Almannahagsmunum ögrað freklega!
1.8.2009 | 21:45
Á hverjum degi vakna ég vongóð um það að ég geti frá og með deginum í dag snúið mér til míns venjubundna lífs. Treyst stjórnvöldum fyrir velferð minni og meðbræðra minna þannig að ég geti lifað áhyggjulaus um framtíð lands og þjóðar. Á hverjum degi vona ég að stjórnarherrar þessa lands vakni til skynseminnar og skyldunnar gagnvart þjóðarhagsmunum...
En dagarnir líða án þess að von mín verði að veruleika. Reyndar líða þeir þannig að hver þeirra færir mér enn betur heim sanninn um það ranglæti sem okkur, almenningi í þessu landi, er ætlað að sitja undir. Af þessum orsökum hef ég gengið í gegnum hafsjó ægilegs tilfinningaróts og nú hyllir undir málalyktir sem mig óraði aldrei fyrir!
Ég velti því nefnilega orðið fyrir mér hvers vegna ég ætti að hemja mig gagnvart löggjafar- og dómsvaldi sem þjónar ofbeldismönnum mínum og þjóðar minnar af þvílíkri forblindaðri þrælslund að jaðrar við gerræði illskunnar! Hvað annað er hægt að segja þegar hagsmunir glæpamannanna sem settu okkur á hausinn eru settir í svo himinhrópandi forgangsröð yfir okkur fórnarlömb þeirra!
Er ég orðljót? Tja, mér finnst það a.m.k! enda verður núverandi líðan minni helst líkt við eldfjall rétt fyrir gos! Ég vona að þeir sem fara með forræði í málum dóms og laga fyrir Íslands hönd átti sig á því hvurs lags ofbeldi þeir bjóða þjóðinni upp á dag eftir dag! Ég vona líka að þeir átti sig á því hvað þeir kalla yfir sig með þvílíkri rangsleitni.
Þolinmæði mín er a.m.k. að verða uppurin! Hún er reyndar komin í þvílíkt þrot að ég er byrjuð að velta því alvarlega fyrir mér hvernig ég geti varið sjálfa mig gegn hinu endalausa óréttlæti sem mér og þjóð minni er boðið upp á dag eftir dag! Spurning hvort það er ekki kominn tími á að taka fram hest, brynju og sverð og berjast fyrir lífvænlegri framtíð okkur öllum til handa!
Það eru ekki málalyktir sem ég óska eftir en það er svo sannarlega spurning til hvaða ráða maður grípur þegar vopn skynsamlegrar og yfirvegaðra orðræðu duga ekki til!
Ég ætla að enda þennan reiðilestur með því að verða við tilmælum Láru Hönnu Einarsdóttur um að birta gögnin sem Kaupþingsmenn hafa komið í veg fyrir að RÚV fjalli frekar um í krafti lögbanns frá hendi sýslumannsins í Reykjavík. Þau eru hengd við þessa færslu eins og hennar.
Hér er tilvísun í færslu Láru Hönnu en ég fékk leyfi hennar til að birta hana í heild og fer hún hér á eftir fyrir þá sem hafa ekki þegar lesið hana:
Við fengum staðfest áðan að hér ríkir ekki upplýsinga-, mál- eða tjáningarfrelsi og fjölmiðlar eru múlbundnir af hagsmunaaðilum ef þeim þykir ástæða til. Yfirlýsing Kaupþings er með ólíkindum. Þar segir m.a.: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings leggja áherslu á að með þessum aðgerðum séu bankarnir að bregðast við skyldum sínum til að tryggja trúnað við viðskiptavini sína og koma í veg fyrir að óviðkomandi hafi aðgang að upplýsingum um viðskipti þeirra..."
Trúnað við viðskiptavini, jamm. Trúnaður þeirra við Ólaf Ólafsson, Bakkabræður, Jón Ásgeir, Robert Tchenguiz og fleiri slíka er semsagt meiri og mikilsmetnari en trúnaður við íslenskan almenning. Og mér finnst ekki úr vegi að spyrja hvaða peninga var verið að höndla með og útbýta til valinna viðskiptavina og eigenda bankans. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að tíu hæstu lánin voru tæplega þreföld fjárlög ríkissjóðs, hvorki meira né minna.
En hvaða peningar voru þetta? Hvaðan komu þeir og ekki síst - hvert fóru þeir? Og hve stór hluti af gjaldþroti gamla Kaupþings eru þessi lán? Hver þarf að borga brúsann? Hvaða eignir íslensku þjóðarinnar þarf að leggja að veði til að friða kröfuhafa í þrotabú bankans? Hvað þarf íslenskur almenningur að þola t.d. í formi niðurskurðar og skattahækkana vegna græðgi, sukks og spillingar þessara eðalviðskiptavina og eigenda Kaupþings? Í yfirlýsingu Kaupþings frá í gær segir: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings..." Þetta er mergjað kjaftæði. Auðvitað eiga þessar upplýsingar erindi til almennings! Er það ekki sá sami almenningur sem situr uppi með efnahagslegt hrun landsins sem einmitt þessir viðskiptavinir ollu - ásamt ýmsrum öðrum? Það hefði ég haldið.
Ég vil ítreka áskorun mína til netmiðla og bloggara frá síðasta pistli um að allir sem tök hafa á birti sem mest af þessu á netinu - á bloggsíðum, netmiðlum, Facebook, Twitter og hvað þetta heitir allt saman. Eða slóðir að umfjöllun ef ekki vill betur til. Allir saman nú! Látum Kaupþing hafa fyrir því að krefjast lögbanns á alla netverja ef því er að skipta. Með því móti leggjum við okkar af mörkum til að mótmæla þeirri þöggun sem nú hefur verið samþykkt af embætti Sýslumanns. Ég hengi eintak af lánabókinni aftur neðst í þessa færslu og ítreka slóðina að WikiLeaks.
Fréttir RÚV - 1. ágúst 2009
Fréttir Stöðvar 2 - 1. ágúst 2009
Viðbót: Kannski kemur þetta málinu ekkert við, en er ekki beint traustvekjandi og vægast sagt umhugsunarvert. Ég var að fá upplýsingar - og kannaði þær nánar - að tengsl eru milli Sýslumannsins í Reykjavík og Kaupþings. Sýslumaður er Rúnar Guðjónsson (f. 1940). Rúnar var sýslumaður í Borgarnesi og rótarýfélagi Ólafs, föður Ólafs Ólafssonar. Sonur Rúnars er Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings. Eins og sjá má t.d. hér og hér var Frosti Reyr einn af kúlulánþegum Kaupþings.
Annar sonur Rúnars er Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Búið er að loka vef samtakanna, að því er virðist, og ég finn þau ekki í símaskránni. En lauflétt gúgl leiðir ýmislegt í ljós, m.a. að þessi samtök virðast hafa gengið einna lengst í að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef eins og sjá má t.d. hér og hér. Gúglið leiðir ýmislegt fleira í ljós um samtökin, eins og t.d. þetta.
Telur ríkari hagsmuni víkja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil.
Ég er fjúkandi ill.
Hólmdís Hjartardóttir, 1.8.2009 kl. 22:30
Til fróðleiks fyrir þá sem vilja koma á framfæri mótmælum með beinum hætti þá eru hérna upplýsingar um viðkomandi tengiliði:
- Rúnar Guðjónsson (runar@syslumenn.is) sýslumaður í Reykjavík (netfang fengið af vef sýslumannsembættis)
Koma svo... setja póstþjónana þeirra á hliðina! (ekki gleyma viðhenginu)Guðmundur Ásgeirsson, 2.8.2009 kl. 00:17
Sæl Rakel,
þetta er allt á sömu bókina lært. Öll svín er jöfn nema sum eru jafnari. þannig er það og hefur verið. Kannski verður það þannig áfram, hver veit.
Bankaleynd er bara til að fela það sem ekki þolir dagsljósið, hefur ekkert með persónufrelsi að gera.
Og svona í lokin smá ráðlegging við umgengni við tilveruna, "never trust anything and think dirty" Hefur gagnast mér vel í starfi og leik.
Gunnar Skúli Ármannsson, 2.8.2009 kl. 00:57
stórgóður pistill að venju,takk fyrir það annars er gaman að segja frá því að kaupþingspóstinum er dreift svo gengdarlaust um netheima að ég rakst áðan á hann á torrent síðu sem dreift er um allt netið,svo lögbannið hefur sennilega snúist í höndum skilanefndarinnar....
zappa (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 01:48
Takk fyrir þennan pistil, hann er góður eins og allir hinir pistlarnir þínir. Svínaríið sem viðgengst í þjóðfélaginu okkar er ótrúlega mikið, þegar lögbannið á frétt RÚV í kvöld var staðreynd fékk ég nett áfall. En ég kýs samt að trúa að allt verði rannsakað og menn dregnir til ábyrgðar. Að réttlætið sigri, að lokum.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.8.2009 kl. 02:34
Þú er ekki orðljót Rakel. Orð þín eru sem fegursta hvatningarljóð fyrir mann sem er búin að fá nóg og í uppreisnarhug. Ég er reyndar svo reiður að ég vil ekki tjá mig á blogginu, geri frekar gys að öllu saman á fésinu. Reyni þannig að tjónka við sjálfan mig.
En ég er farin að finna lyktina af byltingu, finn að réttlætið sem Jóna Kolbrún talar um komi ekki nema við tökum sjálf til okkar ráða. Ég hef ekki lengur þá trú á íslenskum stjórnvöldum að þeim verði nokkuð ágengt.
Kv, ari
Arinbjörn Kúld, 2.8.2009 kl. 03:03
http://tinyurl.com/kmltur <- lekasíðan
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.8.2009 kl. 03:06
Frábær pistill skifaður af yfirvegun sem ég ekki bý lengur yfir
Finnur Bárðarson, 2.8.2009 kl. 18:13
Takk fyrir innlit og innlegg öll. Mig langar þó sérstaklega að þakka Finni af því mér finnst svo vænt um innihaldið í innlegginu hans
Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.8.2009 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.