Ég varð undir valtara...
12.12.2008 | 05:30
... og ökumaður valtarans bara hló. Þegar lögreglan kom á staðinn kom í ljós að þeir voru vinir. Gott ef ekki skyldir og voru líka í sama veiðiklúbbi. Eftir því sem lengra leið á yfirheyrsluna komu fleiri og fleiri atriði fram sem bundu þá saman. Ég hefði auðvitað minnt þá á að hringja á sjúkrabílinn ef ég hefði ekki liðið út af. Ég hefði jafnvel bent á að ökumaður valtarans væri drukkinn ef ég hefði komist að.
Það síðasta sem ég sá áður en ég leið út af var að ökumaðurinn dró fram silfursleginn pela og bauð lögreglumanninum að súpa af. Lögreglumaðurinn varð svolítið kindarlegur á svipinn í fyrstu en ökumaðurinn sagði eitthvað sem fékk lögreglumanninn til þurrka hann framan úr sér og svo tóku þeir utan um hvorn annan og dönsuðu saman einhvern hringavitleysudans sem mér sýndist ganga út á það að stíga tvö skref til hægri og eitt skref til vinstri...
Ég sit þess vegna uppi með afleiðingarnar af því að hafa lent undir valtara. Ég þarf ekki að vænta mér neinnar aðstoðar. Ég get bara séð um mig sjálf. Ég tengist heldur ekki rétta fólkinu... Hef reyndar ekki áhuga á að tengjast svona spilltu liði sem lætur sér standa á sama um það þó vinir þeirra valti gjörsamlega yfir fólk!!
Ég rakst á rosalega flottan pistil í kvöld sem mig langar til að vekja athygli á og vona að fari sem víðast svo fleiri rekist á hann eins og ég. Pistillinn heitir Tveir mánuðir af ábyrgðarleysi. Höfundurinn kallar sig ak72. Ég veit lítið meira um hann nema ég held að ég hafi rekist á það einhvern tímann að hann sé einn þeirra sem vinnur með Herði Torfa. við það að undirbúa mótmælafundina á Austurvelli.
Ak72 hefur sett saman lista með tuttugu og einu atriði sem vitnar um aðgerðar- og ábyrgðarleysi stjórnvalda í núverandi aðstæðum. Hér eru þrjú þeirra atriða sem hann telur upp:
- Bankamenn sem bera ábyrgð á IceSave, peningamarkaðsjóðum, vafasömum viðskiptaháttum og blekkingum ýmiskonar, sitja enn. Engin rannsókn hefur farið fram á gjörðum þeirra, heldur hafa þeir haft tvo mánuði til gagnaeyðingar.
- Stjórnendur FME sem áttu að fylgjast með og skoða hvort eitthvað óeðlilegt hafi veirð í gangi, sitja enn þrátt fyrir að hafa brugðist öllum skyldum sínum. Hafa ekki þurft að sýna ábyrgð, heldur fengið aukin völd.
- Starfsmenn Kaupþings sem stofnuðu ehf. til að færa skuldir vegna hlutabréfakaupa inn í og skella í gjaldþrot með aðstoð bankans, sitja enn. Ekkert gert til að taka á þessu.
Það eru svo væntanlega allir búnir að sjá þetta hér:
Er það skrýtið þó mér líði eins og ég hafi lent undir valtara?
Ég sit núna í skugganum af sjálfri mér og sleiki sárin. Ég veit ekki hvað kemur út úr þessu öllu saman en veruleikinn er orðinn svo súrrealískur að það er ekki lengur hægt að fjalla um hann með venjulegum orðum. Það er búið að afbyggja öll orð og öll gildi þannig að ég næ ekki lengur tengslum við þau. Grægðin er þannig sögð góð. Spillingin er sjálfsögð. Manngildið er mælt í auði. Auðurinn skapar ekki aðeins völd heldur er sá auðugi hafinn yfir öll lög og allar reglur.
Reglurnar og lögin eru eingöngu notuð til að stýra almenningi. Hann er tuktaður til og haldið niðri svo það megi nota hann áfram eins og tvinnann sem er notaður til að stoppa upp í götin...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.