Heilbrigðisráðuneytið

Hér verður haldið áfram að bera saman ferilskrár þeirra sem sátu á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili og þeirra sem sitja þar nú. Áður hefur verið settur fram einhvers konar inngangur og í framhaldi hans það sem mætti kalla aðdraganda þar sem tíðar breytingar á ráðuneytunum í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur voru rifjaðar upp og minnt á hverjir eru ráðherrar núverandi ríkisstjórnar.

Í síðustu færslum voru svo ferilskrár fyrrverandi og núverandi forsætisráðherra bornar sama, þá fjármála- og efnahagsráðherranna en hér verða það heilbrigðisráðherrarnir. Eins og áður hefur komið fram er það von mín að þessi samanburður megi vekja til umhugsunar og umræðna um það hvernig ráðherrar eru skipaðir og hvað liggur skipuninni til grundvallar. Hver færsla hefst því og lýkur á einhverju sem mætti líta á sem umhugsunarpunkta. Þegar samanburðinum á ferilskrám ráðherra allra ráðuneytanna verður lokið kemur hins vegar að umfjöllun og loks einhverri tilraun að niðurstöðu.

Marthin Luther King jr.

Það er líka forvitnilegt að líta til baka yfir sögu ráðuneytanna og velta því jafnframt fyrir sér hvort núverandi aðferðafræði í stjórnsýslunni byggi ef til um of á hefðum og venjum sem urðu til á fyrstu árum ráðuneytanna. Þ.e. áður en Íslendingar fengu full yfirráð yfir málefnum landsins. Það sem vekur sérstaka athygli í sambandi við heilbrigðismálin er að þau fá ekki rúm innan ráðuneytanna fyrr en tæpum tveimur áratugum eftir að það fyrsta var stofnað.

Þegar horft er til baka er líka greinilegt að heilbrigðismál landsmanna hafa ekki þótt nægilega stór eða merkilegur málaflokkur til að setja þau undir sérstakt ráðuneyti. Á þessu eru reyndar þrjá undantekningar sem eru meðal ráðuneyta síðustu ríkisstjórna.

Haraldur GuðmundssonMeð fyrsta ráðuneyti Hermanns Jónassonar árið 1934 komust heilbrigðismál í fyrsta skipti á dagskrá sérstaks ráðherra. Haraldur Guðmundsson (sjá hér) var  atvinnumála- og samgönguráðherra í þessari áttundu ríkisstjórn sem hefur gjarnan verið kennd við stjórn hinna vinnandi stétta (sjá hér). Hann fór einnig með utanríkis-, heilbrigðis- og kennslumál. Haraldur fékk lausn frá ráðherraembætti sínu mánuði áður en kjörtímabilinu lauk og tók þá Hermann Jónasson við embætti hans og væntanlega málefnaflokkum líka.

Það má láta það fylgja hér með að Hermann Jónasson (sjá hér), sem var forsætisráðherra, fór líka með dóms- og kirkjumálaráðuneytið ásamt landbúnaðar- og vegamálum. Hann fór með embætti Haraldar í tvær vikur þannig að þennan hálfa mánuð var hann yfir þremur ráðuneytum og fimm málefnaflokkum að auki.

Hermann var aftur á móti forsætis- og dóms- og kirkjumálaráðherra auk þess að fara með landbúnaðarmálin í átta ár eða frá 1934-1942. Þennan tíma stóð hann að myndun fjögurra ríkisstjórna. Í tveimur fyrstu hafði sá, sem var skipaður atvinnumálaráðherra, heilbrigðismálin líka á sinni könnu en enginn í næstu tveimur.

Heimildum Alþingis og Stjórnarráðsins virðist ekki bera saman varðandi það hvenær heilbrigðismálin voru sett undir ráðherra. Samkvæmt því sem kemur fram á stjórnarráðsvefnum var fyrsti heilbrigðisráðherrann skipaður í utanflokkastjórn Björns Þórðarsonar (sjá hér). Frá miðjum desember 1942 var hann forsætis-, heilbrigðis- og kirkjumálaráðherra en eftir 19. apríl 1943 fór hann auk þess með félagsmálaráðuneytið en lét af því síðasta mánuðinn sem stjórnin sat en tók við dómsmálaráðherra- og menntamálaráðherraembættinu í  staðinn.

Samkvæmt heimildum Stjórnarráðsins fór Björn Þórðarson því með með fimm ráðuneyti síðasta mánuðinn sem utanflokkastjórnin sat (sjá hér). Samkvæmt heimildum Alþingis heyra heilbrigðismálin alltaf undir einhvern ráðherra á árunum 1947 til 1958 þó þeim séu ekki ætlað ráðuneyti.

Eggert G. ÞorsteinssonÞetta breytist hins vegar 1. janúar 1970 en þá var Eggert G. Þorsteinsson skipaður fyrsti heilbrigðis- og tryggingamála-ráðherrann. Hann fór líka með sjávarútvegsráðuneytið (sjá hér). Næstu kjörtímabil á eftir er ekki óalgengt að sá ráðherra sem fer með heilbrigðis- tryggingamálaráðuneytið sé settur yfir annað alveg óskylt ráðuneyti líka eins og sjávarútvegs- iðnaðar- eða samgönguráðuneytið. Kjörtímabilið 1980-1983 heyrir til undantekninga en þá eru félagsmálin sett undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Það var ekki fyrr en 1. janúar 2008 sem heilbrigðismálunum var skipaður sérstakur ráðherra í fyrsta skipti. Það var Guðlaugur Þór Þórðarson sem gegndi embættinu (sjá hér). Í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar var félags- og tryggingaráðuneytinu ásamt heilbrigðisráðuneytinu svo aftur skipað undir einn ráðherra, eins og kjörtímabilið 1980-1983, með því að Guðbjartur tók við báðum ráðuneytunum 2. september 2010. Þessir málaflokkar voru svo settir undir nýtt ráðuneyti, Velferðarráðuneytið, 1. janúar 2011 og fór Guðbjartur fyrir því. Með nýrri ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru heilbrigðismálin aftur komin undir sérstakt ráðuneyti.

Það á eftir að koma í ljós hvort það verður heilbrigðisþjónustunni til framdráttar. Hér er rétt að hafa í huga að í tíð síðustu ríkisstjórnar var engin viðleitni uppi um að bæta ný lög um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi í mars 2007 (sjá hér). Þegar Guðlaugur Þór var gerður að heilbrigðisráðherra eingöngu af þeirri ríkisstjórn sem sat þegar lögin voru innleidd voru uppi kenningar um að tilefnið væru stóraukin afskipti ráðuneytisins af heilbrigðisþjónustunni í þeim tilgangi að leiða hana til meiri einkavæðingar.

Þeir sem gangrýndu nýju heilbrigðislögin þóttust lesa þar á milli lína að framundan væri aukinn niðurskurður í opinberri heilbrigðisþjónustu. Tilefnið er t.d. 5. grein þessara laga sem er svohljóðandi: „Ráðherra getur, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga, ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanir innan heilbrigðisumdæmis með reglugerð.“

Auðvitað má túlka þessa grein á a.m.k. tvo vegu og nota orðið hagræðingu í stað niðurskurðar en þeir sem gleggst þekkja til í heilbrigðismálunum blandast vart hugur um það að þær aðgerðir sem hefur verið gripið til í kjölfar efnahagshrunsins hafa m.a. sótt stoð í þessa lagagrein. Sá tónn sem hefur verið gefinn í upphafi nýs kjörtímabils varðandi aukna einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar styðst einnig við í lögin frá vorinu 2007:

Ráðherra er heimilt að bjóða út rekstur heilbrigðisþjónustu og kaup á heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þessum. (úr 30. grein)

Heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur er heimilt að gera samninga um afmörkuð rekstrarverkefni samkvæmt ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins. (úr 31. grein. Sjá nánar hér)

Ég reikna með að allir leggi þann skilning í skattskyldu allra, sem hafa tekjur og eiga eignir, að hún sé nauðsynleg þannig að hægt sé að byggja undir skatttekjur ríkisins til að halda uppi rekstri samfélagsins. Í þeim rekstri eru svo mismikilvægir þættir. Væntanlega ætla margir að þeir sem stýra tekjustofnum ríkisins hafi  það ávallt að leiðarljósi að þeim hafi verið trúað fyrir því að ráðstafa sameignarsjóði allra sem byggja samfélagið. Flestir gera þar af leiðandi ráð fyrir að bæði ráðherrar og aðrir sem sýsla með þessa sjóði deili sömu hugmyndum og aðrir skattgreiðendur um það hver forgangsverkefnin eru.

Markaðs- og skrifstofuvæðing heilbrigðisþjónustunnar

Í mínum huga er eitt af þessum forgangsverkefnum að viðhalda góðri heilbrigðisþjónustu sem þjónar öllum almenningi jafnt. Reyndar tel ég að þeir séu allnokkrir sem deila þeirri hugmynd að þetta sé sú grunnþjónusta sem skatttekjur ríkisins ber að halda uppi á meðan skattgreiðendur skila sínu í þennan sameiginlega sjóð. Það er þess vegna líklegt að þeir séu allnokkrir sem geta tekið undir orð Martins Luthers Kings hér í upphafi þar sem hann segir: „Of all the forms of inequality, injustice in health care is the most shocking and inhumane.“ (sjá líka hér)

Heilbrigðisráðherra

Heilbrigðisráðherrar

Í síðustu ríkisstjórn var Ögmundur Jónasson fyrst skipaður heilbrigðisráðherra, þá Álfheiður Ingadóttir og svo Guðbjartur Hannesson frá 2. september 2010. Guðbjartur er fæddur 1950 og var því sextugur þegar hann tók við heilbrigðisráðherraembættinu. Reyndar gegndi hann embætti félags- og tryggingaráðherra samhliða en þeim var síðan steypt saman í eitt 1. janúar 2011 og hét upp frá því velferðarráðherra.

Við það að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur tóku við völdum hafa heilbrigðismálin aftur fengið sérstakt ráðuneyti. Það er Kristján Þór Júlíusson sem gegnir ráðherraembætti þessa málflokks. Kristján er fæddur 1957 og er því 56 ára þegar hann tekur við sínum fyrsta ráðherrastóli.

Menntun og starfsreynsla:
Guðbjartur er með nokkuð fjölbreytta menntun á sviði kennslufræða og skólamála. Þegar hann er 21s árs öðlast hann grunnskólakennararéttindi með prófi frá Kennaraskóla Íslands og sjö árum síðar lauk hann tómstundakennarapróf frá Seminariet for Fritidspædagoger í Vanløse í Danmörku. 41s árs settist Guðbjartur aftur á skólabekk og þá í framhaldsnám í skólastjórn við Kennaraháskóla Íslands. Hann var skráður í það nám næstu þrjú árin. Síðast lauk hann svo meistaraprófi frá kennaraskóla Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) árið 2005, þá 55 ára.

Í framhaldi af kennaraprófinu frá Kennaraskólanum kenndi Guðbjartur við Grunnskóla Akraness. Þar var hann í þrjú ár en varð þá erindreki Bandalags íslenskra skáta næstu tvö árin. Eftir að hann lauk tómstundakennaraprófi í Danmörku kenndi hann við Peder Lykke Skolen á Amager í Kaupmannahöfn í eitt ár en sneri þá aftur heim þar sem hann réðst aftur að Grunnskóla Akraness. Hann kenndi þar í tvö ár en var þá ráðinn skólastjóri við skólann 31s árs og gegndi þeirri stöðu uns hann var kosinn inn á þing árið 2007. Guðbjartur hafði þá verið skólastjóri í 26 ár. Guðbjartur var 57 ára þegar hann var kosinn inn á þing fyrir Samfylkinguna.

Kristján Þór varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri tvítugur að aldri. Einu ári síðar tók hann skipstjórnarpróf (1. og 2. stig) frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. 24 ára skráði hann sig í nám í íslensku og almennum bókmenntum sem hann hefur stundað næstu þrjú árin en próflok úr þessu námi eru ekki skráð í ferilskrá hans. Þegar Kristján Þór er 27 ára lauk hann kennsluréttindaprófi frá Háskóla Íslands.

Eftir að Kristján lauk skipstjórnarprófinu vann hann sem stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík eða þar til hann innritaðist í Háskólann, þá 24. Á meðan hann var í Háskólanum heldur hann þó þessum stöðum yfir sumarið en er kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík á veturna. Eftir að hann lauk kennsluréttindanáminu er hann líka almennur kennari við Dalvíkurskóla eða frá 1984 til 1986. 

Árið 1986 var Kristján kosinn bæjarstjóri á Dalvík, þá 29 ára. Næstu tuttugu árin var hann bæjarstjóri á þremur stöðum á landinu: Á Dalvík frá 1986 til 1994, þá á Ísafirði frá 1994 til 1997 og loks á Akureyri frá 1998 til 2006. Ári síðar var Kristján kosinn inn á þing, þá 50 ára.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Guðbjartur sat í bæjarstjórn og bæjarráði Akraness í 12 ár. Á þessum tíma var hann tvisvar sinnum formaður bæjaráðs, fyrst 1986 og síðast 1997, eða alls í fimm ár, og þrisvar sinnum forseti bæjarstjórnar, fyrst 1988 og síðast 1998, eða alls í þrjú ár. Á þessum tíma sat Guðbjartur í fjölda stjórna og nefnda á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem varða ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt.

Þessi þáttur í ferilskrá Guðbjarts nær frá því að hann verður skólastjóri Grunnskóla Akraness þar til hann sest inn á þing. Áberandi þáttur í þessum hluta ferilskráar hans eru skóla- og félagsmál ungmenna. Allan tímann sem Guðbjartur er skólastjóri Grunnskólans á hann sæti í einni til tólf stjórnum eða ráðum. Flest sæti af þessu tagi átti hann á þeim tíma sem hann var í bæjarstjórnarmálunum á Akranesi auk þess að stýra skólanum.

Á þeim tíma átti Guðbjartur 9 nefndar- og stjórnarsæti að meðaltali á ári; þ.e. á árunum 1986 til 1998. Stjórnirnar og nefndirnar þar sem Guðbjartur átti sæti urðu flestar árið 1994 og 1998 eða 12 talsins. Árið 1994 átti hann sæti í eftirtöldum stjórnum og nefndum:

Í bæjarstjórn Akraness 1986-1998.
(Forseti bæjarstjórnar þrisvar sinnum. M.a. 1994-1995.)
Í bæjarráði 1986-1998.
Í ýmsum framkvæmdanefndum um byggingu Grundaskóla og leikskólans Garðasels 1981-2001.
Fulltrúi skólastjóra í skólanefnd Akranesbæjar 1981-2007.
Fulltrúi á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 1986-1994.
Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1986-1998.
Í stjórn Rafveitu Akraness tvisvar sinnum. Í seinna skiptið 1994-1995.
Í stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar 1994-1998.
Í samstarfsnefnd um svæðisskipulag sunnan Skarðsheiðar 1990-1996.
Í starfshópi um vinnu við mótun markmiða og stefnu í málefnum leikskóla á Akranesi 1992-1994,
í samstarfsnefnd um mótun tillagna um uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja á Akranesi 1993-1994.
Í stjórn útgerðarfélagsins Krossavíkur hf. 1994-1996.

Árið 1998 átti Guðbjartur aftur sæti 12 í ýmsum stjórnum og nefndum. Sex þeirra voru þau sömu og árið 1994. Hinn helmingurinn var nýr. Það sem vekur e.t.v. athygli í yfirlitinu hér að framan er að engin þeirra nefnda eða stjórna þar sem hann átti sæti tengist heilbrigðismálum. Eina tengingin við heilbrigðismál í þessari sögu Guðbjarts er að hann sat í stjórn Sjúkrahúss og Heilsugæslustöðvar Akraness á árunum 1996-1998.

Árið 1998 var Guðbjartur líka formaður Akraneslistans, sem var forveri Samfylkingarinnar á Akranesi skv. því sem segir hér. Hann gegndi því embætti frá árinu 1998 til 2000. Þegar Guðbjartur kemst ekki að í bæjarstjórnarkosningunum á Akranesi fækkar nefndar- og stjórnarsetum hans verulega. Hann var reyndar formaður skipulagsnefndar Akranesbæjar frá 1998-2002 en samkvæmt ferilskrá hans á alþingisvefnum er eina staðan sem hann heldur á sviði stjórnmála fram til þess að hann er kosinn inn á þing sú að hann er fulltrúi skólastjórnenda í skólanefnd Akranesbæjar.

Það er þó rétt að benda á að skv. því sem kemur fram hér sat hann í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins og gegndi þar formennsku. Það kemur ekki fram hvenær þetta var eða hversu lengi. Því má svo bæta við að eftir að bæjarstjórnarferli Guðbjarts lauk var hann í bankaráði Landsbanka Íslands í fimm ár eða frá  árinu 1998 til 2003 og bankaráði Heritable-bankans í London (eign Landsbankans síðan 2000) í eitt ár eða frá 2002 til 2003.

Kristján Þór hefur líka  setið í afar mörgum nefndum og ráðum á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem snerta ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt. Þessi þáttur í ferilskrá Kristjáns nær frá því að hann verður bæjarstjóri á Dalvík og til ársins 2009. Í byrjun þessa ferils eru sjávarútvegsmálin áberandi málaflokkur eða á meðan hann er bæjarstjóri á Dalvík og Ísafirði en eftir að hann sest í bæjarstjórastólinn á Akureyri á hann einkum sæti í stjórnum og ráðum sem fara með fjármál.

Þessi ferill Kristjáns nær yfir 22 ár eða frá 1987 til ársins 2009. Á þessu tímabili sat hann í einni til tólf nefndum yfir árið. Flestar urðu stjórnar- og nefndarsetur hans á árunum 1999 til 2007 en þá voru þær á bilinu 8-12 eða 9 að meðaltali. Árið 2002 var toppár í þessum efnum en þá sat hann í eftirtöldum stjórnum og ráðum:

Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar 1998-2007.
Í stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands 1999-2008.
Í stjórn Landsvirkjunar 1999-2007.
Í stjórn Fjárfestingabanka atvinnulífsins 1999-2000.
Í Ferðamálaráði Íslands 1999-2003.
Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Norðurlands 2000-2007.
Í stjórn Fasteignamats ríkisins 2000-2007.
Í stjórn Íslenskra verðbréfa 2002-2009.
Formaður stjórnar Eyþings 1998-2002.
Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1998-2007.
Í bæjarstjórn Akureyrar 1998-2009.
Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins síðan 2002.
Formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins 2002-2009.

Árið sem Kristján Þór var kosinn inn á þing var hann í 9 stjórnum og ráðum en það dregur verulega úr strax árið eftir. Það vekur hins vegar athygli að hann á áfram sæti í bæjarstjórn Akureyrar eftir að hann var kosinn inn á þing eða fram til ársins 2009. Kristján var kosinn annar varaformaður Sjálfstæðisflokksins árið 2012.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Guðbjartur kom nýr inn á þing vorið 2007, þá 57 ára gamall. Hann situr inni á þingi fyrir Samfylkinguna sem þingmaður Norðvesturlands. Hann hefur setið á þingi í 6 ár. Á þessu tímabili hefur hann átt sæti í fjórum þingnefndum. Þ.á m. sat hann í félags- og tryggingamálanefnd á árunum 2007 til 2010. Árið 2009-2010 var hann formaður hennar.

Kristján Þór kom líka inn á þing vorið 2007, þá fimmtugur að aldri. Hann er þingmaður Norðausturlands og hefur setið inni á þingi í sex ár. Frá því hann kom inn á þing hefur hann setið í þremur þingnefndum. Engin þeirra tekur til heilbrigðismála sérstaklega.

Ráðherraembætti:
Guðbjartur var skipaður félags- og trygginga- og heilbrigðisráðherra 2. september 2010. Ráðuneytin voru svo sameinuð 1. janúar 2011 og við sama tilefni nefnt velferðarráðherra. Guðbjartur gegndi þessu embætti til loka síðasta kjörtímabils. Hann hafði setið í þrjú ár á þingi þegar hann var skipaður til embættisins. Guðbjartur var 60 ára þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra (sjá nánar hér).

Kristján Þór er núverandi heilbrigðisráðherra. Eins og áður hefur komið fram hefur hann setið á þingi í sex ár eða eitt og hálft kjörtímabil. Kristján var 56 ára þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra. (sjá nánar hér)

Samantekt
Það hlýtur að vekja athygli hversu margt er áþekkt í ferilskrám Guðbjarts Hannessonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar. Báðir eru t.d. með kennaramenntun og einhverja kennslureynslu. Þeir eru á svipuðum aldri þegar þeir ljúka kennsluréttindanáminu en síðan hefur Guðbjartur aukið við menntun sína á sviði kennslu- og skólastjórnunar.

Guðbjartur og Kristján byrjuðu báðir að hasla sér völl á atvinnumarkaðinum samhliða námi. Kristján við sjómennsku en Guðbjartur m.a. virkjanastörf. Þeir byrja svo báðir að kenna rúmlega tvítugir. Guðbjartur er kennari í sjö ár áður og verður síðan skólastjóri við Grunnskóla Akraness. Því embætti gegnir hann í 16 ár. Kristján er kennari í fimm ár áður en bæjarstjóraferill hans tekur við en hann var bæjarstjóri í 20 ár á þremur stöðum á landinu; Þ.e. Dalvík, Ísafirði og Akureyri. Þar af 16 ár á heimaslóðum í Eyjafirðinum.

Guðbjartur hefur reyndar líka umtalsverða reynslu af bæjarstjórnarmálum. Þó Guðbjartur hafi aldrei verið bæjarstjóri eins og Kristján hefur hann 12 ára reynslu af bæjarstjórnarmálum. Báðir sátu samtals í rúmlega 20 stjórnum og nefndum á þeim tíma sem þeir fara með embætti í bæjarstjórnum. Guðbjartur og Kristján sátu m.a. báðir  í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þó það hafi ekki verið á sama tíma.   

Báðir komu inn á þing á sama tíma og hafa setið þar jafnlengi eða í sex ár. Guðbjartur hafði verið þingmaður í þrjú ár þegar hann var skipaður heilbrigðisráðherra en Kristján í sex. Hvorugur hefur neina menntun sem lýtur að rekstri eða skipulagi heilbrigðismála en vissulega má þó gera ráð fyrir að störf beggja á sviði bæjarmála geri þá hæfari til ráðherraembættis en marga samráðherra sína.

Miðað við menntun og reynslu mætti reyndar ætla að ráðuneyti menntamála hefði hæft Guðbjarti betur og sennilega Kristjáni líka. Það er líka spurning hvort sjávarútvegsráðuneytið standi þekkingu hans og reynslu nær en heilbrigðisráðuneytið. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga hvert markmið heilbrigðisþjónustunnar á að vera. Það má líka spyrja sig hvort markmið stjórnvalda og þeirra sem vinna að heilbrigðismálum fer saman.

Það er ekki spurning að embætti heilbrigðisráðherra er mjög umfangsmikið en grundvallarspurningin er hvort ráðuneytinu er  ætlað að þjóna fjármagninu eða fólkinu. Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað er hægt að setja niður hvaða hæfileikar skipta mestu við skipun ráðherra heilbrigðismála í landinu.

Ég reikna með að meiri hluti almennings og þeirra sem starfa innan heilbrigðisstofnananna líti svo á að verkefnið snúist um að að veita öllum sem þurfa jafna og góða þjónustu. Hins vegar er ansi margt sem bendir til að stjórnvöld vilji reka heilbrigðisþjónustuna eins og hvert annað markaðsfyrirtæki þar sem megináherslan liggur á því að skila peningalegum hagnaði. Af þessum ástæðum er líklegt að hugmyndir meirihluta almennings og stjórnvalda um það hvaða hæfileikum heilbrigðisráðherra þarf að vera búinn fari alls ekki saman.

Væntanlega lítur meirihluti skattgreiðenda svo á að rekstrargrundvöllur heilbrigðisþjónustunnar sé þegar tryggður í gegnum skattlagningu ríkisins á tekjur þeirra og eignir. Þess vegna er líklegt að flestir séu sammála um að það ætti að vera eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda að tryggja að ætlað hlutfall skattteknanna fari til þessarar nauðsynlegu grunnþjónustu en ekki í eitthvað annað sem þjónar minni hagsmunum.

Af þessu leiðir að heilbrigðisráðherra þarf að hafa hæfileika til samvinnu við starfsfólk og skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja góða sátt á milli almennings og heilbrigðisyfirvalda. Vænlegur kostur er því frekar hugsjón sem er bundinn velferð og hagsmunum samfélagsins en flokkspólitískum hagsmunum eða eigin frama innan stjórnmálaflokka.

Setjum heilbrigðisþjónustuna í forgang

Því má svo við þetta bæta að einhverjir þeirra sem hafa varað við þróuninni sem er að verða í heilbrigðismálum hér á landi hafa lýst yfir þungum áhyggjum af því að með nýjum heilbrigðislögum frá 2007 (sjá hér) hafi markið verið sett á aukna markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þessir hafa jafnframt varðað við því hvert þetta muni leiða heilbrigðisþjónustuna sem muni í framtíðinni snúast í enn meira mæli um fjármagn en ekki aðhlynningu. Teiknin eru væntanlega orðin öllum ljós nú þegar.

____________________________________

Helstu heimildir

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Örfáar heimildir um umræðuna um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar

Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á áhrifum markaðsvæðingar samfélagsþjónustu. Lagt fram á 135. löggjafarþinginu (2007-2008) af þingmönnum VG. Flutningsmenn: Ögmundur Jónasson.
Markaðsvæðing mannslíkamans. mbl.is: 31. janúar 2012.
Vilhjálmur Ari Arason: Neyðarþjónustan, þegar lífið sjálft er í húfi. Bloggpistill á eyjan.is: 15. ágúst 2013.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband