Nú er áríðandi að standa fast í fæturna!

Barátta góðs og illsUndir lok síðasta árs skrifaði ég pistil sem ég nefndi Baráttu góðs og ills. Mér hefur oft síðan flogið sú hugmynd í hug þegar ég fylgist með því sem fram fer í kringum okkur.

Hvað er hræðsluáróður annað en aðferð hins illa? Hvað er andlegt ofbeldi annað en aðferð illra innrættra einstaklinga til að ná sínu fram sama hvað það kostar? Þessi aðferð virðist því miður vera orðin býsna algeng í samfélaginu og þykir m.a.s. sjálfsögð inni á Alþingi!

Nú er hræðsluáróðurinn enn einu sinni yfir stormviðrismörkum. Efniviðurinn er Icesave. Það er höfðað til ábyrgðarkenndar. Vakin upp sekt. Þeir sem halda ró sinni og benda á hina einföldu staðreynd að landið verði sligað af tröllvöxn- um skuldabagga ef samkomulagið verði að veruleika eru lokaðir af úti í hornum.

Hildarleikurinn er svo ósvífinn að mönnum er jafnvel stillt upp á forsíðum blaðanna sem ábyrgðarmönnum lífs eða dauða stjórnarinnar. Í því sambandi er rétt að benda á að það er engin ríkisstjórn svo dýrmæt að það réttlæti það að þjóðin taki á sig þann okursamning sem Icesave er! (Vitnað óbeint í orð Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Borgarahreyfingarinnar).

Ég hlustaði á fyrirlestur Ragnars Hall, hef setið á fundum þar sem meðlimir Indefence-hópsins hafa talað, lesið og hlustað á Jónanna tvo í fjölmiðlum. Lesið blogg skynsamra manna eins og Marinós G. Njálssonar, Frosta Sigurjónssonar og Haraldar Hanssonar og rætt við Þór Saari sem hafa allir fært fyrir því gild rök hvurslags óráð Icesave-samkomulagið er í núverandi mynd.

Í mínum huga er dæmið ekki flóknara en það að ég neita að borga skuld sem ég stofnaði ekki til! Ég geri mér þó grein fyrir því að ég sem meðlimur í íslensku þjóðfélagi þarf að taka einhvers konar ábyrgð. En á meðan sumir sleppa við óvéfengjanlega ábyrgð á því að koma þjóðinni í þau spor, sem hún stendur í núna gagnvart þeim skuldum sem Icesave-samningurinn snýst um, þá reynist mér það ógerlegt að taka á mig annan eins okurlánasamning og þann sem hér um ræðir! Og lái mér það hver sem vill!!

Samningurinn í núverandi mynd er nauðungarsamningur, saminn annars vegar af herrum þjóða sem eru vanir því að beygja lítilmangann undir sinn vilja og hins vegar af íslenskum fulltrúum sem höfðu ekki til þess neina burði að koma að þessu samkomulagi. Samningurinn sjálfur er besti vitnisburðurinn um það!
Peningarnir vaxa ekki á trjánum
Ég vona svo sannarlega að Ögmundur Jónasson láti ekki beyjga sig með því stormviðri hræðslu- áróðurins sem á honum dynur þessar klukku- stundirnar heldur standi með sinni heilbrigðu skynsemi og réttlætinu fyrir okkur; íslenska þjóð. Við vitum það öll að peningarnir taka ekkert upp á því að vaxa á trjánum á næstu sjö árum. Okkur grunar það mörgum að Icesave-samningurinn sé tilraunaverkefni í því að finna út hversu langt er hægt að beygja okkur til hlýðni.

Þess vegna er mikilvægt að við stöndum í lappirnar og fellum þennan samning í núverandi mynd! Ég treysti því að innan um þingmannahópinn séu nógu margir rökhugsandi einstaklingar sem hafa reiknað dæmið til enda, kjósi með hliðsjón af þeirri dökku útkomu sem rökheldar tölur gefa út úr því dæmi og felli þennan samning í núverandi mynd!

Ég lýk svo þessari færslu með tilvitnun í Bjart í Sumarhúsum sem mér finnst einkar viðeigandi á þessum tímum: „Meðan ég sækist ekki eftir annarra manna gróða kæri ég mig ekki um að bera annarra manna skuld.“


mbl.is Stjórnarsamstarf undir Ögmundi komið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður pistill hjá þér að vanda Rakel.  Það eru í raun aðeins tvö öfl sem ráða gerðum okkar það er kjærleikur og ótti, það góða og illa.  Það er ekki spurning hvað hér ræður för.

Leikritinu við Austurvöll er að takast ætlunarverkið. Í byrjun snérist umræðan um að hafna icesave, síðan að hafna icesave samningnum með því að segja já og meina nei, nú  snýst málið um hversu kurteislega á samþykkja samninginn með hugsanlegum fyrirvörum ef það kynni að verða útilokað að við getum borgað, sem það er.  Allt gengur þetta út á að afla áframhaldandi lánsfjár til að halda elítunni okkar gangandi.

Meiri hluti almennings hefur alltaf borið kjærleikan til hvors annars fyrir brjósti og haft það á hreinu að það ber að hafna icesave.  Þetta sýna allar kannanir, en Stjórnmálamenn reyna að koma því þannig fyrir að þeir séu að hafa vit fyrir 80% þjóðarinnar með því að samþykkja icesave með rúmum meirihluta á Alþingi.  Til þess nota þeir það illa, óttann.

ESB aðildarumsóknin var jafnari í sumar, þar gekk þetta ekki lengra gegn almenningi en að kljúfa þjóðina ca. 50 50.  Hver hefði trúað því fyrirfram að um þessi málefni snérist björgunarleiðangur stjórnmálamanna mánuðum saman.

Magnús Sigurðsson, 11.8.2009 kl. 17:45

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir þitt ómetanlega innlegg Magnús

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.8.2009 kl. 18:02

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heilaþvotturinn á okkur almúganum er ótrúlega mikill, Magnús á réttri braut í hugleiðingum sínum.  Burt með AGS, burt með IceSlave.  Þannig verður okkur best borgið. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.8.2009 kl. 01:14

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Óttinn er magnað stjórntæki, til skamms tíma. En á endanum virkar hann eins og tímasprengja og eyðileggur allt sem hann átti að þjóna og tekur þrælana með sér.

Kv, ari

Arinbjörn Kúld, 12.8.2009 kl. 02:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband