Þið eruð hetjurnar mínar!

Ég er komin heim eftir langa helgi í Reykjavík. Erindið suður var vinnutengt. Ég þurfti að vera viðstödd þrjá fundi en ég bætti fjórða fundinum við af sjálfsdáðum. Það var níundi mótmælafundurinn á Austurvelli sl. laugardag. Við Katrín Snæhólm vorum búnar að ákveða að fara saman á fundinn. Það var ekki eins fjölmennt á þessum fundi eins og ég hafði búist við en mér var sagt að sennilega væri þetta þriðji fámennasti fundurinn.

Miðað við atburði sl. daga er ástæðan ekki sú að fólk sé að gefast upp á að mótmæla, öðru nær, en kannski er sú algjöra hundsun sem þessum fundum hefur verið sýnd af yfirvöldum það sem einhverjir eru búnir að fá nóg af. Ræðumennirnir sl. laugardag voru tveir: Jón Hreiðar Erlendsson, fyrrum vörubílstjóri og Gerður Kristný, rithöfundur. Bæði sögðu átakanlegar dæmisögur af fjarhagstjóni sem einstaklingar hafa orðið fyrir undanfarna mánuði. 

Í lok fundarins benti Hörður Torfason á að það yrði opið hús í Borgartúni 3. Þar hafa mörg þeirra grasrótarsamtaka, sem urðu til í kjölfar bankahrunsins, fengið aðstöðu fyrir sína starfsemi. Í tilefni þess buðu þau upp á kaffi. Við vorum orðnar fjórar saman og ákváðum að leggja leið okkar þangað. Ég hefði ekki viljað missa af því. 

Fólkið sem ég hitti þennan dag og þá sérstaklega þarna niður frá er einstakt. Styrkurinn, krafturinn, réttlætiskenndin og viljinn til að berjast fyrir betra samfélagi er aðdáunarvert. Ég var heilluð af þessu fólki. Það sem mér finnst reyndar einkum einkenna alla sem ég hef hitt í kringum mótmæli og borgarafundi, bæði fyrir sunnan og hérna fyrir norðan, er eitthvert ólýsanlegt þolgæði og æðruleysi. Það er kannski ekki síst þess vegna sem þetta fólk gefur mér kraft og það sem er mest um vert kjark og trú.

Þó viðkynningin væri stutt þá langar mig til að þakka öllum þeim sem ég fékk tækifæri til að kynnast á mótmælafundinum niður á Austurvelli og í byltingarkaffinu niður í Borgartúninu fyrir yndislega og hvetjandi viðkynningu. Katrínu þakka ég auðvitað sérstaklega fyrir þennan ógleymanlega dag. Án hennar hefði hann aldrei orðið sá sem hann varð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég fékk mér líka kakó í Borgartúni 3 en sá þig ekki. Ég er sammála því að fólk er ekki að missa áhugan á hegðun ríkisstjórnarinnar. Kastljósið í kvöld afhjúpaði vel ráðaleysi og vangetu valdhafanna. Það er eins og þeir viti ekki hvað þeir eru að gera.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 9.12.2008 kl. 22:29

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Leitt að við skyldum ekki bera kennsl á hvor aðra Ég var þarna með Katrínu Snæhólm, Heiðu og dóttur hennar. Við komum ekki aleg á slaginu fjögur en við vorum þarna góðan tíma. Hver veit nema við höfum sést enn ekki þekkt hvor aðra. Ég gaf mig t.d. fram við Heidi inni í bæ en hún sagðist ekki hafa þekkt mig þar sem hún taldi mig dökkhærða af myndinni af mér að dæma.

Allt um það. Það hefði verið virkilega gaman að sjá þig en við eigum það bara eftir

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.12.2008 kl. 03:45

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Hæ og takk sjálf fyrir síðast Ég varð þeirar gæfu aðnjótandi að hitta Jakobínu sjálfa í dag...hún þekkti mig sko af myndinni sem fylgir blogginu mínu..je right!!

Við erum mjög spenntar fyrir því sem koma skal...margt bruggað og brallað annað en jólaölið get ég sagt þér. En það er líka það eina sem má segja núna. Verum í bandi!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.12.2008 kl. 21:57

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég sagði þér að það mætti þekkja þig af myndinni sem þú ert með á blogginu þínu Ég er svo lagin að lesa á milli línanna. Les það m.a. á milli línanna hjá þér og Jakobínu að það er eitthvað í aðsigi...

Kannski hjálpar það til að ég vissi af einhverju sem átti að eiga sér stað í eldhúsinu hjá þér fyrir hádegi sl. mánudag. Varð skyndilega hugsað til þín þá og sendi sterkstreymdar óskir um að eitthvað virkilega gott kæmi út úr því!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.12.2008 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband