Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

„Við verðum að vera breytingin sem við viljum ná fram“

Margrét TryggvadóttirMig langar til að vekja athygli á viðtali við Margréti Tryggvadóttur inni á Svipunni. Sjá hér.

Í viðtalinu rekur Margrét ástæður þess að hún tók sæti á lista Borgarahreyfingarinnar í síðustu alþingiskosningum. Hún segir frá þeim mikla meðbyr sem þau nutu fyrstu vikurnar eftir kosningar og hvaða áhrif klofningurinn hafði á hann.

Margrét dregur líka fram nokkur þeirra atriða sem Hreyfingin hefur náð fram og að lokum undirstrikar hún hvaða málefni er brýnast að vinna að fyrir þjóðina á þessum tímum.

Í viðtalinu er Margrét „sjálfri sér lík. Heiðarleg, hlý og með svo sanna lýðræðislega og heilbrigða sýn á þjóðfélagið okkar.“ (Guðbjörn Jónsson í athugasemdakerfinu við viðtalið).

Ég læt nægja að vitna í lok viðtalsins þessu til áréttingar:

Til að breyta því sem hrjáir íslenskt samfélag nú þarf fyrst og fremst hugafarsbreytingu. Almenningur þarf að átta sig á því hvað hann sættir sig við og hvernig þjóðfélagi hann vill búa í, segir Margrét. Hver og einn þarf að gera það upp við sig hvort hann ætlar bara að vera farþegi í þessu þjóðfélagi eða taka til sinna ráða og leggja þeim breytingum lið sem eru nauðsynlegar.

Sem borgarar höfum við réttindi en líka ákveðnar skyldur. Okkur ber að standa vörð um lýðræðið og samfélagið. Mörg okkar sváfu á verðinum og því þarf að taka til hendinni nú, bætir hún við.

Að áliti Margrétar Tryggvadóttur eru það einkum þrjú málefni sem er brýnast að vinna að í dag. Í fyrsta lagi er það leiðrétting á skuldum heimilanna, þá lýðræðisumbæturnar og svo auðlindamálin sem eru einmitt í brennidepli núna. Það er mikilvægt að fólk gefi sért tíma til að setja sig inn í þessi mál og taki afstöðu.

Það er nefnilega ekkert eins hættulegt og það að þjóðin fljóti sofandi að feigðarósi. Það er það sem við gerðum fyrir hrun þannig að við höfum einfaldlega ekki efni á að halda slíku áfram, segir Margrét að lokum.


Draumur markaðshyggjunnar um Evrópusambandsaðild

Ræða flutt á útifundi Rauðs vettvangs sem var haldinn fyrr í dag. Ræðumenn auk mín voru: Anna Ólafsdóttir Björnsson og Þorvaldur Þorvaldsson. Ræðurnar munu birtast innan tíðar á bloggi Rauðs vettvangs en hér er ræðan mín:

Ágætu borgarar þessa lands!

Breyttur fáni ESBMig langar til að höfða til ykkar, sem hér eruð viðstödd, þegar ég vara við draumi markaðshyggjunnar um aðild að Evrópusambandinu. Það skiptir ekki máli hvort sú markaðshyggja vill kenna sig við hægri eða vinstri. Við höfum líka öll reynslu af því að það markaðshyggjusamfélag, sem hér hefur verið rekið á undanförnum árum, skilar okkur, almennum borgurum, engan veginn réttlátu þjóðfélagi!

Ég er ein af ykkur. Flest ykkar hafið sennilega fæðst hér eins og ég, alist hér upp og gert ykkar framtíðarplön út frá því að hér væri gott að búa. Sjálf ólst ég upp í íslenskri sveit, sótti alla mína menntun hérlendis og hef alið hér manninn alla tíð. Þó útþráin hafi stundum togað í mig þá ákvað ég að vera hér kyrr. Það sem réð mestu í því sambandi voru börnin mín. Mér fannst það nefnilega vera eigingirni af minni hálfu ef ég sliti þau upp og flytti þau burt frá rótum sínum.

En nú er allt breytt! Ég reikna líka með að flest ykkar deilið áhyggjum mínum af framtíð kynslóðanna í þessu landi með mér. Ógnirnar sem að okkur steðja eru margvíslegar en frá mínum bæjardyrum séð er markaðshyggjan, sem setti okkur í þau spor sem við stöndum í núna, rót þeirra allra. Draumurinn um að tilheyra Evrópusambandinu er ein af þeim alvarlegri því að ef af verður þá höfum við ofurselt okkur lögmálum markaðarins þar með um ókomna framtíð.

Frá höfuðstöðvum ESB í BrusselÉg hef alltaf goldið varhug við því að setja örlög mín í hendur fjöldaframleiddra fræðinga í háreistum skrifstofubyggingum. Það er því síst til að draga úr áhyggjum mínum varðandi framtíðina þegar það á að setja örlög heillar þjóðar í hendurnar á þannig liði! Takið líka eftir því að við erum að tala um lið þar sem æðstu stjórnendurnir verða staðsettir í allt öðru landi! Þetta lið er í aðalatriðum skipað langskólagengnum fræðingum sem ég leyfi mér í fullri alvöru að efast um að hafi kynnst þeim yfirgripsmikla veruleika sem þeir eru að fást við nema af Exel-skjölum framan á tölvuskjá.

Íslensk stjórnvöld, með Samfylkinguna í fararbroddi, keppast samt við að selja okkur þá hugmynd að okkur sé best borgið í exelskjalabólstruðum faðmi slíks fræðimannahers sem Evrópusambandsbáknið er. Einn ráðherra Samfylkingarinnar hefur meira að segja reynt að halda því fram að hér hefði aldrei skollið á nein kreppa ef við hefðum þegar verið gengin inn í sambandið! Eins og þið áttið ykkur á er ég að vísa til orða núverandi utanríkisráðherra sem höfð voru eftir honum fyrir ekki svo löngu síðan.
Össur lofaði krafti (ESB með hraði?) gegn kreppuMaður sem tók þátt í að setja landið á hausinn með heimsku sinni er ekki maður sem mér þykir vert að hlusta á! Skiptir engu þó hann hafi af einhverjum ástæðum verið gerður að utanríkisráðherra! Þeir sem hafa lesið tilsvör hans í Rannsóknarskýrslunni, 7. bindinu, velkjast varla í vafa um það að Össur Skarphéðinsson hefur ekki hundsvit á því sem hann er að fást við! Það er því út í hött að taka nokkurt mið af því sem hann segir um ástand efnahagsmála í fortíð, nútíð eða framtíð enda er haft eftir honum í Skýrslunni að „hann hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum!“ (bls. 26 í 7. bd. Skýrslunnar)

Það þarf ekki nema meðalskynsemi til að skilja það að maður bankar ekki upp á í fullbyggðu húsi á nærbuxunum einum fata og býður upp á sambúð! Hins vegar er rétt að benda á það að þó Evrópusambandið líti út fyrir að vera fullbyggt hús þá eru innviðir þess allt annað en glæsilegir enda eru þeir af sama efni og settu hér allt á hausinn haustið 2008. Innviðirnir í þeirra húsum eru líka ESB vill alla 
Evrópu undir einn hattteknir að fúna.

Það nægir að líta til nokkurra nágranna okkar til að átta sig á þessari stað- reynd. Ég læt mér nægja að minna á Írland og Grikkland í þessu sambandi og spyr mig og ykkur öll: Að hvaða leyti er staða okkar nú verri en þeirra þjóða sem byggja þessi lönd? Er líklegt miðað við það hvernig hefur verið brugðist við þeim vanda sem hefur steðjað að hagkerfum þessara þjóða að okkur sé betur borgið í Evrópu- sambandinu? Ég segi: NEI!

Evrópusambandið og ungur gjaldmiðill þess riða til falls og mun taka þær þjóðir sem hafa ánetjast því með sér! Það verður fámenn auðmannastétt sem hagnast á falli þess en hinn almenni borgari mun standa eftir fátækari en nokkru sinni. Evrópusambandið varð heldur ekki til í því markmiði að bæta lífskjör hins almenna borgara heldur til að stjórna markaðinum og í þeim tilgangi hafa æðstu stjórnendur þess gefið út ótrúlegt langlokuregluverk um hvaðeina.

Regluverk Evrópusambandsins hefur sett danska blómaræktendur á hausinn en tryggt Hollendingum einokunarstöðu á blómamarkaðinum. Ávaxtaframleiðendur víða á Evrópusvæðinu geta ekki lengur keppt við þá sem búa við Miðjarðarhafið vegna staðla Evrópusambandsins sem kveða m.a. á um það hvernig lögun og lengd bananans á að vera til að hann lendi í söluvænlegasta flokknum.

Ef við göngum inn í Evrópusambandið þurfa íslenskir bændur, meðal annarra, að taka mið af reglum sambandsins varðandi það hvað má bera á tún og hvaða fóður skepnur eiga að nærast á. Svo nokkur dæmi séu tekin. Samkvæmt reglum sambandsins má t.d. ekki nýta innihald haughússins til að bera á tún og kálfar sem eru aldir upp fyrir kjötmarkaðinn má ekki setja í hagagöngu.

Ekki stóll?Síðasta dæmið sem ég nefni hér sel ég ekki dýrara en ég keypti það. En það er að staðlaráð Evrópusambandsins hefur m.a.s. gefið út nákvæm fyrirmæli um það hvað fætur undir stólum eiga að vera margir til að þeir geti talist til slíkra. Hvaða stólahönnuður ætli hafi komið þessu þröngsýnissjónarmiði sínu að inn í reglugerðarfarganið?

Ég gæti haldið upptalningu af þessu tagi áfram en þessi ætti að duga til að færa ykkur heim sanninn um það að það að ganga inn í Evrópusambandið tryggir okkur ekki fyrir því sem varð íslensku hagkerfi að falli! Þ.e. einkavinavæðingunni og/eða krosstengslunum. Í kerfi sem byggist á markaðinum þá verða alltaf einhverjir sem reyna að sölsa hann undir sig með áhrifum sínum, völdum og peningum. Markaðskerfið sem Evrópusambandið byggir á er ekkert öðru vísi hvað það varðar!

Til að draga það enn skýrar fram hvers vegna ég er á móti inngöngu inn í Evrópusambandið vil ég undirstrika það að af gildum ástæðum, sem öll þjóðin hefur reynt á eigin skinni, þá trúi ég ekki á þau lögmál markaðarins sem sambandið byggir á. Ég trúi heldur engan veginn á sanngirni reglugerðarfargansins sem sambandið hefur smíðað utan um hann.

Ég minni á að saga okkar geymir reynslu forfeðra okkar af því að fela öðrum stjórn landsins. Ég efast um að við verðum í reynd mikið betur stödd með ákvarðanatöku varðandi öll mikilvægustu mál lands og þjóðar í háreistri skrifstofubyggingu í Brussel en við vorum þegar við vorum undir nágrönnunum í Kaupmannahöfn. Ég leyfi mér að efast um að einokunarverslun undir flaggi ESB eigi eftir að reynast okkur mikið betur en sú sem var rekin hér í aldaraðir undir því danska.
Á engu nema 
nærhaldinu
Það vekur mér líka mjög mikla tortryggni að þjóð sem kemur á nærbuxunum og biður um Evrópusambandsaðild skuli yfir höfuð fá áheyrn! En þegar betur er að gáð þá erum við nefnilega alls ekki eins illa stödd og af er látið! Lítið allt í kringum ykkur og munið eftir forferðum okkar sem þrátt fyrir enga tæknikunnáttu gátu tórað hér undir danskri einokun. Þeir höfðu ekkert að treysta á nema það sem landið gaf af sér og eigið þolgæði.

Við höfum hér allt til alls til að lifa hér góðu lífi! Við eigum nú þegar gríðarlega öfluga matvælaframleiðslu sem við nýtum okkur þó engan veginn til fulls. Við gætum t.d. framleitt allt okkar grænmeti sjálf! Ef við höguðum okkur skynsamlega þá gætum við t.d. nýtt jarðvarmaorkuna frá Þeystareykjum fyrir grænmetisver á Húsavík í stað þess að samþykkja að hún verði nýtt til að knýja enn eitt álverið!

Við eigum enn þá: fiskinn, vatnið, jarðvarmann og fallvötnin en þetta er allt í bráðri hættu ef þjóðin ætlar að fljóta sofandi að þeim feigðarósi sem markaðshyggjuöflin innan hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórn stefnir okkur í.

Ég hvet ykkur hvert og eitt ykkar til að  spyrna við fótum og vakna til meðvitundar um það hverjum er best treystandi fyrir framtíð þinni og afkomenda þinna.

Ég fullyrði að framtíð okkar er engan veginn skynsamlega tryggð með því að setja hana í hendurnar á skrifstofubákni sem er stjórnað af erlendum fræðingaher Evrópusambandsins!

Af öllu framansögðu ætti að vera ljóst hvers vegna ég hafna alfarið inngöngu Íslands inn í Evrópusambandið!

Ég þakka áheyrnina


mbl.is Útifundur gegn ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram mótmælendur!

Vilhjálmur BirgissonVilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er fyrsti forystumaður verkalýðsfélaga í landinu sem þorir að standa með launþegum þegar hann hvetur íslenskan almenning til að standa saman. Fyrir það hlýtur hann óskoraða virðingu mína!

„Formaður Verkalýðsfélags Akraness hvetur alþýðu þessa lands til að standa saman og sýna íslenskum stjórnvöldum fulla hörku og það verði ekki liðið að dómar Hæstaréttar gildi ekki fyrir alla í þessu landi. Oft hefur verið þörf fyrir samstöðu en nú er nauðsyn.“

Það hefur sýnt sig að samstaða almennings skilar árangri. Sjá tilraun til yfirlits um það sem slík samstaða hefur skilað okkur nú þegar hér.


mbl.is Segir níðst á alþýðunni á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju skila mótmæli?

Þær eru ótrúlega margar aðferðirnar og úrtöluraddirnar sem reyna með öllum ráðum að draga úr mótmælendum kraftinn. Ein aðferðin er að fjalla ekkert um mótmæli. Önnur er að birta myndir frá mótmælum án nokkurrar umfjöllunar um tilgang þeirra og markmið. Þetta hafa fjölmiðlar stundað lengi en þó eru nokkrir farnir að bregðast við núna í sambandi við mótmælin fyrir framan skrifstofur sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ástæðan fyrir því hve mörgum aðferðum er beitt til að draga úr mótmælendum kjarkinn tel ég að sé ekki síst sú að mótmæli skila árangri! Til að rökstyðja það ætla ég að freista þess að telja upp nokkur atriði sem mótmæli hafa skilað frá haustinu 2008. Ég hvet ykkur til að bæta við listann ef ég er að gleyma og/eða vanmeta eitthvað:

  • Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks segir af sér. 
  • Skipt er um í stjórnum Seðlabankans og Fjármáleftirlitsins.
  • Borgarahreyfingin kemur fram sem nýtt afl í stjórnmálum.
  • Fjórir þingmenn sem styðja kröfur mótmælenda komast inn á þing (hér á ég við þau: Birgittu Jónsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Margréti Tryggvadóttur og Þór Saari).
  • Skilmálar, sem verja hagsmuni Íslendinga, eru settir inn í Icesave-samning I
  • Icesave-samningur II fer í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Tregða þjóðarinnar til að ganga inn í Evrópubandalaginu tefur fyrir inngönguferlinu.
  • Einkavina- og fyrirtækjastyrktir þingmenn neyðast til að meta stöðu sína. Þrír fara í tímabundið leyfi. Einn segir af sér.
  • Samtök fjármálafyrirtækja senda frá sér tilmæli í síðustu viku sem taka greinilega tillit til dóms Hæstaréttar frekar en tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitins.
  • Stóru bankarnir þrír senda frá sér tilkynningu um að þeir ætli að fara eftir þessum tilmælum (Sjá hér).
  • Vakning varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem kemur best fram í fjölmiðlum á undanförnum dögum.
Ég tek það fram að ég ætla ekkert að leggja dóm á það hvort ofantalinn atriði hafi skilað nákvæmlega því sem mótmælendur ætluðust til. Fyrir mína parta liggur það í augum uppi að svo hefur alls ekki verið í öllum tilvikum. Ég tel þau samt til árangurs. Árangurs sem má ekki vanmeta þó betur megi ef hann á að duga til þeirra breytinga sem mig dreymir um. Árangurinn sem mig dreymir um er í einföldu máli sá að ég vil réttlátara samfélag sem byggir á jöfnuði og lýðræði.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekkert annað en sníkjusamfélag!

IMF trapping countries in debtÞað hefur enginn verið jafnduglegur við að fræða okkur um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og Gunnar Skúli Ármannsson. Hann hefur verið mjög iðinn við að afla sér upplýsinga um afleiðingar „efnahagsaðstoðar“ sjóðsins í hinum ýmsum löndum og kynna þær fyrir öðrum bæði á blogginu sínu og með fyrirlestrum

En þeir eru fleiri sem hafa reynt að vekja athygli á því hvernig þetta sjóðsskrímsli hefur rústað efnahag hinna ýmsu landa. Þ.á m. Argentínu sem ákvað að losa sig við þennan „afætusjóð“. Auðvaldshringurinn, sem gefur sig út fyrir að vera neyðarlánastofnun, er að fara eins með Lettlandi núna eins og hann fór með Argentínu á sínum tíma.

Lífskjör okkar stefna þangað líka! Það er framkvæmdastjóri sjóðsins hér á landi sem er hinn eiginlegi landsstjóri. Hann selur ríkisstjórninni fyrst þá hugmynd að til að tryggja efnahagslegan stöðugleika þurfi ríkissjóður að þiggja af þeim ægistórt neyðarlán. Þetta lán er látið heita gjaldeyrisvarasjóður og er nú þegar orðinn margfalt hærri en hann var á árunum áður en fór að hylla undir efnahagshrunið. (Sjá nánar hér) Svo þarf ríkið að borga vexti af þessu láni. Áætlaðir vextir af láninu fyrir þetta ár nema sömu upphæð og kostar að reka allt íslenska menntakerfið! eða um fjórðungi af skatttekjum ríkissjóðs!

En lánið er líka háð ákveðnum skilyrðum. Ríkisstjórnin þarf að vinna skipulega að nýfrjálshyggjunni sem flestir eru sammála um að hafi verið sú stefna sem upphaflega setti hér allt á hausinn. Það er þess vegna ekki skrýtið þó við sjáum engar breytingar aðrar en þær að stöðugt fleiri stefna í fátækt og landsflótta.

Ég hef ekki heyrt neinn sem mótmælir því að inni í nýfrjálshyggjunni er kreppugildra. Gildra sem má búast við að verði vart á 10 ára fresti. Í hverri kreppu sem dynur yfir þá færast verðmæti úr höndum margra aðila, sem hafa fjárfest í húsnæði og/eða atvinnutækifærum, yfir á hendur fárra fjármagnseigenda og/eða lánastofnana.
Ekkert réttlæti Hitt skilyrðið er niðurskurður í ríkisútgjöldum. Niðurskurðurinn kemur þannig fram að fyrst er það sem má kalla velferðarkerfið skorið niður til algjörrar örbirgðar. Þar er m.a. átt við mennta- og heilbrigðiskerfið. Laun almennra opinberra starfsmanna eru skert og framlög til framkvæmda og uppbyggingar eru skorin af. Þetta ferli er hafið hér hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki.

Almenningur borgar
Niðurskurður
Í reynd er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekkert annað en risavaxin hryðjuverkasamtök sem hafa það eina markmið að leggja undir sig efnahag þjóða. Þeir eru búnir að margprufukeyra aðferðina sem virkar líka svona glimrandi. Þeir sannfæra ríkisstjórnir um að þær komist ekki af án þeirrar hjálpar en setja þeim skilyrði sem eru til þess ætluð að lama efnahagskerfi þjóðarinnar, sem hún stýrir, þannig að neyðin leiðir til þess að stöðugt er gengið á hin raunverulegu verðmæti. Í tilfelli okkar Íslendinga eru það fyrst og fremst náttúruauðlindirnar sem þeir eru að sækjast eftir.

SamningurinnVið höfum dæmin allt í kringum okkur um það hvernig þeir hafa rústað lífskjörum þeirra þjóða sem hafa þegið hina svokölluðu neyðaraðstoð þeirra. Þeir lifa sníkjulífi á efnahagskerfum sem hafa orðið fyrir skakkaföllum og tryggja að þau riði til falls. Þeir mæta eins og hrææturnar yfir helsærðu fórnarlambi og tæta það svo í sig.

Er einhver tilbúinn til að standa hjá á meðan þannig fer fyrir öllu því sem tryggir okkur og afkomendum okkar lífsafkomu í þessu landi?


mbl.is Mótmælt við skrifstofu AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjafnt hafast menn að!

Ef allt væri með eðlilegu móti í samfélaginu væri það sennilega bara „krúttlegt“ að fjármálaráðherra landsins heimsækti íbúanna á Hrafnistu og rifjaði upp gamla íþróttafréttamannstakta. Í ljósi þess alvarlega ástands sem nú er uppi í sambandi við gengistryggðu lánin og annað er varðar efnahagslíf landsins er það hins vegar grátbroslegt að í stað þess að takast á við þann vanda sem við blasir skuli Steingrímur J. Sigfússon ráðast í slík „gæluverkefni“.

Aðgerðar- og ráðaleysi ríkisstjórnarinnar er svo algert að marga setur hljóða en það á alls ekki við um alla. Tvo síðastliðna daga hefur fólk komið saman fyrir utan Seðlabankann og virkilega látið vita af sér. Hér fyrir neðan eru myndir frá því á mánudaginn úr myndasafni Andresar Zorans Ivanovics sem sýnir hina fjölbreyttu mannflóru sem safnaðist saman við anddyri Seðlabankans sl. mánudag:

 Þjóðin ekki AGS! Hingað og ekki lengra!
 Ungur mótmælandi Aldraður mótmælandi
 Við anddyrið yfir hópinn

Við komum líka saman þar í dag og ætlum að halda áfram á morgun! (Sjá hér) Sumir vilja meina að mótmælin í dag hafi ekki verið eins kraftmikil og í gær. Það er kannski ekki að marka aðkomumanneskju eins og mig en ég verð samt að segja að þó þeir sem mættu í dag væru heldur færri en í gær var krafturinn síst minni eins og myndir Andresar Zorans Ivanovics frá hádegismótmælunum í dag ættu að sýna:

 Blikkdollurnar emja Vanhæf skuldastjórn!
 Lögreglan og mótmælandinn Kraftur

Við sem mótmælum viljum auðvitað ekkert frekar en að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, að ekki sé talað um fjármálaráðherrann! sinntu þeim hlutverkum sem kveðið er á um í langslögum að séu þeirra. þ.e. að þeir verðu hagsmuni almennra borgara landsins fyrir ósvífnum græðgisráðum alheimsfjármálaelítunnar

En á meðan fjármálaráðherrann telur það meira áríðandi að afla sér vinsælda, með því að spá í spilin hvað varðar úrslit leikja á HM fyrir íbúa Hrafnistu, getum við ekki annað en reynt það sem í okkar valdi stendur til að verja hag okkar. Afkoma okkar stefnir nefnilega í óefni fyrir það að ríkisstjórnin lætur það óátalið að fjármálaöflin hafa skipað sér yfir dómsvaldið í landinu og ákveðið að íslenskum almenningi beri að borga fyrir grægðisóreiðuna sem hefur fengið að vaða hér uppi.

M.ö.o. þá er núverandi ríkisstjórn að gefa grænt ljós á það að græðgisöflin fái að vaða hér uppi óáreitt með fullar veiðiheimildir í ráðstöfunartekjum heimilanna í landinu! Getur þú unað við slíkt?! Ekki ég! og þess vegna tel ég einum klukkutíma á dag vel varið til að láta í mér heyra hvað það varðar!

Hvað með þig? Getur þú séð af einum klukkutíma og mætt við Seðlabankann á milli kl. 12:00 og 13:00? Ef svo er þá sjáumst við í hádeginu á morgun (miðvikudaginn 7. júlí) og kannski næstu daga líka. Ekki gleyma að taka með þér hávaðatól!


mbl.is Steingrímur á HM-fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband