Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
Mætum!
31.12.2009 | 11:57
Kryddsíldin verður tekin upp á veitingastaðnum Rúbín í dag. Rúbín er veitingastaður við hliðina á Keiluhöllinni í Öskjuhlíðinni. Látið berast og mætið kl. 14:00 með hávaðatól!
Forseti tekur sér frest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Síðasta hálmstráið - annar í neyðarkalli!
31.12.2009 | 01:52
Þetta verður stutt að þessu sinni. Enda hér aðeins um neyðarkall að ræða!
Ég skora á alla að mæta á Bessastaði á morgun kl. 10:00 en þá ætlum við að safnast saman á hringtorginu við Bessastaði þar sem við ætlum að taka á móti ríkisstjórninni á leið hennar á ríkisstjórnarfundinn. Hvet alla til að mæta og með rauð neyðarblys og minna forsetann á yfirlýsingu hans frá í sumar!
Kl. 14:00 verður svo safnast saman við Rúbín sem er við hliðina á Keiluhöllinni í Öskjuhlíðinni. Það er ástæða til að taka með sér einhver hávaðatól þangað!
Ég vona að við sjáum sem flesta í fyrramálið því þetta er síðasta hálmstráið!
Yfir 42 þúsund skorað á forseta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rautt neyðarkall
30.12.2009 | 01:21
Eins og þeir sem fylgjast með blogginu mínu vita bý ég á Akureyri. Ég hef því haft fá tækifæri til að fylgjast með umræðunni í þingsal Alþingis á þingpöllum. Tveir síðustu dagar hafa fært mér mína fyrstu upplifun af því. Þar hef ég fylgst með þriðju umræðunni um Icesave.
Fyrsta skiptið mitt á þingöllum var í gærkvöldi. Þetta fyrsta skipti færði mér heila andvökunótt. Ég gat ekki sofnað fyrir háværum hugsunum mínum. Hugsunum sem þutu eins og stormar og vöktu mér ugg og og áhyggjur sem hafa reyndar búið í huga mínum allt síðastliðið ár. Þetta varð bara einhvern veginn miklu áþreifanlegra með því að sitja inni í suðupottinum þar sem ákvarðanirnar eru teknar.
Ég fór tvisvar í dag. Nú síðast í kvöld. Í meginatriðum fyllti þessi vera á þingpöllum mig sannfæringu um það að við, kjósendur verðum að gera eitthvað annað en það sem við erum að gera núna. Við verðum að sparka okkur fram úr þægingastólnunum og láta að okkur kveða!
Í sannleika sagt þá færði vera mín á þingpöllum mér heim sanninn um það að við getum fáum, ef nokkrum, treyst öðrum en okkur sjálfum! Þess vegna heiti ég á alla þá sem lesa þessar línur að koma niður á Austurvöll á morgun! Við erum þegar ágætur hópur sem ætlum að byrja þar um leið og þingfundur hefst í fyrramálið eða kl. 10:30 og verðum eins lengi og þingfundur stendur yfir. Kannski lengur!
Ég bið ykkur að taka með ykkur rauð neyðar- eða bengalblys til að taka þátt í rauðu neyðarkalli. Framtíð þín og mín er í húfi! Framtíð allra. Framtíð lands og íslensku þjóðarinnar - og mundu ófæddra barna þessarar þjóðar líka! Ég veit að þú vilt standa með sjálfum þér! Ég veit að þú vilt segja börnunum þínum eða litlu frændsystkinum þínum að þú hafir tekið þátt í því að búa þeim lífvænlega framtíð. Að þú vilt segja þeim að þú hafir gert allt sem var í þínu valdi!
Ég veit að þú vilt ekki þurfa að viðurkenna að þú hafir setið hjá og látið það sem er hægt að snúa við núna bara gerast. Ég minni þig á að við eigum ekki að borga Icesave! Rökin sem ég ætla að draga fram núna eru þau að Icesave-málið snýst ekki um það að borga lán sem kom allri þjóðinni til góða heldur er verið að neyða okkur til að gangast í ábyrgð fyrir mislukkað gróðarbrall Björgúlfsfeðga!
En þetta snýst um miklu meira en Icesave. Það vitum við öll. Það er ekki síst sú staðreynd sem rann svo skýrt upp fyrir mér með veru minni á þingpöllum þessa tvo síðastliðna daga. Þó sérstaklega nú í kvöld. Það var uppnám í þingsalnum vegna gagna sem eru sögð hafa verið að koma fram fyrst nú. Sumum þingmanna mæltist afskaplega vel þrátt fyrir það. Sumir stóðu m.a. afspyrnu vel með þjóðinni í ræðum sínum. Sögðu hluti sem ég gat tekið undir af öllu hjarta en nokkrum þeirra get ég einfaldlega ekki treyst vegna verka þeirra í fyrri ríkisstjórn og/eða þátttöku í óðærinu.
Þó ég trúi því að bæði Þorgerður Katrín og Bjarni Benediktsson séu heil í því að krefjast þess að Icesave-frumvarpið verði tekið til rækilegrar endurskoðunar á grundvelli nýrra upplýsinga og að úr vafaatriðum varðandi þennan samning verði skorið með faglegum hætti. Þó ég standi í þeim sporum að treysta þeim margfalt betur í þessu máli heldur en þeim Steingrími, Jóhönnu og Össuri - þá treysti ég þeim engan veginn að öðru leyti.
A.m.k. ekki á meðan reynt er að breiða yfir kúlulán í Kaupþingi og hlutdeild í turnafyrirtækjum í suðurálfu. Þetta vantraust á ekki aðeins við um þau tvö heldur alla þá þingmenn sem sátu á þingi fyrir hrun. Vandamálið er nefnilega ekki síst það að traustið og virðingin fyrir Alþingi er okkur langflestum horfin! Það er ekki síst þess vegna sem við þurfum að senda út rautt neyðarkall! Við verðum að minna á að við erum til staðar. Að við fylgjumst með og ef þetta fólk sem hefur valist inn á þing rækir ekki skyldur sínar við land og þjóð af einurð og heiðarleika þá höfum við vald og burði til að segja þeim upp!
Þess vegna skora ég á þig að mæta á morgun og láta alla í kringum þig vita af því að hetjurnar verða allar á Austurvelli á morgun. Rauða neyðarkallið verður sent út á hádegi!
Icesave-umræðu frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jólasveinavísur í takt við tímann
16.12.2009 | 17:12
1.
Glitnisgaur kom fyrstur,
gráðugur í öll bréf.
Hann laumaðist í vasana
og lék með fólksins fé.
Hann vildi sjúga þjóðina,
þá varð henni ekki um sel,
því greyið var sko afæta,
það gekk nú ekki vel.
2.
Björgúlfsaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
Hann skreið úr skipi hafsins
og skaust í bankann inn.
Hann faldi sig í Rússlandi
og froðunni stal,
meðan bjórmeistarinn átti
við Yeltsín gamla tal.
3.
Bjármann hét sá þriðji,
böðullinn sá.
Hann krækti sér í milljarða
þegar kostur var á.
Hann hljóp með þá til Noregs
en hirti ekki um sjóðina,
sem féllu hver af öðrum
við sjáum núna slóðina.
4.
Sá fjórði, Bændasleikir,
var fjarskalega sljór.
Og ósköp varð hann leiður,
þegar bankadruslan fór.
Þá þaut hann eins og Welding
og þotuna greip,
og flaug með henni í London
því krónan var svo sleip.
5.
Sá fimmti Smárasnefill,
var skrítið fjármagnsstrá.
Þegar hinir fengu í nefið
hann barði dyrnar á.
Þeir ruku'upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti' ann sér að pokanum
og fékk sér góðan verð.
6.
Sá sjötti Sigjónárna,
var alveg dæmalaus.-
Hann framundan rústunum
rak sinn ljóta haus.
Þegar fólkið vildi skýringar
á auralausum reikningum,
hann slunginn var að afsaka
og skyldi ei neitt í hlutunum.
7.
Sjöundi var Heiðarmár,
sá var sjaldan sýndur,
ef fólkið vildi tal af 'onum
hann var alltaf týndur.
Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó þjóðarskútan maraði
þá hálfu kafi í.
8.
Baugabur, sá áttundi,
var skelfilega þver.
Hann hluta keypt'af bönkunum
með hluta úr sjálfum sér.
Svo lánaði hann sér milljarða
og yfir öðrum gein,
uns hann stóð á blístri
og stundi og hrein.
9.
Níundi var Nógafaur,
næmur á fé og snar.
Hann hentist út um heim inn
og hluti keypti þar.
Á enskum bita sat hann
í símaleik
og át þar hluti drjúga,
enga Breta sveik.
10.
Tíundi var Skallakjaftur,
tungulipur mann,
sem hamaðist á landslýð
og æsti upp hann.
Ef vammlegt var hvergi
né ósiðlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.
11.
Ellefti var Stjórnaskelfir
aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hláleg
og heljarstór eyru og nef.
Ef fnyk af féhyggju
ekki hann fann,
þá léttur, eins og reykur,
lyktina upp spann.
12.
Sólráður, sá tólfti,
kunni að spinna vef.-
Hann þingmannasveitina
sveigði í kosningaþref.
Hann krækti sér í fylgi,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist enginn
akkurinn hans þá.
13.
Þrettándi var Kreppugeir,
þá var komið kvöld,
alltaf kom hann síðastur
á bankahrunsöld.
Hann blekkti litlu börnin sín,
sem mótmæltu prúð og fín,
og trítluðu um bæinn
með spónaspjöldin sín.
Höfundur óþekktur
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hversu lengi getum við setið hjá aðgerðarlaus?
6.12.2009 | 16:51
Ég ætla alls ekki að gera lítið úr baráttu þeirra sem hafa lagt allt sitt í það að finna skynsamlegar leiðir í því ástandi sem blasir við íslensku þjóðinni í dag en það er ljóst að það er ekki nóg að gert. Við erum enn í sömu sporunum og við hrun bankanna haustið 2008. Miðar heldur aftur á bak en áfram. Það þarft því eitthvað meira til að knýja hér fram einhverjar breytingar og skapa lífvænlega framtíð.
Ég er á því að það eina sem dugi sé alvöru bylting. Ég sá það á Facebook á dögunum að þar var stungið upp á garðáhaldabylgingu. Mér finnst hugmyndin ekki fráleit en sú bylting má ekki fara á sama veg og sú sem var kennd við búsáhöld. Við verðum að setja fram skýrar kröfur. Átta okkur á því hverju við viljum breyta og hvernig.
Ég held að það væri skynsamlegt að við skipuðum okkur fulltrúa og hef reyndar nokkra í huga sem ég ætla ekki að nefna að svo komnu máli. Hins vegar ætla ég að setja fram hugmyndir að því hvaða kröfur við ættum að setja fram:
- Fáum alþjóðalögreglu og sérfræðinga á sviði efnahagsbrota í lið með okkur til að rannsaka bankahrundið og aðdraganda þess.
- Gerum það að kröfu okkar að gerendurnir í hruni landsins verði sakfelldir nú þegar.
- Krefjumst þess að þeir víki skilyrðislaust úr þeim ábyrgðarstöðum sem þeir gegna nú.
- Förum fram á það að þingmenn og ráðherrar verði þar ekki undanskildir.
- Skipum nefnd sem fer yfir hæfni og feril þeirra sem fylla stöður þeirra.
- Krefjumst þess að slík nefnd verði lögbundin svo og það hlutverk hennar að fara yfir hæfni og feril allra sem sækjast eftir opinberum embættum svo og því að gegna formennsku stofanana og félaga er varða þjóðarhag. Hér er t.d. átt við formenn verkalýðsfélaga, yfirmenn banka og tryggingarfélaga, eigendur fjölmiðla o.s.frv.
- Förum fram á það að það verði farið rækilega yfir starfslýsingar og siðareglur opinberra starfsmanna svo og forstjóra og framkvæmdarstjóra stofnanna og félaga sem varða þjóðarhag.
- Förum fram á að það verði tryggt að fjölmiðlar í eigu ríkisins þjóni almenningi en ekki sitjandi valdhöfum.
- Gerum það að kröfu okkar að óháðir sérfræðingar verði fengnir til landsins til að meta efnahagsstöðu þjóðarbúsins.
- Krefjumst þess að sérstakur dómstóll verði skipaður til að dæma í málum gerenda hrunsins.
- Skipum nefnd til að fara yfir hæfni og feril þeirra dómara sem taka þar sæti.
- Krefjumst þess að horfið verði frá því að lífeyrissparnaður landsmanna verði bundinn í virkjana- og stóriðjuframkvæmdir en þess í stað verði hluti þeirra settur í að byggja upp matvælaframleiðslu og aðra atvinnustarfsemi sem stuðli að því að við verðum sjálfbær.
- Förum fram á stjórnlagaþing.
- Krefjumst þess að fulltrúar okkar fái sæti þar.
- Gerum það að kröfu okkar að það verði í alvöru farið í það að stokka upp stjórnsýslukerfið.
Ég gæti haldið áfram en læt hér staðar numið í bili...
Ef vel á að takast þurfum við að skipa sérstakt byltingarráð. Það má vera að við verðum að skipuleggja allsherjarverkfall, kannski líkt og kvennafrídaginn á áttunda áratugnum, nema ég held að einn dagur dugi okkur alls ekki. Það væri nær að gera ráð fyrir viku. Ég geri það að tillögu minni að allir landsmenn leggðu niður vinnu og söfnuðust saman á Austurvelli og freistuðu þess að snúa dæminu við. Ég held því miður að það sé okkar eina von.
Að öðrum kosti fjölgar þeim enn frekar sem missa vinnuna, verða gjaldþrota og láta sig hverfa...
Finnst ykkur ég róttæk og grimm? Mér finnst það sem okkur, þjóðinni, er boðið upp á af valdhöfunum svo fullkomlega siðlaust og grimmt að ég sé ekki annað en við neyðust til að grípa í taumana!
Borgarafundur: Böðlar eða bjargvættir
6.12.2009 | 00:36
Það hefur dregist heldur lengi að ég geri grein fyrir síðasta borgarafundi sem var haldinn hér á Akureyri laugardaginn 21. nóvember síðastliðinn. Yfirskrift fundarins var: Böðlar eða bjargvættir en tilgangur hans var að fjalla um veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi út frá eftirfarandi spurningum:
- Hvort er líklegra að vera sjóðsins hér á landi verði þjóðinni til bölvunar eða blessunar?
- Þjónar sjóðurinn hagsmunum þjóðarinnar, íslenskra fjármálastofnana og stórfyrirtækja eða erlendra fjárfesta?
- Vinnur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með stjórnvöldum eða stjórnar hann þeim á bak við tjöldin?
- Gætum við kannski komist af án hans?
Þrír framsögumenn voru á fundinum. Einn sem mælti á móti veru hans hér, einn sem sá ekki annan kost í stöðunni en þiggja aðstoð hans og þriðji sem kynnti niðurstöður könnunar sem hann hafði gert meðal þingmanna og svör sem hann hafði fengið hjá Franek Rozwadowski við nokkrum spurningum varðandi sjóðinn og stefnu hans. Fundarstjóri á þessum fundi var Edward H. Huijbens.
Þess má geta að fundartíminn hafði verið valinn sérstaklega svo Steingrímur J. Sigfússon hefði möguleika á að mæta og taka þátt. Við buðum reyndar líka öllum þingmönnum kjördæmisins svo og heilbrigðisráðherra. Svar barst frá öllum nema Kristjáni Möller og Birki Jóni Jónssyni. Engin, hvorki ráðherrar eða þingmenn, mættu á fundinn.
Í upphafi fundarins benti Edward á ástæðu þessa óvenjulega fundartíma og tók það fram að þeir sem svöruðu fundarboðinu hefðu allir afþakkað vegna ýmis konar skuldbindinga annars staðar.
Í þessu samhengi þykir mér ástæða til að taka það fram að tveir framsögumannanna sem tóku þátt í þessum fundi búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þeir kostuðu ferðalög sín hingað norður sjálfir og tóku því ákaflega ljúfmannlega þegar við færðum fundinn fram á laugardag í stað fimmtudagskvölds en vissulega voru það þeim vonbrigði að enginn stjórnmálamannanna sæi sér fært að mæta.
En þá að framsögunum sem var í höndum eftirtaldra:
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir á Landsspítalanum
Gísli Aðalsteinsson, hagfræðingur og forstöðumaður skrifstofu
fjármála hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri
Framsaga Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur
Jakobína talaði út frá glærum sem ég setti sem viðhengi neðst í þessari færslu. Yfirskrift þeirra er Uppspretta valds á Íslandi en í fyrirlestri sínum velti hún upp þeirri spurningu hver færi með hin raunverulegu völd hér á landi og kynnti svör sitjandi þingmanna við þessari spurningu svo og niðurstöður úr viðtali við Franek Rozwadowski, sendifulltrúa AGS hér á landi.
Jakobína hóf mál sitt á eftirfarandi orðum:
Okkur er kennt í barnaskóla að á Íslandi sé lýðræði og að löggjafarvaldið sé hjá kjörnum fulltrúum okkar á Alþingi. Okkur er kennt að eftir baráttu hafi þjóðin öðlast fullveldi fyrir um sextíu og fimm árum síðan.
Eftir bankahrunið og sérstaklega eftir að ný ríkisstjórn tók við hef ég velt því fyrir mér hvernig valdaþræðirnir liggja í samfélaginu og ég hef spurt hvort á Íslandi ríki lýðræði. Það er óskýrt hvert má rekja ákvarðanir sem virðast vera ákvarðanir yfirvalda og það er óskýrt hverra hagsmuna er verið að gæta. Sjaldan virðast hagsmunir almennings vera í fyrirrúmi.
Jakobína sagði að það væri forvitnitlegt að skoða hverjir tækju ákvarðanir í sambandi við t.d. eftirtalið:
- Hvort við sækjum um ESB.
- Hvort ríki veitir ríkisábyrgð í sambandi við einkaskuldir.
- Hvenær gjaldþrot ríkisins er viðurkennt.
- Hverjir greiði skuldir hverra?
- Eignir hverra njóti verndar og hverra verði fórnað.
- Hvernig lífeyrissparnaði launamanna verði varið.
- Hverjir fái að veiða fiskinn í sjónum.
- Hvort byggja eigi stóriðju sem hverfur með auðlindarentu úr landi. (sjá glæru 2)
Af þessu tilefni ræddi hún við nokkra núverandi þingmenn. Samkvæmt svörum þeirra eru það ýmis hagsmunasamtök eins og LÍÚ, ASÍ og Samtök atvinnulífsins sem fara með völdin hér á landi ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þeir þingmenn sem Jakobína ræddi við voru líka sammála um að sjálfir hefðu þeir lítil völd. (sjá glæru 3)
Ástæðan fyrir því að AGS hefur náð hér völdum er að sögn Jakobínu: raunveruleg eða ímynduð fjárþörf íslenska ríkisins. Aðferðafræðin við að ná ítökum er bæði hugmyndafræðileg (kenningar um traust) og formlega (alþjóðasamningar).
Innan áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem ríkisstjórnin gekkst inn á með því að gera samning við sjóðinn er að: endurreisa bankana, styrkja gjaldmiðilinn og eyða fjárlagahalla. Með samningi sínum við sjóðinn hefur ríkistjórnin hins vegar bundið hendur sínar til að bregðast við: fólksflótta, ósanngjarnri eignatilfærslu, sölu auðlindanna og óréttlæti.
Með öðrum orðum: Ríkisstjórnin hefur ekki vald til þess að sporna við hættum sem steðja að þjóðinni ef nauðsynlegar aðgerðir brjóta í bága við markmið prógrams alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í þessu samhengi undirstrikaði Jakobína það sérstaklega að réttlæti rúmaðist greinilega ekki inni í prógrammi AGS. Það þyrfti að víkja fyrir skilvirkni prógrammsins sem ætti að tryggja hagsmuni fjármunanna.
Máli sínu til rökstuðnings er eftirfarandi listi sem dregur fram hugmyndafræðina sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vinnur út frá hér á landi:
- Stöðugleika í samfélaginu er aðeins hægt að grundvalla út frá forsendum fjármálakerfisins.
- Fjármálakerfið er forsenda atvinnulífsins.
- AGS nýtur trausts út á við.
- Það skaðar orðspor Íslands að vera ekki í prógrammi sjóðsins.
- Það eykur traust út á við að skattgreiðendur séu gerðir ábyrgir fyrir spilafíkn auðmanna.
- Það eflir gjaldmiðilinn að skulda mikið í gjaldmiðlinum. (sjá glæru 7)
Í framhaldinu kynnti Jakobína það sem þingmennirnir sem hún ræddi við höfðu að segja um AGS og þar bar hæst það að þeim fannst vanta gagnrýni á sjóðinn bæði hjá stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins. Um valdhafana höfðu þeir það að segja að leyndarhyggjan væri ráðandi en foringjahyggjan með innbyggðri hjarðhegðun hefði verið uppskriftin að hruninu.
Í viðleitni sinni til að fá úr því skorið hver færi með hin raunverulegu völd á Íslandi fór Jakobína á fund Franek Rozwadowski, sendifulltrúa AGS á Íslandi, og spurði hann nokkurra spurninga. Það sem vakti einkum athygli hennar í svörum hans var annars vegar það að hann sagði það Mest um vert að fólk fái að safna auði og hitt að hann viðurkenndi það að réttlæti rúmaðist ekki innan stefnu sjóðsins.
Undir lok ræðu sinnar velti Jakobína því upp hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skildi eftir sig þegar hann færi héðan. Hennar niðurstaða er þessi:
- Icesave-reikningur upp á 500 til 1.000 milljarða sem verður baggi á efnahagslífi þjóðarinnar.
- Ef farið verður í stóriðjuframkvæmdir munu þúsundir byggingaverkamanna missa vinnuna eftir nokkur ár eða þegar þeim framkvæmdum verður lokið.
- Eftir hrikalegan niðurskurð mun velferðarkerfið grotna niður eins og annað sem ekki er haldið við.
- Niðurstaðan verður eftirfarandi spírall: Landsflótti => meiri niðurskurður => landsflótti ... = Vítahringur sem leiðir til stöðnunar. (sjá glæru 13)
Ræðunni lauk hún svo með þessum orðum: Reiknikúnstir fela í sér þunnar útskýringar. Í umræðunni er hulu sveipað yfir áhrif á hið raunverulega mannlíf í samfélaginu með meðaltölum og súpertölum sem fáir skilja!
Áður en ég sný mér að ræðu næsta ræðumanns langar mig til að benda þeim sem vita það ekki nú þegar að Jakobína er mjög ötull bloggari eins og sjá má hér.
Framsaga Gunnars Skúla Ármannssonar
Eins og allir þeir sem hafa fylgst með bloggi Gunnars Skúla vita þá er hann harður andstæðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins enda telur hann að áframhaldandi vera hans hér á landi muni leiða okkur í enn verri ógöngur en orðið er. Gunnar er líka einn af þeim fáu sem hafa kynnt sér skýrslu AGS varðandi veru hans hér ýtarlega. Auk þess hefur hann skoðað það gaumgæfilega hvaða áhrif vera hans hefur haft í öðrum löndum.
Gunnar talaði út frá glærum en þær setti ég sem viðhengi neðst í þessari færslu eins og glærur Jakobínu hér á undan. Í upphafi framsögu sinnar tók hann það fram að afleiðingarnar að veru AGS hérlendis yrðu enn alvarlegra hrun. Hann benti t.d. á það hvernig krafa sjóðsins um að öll vernd fyrir innlenda starfsemi skyldi skilyrðislaust afnumin bitnaði á garðyrkjubændum þannig að nú stefnir í að Íslendingar verið að flytja inn allt það grænmeti sem við neytum.
Þessar sagði Gunnar Skúli vera afleiðingarnar sem fylgdu því að þiggja aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:
- Yfirskuldsetning þjóða => selja auðlindir.
- Dýpri kreppa.
- Landflótti.
- Atvinnuleysi eykst.
- Fátækt eykst.
- Heilbrigði og menntun versnar. (sjá glæru 4)
Í framhaldinu vísaði Gunnar í nokkrar tölulegar staðreyndir (sjá glærur 5-9). Eins og þær að í Lettlandi var búið að loka 13 af 72 sjúkrahúsum 1. okt. sl. Í sambandi við það hvernig væri hægt að meta áhrif af veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á versnandi heilsufar benti Gunnar Skúli á að útbreiðsla berkla væri góður mælikvarði á það hversu vel gengur að vinna á móti dreifingu annarra smitsjúkdóma.
Eins og sést vel á þessari mynd, sem er tekin frá lýðheilsustöð í Oxford og sýnir útbreiðslu berkla í heiminum, er áberandi fylgni milli þess að þiggja lán hjá AGS og ráða ekkert við útbreiðslu berkla. Þessi mynd rökstyður með öðrum orðum það sem Gunnar Skúli segir um að verri heilbrigðisþjónusta sé óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að þiggja lán hjá AGS. Ástæðan er sú að með því þurfa ríki að gangast undir sérstakt prógramm sem gerir ráð fyrir gífurlegum niðurskurði í allri opinberri þjónustu. Þar með talið heilbrigðisþjónustu.
Næst vék Gunnar Skúli að vaxtagjöldum ríkisins frá árunum 2005 til 2014 miðað við skýrslu AGS. Hann minnti á að við yrðum að borga lánin í erlendri mynt en að gjaldeyrir fáum við fyrst og fremst úr sjávarútveginum og ferðamannaiðnaðinum. Hann benti á að þegar áætlanir AGS um vöruskiptajöfnuð íslenska ríkisins væru skoðaðar ofan í kjölinn væri ljóst að ekkert verði afgangs til að flytja inn - þ.m.t. grænmeti. (Sjá glærur 10-13)
En hvað er þá til ráða? Svar Gunnars Skúla var einfalt. Eina ráðið er að senda fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heim og afþakka aðstoð þeirra. Hann benti á að 27 ríki hefðu farið leið greiðslustöðvunar fremur en sitja uppi með leið AGS. Sú leið hefði reynst þeim mun farsælli lausn en sú að láta sjóðinn keyra efnahag landanna niður í enn verri stöðu.
Framsaga Gísla Aðalsteinssonar
Gísli hóf mál sitt á því að hann hefði verið búinn að undirbúa sig með ræðu sem hann hefði ætlað að flytja á þessum fundi en eftir að hann hafði hlýtt á hina framsögumennina sætu nokkrar spurningar eftir sem hann ætlaði að varpa fram og reyna að svara jafnóðum.
1. Er sjóðurinn að gæta hagsmuna eigenda sinna eða þjóðarinnar? Svar: Meginmarkmið sjóðsins er að tryggja það að við getum greitt.
2. Þurfum við á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að halda? Svar: Já, ef við viljum ekki verða gjaldþrota.
3. Til hvers þurfum við gjaldeyrisvaraforða? Svar: Það þarf að endurfjármagna mörg fyrirtæki sem eru að komast í þrot.
4. Hvað með Icesave? Er samhengi? Svar: Ekki beinlínis en til þess að við eigum fyrir Icesave þurfum við lán.
5. Berum við ábyrgð á Icesave? Svar: Ekki persónulega en við berum samfélagslega ábyrðg. Stjórnvöld Bretlands og Hollands eru sammála um að Íslendingum beri að borga skuldirnar.
Stóriðjuframkvæmdir eru forsenda þess að við getum greitt þessar skuldir. Orkufyrirtækin standa ekki undir sér og þess vegna verðum við að fá lán einhvers staðar frá til raforkuframkvæmda.
Pallborðið
Fyrirfram var gert ráð fyrir því að í pallborði sætu fjármálaráðherra auk annarra þingmanna úr kjördæminu en þar sem enginn þeirra sá sér fært að mæta á fundinn tóku framsögumenn sæti í pallborðinu líka og svöruðu fyrirspurnum úr sal en fyrst fengu þeir tækifæri til að bregðast við því sem hafði komið fram í framsögum hinna.
Gunnar Skúli notaði tækifærið og andmælti því sem kom fram í ræðu Gísla. Gunnar sagði það alveg á hreinu að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu komið að því að teyma Íslendinga að samningaborðinu við Breta og Hollendinga vegna Icesave. Hann minnti á að Bretar og Hollendingar eiga fulltrúa í stjórn AGS.
Sjóðurinn mun halda í okkur lífinu út í hið óendanlega til þess eins að mjólka það sem er mögulegt ná út úr okkur. Það kemur nú þegar fram í því hvernig áætlanir sjóðsins um skuldaþol þjóðarinnar hækkar stöðugt í takt við hækkandi skuldatölur (sjá t.d. þessa frétt hér). Síðan bætti hann því við að það versta fyrir sjóðinn væri það að Íslendingar lýstu yfir gjaldþroti.
Fyrirspurnir úr sal
Það verður að segjast eins og er að þeir voru ekki margir fundargestirnir á þessum fundi eða ekki nema tuttugu. Það kom þó ekki í veg fyrir afar fjörlegar umræður.
Fyrsti áheyrandinn sem tók til máls benti Gunnari Skúla m.a. á það að honum fyndist hann draga upp alltof einfaldaða mynd þegar hann fullyrti að eina ráðið væri að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum upp. Hann yrði að útskýra hvað tæki við ef sú leið yrði farinn. Annar minnti á að bæði Michael Hudson og John Perkins hefðu sérstaklega varað við lánastefnu sjóðsins og afleiðingum þess að þiggja aðstoð hans.
Gísli Aðalsteinsson fékk orðið fyrstur og minnti á að Landsvirkjun væri komin í þrot og gæti þess vegna hvergi fengið lán. Ef ríkið byggði hins vegar upp gjaldeyrisvaraforða gæti það gengist í ábyrgð fyrir orkufyrirtækið.
Jakobína benti á að samkvæmt því sem hefði komið fram í viðtölum hennar við þingmennina þá væri stjórnkerfið hér á landi ónýtt. Íslenskur almenningur kýs ekki þá sem fara raunverulega með völdin í landinu. Þingmennirnir sem almenningur kýs eru valdalausir og þar af leiðandi kjósendur líka.
Í þessu samhengi benti hún á að hér færi fram ákveðinn heilaþvottur í sambandi við Icesave en þjóðin ber ekki ábyrgð á bönkum í Englandi og Hollandi. Hins vegar ber Brusselveldið ábyrgð. Þeir sköpuðu það umhverfi sem Icesave varð til í.
Gunnar ítrekaði að Íslendingar bæru ekki ábyrgð á Icesve. Ábyrgðin ætti að falla á innistæðutryggingarsjóð. Íslensku bankarnir borguðu inn á hann allan tímann eins og lög gerðu ráð fyrir. Hann minnti á að það væri bannað að ríkistryggja banka.
Varðandi það hvaða möguleikar væru í boði ef við segðum Alþjóðagjaldeyrissjóðnum upp þá benti hann á að við erum nú þegar tæknilega gjaldþrota. Það er þess vegna eðlilegast að við horfumst í augu við það og lýsum yfir gjaldþroti. Í slíkum tilvikum er samið við lánadrottna á allt öðrum forsendum og nokkuð einboðið að við fengjum eitthvað afskrifað.
Einn fundargesta hjó eftir því í málflutningi Jakobínu og Gunnars að þau sögðu að Íslendingar ættu ekki að borga Icesave og sagði það einsleita sýn að kenna alfarið Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um Icesave-deiluna.
Jakobína svaraði og sagði að engar lagalegar forsendur væru fyrir því að Íslendingar tækju á sig Icesave-skuldbindingarnar. Hún sagði að henni fyndist íslensk stjórnvöld vera of hrædd við að taka ákvarðanir. Við verðum að átta okkur á því að við eigum í stríði þar sem við erum peð í gráum hildarleik.
Hún sagði að íslenskur almenningur ætti að hætta að láta fara svona með sig. Við ættum að hætta að láta segja okkur að við ættum að finna til sektar yfir því sem við berum enga ábyrgð á.
Gunnar benti á að það væri til upptaka úr breska þinginu, sem væri aðgengileginni á You Tube, þar sem Gordon Brown viðurkenndi að Bretar væru að nota Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að láta Íslendinga borga Icesave. (þar sem ég fann ekki þessa upptöku inni á You Tube vísa ég í þetta viðtal við Evu Joly þar sem hún vísar til þessara ummæla Gordons Brown)
Næsta fyrirspurn varðaði það hvort að við yrðum ekki að borga það sem við fengjum lánað eins og Icesave.
Jakobína minnti á að það væri ekkert sem benti til þess að þessir peningar hefðu nokkurn tímann komið til Íslands. Þvert á móti hefðu þeir farið út í breska hagkerfið og væru að skapa arð þar.
Eins og sést sköpuðust ekkert síður fjörugar umræður um Icesave-ábyrgðina en veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi en í lok fundarins dró fundarstjórinn, Edward H. Huijbens, umræðuna aftur að AGS og spurði um pallborðsgesti um það hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér með áframhaldandi veru sjóðsins hér á landi.
Jakobína spáði landsflótta og minnti á að erlend fjármálakerfi væru að leggja fullveldi Íslands að velli.
Gísli vildi meina að við okkur horfði sama niðurstaða bæði með og án AGS. Að hans mati eigum við að nýta okkur aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að komast í gegnum næstu tvö til þrjú árin. Hann sagði það ekki tímabært að lýsa yfir gjaldþroti strax.
Gunnar sagði að það væri alveg óhætt að fullyrða að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn myndi halda í okkur lífinu eins lengi og það væri eitthvað af okkur að hafa. Við gætum þess vegna fengið meira og meira lán í gegnum sölu auðlindanna. Vera sjóðsins þýddi ekki aðeins það að skuldirnar hækkuðu upp úr öllu valdi heldur það líka að við glötuðum eignum okkar.
Að lokum minnti Gunnar Skúli á það að nýlega hefði það komið fram á Alþingi að núna flyttu fjórtán Íslendingar burt á dag! Hann reiknaði með að þessi tala ætti eftir að hækka ef ekkert væri að gert.
Áætlun AGS Excel-æfing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Andlegar pyntingarbúðir
3.12.2009 | 02:46
Sjálf er ég vön að vinna undir miklu álagi innan um fleiri sem eru líka undir sama álaginu. Ég ætla ekki að fara út í það neitt nánar að lýsa aðstæðum mínum eða ástæðum umrædds álags. Hins vegar tek ég þetta fram til að undirstrika það af þessum ástæðum þekki ég mjög vel hvaða áhrif mikið álag hefur á bæði mig og aðra.
Álag dregur auðvitað fyrst og fremst úr andlegu atgervi manna og þess vegna furða ég mig meir og meir á því starfsumhverfi og vinnutíma sem þingmönnum okkar er boðið upp á þessi misserin. Ég viðurkenni það að ég hef ekki fylgst jafnnánið með þingstörfum í gegnum tíðina og ég hef gert frá því ríkisstjórn Ingibjargar Sólrúnar og Geirs H. Haarde sá sig tilneydda til að segja af sér. Ég tel mig þó hafa fylgst nógu vel með til að geta fullyrt það að aldrei hefur vinnuálagið verið jafnviðvarandi og langdregið og frá því ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu tók við.
Nú er ég ekki að kenna þeim einum um það hvernig starfsumhverfi þingmanna hefur þróast. Langt því frá en það er óvéfengjanlega í þeirra valdi að grípa í taumana. Það er nefnilega morgunljóst að það er ekki hagur þjóðarinnar að þingheimur sé þreyttur til andlegrar deifðar og meðvitundarleysis gagnvart öllu öðru en þeim þrætueplum sem ríkisstjórnin hefur sett í forgang.
Það væri kannski öllu nær að kalla Icesave-málið þreytuepli því óhófið í vinnuálaginu, sem lagt er á þingmenn í skjóli þess, er þvílíkt að engu er líkara en það sé einmitt tilgangurinn að þreyta þingheim til hlýðni! Nú eða meðvitundar- leysis því á meðan allur krafturinn er soginn úr þingmönnum í endaleysunni sem allur málatilbúnaðurinn í kringum þetta efni er þá gerast válegir hlutir úti í samfélaginu sem væri miklu nær að þjóðarþingið beindi kröftum sínum að.
Í skugga þreytueplisins, sem Icesave-málið lítur út fyrir að vera, þá blæðir heimilum landsins. Fólk gefst hreinlega upp og flytur úr landi, skilur eftir sig íbúðirnar sínar og stundum bílana líka. Matarbúr Fjölskylduhjálparinnar tæmast, fyrirtæki fara á hausinn, erlendir kröfuhafar eignast bankanna, viljayfirlýsingar varðandi það að lífeyrissjóðirnir fjármagni stórframkvæmdir í áframhaldandi virkjana- og stóriðjuuppbygingu eru undirritaðar svo fátt eitt sé talið sem ógnar íslensku samfélagi og þegnum þess þessa dagana.
Þingfundur þar til mælendaskrá er tæmd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég hef líka áhyggjur!
3.12.2009 | 00:07
Ég hef vissulega áhyggjur af mörgu því sem hefur verið dregið fram á miðstjórnarfundi ASÍ (sjá fréttina sem þessi færsla er hengd á) og fagna því að verkalýðsforystan gagnrýni það hvernig stendur til að vega að kjörum almennings í landinu. En gagnrýnin dugar ekki ein og sér...
Verkalýðsforystan hafði tækifæri til að bæta stöðu almennings fyrr á þessu ári. Hún sameinaðist m.a.s. við það sem í tali þeirra gekk undir heitinu: stóra samingaborðið undir því yfirskini að vinna saman að því að verja kjör launafólks við þær erfiðu aðstæður sem við blasti. Útkomuna ættu allir að þekkja og býst ég við að þeir séu margir sem hafa furðað sig á plagginu sem hlaut heitið stöðugleikasáttmáli.
Það þarf ekki glöggskyggnan einstakling til að lesa úr þessu plaggi að þar viku hagsmunir launafólks í landinu fyrir því sjónarmiði að bjarga stóru verktakafyrirtækjunum í landinu og gera e.t.v. slíkum fyrirtækjum á evrópska efnahagssvæðinu kleift að koma að þeim stórframkvæmdum sem aðgerðaráætlun stöðugleikasáttmálans gerir ráð fyrir. Þar sem það var þegar orðið ljóst á samningstímabilinu að lánshæfnismat landsins var komið í ruslflokk var í þessum sama samningi sett fram áætlun um það hvernig þessar framkvæmdir skyldu fjármagnaðar.
Því er nefnilega haldið fram að bankarnir séu í stórkostlegum vandræðum vegna þess að lífeyrissjóðirnir blása út án þess að peningarnir sem þar safnast hafi möguleika á að ávaxtast í formi útlána. Hugmyndin um að lífeyrissjóðirnir fjármagni fyrirhugaðar stórframkvæmdir er m.a. sett fram sem lausn á þessum vanda. Hún er þó fyrst og fremst lausn á því vandamáli að það vantar fjármagn til að ráðast í framkvæmdir eins og:
byggingu hátæknisjúkrahúss, samgöngumiðstöðvar í Reykjavík, Búðarhálsvirkjunar og álversins í Helguvík, stækkun álversins í Straumsvík, framkvæmdir við Suðurlandsveg, Vesturlandsveg um Kollafjörð, lagning Sundabrautar og bygging Vaðlaheiðarganga.
Ég reikna með að ég sé alls ekkert ein um það að fyllast óhug við lestur þessa lista yfir fyrirhugaðar framkvæmdir sem aðgerðaráætlun stöðugleikasáttmálans gerir ráð fyrir að hrinda í framkvæmd í krafti þess fjármagns sem nú liggur í lífeyrissjóðunum. Af honum er nefnilega ljóst að lífeyrissjóðunum er ætlað að keyra aftur upp þá stóriðjustefnu sem var hér við lýði fyrir hrun. Það er e.t.v. erfitt að sporna við fótum en við erum nokkur sem höfum ákveðið að freista þess með undirskriftarsöfnun sem nú er farin af stað inni á kjosa.is
Þessi undirskriftarsöfnun gengur undir yfirskriftinni: Lífeyrissparnaður okkar má ekki fara í áhættufjárfestingar! Í yfirlýsingu hennar segir m.a:
Við undirritaðir sjóðsfélagar í lífeyrissjóðunum skorum á ríkisstjórn Íslands að hverfa þegar frá þeirri hugmynd stöðugleikasáttmálans að nota skylduframlag okkar til fjármögnunar fyrirhugaðar uppbyggingar vegum og stóriðju. Slíkar framkvæmdir hafa ekki sýnt sig í að skila miklum raunverulegum verðmætum til þjóðarbúsins. Þess vegna er umtalsverð hætta á því að lífeyrissjóðeign okkar skerðist enn frekar en orðið er.
[...]
Auk þessa drögum við undirrituð það mjög í efa að sama hugsun og kom efnahag landsins í þann vanda sem hann er í núna dugi honum til uppbyggingar. Við viljum því mótmæla því að sparnaðurinn sem við höfum lagt frá til eftirlaunaáranna verði lánaður til svo vafasamrar atvinnuuppbyggingar eins og verkefnalisti aðgerðaráætlunar stöðugleikasáttmálans gerir ráð fyrir.
ASÍ lýsir áhyggjum af sköttum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |