Þöggunaráráttan er kannski smitandi:-/
1.6.2009 | 02:23
Ég fékk þessa löngu og ýtarlegu athugasemd við færslu mína frá því í gærkvöldi. Þar sem mér finnst hún svo athyglisverð ákvað ég að birta hana í heild hér og vona að sá sem á hana fyrirgefi mér það. Mig langar sérstaklega til að benda á allar spurningarnar sem eigandi athugasemdarinnar varpar fram hér að neðan.
Þetta eru brennandi spurningar sem voru reyndar flestar komnar fram fyrir kosningar. Auðvitað áttum við að fá svör við þeim áður en gengið var til kosninga! En einhverra hluta vegna voru stjórnmálamennirnir ekki spurðir þessara spurninga... ekki af fjölmiðlunum a.m.k... eða þeir komu sér undan því að svara þeim. Ég er hrædd um að svörin hefðu breytt ansi miklu!
Enn ríkir þögnin í kringum þau brýnu mál sem bréfritari varpar fram hér að neðan en svörin þurfum við að fá! Þau eru nefnilega ekkert síður mikilvæg nú en fyrir kosningar:
[...] Hvítbókin! Hún er safn af ljótu fólki og sumu illa innrættu, það best verður séð. Það er illt innrætti að stinga af frá skuldum sínum.
Ég held ennþá að Jóhanna vilji vel, en ég á erfitt með að verja störf hennar sem forsætisráðherra. Hneigist helst að því að hún sé komin í starf sem hún ræður ekki við. Það er ekkert nýtt að fólk hækki í valdapýramída vinnustaðar síns þar til það kemst í starf sem það ræður ekki við. Hrædd er ég um að þetta hafi nú hent Jóhönnu og hitti okkur og þjóðina okkar illa.
Það var nauðsynlegt að koma ríkisstjórn GH og ISG frá. Þau höfðu ekki bara sofið á verðinum heldur ákváðu þau að blekkja bæði Íslendinga og útlendinga þegar þau voru látin horfast í augu við hvert stefndi. Af hverju hugsa ég um landráð þegar mér verður hugsað til þess að þau vissu allt árið 2008 og hluta af árinu 2007 hvert stefndi?
Af öllu því sem þau gerðu rangt fannst mér verst að þau höguðu sér eins og einræðisherrar þegar þjóðin krafðist þess að þau segðu af sér. Neituðu að fara frá þegar lýðurinn vissi að þau voru vanhæf: Ætluðu að sitja eins lengi og þeim hentaði. Fullkomlega í óþökk lýðsins.
Þegar þarna var komið rann upp fyrir mér að þau höfðu eitthvað að fela. Það gat ekki verið að á Íslandi höguðu ráðherrar sér eins og þau gerðu nema þeir þyrftu tíma til að hylja slóð. Ég spyr mig enn hvernig huldu þau slóðina? og grunar að þau hafi gert það með þvi að undirrita skjal við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Skjal sem á eftir að eyðileggja það samfélag sem við höfum til þessa þekkt hér á landi.
Hvers vegna velur SJS að taka þátt í þessum feluleik? Ef hann er ekki að taka þátt í leik, hvers vegna segir hann það þá ekki skýrt og skorinort og sver að ekkert slíkt skjal sé til? Meðan hann þegir þá liggur hann undir grun hjá mér.
Og þá er ég komin að því sem er að eyðileggja fólk hérna, þ.e. að fá ekki sannleikann um nokkurt mál sem máli skiptir. Fólk verður að halda, ímynda sér, giska á og fylla í eyðurnar. Leynd, þöggun, yfirhylming, samtrygging; það eru þau hugtök sem mér finnst viðeigandi að nota til að lýsa fyrrverandi ríkisstjórnum og núverandi ríkisstjórn. En samt tala þau um að upplýsa og að varpa ljósi á. Æi, mér bara býður við þessu!
Ef stjórnvöld hafa frá því í haust og fram á þennan dag staðið sig í að upplýsa og varpa ljósi á atburðarásina þá kemur ekki annað til greina en við séum flest afskaplega heimsk því enn hef ég ekki hitt neinn sem veit hvað er fram undan.
(Hér eru spurningarnar sem mig langar til að vekja sérstaka athygli á! [Viðbót síðueiganda])
1. Hvers vegna segir núverandi ríkisstjórn ekki skilanefndaamönnunum upp störfum? Eftirlitskerfi sem brást algerlega skipaði í skilanefndirnar. Verk skilanefndanna vekja ekki traust hjá mér. Hvers vegna eru ekki ráðnir erlendir sérfræðingar inn í skilanefndirnar? Hvers vegna eru skilanefndirnar ekki látnar senda frá sér yfirlit reglulega um hvað þær hafa ákveðið og hvað þær hafa gert?
2. Hvers vegna er ekki búið að segja bankastjórunum þremur upp störfum? Hvers vegna eru stöðurnar ekki auglýstar?
3. Hvers vegna er ekki hverjum einasta manni sem var í valdastöðu í gömlu bönkunum sagt upp; þeir færðir til í starfi og settir í að þrífa gólfin í bönkunum?
4. Hvaða skuldir er búið að afskrifa? Hverjir skulduðu þessar skuldir?
5. Eru þeir þingmenn sem stofnuðu einkahlutafélag utan um skuldir sínar sloppnir fyrir horn eða eru þeir alveg sloppnir frá skuldum sínum?
6. Hvers vegna er ekki búið að setja lög um að það megi frysta eignir manna sem eru grunaðir um að hafa komist yfir fé á ólögmætan hátt?
7. Hvers vegna var haldið áfram með Icesave og ráðin nefnd til að semja um að blásaklaus þjóðin borgaði skuldir einkabanka? Virtur lögmaður sagði að þetta væru nauðungasamningar og það væri rétt að láta á það reyna að fá þá dæmda ólöglega? Hvers vegna hefur ekki verið rakið hvar peningarnir eru sem útlendingar lögðu inn á Icesave-reikningana?
8. Er hún sönn sagan um að norrænu löndin vilji ekki lána okkur nema AGS sé inni í dæminu? Ef hún er sönn hver er þá ástæðan fyrir þessari afstöðu norrænu landanna? Ef hún er ekki sönn hvers vegna segja stjórnvöld það þá ekki?
9. Hvað eru margir af þeim sem hrökkluðust úr starfi, eða voru látnir fara, á biðlaunum? Hvaða einstaklingar eru þetta? Hvað kostar hver og einn þeirra á mánuði?
10. Af hverju afnam 80-daga stjórnin ekki lög um biðlaun ráðherra og aðstoðarmanna þeirra? Fram undan blasir við að bæta þremur ráðherrum á biðlaun og jafnmörgum aðstoðarmönnum þegar ráðuneytum verður fækkað á kjörtímabilinu. Hvað þarf að hækka verð á víni, tóbaki og bensíni mikið til að hala inn fyrir þessum biðlaunum?
11. Hvernig fá þingmenn sig til að taka vikur - já, vikur, jafnvel mánuði - í að tala um Evrópusambandið þegar þjóðin grátbiður um að bankakerfið sé sett í gang, atvinnulífið sett í gang, verðbætur á húsnæðislán afnumin og skuldir þeirra vegna húsnæðiskaupa leiðréttar?
12. Hvað á þjóðin að bíða lengi eftir því að fá að vita hvaða skuldir falla á hana? Fleiri en einn erlendur sérfræðingur hefur sagt að þjóðin geri sér ekki grein fyrir því hvað staðan er alvarleg. Er það með ráðnum huga að hafa hlutina þannig?
13. Er ISG laus allra mála? Hún flýgur hátt og fer hratt yfir sagan um að hún hafi snúið Icesave frá því að vera deila um réttmæti reglugerðar ESB um tryggingasjóði banka þegar efnahagskerfi þjóðar hrynur yfir í að vera pólitísk deila vegna þess að hún er haldin ESB-þráhyggju.
14. Hvað á maður oft að þurfa að lesa í innlendum og erlendum fjölmiðlum að Bretar, Þjóðverjar og Hollendingar standi saman gegn Íslendingum og njóti stuðnings ESB sem sé í góðu samstarfi við AGS um að stilla Íslendingum upp við vegg og hóta þeim? Hvers vegna hefur enginn ráðherra eða engin ríkisstjórn síðan í haust staðið upp og svarað þessu fullum hálsi? Látið kanna hvort þetta sé rétt?
15. Hvers vegna ganga fjárglæframennirnir ennþá lausir? Hvers vegna? Hvers vegna? Hvers vegna? Hvers vegna? Hvers vegna, Steingrímur og Jóhanna?
16. Hvað var Össur sem iðnaðarráðherra að gera ítrekað í Austurlöndum nær og ræða þar um náttúruauðlindir Íslands?
17. SJS var ákveðinn í því að hann vildi skila AGS-láninu. Hvaða pappíra eftir fyrri ríkisstjórn sá hann í stjórnarráðinu þegar hann varð ráðherra sem urðu til þess að hann féll frá sannfæringu sinni?
18. Hvers vegna heldur núverandi ríkisstjórn áfram á sömu braut og ríkisstjórn GH og ISG um að ganga erinda fjármagnseigenda?
19. Hvers vegna eru menn sem hugsanlega hafa veðsett bótasjóð Sjóvár enn í viðskiptum? Hvað þarf til að ríkisstjórnin stöðvi viðskipti manna sem eru grunaðir um að hafa brotið af sér í viðskiptum? Ætla stjórnvöld að sjá til þess að mennirnir verði kærðir ef rétt reynist að þeir hafi veðsett bótasjóðinn? Það eru fordæmi fyrir því að sækja þá til saka sem misnota bótasjóði tryggingafélaganna, þótt þessi misnotkun sé reyndar nýtt afbrigði af misnotkun.
20. Hvers vegna geta þeir sem eyðlögðu íslenskt samfélag boðið í félög sem hið opinbera hefur fengið í fangið frá þeim?
21. Er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með veð í Landsvirkjun?
22. Hvað er áætlað að viðræður við ESB kosti?
23. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki lagt fram skýrslu um skoðun sína á máli manna eins og Michael Hudson, John Perkins, Anne Pettiford o.m.fl.?
Þær eru næstum ótakmarkaðar spurningarnar sem stjórnvöld hafa komið sér undan að svara.
Enn á ég eftir að spyrja mikilvægastu spurninganna:
Hvers virði er íslensk alþýða ríkisstjórninni? Hvers vegna á ríkisstjórnin svo erfitt með að stilla sér upp við hlið íslenskrar alþýðu? Ein fjölskylda hefur flutt til útlanda á dag allt þetta ár, þ.e. 151 fjölskylda. Skiptir þetta fólk engu máli?
Ráðleggingar til ríkisstjórnarinnar:
Ákveðið að íslenska þjóðin sé það mikilvægasta. Ákveðið að standa með þjóðinni hvað sem á gengur. Fáið þjóðina í lið með ykkur - ekki til að hlýða ykkur heldur til að leiðbeina ykkur. Hlustið á þjóðina, horfið á fólkið og þá rennur upp fyrir ykkur að þið hafið gengið of langt. Þið eruð búin að misbjóða fólki og þannig verður ekki áfram haldið.
Fáið þjóðina í lið með ykkur um að ákveða að fólkið sem varð fyrir barðinu á íslensku bankafjárglæframönnunum fái allar nauðsynlegar upplýsingar héðan og aðstoð til að innheimta skuldir sínar hjá fjárglæframönnunum. Hafi ISG og GH undirritað samning sem er haldið leyndum fyrir þjóðinni þá er það nokkuð sem þau sjálf verða að axla.
Takið ákvörðun, ríkisstjórn, um að verja þjóðina gegn samningi sem mun taka frá henni allt eðlilegt líf. Ykkar er valið um að vinna með þjóðinni eða hafa hana á móti ykkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Allt eru þetta góðar og gildar spurningar sem ég vil gjarnan fá svör við líka. Mér finnst þessi stjórn eins og tvær síðustu hafa tekið stöðuna á móti fólkinu. Allir sem brotlegir hafa gerst sleppa, en við sauðsvartur almúginn eigum að borga allt í topp.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.6.2009 kl. 02:36
Komið þið sælar; Rakel og Jóna Kolbrún !
Rakel ! Hvernig dirfistu; að láta standa athugasemdalaust : ''Ég held ennþá að Jóhanna vilji vel'' o.s. frv., frá einhverri persónu, í athugasemdakerfi þínu ?
Trúi því ekki; fyrr en ég tek á, að þú; Rakel, hafir látið ginnast, af fagurgala þessarrar fordæðu, hver Jóhanna Sigurðardóttir hefir marg sannað sig í, að vera.
Er þér farið að förlast; þarna í lognmollunni norður við Eyjafjörð, spjallvinkona góð ?
Tek undir; HVERT EINASTA orða, vinkonu okkar, Jónu Kolbrúnar, sem oftar og fyrri, í þessum efnum. Bendi ykkur á; að lokum, á nýjustu stórskota hríð mína, á hendur íslenzkum spillingaröflum, á minni síðu, fyrir stundu, ágætu stöllur - sem aðrir þeir, hverjir geyma síðu Rakelar og brúka.
Með beztu kveðjum - sem oftar; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 03:13
Óskar Helgi, ég hef tekið eftir því að það hefur þyngst verulega í þér hljóðið að undanförnu eins og reyndar mörgum öðrum. Ég lái þér það ekki en sjálf myndi ég aldrei nota eins stór orð og þú.
Ég sagði mitt álit á því hvernig mér finnst Jóhanna Sigurðardóttir standa sig sem stjórnmálamaður í pistlinum sem ég skrifaði í gærkvöldi og uppskar athugasemdina sem ég birti hér að ofan. Ég „dirfðist“ til að birta þessa athugasemd óbreytta (breytti reyndar greinamerkjasetningu lítillega) á minni eigin síðu.
Þér má í sjálfu sér finnast hvað sem þú vilt um það en ég myndi gjarnan vilja benda þér á að sleppa ekki villihestum þinnar réttlátu reiði á slíkt skeið að þér sjáist ekki fyrir hvernig málflutningur þinn getur orkað. Þrátt fyrir að mér finnist reiðin vera farin að hlaupa fullmikið með þig út í gönur af glannalegum og jafnvel meiðandi orðum, á stundum a.m.k., þá fylgist ég með blogginu þínu og var þess vegna búin að lesa síðustu færsluna þína.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.6.2009 kl. 04:26
Hræddur er ég um að verið sé að hilma yfir svo stóran glæp að kæmist hann upp yrði hér uppreisn. Eða getur eitthvað annað skýrt þessa æpandi þögn og ráðaleysi stjórnmálaflokkana? Getur einhver komið með aðra skýringu? Efnahagskerfi lands getur ekki hrunið eins og það gerði án þess að eitthvað sé verulega rotið eða að óviðráðanlegar náttúruhamfarir hafi átt sér stað sem gerðist ekki.
Arinbjörn Kúld, 1.6.2009 kl. 09:40
Tek undir hverja einustu spurningu hér fyrir ofan...það er langt frá því að öll kurl séu komin til grafar en þjóðin stendur á grafarbakkanum hulin leyndinni og veit ekkert hvert næsta skref verður eða hvert það mun bera hana. Ég vona líka innilega að stjórnvöld skrifi ekki undir Icesawe samningana á fimmtudaginn og krefst þess að íslenska þjóðin fái að vita í smáatriðum hvað þessi samningur felur í sér og hversu mikið á að láta falla á okkur. Við hljótum að hafa eitthvað um þetta allt að segja...svör strax!!!!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.6.2009 kl. 12:36
Komið þið sæl; á ný !
Rakel !
Ég hygg; að ég sé nú ekki, sá eini, hver er að missa þolinmæðina, gagnvart þessu liði, sem skarar elda, að sínum eigin óverðugu bakhlutum, og ég vil mótmæla þér harðlega, þá þú segir, að ég sé stóryrtur, fjarri því; ég á í smiðju minni, miklu herfilegri orð, þessum mannskap til handa.
Ætli haldi ekki aftur af mér; það uppeldi, hvert ég naut, í ríkum mæli, úr foreldrahúsum, á sínum tíma, ef eitthvað er ?
Það er ánægjulegt; sé svo málum háttað, í þínum ranni, að þú sjáir einhverja ljósskímu, við enda gangnanna, Rakel mín, og endilega,, láttu okkur hin vita, þá birta sú kynni að verða áþreifanleg.
Sjálfsblekkingar; hins mætasta fólks, eins og þín á, að mögulegt sé að treysta þessum valdhöfum, fyrir einhverju lítilræði, til bjargráða - hvað þá; einhverju stærra, eru beinlínis; hættulegar, kæra spjallvinkona.
Gefum góðan gaum; að orðum þeirra Arinbjarnar og Katrínar Snæhólm, hver virðast; ein allt of fárra, hafa eðlilegt jarðsamband - til að greina kjarna frá hismi, Rakel mín.
Með; hinum beztu kveðjum, sem oftar og fyrri, gott fólk /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.