Á Austurvöll 23. maí kl. 15:00
22.5.2009 | 22:24
Hagsmunasamtök heimilanna hafa blásið til fundar á Austurvelli. Fundinn vilja þau kalla samstöðufund en í fréttatilkynningu frá þeim segir: Í ljósi þess neyðarástands sem ríkir á Íslandi boða Hagsmunasamtök heimilanna til samstöðufundar á Austurvelli laugardaginn 23.5.2009 kl. 15.00.
Ég trúi ekki öðru en allir séu orðnir vel kunningir þessum samtökum og þeirra góðu baráttu. Annars bendi ég á heimasíðu þeirra þar sem bæði er hægt að skrá sig í samtökin og fylgjast með starfi þeirra.
Ég á bágt með að skilja annað en margir hafi orðið fyrir sárum vonbrigðum yfir stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar og yfir því djúpa skilningsleysi sem þau sýna gagnvart stöðu heimilanna í landinu. Þess vegna hvet ég alla þá sem vettlingi geta valdið til að fjölmenna á Austurvöll á morgun og sýna Hagsmunasamtökum heimilanna og baráttu þeirra samstöðu. Eða eins og stendur í fréttatilkynningu þeirra að taka stöðu með heimilunum.
Ræðumenn fundarins eru eftirtaldir:
- Bjarki Steingrímsson, varaformaður V.R.
- Guðrún Dadda Ásmundardóttir, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
- Ólafur Garðarsson, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
- Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarstjórnarfulltrúi
Hljómsveitin EGÓ kemur líka fram.
Flytur skýrslu um efnahagsmál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Facebook
Athugasemdir
Ég ætla að sjálfsögðu að mæta.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.5.2009 kl. 03:37
Æ, æ, æ, þið einföldu sálir - ætlið þið nú að kalla kapítalsimann aftur yfir okkur?!?!
Þór Jóhannesson, 23.5.2009 kl. 04:09
Þór, það fer þér ekki að setja þig þannig yfir okkur hin og væna okkur um það að við séum að hrópa eftir kapítalisma þegar við viljum vekja athygli á aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart vanda heimilanna.
Ég spyr líka hvað er það annað en kapítalismi að setja ESB í þann forgang sem núverandi stjórn hefur gert? Ég held reyndar að þú sést ekki rétti maðurinn til að spyrja þeirrar spurningar. Held að ég sé með það á hreinu að þú sést á móti inngöngu inn í það bandalag rétt eins og ég.
Þú ættir líka að vera með það á hreinu að ég og margir þeirra sem þú kallar einfaldar sálir viljum minna stjórnvöld á skyldur þeirra við heimilin og þjóðina. Það er okkar að veita aðhald nú eins og endranær þegar stjórnvöld týna áttum. Ef ég man rétt varst þú meðal þeirra sem fórst fremstur í flokki þeirra sem það gerðu síðastliðið haust. Því miður hefur útlitið fyrir það að almenningur verði látinn blæða fyrir afæturnar lítið sem ekkert breyst síðan þá ...
Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.5.2009 kl. 16:30
Rakel - því miður ertu að apa vitleysuna upp úr kapítalistunum nákvæmlega eins ogþ þeir matreiða hana ofan í fólk. Ég segi því miður því nú þurfum við einmitt að standa saman að baki stjórn réttlætis og aðgerða (já aðgerða fyrir heimilin svo um munar fyrir 98% þeirra og öll sem skilið eiga hjálp) en ekki boða sundrung svo kaptíalistarnir nái að sækja sér völdin að nýju. Þá fyrst myndirðu átta þig á því hvað óréttlæti er - ó já.
Þór Jóhannesson, 23.5.2009 kl. 16:55
Síst af öllu langar mig til að rífast við þig Þór en ég á bágt með að skilja þá heift sem býr í orðum þínum og framsetningu að undanförnu. Ég vissi ekki til að ég apaði upp neina vitleysu eftir einum eða neinum nema mínum eigin huga. Hins vegar hef ég tekið eftir því að við erum nokkur sammála um að forgangsröðun núverandi stjórnvalda er í hæsta máta furðuleg miðað við það sem við okkur blasir.
Ég hef líka tekið eftir því að þú ert það alls ekki og ferð mikinn og talar jafnvel niður til þeirra sem setja út á 80 daga stjórnina og svo þá nýmynduðu. Eins og ég sagði áðan sé ég ekki enn allan muninn á þeirri sem var felld og þeirri sem situr núna hvað varðar hluttekningu þeirra með þeim brýna vanda sem heimilin og fyrirtækin í landinu standa frammi fyrir. Ég vil reyndar minna á vandanum sem velferðarkerfið stendur frammi fyrir líka. Ég efast minna um vilja þessarar ríkisstjórnar til að leysa þessi vandamál en ég efast fullkomlega um getu hennar miðað við það sem hefur komið fram, því miður!
Ég geri mér fulla grein fyrir að óreiðan eftir 18 ára aðdraganda að þeirri ringulreið sem nú ríkir í efnahagslífinu og stjórnsýslunni þarf meira en einn fingrasmell til að koma í lag aftur. Þau úrræði og forgangsverkefni sem ríkisstjórnin hefur kynntfram að þessu virðast því miður stefna okkur í sömu stöðu og aðgerðarleysi síðustu ríkisstjórnar hefði gert að lokum: atvinnuleysi, gjaldþrot, eignaupptöku og landflótta!
Mér er alveg sama hvort það heitir kapítalismi, fasismim, kommúnismi, nasimsi, eða hvað þær heita allar þessar stefnur sem valdhafarnir hafa snúið gegn þegnum sínum, ég sætti mig ekki við það að verða gerð að afborgunarþræl á lánum sem ég stofnaði ekki til (reyndar ránum ef út í það er farið). Hvort sem þú vilt sjá það eða ekki þá er málunum enn sem komið er enn þannig háttað að við erum að súpa rándýrt seiði að getuleysi stjórnvalda. Ég vona a.m.k. að það heiti ekki einhverjum öðrum nöfnum.
Ég hef reyndar meiri trú á því að við náum að eyrum Steingríms og Jóhönnu en Geirs og Ingibjargar fyrr í vetur. Mig undrar reyndar hve heyrnarsljó þau eru. Ég fæ engan veginn séð að mótmæli gefi aðeins niðurstöðuna kapítalismi. Eiginlega þvert á móti! Hins vegar getur verið að þú vitir að þau ætli ekki að hlusta á þjóðina. Ef þannig er í pottinn búið þá er illmögulegt að sjá hvernig það sem var hugsað sem áminning og aðhald fer...
Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.5.2009 kl. 17:26
Fólk kaus þetta yfir okkur í lýðræðislegum kosningum í 18 ár og bað bara um meira svona - nú er komið að skuldadögum. Lýðræðislegur vilji meirhluta þjóðarinnar valdi þetta kerfi yfir okkur þrátt fyrir að fólk eins og ég og fleiri reyndum að vara ítrekað við því, nú þurfa þeir sem tóku lánin og nýttu lýðræðislegan rétt sinn svona hrapalega bara að borga fyrir sukkið og óeðlilegu fyrirgreiðslurnar - sorry! Ekki vil ég boga sukk þeirra LÍKA!
Þór Jóhannesson, 23.5.2009 kl. 17:50
Þú veist það Þór, eins vel og ég, að það er enginn tilbúinn til að taka að sér að borga skuldir fjárglæframannanna, sama hvaða nafni þeir nefnast, bara vegna þess að fólk hafi kosið þetta eða hitt yfir sig. Við borgum öll í vöruverði, sköttum, vöxtum og verðtryggingum. Við borgum líka öll með lélegri þjónustu af öllu tagi. Jafnt þú og ég og allir hinir. Það er ekkert betra að láta það dynja yfir sig undir svokallaðri vinstri stjórn sem er ráðalaus gagnvart því verkefni hvernig á að taka til eftir glundroða 18 ára fyrirgreiðslupólitíkur.
Eins og ég sagði áðan þá veit ég að efnahagur landsins og siðferðisvitund stjórnsýslunnar verður ekki endurvakinn með einum fingrasmelli en það verður að byrja á grunninum sem erum við almenningur í landinum. Sjái stjórnvöld það ekki verðum við að rísa upp og benda þeim á. Ég átta mig ekki alveg á því hvort þú ert að tala um niðurstöðu síðustu kosninga, þ.e. 25. apríl, en niðurstaða þeirra voru mér vonbrigði líka.
Ég hefði auðvitað viljað sjá gerendurna í efnahagshrunastjórnunum segja af sér í stórum stíl. Ég hefði líka viljað sjá þjóðina dæma þá sem annaðhvort ullu hruninu með ívilnunum og/eða aðgerðarleysi úr leik. Í stað þess var Samfylkingunni afhent stýrið og sjáðu hvert hún vill stýra okkur! Í staðinn fyrir leyfisbréfið sem Framsókn og Sjálfstæðismenn færðu vinum sínum til að þeir mættu leika sér að sjálfstæði og auð þjóðarinnar vill Samfylkingin nú færa einhverjum erlendum höfðingum þetta sama vald.
Es: Erum við ekki örugglega bara að rökræða núna, ekki rífast? Mér finnst þú a.m.k. svolítið hófstilltari í síðasta tilsvari. Þú ert með öðrum orðum ekki að tala niður til mín og segja að ég og allir aðrir en þú og þeir sem eru á sama máli og þú séu blábjánar með heila á við halakörtur.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.5.2009 kl. 18:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.