd eru í framburði þeirra: að halda, vita ekki alveg, túlka, að meta svo, sönnunargagn sýnir annað en samt". Minnisleysi er líka afar áberandi, einkum meðal lögreglumannanna sem hafa verið yfirheyrðir. Þeir þykjast heldur ekki vita hver gaf þeim skipunina um að koma að innganginum á alþingishúsinu, sem liggja að þingpöllum, umræddan dag og alls ekki hver fyrirskipaði handtöku þeirra í það sama skipti. Sumir ljúga m.a.s. blákalt eins og þingverðirnir sjálfir reyndar líka.
Ég minni á að ef við sýnum 9-menningunum ekki stuðning og spyrnum við fótum með því að mæta á morgun getur það haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir lýðræðið. Við bjóðum í raun heim grímulausu lögregluríki þar sem lögreglan yrði væntanlega skipuð einstaklingum af sama kalíberi og þeim sem höfðu afskipti af 9-menningunum 8. desember árið 2008.
Miðað við framburð þeirra mætti ætla að slíkir skilji heilann eftir heima þegar þeir mæta til vinnu og sýna þar af leiðandi hvaða yfirvaldi sem er blinda og gagnrýnislausa hlýðni. Ekkert okkar vill kalla slíkt yfir sig og ég þori að fullyrða að fæstir innan lögreglunnar myndu vilja það heldur. Kannski ekki einu sinni þeir sem vilja ekki kannast við blinda hundstryggð sína fyrir tveimur árum. Sýnum lýðræðisvitund okkar í verki og mætum hér.
Boða til mótmæla við Héraðsdóm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Tunnurnar skrifa alþingismönnum bréf
17.1.2011 | 10:49
Í Icesave-málinu í janúar í fyrra sýndi Ólafur það að hann getur tekið skynsamlegar ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar ef nógu margir fara fram á það. Það er ástæðan fyrir því að þessi áskorun til hans er komin fram. Eins og málin horfa við þeim sem standa að baki þessari áskorun hefur Alþingi ekki unnið að hagsmunum þjóðarinnar um nokkurt skeið eða frá því allnokkru fyrir hrun. Afleiðingarnar eru þær að það er rúið nær öllu trausti!
Þessar aðstæður eru grundvöllur þeirrar stjórnmálakreppu sem kemur ekki síst fram í því úrræðaleysi sem almennt ríkir meðal stjórnmálastéttarinnar gagnvart efnahagskreppunni. Af skoðanakönnunum að undanförnu er líka ljóst að u.þ.b. helmingur þjóðarinnar veit ekki hvað hún ætti að kjósa ef þing væri rofið og boðað til kosninga. Ég lái henni það ekki miðað við þá blindgötu sem fjórflokkurinn hefur stefnt pólitíkinni í.
Það er greinilegt að stjórnmálastéttin þekkir vel til undirskriftarsöfnunarinnar, sem ég vísaði til hér á undan, en þar er áskorun á forsetans um að skipa utanþingsstjórn áður en það ófremdarástand sem nú er uppi kallar yfir þjóðina enn alvarlegri afleiðingar. Þetta kom ekki síst fram í skrifum þingmanna og ýmissa stuðningsmanna þeirra á vefmiðlum um mánaðamótin október/nóvember á síðasta ári eða í kjölfar þess að undirskriftarlistinn fór í loftið. (ég tók saman yfirlit um þessi skrif um miðbik þessarar færslu)
Tunnurnar skrifuðu líka alþingismönnum bréf 4. nóvember þar sem þær settu fram hugmyndir um það hvernig þingið getur skapað skipun slíkrar stjórnar lýðræðislegri umgjörð. Þær sendu þeim enn eitt bréfið í morgun en það er svohljóðandi:
Góðan daginn!
Það er komið að leiðarlokum og því fyrr sem þið horfist í augu við það því betra. Alþingi nýtur ekki traust til að vinna að hagsmunum þjóðarinnar enda sýnir Rannsóknarskýrslan að stór hluti þeirra sem sitja á núverandi þingi bera ábyrgð á því að efnahagur landsins sigldi í þrot. Það eruð þið sem berið ábyrgð á núverandi stjórnmálakreppu en hún viðheldur og dýpkar þá efnahags- og samfélagskreppu sem er svo áríðandi að bregðast við.
Þrír af fimm núverandi þingflokkum hafa haft til þess ærin tækifæri að grípa til afgerandi aðgerða til að verja hagsmuni heimilanna í landinu en allir hafa sýnt það og sannað að það er fjármálkerfið sem hefur forgang fram yfir hag íslensks almennings. Lítil sem engin uppstokkun hefur farið fram frá bankahruni innan fjármálkerfisins og sama er að segja um stjórnsýslu- og embættismannakerfið.
Þær ríkisstjórnir sem fengu tækifæri til að verja hag almennra kjósenda hafa þjappað sér saman utan um gerendur hrunsins og tekið sig saman um að fylla þjóðina lygi og vafasömum fullyrðingum um eigið hlutverk, valdsvið og tilgang. Þið hafið öll týnt ykkur inni á leiksviði samkeppninnar um völd og athygli fjölmiðla sem flestir hafa tekið sig saman um að styrkja ykkur í þeirri veruleikafirringu að pólitík snúist hreinlega um ykkur sjálf og hvert ykkar situr að völdum.
Á meðan hangir þjóðin á heljarþröm örvæntingar og ótta yfir atvinnu- og eignamissi, íhugar landflótta og sumir taka eigið líf. Við höfum þolað lífskjaraskerðingu; frystingu launa, hækkun vöruverðs, hækkandi vexti, skattahækkanir og skerta heilbrigðisþjónustu, niðurskurð í menntakerfinu og er hótað með enn frekari skerðingu í gegnum ýmis konar gjöld og afborganir af lánum sem urðu til fyrir vanhæfni sumra ykkar og þeirra embættismanna sem þið sjálf eða fyrrum flokkssystkini ykkar komuð til embætta.
Við megum ekki við meiru en bjóðum ykkur að vinna með okkur að þeirri kröfu að hér verði skipuð utanþingsstjórn. Miðað við núverandi aðstæður er sú leið líklegust til að gefa þjóðinni og ykkur sjálfum næði til að leggjast í endurmat og uppgjör. Auk þess hefðu nýir stjórnmálaflokkar og - öfl tækifæri til að undirbúa sig og bjóða fram við næstu kosningar sem verða þegar ný stjórnarskrá verður tilbúin.
Þið eruð enn í bestri aðstöðu til að skapa skipun utanþingsstjórnar lýðræðislegri umgjörð en þá sem Sveinn Björnsson fór eftir við skipun utanþingsstjórnarinnar 1942. Sú sem þetta skrifar vísar í það sem hún sagði í svarbréfi til Ólínu Þorvarðardóttur um miðjan nóvember á síðasta ári:
Þú sem þingmaður hefur tækifæri til að semja frumvarp til bráðabirgðalaga til að skapa skipan utanþingsstjórnar lýðræðislega umgjörð. Þar má t.d. leggja til skipun ráðgefandi samráðshóps valdhafa og almennings um skipun utanþingsstjórnar, hver/-jir sæju um að skipa í þennan hóp og hvernig, hvaða kröfur þeir sem yrðu skipaðir í utanþingsstjórnina verða að uppfylla og síðast en ekki síst að mæla með þjóðatkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hefur tækifæri til að kjósa úr einhverjum hópi hæfilegan fjölda fulltrúa í utanþingsstjórnina.
Í þessu samhengi er rétt að taka það fram að við höfum þegar talað við ýmsa málsmetandi einstaklinga varðandi útfærslur á þessu stjórnarfyrirkomulagi en eigum eftir að tala við fleiri. Hugmyndin og útfærslur hennar er því ekki eingöngu orðin til í kollinum á einhverjum sem hægt er að afgreiða sem fasíska tunnuterrorista.
Brown ætti að biðjast afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þegar horfst er í augu við staðreyndir!
17.1.2011 | 01:57
Í heimi þar sem öllu er snúið á haus er því haldið fram að þeir sem aðhafast ekki neitt séu jákvæðir en þeir sem mótmæla neikvæðir. Það ætti þó að liggja í augum uppi að það þarf ákveðna jákvæðni til að spyrna við fótum við misskiptingunni.
Þeir sem mótmæla reyna að vekja svefngenglanna og fá þá til liðs við sig til að hafa áhrif á líf sitt. Mótmælendur ala nefnilega þá bjartsýnu von í brjósti að samstaða fjöldans dugi til að hreyfa við fámennri sérgæslusveit valda- og eignastéttarinnar í landinu.
Þess vegna hafa Tunnurnar og fleiri skipulagt mótmæli í tilefni þess að þing kemur saman aftur á morgun eftir jóla- og áramótafrí. ( Sjá hér og hér) Þingfundur byrjar klukkan 15:00 en á sama tíma verður tunnunum komið fyrir á Austurvelli.
Þingfundurinn byrjar því strax með hressilegri áminningu um það að við sættum okkur ekki við lygar og brellubrögð í stað alvöru aðgerða til bjargar landi og þjóð úr rándýrsklóm.
Í textanum frá Tunnunum segir að við séum orðnar þreyttar á því að láta stjórnvöld ljúga að okkur! Með því er m.a. verið að vísa til viðbragðanna við stóru mótmælunum 4. október en þeim var svarað með vel æfðum lygavef sem undirstrikaði það enn frekar að stjórnmálastéttin þjónar engum nema hagsmunum sjálfra sín og siðblinds fjármálakerfis.
Við hvetjum fólk til að mæta nú, eins og 4. október, í öllum sínum fjölbreytileika og standa saman í því að brjóta niður spillingar- og lygamúrinn og krefjast gagngerrar uppstokkunar. Við höfum staðið í bréfa- skrifum við þingmenn þar sem við höfum hvatt þá að skapa þessari leið lýðræðislegri umgjörð. (Égrakti meginatriðin í þeim hér)
Það eru greinilega fleiri búnir að fá yfir sig nóg af lygi valdhafanna en það verður ekki ljóst fyrr en seinni partinn í dag hvort fjöldinn er tilbúinn til að standa saman að því að koma þeim skilaboðum áleiðis. Gunnar Skúli Ármannsson skrifar hárbeittan pistil, eins og oft áður, þar sem hann segir m.a:
Daglega er almenningi drekkt í lygi valdhafanna. Fréttaflutningurinn er afvegaleiðandi og hlutirnir ekki nefndir réttum nöfnum. Afleiðingar bankahrunsins eru atvinnumissir, tekjumissir og eignamissir. Alveg sama hversu mikið er kallað eftir leiðréttingu á þessari gríðarlega miklu eignatilfærslu sem á sér stað gerist ekkert.
Bankar eru hiklaust endurreistir á kostnað almennings eins og sú starfsemi sé upphaf og endir alls í tilverunni. Fjölmiðlaumræðan gerir ekkert til að vefengja þessa forgangsröðun. Þess í stað dynur á okkur stöðug lygi um mikilvægi þess að bjarga fjármálastofnunum samtímis og það er óvinnandi vegur fyrir sömu stjórnvöld að ákvarða lágmarksframfærslu venjulegs Íslendings. (leturbreytingar eru mínar)
Hann heldur áfram og undirstrikar þær mörgu ástæður sem við höfum til að mótmæla:
Kvótinn, Magma, gjaldþrota heimili og fyrirtæki, niðurskurðurinn í heilbrigðismálum, hjá öryrkjum, hjá öldruðum, spilling við endurúthlutun fyrirtækja, reykfylltu bakherbergin sem vinstri stjórnin ætlaði að opna fyrir almenningi, skattahækkanir og einkavæðing Íbúðalánasjóðs Íslands í boði AGS og vegatollar. Öll þessi þjáning til að endurreisa spillt fjármálakerfi sem mun halda áfram að stjórna þeim sem við kusum til að stjórna fyrir okkur. (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)
Það ætti enginn að þurfa að spyrja sig hverju er verið að mótmæla því ástæðurnar eru margar. Það væri miklu nær að spyrja: Hvers vegna stöndum við ekki öll saman að þessu sinni?
Að lokum langar mig til að benda ykkur á viðtal Egils Helgasonar við Elías Pétursson í Silfrinu í gær. Í upphafi viðtalsins bendir Elías á það hvernig stjórnvöld nota hagtölur til að ljúga að okkur! Skýrasta dæmið er e.t.v. tölur um atvinnuleysi. Þar er aldrei tekið inn í þeir sem hafa flutt úr landi eða fjölskyldufeður sem eru að vinna erlendis.
Elías segir líka frá því að hann tók húsnæðislán árið 1998. Miðað við forsendurnar þá kostaði 6800 vinnustundir að endurgreiða það. Á þeim tíma sem er liðinn síðan hafa bæst 2500 vinnustundir! Það er því ekki hægt að halda öðru fram en hér hafi orðið verulegur forsendubrestur og raunveruleg kaupmáttarrýrnun!
Elías Pétursson fer ýtarlega yfir mörg meginatriði varðandi þróun íslenska hagkerfisins á undanförnum árum. Þróunin er vægast sagt geigvænleg en undir lok viðtalsins varpar Elías fram tveimur grundvallarspurningum:
- Getum við haldið svona áfram?
- Viljum við halda svona áfram?
Í framhaldinu dregur hann fram afar athyglisverðan lista yfir það hvaða afleiðingar það muni hafa ef við höldum áfram á þeirri leið sem við erum á núna:
1. Skuldasöfnun eykst áfram.
2. Kaupmáttarrýrnun hjá almenningi heldur áfram.
3. Fjármagneigendur halda áfram að hagnast á kostnað almennings.
4. Kjarabilið heldur áfram að breikka þannig að hér verður til enn ríkari yfirstétt.
5. Auðlindirnar verða seldar beint eða óbeint.
6. Það verður haldið áfram að virkja án þess að taka tillit til arðs og verðmætasköpunar.
Með þessu verður haldið áfram að ganga á auðlindirnar en eignir og innviðir samfélagsins drabbast niður þar sem öll innkoma í ríkissjóð fer í vaxtagreiðslur!
Þú sem lest þessar línur gerir það sem þú vilt seinni partinn í dag en ég reikna með að þú áttir þig á því að það er síst minni ástæða til að mótmæla nú en í janúar fyrir tveimur árum! Hins vegar vil ég taka það fram fyrir mína hönd að ég vil ekki sjá aðrar alþingiskosningar strax. Ástæðan er sú að enginn núverandi þingflokka hefur forsendur til að leysa úr því flókna verkefni sem samfélagið stendur frammi fyrir. Mér sýnist að til að leysa það dugi ekkert nema færustu sérfræðingar!
Það ætti að vera samvinnuverkefni þjóðarinnar allrar að hafa uppi á þeim þar sem hagsmunir okkar allra eru í húfi. Ef við getum ekki komið okkur saman um það hverjir það ættu að vera þarf að efna til kosninga úr ákveðnum hópi sem hefur fengið tilnefningu til verksins. Þetta http://utanthingsstjorn.is/ er grunnurinn að slíkri leið.
Boða til mótmæla á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég sæki um skilnað á grundvelli pólitíks ofbeldis!
12.1.2011 | 23:55
Það er undarlegt hlutverkið sem valdið hefur tekið sér í sambandi sínu við þjóðina. Í stað þess að það færi í endurhæfingu þegar upp komst um ofbeldið, sem það hafði beitt hana í aðdraganda hrunsins, þá er helst að sjá að það sé orðið að viðtekinni venju að stunda blekkingar og baktjaldamakk. Engar nýjungar hafa komið fram í upplýsingamiðlun heldur lokar valdið sig kirfilega af og svarar í gátum og undir rós varðandi alla sína gjörninga.
Öllum má vera orðið það ljóst að það eru ekki hagsmunir þjóðarinnar sem stjórnvöld hafa í fyrirrúmi þegar kemur að stjórnsýslulegum ákvörðunum heldur eru það hagsmunir peningavaldsins sem ráða ferðinni. Icesave-endaleysan er ekki eini vitnisburðurinn um það. Tildrög þessara svokölluðu skulda þjóðarinnar hafa aldrei verið kynnt á heiðarlegan og opinskáan hátt heldur er almenningi boðið upp á slagorð þar sem höfðað er til meðvirkni hans og þrælslundar.
Núverandi ríkisstjórn lætur ota sér fram sem ofbeldisverkfæri gagnvart þjóðinni sem skal borga Icesave sama hvað það kostar. Það sorglegasta er að stjórnin sem sat þegar Icesave varð til klifaði í sífellu á einhverju sem átti að heita traust efnahagsstjórn en sú sem skal knésetja þjóðina til þeirra hlýðni að greiða afleiðingarnar kennir sig við velferð. Það er vandséð hvor braut alvarlegar af sér en það er ljóst að hvorug á erindi við hagsmuni íslensks samfélags.
Það er athyglisvert hve slagorðakennd umfjöllunin um þetta málefni er. Í hvert skipti sem hyllir í einhverja heilbrigða greiningu á sögu Icesave þá er henni óðara drekkt í pólitískum upphrópunum úreltrar nýfrjálshyggjuhugmyndafræði um innistæðueigendur, tryggingasjóði, skuldbindingar og skuldastöðu. Í framhaldinu er reynt að halda því fram að á meðan Icesave-skuldbindingarnar eru ófrágengnar þá sé ekki hægt að snúa sér að neinu sem heitir atvinnuuppbygging eða öðru sem snýr að uppgjöri og endurmati á gildum og áherslum markaðshyggjusamfélagsins.
Valdið hefur ekki einu sinni fyrir því að staldra við og endurmeta einstefnulega hagsmuni fjármálaveldisins, sem það vinnur fyrir, þó marktækar ábendingar hafi komið fram um að Icesave-skuldbindingarnar eru þjóðinni sjálfri algerlega óviðkomandi enda Landsbankinn í einkaeigu þegar til þeirra var stofnað. Í stað þess að finna nýja leið og freista þess að vísa málinu annaðhvort til dómstóla eða fara opinberlega ofan í saumanna á því hverjir bera hina raunverulegu ábyrgð og hvernig var að öllum Icesave-gjörningnum staðið þá taka íslensk stjórnvöld það að sér að vera handrukkarar breskra og hollenskra stjórnvalda gagnvart íslenskum almenningi.
Það er ekki einu sinni staldrað við þá staðreynd sem kom fram í Kastljósi í desember sl. að Landsbankinn komst upp með að gefa upp falskar bókhaldstölur varðandi stöðu bankans í ársuppgjöri fyrir árið 2007 með aðstoð endurskoðunarskrifstofunnar PricewaterhouseCoopers. (sjá hér) Það er þess vegna eðlilegt að almenningur spyrni við fótum og spyrji: hvað gengur stjórnvöldum til þegar þeir sækja það svo fast að íslenskur almenningur borgi kröfuna sem breks og hollensk stjórnvöld gera vegna Icesave?
Af hverju kjósa stjórnvöld að beita því pólitíska ofbeldi sem þau láta dynja á almenningi? Hvers vegna er svona mikið í húfi fyrir þau að verja fjármagnseigendurna fyrir því að mæta afleiðingum gjörða sinna? Hvers vegna fórnar Steingrímur hugsjónum sínum og mannorði með því að ganga svo freklega fram í því að verja hagsmuni auðvaldsmafíunnar? Hvers vegna er hann orðinn sá sami og hann barðist gegn áður?
Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi Steingríms en þó treysti ég honum einu sinni til þess að standa við orð sín og hugsjónir. Annað hefur nú komið í ljós og það sama má segja um Jóhönnu og vel flesta aðra sem sitja í ráðherrastólum núverandi ríkisstjórnar. Þessir einstaklingar eiga það allir sammerkt að ráða ekki við verkefnið sem þeir voru kosnir til að gegna.
Nú mætti e.t.v. skilja orð mín þannig að ég sé að mæla með því að núverandi ríkisstjórn yrði felld til að koma Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki að en það er öðru nær! Engum treysti ég verr en Sjálfstæðisflokknum til að koma að völdum enda sjáum við afleiðingarnar að stjórnarsetu þeirra síðustu tvo áratugina. Aðrir þingflokkar hafa hvorki nægilegan styrk eða trúverðugleika til að koma á nauðsynlegum friði og sátt í samfélaginu til að vinna að brýnustu málum þess.
Þessu ofbeldissambandi valdsins og almennings verður hins vegar að linna. Við sem byggjum þetta samfélag verðum að hafa hugrekki til að finna aðrar leiðir til að byggja það upp þannig að við sjálf og afkomendur okkar þurfi ekki að búa við þetta pólitíska ofbeldi sem þjónar hagsmunum fjármálaveldisins. En þá verðum við líka að ÞORA!
Við verðum að þora að horfa eftir öðrum leiðum til að komast út úr þeirri stöðnun sem núverandi stjórnmálakreppa viðheldur. Margir ætla að koma saman núna á mánudaginn sem er 17. janúar og mótmæla kyrrstöðunni. (sjá hér, hér og hér) Sumir hafa sett fram kröfu um gagngera uppstokkun og svo eru nokkrir sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að utanþingsstjórn sé sú leið sem er skynsamlegast að fara við núverandi aðstæður.
Skoðaðu þetta: http://utanthingsstjorn.is/ og gerðu það upp við þig hvort þú þorir! Ávinningurinn af þessari leið yrði sá að það skapaðist næði til að leggjast í endurmat og uppgjör; bæði fyrir almenning og valdið. Auk þess hefðu nýir stjórnmálaflokkar og - öfl tækifæri til að undirbúa sig og bjóða fram við næstu kosningar sem verða þegar ný stjórnarskrá verður tilbúin.
Ef þú vilt kynna þér betur söguna á bak við þessa kröfu bendi ég þér á bloggfærsluna: Við verðum að komast út úr þessari vitleysu! Svo tók ég saman spurningar og svör varðandi utanþingsstjórn.
Perhaps the way to meet tomorrow's challenges is not to use yesterday's solutions, but to dare to think the previously unthinkable, to speak the previously unspeakable, and to try that which was previously out of the question." (Neale Donald Walsch)
Steingrímur gríðarlega bjartsýnn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.1.2011 kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
„Ísland er stjórnlaust, því engin því stjórnar“
8.1.2011 | 06:42
Jólakór Heimavarnarliðsins og Tunnanna kom fyrst fram þann 7. desember sl. sem var alþjóðlegur bankaáhlaupsdagur. Í tilefni karókímaraþonsins, sem fram fer í Norræna húsinu, hafa meðlimir hans ákveðið að koma saman enn á ný og flytja orkumikinn ættjarðaróð ásamt fleiri grasrótum Austurvellinga kl 17:45 í dag. Óðurinn er frá Hallgrími Helgasyni sem setti hann saman haustið 2008 við lagið: Ísland er land þitt.
Eins og alþjóð veit eru þeir sem hafa staðið vaktina niður á Austurvelli mjög samfélagslega meðvitaðir enda hafa þeir staðið fyrir bæði stórum og smáum aðgerðum og uppákomum til varnar hagsmunum lands og þjóðar. Margir þeirra sem koma fram með kórnum síðar í dag hafa verið virkir í slíkri viðspyrnu í bráðum tvö og hálft ár. Ófáir hafa líka stutt við undirskriftarsöfnunina á orkuaudlindir.is með ráðum og dáð.
Það er reyndar ein af grundvallarkröfum Austurvellinga að náttúruauðlindirnar og nýting þeirra sé í höndum þjóðarinnar sjálfrar. Það er líka algjör lágmarkskrafa að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um svo þýðingarmikil og afgerandi mál og ráðstöfun orkuauðlindanna.
Austurvellingar eru vanir því að láta verkin tala og kunna að sjálfsögðu að sýna stuðning sinn í verki. Þeir munu því hefja upp raust sína í tilefni þessa skemmtilega framtaks upp úr kl. 17:45 í Norræna húsinu í dag. Það er heldur ekki útilokað að þingmenn og varaþingmenn sem styðja þennan góða málstað sláist í hóp Viðspyrnukórs Austurvellinga.
Es: Það má sjá frumflutning Jólakórs Heimavarnarliðsins og Tunnanna á umræddu lagi og texta Hallgríms Helgasonar hér.
Skráð gegn vilja sínum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Botnlaus lygaþvæla!
6.1.2011 | 01:35
Mikið er það orðið þreytandi að hlusta á þá endalausu lygaþvælu sem stjórnmálamennirnir og klíkusystkini þeirra komast upp með að halda að okkur í gegnum einmiðlana sem eru í eigu þeirra sem kostuðu þá inn á þing. Ég er búin að fá mikið meira en nóg! Ég vil að við gefum þeim öllum frí og tel að þetta væri friðsamasta og jafnvel árangursríkasta leiðin til þess: http://utanthingsstjorn.is/
Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þá heimsmynd sem íslenskir stjórnmálamenn keppast við að halda að okkur dyggilega studdir af ofvöxnum fjármálastofnunum Vesturveldanna. Myndin hér að neðan segir nefnilega miklu meira um þá einmiðlastuddu heimsmynd sem haldið er að neyslusamfélögunum sem slíkir sækja fylgi sitt til.
Mér er fyrir löngu nóg boðið! og hef mótmælt frá haustinu 2008. Það er þreytandi að mótmæla en það er ljóst að það er það eina sem hreyfir við þeim sem hafa byrgt sig inni í innsta hring. Þess vegna mun ég halda áfram uns glerbúr sérhagsmunaklíkanna mun hrynja til grunna. Ég hvet alla til að taka þátt því misskiptingin kann ekki góðri lukku að stýra. ALDREI og HVERGI!
Ég bendi ykkur á að þann 17. janúar n.k. kemur þingið saman að nýju til fundar. Þann dag ætlum við líka að mæta og mótmæla þeirri gegndarlausu og kerfisvörðu lygaþvælu sem þjóðinni er boðið upp á! Þingfundur byrjar kl. 15:00 og tunnunum sem glumdu 4. október mun verða komið fyrir á Austurvelli á sama tíma.
Tunnuslátturinn, sem hefur verið líkt við hjartslátt þjóðarinnar, mun svo væntanlega ná hámarki kl. 16:30 en tveir hópar hafa nú þegar boðað til mótmæla á þeim tíma fyrir framan alþingishúsið. Báðir hópar hvetja atvinnurekendur og stofnanir til að gefa starfsfólki sínu frí á þessum tíma svo allir geti sameinast um að mótmæla vanhæfri stjórnmálastétt sem þjónar engum nema hagsmunum sjálfra sín og siðblinds fjármálakerfis. Sjá hér og hér.
Fundur VG hreinsaði loftið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spurningar og svör varðandi utanþingsstjórn
3.1.2011 | 04:46
Hugmyndin um utanþingsstjórn er alls ekki ný af nálinni en samt sem áður virðast þeir vera margir sem vita lítið um fyrirbærið og óttast það jafnvel meira en núverandi stjórnmálakreppu. Hér á eftir ætla ég að reyna að svara nokkrum spurningum varðandi utanþingsstjórn og þá aðallega hvað hún er og hvers vegna hugmyndin er fram komin nú.
Hvað er utanþingsstjórn?
Á Wikipedia segir m.a. að: utanþingsstjórn er í þingræðisríki ríkisstjórn sem tekur við völdum tímabundið. [...] Á Íslandi hefur einu sinni setið utanþingsstjórn [...] sem Sveinn Björnsson ríkisstjóri skipaði í kjölfar þess að formenn stjórnmálaflokkanna gátu ekki komið sér saman um myndun ríkisstjórnar. Utanþingsstjórnin sat í tvö ár 1942 til 1944.
Með þessu skapaði þáverandi, þjóðhöfðingi, Sveinn Björnsson, það sem er kallað stjórnskipunarhefð og þó henni hafi ekki verið beitt síðan þá hefur skipun slíkrar stjórnar nokkrum sinnum komið til tals á umliðnum árum. Þ.e. árið 1950 (sjá hér) í kringum 1980 (sjá hér) og margítrekað í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. (sjá t.d. hér, hér og hér).
Undir hvaða kringumstæðum er utanþingsstjórn skipuð?
Samkvæmt almennustu skilgreiningunni þá er gripið til skipunar slíkrar stjórnar þegar ekki tekst að mynda ríkisstjórn eftir hefðbundnum lýðræðislegum leiðum af einhverjum ástæðum (sjá Wikipedia) Það má vel umorða þessa skilgreiningu því umræðan um skipun slíkrar stjórnar hefur komið upp oftar og þá alltaf þegar stjórnmálakreppa blasir við.
Í ljósi sögunnar sýnist mér því nær að tala um að skipun slíkrar stjórnar eigi aðeins við þegar almennt neyðarástand ríkir í samfélaginu vegna þess að kosnir fulltrúar geta ekki komið sér saman um skynsamlegar leiðir varðandi almenna hagsmuni þjóðarinnar.
Saga utanþingsstjórnar
Utanþingsstjórnin 1942-1944: Utanþings- stjórn hefur aðeins einu sinni verið skipuð hér á landi en það var í tíð Sveins Björnssonar, þáverandi ríkisstjóra. Þetta var árið 1942. Lýðveldisstofnunin stóð fyrir dyrum með ritun sérstakrar stjórnar- skrár fyrir hið nýja lýðveldi en það var fleira sem kynti undir stjórnmálakreppu þessa tíma.
Í upphafi ársins 1942 sat hér þjóðstjórn sem klofnaði í deilum um kjördæma- skipan. Þá tók við minnihlutastjórn sem sat á meðan kjördæmamálið var leitt til lykta. Um haustið var boðað til kosninga en hin nýju kjördæmalög röskuðu mjög fylgi flokka og ljóst að erfitt gæti orðið að mynda þingræðisstjórn. Eftir rúmlega eins mánaðar þóf tók Sveinn Björnsson ríkisstjóri til sinna ráða og myndaði utanþingsstjórn ( Íslenskur söguatlas 3.bd. 1993:85)
Árin 1949-1950: Ég finn engar heimildir um þá staðhæfingu Vilmundar Gylfasonar að Sveinn Björnsson, þáverandi forseti, hafi myndað utanþingsstjórn árið 1950 eins og hann heldur fram hér. Þó er ljóst að á þessum tíma voru miklar sviptingar í pólitíkinni sem má rekja til stjórnmálakreppu sem grundvallaðist á heimatilbúnum vanda í stjórn efnahagsmála.
Forsetinn hefur því óhjákvæmilega haft einhver afskipti af stjórnmálunum. Fyrst með boðun kosninga árið 1949 eftir að slitnaði upp úr samstarfi þeirrar ríkis- stjórnar sem almennt hefur verið kölluð Stefanía og svo aftur snemma í mars- mánuði 1950 en þá var minnihlutastjórn Ólafs Thors borin vantrausti í kjölfar áætlunar sem stjórn hans lagði fram um aðgerðir í efnahagsmálum. (Sjá Íslenskan söguatlas 3.bd, 1993 bls. 102-105 og Wikipediu)
Kristján Eldjárn og utanþingsstjórn 1979-1980: Þann 4. nóvember sl. birti Pressan grein þar sem gerð er grein fyrir því að áramótin 1979/1980 var Kristján Eldjárn að missa þolinmæðina eftir að myndun starfhæfrar ríkisstjórnar hafði dregist í hálft ár. Þegar hann lét stjórnmálaforingjana vita að hann væri tilbúinn til að mynda slíka stjórn hrökk allt í gírinn þannig að af myndun slíkrar stjórnar varð ekki. (Sjá hér)
Mig langar til að vekja athygli á því að Pressan birtir þessa athyglisverðu upprifjun daginn sem Tunnurnar efndu til mótmæla við Alþingishúsið undir yfirskriftinni Tunnurnar kalla á utanþingsstjórn!
Hver skipar utanþingsstjórn?
Utanþingsstjórnir eru skipaðar beint af þjóðhöfðingja (sjá Wikipedia) Í því eina tilfelli sem utanþingsstjórn hefur setið hér á landi þá var það Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri, sem skipaði hana. Í því tilviki sem heimildir herma að skipun slíkrar stjórnar hafi staðið til síðar var það þáverandi forseti, Kristján Eldjárn, sem hefði staðið að skipun hennar. Ef marka má þessa heimild hér hefði hann þó farið eftir hugmynd sem hafði verið sett fram ári áður um það hverjir ættu að sitja þar.
Ég reikna með að ef af skipun utanþingsstjórnar verður í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar þá muni hann kjósa lýðræðislegri leið en þá að hann standi einn að skipun slíkrar stjórnar. Annað eins hefur hann hamrað á mikilvægi lýðræðisins og því að vilji þjóðarinnar sé í heiðri hafður. (Sjá t.d. síðasta áramótaávarp forsetans hér)
Hverjir sitja í utanþingsstjórn?
Utanþingsstjórn er ríkisstjórn skipuð mönnum sem sitja ekki á alþingi. (sjá Vísindavefinn). Þeir stjórna með hlutleysi eða stuðningi löggjafarvaldsins (sjá Wikipedia) Sveinn Björnsson skipaði fimm karlmenn til að sitja slíka stjórn á árunum 1942-1944 en samkvæmt þessari heimild hér voru þeir tólf sem Kristján Eldjárn hugðist skipa í slíka stjórn árið 1980.
Ef af skipun utanþingsstjórnar verður til að leysa úr núverandi stjórnmálakreppu verður að finna leið til að skipun hennar skapi almenna sátt og frið í samfélaginu. Það er mín skoðun að besta leiðin sé að byrja á því að skapa ákveðið vinnuferli til að byggja á. Það gæti t.d. byggt á eftirfarandi:
- Hvaða kröfur á að gera til þeirra sem koma til greina að skipa í utanþingsstjórn?
- Hversu margir eiga að sitja í þessari stjórn?
- Hverjir eiga að standa að forvalinu?
- Hvernig getur þjóðin komið að endanlegu vali?
Umræðan um utanþingsstjórn frá bankahruni
Krafan um utanþingsstjórn er langt frá því að vera runnin undan rifjun þess hóps sem kennir sig við Tunnurnar. Strax í nóvember 2008 setti Katrín Oddsdóttir, núverandi stjórnlagaþingmaður, fram kröfuna, um utanþingsstjórn (sjá hér). 27. janúar 2009 setti hópur sem kenndi sig við Neyðarstjórn kvenna fram kröfu um utanþingsstjórn (sjá hér). Samtökin Nýtt Ísland settu líka fram kröfu um utanþingsstjórn 12. janúar 2010 (Sjá hér).
Þeir eru reyndar miklu fleiri sem hafa talað um skipun slíkrar stjórnar en þá oftast undir öðrum heitum. Þar má nefna: neyðarstjórn, bráðabirgðastjórn, embættismannastjórn og jafnvel forsetastjórn. Tvö þau fyrstu geta reyndar allt eins átt við þar sem umræðan um utanþingsstjórn er fyrst og fremst til komin fyrir það neyðarástand sem hér ríkir og er eingöngu hugsuð til bráðabirgða.
Undir lok október færðist aftur líf í umræðuna um skipun utanþingsstjórn en ég tók aðalatriði hennar saman hér. Þeir sem kalla eftir slíkri stjórn nú ætla henni það verkefni að bregðast við því neyðarástandi í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Margir vilja líka meina að stjórnmálakreppan hafi viðhaldið og dýpkað kreppuástandið á þessum sviðum í samfélaginu.
Þeir sem hafa kallað eftir utanþingsstjórn ætla henni að sitja til bráðabirgða til að vinna að þeim verkefnum sem henni verða sett. Til að sá verkefnalisti verði vel og fagmannlega unninn þá þarf hún annaðhvort að vera skipuð fagmönnum eða hafa slíka sér til ráðgjafar.
Einhverjir vilja e.t.v. trúa því að allir embættismenn séu fagmenn en ég tel að síðustu ár hafi fært okkur heim sanninn um það að slík er alls ekki alltaf raunin! Þar af leiðandi er það varla réttnefni að kalla utanþingsstjórn embættismannastjórn og forsetastjórn er varla viðeigandi heldur þar sem það er æskilegra að fleiri komi að skipun hennar en hann eingöngu. Sjálf tel ég æskilegast að það verði fundin leið til að þjóðin hafi úrslitavaldið varðandi það hverjir sitja þar.
Er einhver ástæða til að óttast utanþingsstjórn?
Ég held að það sé í eðli mannskepnunnar að óttast nýjungar en það er ljóst að skipun utanþingsstjórnar er neyðarúrræði til að bregðast við núverandi ófremdarástandi. Skipun utanþingsstjórnarinnar árið 1942-1944 var beitt þannig en hefur verið gagnrýnd m.a. fyrir það hvernig að skipun hennar var staðið.
Umræðan um hana í forsetatíð Kristjáns Eldjárns virkaði eins og svipa á þáverandi stjórnmálastétt og það er ljóst að núverandi stjórnmálastétt stendur töluverð ógn af hugmyndinni. Það kom ekki síst fram í þeim hræðsluáróðri sem var vakinn upp helgina sem undirskriftarlisti með áskorun á forsetann um skipun slíkrar stjórnar kom fram. Ég rakti meginatriðin í þeim hræðsluáróðri hér.
Það verður að viðurkennast að margir hrærðust til ótta undir staðhæfingum eins og þeim að þeir sem stæðu að baki henni væru fasískir tunnuterroristar. Það var hins vegar ekkert haft fyrir því að vekja athygli á bréfaviðskiptum sem talsmenn Tunnanna áttu við núverandi alþingismenn þar sem þetta kom m.a. fram:
Þú sem þingmaður hefur tækifæri til að semja frumvarp til bráðabirgðalaga til að skapa skipan utanþingsstjórnar lýðræðislega umgjörð. Þar má t.d. leggja til:
*skipun ráðgefandi samráðshóps valdhafa og almennings um skipun utanþingsstjórnar,
*hver/-jir sæju um að skipa í þennan hóp og hvernig,
*hvaða kröfur þeir sem yrðu skipaðir í utanþingsstjórnina verða að uppfylla
*og síðast en ekki síst að mæla með þjóðatkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hefur tækifæri til að kjósa úr einhverjum hópi hæfilegan fjölda fulltrúa í utanþingsstjórnina. (Sjá hér)
En það eru ekki aðeins talsmenn Tunnanna sem hafa bent á að skipun utanþingsstjórnar gæti orðið til þess að leysa núverandi stjórnmálavanda. Einn þingmaður hefur opinberað þá skoðun fyrir þingheimi að honum finnist krafan réttlætanleg. Þetta er bréfið hans:
það að krefjast utanþingsstjórnar er fullkomlega réttlætanlegt að mínu mati. Ég bendi líka á að fyrir ekki svo löngu síðan sátu í ríkisstjórninni tveir utanþingsráðherrar. Án vafa þeir tveir sem nutu hvað mest trausts hjá þjóðinni.
Þó að forseti myndi skipa utanþingsstjórn þá sæti Alþingi áfram. Hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, sætu áfram í sínum stólum. Þetta myndi líklega gera það að verkum að Alþingi myndi styrkjast gagnvart framkvæmdavaldinu en eins og staðan er í dag má halda því fram að Alþingi sé valdalaust gagnvart hinu svokallaða ráðherraræði eða flokksræði.
Ég er algerlega ósammála því sem haldið er fram hér að neðan [hér vísar viðkomandi þingmaður í svar frá Ólínu Þorvarðardóttur sem hún sendi líka á allar þingmenn] í það að verið sé að framselja umboð almennings í hendur eins manns. Bendi líka á að hann er lýðræðislega kjörinn af þjóðinni og hefur það stjórnarskrárbundna hlutverk að koma á starfshæfri ríkisstjórn. (leturbreytingar eru mínar)
Í aðalatriðum þá er svarið við spurningunni hér að ofan að eðlilega hræðist stjórnmálastéttin skipun utanþingsstjórnar því það myndi draga úr völdum hennar. Eignastéttin hræðist hana líka því utanþingsstjórninni yrði falið það verkefni að draga úr því þeirri misskiptingu og ójafnrétti sem hún nærist á.
Allur þorri þjóðarinnar hefur hins vegar miklu fremur ástæðu til að óttast núverandi stjórnmálaástand sem viðheldur ójafnréttinu og vinnur að enn frekari niðurskurði á kjörum og lífsgæðum almennings.
Myndi þingið vinna með utanþingsstjórn?
Eins og kemur fram í svari þingmannsins hér að ofan situr þingið áfram þó utanþingsstjórn verði skipuð. Auðvitað er það æskilegast að þingið myndi styðja slíka stjórn og að öllum líkindum myndi það neyðast til þess ef forsetinn myndi stíga það skref að binda endi á þá stjórnmálakreppu sem nú er uppi með skipun utanþingsstjórnar.
Það hlýtur að blasa við að núverandi þingflokkar hafa engar áætlanir um að leggja sjálfa sig niður. Ef þjóðin sameinast um áskorunina til forsetans um að skipa utanþingsstjórn sem leið til að leysa úr því ófremdarástandi sem hér ríkir og skapa frið þá væru þeir tilneyddir til að sætta sig við hana. Þingheimur veit það rétt eins og þjóðin að ef við komumst að samkomulagi þá yrði það dauðadómur þeirra sem þar sitja ef þeir rifu samkomulagið.
Þess vegna yrðu þeir að vinna með utanþingsstjórninni í sátt og samlyndi enda væri það besta veganestið til að komast aftur til valda þegar boðað verður til kosninga að nýju.
Eru ekki fleiri kostir í stöðunni?
Ég hef bent á það áður að það eru fimm möguleikar í núverandi stöðu:
1. Þjóðstjórn
2. Kosningar
3. Utanþingsstjórn
4. Blóðug bylting
5. Landflótti
Eins og ég rakti hér þá er utanþingsstjórn illskástur þessara möguleika. Með þeirri leið yrðu settir til þess hæfir einstaklingar til að vinna að alvöru lausnum á skuldavanda heimilanna og í atvinnumálum þjóðarinnar. Þessi leið myndi líka búa stjórnlagaþinginu viðunandi starfsskilyrði til að vinna að alvöru lýðræðisumbótum fyrir íslenskt samfélag. Ég bind líka töluverðar vonir við að þessi leið sé sú tryggasta til að binda endi á sölu ríkis og sveitarfélaga á náttúruauðlindunum okkar.
Ég vil skora á þig að kynna þér vel áskorun undirskriftarlistans (sjá hér). Ef þú vilt leggja þessari undirskriftarsöfnun enn frekara lið hvet ég þig til að prenta listann út (sjá hér) og safna enn fleiri undirskriftum þar sem það er nokkuð ljóst að það eru ekki allir sem fylgjast með því sem fram fer í netheimum. Þú getur líka dreift slóðinni og hvatt fólk til að kíkja. Slóðin er: http://utanthingsstjorn.is/
Biskup fjallar um reiðina í þjóðlífinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |