Hversu lengi getum við setið hjá aðgerðarlaus?
6.12.2009 | 16:51
Ég ætla alls ekki að gera lítið úr baráttu þeirra sem hafa lagt allt sitt í það að finna skynsamlegar leiðir í því ástandi sem blasir við íslensku þjóðinni í dag en það er ljóst að það er ekki nóg að gert. Við erum enn í sömu sporunum og við hrun bankanna haustið 2008. Miðar heldur aftur á bak en áfram. Það þarft því eitthvað meira til að knýja hér fram einhverjar breytingar og skapa lífvænlega framtíð.
Ég er á því að það eina sem dugi sé alvöru bylting. Ég sá það á Facebook á dögunum að þar var stungið upp á garðáhaldabylgingu. Mér finnst hugmyndin ekki fráleit en sú bylting má ekki fara á sama veg og sú sem var kennd við búsáhöld. Við verðum að setja fram skýrar kröfur. Átta okkur á því hverju við viljum breyta og hvernig.
Ég held að það væri skynsamlegt að við skipuðum okkur fulltrúa og hef reyndar nokkra í huga sem ég ætla ekki að nefna að svo komnu máli. Hins vegar ætla ég að setja fram hugmyndir að því hvaða kröfur við ættum að setja fram:
- Fáum alþjóðalögreglu og sérfræðinga á sviði efnahagsbrota í lið með okkur til að rannsaka bankahrundið og aðdraganda þess.
- Gerum það að kröfu okkar að gerendurnir í hruni landsins verði sakfelldir nú þegar.
- Krefjumst þess að þeir víki skilyrðislaust úr þeim ábyrgðarstöðum sem þeir gegna nú.
- Förum fram á það að þingmenn og ráðherrar verði þar ekki undanskildir.
- Skipum nefnd sem fer yfir hæfni og feril þeirra sem fylla stöður þeirra.
- Krefjumst þess að slík nefnd verði lögbundin svo og það hlutverk hennar að fara yfir hæfni og feril allra sem sækjast eftir opinberum embættum svo og því að gegna formennsku stofanana og félaga er varða þjóðarhag. Hér er t.d. átt við formenn verkalýðsfélaga, yfirmenn banka og tryggingarfélaga, eigendur fjölmiðla o.s.frv.
- Förum fram á það að það verði farið rækilega yfir starfslýsingar og siðareglur opinberra starfsmanna svo og forstjóra og framkvæmdarstjóra stofnanna og félaga sem varða þjóðarhag.
- Förum fram á að það verði tryggt að fjölmiðlar í eigu ríkisins þjóni almenningi en ekki sitjandi valdhöfum.
- Gerum það að kröfu okkar að óháðir sérfræðingar verði fengnir til landsins til að meta efnahagsstöðu þjóðarbúsins.
- Krefjumst þess að sérstakur dómstóll verði skipaður til að dæma í málum gerenda hrunsins.
- Skipum nefnd til að fara yfir hæfni og feril þeirra dómara sem taka þar sæti.
- Krefjumst þess að horfið verði frá því að lífeyrissparnaður landsmanna verði bundinn í virkjana- og stóriðjuframkvæmdir en þess í stað verði hluti þeirra settur í að byggja upp matvælaframleiðslu og aðra atvinnustarfsemi sem stuðli að því að við verðum sjálfbær.
- Förum fram á stjórnlagaþing.
- Krefjumst þess að fulltrúar okkar fái sæti þar.
- Gerum það að kröfu okkar að það verði í alvöru farið í það að stokka upp stjórnsýslukerfið.
Ég gæti haldið áfram en læt hér staðar numið í bili...
Ef vel á að takast þurfum við að skipa sérstakt byltingarráð. Það má vera að við verðum að skipuleggja allsherjarverkfall, kannski líkt og kvennafrídaginn á áttunda áratugnum, nema ég held að einn dagur dugi okkur alls ekki. Það væri nær að gera ráð fyrir viku. Ég geri það að tillögu minni að allir landsmenn leggðu niður vinnu og söfnuðust saman á Austurvelli og freistuðu þess að snúa dæminu við. Ég held því miður að það sé okkar eina von.
Að öðrum kosti fjölgar þeim enn frekar sem missa vinnuna, verða gjaldþrota og láta sig hverfa...
Finnst ykkur ég róttæk og grimm? Mér finnst það sem okkur, þjóðinni, er boðið upp á af valdhöfunum svo fullkomlega siðlaust og grimmt að ég sé ekki annað en við neyðust til að grípa í taumana!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mikið rosalega er ég sammála þér. Það verður að gera eitthvað.
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 6.12.2009 kl. 17:28
Það eru sennilega margir þó ég sé ekki viss um að þeir séu allir tilbúnir til að viðurkenna það fyrir sjálfum sér, hvað þá öðrum. Mér þykir þess vegna sérstaklega vænt um innlitskvittunina þína
Auðvitað vona ég að sú bylting sem ég tel nauðsynlega til að fá einhverju breytt geti farið friðsamlega fram. Að það dugi til að við tökum okkur stöðu á Austurvelli eins lengi og þarf og minnum á okkur. Að við fáum áheyrn fyrir fulltrúa sem við höfum skipað til að birta kröfur okkar. Að á þær verði hlustað og eftir þeim farið.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.12.2009 kl. 17:47
Heyr, heyr.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.12.2009 kl. 01:31
Það fyrsta sem ég myndi gera, af aflokinni flauelsbyltingu - væri, að gera húsleit hjá öllum stjórnmálaflokkum, og öllum stjórnmálamönnum, er voru á þingi á síðastu 3. kjörtímabilum.
Ég held, að þetta hafi forgang nr. 1.
En, mín skoðun er að fyrst af öllu, þurfi að losa okkur við þá stjórnmálamenn, sem sennilega eru sekir persónulega, um glæpsamlegt athæfi. Höfum einnig í huga, að slík rannsókn þjónar einnig hagsmunum þeirra, sem ekki eru sekir á meðal stjórnmálamanna, því þá eru þeir ekki lengur undir grun.
--------------------------------------
Forgangur 2., sé frysting allra eigna fyrrym eigenda bankanna. Þessi frysting sé ekki eignaupptaka, og ef e-h hafi börn á framfæri hérlendis, þá hafi fjölskyldan enn aðgang að peningum af reikningi í innlendri bankastofnun, svo fjölskyldan líði ekki raunverulegan skort- gæði miðast við tiltekna úttektarheimild á mánuði.
Því miður, getum við ekki leikið sama leik, með eignir þeirra erlendis. Ekki, er heldur hægt að handtaka þá, nema skv. dómsúrskurði. Ekki er heldur hægt að setja lög um slíkt, því hæstiréttur myndi fella þau úr gildi. Þannig, að þeir munu enn ganga lausir, en án þess að hafa aðgang að eignum eða bankareikningum hérlendis, nema í tilviki þ.s. um íbúðahúsnæði væri að ræða er fjölskylda byggi í.
Vandi með eignir erlendis, er að eignaupptaka getur einungis farið fram, með samþykki stjórnvalda þess ríkis.
------------------------------
Forgangur 3., er að bjóða breskum og hollenskum rannsakendum, sama aðgang að öllum gögnum um hugsanlega refiverða starfsemi okkar bankamanna, og okkar eigin rannsakendur fá.
Einnig, finnst mér koma til greina, að setja lög um sérstakann dómstól, er myndi dæma um mál þessara aðila. En, skoða þarf þá hvort þ.sé hægt. En, hugsa mætti, að dómarar frá Hollandi og Bretlandi, myndu sytja í dómi ásamt íslenskum. Jafmvel kæmi til greina, að stjórnmálamenn er tengjast þessum málum, væri dæmdir af þessum dómstóli. <Hugsanlegt, er að þetta krefjist stjórnarskrárbreytingar>
Nauðsynlegt er að stórauka, samstarf við breska og hollenska rannsóknaraðila, og einnig að gera allt sem hægt er, til að sannfæra stjórnvöld þessara ríkja, um að okkur sé fullkomin alvara um, að koma í veg fyrir að svona lagað geti endurtekið sig.
Ein leið til þessa, er einmitt 100% samstarf + hugsanlegur sameiginlegur dómstóll.
Ef til vill besta leiðin, til að bæta samskiptin við þessi ríki.
--------------------------------------
Forgangur 4, að koma á fót raunverulegu þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulagi.
Ég held, að slíkt fyrirkomulag að Svissneskri fyrirmynd, væri það öflugasta einstaka, sem hægt væri að gera, til að almenningur geti slegið á puttana á okkar stjórnmálamönnum, þegar þess er þörf.
Því, engin leið er til að útrýma frændsemis- eða hagsmuna-pólitík, í svona litlu landi. En, með því að koma á slíku þjóðaratkvæðagreiðslufyrirkomulagi, gæti þjóðin sjálf gripið inn í, og þannig leyst hnútinn.
Þetta gæti verið öflugasta einstaka leiðin, til að minnka þann galla - sem fullkomlega örugg áframhaldandi tilvist frændsemi- sem og hagsmunapólitíkur væri. En, verum raunsæ, þannig verður það áfram.
En, með slíku fyrirkomulagi, getur þjóðin sjálf, tryggt að ekki fari mál fram úr því hófi, sem hún sætti sig ekki við.
----------------------------------------
Forgangur 5, er síðan að vinna úr okkar efnahagsmálum, eftir að ríkið verður greiðsluþrota - en, slík bylting getur vart orðið fyrr. En, miðaða við núverandi stöðu skuldamála, er greiðslurot nær fullkomlega öruggt, að mínu mati.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 16.12.2009 kl. 01:22
Einar, þakka þér þitt vandlega hugsaða og skynsamlega innlegg!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.12.2009 kl. 13:50
Tek undir hvert orð. Væri jafnvel tilbúin til að bjóða mig fram í byltingarráðið ef það er ekki of frekt af mér!
kv, ari
Arinbjörn Kúld, 16.12.2009 kl. 21:42
Nei, alls ekki!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.12.2009 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.