Gangan og fundurinn á Akureyri

Það var strax ljóst að þeir yrðu umtalsvert fleiri sem tækju þátt í þessari göngu en þeirri síðustu. Þetta er í annað sinn sem gengið er á Akureyri síðan efnahagshrunið varð opinbert. Í fyrra skiptið voru tvö til þrjú hundruð manns sem tóku þátt en núna voru þeir miklu nær þúsund. Það var gengið frá Samkomuhúsinu og inn á Ráðhústorg þar sem voru haldnar ræður. Það vakti athygli mína í göngunni að í Kaupvangsstrætinu hafði lögreglan komið sér fyrir til að greiða fyrir göngumönnum með því að stöðva alla bílaumferð yfir gatnamótin við göngugötuna.

Á Ráðhústorgi stýrði Guðrún Þórs. fundinum en sex tóku til máls. Orð eins ræðumannanna vöktu sérstaka athygli og undirtektir þeirra sem voru staddir á Torginu í dag.  Umræddur ræðumaður dró fram dæmisögu til að benda á fáránleikann í því, sem sumir vilja halda fram, að ekki sé réttlætanlegt að draga fram sökudólga sem bera meginábyrgðina á alvarlegri fjárhagsstöðu landsins.

Hann tók dæmi af stórri matvöruverslun sem væri svo stór að hann réði öryggisverði til að annast eftirlit inni í búðinni. Þrátt fyrir þá stunduðu þjófar það að stela verðmætum úr matvörubúðinni hans og kæmust upp með það. Að hans mati lá það í augum uppi að hann myndi byrja á því að reka öryggisverðina áður en hann færi að eltast við þjófana. (Minni aftur á undirskriftalistann kjosa.is)

Mig langar til að taka undir orð margra bloggara, sem hafa sótt mótmælafundina í Reykjavík sl. laugardaga, og hafa sagt að maður hefur ákaflega gott af því að taka þátt í aðgerðum að þessu tagi. Við viljum auðvitað líka koma ákveðnum skilaboðum til stjórnvalda og eftir því sem við erum fleiri þeim mun meiri líkur eru á að okkur takist það. Ég vil koma þeim skilaboðum til þeirra að: Bundinn verði endir á valdagræðgi, spillingu og eiginhagsmunapoti! Ég get alls ekki séð að ráðherrarnir hafi látið af þessum löstum. Þess vegna á ríkisstjórnin að víkja nú þegar og taka með sér stjórnendurnar í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu.

Sannast sagna þá hef ég mjög miklar áhyggjur af ástandi dagsins í dag en það að mæta á fund eins og þann sem var haldinn í dag á Ráðhúsorginu gefur mér kraft og bjartsýni. Það er alls konar fólk sem deilir áhyggjunum með mér. Kröftugt fólk og gott fólk. Fólk sem er tilbúið til að leggja sitt að mörkum til að leggja grunn að betri framtíð. Við ætlum líka að halda áfram eins lengi og þörf krefur en annar fundur er boðaður hér fyrir norðan á sama tíma næsta laugardag.

Mig langar til að enda þessa færslu á orðsendingunni „Innistæða“ sem Þráinn Karlsson gaf fundargestum á meðan byrgðir entust. Merkið með þessari orðsendingu sést á myndinni hér innistæða.jpgtil hliðar:

Innistæða

Í sparibauk sálarinnar
liggur króna og grætur,
- í krónunni er gull -
Upp úr sápuvatni sannleikans
þvær lygin sína ull.
        Svo er nú það -

                               Sig. Zeto

 


mbl.is Þúsundir mótmæla á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl, Ég var nú stödd á ráðhústorginu og ekki gat ég ekki séð þúsund manns...... 200 manns í mesta lagi.

Því miður er eins og kreppan og ruglið hjá stjórnvöldum komi ekki eins við Akureyringana eins og sunnlendingana......

Burt með Spillingarliðið!!!

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 17:30

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég veit ekki hvort þú varst allan tímann en eins og gengur þá týnast alltaf einhverjir í burtu. Ég sagði ekki að þeir sem hefðu verið þarna hefðu verið þúsund en við sem vorum í fyrri göngunni vorum á því að þeir sem voru á Torginu í dag (a.m.k. í byrjun fundarins) hefðu verið þrisvar til fjórum sinnum fleiri en síðast. Þá voru þeir rétt rúmlega tvöhundruð þegar flest var.

En við erum a.m.k. sammála um að spillingarliðið eigi að víkja!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.11.2008 kl. 17:39

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Fór á mótmælin á Austurvelli. Ræðumenn voru frábærir og Hörður Torfa kraftmikill að vanda. Mun meira bar á fjölmiðlum en venjulega.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.11.2008 kl. 20:25

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Fábært að heyra það! Mér skilst að Stöð 2 hafi sjónvarpað beint af útifundinum. Það er gott að fjölmiðlamenn skuli vera tilbúnir að hlusta á gagnrýni og taka tillit til þeirra. Spurning hvenær stjórnmálamennirnir átta sig á því að það er í rauninni það eina sem þeir geta gert í stöðunni

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.11.2008 kl. 20:29

5 identicon

Ég er stoltur "skríll" sem tók þátt í mótmælunum á Akureyri í dag. 500 manns er talan sem ég heyrði líklega nærri lægi. Verst að ég er skráður á vakt næsta laugardag og kemst ekki. En nú verður ekki aftur snúið. Höldum áfram. Áfram ísland.

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 00:14

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég setti upptöku af beinu útsendingunni á Stöð 2 inn á bloggið hjá mér auk umfjöllunar í kvöldfréttum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.11.2008 kl. 00:21

7 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Á fyrsta fundinum á Austurvelli var ekki mannfjöldi, á öðrum ekki heldur en í gær vorum við þúsundir sumir segja á annan tug. Bara halda út á Akureyri!

María Kristjánsdóttir, 16.11.2008 kl. 11:31

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Miðbærinn í Rykjavík....Austurvöllur og þar í kring var troðfullur af flottum íslendingum sem láta ekki kæúga sig. Eftir fundinn streymdi fólk æi allar æáttir og það var töluverð bílatraffík og bílum lagt alls staðar. Ég tel að fjöldinn hafi verið á annan tug þúsunda. Mikið rosalega var þetta mögnuð stund og á bara eftir að magnast. Það er satt sem þú segir Rakel...að mæta í svona opinbera samstöðu gefur kraft og von...á endanum hljóta ráðamenn að sjá að þeim er ekki til setunnar boðið!!!!

Burt með spillingarliðið eins fljótt og auðið er. Það er hreinlega hættulegt fyrir okkur að þau sitji áfram.Hver dagur skiptir nú máli.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 16.11.2008 kl. 12:24

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Flott hjá þér Arinbjörn! Takk fyrir Lára Hanna. Langar virkilega til að heyra í Viðari. Ég ætla að halda áfram að mæta á fundina á Akureyri því það gefur mér ekki bara kraft heldur líka von

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.11.2008 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband