Það er engin ástæða til að gefast upp!

Tunnurnar voru skildar eftir niður á Austurvelli eftir mótmælin sl. mánudag. Við enduðum fyrir framan nefndarsvið Alþingis þar sem við komum hinum dimma takti kröfunnar um réttláta skynsemi inn til fulltrúa fjárlaganefndar sem funduðu um Icesave III. Lögregluliðið í kringum  okkur var eiginlega fjölmennara en við sem slógum taktinn.

Ég minni á að mótmælin sem Tunnurnar hafa staðið fyrir hingað til hafa alltaf farið friðsamlega fram og því lítið reynt á lögregluna. Þess vegna er spurning hvort ekki megi túlka þetta fjölmenna lögreglulið á þann veg að nærvera þeirra hafi verið fyrir það að það standi með kröfum okkar um að skuldum Landsbankamanna verði ekki velt yfir á almenning í landinu.

Það að tunnurnar voru skildar eftir þýðir ekki að kröfur Tunnanna um almenna leiðréttingu, siðbót, uppgjör og uppstokkun innan embættismanna- og stjórnkerfi séu þagnaðar. Öðru nær! Við sem höfum haft okkur mest í frammi erum að upphugsa nýjar leiðir. Nokkur okkar erum þegar farin að vinna að nýjum áætlunum. A.m.k. ein þeirra hefur að einhverju leyti verið unnin samhliða mótmælunum sl. október en skipulagning og utanumhald í kringum tunnurnar tóku slíkan tíma að það var lítið afgangs til að fylgja þeim eftir. 

Ég ýjaði að einu verkefninu sem við höfum verið að vinna að í bréfi sem við sendum á alþingismenn sl. mánudag. (Sjá hér) Til gamans má geta þess að við fengum lítil viðbrögð frá þingmönnum að þessu sinni en þó fékk ég eitt bréf sem ég hef svolítið gaman af. Það er hér:

Sæl Rakel.
Það er alltaf sami rostinn í þér.
Kk, xxx

Af viðbúnaðinum sem mætti Tunnunum sl. mánudag; bæði að hálfu lögreglu og sjálfskipaðra verjenda núverandi stjórnvalda, er ljóst að töluverður ótti hefur gripið um sig meðal þeirra sem vilja halda í það gamla kerfi sem ver forréttindi valda- og eignastéttarinnar í landinu. Það er deginum ljósara að þeir sem þurfa aldrei að taka afleiðingum gjörða sinna heldur láta þær bitna á almenningi vilja engu breyta enda þjónar núverandi kerfi þessum einstaklingum.

Valdapíramídi nútímans

Það má hins vegar velta því fyrir sér hvers vegna svo stór hluti almennings lætur það yfir sig ganga að fámennur forréttindahópur skerði lífskjör heils samfélags til að viðhalda forréttindum fámennrar valda- og eignaklíku í þessu litla landi. Svörin liggja á engan hátt ljós fyrir mér nema ef vera skyldi að stór hluti þjóðarinnar sé sofandi gagnvart þessum staðreyndum enn þá.

Maður spyr sig auðvitað hvernig getur þjóðin sofið þegar staðreyndirnar blasa við hvarvetna? Mögulega liggur svarið í því að mikill meiri hluti sé undir svo sterkum áhrifum af því sem er kallað áfallastreituröskun, vegna þess sem hefur verið að koma í  ljós frá bankahruninu 2008, að þeir sem þetta á við um hafi ekki orku til að spyrna á móti. Svo eru það auðvitað einhverjir sem vilja engu breyta því þeim stendur á sama þó núverandi kerfi sé óréttlátt á meðan ranglætið ógnar ekki þeim þægindaramma sem það hefur byggt utan um sína eigin tilveru.

Þeir sem geta ekki sætt sig við slíka tilveru heldur vaka yfir réttindum sínum og annarra hafa gjarnan verið kallaðir hugsjónafólk. Þeir sem starfa með Hagsmunasamtökum heimilanna eru þannig fólk. Þeir sem standa á bak við Tunnurnar eru af sama meiði. Mig langar til að benda ykkur á að í Bítinu á Bylgjunni, sl. mánudagsmorgun, var viðtal við fulltrúa úr báðum þessum hópum sem svöruðu því hvers vegna það var mótmælt á mánudaginn og/eða hverju var mótmælt.  

Fyrir þá sem eru ekki með svörin við þessum spurningum á hreinu enda ég þessa færslu á krækju í þetta viðtal.

Í Bítið - Rakel Sigurgeirsdóttir og Ólafur Garðarsson um Hugsjónaorka brýtur sér alltaf leiðfyrirhuguð mótmæli í dag

Að lokum þá er rétt að minna á það að hugsjónafólk finnur alltaf leið til að halda málstað réttlætisins á loftiHeart Það er eins og fífillinn sem brýtur sér leið í gegnum malbikið, jafnvel þó það sé malbikað yfir hann aftur og aftur. Hér verður þess vegna mótmælt þar til óréttlætið verður endanlega tunnað!


mbl.is Tap hjá Samfylkingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mjög gott mál, og komin tími á að valdaklíkan fái kvíðahroll og að þau finni að staða þeirra er ef til vill ekki alveg svona viss.  Og að þau gætu ef til vill þurft að snáfa frá og eftirláta betra fólki með betri framtíðarsýn koma í þeirra stað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.1.2011 kl. 19:46

2 identicon

Heil og sæl Rakel - og þið Ásthildur Cesil,, báðar - líka, sem aðrir gestir !

Ykkur að segja; er ég nú orðinn svo yfir mig þreyttur, á þessum sí glottandi hvítflibbum og blúndukerlingum, suður við Austurvöll í Reykjavík - og; á Alþingi sitja, að héðan í frá, kysi ég fremur Benzín sprengjur og þaðan af öflugri tól, til þess að mega vonast eftir, að þessi skoffín hyrfu, frá ásjónum mínum, sem annarra landsmanna, héðan í frá.

Friðsamlegar tunnubarsmíðar; voru ágætar - sem I. viðvörun, gegn þessu hyski.

Löngu komið; að II. og III. viðvörunum, Rakel og Ásthildur.

Ómenguðum glæpalýð; á ekki að sýna, hina minnstu miskunn !!!

Með kveðjum góðum; sem jafnan, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 20:20

3 identicon

Veistu, Karen. Að hlusta á ykkur gegnum útsendinguna frá Alþingi, veitti mér von. Mér er ALVEG sama hvort þið voruð 7, 70 eða 700; það heyrðist í ykkur! TAKK! TAKK! TAKK! Þið stóðuð þarna í mínu umboði, þar sem ég gat ekki verið þarna sjálfur! Og ber ég óendanlega virðingu fyrir ykkur, sem þó nenntuð að mæta. Hversu mörg sem þið kunnuð að hafa verið. Mér gæti ekki verið meira sama!

TAKK!

Skorrdal (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 20:43

4 identicon

Fyrirgefðu mér, Rakel. Ég skrifaði rangt nafn... Êg bið afláts...

Skorrdal (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 20:45

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur fyrir innlitið og hvatninguna líka. Skorrdal, þér er fyrirgefið stafavíxlið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.1.2011 kl. 22:28

6 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Rakel,

ég þakka ykkur tunnunum fyrir að skapa vettvang til að fá útrás fyrir gremju okkar. Vonandi haldið þið því áfram í einhverju formi.

Gunnar Skúli Ármannsson, 21.1.2011 kl. 19:48

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég held ég megi fullyrða að við munum halda áfram. Alla vega einhverjar okkar. Við erum þegar byrjaðar að teikna upp plön að framhaldsaðgerðum en það er alveg óvíst hvort við tökum allar þátt og/eða hvort okkur bætist liðsstyrkur.

Ég vil líka nota tækifærið til að þakka þér og öllum hinum sem hafa nýtt þann vettvang sem Tunnurnar hafa skapað til viðspyrnu til að koma óánægju sinni á framfæri. Það er ljóst að það er mikill vilji til að þagga niður í okkur öllum en eins og ég segi hér að ofan þá er það líkt og malbika yfir fífilinn...

Á meðan óréttlætið þrífst mun viðspyrnan halda áfram! Hvort sem það verður í nafni Tunnanna eða einhvers annars.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2011 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband