Lausnir sem varða allt þjóðfélagið og mig líka!

Ég kemst ekki inn í galdraformúluna sem ræður talsmáta flestra hagfræðinga og pólitíkusa og þá grípur mig ákveðin tilfinning sem ég byggi á skynseminni. Ef þessir tala þannig að ég og fleiri eiga bágt með að skilja þá er líklegt að það sé einmitt tilgangurinn. Það er nefnilega hægt að fjalla um hagfræði, viðskipa- og atvinnulíf þannig að allir skilji.

Þegar margir sitja við borð til að fjalla um framtíð launafólks í landinu ætti umfjöllunin um það að vera þannig matreidd að allir skilji hvað á sér stað í þeirri umræðu. Ég tel að við þetta svokallaða „stóra samningaborð“ fari fram mjög mikilvægar umræður sem varða þjóðina alla. Þeir samningar sem verða gerðir þar eiga eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir nánustu framtíð.

Þess vegna er afar áríðandi að við fylgjumst mjög náið með því sem þar fer fram og hvað þar er í undirbúningi. Allir þeir sem láta sig málin einhverju varða og hafa góðar hugmyndir um það hvernig megi tryggja stöðugleika og sátt í samfélaginu ættu í raun að setja sig í samband við þá sem eiga sæti við þetta borð og koma þeim á framfæri.

Gleymdar dyr

Ég hef reyndar fyrir því traustar heimildir að ýmsar hugmyndir hafi komið upp í þeirri umræðu sem tengd frétt fjallar um en aðrar hafa ekki náð þangað inn og þess vegna ekki verið viðraðar. Þó ég ætli engum sem koma að þessum viðræðum það fyrirfram að semja beinlínis af sér þá hef ég samt af því stórar áhyggjur hvernig endanlegur samningur eða „aðgerðaáætlun“ muni líta út. Þær stafa af ýmsum ástæðum. Þær augljósustu felast e.t.v. í svörunum við eftirfarandi spurningum:
  • Hvernig er kynskiptingin við þetta borð?
  • Hver er meðalaldur þeirra sem sitja við það?
  • Hvað hafa þeir sem vinna að þessum samningum setið lengi í samninganefndum?

Svarið við síðustu spurningunni er í mínum huga mikilvægast vegna þess að við þekkjum fortíðina sem þeir sem hafa setið lengst í ráðandi stöðum hafa átt þátt í að móta. Við vitum að sú stefna sem hefur verið fylgt hingað til hefur ekki orðið okkur til farsældar.

Það er alls ekki útilokað að þeir sem sitja við þetta borð vilji koma nýstárlegum og ferskum hugmyndum að en það þekkja það sennilega allir sem hafa átt sæti í nefndum og ráðum hvað nýjungar valda þar oft miklum titringi. Formið og hefðirnar eru líka oft svo fastmótaðar og niðurnjörvaðar að hugmyndirnar kafna ef þær fæðast á annað borð í því umhverfi sem hér er vísað til.

Það er ljóst að laun munu ekki hækka fyrir utan þeirra allra lægst launuðustu og þá aðeins um nokkra þúsund karla. Það er hætt við því að sú gamla leið að skerða réttindi til að ná fram sparnaði verði farin en lítið sem ekkert komi á móti. Spurning hvaða réttindi það verða. Er t.d. feðraorlof munaður sem er réttlætanlegt að skera niður? Sumir halda því fram að það sé alltof dýrt auk þess sem einhverjir halda því fram að það sé mjög mikið misnotað til svartar vinnu.

En hafa launasamtökin eitthvað í höndunum? Hafa þau eitthvað til að semja um? Verða þau ekki bara að sætta sig við það sem þeim er boðið? Lífeyris- sjóðirnir eiga að heita í höndum verkalýðsfélaganna og það er vopnið sem þeir hafa. Annars sætu þeir sennilega ekki enn þá við þetta borð. Þeir hefðu neyðst til að taka við algjörum lágmarkssamningi og eftir eitthvert sýndarmálþóf hefðu þeir orðið að skrifa undir.

En hvernig koma lífeyrissjóðirnir inn í þetta? Jú, samkvæmt mínum heimildum hrannast penningarnir inn á sparisjóðsreikninga lífeyrissjóðanna en bankarnir hafa ekki efni á því að borga út vextina vegna þess að útlánastarfssemi þeirra liggur niðri. Atvinnufyrirtækin halda að sér höndum vegna hárra vaxta og hafa frestað öllum framkvæmdum af þeim sökum. Þetta er vandamál sem þarf að leysa.

Mér skilst að í þessu felist lykillinn sem fulltrúar launamanna við Í lykilhlutverkisamningaborðið halda á. Það hefur komið upp sú hugmynd að ríkissjóður gefi út skuldabréf út á eignir lífeyrissjóðanna til að koma „hjólum atvinnulífsins í gang“. Til að komast að þessum sjóðum þarf að semja við fulltrúa verkalýðsfélaganna.

En hvaða hugmyndir hefur ríkisstjórnin uppi um það hvernig megi reisa við atvinnuvegina? Það er líka full ástæða til að velta því vandlega fyrir sér hverjir það eru sem gefa ríkisstjórninni ráð um það hvaða hugmyndir eru best til þessa fallnar?

Eru það ekki fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins? Ég veit ekki hvort það eru þeir sem eiga þær hugmyndir sem ég hef heyrt að hafi komið upp í sambandi við aðkomu lífeyrissjóðanna að endurreisn atvinnulífsins í landinu. Þær eru:

  • Fjármögnun á byggingu nýs Landsspítala.
  • Endurreisnarsjóður atvinnulífsins.

Ég verð aðeins að koma að þeim göllum sem ég sé á þessum hugmyndum. Í fyrsta lagi er ég alfarið á móti fyrri hugmyndinni. Þar yrði eingöngu „völdum“ verktakafyrirtækjum í byggingariðnaði bjargað um stundarsakir. Næg atvinna væri um tíma fyrir iðnaðarmenn á höfuðborgarsvæðinu á meðan aðrir atvinnuvegir og öll atvinnustarfsemi á landsbyggðinni myndu svelta.

Seinni hugmyndin er svolítið álitlegri en þar verður að hafa í huga, ekkert síður en varðandi þá fyrri, að hér á Íslandi eru því miður margar „Soprano-fjölskyldur“ sem gætu hrifsað til sín öllu fjármagninu án þess að gera úr því það sem hugmyndin gengur út á. Þ.e. að allir nytu góðs af með keðjuverkandi áhrifum. M.ö.o. að fyllsta jafnræðis væri gætt hvað varðar atvinnuvegi, staðsetningu fyrirtækja, aldur þeirra og stærð.  

Í sjálfu sér finnst mér hugmyndin um að koma atvinnulífinu til bjargar með aðstoð lífeyrissjóðanna alls ekki galinn en það liggur í augum uppi að það verður að vanda samninganna um þetta atriði mjög, mjög, mjög vel. Mér finnst að miðað við stöðuna eins og hún er núna þá sé ástæða til að lýsa eftir hugmyndum miklu fleiri aðila heldur en þeirra sem eiga sæti við þetta borð.

Mér finnst líka ástæða til að þeir sem eru í þeirri stöðu að að ráða „miklu um framtíð efnahagsmála á Íslandi“ (sbr. Gylfa Arnbjörnsson hér) verði að hafa það að leiðarljósi hvað kemur öllum almenningi best. Síðast en ekki síst verða þeir að átta sig á tækifærinu sem þeir hafa til að knýja fram kröfur sem verða þjóðinni til framtíðarhagsbóta. Þær kröfur sem þeir setja á móti leyfinu til fjárfestinga ríkisstjórnarinnar í lífeyrissjóðum almennings verða að taka mið að því hvað kemur þjóðfélaginu öllu til góða til frambúðar!

Er þessi staða, sem umboðsmenn launamanna við þetta borð eru í, ekki tilvalin til að þeir settu fram kröfur um það að núverandi ríkisstjórn hendi úrsérgengnum hugmyndum sem ganga út á að það sé eingöngu almennings að bera byrðarnar?
Eins og hamstur í hlaupahjóli
Ég fæ nefnilega ekki betur séð en þessi ríkisstjórn vinni eftir margnýttum og götóttum hugmyndum um það að hvernig sé best að auka tekjur ríkisstjóðs. Allar hugmyndirnar ganga út á það að sækja allt sem upp á vantar í vasa alþýðunnar sem hefur svo þá neikvæðu hliðarverkun að vera verðbólguaukandi... Í stuttu máli sagt má líkja þessari aðferð við hamstur í hlaupahjóli!

En eru til einhverjar aðrar leiðir til að afla tekna en skattpína almenning með hækkunum, ýmis konar álögum og í gegnum vexti af lánum þeirra? Ég hef heyrt margar góðar hugmyndir en nefni hér aðeins fjórar sem snúa allar að lítt nýttum - eða alls ekki nýttum „skattaholum“. Kostirnir eru líka að það sem fengist upp úr þessum „holum“ tengist ekki vísitölunni en síðast en ekki síst er skattlagning á þessar „peningahokur“ miklu líklegri til að skila ríkisstjóði raunverulegum tekjuauka en aðgerðir eins og „munaðarvöruskattur“!

Þessar hugmyndir ganga út á:

  • Fjármagnstekjuskatt.
  • Skattlagningu einkahlutafélaga.
  • Leggja á stóriðjuskatt.
  • Krefja þá sem nýta sér auðlindir okkar um sérstakan skatt fyrir það.

Þeir aðilar sem Gylfi Arinbjörnsson (má til að skjóta því hér inn í að ég er svolítið hugsi yfir því af hverju er látið líta út fyrir að það sé verið að semja við hann einan?) segir að ráði miklu um efnahagslega framtíð Íslands  ber skylda til að finna lausn fyrir allt þjóðfélagið. Ég held þess vegna að við, félags- mennirnir, verðum að átta okkur á því að þarna er tækifæri til að leggja eitthvað inn í umræðurnar og hafa áhrif.

Eða viljum við bara bíða og sjá hvað kemur út úr þessum umræðum? Er einhver sem treystir sér til að að lesa það út úr þessari frétt og öðrum álíka hvað „stöðugleikasáttmálinn“ eða „aðgerðaáætlunin“ mun fela í sér fyrir hinn almenna launþega? Ef ég á að segja alveg eins og er þá er ég hrædd um að aðgerðirnar og stöðugleikinn nái ekki utan um mig eða annan almenning heldur séu fjármálastofnanir og fjármangseigendur ásamt stærstu atvinnu- fyrirtækin að tryggja sína framtíð.

Ég vil þess vegna gera eftirfarandi kröfu: Ef það á að tryggja aukinn hagvöxt í landinu og fórna til þess eigum mínum, laununum mínum og nú skyldulífeyris- sparnaði mínum þá vil ég að það sé tryggt að ég eigi eitthvað í honum þegar upp er staðið!

Öllu fórnað fyrir ekkert


Ég vil ekki vera í þeim sporum að þurfa að semja um öll mín grundvallarréttindi sem launþega og þegns í landinu vegna þess að ég tók þátt í því að tryggja fjármálstofnunum, fjármagnseigendum og stöndugustu fyrirtækjunum lífs- afkomu á krepputímum með blóði mínu, svita og tárum! Ég er nefnilega svo langt frá því að vera sammála þessari forgangsröðun!!!


mbl.is Vextir í 9% til að byrja með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.6.2009 kl. 03:08

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég tek undir að lífeyrissjóðirnir verði að koma með einum eða öðrum hætti að uppbyggingunni.  Það hefur komið fram í fréttum að lífeyrissjóðirnir vilji taka þátt í þessu, en það standi m.a. á uppgjöri við gömlu bankana svo sjóðirnir viti hvað þeir séu aflögufærir um mikið.

Marinó G. Njálsson, 6.6.2009 kl. 18:15

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það strandar hvert á öðru... gæti verið spurning um að taka bara hamsturinn út úr þessu endalausa hjóli? Ég meina að það gerist heilmikið á meðan við hlaupum alltaf sama hjólið en það er allt fyrirfram þekkt byggt á viðvörunum sem við höfum heyrt svo oft að við erum kannski farin að trúa því að þær séu sannar... hvernig væri stíga út úr því núna?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.6.2009 kl. 18:49

4 identicon

Heil og sæl Rakel; sem þið önnur, hér á síðu hennar !

Rakel !

Númer I. Afnema þarf; feðraorlofs kjaftæðið, hvar fullfrískir menn voma yfir hvítvoðungum, að þarflausu.

II. Milljón króna skrumarann; Gylfa Arnbjörnsson, mætti taka úr umferð samninga, fyrir hönd launþega,

III. Lífeyrissjóða sukkið; þarf að stoppa. Skyldugreiðslu bullið að hætta, og gjaldendur, í þennan ósóma, fái sitt endurgreitt, áður en braskara hyskið eyðir því, upp til agna.

IV.Launþega félaga ruglið; þarf að staðnæma. Fólk semj; fyrir sína hönd, á eigin forsendum - mín bezta reynsla, sjálfs.

Þakka þér; góða samantekt, sem glögga, Eyfirðingur góður.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 19:21

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gleymdu því ekki að ég er vestfiskra ætta þó búseta mín hafi orðið lengst hérna í Eyjafirðinum

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.6.2009 kl. 19:51

6 identicon

Komið þið sæl; að nýju !

Hver andskotinn, Bið þig afsökunar; á helvítis fljótfærninni, Rakel mín.

En;...... með beztu kveðjum - sem þeim fyrri /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 20:47

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ekkert að afsaka. Ég er bara svo stolt af mínum vestfirska uppruna að ég má til að minna á hann þegar ég fæ svona gott tilefni til þess

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.6.2009 kl. 21:12

8 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Mér finnst að það megi skoða þá hugmynd að nota lífeyrissjóðina til að fjármagna leiðréttingu húsnæðislána.

Annars vildi ég vekja athygli á þessu:

,,Hagsmunasamtök heimilanna setja hér með fram tillögur að leiðum, sem innlegg í nýjan samfélagssáttmála, til að sátt náist aftur milli hins opinbera, fjármálakerfis, atvinnulífs og heimila hér á landi sem allra fyrst. Sú sátt sem hefur varað í fjölda mörg ár, um í raun meingallað fjármálakerfi, var rofin í undanfara bankahrunsins. "

http://www.heimilin.is/varnarthing/about/alyktanir-samtykktir/353-samfelagssattmali-hh

Þessu plaggi hefur verið komið á framfæri við stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins.

Svo sakar ekki að kíkja á þetta: Tengsl verkalýðshreyfingar og fjármálageirans

Þórður Björn Sigurðsson, 7.6.2009 kl. 00:25

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er sammála þér Þórður. Fulltrúar HH eru meðal þeirra innlendu sérfræðinga sem ég er að tala um að ríkisstjórnin eigi að hafa sér til ráðgjafar á þessum tímum. Þeir ættu reyndar að eiga sæti við þetta borð ef það stendur í alvöru til að láta eitthvað standa á bak við stór orð eins og aðgerðaráætlun og stöðugleikasáttmála!

Það er grátlegt að horfa upp á hvernig allar aðgerðir þessa daganna lýsa æpandi vanhæfni af hálfu þeirra sem telja sig svo mikilfenglega að þeir séu yfir það hafnir að þiggja ráð frá jafnt erlendum - og innlendum sérfræðingum við lausn vandans sem við stöndum frammi fyrir. Það er eins og þjóðin sé að kljást við bræðrafélag ofdekraðra forréttindakrakka sem neita að leika eftir öðrum reglum en þeim sem hafa verið samdar inni í þeirra herbúðum!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.6.2009 kl. 02:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband