Fjölmiðlar geta ekki skorast undan ábyrgðinni!

NútímafjölmiðlunÉg hef hugsað svo margt að undanförnu að það er engu líkara en í höfðinu á mér geisi ægistormur. Einhverra hluta vegna hef ég ekki treyst mér til að koma þessum hugsunum mínum niður á blað eins og ég var svo iðin við síðastliðinn vetur.

Ástæðan er e.t.v sú að margt af því sem ég hef verið að hugsa sagði ég þá þannig að það sem ég skrifa nú hljómar að einhverju leyti eins og endurtekning þess eða bergmál. Sumt er ekki tímabært að segja enn. A.m.k. er það afsökun mín fyrir því að opinbera ekki þær hugsanir sem þetta á við um að svo stöddu.

Þriðja ástæðan er sú að það sem ég er að hugsa liggur greinilega svo ofarlega í hugum margra annarra að ég hef litlu við það að bæta. Eitt þessara tilefna sem hafa vakið mig til umhugsunar eru íslenskir fjölmiðlar, þróun þeirra í víðasta samhengi eins og það sem varðar eignarhald, fréttamat og siðferði en síðast ekki síst starf blaðamannsins.

Enginn efast lengur um áhrifamátt fjölmiðla sem kemur ekki síst fram í því að menn keppast um eignarhald á elstu og rótgrónustu fjölmiðlum landsins. Skiptir þar engu þó þeir séu á hvínandi kúpunni samkvæmt rekstrarbókhaldinu. Það allra sorglegasta í þessu sambandi er að þjóðin á ríkisrekinn fjölmiðil sem ætti að flytja okkur ómengaðar fréttir en hann gerir það ekki enda er hann undir sterku flokkspólitísku áhrifavaldi þó flokkspólitískt skipað útvarpsráð heyri nú sögunni til.

Blaðamennska er ung starfsgrein á Íslandi og eins og í svo mörgu öðru hér á landi þá hefur sú trú lengst af ríkt að blaðamennska sé meðfæddur hæfileiki sem eigi ekkert erindi á skólabekk. Geti í versta falli skaðast frammi fyrir æðri menntun. Þess vegna hefur íslensk blaðamannastétt alla tíð verið mjög illa menntuð á sviði fjölmiðlunar þó vissulega hafi þar verið einn og einn með prófgráður í faginu upp á vasann. Ég hef ekki yfirlit yfir það hve margir núverandi fjölmiðlamenn eru menntaðir á fjölmiðlunar enda er það kannski ekki meginvandi stéttarinnar í dag heldur hitt hvernig þeir líta á hlutverk sitt eða öllu heldur hvaða viðhorf ríkja til starfans innan fjölmiðlaheimsins.

Ég er nokkuð viss um að allir blaðamenn sem vinna að fréttum og öðru fréttatengdu efni vilja vinna vel og heiðarlega en þeir búa fæstir við það starfsumhverfi að geta sinnt starfi sínu samkvæmt því. Ég hef sannfrétt að sumir sem starfi inni á fjölmiðlum fái þær athugasemdir frá almenningi hvernig þeir nenni að vera að tala um þessa kreppu endalaust? Af hverju þeir segi ekki frá einhverju skemmtilegra?

Einhverjir hafa líka sagt mér að þeim líði eins og þeir séu staddir í miðjum drullupolli sem þeim sé meinað að hreyfa við. Þeir hafi einungis tök á að hreyfa við yfirborðinu en fái á baukinn ef þeir reyna að kafa dýpra. Ekki bara frá almenningi sem vill ekki þessar endalausu „neikvæðu“ fréttir heldur miklu heldur frá þeim sem fréttirnar varðar og líka frá þeim sem stýra viðkomandi fjölmiðli.

Almenningur er markaðstækifæriHvað er þá eftir? Hvað mega blaðamenn skrifa um? Það hefur verið viðkvæðið meðal þeirra sem stýra fjölmiðlunum að almenningur vilji afþreyingu. Ég vil meina að þetta viðhorf komi best fram í því sem ég hef gjarnan kallað fávitavæðinguna sem fjölmiðlar selja svo grimmt. Ég ætla að nefna örfá dæmi:

Í stað þess að birta vandaðar frétta- skýringar um tengslanet fjármangs- eigenda og stjórnarformanna í félögum sem eiga að starfa í almannaþágu eins og bönkum, lífeyrissjóðum og vátrygginga- félögum þá fáum við fréttir af því að kynlífs- myndbandi einhvers smástirnisins fyrir vestan haf hafi verið lekið inn á Netið. Í stað vandaðs yfirlits um þau áhrif sem aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur haft á efnahag þjóðanna sem sjóðurinn hefur lánað fáum við fréttir af því að einhverjir ofmetnustu skemmtikraftar í íslenskri sjónvarpssögu hafi sætt kú.

Svona mætti telja út í það endalausa en niðurstaðan er sú að íslensk fjölmiðlun er í djúpri kreppu ekki síður en efnahagur landsins. Það sem er alvarlegast í þessu öllu er sú staðreynd að á meðan fjölmiðlunum er haldið í þessum helgreipum þá situr almenningur áfram í sinni örvæntingarlægð frammi fyrir spurningunum um það hvaða afleiðingar það sem átti sér stað fyrir hrun og það sem hefur gerst síðan muni hafa áhrif á framtíð hans og þjóðarinnar í heild.

Miðað við misvísandi fréttir fjölmiða þá getur almenningur velst á milli örvæntingarinnar frammi fyrir því að hér sé allt að fara til helvítis og trúarinnar á því að þetta „muni allt reddast einhvern daginn“. Í stað þess að fjölmiðlar sýni metnað í því að vinna fréttir og birta mismunandi sjónarhorn í einni og sömu fréttinni þá birta þeir beinar endursagnir hafðar eftir „besservisserum“ úr völdum kimum samfélagsins.

Flestir tilheyra því sem ég vil kalla spillingarsamfélaginu en þeim ber ekki einu sinni saman þannig að ég hallast stundum að því að misvísandi skilaboð séu markmiðið til að halda almenningi í þeirri óþægilegu stöðu að geta ekki myndað sér skoðun og þar af leiðandi að vera ófæran um að taka afstöðu og bregðast við. Þessu ástandi leyfa fjölmiðlar að viðgangast!

Upplýsingin er lykilinn að því að almenningur geti brugðist við, tekið upplýstar ákvarðanir. Þögnin heldur almenningi hins vegar í föstum skorðum aðgerðarleysisins. Það gefur því auga leið að ábyrgð fjölmiðlanna á því sofandalega ástandi sem nú ríkir víðast hvar í samfélaginu er gífurleg!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það er staðreynd að fjölmiðlarnir á Íslandi eru ekki frjálsir, ekki einu sinni RÚV sem er samkvæmt auglýsingum í dag í eigu rúmlega 319.000 manna.  Ekki einu sinni RÚV er hlutlaust, það styður greinilega stjórnina og inngöngu í ESB miðað við áróðurinn þar, Fréttablaðið og Bylgjan eru á svipaðri línu.  DV virðist eitt "skúbba" smá í spillingarmálum.  Það er ólíðandi að það hafa verið ráðnir 40 einstaklingar í stjórnsýslunni án auglýsinga undanfarna mánuði.  Ég er ennþá í raðáfallastreituröskuninni :) 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.11.2009 kl. 01:00

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er rétt sem þú segir um DV.

Það hefur verið furðulegt að hlusta á umræður fólks að undanförnu um í fjölmiðlana einkum hverjum þeir treysta og hverjum ekki. Það er samt enn undarlegra að fylgjast með eignatilfærslunum á fjölmiðlunum sjálfum.

Miðað við stöðu fjölmiðlanna í dag þá munu þeir ekki duga okkur til að bjarga okkur út úr raðáfallastreituröskuninni heldur þvert á móti halda henni við!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.11.2009 kl. 01:08

3 Smámynd: Lýður Árnason

Sælar stelpur.  Eini sjénsinn til breytinga er að fá fólk beint af fjöllum inn á þing, fólk sem þekkir ekkert til spillingarrangala fjórflokkanna og kann ekkert í hrossakaupapólitík.  Þessum möguleika halda fjölmiðlar skipulega frá og því erfitt um vik.  Samt held ég að samstilltur hópur sem lætur hugsjónir sínar ekki falar gæti gert kraftaverk.  Og hugsjónin þarf ekki að vera nema ein:  Samtryggingu, hagsmunapot og spillingu burt.

Lýður Árnason, 11.11.2009 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband