Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Leiðin niður á við...

Það er einmitt af þessum ástæðum sem ég óttast framtíð Íslands! Eins og kemur fram í tengdri frétt gengst enginn við ábyrgð þar sem brotið er á mannréttindum íbúa í Nígeríu; ekki stjórnvöld og ekki stórfyrirtækið sem mengar ræktarland íbúanna og fiskimið.

Ég vil ekki sjá lán frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum, ég er á móti því að þjóðin sé gerð ábyrg fyrir útrás íslensku einkabankanna og ég hafna ESB-aðild! Einfaldlega vegna þess að allt þetta ógnar sjálfstæði landsins, réttindum þjóðarinnar og lífsafkomu.
Efnahagslegur dauðiÞað hefur komið í ljós að margt af því sem var sagt skömmu eftir efnahagshrunið sl. haust var síst af öllu of svartsýnt. Margt af því sem raunsætt og grandvart fólk varaði við þá og í vetur hefur eða stefnir í að verða að veruleika. Sumir töluðu um brunaútsölur þar sem erlendir og innlendir auðjöfrar myndu kaupa upp innlendar eignir. Sökudólgarnir vel að merkja. Hver var að kaupa stærstu sælgætisverksmiðju landsins? Hverjir eignast íbúðir, sumarhús, bíla og svo fyrirtæki og atvinnutæki á færibandi þessa daganna?

Ég man að margir vildu ekki trúa þeim sem vörðuðu við þessu. Eins var um þá sem sögðu að atvinnuleysistryggingasjóður færi á hausinn í haust. Nú segja forsvarsmenn hans það í blöðunum að hann muni hrynja um mánaðarmót október-nóvember! Hvað um hrun lífeyrissjóðanna sem margir hafa talað um og varað við?

Mér finnst hugmyndin um fjármögnunarsjóð atvinnulífsins lykta ótrúlega illa. Miðað við allar þær hugmyndir, sem hafa verið viðraðar um ráðstöfun þess fjármagns sem þar liggur, sé ég ekki annað en hrun lífeyrissjóðanna verði að veruleika líka.

Hvað þá með allt hitt? Hvað um þá sem vara við því að við séum tilraunaverkefni stórfyrirtækjanna í sambandi við það hvort þeir geti lagt undir sig evrópst ríki eins og þeir hafa gert í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku?? Mér finnst ég ekki einu sinni svartsýn þegar ég viðurkenni það að ég óttast einmitt það!!

Efnahagshrunið sl. haust var af mannavöldum! Horfumst í augu við það og vinnum út frá því! Síðasta staðfestingin á því að það voru ósvífnir gúrjónar sem settu landið á hausinn eru umskiptingarnir sem við sitjum uppi með í núverandi ríkisstjórn! Hugsjónir þeirra jafnt sem kosningaloforð hafa gjörsamlega þurrkast út úr hausnum á þeim! Hvers vegna?
Aðgerðaráætlun íslenskra ríkisstjórna sl. áratugiÉg trúi því að skýringuna sé að finna í því sem John Perkins segir hér. (Ég fann ekki viðtalið inn á ruv.is þannig að ég vísa í færslu Láru Hönnu sem heitir Hugsað upphátt um Icesave, réttlæti og mótlæti. Þar er hægt að horfa á viðtal Egils Helgasonar við Perkins í þættinum Silfur Egils sem var sjónvarpað þann 5. apríl sl.)

Eina leiðin til björgunar er uppreisn. Uppreisn almennings og getur verið að sumir inn á þingi treysti jafnvel á að íslenska þjóðin taki höndum saman, steypi þinginu og komi á fót neyðarstjórn! Ég trúi því a.m.k. ekki ennþá að núverandi stjórnarliðar séu einlægir þegar þeir hvetja þjóðina til að sökkva sér enn lengra í gjaldþrotahyldýpið! Ég trúi því barasta ekki að nokkur stjórnarliði finnist það eðlilegt að þjóðin gangist í svo dýra ábyrðg fyrir einkafyrirtæki að það rýji hana inn að beini!!!!

Eina skynsamlega skýringin sem ég finn á umskiptum af slíku tagi, á fólki sem var í það minnsta þokkalega heiðarlegt áður, er að því sé hótað! En samt ... Hlustið endilega á John Perkins og veltið þessu fyrir ykkur. Hér er ég sérstaklega að vísa í það sem hann segir undir lok samtalsins.

Viðbót: Var að rekast á þetta viðtal við John Perkins inn á You Tube úr Zeitgeist: Addendum. Það sem hann segir hér er óneitanlega bæði ótrúlegt og óhuggnanlegt. Ég geri mér grein fyrir því en birtingarmyndir illskunnar eru okkur venjulegu fólki alltaf ótrúlegar! Kannski er það þess vegna sem okkur gengur svo illa að ráða niðurlögum hennar?

Illmenninn njóta oftar en ekki skjóls af sakleysi okkar og vantrú gagnvart ósvífnu og siðblindu hugmyndaflugi þeirra. Verstu níðingsverkin eru einmitt unnin í skálkjólum sem eru byggð af vantrúnni einni saman. Ég segi ykkur kannski einhvern tímann sögu úr eigin reynsluheimi til að rökstyðja þessa staðhæfingu en það verður að bíða betri tíma.

Hér er búturinn úr Zeitgeist: Addendum með viðtalinu sem rökstyður því miður það sem ég hef þegar sagt í færslunni hér að ofan:


mbl.is Mannréttindi fótum troðin við Níger
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er bara ekki satt!!

Ef ekki væri fyrir þau: Birgittu Jónsdóttur, Margréti Tryggvadóttur og Þór Saari þá væri ég sennilega lögst í fullkomna lágdeyðu, eins og stærstur hluti þjóðarinnar, eða að skoða möguleikana á búsetu í öðrum löndum af fullri alvöru. Mér heyrist reyndar að mjög margir þeirra sem hafa áttað sig á alvarleikann í stöðu mála í íslensku samfélagi séu annaðhvort fluttir eða að undirbúa flutning.

Ég á voðalega erfitt með að skilja alla uppgjöf en enn verra með að skilja hvað það er sem gengur að velflestum íslenskum stjórnmálamönnum. Er einhver bráðsmitandi geðsjúkdómur sem er að ganga í þinghúsinu sem heitir veruleikafirring? eða er það eitthvað annað? Er einhver kolkrabbi sem umvefur alla flokksforingja örmum um leið og þeir komast til valda og kreistir svo fast að blóðið hættir að renna til heilans?

Það er ljóst að þeir sem greiddu núverandi ríkisstjórnarflokkum atkvæði sitt í nýliðnum kosningum treystu þeim til að leiða samfélagið inn í aðra tíma en það stefndi í. Ég hef heyrt í mjög mörgum sem treystu t.d. Vinstri grænum til þess en naga sig nú í handabökin þegar þeir horfa upp á þá staðreynd að þeir fylgja sömu leið og Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Samfylking höfðu varðað í stjórnarsamstarfi sínu á liðnum árum. Það á að svínbeygja þjóðina til hlýðni og þagnar á meðan sjálfstæði hennar er stefnt í hvern voðann á fætur öðrum!
Einstefnan í pólitíkinniÉg átta mig ekki á tilganginum en ég hef heyrt að ákafinn sé svo mikill að ungir eldhugar, sem komust inn á þing í kjölfar síðustu kosninga, hafi jafnvel verið grættir undir heilaþvotti flokksforingjanna. Ljótt ef satt er! Trúi þessu þó enn sem komið er þar sem þeir sem um ræðir hafa lítið látið frá sér heyra eftir að hin harða flokksskólun átti að eiga sér stað.

Það er undarleg sú tilhneiging, sem íslensk stjórnvöld hafa verið höll undir sem er sú, að hlutsta eingöngu á ráðgjafa sem krefjast þess að þjóðinni sé haldið óupplýstri um gang mála. Það er a.m.k. svo að þeir sérfræðingar sem eru á öndverðum meiði við stefnu stjórnvalda tala skýrt og tæpitungulaust en þeir sem ríkisstjórnir undangengina ára hafa tekið mark á hvetja til þess að þjóðin fái sem minnstar upplýsingar ef nokkrar.

Spurning hvort þessir ráðgjafar leiki ekki sama leikinn gagnvart stjórnmálamönnunum sjálfum? Þeir stinga þeim í vasann og halda þeim í óupplýstu myrkri hans. Þeir takmarka sjóndeildarhring þeirra og ná valdi á þeim. Þ.e.a.s. valdi kúgarans. Þeir gefa þeim villandi upplýsingar en tala eins og sá sem allt veit. Slíkir ráðgjafar skreyta mál sitt með háfleygum sérfræðiorðum og mörgum aukasetningum til þess að þeir sem þiggi ráð þeirra sitji eftir í þeirri meiningu að þeir hafi ekki vitsmuni til að ná tökum á sérfræðiþekkingu hins „fróða“ ráðgjafa.

Það getur verið að ég sé komin langt út fyrir veruleika þess sem er að ganga meðal þeirra þingmanna sem ég get ekki með nokkru móti séð að séu að vinna mér og þjóð minni annað en ógagn. Eru m.a.s. að vinna að framsali á forsendum lífsviðurværis þjóðarinnar í hendurnar á einum elstu og stórvirkustu nýlenduveldum heimsins!

Ef ég er komin langt út fyrir veruleikann þá hef ég það þó mér til málsbóta að ég get ekki skilið hvernig þeim sem var trúað fyrir því að vinna landi og þjóð allt það gagn sem þeir hafa burði til þverkallist út í það óendanlega við að hlusta á hollráð í stað þess að varpa sjálfstæði þjóðarinnar í gin ljónsins og flóðöldunnar!
Litla þjóðin með auðlindirnarEf þú sem lest þetta bréf vilt benda þingmönnunum sem þú treystir á það hvernig Icesave-samingurinn stefnir Íslandi í hættu skora ég á þig að vekja athygli hans á eftirfarandi sem er að finna inni á kjósa.is. Ég birti hér að neðan hluta af þeim texta sem þar er að finna.

Subject: Hefurðu kynnt þér hvað stendur í IceSave samningnum?

Kæri þingmaður

Nú er loks að skýrast hvað IceSave samningurinn raunverulega geymir.

Fullkominn rétt Hollendinga (Breta líka?) til að hirða allar eignir Íslenska ríkisins ef við getum ekki borgað. Þar með talið orkuna, fiskinn, landnæði og hugsanlega olíu. Og sökum næsta liðs verður engin raunhæf leið fyrir okkur að véfengja neinar kröfur þeirra. (1)

Fullkomið afsal Íslendinga á því að sækja ágreining eða skort á greiðslugetu á alþjóðagrundvelli. Hugsanleg mál væru rekin sem einkamál fyrir breskum dómstólum. Þar sem breskir lögfræðingar myndu takast á um samning sem skrifaður er af breskum lögfræðingum á ensku. (2)

Enginn spunaleikur getur breytt því sem stendur í samningnum. (3)

Þau efnisatriði samningsins sem þegar eru komin í ljós sýna það skýrt að þeir sem samþykkja þennan samning eru að samþykkja landráð. (4)

Að láta sér detta í hug að taka þann séns að eignir Landsbankans verði einhvers virði eftir 7 ár og þann séns að krónan verði einhvers virði eftir 7 ár er ótrúleg heimska (bjartsýni ef kurteisi væri viðeigandi á þessari ögurstundu) og fullkomin vanvirðing á því trausti sem þér er sýnt með því að vera kosinn sem þingmaður á Alþingi Íslendinga.

Ég bið þig innilega, sem Íslendingur að samþykkja ekki þennan afsalasamning heldur neita honum alfarið. Og krefjast þess í leiðinni að IceSave verði útkljáð fyrir alþjóðlegum dómstól eða á annan sambærilegan hátt sem er eðlilegur í samskiptum tveggja sjálfstæðra ríkja.

Ég þakka þér fyrir að hafa lesið þetta og treysti því að þú munir hafa framtíð Íslands sem sjálfstæðs ríkis í huga þegar atkvæðagreiðsla um IceSave samninginn fer fram. [Sjá frh. inni á kjósa.is)


mbl.is Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efaðist einhver um að landið væri girnilegt!

Þetta verður stutt. A.m.k. styttra en ég vildi... Mig langaði bara til að vekja athygli á því sem mér finnst vanta í þessa frétt. Þar er haft eftir Andrési Arnalds, fagmálsstjóra Landgræðslu ríkisins: 

„Eftir því sem stórþjóðir taka meira akuryrkjuland á leigu þrengir meir að Evrópumörkuðum. Samkeppni um nothæft land og vatn mun fara vaxandi. Það þýðir að staða Íslands á alþjóðlegum mörkuðum, sérstaklega á nærmörkuðum, er líkleg til að batna. Vatnið og landrýmið vinnur með okkur,“

Andrés Arnalds er hér að tala um þá möguleika sem felast í þróuninni fyrir íslenskan landbúnað. Þ.e.a.s. ef landið verður ekki „selt“ inn í ESB í formi óviðráðanlegrar Icesave-skuldar. Skuldar sem ég velti fyrir mér hvort að liggi ekki í augum uppi allra landsmanna að Íslendingar geta aldrei borgað? Verður e.t.v. gert ókleift að borga! Skuldin er því sett þarna sem varnagli svo þjóðinni detti ekki í hug að kjósa á móti ESB-aðild því þegar þar að kemur á hún ekki annarra úrkosti en kjósa með henni. Agnið verður niðurfelling skuldarinnar!

Ræktað landEn hvað vantar í fréttina? Það vantar að benda á það að ríkisstjórnin er alls ekki að vinna eftir því að það felist einhverjir möguleikar og atvinnutækifæri í landbúnaðinum! Þvert á móti. Möguleikarnir sem ríkisstjórnin sér og vinnur að ná ekki út fyrir stóru verktakafyrirtækin. Sbr. tillögurnar um það hvernig megi endurreisa atvinnuvegina. E.t.v. er einhver tilbúinn til að telja umræðu um erfðabreytt bygg til þess að nýta þessa möguleika sem Andrés talar um í tengdri frétt.

Það hljóta allir framsýnir og umhverfismeðvitaðir einstaklingar að sjá að slíkar hugmyndir munu reita þessa möguleika út úr höndunum á okkur. En þar er ég líka komin að því sem vantar í þessa frétt. Stórþjóðir eru nú þegar farnar að ásælast ræktarland hér á landi! Ef við föllum fyrir ginnungartilboðum þeirra getum við gleymt tækifærunum sem við eigum í landrýminu og vatninu okkar!

Hvernig væri að hugsa út fyrir álvæðingar-, virkjunar- og stórframkvæmdarammann þar sem stórvirkar og háværar vinnuvélar ryðja björgum og mola berg fram að verklokum? Hvernig væri að við virkjuðum og reistum gróðurhús, elfdum ylrækt og einbeittum okkur að grundvallarþáttum eins og matvælaframleiðslu!? Hana má stunda um allt land. Jafnt fyrir austan, vestan, norðan og sunnan. 

Þeir sem geta sagt já eða nei um það hvort lífeyrissjóðirnir okkar verða nýttir til innspýtingar fyrir atvinnulífið verða að hugsa málið út frá því hvort hugmyndirnar um stöðugleika birtist bara í sýndarveruleika talna á blöðum eða hvort hann muni vara í reynd. Ég sé engan stöðugleika í því þó Hvalfjarðargöngin verði breikkuð eða nýr Landsspítali byggður.

Í slíkri verkáætlun sé ég verkefni sem stendur stutt yfir, þarf mikinn mannafla í skamman tíma, eðli verksins samkvæmt verður langmestur meiri hluti þeirra sem fá vinnu karlmenn, senilega aðeins þeir sem eru líkamlega sterkir og fullkomlega heilsuhraustir eða á aldursbilinu 17 upp í 45 ára, meiri hluti þeirra sem þarf að ráða eru ófaglærðir verkamenn, ... kannski erlendir auk þess sem þessi verkefni eru bundin við suðvesturhornið. Hér er líka bara verið að bjarga stórum verktakafyrirtækjum tímabundið því hvað svo???

Í landbúnaðinum er framtíð því við munum alltaf þurfa að borða eins og allt annað mannkyn á jörðunni.  Lanbúnaðurinn fer auk þess miklu betur með alla þætti jafnréttisins að ég tali ekki um mannskapinn sem ljáir honum krafta sína. 


mbl.is Styrkir innlenda matvælaframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það fer að styttast í stóru orðin!

... enda fullt tilefni til! Ég er svo gáttuð á þessum fréttum öllum um bæjarstjórabolann í Kópavogi að ég á enn fullt í fangi með að halda neðri kjálkanum í þeirri stellingu að ég líti ekki út eins og gapálfur. Tilefnið til að undrast er ærið þó það væri ekki annað en framkoma bæjarstjórans í Kópavogi!!

Það líður vart sá dagur að íslenskum almenningi opinberist ekki græðgin, spillingin og vanhæfnin meðal opinberra starfsmanna hvarvetna í stjórnsýslunni og fjármálastofnunum landsins. Það er rétt eins og þessir menn lifi og hrærist í þeirri trú sem var almenn á miðöldum varðandi konungsvaldið. Þá innprentuðu valdhafarnir með dyggri aðstoð kirkjunnar að menn væru réttbornir til valda. Almenningur var kúgaður undir þessari hugmyndafræði en í þessum jarðvegi voru hugmyndirnar um þrískiptingu valdsins og lýðræðið fundnar upp.

Hér á Íslandi er greinilegt að hugmyndir valdastéttarinnar um það á hverju lýðræðið grundvallast eru orðnar afar útvatnaðar ef ekki háðar þröngum skilningi þess einstaklings sem lýðræðið steitir á hverju sinni. Gunnar I. Birgisson er svo sannarlega ekki sá eini sem er sannfærður um forréttindi sjálfs sín. Honum dettur ekki í hug að hann þurfi að lúta neinum reglum nema þeim sem hann setur sjálfur. Hann finnur því upp einhverja málamiðlunarleið og telur sér trú um að þannig hafi hann lægt öldurnar nóg til þess að hann geti setið áfram við stjórn í Kópavogi.

Þetta er ótrúlegt siðleysi sem viðgengist hvergi á hinum almenna vinnumarkaði! Engum undirmanna hans myndi heldur líðast að koma þannig fram. Það er augljóst að Gunnar misnotaði almannafé til að byggja undir dóttur sína. Sjálfsagt taldi hann sig með þessu ekki gerast sekur um neitt alvarlega en það að vera hinn fullkomni og umhyggjusami faðir sem gerði vel við dóttur sína. Honum hefur kannski bara fundist eðlilegt að fölskylda hans nyti góðs af því hvað hann hafði komið sér fyrir. Honum yfirsást þó það grundvallaratriði að sjóðurinn sem hann mokaði úr var bæjarins og fólksins í Kópavogi en ekki hans og fjölskyldu hans!

Þessi siðferðis- eða greindarbrestur, að geta litið á bæjarsjóð sem sitt eigið fé, er svo augljós embættisglöp að það er á engan hátt ásættanlegt að Gunnar færi sig aðeins til innan bæjarstjórnarinnar. Hann á að sjálfsögðu að afsala sér öllum afskiptum af bæjarmálum í Kópavogi! Það er fullkomlega óásættanlegt að maður sem hefur orðið uppvís af jafn alvarlegum afbrotum í starfi og Gunnar I. Birgisson sitji áfram í bæjarstjórn Kópavogs. Hans embættisferli í stjórnsýslunni ætti með réttu að ljúka núna! Hann hefur dæmt sig til þess sjálfur með verkum sínum!!

Þetta dæmi, dæmið um Davíð, Valtý, og svo mætti áfram telja út í hið óendanlega, eru hrópandi dæmi um það að hér verður að koma upp einhvers konar hæfnis- og siðanefnd sem hreinlega metur hæfi þeirra sem sækjast eftir því að komast áfram í embætti hjá hinu opinbera. Það verður að vera til einhver nefnd sem grípur inn í og víkur embættismönnum frá sem gera sig bera af misbeitingu eða afglöpum í starfi. Við sjáum hvað við sitjum uppi með! og það sem verra er, er að þessi drullupyttur virðist endalaust!

Hvað nefndina varðar er stór spurning hvort ekki væri rétt að í henni sætu alltaf tveir erlendir sérfræðingar sem færu yfir hæfi umsækjenda. Það væri líka mikilvægt að hafa óháða aðila í þessari nefnd þegar kemur að því að fjalla um afglöp og misbeitingu í starfi. Það er ljóst að þeir sem neita að víkja gera það ekki síst í trausti vináttu- og bræðraklíkusamtakanna sem þeir hafa stofnað til.

Það er fullt tilefni til að grípa til stórra orða í ljósi þess sem hefur átt sér stað undanfarna daga og vikur. Slík orð hafa aldrei verið mér töm á tungu en óneitanlega skjóta mörg slík upp kollinum í dag þó þau rati ekki í þessa færslu. Ástæðan kann líka að vera sú að ég er nýkomin frá Reykjavík þar sem ég mætti nær daglega niður á Austurvöll og sló taktinn: NEI, NEI, NEI, NEI... við öllu kjaftæðinu sem viðgengst þessa daga. Hér er sýnishorn úr myndasafni Ástríðar Gylfadóttur:

Ég mótmæli

mbl.is Fundað um eftirmann Gunnars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kemur honum þetta við!

Hvað kemur fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins þetta við? Er hann ekki fyrrverandi?? Var honum ekki vikið úr starfi fyrir vanhæfni!. Sagði Sigríður heldur nokkuð annað en það sem almennt er vitað eða: „Mér finnst sem þetta [hrunið innsk. blm.] sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hluta eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu [að hafa] eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“

Það var Jónas Fr. Jónsson sem gerðist brotlegur í starfi með andvaraleysi sínu enda var hann látinn fara. Ég ætla a.m.k. ekki að ætla honum annað fyrr en það verður sannað. Hann ætti að skammast sín í stað þess að ná sér niðri á þeim sem eru sennilega nógu hæfir till að koma upp um hann og hann óttast.

Ég skil ekki þennan málatilbúnað allan og vona svo sannarlega að fyrrverandi forstjóra FME með sitt vafasama orðspor takist ekki að varpa rýrð á trúverðugleika rannsakenda af ástæðulausu!


mbl.is Enginn persónulegur hagur af ákveðinni niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bænarskjal mitt til allra þingmanna!

En eitt áfallið dundi yfir íslenskan almenning í gærkvöldi. Eva Joly, sem er okkar helsta vonarstjarna um að okkar bíði eitthvert réttlæti, varaði okkur við því að kannski neyddist hún til að draga sig í hlé frá rannsókninni á íslensku fjármálspillingunni. Ástæðan, sem Eva Joly nefndi ekki beinum orðum, en ég reikna með að blasi við öllum er spillingin í stjórnsýslunni.

Kannski hafa verið haldnar veislur hjá u.þ.b. 50 íslenskum fjölskyldum í tilefni af orðum Evu Joly. Ég tekst á við angitst og örvílnan vegna þess að það eru virkilega einhverjir eiginhagsmunaskúrkar sem komast upp með að slökkva von mína um réttlæti með því að gera einum færasta rannsóknardómara í heiminum ókleift að komast upp um glæpagengin sem hafa mergsogið samborgara sína!  Ég ætla ekki að segja meira um þetta mál en skora þig að lesa frábæra samantekt Láru Hönnu Einarsdóttur ef þú hefur ekki gert það nú þegar.

Ég ætla hins vegar að birta bréf sem ég sendi til allra sem sitja nú á þingi okkar Íslendinga:

Góðan daginn!

Með þessu bréfi opinbera ég þá bæn að allt verði gert til að gera Evu Joly kleift að leggja nafn sitt við rannsókn á hruni íslensku bankanna, sem leiddi þjóðina í þann stórkostlega vanda sem hún stendur frammi fyrir í dag. Ég bið ykkur að hlusta á ráð hennar um framkvæmd rannsóknarinnar og óskir hennar um vinnuaðstöðu. Ég geri það að tillögu minni að ef ríkisstjóður hyggst gefa út skuldabréf á lífeyrissparnað landsmanna að hluti þess fjármangs sem þannig fæst að láni verði lagður í þessa mikilvægu rannsókn!

Rannsóknin er mikilvæg fyrir margra hluta sakir. Sú stærsta og mikilvægasta er að þeir seku verði fundnir svo ríkissjóður geti leyst til sín eignir þeirra sem eru grundvallaðar á þjóðartekjum og sparifé sem landsmenn treystu bönkunum fyrir. Þar með lækkar sú skuldabyrði sem stendur til að velta á almenning sem ber enga ábyrgð á hruni bankanna og þeirri alvarlegu efnahagsstöðu sem landið stendur frammi fyrir nú. Önnur stór ástæða snýst um sáttina og traustið. Hér næst aldrei sátt nema þeir sem bera sökina verði fundnir og leiddir til saka. Íslensk stjórnvöld munu vera rúin öllu trausti á meðan þau stuðla að því með aðgerðaleysi sínu og/eða hálfkáki  að skúrkarnir sleppi en þjóðin sitji uppi í fátækt vegna glæpa sem liggur í augum uppi að hún hefur ekki framið.

Eva Joly er von okkar almennings og megi þeir sem stóðu að ráðningu hafa þakkir mínar og heiður fyrir það en hugur verður að fylgja máli! Kröfur Evu eru mjög vel rökstuddar og eru mjög í takt við réttlætiskennd allra hugsandi manna. Ég fer fram á það að henni verði sýnd sú virðing sem hún á skilið og hún fái að ráða með sér bæði innlenda og erlenda sérfræðinga sem ráða við það sem mjög margt bendir til að sé stærsta svikamylla í Evrópu eftir seinna stríð! Ef það verður ekki blasa við okkur öllum þvílíkar ógnir að m.a.s. ég forðast að koma þeim í orð.

Að lokum vil ég minna á að mótmæli hafa staðið yfir á Austurvelli síðan á mánudag. Þeim verður framhaldið á morgun. Á morgun verður ávænt uppákoma á Austurvelli kl. 13:00. Kl. 15:00 brestur svo hefðbundin mótmælin undir kröftugum byltingartakti. Kl. 16:00 mæta svo háskólastúdentar til mótmæla vegna þeirri aðför sem er verið að gera að kjörum þeirra og um leið framtíð háskólamenntunar í landinu.          

Láttu sjá þig og stattu með sjálfum þér og okkur hinum í leiðinni!                                  


mbl.is Skoða þörf á auknum útgjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi ég vera komin í útrýmingarhættu eins og þeir?

Þegar ég var barn og unglingur hélt ég alltaf með indíánunum í hinum svokölluðu „vestrum“. Það fór reyndar lítið fyrir þeim í þessum myndum því sjónarhornið var alltaf hjá „hetjunum“ sem voru að útrýma þeim í þeim tilgangi að komast yfir auðlindir þeirra.

Í sátt og samlyndiAuðlindirnar sem indíáninn sat á var ræktarland, veiðidýr, vatn og skógar. M.ö.o. náttúra sem þeir höfðu búið í sátt og samlyndi við öldum saman og grundvölluðu lífsafkomu og menningu sína á.

Af því hvernig morðóðir kúrekarnir voru alltaf málaðir upp sem sannar hetjur en indíánarnir sem fyrirstöðum sem þurfti að ryðja í burtu, hafði ég lítið gaman af þessum myndum og gafst að lokum upp á því að reyna að horfa á þær.

Ástæðan var ekki síður sú að ég fann svo óbærilega til með indíán- unum. Svo óbærilega að mig verkjaði stundum í hjartað af samkennd með þeim fyrir óréttlætið sem þeir máttu þola.

Þrátt fyrir þá skökku mynd sem þessar kvikmyndir gáfu af indíánunum fylltist ég aðdáun á þeim. Einkum held ég að það hafi verið af þeirri menningu sem höfundarnir neyddust til að miðla þrátt fyrir allt. Ég dáðist að því hvað þeir voru flottir, hvað þeir kunnu vel á náttúruna, voru snjallir á hestbaki og færar bogaskyttur. Rósemd þeirra og sá innri styrkur sem hún lýsti gerði það að verkum að ég leit enn frekar upp til þeirra. Mér fannst þeir líka alltaf tignarlegir gagnvart því niðurlægandi óréttlæti sem hvíti maðurinn lagði á þá.

Síðast en ekki síst kenndi ég hreinlega til undan þeim óútskýranlegu tengslum sem ég fann til með indíánunum. Kannski er það þess vegna sem mér hefur verið hugsað til þeirra núna. Í dag hef ég nefnilega verið að reyna að komast yfir þá yfirþyrmandi staðreynd að íslensk stjórnvöld hafa grundvallað það að Ísland verði nýlenda Breta og um leið stofnað þjóðerni mínu í útrýmingarhættu. Þeim sem finnst ég gera of mikið úr hlutunum bendi ég á aldalangan yfirgang Breta gagnvart Írum.
TáraslóðÉg ætla að enda þessa færslu með myndbandi sem segir frá aðgerðaráætlun bandarískra stjórnvalda sem byggðu á lagasetningu bandaríska þingsins frá árinu 1830 og varðaði indíánanna. Aðgerðin var kölluð „The Indian Removal Act“ en með henni var indíánum gert að flytja frá heimkynnum sínum til annarra sem voru síður byggileg.

Hér segir frá því þegar Cherokee-indíáarnir ásamt fjórum öðrum kynþáttum voru hraktir yfir þver Bandaríkin um miðjan vetur til nýju heimkynnanna í vestri. Þessi tiltekni atburður hefur löngum gengið undir heitinu „Trail of Tears“. Samnefnt lag hljómar undir sögunni sem er rakin í myndbandinu með kyrralífsmyndum og stuttum textabrotum.

Ég ræð ekki við að koma orðum yfir þá tilfinningaþvottavél sem sálarlíf mitt hefur hringsnúist inni í, í dag né að koma öllum hugsunum sem gengu í gegnum heilatromluna í orð. Ekki frekar en ég réði við að horfa á vestranna í gamla daga sem dásömuðu útrýmingu indíáanna. Ég læt heldur myndbandið miðla þeirri sorg og niðurlægingu sem ég finn til vegna þeirra atburða sem íslenska þjóðin gegnur í gegnum á okkar tímum með ófyrirséðum afleiðingum.


mbl.is Erfitt að skrifa undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta var það sem mig grunaði!

... þegar ég skrifaði þessa færslu hér. Við stóra samningaborðið á að heita að það sé verið að ræða þróun launa í landinu. Fyrirfram þóttust þó flestir vita að það eina sem yrði rætt þar um laun yrði það að engir peningar væru til. Þar yrði í mesta lagi boðið yrði upp á frestun allra launasamninga. Það er kannski bara mildara heiti yfir frystingu launa?

Grun minn um það hvað átti og hefur verið rætt um við þetta borð byggi ég á því hvernig mál hafa þróast frá síðastliðnu hausti fram til dagsins í dag. Stjórnvöld hafa unnið ötullega að verkefninu sem þeir settu allra efst á aðgerðarlistanum sínum en það var að bjarga bönkunum:
Forgangsverkefnið! Það var gert með því að setja tap íslensks almennings af ýmsum sparnaðarleiðum sem bankarnir buðu upp á, svo sem viðbótarlífeyrissparnaði, á eigendur viðkomandi reikninga. Björgun fjármálastofnananna og stjórnenda þeirra var svo endanlega tryggð með því að gefa stjórnendum bankanna tíma til að flytja óáreitta úr landi á meðan gengið var frá öruggum leiðum til vaxtahækkanna. En þær tryggja það að sjóðirnir, sem þessir fyrrum styrkveitendur stjórnmálamannanna, verði fylltir með margfaldri endurgreiðslu allra lána. Þ.m.t. húsnæðislána.

Þá er komið að stóru atvinnufyrirtækjunum. Það er búið að finna leið til að bjarga þeim en það á að gera með stórum virkjunar- og samgönguverkefnum sem tengjast álvæðingu landsins. Aftur er það almenningur sem á að blæða en mér skilst að hann eigi ekkert að finna fyrir því þar sem ríkissjóður ætlar að gefa út skuldabréf á skyldulífeyrissparnað launþega í landinu.

Það á að keyra samfélagið áfram eftir úrsérgenginni hugmyndafræði eins og ekkert hafi í skorist! Það á að halda við fjármálastofnunum sem í glórulausri bíræfni frelsins, sem þær nutu, keyrðu landið og þjóðina niður í þann dýpsta kreppupytt sem um getur á Vesturlöndum. Í stað þess að setja vinnu í að semja nýja og skynsamlega áætlun, sem skapaði hér raunverulegan stöðugleika, á að keyra hér eftir sömu glópagullsaðferðinni og leiddi hrunið yfir okkur.

Það má vera að það sé kominn nýr bílstjóri undir efnahagsstýri þjóðarinnar en þó hann þykist keyra eftir nýjum umferðarmerkjum sem heita „aðgerðaráætlun“ og „stöðugleikasáttmáli“ þá er aðferðin sú sama og fórnarlömb keyrslunnar eru enn og aftur íslenskur almenningur!
Óhæfur ökumaðurVið vitum hvar og hvernig þessi ökuferð endar! Við ættum því að grípa til okkar ráða áður en verra hlýst af og svipta hann ökuréttindunum! Það er svo óskandi að það verði hægt að senda alla þessa fantabílstjóra í meðferð og helst svipta þá ökuréttindum til æviloka! 

Eins og staðan er í dag sé ég ekki marga möguleika í stöðunni. Ég er orðin harla vonlítil um að stjórnvöld frekar en þeir þingmenn sem hafa nýverið gengt embættum í fyrrum ríkisstjórnum sjái að sér. Þess vegna sé ég reyndar ekkert annað framundan en borgarstyrjöld, því miður. Ég treysti mér ekki til að spá fyrir um það hvort hún verður friðsamleg eða ekki.

Ég vona það en ég vona þó frekar að það fari að kvikna einhver skynsemistíra í höfði þeirra sem eru í þeirri aðstöðu að afstýra því að til borgarastyrjaldar komi. Ég vona þess vegna að allir stjórnmálmenn, yfirmenn fjármálastofnanna og forystumenn atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna láti heilbrigða skynsemi stýra gjörðum sínum en ekki útdauða hugmyndafræði sem keyrir þá sem þeir eiga að þjóna í botnlaust tjón; þ.e.a.s. þjóðinni sem grundvallar tilveru þeirra.


mbl.is Stór verk í einkaframkvæmd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Get ekki á mér setið...

Ég er búin að vera svo grafalvarleg yfir færslunni hér á undan að ég ætla að leyfa mér að glannast með svolítinn aulahúmor yfir þessu annars stóralvarlega máli! Það muna kannski einhverjir eftir þessari mynd sem mig minnir að ég hafi stolið af blogginu hans Egils Helgasonar einhvern tímann síðastliðið haust.
IcesaveSamkvæmt þessari mynd er mælt með því að fyrsta afborgunin sé reidd fram með fé... en þar sem ég er alin upp í sveit þá sé ég strax að þarna er ekki um íslenskt fé að ræða!

Kannski áttaði sá sem setti textann inn á þessa mynd sig einmitt á þessari mikilvægu staðreyndW00t Kannski er hann með þessu að lauma þeirri hugmynd að okkur að Bretar beri tapið sjálfir! Mér finnst a.m.k. ekki koma til greina að þessar skuldir verði borgaðar af mínu fé! Það eru óreiðumennirnir sem stofnuðu til þeirra sem eiga að bera þessar skuldir!

Ef niðurstaðan verður sú að ég og annar almenningur verður látinn bera þessar skuldir hef ég af því stórar áhyggjur að framtíð mín sem gamallar konu verði þessi:
Hokurbúskapur Þar sem um er að ræða stóralvarlegt mál get ég ekki annað en endað þessa örfærslu á þessum grafalvarlegu nótumDevil


mbl.is Utanríkismálanefnd á fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnir sem varða allt þjóðfélagið og mig líka!

Ég kemst ekki inn í galdraformúluna sem ræður talsmáta flestra hagfræðinga og pólitíkusa og þá grípur mig ákveðin tilfinning sem ég byggi á skynseminni. Ef þessir tala þannig að ég og fleiri eiga bágt með að skilja þá er líklegt að það sé einmitt tilgangurinn. Það er nefnilega hægt að fjalla um hagfræði, viðskipa- og atvinnulíf þannig að allir skilji.

Þegar margir sitja við borð til að fjalla um framtíð launafólks í landinu ætti umfjöllunin um það að vera þannig matreidd að allir skilji hvað á sér stað í þeirri umræðu. Ég tel að við þetta svokallaða „stóra samningaborð“ fari fram mjög mikilvægar umræður sem varða þjóðina alla. Þeir samningar sem verða gerðir þar eiga eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir nánustu framtíð.

Þess vegna er afar áríðandi að við fylgjumst mjög náið með því sem þar fer fram og hvað þar er í undirbúningi. Allir þeir sem láta sig málin einhverju varða og hafa góðar hugmyndir um það hvernig megi tryggja stöðugleika og sátt í samfélaginu ættu í raun að setja sig í samband við þá sem eiga sæti við þetta borð og koma þeim á framfæri.

Gleymdar dyr

Ég hef reyndar fyrir því traustar heimildir að ýmsar hugmyndir hafi komið upp í þeirri umræðu sem tengd frétt fjallar um en aðrar hafa ekki náð þangað inn og þess vegna ekki verið viðraðar. Þó ég ætli engum sem koma að þessum viðræðum það fyrirfram að semja beinlínis af sér þá hef ég samt af því stórar áhyggjur hvernig endanlegur samningur eða „aðgerðaáætlun“ muni líta út. Þær stafa af ýmsum ástæðum. Þær augljósustu felast e.t.v. í svörunum við eftirfarandi spurningum:
  • Hvernig er kynskiptingin við þetta borð?
  • Hver er meðalaldur þeirra sem sitja við það?
  • Hvað hafa þeir sem vinna að þessum samningum setið lengi í samninganefndum?

Svarið við síðustu spurningunni er í mínum huga mikilvægast vegna þess að við þekkjum fortíðina sem þeir sem hafa setið lengst í ráðandi stöðum hafa átt þátt í að móta. Við vitum að sú stefna sem hefur verið fylgt hingað til hefur ekki orðið okkur til farsældar.

Það er alls ekki útilokað að þeir sem sitja við þetta borð vilji koma nýstárlegum og ferskum hugmyndum að en það þekkja það sennilega allir sem hafa átt sæti í nefndum og ráðum hvað nýjungar valda þar oft miklum titringi. Formið og hefðirnar eru líka oft svo fastmótaðar og niðurnjörvaðar að hugmyndirnar kafna ef þær fæðast á annað borð í því umhverfi sem hér er vísað til.

Það er ljóst að laun munu ekki hækka fyrir utan þeirra allra lægst launuðustu og þá aðeins um nokkra þúsund karla. Það er hætt við því að sú gamla leið að skerða réttindi til að ná fram sparnaði verði farin en lítið sem ekkert komi á móti. Spurning hvaða réttindi það verða. Er t.d. feðraorlof munaður sem er réttlætanlegt að skera niður? Sumir halda því fram að það sé alltof dýrt auk þess sem einhverjir halda því fram að það sé mjög mikið misnotað til svartar vinnu.

En hafa launasamtökin eitthvað í höndunum? Hafa þau eitthvað til að semja um? Verða þau ekki bara að sætta sig við það sem þeim er boðið? Lífeyris- sjóðirnir eiga að heita í höndum verkalýðsfélaganna og það er vopnið sem þeir hafa. Annars sætu þeir sennilega ekki enn þá við þetta borð. Þeir hefðu neyðst til að taka við algjörum lágmarkssamningi og eftir eitthvert sýndarmálþóf hefðu þeir orðið að skrifa undir.

En hvernig koma lífeyrissjóðirnir inn í þetta? Jú, samkvæmt mínum heimildum hrannast penningarnir inn á sparisjóðsreikninga lífeyrissjóðanna en bankarnir hafa ekki efni á því að borga út vextina vegna þess að útlánastarfssemi þeirra liggur niðri. Atvinnufyrirtækin halda að sér höndum vegna hárra vaxta og hafa frestað öllum framkvæmdum af þeim sökum. Þetta er vandamál sem þarf að leysa.

Mér skilst að í þessu felist lykillinn sem fulltrúar launamanna við Í lykilhlutverkisamningaborðið halda á. Það hefur komið upp sú hugmynd að ríkissjóður gefi út skuldabréf út á eignir lífeyrissjóðanna til að koma „hjólum atvinnulífsins í gang“. Til að komast að þessum sjóðum þarf að semja við fulltrúa verkalýðsfélaganna.

En hvaða hugmyndir hefur ríkisstjórnin uppi um það hvernig megi reisa við atvinnuvegina? Það er líka full ástæða til að velta því vandlega fyrir sér hverjir það eru sem gefa ríkisstjórninni ráð um það hvaða hugmyndir eru best til þessa fallnar?

Eru það ekki fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins? Ég veit ekki hvort það eru þeir sem eiga þær hugmyndir sem ég hef heyrt að hafi komið upp í sambandi við aðkomu lífeyrissjóðanna að endurreisn atvinnulífsins í landinu. Þær eru:

  • Fjármögnun á byggingu nýs Landsspítala.
  • Endurreisnarsjóður atvinnulífsins.

Ég verð aðeins að koma að þeim göllum sem ég sé á þessum hugmyndum. Í fyrsta lagi er ég alfarið á móti fyrri hugmyndinni. Þar yrði eingöngu „völdum“ verktakafyrirtækjum í byggingariðnaði bjargað um stundarsakir. Næg atvinna væri um tíma fyrir iðnaðarmenn á höfuðborgarsvæðinu á meðan aðrir atvinnuvegir og öll atvinnustarfsemi á landsbyggðinni myndu svelta.

Seinni hugmyndin er svolítið álitlegri en þar verður að hafa í huga, ekkert síður en varðandi þá fyrri, að hér á Íslandi eru því miður margar „Soprano-fjölskyldur“ sem gætu hrifsað til sín öllu fjármagninu án þess að gera úr því það sem hugmyndin gengur út á. Þ.e. að allir nytu góðs af með keðjuverkandi áhrifum. M.ö.o. að fyllsta jafnræðis væri gætt hvað varðar atvinnuvegi, staðsetningu fyrirtækja, aldur þeirra og stærð.  

Í sjálfu sér finnst mér hugmyndin um að koma atvinnulífinu til bjargar með aðstoð lífeyrissjóðanna alls ekki galinn en það liggur í augum uppi að það verður að vanda samninganna um þetta atriði mjög, mjög, mjög vel. Mér finnst að miðað við stöðuna eins og hún er núna þá sé ástæða til að lýsa eftir hugmyndum miklu fleiri aðila heldur en þeirra sem eiga sæti við þetta borð.

Mér finnst líka ástæða til að þeir sem eru í þeirri stöðu að að ráða „miklu um framtíð efnahagsmála á Íslandi“ (sbr. Gylfa Arnbjörnsson hér) verði að hafa það að leiðarljósi hvað kemur öllum almenningi best. Síðast en ekki síst verða þeir að átta sig á tækifærinu sem þeir hafa til að knýja fram kröfur sem verða þjóðinni til framtíðarhagsbóta. Þær kröfur sem þeir setja á móti leyfinu til fjárfestinga ríkisstjórnarinnar í lífeyrissjóðum almennings verða að taka mið að því hvað kemur þjóðfélaginu öllu til góða til frambúðar!

Er þessi staða, sem umboðsmenn launamanna við þetta borð eru í, ekki tilvalin til að þeir settu fram kröfur um það að núverandi ríkisstjórn hendi úrsérgengnum hugmyndum sem ganga út á að það sé eingöngu almennings að bera byrðarnar?
Eins og hamstur í hlaupahjóli
Ég fæ nefnilega ekki betur séð en þessi ríkisstjórn vinni eftir margnýttum og götóttum hugmyndum um það að hvernig sé best að auka tekjur ríkisstjóðs. Allar hugmyndirnar ganga út á það að sækja allt sem upp á vantar í vasa alþýðunnar sem hefur svo þá neikvæðu hliðarverkun að vera verðbólguaukandi... Í stuttu máli sagt má líkja þessari aðferð við hamstur í hlaupahjóli!

En eru til einhverjar aðrar leiðir til að afla tekna en skattpína almenning með hækkunum, ýmis konar álögum og í gegnum vexti af lánum þeirra? Ég hef heyrt margar góðar hugmyndir en nefni hér aðeins fjórar sem snúa allar að lítt nýttum - eða alls ekki nýttum „skattaholum“. Kostirnir eru líka að það sem fengist upp úr þessum „holum“ tengist ekki vísitölunni en síðast en ekki síst er skattlagning á þessar „peningahokur“ miklu líklegri til að skila ríkisstjóði raunverulegum tekjuauka en aðgerðir eins og „munaðarvöruskattur“!

Þessar hugmyndir ganga út á:

  • Fjármagnstekjuskatt.
  • Skattlagningu einkahlutafélaga.
  • Leggja á stóriðjuskatt.
  • Krefja þá sem nýta sér auðlindir okkar um sérstakan skatt fyrir það.

Þeir aðilar sem Gylfi Arinbjörnsson (má til að skjóta því hér inn í að ég er svolítið hugsi yfir því af hverju er látið líta út fyrir að það sé verið að semja við hann einan?) segir að ráði miklu um efnahagslega framtíð Íslands  ber skylda til að finna lausn fyrir allt þjóðfélagið. Ég held þess vegna að við, félags- mennirnir, verðum að átta okkur á því að þarna er tækifæri til að leggja eitthvað inn í umræðurnar og hafa áhrif.

Eða viljum við bara bíða og sjá hvað kemur út úr þessum umræðum? Er einhver sem treystir sér til að að lesa það út úr þessari frétt og öðrum álíka hvað „stöðugleikasáttmálinn“ eða „aðgerðaáætlunin“ mun fela í sér fyrir hinn almenna launþega? Ef ég á að segja alveg eins og er þá er ég hrædd um að aðgerðirnar og stöðugleikinn nái ekki utan um mig eða annan almenning heldur séu fjármálastofnanir og fjármangseigendur ásamt stærstu atvinnu- fyrirtækin að tryggja sína framtíð.

Ég vil þess vegna gera eftirfarandi kröfu: Ef það á að tryggja aukinn hagvöxt í landinu og fórna til þess eigum mínum, laununum mínum og nú skyldulífeyris- sparnaði mínum þá vil ég að það sé tryggt að ég eigi eitthvað í honum þegar upp er staðið!

Öllu fórnað fyrir ekkert


Ég vil ekki vera í þeim sporum að þurfa að semja um öll mín grundvallarréttindi sem launþega og þegns í landinu vegna þess að ég tók þátt í því að tryggja fjármálstofnunum, fjármagnseigendum og stöndugustu fyrirtækjunum lífs- afkomu á krepputímum með blóði mínu, svita og tárum! Ég er nefnilega svo langt frá því að vera sammála þessari forgangsröðun!!!


mbl.is Vextir í 9% til að byrja með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband