Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Ég treysti þessum gaurum ekki!

Þess vegna langar mig til að vekja athygli á samtökum sem kalla sig Attac en nýverið var stofnuð Íslandsdeild þessara samtaka. Samanber þessa fréttatilkynningu:

Fréttatilkynning frá Íslandsdeild Attac

30. maí 2009 var Íslandsdeild Attac stofnuð. Hún er hluti alþjóðlegar hreyfingar fyrir lýðræðislegt eftirlit með fjármálamörkuðunum og stofnunum þeirra.

Attac er alþjóðleg hreyfing sem varð til í Frakklandi í júní 1998. Deildir eru í 48 löndum og nú bætist Ísland við. Af þessum 49 eru 25 Evrópulönd, 12 í Suður-Ameríku og 6 í Afríku. Félagar eru yfir 85.000 í heiminum. Samnefnari samtakanna og sameiginleg krafa er að öll velta á fjármagnsmörkuðum sé skattlögð og skatturinn eyrnamerktur til samfélagsverkefna.

Bráðabirgðastjórn [Íslandsdeildarinnar]hefur verið skipuð og verður aðalfundur haldinn í haust. Von er á heimsókn fulltrúa erlendra Attac-félaga og verður nánar tilkynnt um það þegar þar að kemur.

Öllum sem hafa áhuga á jákvæðri uppbyggingu þjóðfélags þar sem fólk er í fyrirrúmi en ekki fjármagnseigendur er boðið að taka þátt í þessu starfi. Heimasíða Attac á Íslandi verður http://www.attac.is. Áhugasamir geta skráð sig á póstlista í netfanginu attacis@gmail.com.

Talsmenn Attac á Íslandi fyrst um sinn eru Bjarni Guðbjörnsson, Salvör Gissurardóttir, Sigurlaug Ragnarsdóttir og Árni Daníel Júlíusson


Sjá líka þessa færslu
Þórðar Bjarnar Sigurðssonar um þetta mál. Fyrir þá sem þekkja ekki til Þórðar Bjarnar er vert að benda á að hann er mjög virkur í starfi Hagsmunasamtaka heimilanna.

Hér er líka texti sem ég „stal“ frá Cillu Ragnars. þar sem hún svarar spurningunni: Hvað er Attac? Ég leyfði mér að myndskreyta textann.

Attac er skammstöfun og stendur fyrir: Association pour la taxation des transactions financières pour l'aide aux citoyens. Á ensku Association for the Taxation of Financial Transactions for the Aid of Citizens; ATTAC.

Upphaflegt stefnumið Attac var aðeins eitt. Það var að krefjast þess að skattur yrði lagður á gjaldeyrisbrask; svokallaður Tobin-skattur. Attac vinnur nú að fjölda málefna sem tengjast hnattvæðingu og neikvæðum afleiðingum fjárhagslegrar hnattvæðingar og einkavæðingar. Samtökin hafa eftirlit með starfi WTO, heimsviðskiptastofnunarinnar, með starfi Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunarinnar OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins IMF
ATTACAttac lítur ekki á sig sem andstæðing hnattvæðingar en gagnrýnir þá hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem samtökin álíta að stýri efnahagslegri hnattvæðingu. Þau styðja hnattvæðingu sem þau álíta að sé sjálfbær og félagslega réttlát. Eitt af slagorðum Attac er: „Veröldin er ekki til sölu!“. Þau fordæma líka markaðsvæðingu samfélagsins.

Samtökin urðu til árið 1998. Í desember árið 1997 skrifaði ritstjóri franska blaðsins Le Monde diplomatique, Spánverjinn Ignacio Ramonet, grein í blaðið um nauðsyn þess að koma á skatti á gjaldeyrisbrask; hinum svokallaða Tobin-skatti. Stofna þyrfti samtök sem myndu þrýsta á yfirvöld hvarvetna um að koma á þessum skatti.[...]
Jafnrétti felur í sér lýðræðiðAttac var einn af þeim sem skipu- lagði og boðaði til World Social Forum í Porto Alegre í Brasilíu 2001 en þar myndaðist vettvangur þar sem hnatt- væðingu á forsendum nýfrjálhyggju var kröftuglega mótmælt. (Nánar hér)

Skipulag samtakanna byggir á hugmyndum um valddreifingu. Hver deild skipuleggur fundi, ráðstefnur og skrifar skjöl sem innihalda rök gegn ráðandi hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Attac stefnir að því að bjóða upp á raunhæfa valkosti við þjóðfélag nýfrjáls- hyggjunnar sem er núverandi forsenda heimsvæðingar. Attac eru samtök sem vilja virkja almenning til baráttu og fræða almenning um þessi efni.

Eitt mikilvægasta verkefni Attac er að tryggja lýðræðislegt eftirlit með alþjóðlegum fjármálastofnunum, fjármálaævintýrum nýfrjálshyggjunnar og stórfyrirtækjum. Markaðsvæðing heimsins er auglýst sem náttúrulögmál og með henni minnkar lýðræðislegt vald borgaranna yfir samfélaginu.

Það liggur á að snúa þessari þróun við og nauðsynlegt er að stofna nýjar eftirlitsstofnanir með markaðsvæðingu og efla þær sem fyrir eru. Attac hefur oft rekið sig á að ríkisstjórnir vilja ekki gera þetta nema þær séu neyddar til þess. Hin tvöfalda ógn; niðurbrot velferðarsamfélagsins og áhugaleysi um stjórnmál, leiðir til þess að afar mikilvægt er að virkja fólk til baráttu

Aðferðir AGS

Meginbaráttumál Attac nú eru:

- Stýring á fjármálamörkuðum með skatti á gjaldeyrisbrask (svokallaður Tobin-skattur)

- Réttlát viðskipti í stað frjálsra viðskipta („fair trade, not free trade“). Markmiðinu skal náð með lýðræðislegri stýringu Heimsviðskiptastonfun- arinnar og alþjóðlegra fjármálastofnana á borð við AGS, Alþjóðabankann, Evrópusambandið, NAFTA, FTAA og G8.

- Almenn og ókeypis gæði eins og loft, vatn og upplýsingar skulu varðar fyrir ágangi nýfrjálshyggjunnar.

- Almenn félagsleg þjónusta skal varin fyrir ágangi nýfrjálshyggjunnar. Þar er átt við þjónustu á sviði heilbrigðismál, félagsþjónustu og félagslegra trygginga.

- Attac snýst gegn einkavæðingu lífeyris og heilbrigðiskerfisins.

- Það snýst einnig gegn erfðabreyttum matvælum.

- Attac berst fyrir því að skattaskjólum alþjóðafyrirtækja og auðmanna sé lokað.

- Attac berst fyrir sjálfbærri hnattvæðinu.

- Attac best fyrir því að skuldir þróunarríkja verði afskrifaðar.

- Attac berst gegn Lissabon-sáttmálanum um sameiginlega stjórnarskrá fyrir Evrópu.


Meira lesefni fyrir fróðleiksþyrsta:

 
 
Upplýsingar um samtökin á Wikipedia-vefnum.

mbl.is Samstarf við AGS ekki í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturför í nafni góðærisins svokallaða

Það mætti ætla að ég nennti ekki að skrifa sjálf þar sem þetta er annar dagurinn í röð sem ég fæ texta frá öðrum að láni. Þessi staðhæfing hefur tvær hliðar. Önnur er sú að ég er vissulega að safna kröftum ...

Kröftunum safnað
Hin er einfaldlega sú að ég er endalaust að rekast á eitthvað sem mig langar til að vekja athygli á og viðra mína skoðun yfir. Nota orðið Fésbókina óspart til þess, vinum og ættingjum til óumræðilegrar hrellingar sjálfsagtJoyful
 
Síðastliðið miðvikudagskvöld skrifaði ég hér stutta hugleiðingu í sambandi við myndina The Big Sellout sem miðað við skrifin hér á blogginu hefur vakið athygli fleiri en mín enda um stórmerkilega mynd að ræða ekki síst í ljósi núverandi aðstæðna hér á Íslandi. Það er jákvætt hve margir horfðu á hana því við þurfum að rífa umræðuna um einkavæðingu út úr góðæriskjöftunum sem saka alla um afturhald sem benda á eitthvað sem þeir gjalda varhug við í sambandi við hana.


Það hljóta allir að þekkja bloggið hennar Láru Hönnu Einarsdóttur sem fylgjast með þjóðmálaumræðunni á annað borð. Ég hvet ykkur til að lesa þennan pistil hennar sem fjallar einmitt um þetta efni. Ég skil skrif hennar þannig að það sé von á meiru um sama efni á næstu dögum. Ekki missa af því heldur!

Textinn sem ég tók að láni að þessu sinni er hins vegar frá veftímaritinu Nei sem ég hef fylgst nokkuð grannt með í vetur. Þessi fjallar um afturförina í ýmissi þjónustu sem varð á tíma hins falska góðæris. Afturförina má rekja til hinnar blindu einkavæðingarstefnu sem hér var rekinn og sér í raun ekki fyrir endann á enn:

Kapítalísk alræðisgeðsýki

Meðal þess sem ávannst í góðærinu, sem svo er nefnt, er að næturvarsla apóteka var lögð niður svo hvergi er nú hægt að kaupa lyf á nóttunni á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er opið í snakkverslun 10-11 allan sólarhringinn.

Póstþjónusta versnaði til muna og voru flestir póstkassar til að póstleggja bréf einfaldlega fjarlægðir. Í smærri bæjum voru pósthús lögð niður.

Tannheilsa barna hefur versnað til muna.

Þúsundir Reykvíkinga voru nýverið sagðar án heimilislæknis, í fréttum.

Einkavæðing Símans var réttlætt með sjúkrahúsi sem reisa skyldi fyrir söluandvirðið. Sjúkrahúsið reis auðvitað aldrei.

Eina nýjungin sem tímabilið skilur eftir sig í infrastrúktúr höfuðborgarinnar er Hringbrautin sem enginn vill kannast við að bera ábyrgð á, heldur virðist hafa lagt sig sjálf.

Miðborgin dó. Hún dó bara. Margir lögðu hönd á plóg við að drepa hana einkum þó eignarhaldsfélög um lóðir, húsnæði og „uppbyggingu“ í miðborginni. Eigendur reits við Klapparstíg lokuðu skemmtistaðnum Sirkus sem var um langa hríð mikilvæg félagsmiðstöð tónlistarsenunnar í borginni – og negldu fyrir gluggana svo þar yrði áreiðanlega engin tónlist sköpuð. Björgólfur yngri átti þann reit.

Á sama tíma var gígantískt byggingapláss í miðborginni lagt undir tónlistar- og ráðstefnuhús Landsbankans, ásamt fyrirhuguðu hóteli þar við hliðina og loks nýjum höfuðstöðvum Landsbankans. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið eitt hefði kostað 2% af þjóðarframleiðslu að reisa. Landsbankakastalinn hefði að grunnfleti orðið á stærð við allan Arnarhól. Enn hefur ekki verið hætt við þessi áform.

Ótal mörg byggðarlög úti á landi dóu í nafni hagræðingar í sjávarútvegi. Þau máttu víkja.

Ísland kemur illa út úr alþjóðlegum könnunum á starfi grunnskóla. Það er reynt að skýra með því að kannanirnar miðist við námsskrár annarra landa.

Öll samskipti voru gerð ómanneskjuleg og ógeðfelld með inngripi innheimtustofnana, yfirvofandi hótunum og kostnaðarsömum ferlum fyrir almenning þar sem því varð á annað borð við komið. Meira að segja Borgarbókasafn og Landsbókasafn senda nú bókasektir í innheimtu til Intrum Justitia. Bókasöfnin!

Strætisvagnaferðum fækkaði. Í það minnsta ein skiptistöð, sú í Kópavogi var fjarlægð. Vék fyrir banka svo strætófarþegar bíða þar nú utandyra.

Mýgrútur af eftirlitsmyndavélum vakir nú yfir öllum almenningi hvar sem hann fer um í nafni öryggis og löggæslu – ekki bara á götum úti heldur jafnvel inni á kaffihúsum og veitingastöðum. Það voru ekki ríkisafskipti sósíalista sem leiddu þá þróun heldur meintir einkahagsmunir og eignavernd.

Eru til tölur um hversu mikið vinnustundum fólks hefur fjölgað síðustu 20 ár?

Við skulum endilega safna þessum molum saman. Dæmi um skerta grunnþjónustu og/eða vaxandi ömurð á þeim sviðum mannlífsins sem áður hlýddu ekki rökvísi banka og fjárfesta – ekki í hruninu, ekki í kjölfar þess, heldur góðræræræinu – eru ótal.


Ég myndi reyndar vilja bæta a.m.k. einu atriði við þennan lista en það er niðurskurðurinn í ýmissi almannaþjónustu er varða svokallaða minnihlutahópa. Fjölbreytni þessara hópa er svo mikil að það er kannski ekki réttlætanlegt að telja þá upp saman en geri það samt. Þetta eru: unglingar, aldraðir, geðsjúkir, fatlaðir, alkóhólistar og fíklar.

Niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni hefur bitnað verst á mörgum þessara hópa en líka það að þjónusta við suma, sem þarna eru taldir upp, hefur verið færð frá hinu opinbera til sveitarfélaga sem mörg hver eru svo smá að þau hafa ekkert bolmagn til að halda uppi öðru en lágmarksþjónustu. 


Þöggunaráráttan er kannski smitandi:-/

Ég fékk þessa löngu og ýtarlegu athugasemd við færslu mína frá því í gærkvöldi. Þar sem mér finnst hún svo athyglisverð ákvað ég að birta hana í heild hér og vona að sá sem á hana fyrirgefi mér það. Mig langar sérstaklega til að benda á allar spurningarnar sem eigandi athugasemdarinnar varpar fram hér að neðan.

Þöggunin mun ekki duga endalaustÞetta eru brennandi spurningar sem voru reyndar flestar komnar fram fyrir kosningar. Auðvitað áttum við að fá svör við þeim áður en gengið var til kosninga! En einhverra hluta vegna voru stjórnmálamennirnir ekki spurðir þessara spurninga... ekki af fjölmiðlunum a.m.k... eða þeir komu sér undan því að svara þeim. Ég er hrædd um að svörin hefðu breytt ansi miklu!

Enn ríkir þögnin í kringum þau brýnu mál sem bréfritari varpar fram hér að neðan en svörin þurfum við að fá! Þau eru nefnilega ekkert síður mikilvæg nú en fyrir kosningar:

[...] Hvítbókin! Hún er safn af ljótu fólki og sumu illa innrættu, það best verður séð. Það er illt innrætti að stinga af frá skuldum sínum.

Ég held ennþá að Jóhanna vilji vel, en ég á erfitt með að verja störf hennar sem forsætisráðherra. Hneigist helst að því að hún sé komin í starf sem hún ræður ekki við. Það er ekkert nýtt að fólk hækki í valdapýramída vinnustaðar síns þar til það kemst í starf sem það ræður ekki við. Hrædd er ég um að þetta hafi nú hent Jóhönnu og hitti okkur og þjóðina okkar illa.

Það var nauðsynlegt að koma ríkisstjórn GH og ISG frá. Þau höfðu ekki bara sofið á verðinum heldur ákváðu þau að blekkja bæði Íslendinga og útlendinga þegar þau voru látin horfast í augu við hvert stefndi. Af hverju hugsa ég um landráð þegar mér verður hugsað til þess að þau vissu allt árið 2008 og hluta af árinu 2007 hvert stefndi?

Af öllu því sem þau gerðu rangt fannst mér verst að þau höguðu sér eins og einræðisherrar þegar þjóðin krafðist þess að þau segðu af sér. Neituðu að fara frá þegar lýðurinn vissi að þau voru vanhæf: Ætluðu að sitja eins lengi og þeim hentaði. Fullkomlega í óþökk lýðsins.

Þegar þarna var komið rann upp fyrir mér að þau höfðu eitthvað að fela. Það gat ekki verið að á Íslandi höguðu ráðherrar sér eins og þau gerðu nema þeir þyrftu tíma til að hylja slóð. Ég spyr mig enn hvernig huldu þau slóðina? og grunar að þau hafi gert það með þvi að undirrita skjal við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Skjal sem á eftir að eyðileggja það samfélag sem við höfum til þessa þekkt hér á landi.

Hvers vegna velur SJS að taka þátt í þessum feluleik? Ef hann er ekki að taka þátt í leik, hvers vegna segir hann það þá ekki skýrt og skorinort og sver að ekkert slíkt skjal sé til? Meðan hann þegir þá liggur hann undir grun hjá mér.

Og þá er ég komin að því sem er að eyðileggja fólk hérna, þ.e. að fá ekki sannleikann um nokkurt mál sem máli skiptir. Fólk verður „að halda“, „ímynda sér“, „giska á“ og „fylla í eyðurnar“. Leynd, þöggun, yfirhylming, samtrygging; það eru þau hugtök sem mér finnst viðeigandi að nota til að lýsa fyrrverandi ríkisstjórnum og núverandi ríkisstjórn. En samt tala þau um „að upplýsa“ og „að varpa ljósi á“. Æi, mér bara býður við þessu! Sick

Ef stjórnvöld hafa frá því í haust og fram á þennan dag staðið sig í að „upplýsa“ og „varpa ljósi á“ atburðarásina þá kemur ekki annað til greina en við séum flest afskaplega heimsk því enn hef ég ekki hitt neinn sem veit hvað er fram undan.

(Hér eru spurningarnar sem mig langar til að vekja sérstaka athygli á! [Viðbót síðueiganda])

1. Hvers vegna segir núverandi ríkisstjórn ekki skilanefndaamönnunum upp störfum? Eftirlitskerfi sem brást algerlega skipaði í skilanefndirnar. Verk skilanefndanna vekja ekki traust hjá mér. Hvers vegna eru ekki ráðnir erlendir sérfræðingar inn í skilanefndirnar? Hvers vegna eru skilanefndirnar ekki látnar senda frá sér yfirlit reglulega um hvað þær hafa ákveðið og hvað þær hafa gert?

2. Hvers vegna er ekki búið að segja bankastjórunum þremur upp störfum? Hvers vegna eru stöðurnar ekki auglýstar?

3. Hvers vegna er ekki hverjum einasta manni sem var í valdastöðu í gömlu bönkunum sagt upp; þeir færðir til í starfi og settir í að þrífa gólfin í bönkunum?

4. Hvaða skuldir er búið að afskrifa? Hverjir skulduðu þessar skuldir?

5. Eru þeir þingmenn sem stofnuðu einkahlutafélag utan um skuldir sínar sloppnir fyrir horn eða eru þeir alveg sloppnir frá skuldum sínum?

6. Hvers vegna er ekki búið að setja lög um að það megi frysta eignir manna sem eru grunaðir um að hafa komist yfir fé á ólögmætan hátt?

7. Hvers vegna var haldið áfram með Icesave og ráðin nefnd til að semja um að blásaklaus þjóðin borgaði skuldir einkabanka? Virtur lögmaður sagði að þetta væru nauðungasamningar og það væri rétt að láta á það reyna að fá þá dæmda ólöglega? Hvers vegna hefur ekki verið rakið hvar peningarnir eru sem útlendingar lögðu inn á Icesave-reikningana?

8. Er hún sönn sagan um að norrænu löndin vilji ekki lána okkur nema AGS sé inni í dæminu? Ef hún er sönn hver er þá ástæðan fyrir þessari afstöðu norrænu landanna? Ef hún er ekki sönn hvers vegna segja stjórnvöld það þá ekki?

9. Hvað eru margir af þeim sem hrökkluðust úr starfi, eða voru látnir fara, á biðlaunum? Hvaða einstaklingar eru þetta? Hvað kostar hver og einn þeirra á mánuði?

10. Af hverju afnam 80-daga stjórnin ekki lög um biðlaun ráðherra og aðstoðarmanna þeirra? Fram undan blasir við að bæta þremur ráðherrum á biðlaun og jafnmörgum aðstoðarmönnum þegar ráðuneytum verður fækkað á kjörtímabilinu. Hvað þarf að hækka verð á víni, tóbaki og bensíni mikið til að hala inn fyrir þessum biðlaunum?

11. Hvernig fá þingmenn sig til að taka vikur - já, vikur, jafnvel mánuði - í að tala um Evrópusambandið þegar þjóðin grátbiður um að bankakerfið sé sett í gang, atvinnulífið sett í gang, verðbætur á húsnæðislán afnumin og skuldir þeirra vegna húsnæðiskaupa leiðréttar?

12. Hvað á þjóðin að bíða lengi eftir því að fá að vita hvaða skuldir falla á hana? Fleiri en einn erlendur sérfræðingur hefur sagt að þjóðin geri sér ekki grein fyrir því hvað staðan er alvarleg. Er það með ráðnum huga að hafa hlutina þannig?

13. Er ISG laus allra mála? Hún flýgur hátt og fer hratt yfir sagan um að hún hafi snúið Icesave frá því að vera deila um réttmæti reglugerðar ESB um tryggingasjóði banka þegar efnahagskerfi þjóðar hrynur yfir í að vera pólitísk deila vegna þess að hún er haldin ESB-þráhyggju.

14. Hvað á maður oft að þurfa að lesa í innlendum og erlendum fjölmiðlum að Bretar, Þjóðverjar og Hollendingar standi saman gegn Íslendingum og njóti stuðnings ESB sem sé í góðu samstarfi við AGS um að stilla Íslendingum upp við vegg og hóta þeim? Hvers vegna hefur enginn ráðherra eða engin ríkisstjórn síðan í haust staðið upp og svarað þessu fullum hálsi? Látið kanna hvort þetta sé rétt?

15. Hvers vegna ganga fjárglæframennirnir ennþá lausir? Hvers vegna? Hvers vegna? Hvers vegna? Hvers vegna? Hvers vegna, Steingrímur og Jóhanna?

16. Hvað var Össur sem iðnaðarráðherra að gera ítrekað í Austurlöndum nær og ræða þar um náttúruauðlindir Íslands?

17. SJS var ákveðinn í því að hann vildi skila AGS-láninu. Hvaða pappíra eftir fyrri ríkisstjórn sá hann í stjórnarráðinu þegar hann varð ráðherra sem urðu til þess að hann féll frá sannfæringu sinni?

18. Hvers vegna heldur núverandi ríkisstjórn áfram á sömu braut og ríkisstjórn GH og ISG um að ganga erinda fjármagnseigenda?

19. Hvers vegna eru menn sem hugsanlega hafa veðsett bótasjóð Sjóvár enn í viðskiptum? Hvað þarf til að ríkisstjórnin stöðvi viðskipti manna sem eru grunaðir um að hafa brotið af sér í viðskiptum? Ætla stjórnvöld að sjá til þess að mennirnir verði kærðir ef rétt reynist að þeir hafi veðsett bótasjóðinn? Það eru fordæmi fyrir því að sækja þá til saka sem misnota bótasjóði tryggingafélaganna, þótt þessi misnotkun sé reyndar nýtt afbrigði af misnotkun.

20. Hvers vegna geta þeir sem eyðlögðu íslenskt samfélag boðið í félög sem hið opinbera hefur fengið í fangið frá þeim?

21. Er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með veð í Landsvirkjun?

22. Hvað er áætlað að viðræður við ESB kosti?

23. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki lagt fram skýrslu um skoðun sína á máli manna eins og Michael Hudson, John Perkins, Anne Pettiford o.m.fl.?

Þær eru næstum ótakmarkaðar spurningarnar sem stjórnvöld hafa komið sér undan að svara.

Enn á ég eftir að spyrja mikilvægastu spurninganna:

Hvers virði er íslensk alþýða ríkisstjórninni? Hvers vegna á ríkisstjórnin svo erfitt með að stilla sér upp við hlið íslenskrar alþýðu? Ein fjölskylda hefur flutt til útlanda á dag allt þetta ár, þ.e. 151 fjölskylda. Skiptir þetta fólk engu máli?

Ráðleggingar til ríkisstjórnarinnar:

Ákveðið að íslenska þjóðin sé það mikilvægasta. Ákveðið að standa með þjóðinni hvað sem á gengur. Fáið þjóðina í lið með ykkur - ekki til að hlýða ykkur heldur til að leiðbeina ykkur. Hlustið á þjóðina, horfið á fólkið og þá rennur upp fyrir ykkur  að þið hafið gengið of langt. Þið eruð búin að misbjóða fólki og þannig verður ekki áfram haldið.

Fáið þjóðina í lið með ykkur um að ákveða að fólkið sem varð fyrir barðinu á íslensku bankafjárglæframönnunum fái allar nauðsynlegar upplýsingar héðan og aðstoð til að innheimta skuldir sínar hjá fjárglæframönnunum. Hafi ISG og GH undirritað samning sem er haldið leyndum fyrir þjóðinni þá er það nokkuð sem þau sjálf verða að axla.

Takið ákvörðun, ríkisstjórn, um að verja þjóðina gegn samningi sem mun taka frá henni allt eðlilegt líf. Ykkar er valið um að vinna með þjóðinni eða   hafa hana á móti ykkur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband