Afturför í nafni góðærisins svokallaða

Það mætti ætla að ég nennti ekki að skrifa sjálf þar sem þetta er annar dagurinn í röð sem ég fæ texta frá öðrum að láni. Þessi staðhæfing hefur tvær hliðar. Önnur er sú að ég er vissulega að safna kröftum ...

Kröftunum safnað
Hin er einfaldlega sú að ég er endalaust að rekast á eitthvað sem mig langar til að vekja athygli á og viðra mína skoðun yfir. Nota orðið Fésbókina óspart til þess, vinum og ættingjum til óumræðilegrar hrellingar sjálfsagtJoyful
 
Síðastliðið miðvikudagskvöld skrifaði ég hér stutta hugleiðingu í sambandi við myndina The Big Sellout sem miðað við skrifin hér á blogginu hefur vakið athygli fleiri en mín enda um stórmerkilega mynd að ræða ekki síst í ljósi núverandi aðstæðna hér á Íslandi. Það er jákvætt hve margir horfðu á hana því við þurfum að rífa umræðuna um einkavæðingu út úr góðæriskjöftunum sem saka alla um afturhald sem benda á eitthvað sem þeir gjalda varhug við í sambandi við hana.


Það hljóta allir að þekkja bloggið hennar Láru Hönnu Einarsdóttur sem fylgjast með þjóðmálaumræðunni á annað borð. Ég hvet ykkur til að lesa þennan pistil hennar sem fjallar einmitt um þetta efni. Ég skil skrif hennar þannig að það sé von á meiru um sama efni á næstu dögum. Ekki missa af því heldur!

Textinn sem ég tók að láni að þessu sinni er hins vegar frá veftímaritinu Nei sem ég hef fylgst nokkuð grannt með í vetur. Þessi fjallar um afturförina í ýmissi þjónustu sem varð á tíma hins falska góðæris. Afturförina má rekja til hinnar blindu einkavæðingarstefnu sem hér var rekinn og sér í raun ekki fyrir endann á enn:

Kapítalísk alræðisgeðsýki

Meðal þess sem ávannst í góðærinu, sem svo er nefnt, er að næturvarsla apóteka var lögð niður svo hvergi er nú hægt að kaupa lyf á nóttunni á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er opið í snakkverslun 10-11 allan sólarhringinn.

Póstþjónusta versnaði til muna og voru flestir póstkassar til að póstleggja bréf einfaldlega fjarlægðir. Í smærri bæjum voru pósthús lögð niður.

Tannheilsa barna hefur versnað til muna.

Þúsundir Reykvíkinga voru nýverið sagðar án heimilislæknis, í fréttum.

Einkavæðing Símans var réttlætt með sjúkrahúsi sem reisa skyldi fyrir söluandvirðið. Sjúkrahúsið reis auðvitað aldrei.

Eina nýjungin sem tímabilið skilur eftir sig í infrastrúktúr höfuðborgarinnar er Hringbrautin sem enginn vill kannast við að bera ábyrgð á, heldur virðist hafa lagt sig sjálf.

Miðborgin dó. Hún dó bara. Margir lögðu hönd á plóg við að drepa hana einkum þó eignarhaldsfélög um lóðir, húsnæði og „uppbyggingu“ í miðborginni. Eigendur reits við Klapparstíg lokuðu skemmtistaðnum Sirkus sem var um langa hríð mikilvæg félagsmiðstöð tónlistarsenunnar í borginni – og negldu fyrir gluggana svo þar yrði áreiðanlega engin tónlist sköpuð. Björgólfur yngri átti þann reit.

Á sama tíma var gígantískt byggingapláss í miðborginni lagt undir tónlistar- og ráðstefnuhús Landsbankans, ásamt fyrirhuguðu hóteli þar við hliðina og loks nýjum höfuðstöðvum Landsbankans. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið eitt hefði kostað 2% af þjóðarframleiðslu að reisa. Landsbankakastalinn hefði að grunnfleti orðið á stærð við allan Arnarhól. Enn hefur ekki verið hætt við þessi áform.

Ótal mörg byggðarlög úti á landi dóu í nafni hagræðingar í sjávarútvegi. Þau máttu víkja.

Ísland kemur illa út úr alþjóðlegum könnunum á starfi grunnskóla. Það er reynt að skýra með því að kannanirnar miðist við námsskrár annarra landa.

Öll samskipti voru gerð ómanneskjuleg og ógeðfelld með inngripi innheimtustofnana, yfirvofandi hótunum og kostnaðarsömum ferlum fyrir almenning þar sem því varð á annað borð við komið. Meira að segja Borgarbókasafn og Landsbókasafn senda nú bókasektir í innheimtu til Intrum Justitia. Bókasöfnin!

Strætisvagnaferðum fækkaði. Í það minnsta ein skiptistöð, sú í Kópavogi var fjarlægð. Vék fyrir banka svo strætófarþegar bíða þar nú utandyra.

Mýgrútur af eftirlitsmyndavélum vakir nú yfir öllum almenningi hvar sem hann fer um í nafni öryggis og löggæslu – ekki bara á götum úti heldur jafnvel inni á kaffihúsum og veitingastöðum. Það voru ekki ríkisafskipti sósíalista sem leiddu þá þróun heldur meintir einkahagsmunir og eignavernd.

Eru til tölur um hversu mikið vinnustundum fólks hefur fjölgað síðustu 20 ár?

Við skulum endilega safna þessum molum saman. Dæmi um skerta grunnþjónustu og/eða vaxandi ömurð á þeim sviðum mannlífsins sem áður hlýddu ekki rökvísi banka og fjárfesta – ekki í hruninu, ekki í kjölfar þess, heldur góðræræræinu – eru ótal.


Ég myndi reyndar vilja bæta a.m.k. einu atriði við þennan lista en það er niðurskurðurinn í ýmissi almannaþjónustu er varða svokallaða minnihlutahópa. Fjölbreytni þessara hópa er svo mikil að það er kannski ekki réttlætanlegt að telja þá upp saman en geri það samt. Þetta eru: unglingar, aldraðir, geðsjúkir, fatlaðir, alkóhólistar og fíklar.

Niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni hefur bitnað verst á mörgum þessara hópa en líka það að þjónusta við suma, sem þarna eru taldir upp, hefur verið færð frá hinu opinbera til sveitarfélaga sem mörg hver eru svo smá að þau hafa ekkert bolmagn til að halda uppi öðru en lágmarksþjónustu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

HFF Rakel. Hvað getum við gert nú þegar allt er hrunið? Okkur vantar fleira skynsamt fólk á þing. Ekki nóg að hafa bara 4. Við eigum enga von held ég meðan þingið er ekki betra skipað en þetta. Ég er búin að missa allt trú á núverandi flokkum á þingi nema Borgararhreyfinguni. Jæja, tækifærið kemur líklega í haust þegar mótmælin hefjast að nýju og við fáum nýjar kosningar í vetur - eða hvað?

Arinbjörn Kúld, 1.6.2009 kl. 13:42

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Við erum búin að prufa nýjar kosningar, ekki satt? Væri ekki nær að þeir sem eru í fastir í gamla hjólfarahugsunarhættinum horfðust í augu við vanmátt sinn og það væri skipuð utanþingsstjórn eða -nefnd til að leiðrétta og laga til og koma samfélaginu á réttan kjöl aftur? Ég vil að við leitum til þeirra erlendu og innlendu sérfræðinga sem hafa komið með ráð og hugmyndir til að endurreisa efnahaginn og lýðræðið. Þeir hafa m.a.s. margir hverjir boðist til að hjálpa til við þetta.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.6.2009 kl. 13:56

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir þessa áminningu Rakel. Þetta er svona því miður. Hægt og sígandi er verið að rífa niður lífsgæði þjóðarinnar. Það er búið að eyðileggja það sem almenningur stóð saman um að byggja upp í áratugi.

Rakel þú átt virðingu mína óskipta fyrir það að koma auga á óstjórnina sem því miður er enn við lýði en margir loka augunum fyrir

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.6.2009 kl. 22:50

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Við áttum Símann og svo keyptu sum okkar hann aftur, við áttum Póstinn svo keyptu sum okkar hann aftur, þannig á ekki að gera hlutina.  Sumt verður að vera í almannaþágu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.6.2009 kl. 23:42

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Af hverju stofnum við ekki "skuggaríkisstjórn eða alþingi fólksins" að breskri fyrirmynd með okkar eigin bloggsíðu/heimasíðu þar sem við setjum fram þær aðgerðir sem við viljum sjá hrint í framkvæmd, bjargráð fólksins og gerum þetta eins og við værum í stjórn og værum að framkvæma?

Kveðja að norðan

Arinbjörn Kúld, 2.6.2009 kl. 10:35

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Góð hugmynd Arinbjörn!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.6.2009 kl. 13:15

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir traustið Þórdís mín Ég er ekki frá því að þú sést ekki sú eina sem halda að ég geti virkilega komið einhverju áleiðis... ég sem ætlaði bara að standa með öðrum mótmælendum þegar ég tók afstöðu með málstað þeirra síðastliðið haust. En þetta er eitt af því yndislega við lífið að þegar maður tekur af skarið þá veitir það manni frelsi til að taka næsta skref og ef maður er tilbúinn til að standa með skoðun sinni og fylgja henni eftir er aldrei að vita hvar ferðalagið endar

En í alvöru talað þá tel ég mig ekki vera efni í foringja. Ég held að ég sé hafi miklu meiri hæfileika til að standa í stuðningsmannaliðinu eða sitja í ráðgjafahópnum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.6.2009 kl. 03:06

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hef verið að glugga í gegnum bloggið þitt og fíla þig í tætlur, eins og ég hefði sagt fyrir 30 árum síðan. Núna segi ég bara að það er fágætt að hitta fyrir svo skarpgreinda manneskju og með svo djúpa réttlætiskennd.  Af hverju í ósköpunum ertu ekki á þingi?  Ég hefði kosið þig þótt þú hefðir verið á L listanum og ég þurft að flytja lögheimilið á Akureyri.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.6.2009 kl. 03:31

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir yndislega fallegt og uppörvandi hrós Ég hef heyrt það áður að ég ætti að vera inni á þingi en einhverra hluta vegna ekki tekið neitt mark á því. Stærsta ástæðan er reyndar sú augljósasta en það er hvernig vinnustaður alþingi hefur orðið.

Núna í vor urðu nokkrir ótúlega þolinmóðir einstaklingar til þess að ég lét undan og var a.m.k. í framboði. Ég var í fimmta sæti á framboðslista Borgarahreyfingarinnar hér í norðausturkjördæmi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.6.2009 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband