Hvað bíður...

Það er í rauninni svo margt sem engin svör hafa fengist við enn. Þá er ég að tala um svör við eðlilegum spurningum sem tengjast efnahagshruni landsins á síðasta ári. Ég spyr sjálfa mig svo margra spurninga en það ríkir dauðaþögn um það sem mig þyrstir mest að vita. Þeir sem ættu að vera að upplýsa mig eru a.m.k. dauðahljóðir.

Þetta eru þó allt upplýsingar sem kjósendur eiga heimtingu á að fá að vita svo þeir geti gert upp hug sinn og áttað sig á því hverjum þeir geti treyst til að gegna umboði atkvæðis síns. Ein mikilvægasta spurningin í því sambandi er staða ríkisstjóðs en það er ljóst að hún er slík að boðaður hefur verið gífurlegur niðurskurður og samdráttur á flestum sviðum. 

Sumir spáðu því stax í upphafi að miðað við áætlað umfang hrunsins væri ljóst að ríkið þyrfti að draga verulega úr allri þjónustu, segja upp starfsfólki og jafnvel lækka laun starfsmanna sinna. Einhverjir fussuðu yfir slíkum hrakspám og töluðu um niðurdrepandi svartsýni en nú blasir launalækkun opinberra starfsmanna við. Hugmyndin hefur a.m.k. verið viðruð eins og kemur m.a. fram í tengdri frétt.

Viðbrögð miðstjórnar Bandalags háskólamanna eru ósköp eðlileg þar sem fulltrúar hennar segja: „að yfirlýsingar ráðamanna um lækkun launa opinberra starfsmanna séu marklausar meðan upplýsingar um stöðu ríkissjóðs fáist ekki.“ Samkvæmt kjarasamningum getur launagreiðandi ekki lækkað laun einhliða án þess að koma með haldbær rök fyrir slíku. Í þessu máli hlýtur því að teljast eðlilegt að krefjast þess að ríkið leggi fram tölur um stöðu ríkisstjóðs sem rökstyðji kjaraskerðingu þeirra sem eru á launum hjá ríkinu.

Hin spurningin varðar samninginn sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það muna væntanlega allir eftir fljótaafgreiðslunni á því máli en það má rifja upp umræðurnar í kringum hana hér. Þingskjalið frá 5. desember er undir þessari krækju.

Báðar spuningarnar eru í rauninni grundvallarspurningar varðandi stöðu þjóðarinnar og framtíð. Það er þess vegna mjög brýnt að almenningur fái þeim svarað ekki síst í ljósi þess að framundan eru mjög mikilvægar kosningar. Er það kannski þess vegna sem slík dauðans kyrrð ríkir um þessi efni?

Getur verið að samningurinn sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði við Alþjóðagjaldeyrisstjóðinn leiði okkur til þeirrar framtíðar sem bloggarinn Jón Þór Ólafsson setur fram i meðfylgjandi færslu sinni sem hann birti í nóvember á síðasta ári? Það er a.m.k. full ástæða til að spyrja sig þeirrar spurningar!!

Mig langar til vekja athygli á því að það hefur ekki verið gefið upp hverjir eiga jöklabréfin þannig að það er ekkert víst að það séu erlendir fjárfestar eins og flestir gerðu ráð fyrir sl. haust. Það er nefnilega allt eins víst að eigendur þeirra geti verið Íslendingar! 

IMF mun gera Ísland auðlindalaust í 8 skrefum ef þú gerir ekkert.

1. IMF krefst þess að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti í 18% til að styrkja krónuna, sem mun í raun sliga fjölskyldur og fyrirtæki landsins, sem endar í miklum gjaldþrotum og efnahagserfiðleikum.

2. IMF krefst þess að íslenska ríkið gangi í ábyrgð fyrir Icesave-reikningum Landsbankans sem eykur skuldir Íslands.

3. IMF lánar íslenska ríkinu álíka upphæð (250 til 300 milljarðar króna) og erlendir bankar eiga í svokölluðum jöklabréfum sem þeir gáfu út í íslenskum krónum í þeim tilgangi að styrkja krónuna. 

4. Þegar krónan fer á flot verður íslenska ríkið að nota IMF lánið til að kaupa og styrkja hana. Sem þýðir að þegar jöklabréfin falla á gjalddaga á næstu vikum og mánuðum og erlendu fjármagnseigendurnir fara að selja krónurnar sínar fá þeir meira fyrir þær.

5. Á nokkrum mánuðum selja eigendurnir jöklabréfa krónur fyrir um 200 til 300 milljarða króna meðan íslenska ríkið kaupir fyrir svipaða upphæð. En á þeim tíma eru stýrivextirnir búnir að rústa efnahag landsins og flóttinn úr krónunni verður svo mikill að ríkið verður á einhverjum tímapunkti að hætta að kaupa krónu og leyfa henni að falla.

6. Þegar hér er komið eru sömu stjórnmálamenn, og sögðu að bankakerfi landsins væri traust rétt fyrir hrunið búnir, að fara að ráðum IMF og skuldsetja Ísland, sólunda láninu og brenna efnahaginn með ofurstýrivöxtum til að halda uppi krónunni sem bjargaði erlendum fjármagnseigendum úr krónunni áður en hún hrynur fyrir rest.

7. Eftir algert hrun krónunnar koma erlendir fjármagnseigendur til að kaupa íslensk fyrirtæki á brunaútsölu og svo kemur rúsínan í pylsuendanum: Ónýtur efnahagur Íslands stendur ekki undir afborgununum til IMF svo þeir krefjast einkavæðingar og sölu á auðlindum Íslands!

8. Ríkisstjórn Íslands byrjar að selja kvótann sem við eignuðumst með yfirtöku á bönkunum og eftir það byrjar einkavæðingin: Orkuiðnaðurinn m.a. Landsvirkjun, land undir jarðvarma- og fallvatnsvirkjanir og réttindi yfir hugsanlegri olíu sem finnst á Drekasvæðinu ásamt Gvendarbrunnunum.

Þetta er ekki endilega nákvæmleg framvindan en þeir sem þekkja sögu IMF vita að sjóðurinn hugsar um hagsmuni erlendra fjármagnseigenda og skapar oft kringumstæður í ríkjum sem hann lánar til þess að auðvelda erlendum fjármagnseigendum að komast yfir auðlindir ríkisins. (Tekið af bloggi Jóns Þórs Ólafssonar)


mbl.is Ósátt við yfirlýsingar um kjaraskerðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sæl, hef heyrt að krafa sé um að ríkissjóður þurrki út sinn halla, á þriðja ári næsta kjörtímabils.

Ef til vill, ástæða þess, að Steingrímur, er tregur að hugsa opinberlega lengra fram í tímann, en 2 ár.

Vonin er greinilega, að 100 milljarða niðurskurður muni duga, þ.e. að efnahagslegur viðsnúningur og hækkun ríkisútgjalda vegna þess, muni þurkka út síðustu 50 milljarðana i halla.

Persónulega grunar mig, að lengra verði í hagvöxt en þetta.

Kv. Einar Björn Bjarnason

Einar Björn Bjarnason, 15.4.2009 kl. 22:41

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Úff, hvað þú gerir mig forvitna! En er sammála þér að miðað við aðstæður eins og þær eru nákvæmlega í dag þá er það mikil bjartsýni að láta sig dreyma um eitthvað sem tekur því að kalla hagvöxt eftir tvö ár.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.4.2009 kl. 23:34

3 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég get ekki hengt mig upp á, að þetta sé rétt. En, á þessari bloggsíðu má finna, tilvitnun í grein, eftir mann.

http://eyglohardar.blog.is/blog/eygloh/

Kv. Einar B. Bjarnason

Einar Björn Bjarnason, 16.4.2009 kl. 00:03

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mig langar nú bara til að kalla á einhverjar háttskipaðar himnaverur eftir að ég las þetta á blogginu sem þú vísaðir á:

Hallinn á ríkisfjármálunum í Lettlandi má vera 5% í ár.  Til að ná þessu er gripið til klassískra verkfæra hjá AGS með því að lækka laun opinberra starfsmanna, skera niður þjónustu og hækka skatta. Kennarar í Lettlandi fjölmenntu nýlega til að mótmæla 10% launalækkun, en aðrir hópar opinberra starfsmanna hafa orðið fyrir allt að 20% launalækkun.  AGS hefur einnig lagt til að landið felli gengið, en það hefur í mörg ár verið tengt við evruna.  Ríkisstjórnin hefur ekki verið tilbúin að skoða það.

Samkvæmt þessu þá hefur Samninganefnd ríkisins fengið óvæntan liðstyrk frá ósýnilegum strengjabrúðustjórum. Ég verð nú bara að leyfa mér að biðja guð að hjálpa opinberum starfsmönnum! Hingað til hafa fulltrúar SNR  nefnilega þótt alveg nógu harðsnúnir og erfiðir í samningum án þess að þeir væru með meðlimi Alþjólegra GlæpaSamtaka á fjarstýringunni. 

Set hérna krækju sem leiðir beint inn í færsluna sem Einar Björn vísar í hér að ofan og þakka honum fyrir ábendinguna. Hvet alla sem hafa áhuga á að skoða frekar það sem hann vísar til hér að ofan að lesa þessa færslu Andra Geirs Arinbjarnarsonar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.4.2009 kl. 00:45

5 identicon

Já, þessi þögn er hálf óhugguleg. Í besta falli móðgun við kjósendur. Réttast væri að sitja heima á kjördag.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 19:20

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Elín: Það að sitja heima er ákveðin uppgjöf eða í versta falli yfirlýsing um það að maður samþykki núverandi ástand. Þess vegna er áríðandi að allir myndi sér skoðun og kjósi. Þeir sem eru óánægðir ættu að kjósa einhverja aðra flokka en þá sem hafa stulað að þessari þögn. Flokka sem krefjast breytinga og lýðræðisumbóta.

Í mínum huga er aðeins einn kostur til að tryggja það en ég ætla ekki að taka mér það bessaleyfi að segja þér hvað þú átt að kjósa En ég hvet þig samt eindregið til að nýta þér kosningarétt þinn. Við megum ekki afsala okkur því lýðræði sem við búum þó við með því að gera það ekki!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.4.2009 kl. 22:42

7 identicon

Rétt Rakel. Þetta er uppgjöf. Manni fallast stundum hendur. Bind vonir við Birgittu. Mun fylgja fötum hennar vegna og drattast á kjörstað.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 09:07

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég skil vel að þér og fleirum skuli stundum fallast hendur frammi fyrir öllu því sem hefur gengið á frá liðnu hausti. Ég hef oftar en einu sinni verið við það að fallast hendur líka Mikið er ég ánægð að heyra að þú ætlir að kjósa. Skil vel að þú bindir Birgittu! Ég bind vonir við það að hún sé örugg inn á þing!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.4.2009 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband