Skilingsvana tómarúm handan við hversdaglegan raunveruleikann
6.4.2009 | 12:15
Bíddu! Er það ég, þingheimur eða blaðamaðurinn sem skrifar þessa frétt sem datt úr sambandi! Eru leiðslurnar inn í heilastöðvar þingmanna kannski lengri en gegnur og gerist! Ég meina horfðu þeir sem eru að ota fram frumvarpi um fjárfestingasamning vegna álvers í Helguvík ekki á Silfur Egils í gær!
Samkvæmt því sem þar kom fram eru það ekki lengur náttúruverndarsjónarmiðin sem vega þyngst í allri álversumræðu heldur ógnin sem íslensku efnahagslífi stafar af erlendum eigendum álfyrirtækjanna. Samkvæmt því sem John Perkings upplýsti okkur um, í samtali sínu við Egil Helgason, þá urðum við fórnarlömb ótrúlega ósvífinnar hryðjuverkasveitar á efnahagssviðinu um leið og við hleyptum Alcoa inn í landið. Mér þykir ekki erfitt að trúa þessum orðum hann miðað við það sem við vitum um raforkuverð til neytenda, stöðu Landsvirkjunar og hvernig austfjarðardraumurinn hefur komið út í reynd.
Mér finnst hins vegar með ólíkindum að lesa frétt af því inni á mbl.is að það sé enn verið að ræða eitthvað sem tengist álveri á Íslandi! Hvernig fara menn að því að loka svona á sér skilningarvitunum? Hvernig komast þeir hjá því að sjá, heyra og skilja? Lifa þeir hreinlega í einhverju skilningsvana tómarúmi handan við þann raunveruleika sem við hin horfum upp á?
Fyrir þá sem hafa ekki enn horft á viðtal Egils Helgasonar við John Perkings annars vegar og Micheal Hudson hins vegar, í Silfrinu í gær, þá bendi ég á að undir nöfnunum þeirra eru krækjur á viðtölin við þá undir nöfnunum þeirra. Eins var birtist stórmerkileg grein eftir Michael Hudson í Fréttablaðinu í gær en hún er sú fyrri af tveimur.
Það er hreinlega skylda hvers Íslendings að átta sig á því hvað er að gerast í íslensku samfélagi. Við tölin hér á undan og grein M.H. eru mjög upplýsandi og þess vegna góð leið til að átta sig á því við hverju við þurfum að bregðast. Þjóðin verður öll að átta sig á því hvaða ógnir steðja að landi þeirra og þjóð. Nokkrar þeirra eru því miður inni á þingi. Við verðum að byrja á því að koma þeim þaðan út áður en þeir vinna hagsmunum okkar frekari tjón. Þau eru orðin gífurleg nú þegar.
Alfarið á móti álverssamningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er allfarið fylgjandi stóriðju.
Offari, 6.4.2009 kl. 12:23
... sama þó hún sé í eigu erlendra aðila sem er skítsama um einstaklingana sem þurfa að borga raforkuna sem fer í að knýja hana áfram?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.4.2009 kl. 12:35
Hvernig hefur "Austfjarðadraumurinn" komið út í reynd?
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.4.2009 kl. 13:10
Ég veit ekki betur en þú búir þar sjálfur þannig að þú ættir ekki að þurfa annað en líta í kringum þig til að svara því. Auk þess reikna ég að þú fylgist með fréttum og vitir þess vegna nákvæmlega um hvað ég er að tala. Eða getur þú sýnt fram á þau stórkostlegu þjóðþrif sem álverið á Reyðarfirði hefur skilað?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.4.2009 kl. 13:19
Já, það get ég, sjá m.a. HÉR og HÉR
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.4.2009 kl. 13:58
Það væri forvitnilegt að sjá niðurstöður úr sambærilegri könnun og þeirri sem þú vísar í fyrri krækjunni sem væri framkvæmd núna. Svo væri líka forvitnilegt að vita hver skrifaði skýrsluna sem þú vísar í þeirri seinni og fyrir hvern hún var skrifuð.
Svo má ég líka til með að spyrja þig hvort þér þyki það eðlilegt að erlendir aðilar eigi þessa verksmiðju og álið sem verður til þar er flutt beinustu leið út? Mig langar líka til að vita hvort þér þyki eðlilegt að við fáum ekkert að vita hvernig raforkusamningarnir sem eigendurnir gerðu við íslenska ríkið séu leynisamningar?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.4.2009 kl. 14:58
Ég fæ ekki séð að niðurstöður úr sambærilegri könnun í dag ætti að vera eitthvað öðruvísi, nema þá enn meiri ánægja í ljósi ástandsins víða annarsstaðar á landinu.
Hvort hefur meira vægi í þínum augum Rakel, innihlad skýrslunnar eða hver skrifaði hana. Allt sem þarna kemur fram eru opinberar tölur og hægt er að sannreyna þær.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar eigi í álfyrirtækjum, Alcoa eða hverju öðru sem er. Öll þessi fyrirtæki eru á hlutabréfamörkuðum. Til stóð á sínum tíma að Íslendingar ættu um 50% í fyrirhuguðu álveri Norsk Hydro í Reyðarfirði, en Norðmenn hlupu frá verkinu eins og flestir vita.
Þetta með "leynisamninga" virðist vera viðtekin venja í þessum viðskiptaheimi. En þrátt fyrir "leyndina" virðast andstæðingar stóriðju á Íslandi, vita allt um arðsemi virkjananna. Einkennilegt! Ég persónulega vildi að þessari leynd yrði aflétt en það er spurning hvað það þýddi fyrir okkur. Þ.e. hvort samningsstaða okkur yrði verri fyrir vikið. Því get ég ekki svarað en mér finnst það ekki ólíklegt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.4.2009 kl. 15:50
Ég leyfði mér að gera mér vonir um efnismeira svar en takk fyrir það samt.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.4.2009 kl. 18:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.