Brot í starfi er refsivert athæfi sama hver brýtur af sér...
8.3.2009 | 01:58
Ég hef lengi ætlað að segja hvað mér finnst um biðlaun. Sérstaklega biðlaun sem íslenska ríkið er að borga þeim sem sinntu ekki störfunum sem þeir áttu að gegna. Biðlaunin sem fyrrverandi opinberir starfsmenn íslenska ríkisins eru að þiggja af okkur þjóðinni sem þessir sömu menn og konur brugðust.
Þeir einstaklingar sem ég er að tala um áttu að vaka yfir íslensku bönkunum. Þeir áttu að vaka yfir íslensku fjármála- og viðskiptalífi og gæta þess að þar færi allt fram eftir lögum og reglum. Þeir áttu að vaka yfir því að hagsmunir þjóðarinnar væru ekki svívirtir á þessum vettvangi en þeir gerðu það ekki! Ég get auðvitað ekki útskýrt hvers vegna þeir gerðu ekkert en ég leyfi mér að efast um að þeir séu svo vitlausir að þeir hafi hvorki heyrt, séð né skilið nokkurn skapaðan hlut!
Þegar alvarleiki sinnu- og aðgerðarleysis þeirra varð ljós þá öxluðu þeir enga ábyrgð. Umræddir einstaklingar neituðu m.a.s. að þeir bæru nokkra ábyrgð. Það var ekki mér að kenna-söng sumra þeirra má sjá og heyra í þessu myndbandi sem Lára Hanna Einarsdóttir setti inn á bloggið sitt nýverið. Það er svakalegt að hlutsta á alla sem tjá sig þar en einkum embættismennina. Það ætti ekki að vekja neinum undrum eftir að hafa rifjað þennan söng upp að þeir voru hrópaðir niður. En það ótrúlegt og sorglegt um leið að rifja það upp að það tók fjóra til fimm mánuði!
Þeir opinberu embættismenn sem ég er að vísa til hér eru svo smekklausir að þeim finnst sjálfsagt að þeir fái biðlaun þrátt fyrir illa - eða alls ekki unnin störf sín! Það sem er enn þá verra er að það er útlit fyrir að þeir sem sitja við stjórnvölin virðist finnast það sjálfsagt líka. Mér finnst það hins vegar alls ekki! Ég veit að það eru einhverjir á sama máli og langar í því sambandi að benda á þessa færslu Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur. Eins taldi ég mig hafa rekist á grein eftir Írisi Erlingsdóttur um þetta efni en ég finn hana ekki núna. Vísa þess í stað í þessa færslu hennar um efnið.
Mér finnst það í raun grafalvarlegt mál að svikin og gjaldþrota þjóð eigi að borga handónýtum embættismönnum biðlaun fyrir það að sofa á verðinum og eiga þannig þátt í því að hún stendur í þeim sporum sem hún stendur í nú! Mér finnst það borðleggjandi að þeir hafa fyrirgert rétti sínum rétt eins og hver annar starfsmaður sem hefur orðið uppvís af því að brjóta af sér í starfi með því að sinna ekki starfinu sínu með viðunandi hætti.
Þeir sem verja það að þessir fyrrverandi ráðherrar, seðlabankastjórar og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins fái biðlaun vísa til raka laganna. Mér sýnist því miður þetta og ýmislegt fleira benda til að margt í íslenskum lögum sé í hæsta máta vafasamt. Til viðbótar bendi ég á það að á meðan ekkert í íslenskum lögum þykir duga til að draga þá sem settu samfélagið á hausinn til ábyrgðar þá get ég ekki verið á annarri skoðun.
Það er ekkert í lögunum sem stendur í vegi fyrir því að refsa þeim sem stelur lifrarpulsu úr kjörbúð, frysta eigur hælisleitanda, vísa afgreiðslufólki sem stelur úr kassanum úr vinnunni, kyrrsetja ökutæki í landinu vegna þessa að það er ekki fullgreitt, reikna alls konar viðbótarkostnað ofan á eignir sem hafa verið teknir upp í skuldir og svo mætti lengi telja.
En lögin réttlæta það að menn sem rændu þjóðina í gegnum bankana sem þeir fengu gefins njóti friðhelgi. Það er líka vísað í lög þegar það er réttlætt að menn sem bjuggu til loftbólupeninga með veði í óveiddum fiski, steinsteypu, gervifyrirtækjum og viðskiptavild fái að ganga lausir. Það á víst líka að heita löglegt að þeir sem stofnuðu bankaútibú í útlöndum með veði í þjóðarbúinu séu fríaðir ábyrgð. Svo er það sagt löglegt að vísa til bankaleyndar þegar grunur kviknar um leynireikninga og skattaskjól í útlöndum þó margir hafi dregið fram rök sem benda til að þjóðarauðurinn hafi verið fluttur þangað.
Ég veit að ég gleymi einhverju en það yfirgengilegasta í þessu öllu saman er að lögin verja það að þeir sem byggðu þetta allt og vörðu eigi rétt á biðlaunum! Það á m.ö.o. að heita löglegt að gjaldþrota þjóð, sem þarf að líða fyrir það sem handónýtir embættismenn áttu þátt í að leiða yfir hana, þrengi sultarólina enn frekar svo einmitt þeir geti haft það náðugt á hennar kostnað! Þetta er svo fáránlegt að það segir sig sjálft að ef lögin réttlæta slíkan fáránleika þá er ekki spurning um að það verður að endurskoða þau!
Sumir eru auðvitað svo blindaðir af rökum lagabókstafanna að þeir neita eflaust að horfast í augu við að hér er eitthvað mikið, mikið að. Það er greinilegt að þeir sem telja þetta vera í lagi eru gjörsneyddir öllu siðferði. Lagabókstafinn má ekki nota til að verja það að hlutir sem eru fullkomlega óverjandi út frá siðferðislegum rökum séu framkvæmdir. Hvað þá að þeir séu látnir líðast! Ef rök laganna stangast á við öll siðferðisrök þá verður barasta að endurskoða lögin!
Mér finnst það liggja í augum uppi að það þarf að endurhanna margan lagabókstafinn. Líka þann sem fjallar um biðlaunin. Það er ofvaxið mínum skilningi að nokkrum finnist það verjandi að þjóðinni beri lagaleg skylda til að greiða vanhæfum embættismönnum slík laun. Embættismönnum sem sváfu á verðinum með þeim skelfilegu afleiðingum sem við stöndum nú frammi fyrir. Embættismönnum sem neituðu að axla ábyrgð og gerðu ástandið í versta falli enn verra með aðgerðum sínum og/eða aðgerðarleysi frá mánaðarmótum september/október á síðasta ári. Embættismönnum sem neituðu að víkja sæti og dottuðu áfram í stólunum sínum uns þeir neyddust til að víkja eftir margítrekaðar óskir um að fara.
Ef menn gerast brotlegir í starfi eru til ákveðin lagaleg rök fyrir því að ekki þurfi að standa við gerða samninga. Vanhæfni og það að sinna ekki því sem starfslýsingin kveður á um eru undir venjulegum kringumstæðum talin brot í starfi. Ef venjulegum starfsmanni er vikið úr starfi af þessum ástæðum þá er í langflestum tilvikum litið svo á að hann hafi fyrirgert rétti sínum til launa eða annarra greiðslna. Venjulegur starfsmaður býr líka yfirleitt ekki nema við þriggja mánaða uppsagnarfrest. Launin sem er verið að ræða um hér heita hins vegar biðlaun og einhverra hluta vegna er að öllu jöfnu miðað við heilt ár.
Áður en lengra er haldið langar mig til að velta fyrir mér hvernig við viljum skilja orðið biðlaun? Minn skilningur er sá að þetta séu laun sem er ekki óeðlilegt að þingmaður fái t.d. þegar hann dettur út af þingi. Þingmaðurinn er í atvinnu hjá þjóðinni og þjóðin getur sagt honum upp með því að kjósa hann ekki aftur. Þetta er auðvitað svolítið sérstakt atvinnuumhverfi og ábyggilega óvenjulegt atvinnuöryggi.
Þess vegna finnst mér ekkert óeðlilegt við það að þegar þingmanninum hefur eiginlega verið sagt upp þá geti hann farið fram á það að bilið frá því að hann dettur út af þingi og þar til hann er kominn í aðra launavinnu sé brúað með biðlaunum. M.ö.o. að hann þiggi biðlaun á meðan hann bíður.
Þar sem ég er einn af atvinnurekendum þeirra sem geta farið fram á biðlaun þá langar mig til að bæta því við að mér finnst heldur ekkert óeðlilegt við það að 12 mánuðir séu áfram hámark. Ástæðan er sú að þingmenn og fleiri opinberir starfsmenn búa við óvenjuleg vinnuskilyrði eða öllu heldur -öryggi. Hér á ég þó einkum við þingmenn og ráðherra.
Mér finnst það hins vegar útilokað að biðlaun í 12 mánuði sé ótakmarkaður réttur sem allir opinberir starfsmenn geti farið fram á undir hvaða kringumstæðum sem er. Mér finnst að biðlaun umfram þrjá mánuði ætti frekar að líta á sem réttindi sem opinberir starfsmenn geti sótt um eins og atvinnulausir um atvinnuleysisbætur.
Þeir sem gerast hins vegar brotlegir í starfi eins og seðlabankastjórarnir sem neituðu að víkja sætum þrátt fyrir háværar vantraustsyfirlýsingar, stjórendur fjármálaeftirlitisins sem stóðu ekki vaktina sína og ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar sem gerðust berir af vanhæfni í starfi á að svipta rétti til biðlauna. Þeir þeirra sem sitja uppi atvinnulausir ættu þó að geta sótt um biðlaun en umsóknir þeirra þarf þó að skoða og meta út frá öllum gefnum forsendum en ekki að líta á það sem sjálfsagðan hlut að vanhæfur starfskraftur eigi rétt á bótum fyrir það að vera vikið úr starfi af þeim sökum!
Eignarhald og lánveitingar bankanna skoðað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:38 | Facebook
Athugasemdir
Ég er algjörlega sammála þér, biðlaun spillingarliðsins eru tímaskekkja. Fólk sem brotið hefur af sér í starfi á ekki að fá biðlaun. Ef rétt væri að verki staðið ætti þetta fólk að endurgreiða launin sín, og biðjast afsökunar á vanhæfninni. Ég er brjáluð út í þetta sjálftökulið.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.3.2009 kl. 02:25
Já, það væri auðvitað lágmarkskrafa að það bæði a.m.k. afsökunar... en það er til marks um vanhæfni þeirra að þeir sem hér um ræðir virðast ekki einu sinni átta sig á því að það er eðlileg lágmarkskrafa. Mér finnst það svo með ólíkindum að núverandi stjórnvöldum finnist það eðlilegt að þessir einstaklingar eigi rétt á biðlaunum þegar ekki er til peningur til að koma á móts við heimilin eða atvinnufyrirtækin í landinu.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 02:46
Það er margt vanhugsað, rangt og rangtúlkað í pistlinum þínum, Rakel, sem getur fallið undir stjórmálatrúarbrögð þín.
Játa að ég fór yfir þennan allt of langa bloggtexta þinn á hundavaði. Ættirðu ekki að halda þig við tímaritagreinarnar?
Smástríðni frá fv. ritstjóra á Akureyri m.a., sem finnst bloggarar þurfa að tjá sig í stuttu og gagnorðu máli en ekki langlokum.
Herbert Guðmundsson, 8.3.2009 kl. 14:18
Það getur vel verið að þú treystir best á dómgreind þína til að meta það sem þú nennir ekki að lesa nema á hundavaði. Ég sé hins vegar ekki hvers vegna ég ætti að taka mark á mati sem byggir á því sem þú segir að grundvalli skoðun þína. Ég tek því fullyrðingum um að margt af því sem ég segi hér sé „vanhugsað, rangt og rangtúlkað“ ekki alvarleg.
Þú talar líka um „stjórnmálatrúarbrögð“ mín. Ég get vel tekið undir það að kann að vera að ég sé svo gegnumsýrð af réttlætiskennd að það megi líkja því við „trúarbrögð“ hvað hún litar afstöðu mína til lífsins og öllu því sem því tilheyrir. Sé hins vegar ekki hvernig er hægt að bendla henni við stjórnmál. Síst af öllu með þeim hætti sem þú gerir.
Ég skal alveg taka smástríðni frá þinni hálfu hvað það varðar að textarnir mínir eru oftast heldur langir. Finnst það m.a.s. oftast sjálfri en ég hugga mig við það að þeir eru miklu fleiri bloggararnir sem skrifa stutta pistla þannig að þeir sem nenna ekki að lesa langt mál ættu að hafa úr nógu að moða áfram þó ég haldi mig áfram við minn „langlokustíl“.
Ég treysti því að á meðan við skiptum enn þúsundum sem lesa íslenska tungu þá séum við nógu mörg til að hafa mismunandi smekk fyrir stíl og framsetningu. Þeir sem vilja „stutt og gangorð“ blogg forðast mína pistla. Ég er líka vel sátt þó þeir séu aðeins fáir sem nenna að lesa það sem ég set hérna niður.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 14:42
Las langhundinn þinn ögn nánar, svona nærri á hestavaði, en er sama sinnis um gallana í málflutningi þínum. Það muntu líklega aldrei samþykkja, svo að óþarft er að verja lengra máli í það.
En gerist nú alvörulaus prófarkalesari: "... hvað hún litar afstöðu mína til lífsins og öllu því sem því tilheyrir." Ætti að vera "... til lífsins og alls sem því tilheyrir." Og "... sé hins vegar ekki hvernig er hægt að bendla henni við stjórnmál." Sem ætti að vera "... bendla hana við.".
Þetta er áframhaldandi smástríðni, af því þú nefnir notendur íslenskrar tungu. Þeir meta ekki aðeins langt og stutt mál, heldur lika rétt og rangt mál. Ef textinn lendir út í að vera bæði allt of langur og logandi af villuljósum, er hann ekki traustvekjandi. Annars bestu kveðjur norður!
Herbert Guðmundsson, 8.3.2009 kl. 15:51
Öllu gamni fylgir nokkur alvara... Ég ætla ekki að halda því fram að málflutningur minn sé laus við þá galla sem þú bendir á. Hins vegar finnst mér meiru varða að lög um biðlaun eru greinilega gölluð. Það er nefnilega út í hött að sá sem hefur ekki gengt starfi sínu að þeirri alúð sem það krafðist eigi samt rétt á biðlaunum.
Þetta er aðalatriðið í því sem ég vildi benda á. Ég sé ekkert vanhugsað eða rangt við þá skoðun. Hins vegar getur verið að einhverjar málvillur hafi læðst inn í pistilinn og biðst ég velvirðingar á því. Það skal svo viðurkennast að ég legg ekki eins mikla rækt við svörin við athugasemdunum sem ég fæ... ég mætti auðvitað bæta úr því
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 16:12
Já, alveg rétt, þetta með biðlaunin er kjarni málsins! En þau eru annað hvort ákveðin í ráðningar- og starfssamningum eða eru greiðsla um ákveðinn uppsagnarfrest í kjarasamningum. Held þú sért að rugla þessu saman við starfslokasamninga sem hafa iðulega verið gerðir, oft umdeildir.
Ég man ekki eftir neinum sérstökum lögum um biðlaun.
Herbert Guðmundsson, 8.3.2009 kl. 17:45
Þú veist sjálfsagt jafnvel og ég að ráðherrar fyrrverandi, seðlabankastjórarnir allir svo og stjórnendur Fjármálaeftirlitisins fá biðlaun nú eftir að þeim hefur verið sagt upp störfum. Þessi laun samtals nema einhverjum milljónum a.m.k. Það má vera að þessi laun séu bundin í starfslokasamningum þeirra en það er einmitt það sem ég er að gagnrýna. Þeim var ekki sagt upp störfum að ástæðulausu og þess vegna finnst mér full ástæða til að endurskoða ákvæði starfslokasaminga þeirra.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 18:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.