Termítarnir sem eru að eyðileggja landið
22.11.2008 | 18:31
Væntingarnar sem ég gerði til áhrifanna af því að fara á útifund hér á Akureyri í dag brugðust mér ekki! Þvílíkar ræður og þvílíkir ræðumenn. Þvílíkur samhugur og þvílíkur kraftur!
Því miður hafði eitthvað klikkað með að auglýsa þennan fund almennilega. Þau á N4, sem er svæðisbundið sjóvarp sem er rekið hér á Akureyri, minntu þó reglulega á gönguna og fundinn í framhaldi hennar alla síðastliðna viku. Hins vegar fann ég ekkert um þennan fund á neinum af norðlensku netmiðlunum.
Það er sennilegt að skýringarinnar á því hve fáir þátttakendur voru í dag sé ekki síst að finna í því að aðgerðirnar voru ekki nægilega ve kynntarl. Það er synd því ræðumenn dagsins voru hreint út sagt frábærir!
Fyrstur tók til máls Edward Hákon Huijbens en hann er forstöðumaður Rannsóknamiðstöðar ferðamála við HA. Ræða hans var ótrúlega kraftmikil enda uppskar hann ákaft lófaklapp aftur og aftur á meðan á ræðu hans stóð. Hann talaði m.a. um blekkingarleikinn í aðdraganda efnahagshrunsins þar sem bankar og fyrirtæki tóku lán á lán ofan til að búa til þann sýndarveruleika sem þau sóttust eftir. Þau vildu sýna sterka stöðu sína á markaði og fundu til þess aðferð sm sligaði að lokum efnahagslíf landsins og hverjum er látið eftir að hreinsa upp eftir þá?
Edward endaði ræðu sína á að hvar honum þætti gáfulegast að byrja hreingerningarstarfið. Hann skoraði á sunnanmennina sem hafa safnast saman á Austurvelli sl. laugardaga að ganga inn í alþinginshúsið og bera ráðherrastólana út úr húsinu. Hann mælti með því að ef ráðherrarnir sætu í stólunum þegar til ætti að taka þá væru þeir bornir út með stólnum sínum. Edward endaði svo mál sitt með því að bjóða fram krafta norðanmanna í þetta þarfaverk.
Næstur steig á stokk Björn Þorláksson fréttamaður. Ræða hans var líka kraftmikil og flott. Hann minnti m.a. á stjórnmálamennina sem héldu um stjórvölinn fyrir u.þ.b. 20-30 árum. Hann benti á að þeir hefðu ekki verið hafnir yfir mistök þó þau hefðu ekki verið neitt í líkingu við geræðisafglöpin sem núverandi stjórnmálamenn hafa orðið berir af. Gömlu stjórnmálamennirnir hefðu þá sýnt þann heiðarleika að viðurkenndu sín oft og tíðum klaufalegu mistök og hefðu þess vegna uppskorið traust.
Í dag er hins vegar komin upp ný kynslóð stjórnmálamanna sem gerir aldrei mistök eins og dæmin sanna. Það þekkist a.m.k. ekki lengur að þeir sjái sig knúna til að viðurkenna þau nema einn framsóknarmaður sem hefur þurft að horfast í augu við það að hann kann ekki að skrolla á tölvumúsinni við vinnutölvuna sína. Það er þess vegna í okkar verkhring að virkja lýðræðið og koma þessu hrokafulla spillingarliði frá. Í lok ræðu sinnar fékk hann viðstadda til að hrópa þrefallt: Niður með spillinguna! Vá! hvað það veitti manni mikinn kraft að kreppa hnefann í átt til himins og þenja lungun í þessu ákalli.
Þriðji einstaklingurinn sem steig á stokk var Þorvaldur Örn Davíðsson nemandi í Menntaskólanum á Akureyri. Hann steig sérstaklega á stokk til að þakka Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra fyrir að eyða milljónum ef ekki milljörðum í að hanna nýtt (man ekki hvort hann sagði stórgallað en ég ætla þá að bæta því við) fræðslufrumvarp sem nær utan um öll skólastigin í landinu og fá það samþykkt. Á sama tíma stuðlar menntamálaráðherra svo að því að ungt fólk á Íslandi hefur enga möguleika á því að byggja upp lífvænlega framtíð hér heima. Heyr, heyr!!!
Jónína Hjaltadóttir forstöðumaður Lautarinnar talaði síðust. Hennar ræða var líka alveg frábær. Hún líkti stjórnvöldum, seðalbankastórninni, stjórn fjármálaeftirlitsins og stjórnenda bankanna í landinu við termíta sem væru búnir að éta sundur stoðir efnahagslífsins valda þannig því alvarlega hruni sem þjóðin stendur nú frammi fyrir. Hún benti líka á að það liti út fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins litu svo á að þegar þeim hlotnaðist valdið í þriðja skiptið við síðustu kosningar þá hefðu þeir unnið það til eignar. Hún óskaði þess að termítarnir ætu upp vald þeirra áður en þeim yrði útrýmt.
Í lok fundarins kom ég þeirri hugmynd á framfæri við fundarstjórann, George Hollander, og þá ræðumenn sem ég náði til að þessum frábæru ræðum væri safnað saman og birtar. Þeirri hugmynd var vel tekið. Hins vegar hafði þeim dottið í hug að taka ræðurnar upp en ekki hefur enn tekist að hafa upp á neinum sem er með alla tæknina og búnaðinn í kringum upptöku og vefbirtingu á sínu valdi.
Að lokum þakka ég frábæran fund og þó sérstaklega ræðumönnunum sem voru hreint út sagt magnaðir! Ég tek það fram að ég er ekki með ræður þeirra fyrir framan mig heldur vitna ég í ræður þeirra eftir minni.
Ég minni svo á að borgarfundur verður haldin í húsnæði gamla Barnaskólans, sem nú heitir Rósenborg, n.k. mánudagskvöld og hefst hann kl. 20:00. Boðað hefur verið til fjórðu göngunnar hér á Akureyri n.k. laugardag. Sami tími og sama gönguleið.
Kröftug mótmæli á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er kraftur í ykkur á Akureyri. Ég var að koma af fundi á Austurvelli og hitti þar nokkra bloggvini sem ég hef bara á samskipti við gegn um netið. Þetta er talandi fyrir samtímann. Þarna voru frábærar ræður og fólksfjöldinn var mikill. Nú er bara að halda áfram.
Við viljum hræða valdið. Valdið er óskammfeilið og misnotar almenning.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 22.11.2008 kl. 19:19
Ég vil trúa því að stjórnvöldum standi ógn af samtakamætti almennings. Þeir reyndu að skýla sér á bak við það þegar mótmælaaðgerðirnar fóru af stað með ýmis konar dylgjum eins og því að okkur skorti úthald en hvað hefur komið í ljós? Hven einasta laugardag mæta alltaf fleiri og fleiri og hlusta á þrumandi ræður sem hvetur fólkið áfram og það mætir aftur og tekur enn fleiri með sér í hvert skipti.
Það er rödd þessara ræðusnillinga sem stappar í okkur stálinu þannig að við treystum okkur til að halda í vonina. Rödd þeirra er mótefnið sem við þörfnust á móti innantómu óraunveruleikahjali ráðherranna. Þessir ræðusnillingar koma víða að úr samfélaginu en þeir lifa í raunheimum með okkur hinum. Stjórnmálamennirnir virðast hins vegar lifa í einhverjum sýndarveruleika sem almenningur finnur enga tengingu við lengur.
Ræðumennirnir eiga svo sannarlega þakkir skyldar fyrir það að halda í okkur voninni og lífinu um leið. Við vitum að núverandi ríkisstjórn er engan vegin fær um að koma þjóðinni til bjargar. Þeir eru þó til sem hafa hæfileikann og viljann til þess. Við höfum heyrt í mörgum þeirra á borgara- og mótmælendafundum sem hafa verið haldnir bæði norðan og sunnan heiða að undanförnu. Það er þeirra vegna sem við getum leyft okkur að halda í vonina um að þrátt fyrir allt þá bíði réttlát sanngirnin okkar inni í nánustu framtíð.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.11.2008 kl. 19:42
Takk fyrir þetta kæra Rakel og bestu baráttukveðjur,
Hlynur Hallsson, 22.11.2008 kl. 22:39
Takk fyrir þetra Rakel. Borgarafundur á mánudagskvöldið, mæti!
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 09:53
Ekkert að þakka báðir tveir
Arinbjörn: Ég kemst ekki annað kvöld en ég vona að þetta verði góður fundur. Hérna er fundarboðið:
ATVINNUMÁL OG HANDVERKSMENNING
Hugmynda- og vinnufundur um atvinnumál og handverksmenningu í nýju íslensku samfélagi.
Fundurinn er haldinn í Rósenborg mánudaginn 24. nóvember klukkan 20-22.
Mættu og legðu þitt lóð á vogarskálarnar!
Ræðum stöðuna og leitum lausna
Oft var þörf – nú er nauðsyn.
Bylting fíflanna grasrótarsamtök sem vilja virkja lýðræðið
E.s: Það vantar fundarritarar – ef einhver hefur áhuga og lausan stund væri mjög gott að vita af ykkur George 892 6804
Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2008 kl. 04:46
Fín er af mér myndin. Það er rétt, það er mikilvægt að við þróum aðgerðirnar og höfum úthald. Gott væri að hafa þarna söng og fleiri uppákomur en eintómar ræður.
Var á borgarafundi með ASÍ-forustunni í gærkvöld. Mætti kannski 50 manns. Þeir fengu engann fundarmann til að styðja við sig og sína stefnu. Fáeinir ömluðu á móti. Samt gátu foringjarnir trommað í gegn samþykkt um að „lán frá alþjóðasamfélaginu“ og „aðild að ESB“ væri „eina færa leiðin til endurreisnar“. Ennþá virðist ekki farið að hitna neitt verulega undir þeim. En nú svífur margt í loftinu.
Við mætum auðvitað við Leikhúsið á laugardaginn. Svo bendi ég á að Stefna – félag vinstri manna stendur fyrir fundi um ESB/EES í Alþýðuhúsinu á sunnudaginn kemur. Ég tel að innganga sé núna sameiginlegt hálmstrá frjálshyggjunnar og markaðskrata í vandanum.
Þórarinn Hjartarson (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 11:39
Þórarinn: Ég hitti þig við Samkomuhúsið n.k. laugardag og þú segir mér betur frá þessum fundi!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.11.2008 kl. 17:52
... og já, þetta er frábær mynd af þér
Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.11.2008 kl. 21:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.