Felulitaður ásetningur
21.5.2015 | 03:44
Einhverjir hafa viljað halda því fram að með bréfi Gunnars Braga Sveinssonar sé möguleg innganga í Evrópusambandið út úr myndinni. Það er því miður ekki svo gott. Væntanlega hafa flestir áttað sig á þessu ekki seinna en með nýjustu yfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins (sjá hér).
Þeir sem hafa rýnt lengst og gleggst í flokkapólitíkina rekur eflaust minni til þess að Bjarni Benediktsson hefur alls ekki verið svo fráhverfur inngöngu í Evrópusambandið heldur þvert á móti mælt með henni. Þetta var í grein sem hann skrifaði ásamt Illuga Gunnarssyni, núverandi menntamálaráðherra, í desember árið 2008 (sjá hér). Á þeim tíma var Bjarni Benediktsson formaður utanríkismálanefndar (sjá hér).
Það er svo nauðsynlegt að skoða það, sem einhverjir kunna að telja stefnubreytingu hjá núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, í samhengi við annað sem hefur verið að eiga sér stað á stjórnarheimilinu. Núverandi stjórnarandstaða hefur myndað fylkingu sem sú sem þetta skrifar er sannfærð um að snúist um inngöngu í Evrópusambandið. Ef mark er takandi á skrifum Össurar Skarphéðinssonar eru það einkum tvær konur sem standa í stafni hennar (sjá hér).
Það er ekki bara Össur sem lætur sig dreyma enda vísar hann hér í það sem Hallgrímur Helgason setti upp á Fésbókarsíðu sinni sem draumaríkisstjórn (sjá hér). Þar er Katrín Jakobsdóttir nefnd sem forsætisráðherra og Birgitta Jónsdóttir sem utanríkisráðherra. Miðað við fylgi Pírata í skoðanakönnunum fannst Gunnari Smára Egilssyni ástæða til að benda á að það væri nær að forsætisráðherraembættið félli þeim í skaut. Birgitta tekur óbeint undir þann draum (sjá hér):
Eins og sjá má, bæði í fréttinni sjálfri og í úrklippunni úr henni hér að ofan, þá eru það stjórnarskrárdrög Stjórnlagaráðs sem er helsta baráttumál Birgittu. Þ.e. stjórnarskrárdrögin þar sem segir í 111. grein: Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að (sjá hér).
Þeir, sem hafa barist og berjast enn fyrir því að ákvæði af þessu tagi verði tekið upp í gildandi Stjórnarskrá með einhverju hætti, neita því jafnan að ástæðan að baki ástríðu þeirra tengist Evrópusambandinu. Að sjálfsögðu mega þeir gera það en um leið þá stimpla þeir sig óheiðarleikanum. Það liggur nefnilega í augum uppi að það sækist enginn eftir því að taka upp heimild, í stjórnarskrá fullvalda þjóðar, til valdasals svona af því bara!
Með grein Bjarna Benediktssonar þá hefur hann fært okkur skýringu á því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur helsti óvinur þeirra flokka sem mörgum var tamt að telja til vinstri. Sú samstæða fylking, sem þessir flokkar hafa myndað í núverandi stjórnarandstöðu, hefur þvert á móti snúið blaðinu svo hraustlega við að fulltrúar hennar hafa séð tilefni til að hrósa formanni þess flokks sem þeir kenndu áður alfarið um efnahagshrunið haustið 2008. (Myndin sem er sett hér sem dæmi er tekin héðan)
Hinn nýi óvinur er Framsóknarflokkurinn. Aðförin sem stjórnarandstöðufylkingin, og sá háværi minnihluti sem nærist í skjóli hennar, stendur fyrir er svo ofsafengin og lágkúruleg að minnir helst á svæsnustu eineltismál. Þar verður allt að vopni og orðbragðið og aðferðirnar slíkar að það varðar sálarheill þjóðar að þetta fólk horfist í augu við það að það eru stærri og alvarlegri hlutir sem skipta kjósendur meira máli en það hvort þessari hatursdeild takist að sprengja ríkisstjórnina til að hún komist í samstarf með Sjálfstæðisflokknum.
Miðað við það sem Bjarni Benediktsson hefur sett fram er ljóst að hann er tilbúinn til samstarfsins. Hvort þjóðfélagsástandið verður keyrt til sambærilegrar stöðu og Grikkir búa við nú undir forsæti Guðmundar Steingrímssonar, Katrínar Jakobsdóttur eða Birgittu Jónsdóttur skiptir hann væntanlega ekki öllu.
Það skiptir hins vegar máli fyrir lífskjör almennings í landinu að þessi hugmynd verði aldrei að veruleika! Þess vegna er brýnt að kjósendur rýni vel og rækilega í það hvaða ásetningur liggur í þeirri hatursfullu og ruglingslegu umræðu sem hefur verið haldið að þeim alltof, alltof lengi. Svo lengi að sumir hafa hreinlega gefist upp!
Það er tilfinning þeirrar sem þetta skrifar að sá ásetningur varði innlimum landsins í Evrópusambandið meira en nokkuð annað. Innlimum sem gæti m.a. komið sér vel fyrir stjórnmálamenn sem láta sig dreyma um vinnu að þingferli loknum innan stofnana sambandsins. Áherslan varðar þar af leiðandi sérhagsmuni þeirra sjálfra þar sem fyrrverandi þingmönnum hefur gjarnan reynst erfitt að fá vinnu þegar þingferli lýkur.
Innlimunin þjónar þó ekki síður sérhagsmunum kaupsýslumanna og fjármagnseigenda. Það eru ekki aðeins innlendir kaupahéðnar heldur líka erlendir sem gætu t.d. keypt framleiðsluréttinn á mjólk og kjöti ásamt vatnsnýtingar- og veiðiréttindi. Einhverjir prófessorar yrðu væntanlega líka á grænni grein. A.m.k. á meðan þeir héldu uppi áróðri um gæði sambandsins. Hins vegar sjáum við það á örlögum annarra jaðarríkja innan Evrópusambandsins að það mun kreppa enn frekar að lífskjörum almennings með auknu atvinnuleysi og enn meiri fátækt.
Því miður hafa lífskjör margra hópa versnað töluvert hér á landi á síðustu árum og fleiri bæst við sem hafa sáralitla möguleika til að bæta stöðu sína. Þess vegna er það auðvitað með ólíkindum að enginn stjórnmálaflokkur hafi tekið af skarið og sagt það fullum fetum að meginskýringin sé sú að átökin um það hvort við eigum að standa innan eða utan Evrópusambandsins taki bara allan þeirra tíma og orku, þrátt fyrir allt!
Þjóðaratkvæði samhliða kosningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:12 | Facebook
Athugasemdir
Sæl vertu Rakel! Það hefur ekki farið fram hjá mér þessi breytti taktur hjá aðildarsinnum. Kannski ætlaður til að planta gruni í fávísa (mig) stuðningsmenn Ríkistj,því þeir hafa vitað lengur en ég að Bjarni Ben. vildi skrifa viðbótar blaðsíður í Stjórnarskrá.En eitt er minn grunur um það sem Stjórnarandstaðan setur á svið og hitt ,hvað er raunverulega í gangi.Ég les pistil þinn með athygli og verð svo að haska mér því Euro matur bíður mín og mæting 6,30.Mb.Kv.
Helga Kristjánsdóttir, 21.5.2015 kl. 18:08
Gaman að heyra af þínum vangaveltum líka. Vona að Euro-maturinn hafi heppnast vel þrátt fyrir að framlag okkar Íslendinga til keppninnar hafi ekki komist áfram.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.5.2015 kl. 23:00
Já sæl aftur,en svona fór um sjóferð þá. En það verður samt Euroboð næsta Laugardag.Fatlaður(í hjólastóli) dóttursonur minn lifir sig inn í þennan viðburð og það gerum við með honum.Hann á að fermast í endaðan mai,síðan fer hann í sína erfiðustu aðgerð til London 17.júní,sú fyrsta var framkvæmd hér á landi þegar hann var 8,daga gamall.--- Já ég er heitur andstæðingur inngöngu í Evrópusambandið og spyr ekki um hvers flokks Nei-sinni er. Satt að segja varð mér um og ó,þegar ég las um áætlun Bjarna Benedikts og mér finnst full ástæða til að taka öllu með fyrirvara. Ef þeir vinda sér ekki í að afturkalla umsóknina fljótlega,er ástæða til að fara að smala í einn stóran flokk. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.
Helga Kristjánsdóttir, 22.5.2015 kl. 00:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.