Barátta góðs og ills

Það hafa margar sögur um alls kyns spillingu gengið um í samfélaginu undanfarin misseri. Ýmsir auðmenn og reyndar stjórnmálamenn líka hafa verið þar í aðalhlutverki. Eftir bankahrunið óx þessum sögnum svo sannarlega fiskur um hrygg og sífellt fleiri koma við þessar ljótu spillingarsögur.

Ég er ekki í aðstöðu til að meta sannleiksgildi þeirra allra. Hins vegar er ljóst að dýpt kreppunnar hér á landi og þögn yfirvalda þar um er ekki einleikin. Eitthvað liggur að baki. Eitthvað sem er svo stórt og ljótt að það þolir ekki að vera dregið fram í dagsljósið. Það er hins vegar ljóst að til að hylma yfir ástæður og gerendur þarf virka og sterka þöggunar- og felublokk.

Alþjóð veit í grundvallaratriðum hverjir bera ábyrgð á hinni alvarlegu fjármálakreppu sem dundi á íslensku efnahagslífi nú í haust. Við vitum líka í aðalatriðum hvað olli henni. Þ.e.a.s. þeir sem eru tilbúnir til að horfa framan í þann bitra veruleika. Ýmsir málsmetandi menn og konur hafa komið fram í erlendum og innlendum fjölmiðlum, á borgara- og mótmælafundum og svo hér á blogginu og útskýrt það fyrir okkur hvað gerðist og hvernig það gerðist. (Lára Hanna Einarsdóttir hefur sýnt fádæma atorku við að safna þessu öllu saman, saman)

Gandálfur reiðir sverð sitt á móti óvinaöflunumEnginn þeirra seku hefur stigið fram og viðurkennt ábyrgð sína. Það sem hefur þó vakið mesta furðu í þessu sambandi er það hvernig þeir komust upp með þetta og hvers vegna enginn er kallaður til ábyrgðar núna. Þrátt fyrir að það liggi í augum uppi að fjárglæfrastarfsemi nýfrjálshyggjugosanna hafi steypt krónunni til helvítis þá eiga þeir ekki að sæta neinni ábyrgð fyrir það. Þvert á móti eru skilaboðin til þjóðarinnar þau að núna sé ekki rétti tíminn til að finna sökudólga! Hvenær þá ef ekki núna spyrjum við auðvitað á móti? en ekkert svar... aðeins myrk og hol þögnin...

Það sem mér og sennilega flestum öðrum finnst furðulegast í öllum þessum hildarleik er það hvað þessu liði gengur til? Hvers vegna axlar enginn ábyrgð á því, sem við viljum e.t.v. kalla sofandahátt fjármálastofnananna í landinu? Hvers vegna þegir verkalýðsforystan? Hvers vegna þegir forsetinn? Hvers vegna virka fjölmiðlarnir ekki? Hvers vegna þegir dómsvaldið? löggjafarvaldið? og framkvæmdarvaldið? Hvers vegna neitar ríkisstjórnin að víkja?

Hvað eru þessir aðilar að verja? Sekt? Samsæri? Meðvirkni? Heimsku? Getuleysi? Dómgreindarskort? Siðspillingu? Sjö syndir, og sennilega enn fleiri sem mig skortir hugmyndaflug til að draga fram, binda þöggunar- og felublokkina saman, og gegn hverjum? Almenningi, sem er svo sleginn að andlegu ástandi hans má líkja við afleiðingar alvarlegs losts sem stafar t.d. af loftárásum og öðrum stríðsógnum. Og erum við ekki í stríði?

Héldu ekki allir að ríkisstjórnin væri í vinaliðinu með almenningi og stæði vörð um hagsmuni hans? En hvað hefur komið í ljós? Ríkisstjórninn er óvinur almennings í landinu. Hún starfar ekki lengur í hans þágu og ber ekki hagsmuni hans fyrir brjósti. Þvert á móti ver hún þá sem brutu gegn þjóðarhagsmunum. Það lítur líka út fyrir að þeir séu ekki aðeins sekir um yfirhylmingu og samsekir glæpamönnunum þess vegna. Þeir eru líka sekir um sams konar glæpi og útrásarklíkan. Enda tilheyrðu þeir henni og störfuðu leynt og ljóst í hennar þágu og hagsmuna hennar eingöngu. Enda græddu þeir mest á því. (Sjá blogg Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur)

Þjóðin á því ekki bara í baráttu við þá sem spilltu fortíðinni, rústuðu nútíðinni og standa í vegi fyrir framtíðinni heldur berst hún við ill eyðingaröfl. Meinsemdin sem hefur sest að í hugum þeirra, sem verja völd sín og vinaklíkurnar sínar með þessum hætti, er græðgin. Sjúklingarnir sem við sitjum uppi með eru svo gersamlega á hennar valdi að þeir eru orðnir þrælar hennar. Fíknin í auð og meiri auð og spennuna sem hann skapar hefur firrt þessa einstaklinga dómgreindinni. Ef þessi sjúklingahópur tapar er fjörið búið og það má ekki verða. Það er engin framtíðarhugsjón sem stýrir gjörðum þeirra heldur skammtímasjónarmið helguð af peninga- og valdagræðgi. 

Hvar er almenningur í þessari mynd? Hann borgar upp áhættufjármagnið sem tapaðist sama hvað það kostar. Almannaheill er fórnað á altari græðginnar. Það verður að fórna öllu og öllum til að bjarga eigin skinni og halda uppi samsærinu. Hugsun græðgisfíklanna innan ríkisstjórnarinnar er mjög líklega þessi: „Ef vinur minn tapar bankanum sínum kjaftar hann frá mér og það ríður mér að fullu!“ Það er þess vegna engin spurning hverjum verður fórnað? fyrir hvern? og hvers vegna?

Almenningur er fórnarlambið. Við höfum færst aftur á tíma lénsveldisins og fáum alltaf frekari staðfestingar á því. Tekjur okkar og eignir voru settar að veði fyrir sýndarverðmæti banka og fyrirtækja. Við vorum m.a.s. knúin áfram með auglýsingum og gylliboðum til að grundvalla þennan sýndarveruleika enn frekar og sumir bitu vissulega á agnið. Eru þeir sakamenn eða fórnarlömb? Ég held að þeir séu flestir fórnarlömb því ég reikna ekki með að þeir fái skuldirnar sínar afskrifaðar eða réttara sagt reiknaðar inn í vextina og verðtryggingarnar sem leggjast ofan á lán Jóns og Jónu.

Er þessi „útrásar“pistill minn farinn að minna á ævintýri þar sem góðu öflin neyðast til að berjast á móti hinu illa áður en það eyðir veröldinni líkt og í Hringadróttins sögu Tolkiens? eða er eitthvert vit í öfgunum sem ég dreg upp hér að framan? Ég treysti mér ekki til að svara því á þessari stundu? Ég óttast aftur á móti að tíminn muni leiða það í ljós að margt af því sem „orðið á götunni“ segir að skýri fáránleikann í gjörðum núverandi stjórnvalda eigi við sorglega mörg rök að styðjast.

Mér líður sjálfri eins og ég sé í liði með foringjum góðu aflanna þeirra: Gandálfs, Legolasar, Aragons, Fróða og Gimli í stríði við illa rotið lið sem stýrist af taumlausri græðgi og hefur bundist saman í máttugum auðhring til að mata sinn krók. Þessi tilfinning á frekar skylt við martröð en ævintýri... nema að þetta endi allt vel.The evil eye


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Frábær hugleiðing hjá þér Rakel..eins og alltaf!!!  Eðlilega hlýtur fólk að upplifa að þetta sé eins og baráttan milli hins góða og hins illa...og eins og í öllum góðum ævintýrum reynir hið illa ávallt að dulbúast sem hið góða og þykjast vera vinur þegar það er óvinur. Kannski má setja suma fjölmiðlana í það hlutverk. Þykjast vera að flytja fólki upplýstar og óhlutlægar fréttir meðan þeir reka erindi eigenda sinna og valdhafa. Úlfarnir í sauðagærunum á íslandi eru mun fleiri en fólk getur ímyndað sér og leynast víða.

Ég ætla að mótmæla í dag í 10. sinn og síðan er boðað frekara andóf eftir jólin.

Eftir síðustu aðgerðir ríkisstjórnar trúi ég ekki öðru en að fjöldi mótmælenda verði gífurlegur á Austurvelli í dag..þó ég viti innst inni að Kringlan og Smáralindin munu frekar freista fólks. Fólksins sem mun ekki eiga annarra úrkosta á nýju ári en að slást jafnvel um mat í löngum röðum við hjálparstofnanirnar. Það er þegar farið að gerast..talað er um að 3500 manns þurfi mataraðstoð daglega núna. Félagslega kerfið er götótt og mun ekki geta tekið við nema mjög fáum af þeim þurfa aðstoðina. Ég er ekki að reyna að vera svartsýn..ég er bara að tala út frá þeim raunveruleika sem fólk er þegar farið að reka sig á.

Takk enn og aftur fyrir pistlana þína...þá ættu sem flestir að lesa.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 13.12.2008 kl. 08:17

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér finnst gott að fá staðfestingu á að einhver skilur þessa framsetningu mína á veruleikanum. Mér var eitthvað svo misboðið og heitt í hamsi og þetta var eina aðferðin sem ég fann til útrásar. Þessi skrif hjálpuðu mér til að stilla tilfinningar mínar. Takk fyrir að benda mér á að skrif mín geri þér eitthvað gott líka Mér finnst virkilega vænt um að heyra það Það er líka alveg gangkvæmt því mér finnst pistlarnir þínir oft virka sem besti orkugjafinn á þessum tíma úlfanna.

Smá myndagetraun: Finndu úlfana. Þeir eru þrír („taggaði“ þá en held að sú merking hafi týnst á leiðinni).

Ã?lfur I,Ã?lfur II,Ã?lfur III

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.12.2008 kl. 13:04

3 identicon

Þú hefur talað fyrir mig og það sem ég hugsa í þessum efnum:)
Takk fyrir það.

Þetta var afskaplega vönduð og góð færsla hjá þér þar sem þú dregur saman hvað gerðist og hvað sé að gerast í framhaldinu eða réttara sagt hvað ekki sé að gerast varðandi þöggunina og aðgerðarleysið hjá yfirvöldum.
En það er ljóst að þeir munu ekki komast upp með þetta. Glæpurinn er of stór til þess og fólk mun halda áfram að berjast fyrir réttindum sínum og betra samfélagi fyrir börn sín og afkomendur.

Við hreinlega getum ekki búið við óbreytt ástand.

Takk enn og aftur fyrir stórgóða bloggfærslu.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 17:21

4 identicon

Sæl Rakel.

Sá þessa athugasemd frá þér: Það getur ekki verið annað en hægt sé að kæra í nafni þjóðarinnar fram hjá íslenskum
stjórnvöldum. Við sendum út neyðarkall og lýsum eftir lögmönnum og dómurum sem eru
tilbúnir til að taka upp málið fyrir hönd þjóðarinnar gegn spillingaröflunum og
glæpalýðnum.
Þrælahald er ólöglegt og miðað við allt og allt þá þýða neyðarlögin, fjárlögin
og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar gagvart almenningi ekkert annað en hann er
hnepptur í ánauð. M.ö.o. gerður að þrælum peningamaskínunnar!

Í gær og í dag hef ég verið að ræða "class action" við fólk, ástæðurnar fyrir því að við ættum að fara í það - þessar sem þú taldir upp: semsé blekkingar, gjaldþrot, vistarband og þrælahald, svona til að byrja með. Fyrst er að finna 30 - 50 manns sem eru sammála um að láta á þetta reyna, svo er að finna lögmanninn sem þorir að reka málið. Ertu með?

Þórdís B (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 17:46

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Eggert: Bestu þakkir líka Mér finnst virkilega vænt um að heyra að einhverjir finni samhljóm og vit í því sem ég er að skrifa. Sammála því að glæpurinn er alltof stór til að hann megi viðgangast. Þess vegna berjumst við áfram og vonum að við fáum góðan endi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.12.2008 kl. 18:11

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þórdís: Frá því í byrjun október hefur hugur minn leitað ákaft af hugmyndum að því hvað getur orðið þjóðinni til bjargar. Hvort ekki sé hægt að stöðva óréttlætið með einhverjum hætti? Hverjir geti gert það og hvernig? Ég bjóst auðvitað við því að einhver sem ríksistjórninn yrði að taka mark á myndi rísa upp og segja eitthvað almenningi til varnar. Nú eru lliðnar rúmar 10 vikur frá bankahruninu og enginn hefur sagt neitt markvert enn...

Ég hef skellt ýmsum hugmyndum fram á þessu tímabili og þá oftast undir þeim kringumstæðum þegar það hefur fokið virkilega í mig eins og var tilfellið með þá sem þú rakst á. Kannski er hún ekkert svo galinn, þ.e.a.s. að auglýsa eftir lögmanni til að reka mál gegn ríkinu fyrir augljóst mannréttindabrot gagnvart íslensku þjóðinni? Ég fanga því virkilega að þú hafir hrifist af henni ekki síst ef þetta er eitthvað sem getur í alvörunni virkað. Ef þú færð einhverja með þér og telur að þið hafið eitthvert gagn af því að hafa mig með líka þá verð ég að sjálfsögðu með.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.12.2008 kl. 18:47

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Rakel þetta er frábær pistill og speglar vel hvernig veruleiki okkar Íslendinga er ótrúlegri en nokkur glæpareyfari.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.12.2008 kl. 01:22

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir það Jakobína Það var mjög geðhreinsandi að skrifa hann en kveikjan af honum var færslan þín um orðið á götunni.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.12.2008 kl. 06:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband