Útverðirnir eru enn á vakt

Síðastliðinn laugardag var ég við enn ein laugardagsmótmælin á Austurvelli í Reykjavík. Ég vissi fyrirfram að Hörður Torfason yrði fjarrverandi þennan laugardag. Hann hefur staðið í eldlínunni og mikið á honum mætt undanfarnið hálft ár. Hann þurfti því eðlilega að hlaða batteríin.

Umræddan laugardag var blautt og kalt. Það rigndi og Austurvöllur var nánast einn pollur. Ég veit ekki hvort það var veðrið eða það að batteríin eru að tæmast hjá mörgum þeirra sem stóðu svo þétt saman í upphafi mótmælanna og nokkuð fram á þetta ár. Það voru a.m.k. ekki margir mættir þennan dag. Hugur þeirra sem þarna voru er þó greinilega enn hinn sami og hingað til.
Frá mótmælunum á Austurvelli 14.03.2009Ræðumenn síðasta laugardags voru frábærir. Annar var Hjálmar Sveinsson, umsjónarmaður þáttarins Krossgötur sem er á dagskrá hjá RÚV. Ræða Hjálmars var virkilega flott. Hann benti á merkilegar tölulegar staðreyndir eins og þá að samkvæmt skoðunarkönnun Gallups þá ber 13% þjóðarinnar traust til Alþingis, þjóðarþings okkar Íslendinga. Mér finnst þetta ekki síst merkileg staðreynd í ljósi þess hve margir virðast samt hafa gefist upp á því að standa saman og minna kjörna þingfulltrúa þjóðarinnar á það fyrir hverja þessir fulltrúar starfa.
Hjálmar Sveinsson
Önnur merkileg töluleg staðreynd sem Hjálmar minnti á er að 80% þeirra þingmanna sem eru nú á þingi sækjast eftir endurkjöri. Ég minni á að þessir þingmenn hafa langflestir verið inni á þingi frá árinu 2004 eða frá árinu sem öllum sem höfðu aðgang að upplýsingum um stöðu fjármála þjóðarbúsins, bankanna og annarra fjármála- stofnana átti að vera ljóst að það stefndi í óefni. (Sjá t.d. þetta línurit á heimasíðu Seðlabankans)

Þessir þingmenn þögðu og sögðu okkur sem kusum þá ekki neitt. Kannski þögðu þeir vegna þess að þeir vissu ekki neitt? En ég spyr til hvers að endurráða þing- mann sem vinnur ekki vinnuna sína og ver hagsmuni þeirra sem réðu hann til starfans? Mér finnst það ekki skipta máli hvort umræddur þingmaður er vanhæfur vegna þess að hann skilur ekki línurit af því tagi, sem ég vísa í hér að ofan, eða nennir ekki að skoða þau. Hvort tveggja er tvímælalaus vanhæfni að mínum dómi og þess vegna hefur hann greinilega ekkert inn á þing að gera.

En svo ég haldi mig við orð Hjálmars sem minnti á eftirfarandi:

Gleymum því ekki að þingmennirnir sem við kjósum taka að sér að vera okkar rödd á þingi. Rödd og atkvæði er nánast sama orðið í mörgum evrópskum tungumálum. Það er mikilvægt að minna þingmenn á þetta  reglulega og ekki bara þegar eru kosningar til þings. Það er nefnilega ekki þannig að við borgararnir höfum alfarið afsalað okkur rödd okkar með því að greiða atkvæði. Við höfum rödd til að tjá okkur - heima hjá okkur, út á götu, á internetinu, í fjölmiðlum - já, og hér á Austurvelli fyrir utan þinghúsið.

Þá kom Hjálmar að þeirri ríku tilhneigingu sem hefur verið til þöggunar á liðnum árum og þá einkum í fjölmiðlum. Í þessu samhengi vék hann að útvarpsþættinum Speglinum sem var rakkaður niður af því hann þótti of gagnrýninn. Hann minnti okkur á orðin sem hafa verið notuð í þeim tilgangi þagga niður í hverjum þeim sem vogaði sér að reyna að rísa upp á afturfæturna og koma að gagnrýni og/eða ábendingum um það sem var að. Þetta eru orð eins og "öfgamenn, hælbítar, kverúlantar og afturhaldskommatittir". 

Ég reikna með að þeir séu þó bæði meðal bloggarar og mótmælenda sem kannast við þessi orð í sambandi við ýmis konar niðurrif hvað varðar ábendingar þeirra og gagnrýni. Ég spyr mig gjarna þeirrar spurningar hvort það séu þeir sömu og hafa og eru enn að reyna að þagga niður í þeim sem mótmæla sem hafa haft hvað hæst um einelti í undanfarandi mótmælum? Ég leyfi mér bara að spyrja vegna þess að það er skoðun mín að þessi ályktun eigi við nokkuð góð rök að styðjast.

Hjálmar Sveinsson hélt áfram ræðu sinni og fjallaði meira um fjölmiðla sem að hans mati hafa brugðist hlutverki sínu:

Nú er talað um að allir sem áttu að fylgjast með og gæta hagsmuna almennings hér á landi, hafi brugðist undanfarin ár. Það er alveg rétt. Fjölmiðlar hafa brugðist, á því er ekki nokkur vafi og í raun ætti að koma fram krafa um endurnýjun í heimi fjölmiðla alveg eins á Alþingi. En þegar litið er yfir sviðið má segja að sú endurnýjun sé furðulega lítil. Ritstjórar, fréttastjórar, ritstjórnafulltrúar og útvarpsstjórar eiga ekki að vera undanþegnir gagnrýni. Það er meðal annars þeirra hlutverk að styðja blaðamenn, fréttaskýrendur og dagskrárgerðarfólk sem er tilbúið að leggja á sig að fjalla á vandaðan, málefnalegan en gagnrýninn hátt um samfélagsmál. Tilhneigingin er hins vegar stundum sú, að vilja dempa gangrýna umfjöllun til að hafa gott veður.

Í lok ræðu sinnar varaði Hjálmar svo við því að við létum þagga niður í okkur aftur. Hann hvatti okkur til að vera á varðbergi. Sérstaklega eftir næstu kosningar. Ég tek undir orð hans og fagna þeim um leið. Ég tel nefnilega að það sé full ástæða til að hvetja fólk til að halda vöku sinni og vera gagnrýnið. Sérstaklega í kjölfar næstu kosninga.

Áður en ég sný mér að næsta ræðumanni, síðastliðins laugardags, langar mig til að vekja athygli á þrennu. Fyrst því að Lára Hanna Einarsdóttir birti ræðu Hjálmars Sveinssonar í heild. Mig langar líka að vekja athygli á fundargerð minni sem ég birti hér á blogginu mínu frá borgarafundi sem var haldinn hér á Akureyri um hlutverk fjölmiðla. Mig langar þó sérstaklega að vekja athygli á hreint frábærri ræðu Þorbjörns Broddasonar sem hann flutti á þessum fundi. Það má hlutsta á Aðalheiður Ámundardóttirhana hér.

Næst tók Aðalheiður Ámundardóttir til máls. Hún hóf mál sitt á þessum orðum: „Íslenska þjóðin er í andlegri vakningu. Það er ljósið í myrkrinu. Breytinga er krafist, endurreisnar er krafist. Við viljum nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem tryggir að Alþingi haldi sínum völdum, sem tryggir aðhald og valddreifingu.“

Í framhaldinu fór Aðalheiður yfir nokkrar greinar Sjórnarskráinnar og benti á hvernig þau hefðu verið brotin og/eða sniðgengin á undanförnum árum. Ég hvet alla til að lesa dæmin sem hún tiltók  blogginu hennar. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að birta niðurlagsorðin á ræðu hennar hér:

Mannréttindabarátta og barátta gegn spillingu er að miklu leyti sama baráttan. Ég bið ykkur að hafa vakandi auga með mér og passa mannréttindin okkar. Nú þegar spillingaröflin virðast hafa náð ítökum í samfélagi okkar er mannréttindabaráttan mikilvægari sem aldrei fyrr. Aðhaldið á stjórnvöld er mikilvægara nú en nokkru sinni.

Og þrátt fyrir að gott grasrótarfólk gefi nú kost á sér til að knýja fram breytingar, þá fer byltingin ekki í framboð! Við sem stöndum hér á Austurvelli þurfum að halda áfram að standa vaktina. Sofnum ekki á verðinum!

Ræður bæði Aðalheiðar og Hjálmars voru hreint frábærar en það var athyglisvert að bæði luku máli sínu með áminningu til þjóðarinnar um að halda vöku sinni. Ég tek undir það með þeim. Við megum ekki sofna á verðinum. Við verðum að standa saman áfram. Við höfum náð fram einhverjum breytingum en er einhver sem trúir því að ný stjórn mynduð með þeim sömu og sátu á þingi í aðdraganda hrunsins eigi eftir að vinna að þeim grundvallarbreytingum sem nú eru nauðsynlegar? Það er fátt sem mér finnst benda til þess núna a.m.k. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er haldin mótmælaþreytu, ég mætti á alla mótmælafundina.  Svo féll stjórnin og allt fór að gerast, og ég hætti að mæta. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.3.2009 kl. 00:52

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er auðvitað leyfilegt að taka sér hlé til að hlaða batteríin en ég vona að ef þú ert ekki sátt þá munir þú mæta áfram... eða eins lengi og þörf krefur... Veit sjálf ekki hve langan tíma það mun taka að vekja íslensk stjórnvöld til meðvitundundar og ábyrgðar en það er greinilegt að mótmælin hafa virkað í þá átt þó enn sé þó nokkuð í land að ég sé sátt a.m.k.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.3.2009 kl. 01:04

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er ekki sátt, og vil sjá Borgarahreyfinguna í næstu stjórn.  Við þurfum algjöra uppstokkun á Alþingi.  Ég vona bara að allt hitt fólkið sjái hvað þarf að gera, til þess að breyta til góðs fyrir okkur fólkið í landinu.  Ég mæti örugglega fljótlega á mótmælafund. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.3.2009 kl. 02:01

4 Smámynd: Valgeir Skagfjörð

Menn verða að fara að tileinka sér nýja hugsun. Við verðum að fá að skrifa okkar eigin stjórnarskrá - hvað sem það kostar. Við erum að fjárfesta í okkur sjálfum sem þjóð til framtíðar. Prófkjörin eru bara djók og ekkert annað en undanrásir í kapphlaupinu að kjötkötlunum. Hvenær ætla þessir menn (og konur) að fara að líta á sig sem þjóna samfélagsins og taka afstöðu með þjóðinni en ekki flokknum og sérhagsmunaklíkunum? Kunningjabandalögin og klíkurnar burt úr íslenskum stjórnmálum. Heiðarleika, visku, uppgjör við fortíð, endurbyggingu siðferðis, endurnýjun hugmynda og gilda sem meginstoða íslensks samfélags til framtíðar. Þær stoðir sem samfélagið ætti að hvíla á eru þessar: Réttlæti, jafnrétti, frelsi, lýðræði, heiðarleiki, manngildi, valddreifing, víðsýni, varfærni, hagsýni og skynsemi.

Hvernig væri einu sinni að koma hér á stjórnskipan sem hefði bara COMMON SENSE að leiðarljósi?

Borgarahreyfingin er eini valkosturinn ef kjósendur vilja róttækar breytingar á stjórnskipan á Íslandi.

Valgeir Skagfjörð, 18.3.2009 kl. 10:18

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þitt góða innlegg Valgeir! Það er reyndar svo fallegt og réttsýnt að ég komst nærri því við af því að lesa það.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.3.2009 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband