Frá stöðu í mótmælum til sætis á framboðslista
12.4.2009 | 21:12
Þeir sem hafa fylgst með þessu bloggi frá upphafi vita að ég opnaði það fyrst sl. vor en rak varla upp bofs á þessum vettvangi fyrr en í kjölfar efnahagshrunsins í lok september á síðasta ári. Þá notaði ég það einkum til að vekja athygli á mótmælagöngum, borgarafundum og stofnun grasrótarhópa sem allt tengdist þeim ægitíðindum sem skóku samfélagið um þetta leyti.
Ég uppgötvaði líka að einmitt á þessum vettvangi voru margir sem litu það sem var að gerast í samfélaginu svipuðum augum og ég. Bloggið varð því fljótlega sá vettvangur sem ég leitaði til mér til hugarhægðar. Hér fann ég fólk sem ég deildi hugmyndum og hugsjónum með. Sumir reyndust m.a.s. bestu fréttaveiturnar og aðrir skrifuðu þannig að það veitti mér von og öryggi að lesa skrif þeirra.
Ég hef borið gæfu til að kynnast mörgum þeirra sem fljótlega urðu uppáhaldsbloggararnir mínir en ég hef líka orðið fyrir öðru óskemmtilegra sem má rekja til þess sem ég hef sagt og birt hér á þessum vettvangi. Um það ræði ég e.t.v. síðar eða þegar ég er tilbúin til þess að leysa frá þeirri skjóðu.
En það var ekki bara bloggið sem ég sneri mér að í kjölfar hörmulegra tíðinda sl. hausts. Ég mætti á nokkra borgarafundi hér á Akureyri fyrir áramót og líka á laugardagsmótmæli bæði hér og í Reykjavík. Eftir áramótin gekk ég til liðs við Sigurbjörgu Árnadóttur og fleiri drífandi konur en við höfum þegar haldið sjö borgarafundi á þessu ári.
Eitt af því sem hefur vakið furðu mína í vetur er það að sumir hafa sakað mig um það að vera svo óþolandi pólitísk, alltof upptekna af því sem ég er ekki í nokkurri aðstöðu til að hafa áhrif á eða vera ótrúlega svartsýn. Ég svara þessu gjarnan þannig að ég sé ekki pólitísk heldur réttsýn, ekki svartsýn heldur raunsæ og það sé mesta bölsýnin að halda að manni séu allar bjargir bannaðar við að breyta því sem ógnar þó tilveru manns og þjóðarinnar allrar.
Af hverju er ég að rekja þetta allt... sennilega vegna þess að ég er að reyna að átta mig á því sjálf hvernig það atvikaðist að ég er komin í framboð! Aldrei datt mér í hug að það ætti fyrir mér að liggja! Þó hef ég heyrt það nokkrum sinnum í gegnum tíðina að ég ætti að vera í pólitík þar sem ég hafi svo ákveðnar skoðanir á mörgu því sem heyrir undir samfélgasmál, oft kallað pólitík. Ég hef alltaf tekið þessum athugasemdum sem aðferð til að þagga niður í mér...
Konan sem fór af stað síðastliðið haust og hélt að hún gæti haldið sig aftarlega í mótmælunum og gæti verið ósýnileg á blogginu hefur aldeilis komist að því að það var öðru nær! Að lokum ákvað hún að stíga skrefið til fulls og verða við hvatningu úr ýmsum áttum um að taka sæti á lista Borgarahreyfingarinnar.
Auðvitað tók ég þessa ákvörðun af vel athuguðu máli. Lá undir feldi í nokkrar vikur og velti þessu fyrir mér fram og til baka. Ástæðan fyrir því að ég tók þetta skref er ekki síst sú að mér sýnist að við mótmælendur getum því miður ekki treyst því öðru vísi að nauðsynlegum lýðræðisumbótum verði komið á í þessu samfélagi!
Mótmælin höfðu einhver áhrif en ekki næg. Þau voru hundsuð af þeim sem þau beindust gegn. Það er lýjandi að hrópa á torgum þegar fáeinir eða enginn hlustar. Þess vegna er eðlilegt að við reynum þá leið að sameina meginkröfur mótmælanna og förum í framboð. Ég komst a.m.k. að þeirri niðurstöðu að ég gæti ekki skorast undan því að taka þátt í þeirri göfugu viðleitni sem Borgarahreyfingin stendur fyrir við að vinna að þjóðþrifamálum.
Þess vegna er ég sem tók mér stöðu með þeim sem mótmæltu spillingunni, sem leiddi til þess alvarlega efnahagshruns sem opinberaðist í lok september á síðasta ári, komin í framboð. Kannski kemur það engum að óvörum nema mér sjálfri!
Borgarahreyfingin býður fram í öllum kjördæmum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:02 | Facebook
Athugasemdir
Gangi þér vel í framboðinu! Allt hugsandi fólk sem lætur sig þjóðfélagið varða ætti að taka þátt í stjórnmálunum.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.4.2009 kl. 21:32
Takk fyrir kveðjuna Salvör! Það getur verið að það sé rétt það sem þú segir en ég er enn að velta því fyrir mér hvort maður megi ekki hafa ákveðnar skoðanir á einhverju án þess að taka þátt í því
Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.4.2009 kl. 23:24
Ég óska þér til hamingju með þetta sæti og óskandi er að Borgarahreyfingin komi nú fólki á þing
Hilmar Gunnlaugsson, 12.4.2009 kl. 23:47
Takk, fyrir það Hilmar! Við deilum þeirri von að Borgarahreyfingin eigi fólk inni á þingi eftir komandi kosningar. Ég vona að hópurinn verði nógu stór til að vinna raunverulegum lýðræðisumbótum brautargengi.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.4.2009 kl. 23:51
Ég tel að Borgarahreyfingin hafi nú þegar með tilvist sinni sett töluverðan þrýsting á stjórnvöld og að sá þrýstingur muni aðeins eiga eftir að aukast þangað til raunverulegar lýðræðisumbætur sjá dagsins ljós. Annars er hér ný kynning á nokkrum frambjóðendum á bak við Borgarahreyfinguna. Gangi okkur öllum vel!
Sigurður Hrellir, 12.4.2009 kl. 23:57
Takk fyrir þína góðu viðbót Sigurður! og líka krækjuna á myndbandið
Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.4.2009 kl. 00:10
Ég hlakka til þess að sjá næstu skoðanakönnun, og vona að Borgarahreyfingin komi nokkrum á þing.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.4.2009 kl. 00:44
Heyr!
Hlédís, 13.4.2009 kl. 00:59
Takk fyrir innlit og innlegg Jóna Kolbrún og Hlédís
Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.4.2009 kl. 01:26
Gangi þér vel í baráttunni Rakel og vonandi á það eftir að sýna sig að stefnumál Borgarahreifingarinnar eiga mikinn hljómgrunn.
Magnús Sigurðsson, 13.4.2009 kl. 08:16
Ég held að stefnumál hreyfingarinnar eigi í raun töluverðan hljómgrunn meðal þjóðarinar. Hitt er svo spurning hvort okkur tekst að ná eyrum hennar og vekja nægilega athygli á því hvert innihald stefnuskrár Borgarahreyfingarinnar er þannig að kjósendur átti sig á því að hér er afl sem vill fyrst og fremst aflétta þvi óréttlæti sem blasir við landi og þjóð í dag.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.4.2009 kl. 14:15
Frábært að hafa fengið að kynnast þér smá Rakel - þú ert alveg frábær manneskja og mikið frábært að vita af þér í baklandinu:) Nú þurfum við bara að sanna með ráðum og dáðum að við verðum að vera oddaflokkur í næstu ríkisstjórn ...
Birgitta Jónsdóttir, 14.4.2009 kl. 12:37
Takk! sömuleiðis Birgitta mín Tek undir það með þér að það er fátt um fína drætti í hinu pólitíska landslagi að Borgarahreyfingunni undanskilinni. Þar er a.m.k. fólk sem hefur skýra sýn á það hver eru raunveruleg forgangsverkefni og hvernig skuli vinna að þeim. Auðvitað ætti hún þess vegna að komast í oddastöðu við myndun næstu ríkisstjórnar og gerð næsta stjórnarsáttmála. Ég ætla að það verði svo.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.4.2009 kl. 13:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.