Grafalvarlegt hættuástand
15.1.2009 | 21:24
Þegar ég horfi til þess sem hefur komið fram um það sem var að gerast í efnahgsstjórnun landsins fyrir hrun íslensku bankanna síðastliðið haust og svo þess sem hefur gerst eftir það þá get ég ekki annað en fyllst skelfingu og kvíða. Það er ljóst að það sem leiddi til hruns bankanna var kolröng efnahagsstefna. Við vitum það að bankarnir voru orðnir alltof stórir og við vitum það að stjórnvöld bera ábyrgð á því þó Geir H. Haarde reyni að halda öðru fram.
Ég hef margsinnis spurt mig, eins og eflaust margir fleiri, hvort skýringin á því að eigendur þriggja stærstu bankanna í landinu komust upp með að rústa efnahag þjóðarinnar sé sú að stjórnmálamennirnir og starfsmenn innlendra fjármálaeftirlitsstofnanna séu svona vitlausir eða siðspilltir. Ég held að þeir séu hvort tveggja.
Ég er að komast að þeirri niðurstöðu að þeir séu svo gegnumsýrðir af eftirsókninni eftir völdum að það komist ekkert annað að í þeirra huga en tryggja sér þau áfram sama hvað það kostar. Hvaða önnur skynsamleg skýring kann að liggja að baki viðbrögðum þeirra við margendurteknum viðvörunum um það hvert ofvöxtur bankanna myndi leiða og svo aðgerðarleysi þeirra eftir hrunið síðastliðið haust?
Ég er alls ekki að gefa það í skyn að það sé skynsamlegt að leiða hjá sér viðvaranir sem hefðu átt að liggja í augum uppi fyrir þokkalega menntuðum embættismönnum og þverskallast svo við að viðurkenna eigin ábyrgð á því hvernig er komið fyrir efnahag landsins. Ég er þvert á móti að reyna að finna einhverja sæmilega rökrétta skýringu á slíkri framkomu. Mér gengur það svo sannarlega erfiðlega því háttalag stjórnmálamannanna opinbera fyrir mér eðli sem er í svo stjarnfræðilegri fjarlægð frá því sem ætti að einkenna embættismenn sem hafa hag heilla þjóða í höndum sér að mér fallast næstum því hendur.
Það kannast þó flestir við einhvern sem neitar að horfast í augu við staðreyndir og réttlætir alltaf eigin gjörðir með því að kenna öðrum um. Ég geri það því miður líka. Satt best að segja treysti ég ekki einstaklingum sem koma þannig fram enda kemur yfirleitt í ljós að þeir sem haga sér þannig eru annaðhvort andlega veikir eða það er stórhættulegt að umgangast þá, nema hvort tveggja sé.
Nú er ég að komast að þeirri niðurstöðu að íslenska þjóðin sé á valdi slíkra einstaklinga. Það er ekki aðeins það að þeir neita að horfast í augu við staðreyndir sem gerir þá hættulega heldur líka verk þeirra og málflutningur. Sjálfstæðisflokkurinn, sem er búinn að hreiðra svo vel um sig í valdastólunum innan alls stjórnkerfisins, er farinn að minna mig á áhrifamikinn sértrúarsöfnuð.
Margir sem ánetjast honum eru svo frelsaðir að þeir neita að viðurkenna að boðskapurinn hefur verið gróflega misnotaður til að hygla einstaklingum á kostnað fjöldans með hörmulegum afleiðingum fyrir þjóðina. (Bendi hér á boðskap Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um flokkinn sem Lára Hanna Einarsdóttir hefur klippt saman.
Á undanförnum árum hafa þessir einstaklingar lagt undir sig samfélagið með því að hreiðra um sig í öllum helstu valda- og áhrifastofnunum landsins. Þaðan hafa þeir stýrt fjármagninu og upplýsingunum og þannig haft áhrif á skoðanir og lífsstíl fjöldamargra. Þeir sem reyna að æmta eru útilokaðir og jafnvel vikið frá störfum fyrir einstaklinga með réttar skoðanir. Það eru því miður fjöldamargir sem geta vitnað um þetta með mér. Bæði lærðir og leikir innan íslenskrar stjórnsýslu og á fjölmiðlunum.
Þannig hefur skipulega verið unnið að þöggun bæði einstaklinga og þjóðarinnar allrar. Sumir hafa reynt að vekja athygli á þessu í nokkur undanfarin ár en þeir hafa talað fyrir daufum eyrum því flest okkar erum ekki svo illa innrætt að við eigum í erfiðleikum með að trúa að einhverjir eigi slíka illsku til. Síst af öllu að heill hópur beiti slíkum bolabrögðum til að mala undir sig og sína. En það er því miður ótrúlegustu grundþættir heilbrigðar skynsemi og góðs innrætis sem upprætast frammi fyrir gylliboðum um auð og völd. A.m.k. hjá sumum og því miður eru þeir of margir sem hafa gerst sekir um að kæfa alla hugsun um samkennd og bræðralag fyrir sína eigin hagsmuni.
Þetta hljómar e.t.v. eins og illa grundaðar aðdróttanir en ég byggi þær á svo mörgum þáttum sem allir sem hafa fylgst með á undanförnum mánuðum ættu að kannast við. Sumt af því hef ég birt eða vísað til í öðrum skrifum mínum á þessum vettvangi. Annað byggi ég á því sem hefur komið fram í fjölmiðlum, bæði háðum og óháðum. En ég byggi þær skoðanir sem ég birti hér einkum á því sem stjórnmálamennirnir hafa gert og sagt sjálfir og því sem innvígðir hafa opinberað fyrir mér einni og fyrir alþjóð.
Ég læt nægja að vísa til þess sem kom fram á síðasta borgarafundi í Háskólabíói og þá einkum hjá Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur (Krækjurnar vísa í ræðu Wades og ræðu Sigurbjargar. Þeir sem misstu af borgarafundinum geta séð hann inni á bloggsvæði Láru Hönnu Einarsdóttur)
Það sem ég á erfiðast með að skilja er það af hverju engin hefur sætt ábyrgð fyrir borðliggjandi embættisglöp. Mér finnst t.d. blasa við að það er lífsnauðsynlegt fyrir íslenskt efnahagslíf að gera ærlega hreingerningu í Seðlabankanum! Hver kemur í veg fyrir að það sé gert!? Sá sem hefur a.m.k. hæst í þeirri vörn er Geir H. Haarde sem mælti m.a. þessi ógleymanlegu og ótímanbæru orð í kjölfar bankahrunsins: Nú er ekki rétti tíminn til að benda á sökudólga!
Hvers vegna sagði hann þetta þrátt fyrir það að stór hluti þjóðarinnar var enn þá svo vankaður að honum datt ekki einu sinni í hug að einhverjir sérstakir einstaklingar bæru ábyrgð? Mitt svar er það að Geir er ekki svo vitlaus að hann viti ekki að sökudólgarnir eru hann sjálfur, flokksbræður hans og aðrir klíkubræður. Hann vill bara alls ekki að þeir verði sóttir til saka. Þessi orð hans eru eitt af þeim þöggunarvopnum sem hann og klíkubræður hans eru svo feykilega lagnir við að ota framan í þjóðina og beina athygli hennar eitthvað annað en að þeim sjálfum í leiðinni. Því miður virðast þau virka á allt of marga.
Við lifum á mjög viðsjárverðum tímum og í raun er hver einasta stund afar dýrmæt. Það er ákaflega brýnt að koma stóra klíkubandalaginu, sem er búið að sölsa undir sig allar mikilvægustu áhrifastöðurnar á Íslandi, frá völdum! Það er ekki bara mikilvægt vegna þess sem þeir hafa gert þjóðinni nú þegar heldur vegna þess sem þeir hafa í hyggju.
Og hvað hafa þeir í hyggju? Ég er að komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert flóknara en það að þeir eru að einbeita sér að því að bjarga þeim sem geta tryggt þeim áframhaldandi völd. Hverjir vilja það? Þeir sem þegar eru í þægilegustu sætunum. Þess vegna taka þeir þátt í að þegja yfir því hvað gerðist, hvers vegna það gerðist og hverjir bera ábyrðg á því sem gerðist.
Þeir taka líka þátt í áróðursstríðinu gegn þeim sem krefjast svara við þessum spurningum! Við sem mótmælum erum mörg komin með svör við þessum spurningum. Bæði vegna þess að þau blasa við, mörg þeirra hafa reyndar blasað við lengi, og vegna þess hvernig þeir sem bera ábyrgð koma fram. Við hlustum og tökum vandlega eftir öllu sem er sagt og gert en ekki síður því hvað það er sem er látið ógert og ósagt. Við vegum og metum og sumir hafa m.a.s. lagst í rannsóknir upp á sitt einsdæmi og kafað ofan í þennan ljóta afætupytt sem hefur fengið að vaxa innan vébanda ríkis- og fjármálastofnanna. Þar er hefur ýmislegt komið í ljós og allt rökstyður það enn frekar grunsemdir um rotna og illa lyktandi spillingu.
Þið sem trúið ekki að ráðherrarnir og aðrir embættismenn hinnar opinberu stjórnsýslu séu jafn sipspilltir og hér er gefið í skyn ættuð að opna augu ykkar og hlustir og taka vel eftir því sem sprenglærðir hagfræðingar segja annars vegar og íslensku embæætismennirnir hins vegar en ekki síður því sem þeir vísa á bug og neita að tala um. Þá ætti það að renna upp fyrir öllum, sem vilja á annað borð sjá og heyra, að það ber heilan hafsjó af fjarstæðukenndu bulli á milli. Þar er áróðurskenndur kjaftavaðall um sökudólga sem íslenskir embættis- og fjárglæframemm vilja meina að séu allir aðrir en þeir sjálfir.
Hvað meinar t.d. Geir þegar hann eftir þrjá og hálfan mánuð neyðist til að viðurkenna að ofvöxtur bankanna kunni að vera hluti skýringarinnar á alvarleikanum sem nú blasir við í íslensku efnahagslífi? Meinar hann að bankarnir hafi verið sjálfráðir og að eigendur bankanna hafi verið í sjálfsvald sett að stunda þá ofveiði sem þeir hafa orðið berir af í íslenskri og erlendri efnahagslögsögu? Meinar hann að þessi staðreynd sé ekki eitthvað sem hann og ríkisstjórn hans og eigendur bankanna þurfi að taka ábyrgð á heldur almenningur!?
Þetta gegnur engan veginn upp! Til hvers höfum við ríkisstjórn og fjármálaeftirlitsstofnanir? Eru einstaklingarnir sem gegna þessum embættum bara í áskrift af laununum sínum án þess að gegna neinni ábyrgð? Eru þeir bara svona til spari!? Hvernig getur siðspillt afætubandalag litið á sig sem eitthvert skraut? Hvernig getur líka nokkur fengið sig til að samþykkja slíkan endemis fáránleika?
Það fer sennilega ekki framhjá neinum að það sýður á mér núna. Þessa dagana sveiflast ég reyndar milli vanmáttar, sorgar, fyrilitningar og reiði. Ég get ekki unað því að einstaklingar sem hafa gerst sekir um þvílíka sjálfsgæsku, og þeir sem ég hef bent á hér að framan, skuli sitja óáreittir í embættum sínum og komast upp með það sem þeir eru að gera. Þeir beita öllum brögðum til að hrinda áætlunum sínum í framkvæmd. Þeir m.a.s. úthrópa þá sem reyna að benda á hversu grafalvarlegt hættuástand ríkir nú í íslensku samfélagi. Þeir gera í því að skapa sundrungu í samfélaginu til að fá frið til að vinna að þessum aðgerðaráætlunum sínum.
Getum við unað því? Auðvitað ekki og þess vegna verða allir að taka höndum saman við að bjarga þjóðinni, landinu og framtíðinni!! Kröfur okkar eru einfaldar. Við viljum skapa skilyrði fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar til mannsæmandi lífs í þessu landi. Til þess að það sé mögulegt þurfum við að hreinsa til í íslenskri stjórnsýslu. Áttum okkur á því að á meðan þeir útmála réttlætissinnanna, sem henda öllum öðrum skyldum frá sér til að standa vörð um þá sanngirniskröfu að þjóðin þurfi ekki að bera tjónið sem þeir sjálfir ullu, þá eru þeir að vinna að því að hneppa íslensku þjóðina í þrældóm.
Þeir halda því fram að mótmælendur hafi valdið eignatjóni og segjast jafnvel sumir hverjir óttast um líf sitt. Áttum okkur á því að þeir sem þannig tala eru hræddir af þeirri einföldu ástæðu að þeir vita upp á sig skömmina. Þeir vita að mótmælendur hafa rétt fyrir sér. Þeir vita að sannleikurinn er sá að þeir hafa gerst sekir um mjög alvarleg hryðjuverk sem hafa nú þegar leitt til margfalt stærra efnahagstjóns fyrir hvern einasta Íslending en einn brunninn sjónvarpskapall eða ein brotin rúða!!!
Þeir vilja bara ekki viðurkenna það! Þeir ætla sér að fela sig á bak við lygi og falskar ásakanir. Þeir þurfa að tryggja sér frið til að hrinda sinni ósvífnu framkvæmdaáætlun í framkvæmd. Ef þið eruð ekki búin að ná því hver hún er þá er það að tryggja að þeir sem steyptu þjóðinni út í þá alvarlegu efnahagskreppu, sem hún er nú stödd í, komist aftur til valda í íslensku viðskipta- og fjármálalífi.
Auðmennirnir sem íslenska embættismannamafían ver nú með kjafti og klóm eru þeir sem hún treystir best til að tryggja sér áframhaldandi völd. Það er ekki að ástæðulausu sem þessi mafía notar alla sína visku við að hindra framgang réttvísinnar með þögn og/eða lygum. Þeir trúa á mátt auðs og valda. Þeir trúa líka á mátt áróðursins og þöggunarinnar.
Við megum ekki láta íslensk stjórnvöld komast upp með það sem þau eru að gera því þá munum við öll tapa. Ekki bara mótmælendur heldur öll íslenska þjóðin!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.3.2009 kl. 05:19 | Facebook
Athugasemdir
Heil og sæl; Rakel !
Þarna; með þessari kjarnyrtu grein, kemur þú, að kjarna málanna, svo sannarlega.
Vita skulum við; að þessi lýður fer ekki frá, með góðu - alveg orðið tímabært, að kanna aðrar leiðir alþýðu, til þess að koma þessum bitvörgum og tjónvöldum frá, með einhverjum þeim hætti, sem skaða minnstur mætti verða.
Einnig er; löngu ljós, samsekt stjórnmálamanna, og peninga plokkaranna !
Með baráttukveðjum góðum; sem jafnan /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 21:45
Takk fyrir þitt kjarnyrta innlegg
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.1.2009 kl. 21:49
Öflug grein. Ég var að skrifa eina um þetta frá sjónarhóli útflytjanda sem er í vandræðum með þetta alltsaman:
Útilokað er að skila útflutningstekjum í kardimomubæ Ponzílands
Ástþór Magnússon Wium, 15.1.2009 kl. 21:53
Las greinina þína og get tekið undir flest sem þar kemur fram.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.1.2009 kl. 23:02
Takk fyrir Rakel og ég tek undir með þér:
Við megum ekki láta íslensk stjórnvöld komast upp með það sem þau eru að gera því þá munum við öll tapa. Ekki bara mótmælendur heldur öll íslenska þjóðin!
Þess vegna er samstaða okkar svo mikilvæg.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.1.2009 kl. 23:12
Flott grein Rakel.
Meira af þessu.
Níels A. Ársælsson., 16.1.2009 kl. 03:23
Takk fyrir fallegu kveðjuna Rakel og fyrir þitt mikilvæga innlegg í baráttuna fyrir réttlátt og heiðarlegt samfélag - góð grein og geggjaðar myndir.
Ég sendi kveðjuna sem þú sendir mér til baka til þín:)
Birtukveðjur inn í daginn
Birgitta Jónsdóttir, 16.1.2009 kl. 06:04
Takk fyrir innlit og fallegar kveðjur.
Níels: Ég skal reyna.
Birgitta: Gaman að þú kommentaðir á myndirnar. Ég held nefnilega að ég hafi veri álíka lengi að velja þær og staðsetningu þeirra eins og ég var að skrifa greinina sjálfa Sumir mættu eflaust taka sig eitthvað á hvað fullkomnunaráráttuna varðar til að þeir kæmu meiru í verk (er að tala um sjálfa mig)
Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.1.2009 kl. 19:28
Ég vona bara að sem flestir lesi þessa grein þína. Hún er svo vel skrifuð og vel ígrunduð og það er ekkert hægt að mæla gegn henni nema vera einn af valdagráðugu blindingjunum. Og takk fyrir fallegu kveðjuna Rakel mín. Þú ert sko ein af sterku konum íslands
Náum þjóðarssamstöðu gegn þessum hræðilegu örlögum sem annars blasa við okkur flestum.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 16.1.2009 kl. 20:21
Takk fyrir þessi fallegu orð Katrín mín Ég vona og bið að birtudraumar okkar fyrir framtíðinni nái fram að ganga sem allra, allra fyrst!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.1.2009 kl. 20:27
Já Rakel, hver orð í greininni satt og rétt. Eitt get ég sagt og fullyrt og það er að núverandi valdhafar munu berjast með kjafti og klóm gegn nýjum aðilum hvort sem það verður innan þeirra eigin flokka eða við nýtt afl. Þeir munu nota öll þeu ráð sem þekkjast og þekkjast ekki til að halda völdum. Það skulum við hafa í huga þegar baráttan hefst fyiri alvöru. En gleymum ekki að réttlætið sigrar að lokum eins og það hefur ávallt gert.
Arinbjörn Kúld, 20.1.2009 kl. 00:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.