Uns þögnin ein...

Alltaf þegar maður heldur að lengra niður úr botninum verði ekki komist þá verður eitthvað til að færa manni heim sanninn um að þær hörmungar sem íslenska þjóðin þarf að þola þessa dagana eiga sér engin takmörk.

Hörmungarnar sem ræna okkur eðlilegri sálarró og lífshamingju þessa daga skella ekki aðeins yfir okkur í formi frétta af gróðafíkn ýmissa embættismanna í fjármálageiranum og innan stjórnsýslunnar heldur orka þær sem berast innan af stjórnarheimilinu sjálfu ekki síður þannig á sálarlífið að mann setur hreinlega hljóðan.

Þar er af nógu að taka en það sem hefur valdið mér hvað mestum heilabrotum er sú umpólum sem mér þykir hafa orðið á þeim einstaklingum sem eru mest áberandi í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi. Ég stóð nefnilega eitt sinn í þeirri meiningu að þau tvö stjórnuðust af heiðarleika og réttlætiskennd.

Þessir eiginleikar virðast þeim báðum gersamlega horfnir nú. Í þeirra stað hefur Jóhanna sett upp þyrkingslega járngrímu sér til varnar og svarar öllu af yfirlætisfullum þótta. Á meðan má kannski segja að Steingrímur reyni, a.m.k. einstaka sinnum, en lítur þó út eins og vansvefta úlfur í sjálfheldu.

Tilefni þessara skrifa minna er reyndar annað en áhyggjur mínar af þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Tilefnið eru skrif einnar flokkssystur Jóhönnu Sigurðardóttur sem gerðu mig reyndar svo reiða að ég var nærri því froðufellandi hérna á tímabili. Ekki það að ég telji að margir hafi áhyggjur af því hvort eða hvernig ég reiðist en mig langar samt að taka það fram að ég reiðist mjög sjaldan og það heyrir til algerra undantekninga að ég verði illa reið.

Flokkssystur Jóhönnu tókst hins vegar að gera mig alveg fjúkandi vonda með þessum skrifum sínum hér. Bloggfærslan hennar sem ég vísa í ber heitið: Þjóðinni hollt að taka á sig skuldbindingar vegna Icesave? Til að svara þessu vitnar hún í niðurstöðu prófessors í heimspeki við Háskólann á Akureyri sem hann opinberaði í Silfri Egils núna síðasta sunnudag.

Niðurstaða prófesssorsins, sem þessi efnilega samfylkingarkona hefur eftir honum og tekur svo undir á blogginu sínu, er eftirfarandi:

Það er siðferðilega hollt fyrir íslenska þjóð að taka á sig Icesave skuldbindingarnar. Þar með tekur almenningur þátt í því að þrífa til eftir hrunið og leggja drög að nýrri uppbyggingu. Þar með er einnig tryggt að þjóðin gleymir ekki því sem gerðist, a.m.k. ekki á meðan hún ber byrðarnar af því.

Ég treysti mér hreinlega ekki til að fjalla málefnalega um þetta ... þannig að ég ætla að láta það vera en benda á að þessi skrif þingkonunnar vöktu að vonum þó nokkur viðbrögð. Vegna hitans sem kom fram í sumum þeirra hefur þingkonan sennilega fundið sig nauðbeygða til að svara. Hún gerir það í nýrri færslu sem hún nefnir Siðferði og sálarstyrkur.

Ef það var von hennar að með þessu vekti hún eitthvað vinsamlegri viðbrögð en með færslunni á undan þá varð henni ekki að ósk sinni. Eitt innleggjanna við þessari seinni færslu vakti sérstaka athygli mína. Sennilega fyrst og fremst fyrir það að mér finnst svarið (sem Einar á) svo yfirvegað og fullkomlega laust við reiði.

Í raun svaraði Einar fyrir mig en ég gat það ekki sjálf því sársauki minn og reiði gerðu mig fullkomlega mállausa. Mér sýnist Einar reyndar svara þessum veruleikafirrta þingmanni fyrir hönd þjóðarinnar allrar. Þess vegna langar mig til að leggja mitt að mörkum við að vekja enn frekari athygli á þessum orðum hans: (Ég leyfði mér að setja inn myndir með textanum hans)

Björgunarstarf? Eitt máttu vita, Ólína, og það er það að einungis þinn flokkur og enginn annar ber ábyrgð á þeim þrældómi… þeirri ánauð… sem okkar bíður næstu áratugina þegar við þurfum að greiða tugi milljarða á ári hverju í vexti af Icesave skuldinni.

Þangað til Samfylkingin lemur VG til hlýðni, enn eina ferðina, á Alþingi og kúgar í gegn samþykkt á ríkisábyrgð á tryggingasjóði innistæðna, þá erum við frjáls þjóð. Bretar og Hollendingar geta látið öllum illum látum en samningsstaða okkar er góð - dómstólaleiðin er það síðasta sem þær þjóðir vilja því niðurstaðan yrði aldrei þeim í hag. En Bretar og Hollendingar vita hversu heitt Samfylkingin þráir ESB, líkt og fíkill þráir næsta skammt, og nota það óspart á flokkinn þinn.

Landinn seldur í ísþrældómÍ lok vikunnar, þegar Samfylkingin hefur lamið VG til undirgefni, þá verður Ísland komið í þrældóm. Sá þrældómur er eingöngu og alfarið til kominn vegna ákvarðana sem núverandi ríkisstjórn tekur - og hefur nákvæmlega ekkert að gera með hvað fyrri ríkisstjórnir hafa gert eða hvað einkaaðilar hafa gert.

Skuldir einkafyrirtækis eru aldrei skuldir skattgreiðenda, nema fulltrúar skattgreiðenda geri þær að skuldum þeirra. Og það geruð þið í Samfylkingunni nú. Ekki Sjálfstæðisflokkur. Ekki Framsóknarflokkur. Nei, þið geruð það. Enginn getur látið ríkið ábyrgjast þessa skuld nema þeir þingmenn sem í vikunni greiða með þessu frumvarpi.

Ólína - þitt atkvæði (og ég fullyrði að þú munt glöð greiða þessu frumvarpi atkvæði þitt því þú sérð kokkteilboðin í Brussel í hillingum) mun hneppa komandi kynslóðir í skuldafangelsi sem við munum aldrei komast út úr.

Ísland dauðadæmtÓlína! þú munt eiga nákvæmlega 1.5% hlut í því að Ísland leggst af. Flokkurinn þinn hefur nú þegar náðsamlegast leyft VG að hindra alla iðnþróun í landinu í ímynduðum skiptum fyrir að greiða götu Samfylkingarinnar í ESB vegferðinni - og nú munum við taka á okkur mörg hundruð milljarða skuld, í erlendri mynt, sem við munum aldrei nokkurn tíma geta greitt til baka.

Af hverju?

Jú, því þið í Samfylkingunni haldið að Bretar og Hollendingar muni vera rosalega sanngjarnir síðar meir þegar í ljós kemur sem allir vita í dag, að við getum ekki greitt þetta til baka.

Þú varst eitt sinn skólastjóri (sælla minninga) og hlýtur þá að þekkja sögu Breta og Hollendinga sem nýlenduherra. Samúð með hinum þjökuðu einkennir nú ekki beint þá sögu.

Ólína, þú munt eiga nákvæmlega 1.5% hlut í því að framselja landið og búta það niður í frumeindir.

Til að segja þér aðeins frá því hvernig þetta verður næstu árin, þá mun fyrst verða hér landflótti upp úr áramótum þegar skattlagningamartröð ykkar leggst yfir millistéttina og þurrkar hana út á nokkrum mánuðum. Þeir tugi þúsunda heimila sem í dag rétt skrimta (og halda hjólum atvinnulífsins gangandi) munu klára sinn sparnað á nokkrum mánuðum við það eitt að hafa í sig og á, og svo verður bilið óbrúanlegt.

SkuldahlekkirFjölskylda sem í dag hefur um 700þ í ráðstöfunartekjur, millistéttarfjölskyldan, mun greiða 150þ meira í skatta á mánuði og þar með eru allir sem hafa lán sem hafa hækkað og hækkað kikna og flýja land.

Og þetta djók sem þið komuð með sem “útspil til handa heimilum” er sniðug leið hjá ykkur til að hirða það sem fólk borgar minna af lánum og stinga í vasa ríkisins - það hjálpar engum neitt þegar þið farið að hækka skattana.

Þegar millistéttin verður horfin á næsta ári, annað hvort flúin land eða komin í botnlausa greiðsluerfiðleika, þá klárast tekjur ríkisins. Þá hækkið þið skatta enn meira þangað til ekkert verður eftir.

Og til hvers að hækka skatta? Jú, til að borga listamannalaun, til að borga fleiri milljarða til að “undirbúa” ESB umsókn, til að viðhalda gríðarlegri ríkis-yfirbyggingu.

Og til að borga vexti af Icesave skuldinni sem þið hafið stofnað til.

Þannig að ég vil, fyrir hönd komandi kynslóða, segja það við þig fullum fetum hér og nú, Ólína, að þú og þínir félagar á Alþingi, eruð um það bil að leggja hér landið í rúst og eyðileggja framtíð okkar.

Ísland holdlaust og karlægtOg það verður engum öðrum að kenna en þér og þeim sem greiða atkvæði eins og þú.

Þú munt örugglega mótmæla þessu, en innst inni veistu að þetta er satt. Þú veist, innst inni, þegar þú situr ein t.d. í bílnum og hugsar um málin, að þú ert að taka stærsta veðmál sögunnar. Þú ert að veðja á að þetta reddist allt eftir nokkur ár - einhvern veginn. Öllu er fórnandi til að eiga séns á að komast í ESB.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Höldum bara áfram að trúa á það góða, og leyfum þeim sem eiga að redda þessu að gera það þá bara. Það er langt síðan ég áttaði mig á því, að það skiptir í rauninni engu máli, hvað við erum að skrifa hérna. Það heyrist ekkert í gegn um þykka veggina í hinu "skelfilega" húsi, eins og Vilmundur heitinn lýsti Alþingishúsinu. Skil það núna hvað hann átti við.

oskar (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 23:17

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég hef reyndar aldrei vænst þess að þingmenn lesi bloggið mitt þannig að ég læt mig ekki dreyma um að hafa áhrif á þá með skrifum mínum. Mig langar miklu frekar til að vekja kjósendur þeirra til umhugsunar. Þó ég nái aðeins til örlítils brots þeirra með þessu bloggi þá held ég því úti um leið og þetta er kannski fyrst og fremst minn vettvangur til að skrifa mig í sátt.

Ég þakka þér fyrir að lesa svo og innleggið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.10.2009 kl. 00:28

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Veistu það Rakel, þú orðar það sem ég vil segja miklu betur en ég.  Ég er algjörlega sammála þér.  Nema kannski það að mér finnst Jóhanna vera eins og freðýsa í framan og Steingrímur svefngengill.  Ég ætla að setja link á þessa færslu á Facebook og á bloggið mitt. Ef ég má??? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.10.2009 kl. 00:45

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Auðvitað máttu það Svo er þetta með það hvernig við orðum hlutina... ég finn alltaf  til aðdáunar á þeim sem geta komið orðum að hlutunum í fáum orðum. Þér er það einkar lagið! Ekki mér

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.10.2009 kl. 01:13

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Stelpur í fáum orðum;"JÚ VÍST.

Helga Kristjánsdóttir, 21.10.2009 kl. 01:45

6 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Ég fékk hroll við að lesa svar Einars við bloggfærslu fröken hroka (Ólínu) því þetta er svo SATT sem hann segir. Svona verður framtíðin ef þessi ólánsstjórn fær sínu fram. Því miður.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 21.10.2009 kl. 02:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband