Hættum að láta hræða okkur til hlýðni við úreltan hugsunarhátt!
14.11.2009 | 21:47
Það er undarleg tilfinning að finna sig eina í fjöldanum. Sumir segja reyndar að maður finni hvergi átakanlegar fyrir einmannaleikanum en í ókunnugu mannhafi. Ég er hins vegar ekki að tala um einmannaleikann. Ég er að tala um það að finna sig róa eina á móti straumum. Ég veit hins vegar að ég er langt frá því að vera ein því við erum mörg í sama bátnum og reynum hvað við getum að róa á móti hinum öfluga flaumi sem er við að stríða.
Það eru nefnilega margir sem hafa verið að vakna til samfélagslegrar meðvitundar á undanförnu ári og ég efast ekki um að þeir sem stóðu einir fyrir þann tíma fagna liðsaukanum. Þeir sem hafa komist upp með að stjórna innanlandsmálum og samskiptum Íslands við önnur lönd standa hins vegar fastir fyrir án þess að láta á sér finna neinn bilbug. Það lítur a.m.k. þannig út við fyrstu skoðun en ef vandlegar er rýnt ofan í athafnir þeirra og orð þá má vissulega greina þar nokkurn ugg.
Ótti þeirra kemur fram í ósvífninni og orðavalinu. Sá sem er vanur að stjórna og komast upp með það sem hann vill beitir gjarnan fyrir sig herkænsku ljónsins ef hann er áreittur. Hann öskrar og gerir sig illilegan. Önnur aðferð er að leika fórnarlamb. Kalla fram samúð. Við erum búin að horfa upp á þetta allt saman frá síðastliðnu hausti. M.a.s. Ingibjörg Sólrún hvæsti framan í fundargesti, sem frægt er orðið og sagði að þeir væru ekki þjóðin!
Það skelfilegasta er að alltof stór hluti þjóðarinnar er viðkvæmur fyrir hvæsi embættismanna. Það virðist nefnilega vera inngróið í meiri hluta þjóðarinnar einhver botnlaus tiltrú og virðing á stjórnvöldum sem gengur svo langt að þeir eru tilbúnir til að horfa framhjá mistökum þeirra og kenna sjálfum sér um. Þannig heyrir maður nærri daglega klisjuna um það að við berum líka ábyrgð! Við kusum þetta yfir okkur ár eftir ár. Hvers eiga þeir að gjalda sem kusu ekki þá sem fengu meiri hluta í alþingiskosningum undangengna áratugi?
Svo er það klisjan um það að við, öll þjóðin, höfum tekið þátt í sukkinu! Hvaða sukki? Að koma okkur þaki yfir höfuðið. Ég keypti t.d. u.þ.b. 90 fermetra blokkaríbúð yfir mína þriggja manna fölskyldu fyrir rúmum tuttugu árum. Ég hef alltaf verið í skilum. Þ.e. borgað á gjalddaga en nú eru eftirstöðvarnar í fyrsta skipti orðnar nær jafnháar verðmæti húseignarinnar. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þessi staðreynd er afleiðingar af sukki en ég tók ekki þátt í því. Það var einhver allt annar sem mér kemur ekkert við sem var hrókurinn þar!
Sumir eru líka svo helteknir af samúðarkomplexum að þeir eru tilbúnir til að afsaka mistök Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar vegna veikinda þeirra. Gott og vel þau áttu við veikindi að stríða og eiga vitanlega fulla samúð mína fyrir það en það firrir þau ekki ábyrgðinni því hvað gerir skynsamt fólk þegar það er veikt? Tekur það sér ekki frí frá vinnu og sinnir heilsu sinni?
Ég spyr mig líka hvort og hvernig er hægt að treysta forsjá einstaklinga sem taka ekki einu sinni ábyrgð á eigin heilsu? En þau tvö drógu sig að lokum í hlé frá stjórnmálum þó þau hefðu bæði mátt gera það miklu fyrr og með öðrum hætti. Frá mínum bæjardyrum séð skulda þau okkur öllum líka fyrirgefningu! En þau sitja ekki lengur við stjórnvölinn þannig að ég ætla ekki að ræða frekar um það sem að þeim snýr.
Ég ætla að ræða um nútímann sem er reyndar í aðalatriðum sá sami eða það sama og stefndi í á meðan þau tvö stýrðu þjóðarskútunni. Nú er komið nýtt stjórnarpar en því miður troða þau í sömu slóð og þau stjórnvöld sem sátu á undan þeim.
Það er kannski ekki nema von að það sjái engan mun á þessu nýja tvíeyki og því fyrra ef meirihluti þingmanna er orðinn einhverjir snatar fjársterkra hagsmunasamtaka sem nota peningavaldið til að ata þeim áfram í að koma árum sínum betur fyrir en annarra.
Það er e.t.v. kunnara en frá því þurfi að segja að stjórnmálamennirnir okkar eru undir ægiþrýstingi bæði frá einstaklingum innan embættismanna- og fjármagnselítunnar. Við þurfum ekki annað en að fylgjast með fjölmiðlum til að átta okkur á því að það er aldrei hinn almenni kjósandi sem fær tækifæri til að segja sína skoðun á gjörðum ríkisstjórnarinnar og ráðherra hennar.
Það eru þriflegir, jakafataklæddir karlar sem bera tiltla sem byrja flestir á effi og þeir vanda þeim ekki kveðjurnar! Sumir taka sér m.a.s. þann rétt að þykjast vera að verja hagsmuni almennings! Ég held að flestir séu farnir að sjá í gegnum þann skrípaleik enda það sem þeir segja okkar hagsmuni oftar en ekki víðsfjarri því sem við könnumst við að heyri undir þá. A.m.k. yfirleitt ekki það sem við myndum setja á oddinn ef við værum spurð. En það er annað sem vekur sérstaka athygli í málflutningi þessarar F-terelínbræðralags... það er nefnilega engu líkara en þessi öskur og óhemjgangur sem þeir beita fyrir sig sé orðinn viðurkenndur samskiptamáti og stjórnunaraðferðir innan þeirrar klíku sem hér fer með völd.
Stundum hallast ég reyndar að því að þetta sé eingöngu sjónarspil því þegar grannt er skoðað þá vinna allir þeir sem hér fara með völd í krafti embættis og/eða peninga að því sama. Það er að bjarga sjálfum sér á kostnað almennings! Verst að sumir meðal almennings hafa fallið fyrir áróðurshernaði þeirra um varðandi framtíðarsýn þeirra sem felst m.a. í álversvæðingunni.
Það voru vissulega einhverjir sem græddu á Kárahnjúkavirkjuninni og byggingu álversins á Reyðarfirði en það var ekki samfélagið í heild. Sumir vilja m.a.s. meina að þessar framkvæmdir séu ein rót hrunsins en nú vilja þeir sem græddu fá meira af slíku. Þá vantar reyndar fjármagn en þeir eru búnir að koma auga á hvar það er að finna...
Þetta er lífeyrissparnaður landsmanna! Það er ekki nóg með að þeir sem hafa komist upp með að ráða finnist sjálfsagt að almenningur borgi fyrir afglöp þeirra heldur á að hætta sparnaði almennings sem á að framfleyta honum í ellinni í næsta sukk! Þeir hafa ekki einu sinni hugmyndaflug til að láta sér detta neitt frumlegra í hug en áframhaldandi virkjana- og álversframkvæmdir.
Þeir skella skollaeyrum við þeim staðreyndum að þessi atvinnuuppbygging skilar aðeins mjög þröngum hópi atvinnu í mjög takmarkaðan tíma... en hvað svo? Ég held að það sé ekki einu sinni kaldhæðni að halda því fram að þeir sem eru haldnir þessari firru í sambandi við það hvernig skal staðið að endurreisn efnahags landsins hugsi ekki einu sinni svo langt!
Ég segi fyrir mig að mér óar við einsleitninni sem kemur fram í hugmyndum þeirra sem hér fara með völd hvað varðar uppbyggingu og viðurreisn. Mér finnst þær nefnilega bera vitni um rótgróið afturhaldi og gengdarlaust niðurrif.
Það má vera að einhver geti talið sér trú um að það eina sem geti orðið landi og þjóð til bjargar sé það að þjóðin taki á sig allan skellinn af óráðsíu fjármagnseigenda og - stofnana. Það má vera að þessir sjái ekkert annað í stöðunni en að almenningur fórni líka skyldusparnaði sínum sem hann átti að hafa til ráðstöfunar þegar hann verður skikkaður til að víkja af atvinnumarkaðinum vegna aldurs. I mínum augum ber þessi afstaða þó helst vitni botnlausri heimsku!
Ef stjórnvöld treysta sér ekki til að taka á þeim sem settu efnahag landsins á hliðina þurfa þeir utanaðkomandi hjálp! Nema þeir vilji sjálfir borga fyrir sukk óreiðumannanna sem þeir ólu eins og nöðrur við brjóst sér. Það er nenfilega óverjandi að almenningur þurfi að taka á sig afleiðingarnar af gjörðum þessara oföldu græðgisdóna ekki síst þegar það er tekið með í reikninginn að honum var haldið í fullkominni blekkingu sem kom best fram í því að í nýafstöðnu óðæri þar sem þessir græðgispostular réðu ríkjum var því allan tímann haldið að þjóðinni að hér ríkti góðæri!!
Það verður seint sem ég hef talað mig út um þau atriði sem ég hef drepið á hér að ofan en læt hér staðar numið í bili. Hins vegar er vel við hæfi að enda þetta að þessu sinni á tilvitnun í einn þjóðfundargesta sem sat þjóðfundinn sem haldinn var í dag: Eftir að hafa setið fundinn í dag þá er eitt ljóst í mínum huga: Það er ekkert að íslensku þjóðinni, hún er frábær! Það er stjórnkerfið sem gerir okkur ókleift að taka til og byggja hér mannsæmandi þjóðfélag. Því verður að breyta. (Sjá hér)
Viðbót:
Bæti við tenglum í tvær greinar Sigmundar Einarssonar, jarðfræðings, sem hann birti nýlega á Smugunni. Sú fyrri heitir Hinar miklu orkulindir Íslands og hin Er HS-orka í krísu í Krýsuvík?
Sjá líka þessa frétt um orkufyrirtækið Magna sem nýlega eignaðist hlut í HS-orku.
Ég gæti sennilega haldið endalaust áfram að krækja í fréttir og greinar sem rökstyðja það að núverandi hugmyndir þeirra sem ráða í dag eru ekki aðeins úreltar heldur beinlínis hættulegar afkomu og framtíð lands og þjóðar!
Fólk logandi af áhuga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:49 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er sköruleg færsla Rakel og engin geigur í þeir.
Þótt ýmislegt í texta frá fundinum sé vanbúið vegna tímaleysis, og einstaka bloggari hafi gert sér til gamans að grínast með náttúrulega og eðlilega tillögu til viðhalds þjóðinni, að þá er það afrek eitt út af fyrir sig að halda fundinum í formlegum skorðum og ramma.
Að hafa hvatt upp 1200 manns án þess að viðkomandi þjóðþingsfulltrúar hafi fyrir fundinn haft nokkurt samband eða tengsl, er þjóðarafrek.
Mér hefur oft verið það ráðgáta hvernig Sturlungar á fyrri tíð söfnuðu liðsafla með stuttum fyrirvara.
Skýringarnar geta verið margskonar, en ein getur verið eins og í þessu tilfelli, að málefnið sé brýnt.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 14.11.2009 kl. 22:29
Ég tek undir það með þér að þjóðfundurinn er jákvætt framtak. Ég ætla að halda mig við það þó ég hafi rekist á einhverja gagnrýni á ýmislegt sem varðar fundinn og geti tekið undir sumt af því. Mér finnst framtakið hins vegar gott og vona að útkoman skili einhverju jákvæðu fyrir framtíð lands og þjóðar. Það er á valdi tímans að leiða það í ljós!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.11.2009 kl. 22:46
Ég er svo sammála þér, ég held að flestir stjórnmálamenn séu snatar fjármálamanna. Þeir þora ekki að rugga bátinum, þeir gætu sjálfir dottið útbyrðis.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.11.2009 kl. 01:00
Spurning hvað almenningur ætlar að líða þessa forgangsröðun lengi áfram?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.11.2009 kl. 21:14
Algerlega sammála.
Kv, ari
Arinbjörn Kúld, 16.11.2009 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.