Þjóðfundasöngur Bólu-Hjálmars
1.12.2008 | 20:23
Þorvaldur Gylfason sagði í ræðu sinni á þjóðfundinum í dag að þjóðin neyddist til að endurvekja byltingaranda sjálfstæðisbaráttunnar sem var háð hér á 19. öldinni. Af því tilefni langar mig til að minna á Þjóðfundasöng Bólu-Hjálmars en hann hefur komið mér nokkrum sinnum í hug á undanförnum vikum.
Bólu-Hjálmar samdi þetta tilfinningaþrungna og kraftmikla kvæði í tilefni af þjóðfundinum sem var haldinn í Reykjavík árið 1851. Eins og alþjóð væntanlega veit varð þessi fundur einn afdrifaríkasti atburðurinn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Það var líka einmitt á þessum fundi sem Jón Sigurðsson sagði hin fleygu orð: Vér mótmælum allir!
Bólu-Hjálmar var ekki á þessum fundi enda tilheyrði hann ekki þeirri stétt sem hefur farið með völdin á Íslandi í gegnum tíðina. Bólu-Hjálmar var fátækur bóndi norður í Skagafirði en þó hann væri í sífelldri baráttu við að sjá sér og sínum farborða lét hann hag lands síns og þjóðar sig miklu varða.
Þjóðfundasöngurinn er hans sýn á það hvernig komið var fyrir landinu undir stjórn Dana á þessum tíma. Hann hafði áhyggjur af því að kjörnir þjóðfundarfulltrúar myndu ekki standa með landi og þjóð á þessum fundi þannig að það yrði Íslendingum til farsældar. Ljóðið var innlegg hans til umræðunnar um þetta efni. Sennilega hefur Bólu-Hjálmar beðið fulltrúa Skagfirðinga fyrir þetta kvæði en það var þó aldrei lesið upp á fundinum og engar fregnir eru af því að það hafi borist danska konunginum.
Ástæðan fyrir því að mér hefur verið hugsað til þessa kvæðis undanfarna dag er sú að ég finn til sömu tilfinninga og Bólu Hjálmar birtir þar. Ég treysti ekki þeim sem fara með völdin í dag frekar en hann á sínum tíma. Ég finn til djúprar samkenndar með landi og þjóð vegna staðreyndanna sem blasa við okkur þeirra vegna. Þetta veldur mér öllu í senn: djúpum harmi, myrku vonleysi og þrúgandi reiði.
Aldin móðir eðalborna,
Ísland, konan heiðarlig,
ég í prýðifang þitt forna
fallast læt og kyssi þig,
skrípislæti skapanorna
skulu ei frá þér villa mig.
Þér á brjósti barn þitt liggur,
blóðfjaðrirnar sogið fær,
ég vil svarinn son þinn dyggur
samur vera í dag og gær,
en hver þér amar alls ótryggur,
eitraður visni niður í tær.
Ef synir móður svíkja þjáða
sverð víkinga mýkra er,
foreyðslunnar bölvan bráða
bylti þeim, sem mýgjar þér,
himininn krefjum heillaráða foreyðslunar=tortíming/mýgja=kúga/fjer=fjör
og hræðumst ei, þó kosti fjer.
Legg við, faðir, líknareyra,
leið oss einhvern hjálparstig,
en viljirðu ekki orð mín heyra,
eilíf náðin guðdómlig,
mitt skal hróp af heitum dreyra
himininn rjúfa kringum þig.
Móðir vor með fald og feldi
fannhvítum á kroppi sér,
hnigin að æfi kalda kveldi,
karlæg nær og holdlaus er.
Grípi hver sitt gjald í eldi
sem gengur frá að bjarga þér.
Sjáðu, faðir, konu klökkva
sem kúrir öðrum þjóðum fjær.
Dimmir af skuggum dauðans rökkva,
drottinn, til þín hrópum vér:
Líknaðu oss eða láttu sökkva
í leg sitt aftur forna mær!
Endurvakin sjálfstæðisbarátta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:59 | Facebook
Athugasemdir
Einkennilegt hvað þetta á vel við í dag árið 2008. Á 90 ára afmæli fullveldisins, árið sem Ísland tapaði efnahagslegu sjálfstæði sínu, gekk með betlistaf milli vinaþjóða og orðspor þess troðið niður í svaðið. Myndin af landinu sökkvandi fær augu mín til að vökna. Mikil viska býr í þér Rakel, ég vona að hlutverk þitt í endurreisninni verði mikið. kv, ari
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 21:36
já þetta á vel við
Hólmdís Hjartardóttir, 1.12.2008 kl. 22:58
Vá, ég fer hjá mér En þakka þér kærlega fyrir traustið. Ég get þó engu lofað um það hvort ég standi undir væntingum þínum. Finnst ég reyndar vera búin að rekast á ótrúlega margt framúrskarandi hæfileikafólk í slíkt uppbyggingarstarf hérna á blogginu. Þess vegna er ég enn gáttaðri yfir því hvurs lags aukvisar, eins dæmin sanna, hafa valist til æðstu valda í samfélaginu.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.12.2008 kl. 23:03
Hehhe Hafðu engar áhyggjur, við gerum öll okkar besta. Ég get ekki annað en tekið undir með þér með allt þetta hæfileikafólk sem maður sér og les í bloggheimum. Ég held að það haif hingað til ekki frið í pólítík v/einmitt þeirrar spillingar og sérgæsku sem þar ríkir. Vonandi breytist það þegar nýjir flokkar eða flokkur rís úr rústunum. Ég ætla alla vega að vera til taks ef mín er þörf og menn vilja nýta krafta mína.
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 23:37
Gott að heyra það en ég tek undir með ykkur Hólmdísi að þetta kvæði Bólu-Hjálmars á ekkert síður við í dag en þegar Bólu-Hjálmar orti það. Ég óska þó landinu þess ekki að sökkva en ákvað að láta lokaerindið fylgja líka.
Myndin af landinu sökkvandi var ætlað að minna á þau örlag sem núverandi stjórnvöld hafa komið okkur í. Það er hætt við því að margir flýji land ef þeirri óheillaþróun sem nú blasir við verður ekki snúið við. Það verður að bregðast við því. Ég treysti núverandi valdhöfum ekki til að bregðast rétt við því. Hún hefur nú þegar haft átta vikur til að taka skynsamlegar ákvarðanir til að rétta hag almennings við en því miður lítur út fyrir að hana skorti getu og hæfileika til að stíga einhver gæfuspor í þá átt.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.12.2008 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.