Perlan sem skín í sorpinu
5.11.2008 | 02:13
Það er kannski til marks um firringuna, upplausnina og hið alvarlega ástand sem þetta tvennt hefur valdið að manni skuli finnast það sértstakt fagnaðarefni að það finnist enn einhver sem starfar í umboði stjórnsýslunnar með heilbrigða siðferðiskennd! Miðað við aðstæður þá gefur það mér þó einhverja von um að siðspillingin geti ekki vaðið uppi endalaust.
Því fleiri opinberir embættismenn sem stíga fram og benda á að breytinga sé þörf, þeim mun líklegra er að þeir sem bera ábyrgðina á núverandi ástandi neyðist til að axla sína ábyrgð. Þess vegna fagna ég viljayfirlýsingu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sem ég gerði að umtalsefni í færslunni hér að neðan og því að Bogi Nilsson skuli hafa ákveðið að draga sig út úr rannsókninni á íslensku bönkunum.
Eins og ég vék að í upphafi þessarar færslu finnst mér það reyndar sjálfsagt mál að Bogi lýsi sig óhæfan til að koma að þessari rannsókn. Það ætti þess vegna ekki að vera tilefni til að fagna því sérstaklega að hann hafi áttað sig á því sem lá í augum uppi. Hins vegar finnst mér full ástæða til að fagna því sem kemur fram í tilkynningunni sem hann sendi fjölmiðlum í tilefni af ákvörðuninni að segja sig frá ransókninni. Þar segir hann m.a:
Umfang tjónsins, eitt út af fyrir sig, vekur grunsemdir um að refsiverð lögbrot hafi verið framin í starfsemi bankanna. Þá hafa komið fram vísbendingar um margvísleg kross eigna- og eigendatengsl hjá bönkunum og helstu viðskiptavinum þeirra sem ástæða er til að kanna rækilega. Kvittur er um sitthvað misjafnt varðandi peningamarkaðssjóði bankanna; um óeðlileg lán til stjórnenda þeirra og um grunsamlegar ráðstafanir og fjármagnsflutninga skömmu fyrir hrunið svo eitthvað sé nefnt.
Ég ætla að taka það fram að feitletrunin í tilvituninni hér á undan og eftir er mín. Það er kemur nefnilega fleira fram í tilkynningu Boga Nilssonar sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á:
Ljóst er að ákæruvaldið hefur ekki á að skipa starfsmönnum sem geta innt af hendi þá sérfræðilegu athugun sem nauðsynlega þarf að framkvæma á þess vegum í bönkunum. Þá verður að hafa í huga að flest eða öll stærstu endurskoðunarfyrirtæki landsins hafa með einum eða öðrum hætti tengst eftirliti og endurskoðun á íslensku bönkunum eða helstu viðskiptavinum þeirra. Loks hafa margir íslenskir hagfræðingar og aðrir sérfræðingar á sviði bankamála tjáð sig um bankahrunið í fjölmiðlum.
Í raun eru örfáir ef nokkrir hér á landi sem búa yfir sérfræðiþekkingu til að sinna nákvæmri úttekt á starfsemi bankanna síðustu mánuðina og geta um leið talist óvilhallir og trúverðugir í því starfi, skrifar Bogi og bendir á að hann hafi ítrekað í bréfum til ríkissaksóknara bent á nauðsyn þess að leita til erlendra óháðra sérfræðinga sem framkvæmi úttekt á starfsemi bankanna, útibúa þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar fyrir hrun þeirra.
Ég tel að Bogi Nilsson sé með þessu að segja að hann hafi rekist á ýmislegt sem þarf að taka á en hann treysti hvorki sjálfum sér eða öðrum íslenskum sérfræðingum til að taka á því vegna þess hvað það er umfangsmikið og alvarlegt. Kannski er ég að oftúlka eitthvað. Það á vonandi eftir að koma í ljós innan skamms. Ég trúi nefnilega ekki öðru en endirinn verði sá að aðrir komist að sömu niðurstöðu og Bogi dregur fram í lok tilkynningar sinnar. Ég vona að þess sé ekki langt að bíða.
Bogi Nilsson hættir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:34 | Facebook
Athugasemdir
Jebb, loksins smá ljóstýra í myrkrinu. Bogi er maður að meiru að lýsa sig vanhæfan. Engin gagnrýni á hann sem lögfræðing heldur heiðarlegt mat á aðstæðum, umfangi rannsóknarinnar, tenglsum við hlutaðeigandi og nauðsyn þess að fá algerlega hlutlausa aðila sem réðu þessari ákvörðun hans. Vonandi gerir Valtý það sama.
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 03:20
Tek undir það með þér!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.11.2008 kl. 03:27
Það verður fróðlegt að fylgjast með hve lengi Björgvin G Sigurðsson og Björn Bjarna ælta að teygja lopann lengi áður en að máilin fara sinn eðlilega farveg í lögreglurannsókn, rétt eins og önnur auðgunarbrot.
Sigurjón Þórðarson, 5.11.2008 kl. 09:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.