Myndin sem svo margir eru að tala um
15.12.2008 | 19:04
Ég heyrði fyrst af Zeitgeist-myndunum í sumar þegar dóttir mín horfði á aðra þeirra í tölvunni sinni. Hún sagði mér að þetta væri eitthvað sem ég ætti að horfa á. Næst rakst ég á umfjöllun um Zeigeist hjá Katrínu Snæhólm en heitar umræður vöknuðu á blogginu hennar í framhaldi þess að hún mælti með Zeitgeist: The Movie.
Dóttir mín hafði sagt mér að þarna væru dregin fram ýmis atriði sem þættu svo tortryggileg í sambandi við 11. september að þau hefðu alið af sér kenningar um að atburðarrásin í kringum flugvélarnar fjórar væri allt önnur en sú sem borin var á borð í fjölmiðlum á sínum tíma. Ég hafði heyrt eitthvað á þessar kenningar minnst áður.
Ég treysti mér ekki til að hafna þeim alfarið en ég treysti mér ekki til að meðtaka þær fullkomlega heldur. Auk þessa setti hún mig inn í þá kenningu myndarinnar að það væru óprúttnir græðgisvæðingarsinnar sem stjórnuðu bandarískum fjármála- mörkuðunum sem hefðu staðið á bak við atburði þessa örlagaríka dags og svo margt annað í sögu Bandaríkjanna sem hefði svo haft áhrif á peningastreymið þar og víða annars staðar í heiminum
Þegar dóttir mín sagði mér frá Zeitgeist hugsaði ég aðeins með mér að þetta væri ein þeirra mynda sem væri gaman að gefa sér tíma til að horfa á, og helst fyrr, en seinna en svo varð ekkert úr. Þegar Katrín mælti svo með myndinni á blogginu sínu áttaði ég mig á því að þetta væri sama myndin. Viðbrögðin, sem þessi ábending Katrínar olli, urðu svo til þess að ég ákvað að ég yrði bara að láta verða af því að sjá þessa mynd.
Ég vissi ekki þá að þetta eru í raun tvær myndir. Þær eru Zeitgeist: The Movie og Zeitgeist: Addendum. Ég er ekki alveg klár á því í hvaða röð þær eru en held að ég hafi raðað þeim í rétta tímaröð. Ég átta mig ekki á því hvort þær eru báðar jafnumdeildar en sú fyrri er það alveg örugglega. Það er sú sem var sýnd á borgarafundinum hér á Akureyri sl. fimmtudag. Reyndar stóð til að sýna þá seinni en vegna einhvers misskilnings þá var myndin sem forsvarsmaður fundarins fékk í hendurnar Zeitgeist: The Movie.
Í framhaldi af því að Katrín vakti athygli á myndinni á blogginu sínu var eins og það skylli á mér alda af umfjöllunum um myndirnar. Það var stofnaður hópur inni á Facebook í lok október til að þrýsta á RÚV að sýna Zeitgeist: Addendum. Ég gekk í hann og hef því fylgst með því hve brösulega það hefur gengið að fá þá þar til að falla fyrir hugmyndinni um að taka myndina til sýningar. Þetta eru þó mjög umtalaðar myndir sem hafa fengið mikið áhorf um allan heim og líka unnið til verðlauna (sjá t.d. hér)
Fólk virðist alveg skiptast í tvo hópa í afstöðunni til þessara mynda og ekki bara til myndanna sem slíkra heldur í því líka hvort þær séu þess verðar að á þær sé horft yfir höfuð. Það er a.m.k. sá skilningur sem ég hef fengið út úr þeim heitu umræðum sem hafa skapast um þessar myndir (sjá t.d. hér).
DV birti grein um þessar myndir þar sem segir að meginspurningar þeirra séu þessar: Stofnaði Alþjóðleg valdaklíka bankamanna bandaríska seðlabankann til þess að hneppa þjóðina í ánuð eilífra skulda? Bjuggu þessar klíkur til kreppuna miklu til að öðlast aukin völd? Það fór auðvitað um mann og ég leiddi hugann að því sem hefur verið að gerast hér á landi undanfarin misseri. Greinin í DV leiðir alls ekki taum þessara mynda en hana má finna hér.
Síðustu fréttir frá hópnum, sem var stofnaður inni á Facebook til að skora á ríkisstjónvarpið til að taka Zeitgeitst: Addendum til sýninga, herma að búið sé að skrifa umboðsmanni myndarinnar og nú sé bara beðið eftir skriflegu leyfi frá honum. Það er því mögulegt að hún verði sýnd í Sjónvarpi allra landsmanna í byrjun næsta árs.
Sá hluti myndarinnar sem ég er búin að horfa á er mjög sláandi. Myndin setti mig reyndar svo út af laginu að ég átti í erfiðleikum með að halda meðvitund yfir þriðja og síðasta hluta hennar. Ég ætla að taka það fram að ég sofna aldrei yfir myndum, sem ég er að horfa á, en þegar ég verð fyrir yfirgengilegu ytra áreiti sem reynir mjög á andlegt þol mitt þá eru viðbrögð mín oft þau að ég verð altekin yfirþyrmandi þreytutilfinningu.
Þó mér þyki hugmyndirnar sem þarna eru settar fram margar sláandi þá þýðir það alls ekki að ég hafi fallið fyrir þeim öllum. Ég get t.d. ekki fallist á það að maðurinn Jesú hafi aldrei verið uppi og allt sem um hann hefur verið sagt og skrifað sé byggt á fölsunum og lygi. Hins vegar hef ég alla tíð verið svo hrifin af samanburðartrúarbragðafræði að ég vissi áður að margt í sögu hans og trúarbrögðunum sem byggja á tilveru hans er tekið beint úr heiðni.
Flest það sem kom fram í öðrum hluta myndarinnar um 11. september vekur svo sannarlega upp spurningar og um leið tortryggni um að sagan sé langt frá því öll sögð. Ég á hins vegar erfitt með að meðtaka það að hún geti verið sú sem kemur fram í myndinni. Ef kenning myndarinnar er rétt þá hefur þurft býsna stóran hóp illmenna til að setja þessa atburðarrás alla á svið. Ég á mjög erfitt með að trúa að illskan geti verið svo yfirgengileg að það hafi verið mögulegt en það er samt ýmislegt við útgáfu bandarískra stjórnvalda á þessari atburðarrás sem stemmir vissulega ekki heldur.
Það var í þriðja hlutanum sem ég var svo yfirkomin að ég byrjaði að missa úr. Annar hluti myndarinnar vakti mér svo mikla sorg því hún minnir svo sannarlega á atriði sem þarfnast viðhlítandi skýringa. Atburðarrásin sem árásin á Tvíburaturnana hratt af stað er ekki síður dapurleg og þetta allt saman setti mig svo út af laginu að ég átti erfitt með að halda meðvitund. Þar sem ég missti þó nokkuð úr þessum síðasta hluta myndarinnar af þessum sökum er ljóst að ég þarf að horfa á hann aftur.
Þessi síðasti hluti myndarinnar fjallar um þá sem eru í aðstöðu til að stýra fjármálamörkuðunum og koma honum jafnvel í þrot til að græða enn meira. Þarna voru settar fram nokkrar ógnvekjandi hugmyndir sem læddust inn í hálfmeðvitundarlausan huga minn en ein tilvitnunin í einn þessara amerísku auðjöfra sló mig sérstaklega. Sá sagði eitthvað á þessa leið: Auður minn er svo mikill að hann hefur mig yfir lögin! En getur það verið að fjármálamorkuðunum um allan heim sé meira og minna stýrt af fingralöngum spillingaröflum?
Ég er sannfærð um að dýpt efnahagslægðarinnar hér á landi er af mannavöldum! Ég leyfi mér þó að efast um að þeir hafi staðið á bak við gluggatjöldin og skipulagt núverandi kreppu. Það er samt engum vafa undirorpið í mínum huga að það voru útrásaröflin og þeir sem skýldu þeim í krafti laga og opinberra embætta sem bera ábyrgðina á dýpt hennar. Það er líka ljóst að það eru þessir sömu einstaklingar sem eru í þeirri aðstöðu að þeir geta grætt á þessu ástandi. Og ekki nóg með það heldur eru þeir í aðstöðu til að færa tapið inn í þjóðarreksturinn á þann hátt að það lendir á almenningi að borga upp tapið fyrir þá.
Það má svo alls ekki gleyma því allra, allra yfirgengilegasta sem er það að þessir menn eru líka í aðstöðu til að afskrifa skuldir sínar og við vitum að það hefur verið gert og enn fleiri sækjast eftir að fá þá sömu fyrirgreiðslu (sjá t.d. þessa færslu hjá Jens Guð). En hvað verður um þessar afskriftir? Í mínum haus þá gengur það ekki upp að þær skuldir sem fjármálagreifarnir fá afskrifaðar séu þar með úr sögunni. En getur það þá verið þannig að þeir, sem í krafti síns embættis geta haft bein áhrif á efnahagslíf landsins, séu að færa skuldir sínar í bönkunum yfir á lán almennings í landinu í formi vaxta og verðtrygginga? Ég bara spyr?
Að öllu samanlögðu þá leyfi ég mér að mæla með myndinni Zeitgeist: The Movie. Ég treysti þeim sem sjá hana til að mynda sér sína skoðun á henni en ég er sannfærð um að hún vekur alla til umhugsunar! Að mínu viti er það bara af hinu góða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:05 | Facebook
Athugasemdir
Já Rakel það er það sem er að gerast. Það er verið að soga eignir og tekjur af landsmönnum til þess að borga skuldir útrásarliðsins og spilltra sjórnmálamanna. Þetta er gert í gegn um húsnæðislánakerfið, bankakerfið, með skattheimtu og með niðurskurði í ríkisfjármálum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.12.2008 kl. 19:31
Í raun er mér orðið svo, svo misboðið að mig langar til að gera eitthvað í því! Tillögur?? Bara slappa af og halda jól Það er sennilega gáfulegast
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.12.2008 kl. 21:09
Ég sá Zeitgeist the Movie í vor finnst hún góð, er þó samála þér um afstöðu hennar til Krists en meiningin til þess hvernig trúarbrögð hafa verið notuð er góðZeitgeist Addendum sá ég fyrir stuttu mér finnst hún skilja eftir meiri vonir.
Mynd, sem mig minnir að heita Plane site 911, sá ég 2004 þar voru frétta myndir frá 09.11.2001 settar í gagnrýnið samhengi svipað og er gert í Zeitgeist the Movie. Þessi mynd fékkst aldrei sýnd hjá stórum sjónvarpsvöðvum.
Ég vil svo benda á vefinn hans Jóhannesar www.vald.orgþar er hægt að lesa bækurnar Falið vald sem hann skrifaði fyrir 1980 auk þess sem mikið efni er á þeim vef sem spáði fyrir um það sem nú er að gerast og skýrir það vel.
Magnús Sigurðsson, 15.12.2008 kl. 22:02
Halda jól og taka svo til hendinni.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.12.2008 kl. 22:06
Rétt Magnús. Það er afar sorglegt hvernig trúarbrögðin hafa verið notuð. Takk fyrir allar ábendingarnar. Ég er farin að skilja af hverju samfélagið er skipulagt eins og það er. Það er auðvitað til þess að við séum ekki að eyða tíma okkar í að halda okkur upplýstum
Jakobína: Sammála... ég þarf að fara að taka mig á. Taka djúpa slökun. Hreinsa hugann og leggja allt til hliðar svo ég öðlist sálarró og geti haldið jól með réttu hugarfari
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.12.2008 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.