Látum þann sólgula gefa okkur rödd

Fáninn á FáskrúðsfirðiSaga fánans sem ég birti hér hefur breiðst víða en nú er sá sólguli farinn að dreifa sér sjálfur. Einn þeirra stakk sér niður á Fáskrúðs- firði í dag og blaktir nú vondjarfur við hún í garði Ástu Hafberg.

Ásta hefur t.d. sagt þetta um fánann: „[Hann] er samtöðu- og sameiningartákn þeirra sem finnst skipta máli hvernig farið verður með land og þjóð. Hann er óháður og ekki tengdur neinum félagasamtök- um, flokki eða stefnu. Hver og einn getur borið fánann fyrir sig og sínar skoðanir“

Fyrir þá sem hafa ekki enn kynnt sér sögu fánans þá er hér örstutt samantekt. Fáninn varð til sumarið 2007 og þá í tengslum við leiksýningu sem Kristján Ingimarsson setti upp á Akureyrarvöku. Síðan lagðist hann í dvala að mestu nema George Hollanders, leikfangasmiður, hélt honum á lofti. Síðastliðinn vetur var þessi fáni líka áberandi í mótmælunum hér á Akureyri.

Boðskapur verksins, sem Kristján setti upp á Akureyrarvöku 2007, á sér ríkan samhljóm í þeim hugmyndum sem hafa orðið áberandi víða í röðum mótmælenda og grasrótarhópa sem spruttu upp í kjölfar hrunsins sl. haust. Fáninn er tákn þess boðskapar sem er í aðalatriðum sá að það er mannkyninu nauðsynlegt að endurskoða þau gildi sem hafa verið í hávegum höfð á nýliðnum árum.

Það er því ekkert eðlilegra en við, sem erum óánægð með ómannúðlegt samfélag sem stjórnast af græðgi og firringu hennar, tökum þennan fána upp sem tákn fyrir óánægju okkar og óskarinnar um breytingar; ekki síst róttækrar hugarfars- breytingar. Við sem stöndum á bak við það að kynna fánann, sem samstöðutákn fyrir þennan hóp, höfum kallað hann nokkrum nöfnum eins og: þann sólgula og fána samstöðu og vonar.

Bílafáninn er flotturÞað síðarnefnda er heiti hans á  vefverslun Fánasmiðjunnar á Þórshöfn sem sér um prentun hans og dreifingu. Dreifing fánans byrjaði í þessari viku. Við Ásta Hafberg fengum fánana okkar með póstinum í dag. Ásta dreif stóra fánann sinn þegar upp í fánastöngina í garðinum sínum heima á Fáskrúðsfirði en ég prufukeyrði bílafánann minn nú í kvöld hérna á Akureyri.

Þegar við leituðum til Kristján Ingimarsson, höfundur fánans, hreifst hann svo að hugmyndum okkar að hann gaf okkur höfundarréttinn að honum. Af þessu tilefni sagði hann m.a. þetta:

Fyrir rúmum tveimur árum sáði ég fræi sem virðist ekki geta hætt að spíra. Nú viðrist þriðja uppskeran vera að koma fram. Hann virðist getað sáð sér sjálfur þessi fáni. Ef fífillinn getur orðið tákn þess að við stöndum saman sem hópur þá er rétta takmarkinu náð. 

Við Ásta erum með fleiri hugmyndir í sambandi við það hvernig við getum nýtt fífilinn til að sýna samstöðu okkar í viðspyrnunni gegn því sem fer fram á vettvangi stjórn- og fjármála. Okkur langar til að gefa öllum, sem eru óánægðir, tækifæri til að gera afstöðu sína sýnilega víðar en á skipulögðum mótmælum. Nú hafa mótmælin t.d. legið niðri um þó nokkurt skeið og svo er það staðreynd að það hafa alls ekki allir landsmenn tækifæri til að mæta á slíkar uppákomur þó þeir fegnir vildu.

Við höfum stofnað sérstakan vettvang inni á Facebook sem við köllum Viðspyrnu en hann viljum við nýta til að safna hugmyndum um það hvernig almenningur vítt og breitt um landið geti sameinast í því að spyrna á móti gengdarlausu óréttlæti sem þjóðinni er ætlað að bera þegjandi og hljóðalaust. Það er öllum velkomið að ganga í þann hóp og leggja inn hugmynd/-ir. 

En fyrst er það fáninn sem við vonum að muni dreifa sér um allt land og standa svo þétt að stjórnmála- og embættismenn þessa lands geti ekki lengur látið sem við séum ekki til. Við sem viljum sporna á móti ættum að nýta þetta tækifæri til að gera afstöðu okkar sýnilega bæði stjórnvöldum og fjölmiðlum. Fánar hvarvetna munu hafa þau áhrif að þeir geta ekki lengur leitt afstöðu okkar hjá sér.

Drögum þann sólgula að húni og látum hann tala máli okkar. Hann er þegar byrjaður á því í Eyjafirði, á Akureyri og Fáskrúðsfirði og sennilega víðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Um leið og ég á aur ætla ég að flagga þessum heima hjá mér. Sem stendur á ég hann ekki til.

, 26.9.2009 kl. 16:31

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gaman að heyra það Vona svo sannarlega að þeir verði fleri

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.9.2009 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband