Þess vegna er ég mótmælandi
3.12.2008 | 23:25
Það svíður sárt að lesa greinina á mbl.is sem ég tengi þessari færslu. Það skiptir mig engu hvort Uffe Riis Sörensen, fyrrum ritstjóri, er sanngjarn eða ósanngjarn eða hvort að Danir fóru illa með Íslendinga á einokunartímanum; sem þeir sannarlega gerðu. Mér svíður samt.
Orðsporið sem fjármálarefirnir og æðstu embættismenn þjóðarinnar hafa kallað yfir íslensku þjóðina er staðreynd og það er ástæða til að taka afstöðu til þess hvernig okkur líkar við það. Við vissum sennilega öll að þjóðin er rúin trausti. Að það er hlegið að okkur fyrir heimsku og fáráðlingshátt líka. Sumir eru okkur m.a.s. reiðir og það mjög reiðir eins og danski ritstjórinn sem skrifaði greinina sem fyrrnefnd frétt byggir á.
Hann segir í grein sinni, sem hann birtir í Ekstra Bladet, að Íslendingar séu að skapa sér sitt eigið helvíti. Rökin sem hann færir eru þau að hroki og græðgi séu þeir eiginleikar sem við höfum tileinkað okkur og lagt mesta rækt við. Af hverju ætli hann dragi þá ályktun? Dettur einhverjum hinir svonefndu útrásarvíkingar í hug? En það er ekki bara framgangur þeirra og framkoma sem hann byggir skoðun sína á. Hann segir:
Slíkt helvíti hafi Íslendingum nú tekist að skapa sér og þeir eigi ekkert með að koma til Danmerkur og krefjast þess að aðrir vaski upp eftir svallveislu þeirra.Íslendingar hafi þó sannarlega beðið um það með frekju og hroka. Þannig hafi forseti Íslands skammað Breta og Dani í hádegisverðarboði og hótað þeim með Rússum. Þá hafi Geir H. Haarde forsætisráðherra sagt að þar sem einungis fáir glæframenn og heimskreppa hafi komið þjóðinni í þrot eigi hún tilkall til hjálpar.
Það má vera að einhverjum finnist danski ritstjórinn taka of stórt upp í sig en ég verð að segja að ég skammast mín. Mér þykir hræðilegt að ímynd mín sem Íslendings skuli vera á valdi þessara taktlausu og hjákátlegu stjórnarherra sem hann talar um í greininni sinni. En Uffe segir fleira sem mér svíður undan:
Þetta sé hins vegar helber lygi. Íslendingar hafi byggt sér skýjahallir fyrir annarra manna fé, leikið Matador með banka í Bretlandi, símafyrirtæki í Tékklandi og verslanir í Danmörku. Þá hafi þeir gefið Dönum fríblöð í 400.000 eintökum sem hafi kostað danska fjölmiðla óheyrilega mikið fé.
Er það von þó sjálfsvirðing manns sé brotin. Ég finn til minnkunar yfir því að nágrannar mínir hafi orðið fyrir græðisblikandi innrás íslensks spilaborgarauðvalds. Ég skil afstöðu nágranna okkar en mér finnst rosalegt að við skulum vera á valdi umræddra manna ekki síst eftir að öll spilaborgin hrundi og það þrátt fyrir alla skítalyktina sem leggur af rústunum. Þetta stangast svo á við lágmarkssiðferði að mér verður orða vant. Ég finn reyndar engin önnur en hroka og græðgi sem geta skýrt svona framkomu. Mér sýnist þess vegna að Uffe Riis hafi þó nokkuð til síns máls.
Í ljósi þessa alls og þeirra fáránlegu staðreynda sem hafa komið fram eftir hrunið í haust þá mætti ætla að íslenska þjóðin sé á valdi stórhættulegra fíkla og auðmannamafíu. Þessi óþjóðalýður sem hefur landið og þjóðina á valdi sínu hefur smælað glópagullstenntur framan í nágranna okkar i Evrópu og í leiðinn rænt okkur nánast öllum grundvallaratriðum mannsæmandi lífs. Hann hefur rænt okkur: afkomunni, örygginu, frelsinu, virðingunni, stoltinu og ærunni!
Þess vegna mótmæli ég! Mér svíður svo sárt undan að ég get ekki haldið kyrru fyrir. Réttlætiskennd minni er svo misboðið að ég get ekki haldið aftur af mér. Þess vegna rís ég upp eins og sú örvona þjóð sem barðist fyrir sjálfstæði landsins í lok 19. aldar, sem barðist fyrir réttindum verkalýðsins á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar og allar aðrar þjóðir sem hafa barist á móti óréttlætinu og krafist jafnréttis og réttlátra kjara.
Óréttlætið sem lagt er á okkur núna er ekki aðeins smánarlegt. Það er líka sögulegt. Ég reikna með að um ókomin ár þá muni áminnandi endurminning þess ekki aðeins óma af íslenskum sögubókum heldur erlendum líka. E.t.v. er Ísland aðeins fyrsta dæmið af mörgum um það að tími lýðræðis og nýfrjálshyggju er liðinn eða kannski um það að þetta tvennt getur einfaldlega ekki farið saman.
Það er sama. Það sem skiptir meginmáli eru fáránleg viðbrögð íslenskra stjórnvalda. Þau koma okkur ekki aðeins á algjöran vonarvöl með heimsku sinni heldur svipta okkur ærunni líka! Enginn er rannsakaður og enginn er látin sæta ábyrgð. Í þessu sambandi langar mig til að benda ykkur á afar gagnorð og fróðleg skrif spámannsins um rannsóknarnefndina sem er í burðaliðnum.
Mig setti hljóða eftir lesturinn en í huganum bergmálaði spurningin: Hversu langt og hversu lengi á þetta að ganga? Maður spyr sig líka óneitanlega hvar siðferðiskennd þeirra er sem geta staðið með hrokann í fésinu og áminnt þjóðina um stillingu og annað sem er í álíka hrópandi mótsögn við það sem heilbrigðt fólk finnur fyrir frammi fyrir ólýðræðinu og óréttlætinu sem við stöndum frammi fyrir núna.
Bæn mín er einföld. Ég bið um réttlæti! Það er hins vegar greinilegt að merking þessa hugtaks hefur verið afbökuð og skrumskæld eins og svo margra annarra síðastliðinn misseri. Þegar ég bið um réttlæti er mér efst í huga nauðsyn þess að endurreisa lýðræðið á Íslandi. Það er grundvallaratriði til þess að við getum byggt upp samfélag þar sem réttlætið þjónar allri þjóðinni en ekki eingöngu þeim sem kjósa réttan flokk.
Ef eitthvert réttlæti er til þá mun bæn mín uppfyllast. Þá verða það ekki ég og mínir líkir sem sitja í átthagafjötrum skuldaafborgunarfjötranna næstu kynslóðirnar. Þá verður lýðræðið virt og virkt. Þá gilda lög í landinu en það sitja líka allir við sama borð hvað þau varðar. Það sem skiptir kannski mestu máli er að manngildi verða sett framar auðgildi og öllu því sem hefur verið snúið á haus undanfarin misseri verður komið á réttan kjöl.
Ég er mótmælandi og á meðan frelsi, öryggi, réttlæti og virðing íslensku þjóðarinnar er svívirt á þann hátt sem það er nú þá verð ég það áfram. Ég á ekki annarra kosta völ!Frekja og hroki aðgangsorð íslenska helvítisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:41 | Facebook
Athugasemdir
Yfirvöld eru ótrúlega þröngsýn og kærulaus gagnvart framtíð þessarar þjóðar. Föst í viðjum ónýtra gilda. þess vegna þurfum við nýtt fólk.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.12.2008 kl. 23:31
Ég er svo sammála þér. Spurning hvort gildi þeirra eru ekki líka sérsniðin og heimasmíðuð...
Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.12.2008 kl. 23:43
Hvern einasta dag heyrir maður líka um einhverja nýja forsmán sem dynur á saklausu fólki, og það versta er að maður veit að það á aðeins eftir að versna. Við verðum að þrjóskast við í mótmælunum.
María Kristjánsdóttir, 3.12.2008 kl. 23:55
Nákvæmlega. Það að standa upp og mótmæla er það eina sem heldur sjálfsvirðingu minni við þessa daga. Reyndar mótmæli ég ekki á Akureyri næsta laugardag heldur Austurvelli. Þó tilefnið sé afleitt og það kunni þess vegna að hljóma fáránlega þá hlakka ég til. Ég hlakka til að upplifa stemminguna sem þið og aðrir bloggvinir mínir hafa lýst að ríki þar.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.12.2008 kl. 00:06
Það versta er að sumt fólk vill gefa þeim tíma og frið til að laga draslið til eftir sig...en græðgi er nú einu sinni þannig löstur að hún minnkar aldrei..bara vex og vex og á endanum tortímir hún öllu. Eins er með valdafíknina. Og eftir því sem mér sýnist eru ráðamenn okkar og útrásarvíkingar illa sýktir af hvoru tveggja og þess vegna eigum við enga von um að í höndum þeirra muni neitt lagast. Það mun bara versna. Og tortíma okkur öllum og þeim sjálfum á endanum líka. Þess vegna mótmæli ég úr mér lifur og lungum...annað er bara að skrifa undir dauðdaga þjóðar og alllra þeirra gilda sem mannlegri reisn fylgja.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 4.12.2008 kl. 09:34
Katrín: Ég flýg suður á morgun og verð svo á fundum það sem eftir er morgundagsins. Verð í sambandi við þig á laugardaginn. Langar til að vera þér samferða niður á Austurvöll.
Arnar: hmmm... þú hlýtur að hafa verið mjög syfjaður
Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.12.2008 kl. 13:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.