Það skyldi þó ekki vera samhengi!
1.4.2009 | 23:28
Það eru auðvitað engin ný tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn tefji mál sem þeir eiga ekki frumkvæði að sjálfir. Það eru heldur engin ný tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn sé málsvari þeirra sem sitja að auðæfunum í landinu. Fyrir sumum eru það þó ný tíðindi að þessi rótgróni flokkur sem kennir sig við sjálfstæði þjóðar standi í vegi fyrir því sem meiri hlutinn hefur komist að samkomulagi um að tryggi framtíðarsjálfstæði íslensku þjóðarinnar en ekki tímabundið sjálfstæði einstaklinga og/eða forréttindastéttar.
Það eru e.t.v. líka ný tíðindi fyrir sumum að Sjálfstæðisflokkurinn gegni leynt og ljóst ýmsum hagsmunasamtökum einstaklinga í íslensku viðskipta- og efnahagslífi. Þegar mig rekur í rogastans yfir þvergirðingshætti ýmissa háværra fulltrúa flokksins inni á þingi þá velti ég oft fyrir mér þessum hagsmunatengslum. Ég spyr mig gjarnan að því hver hefur nú hringt í hvern og hvaða leynilegu samningar voru settir af stað við það sama tækifæri?
Þessar vangaveltur verða þeim mun áleitnari sem röksemdirnar fyrir andstöðu þingmannsins eru loftkenndari. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvers vegna Birgir Ármannsson setur sig upp á móti afgreiðslu stjórnlagafrumvarpsins sem liggur fyrir þinginu núna. Mér finnst rök hans nefnilega bara vera moldviðri af orðum án neinnar vigtar. Hann segir skv. fréttinni, sem þessi færsla er tengd við: það sæta furðu að forystumönnum ríkisstjórnarinnar skuli yfir höfuð detta það í hug á síðustu dögum þingsins að samstaða geti verið um að afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið.
Stjórnarflokkarnir og fylgiflokkar þeirra kvarta afar mikið yfir því að sjálfstæðismenn séu að tefja meðferð þess. Hins vegar gleymist oft í þeirri umræðu að áform stjórnarflokkanna um breytingarnar nú ganga út á að keyra málið í gegn með miklu skemmri aðdraganda og undirbúningi en nokkru sinni fyrr og án pólítísks samráðs auk þess sem afar skammur tími er ætlaður til málsmeðferðar í þinginu, segir Birgir.
Annað eins hefur nú gerst og af minna tilefni en hvað um það. Ég velti því eðlilega fyrir mér hvort Birgir sé bara þverplanki að eðlisfari eða hvort þessi rakalausi æsingur stafar kannski af kappi út af einhverju allt öðru og þá rakst ég á þetta í Viðskiptablaðinu frá í dag:
Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og aðra hagsmunaaðila, segir í umsögn Viðskiptaráðs.
Það er mat Viðskiptaráðs og fjölda fræðimanna að þjóð geti ekki átt eign og vegna þess hefur yfirlýsing í þá veru enga efnislega merkingu.
Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá sem skilað var til sérnefndar um stjórnarskrárfrumvarpið.
Viðskiptaráð gerir talsverðar athugsemdir við þá ætlan löggjafans að afgreiða frumvarpið með þeim hraða sem raun ber vitni.
Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og aðra hagsmunaaðila, segir í umsögn Viðskiptaráðs.
Í umsögninni kemur fram að eignarréttur að auðlindum verður, ef frumvarpið verður samþykkt, í höndum ríkisins og fer það með allar heimildir sem felast í eignarréttinum s.s. réttinn til umráða, hagnýtingar og ráðstöfunar. (Sjá frh. hér)
Eru einhverjir fleiri en ég sem taka eftir því að það er ekkert haft fyrir því að nefna fræðimennina sem vísað er til sem álitsgjafa. Ætli ástæðan sé sú að Viðskiptaráð er orðið svo vant því að hafa áhrif á störf Alþingis að þeim finnst ástæðulaust að færa rök fyrir gagnrýni sinni á störf þess með því að vísa í áreiðanlega og nafngreinda álitsgjafa.
Takið líka eftir tóninum og orðaforðanum í umsögn Viðskiptaráðs hér að ofan. Mér finnst málefnaflutningur Birgis bera ríkan keim af því sem kemur fram í þessari umsögn. Nánast eins og einn og sami maður hafi skrifað og talað.
Í umsögn Viðskiptaráðs kemur fram að það beri að hafa samráð. Ég reikna með að bæði heilbrigðisstarfsfólk og kennarar gætu tekið undir það að það beri að hafa samráð við hugsmunasamtök þess við lagabreytingar sem varða það og skjólstæðinga þeirra en er það raunin? Nei! En er líklegt að hagsmunasamtök kennara og heilbrigðisstarfsfólks notuðu sama tón og orðalag og viðskiptaráð hér að ofan?
Nei. Og ég tel að það sé vegna þess að þessi hagsmunasamtök hafi alls ekki setið við sama borð á liðnum áratugum. Viðskiptaráð hefur rutt öllum hindrunum úr vegi sínum og sópað öllum öðrum aftur fyrir sig og er nú orðið svo vant því að hafa áhrif inn á þingi að þeir senda frá sér orðsendingu þar sem þeir tala niður til þingsins. Þeir gera lítið úr þingmönnum og störfum þingsins á kurteisan og málefnanlegan hátt því þeir ætlast til að á þá sé hlustað og eftir þeirra ábendingum sé farið.
Sá sem sendir frá sér slíka yfirlýsingu er greinilega vanur því að á hann sé hlustað og eftir hans ábendingum sé farið. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt við það að eftir lestur hennar í Viðskiptablaðinu frá í dag glæðist sú hugmynd að það sé eitthvað meira sem búi að baki hins bullandi ágreinings sem Birgir Ármannsson og fleiri úr röðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins standa fyrir til að tefja afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpsins.
Bullandi ágreiningur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.4.2009 kl. 01:42 | Facebook
Athugasemdir
Mér verður illt þegar ég sé andlitið á Birgi Ármannsyni í sjónvarpinu eða á prenti Hann er örugglega með verstu stjórnmálamönnum sem ég hef séð, í flokki með Finni Ingólfssyni og Alfreð Þorsteinssyni.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.4.2009 kl. 00:54
Jamm, spurning hvort þú ert svona næm Jóna mín að þeir sem hafa almennt slæman málstað að verja orki þannig á þig
Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.4.2009 kl. 00:57
Góður pistill Rakel, eins og svo oft áður. Er þetta ekki sama viðskiptaráð og fyrir nokkrum misserum síðan taldi að hér þyrfti enga fyrirmynd að sækja til nágrannalandana því þau stæðu Íslenskri snilld langt að baki?
Magnús Sigurðsson, 2.4.2009 kl. 21:52
Góður pistill og sammála honum.
Gunnar Skúli Ármannsson, 3.4.2009 kl. 00:14
Takk fyrir innlit báðir og innlegg. Magnús: Ég held að það veitti ekkert af að skoða nákvæmlega inniviðina í þessu ráði og þá afstöðuna og gildismatið í leiðinni.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.4.2009 kl. 02:31
Ég held að þú hittir naglann á höfuðið Rakel. Þetta ráð þarf endurskoðunar við, ef það vill vera marktækt, það er svolítið 2007 ennþá.
Magnús Sigurðsson, 3.4.2009 kl. 16:57
Takk fyrir þína ágætu pistla. Þegar menn fæðast gamlir og alast svo upp í Heimdalli og íhaldinu þá verða skoðanir þeirra og athafnir úr takt við samtímann.
Halldór K Kjartansson, 3.4.2009 kl. 22:26
Halldór: Góður punktur
Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.4.2009 kl. 14:30
Þetta viðskiptaráð lifir í sínum eigin heimi og er ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.
Arinbjörn Kúld, 4.4.2009 kl. 16:52
En hafa ótrúleg áhrif á hann samt, ekki satt
Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.4.2009 kl. 17:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.