Að beina vandlætingunni og reiðinni í réttan farveg

Stjórnvöld óskastÉg var í höfuðborginni um áramótin og þess vegna fékk ég tækifæri til að taka þátt í mótmælunum á gamlársdag. Ég er alltof mikil gunga til að ég legði í að vera þar sem þungi þeirra var mestur þannig að ég sá það ekki með eigin augum hvað varð til þess að lögreglan sprautaði piparúða yfir þá sem höfðu sig mest í frammi. Það sem ég frétti hins vegar jafnóðum af atburðarrásinni hef ég fengið meira og minna staðfest síðastliðna daga í frásögnum, á myndum og upptökum af vettvangi.

Eins og ég sagði frá hér þá var mér töluvert brugðið þegar ég sá hvað piparúðinn gerir þeim sem verða fyrir honum. Ég hef heyrt misjafnar sögur af mótmælunum en ekkert séð enn sem réttlætir notkun ertandi og étandi efnis í andlit og augu mótmælenda á gamlársdag. Mannfjöldi sem gerir hávaða er ekki hættulegur þó hann sé að sjálfsögðu pirrandi og ærandi. Lögreglan á hins vegar að hafa hlotið kennslu og þjálfun í að missa sig ekki við slíkar aðstæður.

Það að höfuðborgarlögreglan upplifi mótmælendur sem hættulegan óaldarlýð sem þarf að gera óvígan með vafasömum sjálfsvarnarbúnaði, sem mér sýnist réttlætanlegt að telja til efnavopna, þykir mér ákaflega dapurlegt svo ekki sé meira sagt! Mér var brugðið á gamlársdag að verða vitni að aðgerðum og öfgakenndum viðbúnaði lögreglunnar við Hótel Borg en ég geri mér grein fyrir því að þeir voru alls ekki þarna af eigin frumkvæði heldur voru þeir að hlýða yfirboðurum sínum. 

Ég hef heyrt að sumir í lögregluliði Reykjavíkur hafi látið það í ljós að þeim er það þvert um geð að vera att gegn mótmælendum enda standa þeir flestir frammi fyrir sömu ógn og verið er að mótmæla. Það gera líka sennilega langflestir sjálfskipaðir verðir ríkisstjórnarinnar sem finna sig knúna til að ráðast gegn mótmælendum í orði og jafnvel gjörðum. Ég er reyndar svo gáttuð á því sem sumir hafa látið út úr sér um mótmælin að undanförnu og þá sem taka þátt í þeim að mig skortir orð til að lýsa furðu minni... Mín helsta skýring á slíkum viðbrögðum er óttinn við að henda því sem maður þekkir fyrir eitthvað nýtt og óþekkt.

Ég hef tekið þátt í flestum mótmælagöngunum hér á Akureyri, mætt á þrjá borgarafundi en auk þess verið viðstödd einn mótmælafund á Austurvelli auk mótmælanna við hótel Borg síðastliðinn gamlársdag. Ég hef aldrei verið jafndugleg við að fylgjast með fréttum af íslensku efnahagslífi, kynna mér mál sem tengjast þeim og lesa þau ofan í kjölin eins og þrjá síðastliðna mánuði. Sá miðill sem hefur reynst mér einna bestur í þeirri viðleitni að halda mér upplýstri og til að kynna mér þessi mál rækilega er bloggið hennar Láru Hönnu Einarsdóttur.

Óttinn við nýjungarÉg geri þetta ekki mér til skemmtunar og viðurkenni að þetta tekur af tíma mínum sem ég gæti og langar stundum til að verja í annað. Ástæðan fyrir því að mér finnst ég tilneydd til að fylgjast betur með því sem er að gerast en hingað til og taka auk þess þátt er sú að ég hef horfst í augu við óréttlætið sem viðgengst í íslensku samfélagi. Ein birtingarmynd þess er sú afbökun og skrumskæling sem fréttir af mótmælaaðgerðum síðastliðna mánuði hafa gjarnan verið. Eina ástæðan fyrir slíku virðist vera sú að gera þá, sem ekki hafa látið til skarar skríða og mótmælt, hrædda við að slást í hópinn.

Það er a.m.k. ljóst að þeir eru þó nokkrir, sem aldrei hafa mætt á mótmæli, sem telja sig þó hafa ástæðu til að fyllast heilagri vandlætingu í garð mótmæla sem hafa það skýra markmið að krefjast þess að þeir sem gerðu sig seka um spillingu og leiddu það alvarlega efnahagshrun, sem við erum að upplifa, sæti ábyrgð. Við viljum ekki að íslenskur almenningur þurfi að líða fyrir það. Við viljum ekki sætta okkur við að spillingin viðgangist áfram. Við viljum ekki að þeir sem komu þjóðinni í þær hörmungar sem hún stendur frammi fyrir rannsaki sig sjálfir og komist upp með öll þau svik sem allir ættu að vita að hafa viðgengist hingað til.

Það þykir sennilega öllum fáránlegt ef innbrotsþjófurinn fengi umboð til að rannsaka eigið innbrot sjálfur, bróðir hans væri skipaður honum til varnar, frændur hans og venslamenn væru einu vitnin í málinu og dómarinn væri klíkubróðir hans. Það er þó það sem við erum að leggja blessun okkar yfir ef við þegjum. Það er slíkt réttlæti og vinnubrögð sem þeir, sem eru með með skítkast í garð hvers kyns mótmælaaðgerða, eru meðvitað eða ómeðvitað að verja.

Undanfarna daga hef ég furðað mig mjög á hinni heilögu vandlætingu sem kemur fram í orðum margra þeirra sem hafa gagnrýnt mótmælendur. Þessi heilaga vandlæting hefur m.a.s. komið fram í því að sumir taka allt hrátt eftir hverjum sem er og fetta fingur út í hvað eina sem viðkemur öllum mótmælum af hvaða tagi sem þau eru. Þetta hefur vakið mér vangaveltur og ég hef látið mér detta í hug að margir þeirra sem hafa beint reiði sinni gegn mótmælunum sjálfum séu hreinlega svo ráðalausir að þeir viti ekki hvert þeir eigi að beina reiði sinni. Það er a.m.k. engin spurning í mínum huga að þeir sem mótmæla hafa fulla ástæðu til þess og ég vona að enginn þeirra sem hefur tekið þátt hingað til láti deigan síga þrátt fyrir beinar hótanir einstakra vandlætingarpostula.

Í þessu sambandi langar mig til að minna á að þeir sem hafa barist fyrir réttlæti í gegnum aldirnar hafa gjarnan mætt heilagri reiði og fyrirlitningu en það hefur alls ekki dugað til kæfingar réttlætisraddanna. Konan sem varð fyrst til að krefjast kosningaréttar kvenna var tekin úr umferð og lokuð inni á geðveikrarhæli. Verkamaðurinn sem örkumlaðist í vinnuslysi og krafðist ábyrgðar atvinnurekenda síns, þar sem starfsöryggi og aðbúnaði var verulega ábótavant í verksmiðjunni hans, var algjörlega hundsaður. Bandaríska blökkukonan sem settist í sæti hvítra í langferðarbílnum, sem hún þurfti að ferðast með, mætti bæði aðdáun og fyrirlitningu.  Mandela sat árum saman í fangelsi fyrir skoðanir sínar og andóf gegn hvíta meirihlutanum í landi hans.

Það getur verið að einhverjum finnist of langt seilst í viðleitinni til að benda á að það að mótmæla því óréttlæti, sem viðgengst á Íslandi í dag, á fullan rétt á sér. Sá tilgangur að benda á að heilög vandlæting og fyrirlitning þarf alls ekki að þýða það að mótmælendur hafi rangt við ætti þó ekki að fara fram hjá neinum. Það kómískasta sem ég heyrði til lögreglunnar á gamlársdag var það þegar einn þeirra hrópaði að mótmælin væru ólögleg. Ég hef aldrei áður heyrt að það væri ólöglegt á Íslandi að hafa skoðun og koma henni á framfæri!

Við sem mótmælum höfum reynt með friðsömum hætti að koma skoðunum okkar á framfæri við stjórnvöld en fulltrúar þeirra neita að hlusta. Bæði leikir og lærðir, innlendir og erlendir hafa rökstutt skoðanir okkar með skrifum sínum og munnlegum flutningi í fjölmiðlum en allar skoðanir sem benda á vanhæfni stjórnvalda eru hundsaðar.

Dæmin sem ég gæti týnt til í þessu sambandi eru því miður mýmörg. Því læt ég nægja að benda á eitt nýjasta dæmið sem ég rakst á, á mbl.is, en það er í viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson skipulagshagfræðing.  Hann bendir á að kærufresturinn gegn Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaganna rennur út n.k. miðvikudag. En litlar sem engar blikur eru á lofti um að reynt verði á réttmæti þeirrar beitingar fyrir dómstólum þar sem útlit er fyrir að „íslensk stjórnvöld láti tækifærið til málshöfðunar gegn breska ríkinu sér úr greipum ganga“.

ÓttaleysiÍ raun er okkur nauðugur sá eini kostur að mót- mæla. Það eru í raun fulltrúar núverandi ríkisstjórnar sem reka okkur út í mótmæla- aðgerðir með því að hunsa allar gagnrýnisraddir!

Ég mótmæli því sama og ég hef mótmælt hingað til og krefst virks lýðræðis fyrir alla íslensku þjóðina. Ég er tilbúin til að kveðja gamlar og úreltar aðferðir sem ala á dýrkun auðvaldsins og ójöfnuðinum sem verður til þess vegna. Ég get líka boðið  framtíðina hlaðna nýjum og réttlárari viðhorfum og viðmiðum velkomna fullkomlega óttalaust!

Kannski stafar óttaleysi mitt af því að ég hef lært að beina vandlætingu minni og reiði í réttan farveg...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Rakel, við, ég og þjóðin, þjóðin sem ISG þekkir og hin þjóðin sem er ekki þjóðin hennar, við eigum erfitt með að horfast í augu við að hafa verið plötuð. Við eigum erfitt með að horfast í augu við að geta ekki treyst þeim sem við byggjum á.

Við óttumst hið óþekkta og gælum við þá hugmynd að við getum hvílt róleg í kjöltu landsföðurs.

Með vorinu fer fólk að vakna upp við vondan draum og þá veltur það úr kjöltu landsföðursins.

Við verðum að vera virkir þátttakendur og stuðla að því að fólk átti sig á svikunum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 5.1.2009 kl. 05:11

2 identicon

Sæl nafna.

Langaði að þakka þér fyrir þennan góða pistil.  Ég vona svo sannarlega að þessi þjóð beri gæfu til þess að halda áfram að mótmæla.   Ég þekki ekki einn einstakling sem er sáttur við þessa stjórn eða að hún sitji áfram.  En ég þekki fólk sem er ósátt og dæmir mótmælendur hart.  Ég var ekki þarna sjálf en hef skoðað myndbönd af því sem gerðist frá upphafi til enda og frá mörgum sjónarhornum og eina ofbeldið sem ég sá var af hálfu lögreglu.

Við þurfum að halda áfram að þrýsta og mótmæla.  Það er það eina sem er í boði.

Stöndum saman sem þjóð.  Takk aftur.

Rakel (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 06:15

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Góður pistill. Takk

Hólmdís Hjartardóttir, 5.1.2009 kl. 06:46

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Að venju frábærar hugleiðingar. Nú þurfum við að læra nýta reiðina og þá orku sem henni fylgir í réttan og jákvæðan farveg til að byggja upp og breyta.

Arinbjörn Kúld, 5.1.2009 kl. 08:01

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þið öll! Langar líka að vekja athygli á þremur síðustu færslum Helga Jóhanns Haukssonar sem var á vettvangi á gamlárskvöld og nærri miðju átakanna. Nýjasta færslan fjallar um merkilegan skilning á hugtakinu kommúnisti sem mér hefur lengi sýnst að megi túlka sem málsvari réttlætisins eins og kemur fram í höfundarkynningunni minni.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.1.2009 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband