Nú er rétti tíminn!

Það eru sannarlega skrýtnir tímar sem við lifum. Nánast á hverjum degi frá 29. september hefur þjóðinni borist fréttir af alls kyns spillingu sem má rekja til óhófs og græðgi. Það er kunnara en frá þurfi að segja hverjar afleiðingarnar eru fyrir þjóðina. Hún situr sem lömuð, skuldug upp fyrir haus og alltof margir atvinulausir og sem stefna í greiðslustöðvun. Atvinnufyrirtækin eru ekki síður í stórkostlegri hættu. Framtíðin er því svo sannarlega kvíðavænleg svo ekki sé meira sagt.

Vegna viðbragða stjórnvalda við efnahagshruninu síðastliðið haust og aðgerðarleysis þeirra næstu fjóra mánuði á eftir vöknuðu upp grunsemdir margra um að þau væru svo flækt í spillingafenið sem leiddi til hruns efnahagslífsins að þeir þyrðu ekki að hreyfa sig til eðlilegrar forgangsröðunar. Þ.e.a.s. að miðað við það að þeir eru þjóðkjörnir þingmenn þá áttu þeir að grípa strax til viðeigandi aðgerða til bjargar heimilunum og atvinnulífinu en líka að axla sína ábyrgð og verja orðspor þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin sem tók við eftir fall þeirrar gömlu hefur svo sannarlega sýnt meiri drift og stundum vilja til að koma á móts við hag landsmanna en alls ekki nægilega mikið. Heimilin og atvinnufyrirtækin eru þó enn þá í hættu. Upplýsingar um lánasamninga og skuldbindingar þjóðarinnar liggja enn í þagnargildi sem er auðvitað óþolandi ástand. Kjósendur eiga að sjálfsögðu rétt á að vita hvernig fyrrverandi ríkistjórnir hafa farið með hagsmuni þeirra áður en þeir ganga til atkvæða.

En nú hefur annað komið upp sem þingflokkarnir geta ekki vikið sér undan. Það hefur komið í ljós að þeir hafa þegið styrki sem telja marga milljónir samanlagt! Samt eru þeir flokkar sem þáðu mest reknir með stórkostlegu tapi! Svo hlýtur það líka að vekja upp margar spurningar að meira en helmingur þingmanna á eða situr í stjórn ýmissa fyrirtækja. Það væri auðvitað forvitnilegt að sjá lista yfir það um hvaða fyrirtæki en þetta hlýtur að teljast óeðlilega hátt hlutfall!

Það er sem sagt ekkert lát á þeim spurningum sem vakna upp í sambandi við heilindi og dygðir meiri hluta þingheims. Það vekur líka furðu að hlutfall tortryggilegra þingmanna er í réttu hlutfalli við aldur framboðana sem þeir eru fulltrúar fyrir. Þannig eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem er elsti starfandi flokkurinn í landinu, langtortryggilegastir. Ég neita því ekki að ég hef alltaf verið á móti þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir. Hreinlega vegna þess að stefna hans stríðir gegn réttlætiskennd hvað varðar jöfnuð.
Lestirnir þrír
Það er þó ekki fyrr en á allra síðustu misserum sem mig hefur farið að gruna ýmsa innan raða flokksins um bein svik og annan alvarlegan óheiðarleika. Það er kannski ekki úr vegi að taka það fram hér að það voru einmitt orð Geirs H. Harde í kjölfar efnahagshrunsins sem kveiktu mér þá fullvissu að Sjálfstæðisflokkurinn og hollvinir hans þyldu ekki þá rannsókn sem hrunið kallaði óneitanlega á.

Fyrstu viðbrögð forsætisráðherra síðustu ríkisstjórnarinnar voru nefnilega þau að nú væri ekki rétti tíminn til að leiða fram sökudólga! Af hverju valdi hann að gera þessi orð að mikilvægustu skilaboðunum til þjóðarinnar á sama tíma og þó nokkur hluti hennar uppgötvaði það sér til óumræðanlegrar hrellingar að innistæður þeirra í bönkunum höfðu horfið eða rýrnað umtalsvert?

Ef tíminn til að leiða fram sökudólgana var ekki þá, þá er hann runninn upp núna! Brátt leggja flokkarnir sjálfa sig í dóm kjósenda. Ég trúi ekki öðru en allir verði sammmála um að það sé orðið löngu tímabært að leiða fram þessa sökudólga og refsa þeim við hæfi! Kjósendur hljóta að vera búnir að átta sig á því að það var ekki fyrir hagsmuni þeirra sem stjórnarflokkar síðustu ára hafa starfað. Þvert á móti þá voru þeir tilbúnir að stefna landi og þjóð beint í gúlagið bara ef þeir gátu lifað eins og kóngar!
Eiginhagsmunaseggur


mbl.is Þingmenn tengdir 55 fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband