Kratar allra flokka

Þeir eru væntanlega fleiri en ég sem hafa velt því fyrir sér hverjir það eru sem standa sameinaðir á bak við nývaknaðar væringar í kringum nýtt veiðigjaldafrumvarp Framsóknar. Frumvarpið var samþykkt til eins árs af nýafstöðnu sumarþingi en hópur fólks hafði tekið sig saman um undirskriftarsöfnun þar sem skorað var á forsetann að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hafnaði þessari kröfu með eftirfarandi rökum:

Þegar ég hef á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar vísað lögum til þjóðarinnar hafa þau varðað grundvallaratriði í lýðræðisskipan eða efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga.

Nýting höfuðauðlinda þjóðarinnar er á vissan hátt hliðstætt grundvallarmál, bæði skipan fiskveiða og greiðslur vegna afnota.

Með lögum um veiðigjald, sem Alþingi hefur nú afgreitt, er ekki verið að breyta skipan fiskveiða og áfram verður greitt til þjóðarinnar bæði almennt veiðigjald og sérstakt veiðigjald; heildargreiðslur vegna nýtingar auðlindarinnar á næsta ári um 10 milljarðar króna.

Meginefni laganna er að áformuð hækkun kemur ekki til framkvæmda og breytt er hlutföllum milli uppsjávarveiða og botnfiskveiða; greiðslur einstakra fyrirtækja ýmist lækka eða hækka. Forsenda laganna er einnig að þessi gjöld verða endurskoðuð á næsta þingi.

Lögin fela því ekki í sér grundvallarbreytingu á nýtingu auðlindarinnar en kveða á um tímabundnar breytingar á greiðslum til ríkisins, sköttum vegna nýtingar. Að vísa lögum af því tagi í þjóðaratkvæðagreiðslu væri svo afdrifaríkt fordæmi að víðtækar umræður og afar breiður þjóðarvilji þyrfti að vera á bak við slíka nýskipan í meðferð skattlagningar, þjóðaratkvæðagreiðslur um hækkanir eða lækkanir á einstökum tekjuliðum ríkisins.

Ég hef þess vegna ákveðið að staðfesta lögin en árétta um leið hvatningu til stjórnvalda, Alþingis og ríkisstjórnar, um að kappkosta við boðaða endurskoðun að ná varanlegri og víðtækri sátt um skipan fiskveiða og arðgreiðslur til þjóðarinnar enda sýnir fjöldi undirskrifta vegna laganna um veiðigjald að almenningur hefur ríkan vilja og réttlætiskennd í þessum málum.

Sátt um nýtingu höfuðauðlindar Íslendinga er í senn forsenda farsældar í framtíðinni og siðferðileg skylda okkar allra.


Nú er að sjálfsögðu ofur eðlilegt að það sé rökrætt hversu haldbær ofangreind rök Ólafs Ragnars Grímssonar eru og skoða um leið hvort og þá hvernig þau samrýmast rökum sem hafa komið fram í máli hans áður og/eða annarra málsmetandi einstaklinga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hins vegar er það töluvert sérstakt að meðal háværustu gagnrýnenda ákvörðunar forsetans skuli fara þeir sem vildu takmarka og/eða binda þjóðaratkvæðagreiðslur við það sem sett var fram í 60. og 67. grein stjórnarskrártillagna stjórnlagaráðs (sjá t.d. hér og hér)

Þessar greinar stjórnarskrárdraganna gera nefnilega ekki aðeins ráð fyrir því að „fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt“ séu undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslu heldur líka að forseti taki ákvörðun um það hvort hann samþykki frumvarp til laga eða ekki.  Hópurinn sem unir hvorki ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar eða rökum hans í því máli sem hér er til umræðu virðist við fyrstu sýn reyndar koma úr nokkrum áttum. Flestir hafa áður látið til sín heyra í sambandi við:

  1. óútskýranleg andúð á Ólafi Ragnari sem birtist best í einsleitu úrvali mótframbjóðenda sl. sumar.
  2. að lausn allra vandamála landans felist í því að týnast inn í ESB og taka upp evru.
  3. að stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðsins fyrrverandi sé mikilvægari en lausn á skuldavanda heimilanna og snjóhengjuógninni sem vofir yfir íslenskum efnahag.
  4. að Íslendingum beri að taka á sig skuldir einkafyrirtækja þegar um banka er að ræða eins og í tilviki Icesave-skuldbindinga eigenda Landsbankans.

Samansafn gremjufullrar ófullnægju

Mörgum hefur þótt skorta á málefnalegar umræður og haldbær rök úr röðum þeirra sem hafa stillt sér upp með ofantöldum sjónarmiðum. Því miður virðist þetta einkenna háværasta hluta þeirra sem stóðu að undirskriftarsöfnuninni varðandi áskorunina um að vísa lögum um veiðigjaldið til þjóðaratkvæðagreiðslu og/eða hafa tjáð sig um ákvörðun og/eða rök forsetans í þessu sambandi.

Samansafn gremjufullrar ófullnægju

Yfirgengilegust er framkoma þess hóps sem hefur hreinlega keyrt um þverbak eftir að ákvörðun forsetans um veiðigjaldafrumvarpið var gerð heyrinkunn. Meðlimirnir hafa ekki látið sér nægja að fá útrás fyrir gremju sína á Fésbók, bloggi og athugasemdakerfum ýmissa vefmiðla heldur settu þeir saman kaldar kveðjur til forsetans og bjóða öðrum að taka undir (sjá hér). Fyrsta útgáfa kveðjunnar hljóðaði svo:

Kæri Ólafur Ragnar Grímsson. Þú ert búinn að vera forseti helmingi lengur en þú ætlaðir þér þegar þú bauðst þig fram. Þú hefur sett þrjú mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og hefur loks fengið til valda ríkisstjórn sem er þér svo þóknanleg að þú sérð ekki lengur ástæðu til slíkra æfinga. Þú ert orðinn sjötugur – kominn á löglegan eftirlaunaaldur. Konan þín er búin að flytja lögheimili sitt til Bretlands. Kannski er kominn tími til að hætta, jafnvel hverfa úr landi. Þú sagðir þegar þú lýstir yfir framboði þínu í fyrra að þú myndir hugsanlega ekki sitja allt kjörtímabilið. Segðu af þér. Við skorum á þig.
Nú hefur haturspenninn sem setti saman þennan texta eitthvað verið tálgaður til í þeim tilgangi að „bæta“ hann. Orðalagið er eitthvað annað en ísmeygileg haturspólitíkin situr þar föst samt sem áður:

Kæri Ólafur Ragnar Grímsson. Þú ert búinn að vera forseti helmingi lengur en þú ætlaðir þér þegar þú bauðst þig fram. Þú hefur sett þrjú mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og hefur loks fengið til valda ríkisstjórn sem er þér svo þóknanleg að þú sérð ekki lengur ástæðu til slíkra æfinga. Þú ert orðinn sjötugur – kominn á löglegan eftirlaunaaldur. Konan þín er búin að flytja lögheimili sitt til Bretlands. Þú sagðir þegar þú lýstir yfir framboði þínu í fyrra að þú myndir hugsanlega ekki sitja allt kjörtímabilið. Kannski er kominn tími til að gera alvöru úr þeim áformum þínum að hætta? Þeir sem undirrita þetta skora á þig, í fullri vinsemd, að gera það. (sjá hér)

Það er næstum því átakanlegt að horfa upp á það hvernig þokkalega vel gefið fólk getur misst sambandið við eigin dómgreind eins og í því tilviki sem þessi áskorun verður til fyrir. Ekki minnkar átakanleikinn þegar rennt er yfir þau rúmlega 100 innlegg sem hafa verið sett inn á svæði þessarar sérkennilegu undirskriftarsöfnunar. Það er sanngjarnt að geta þess að einhverjir sem tjá sig þar eru ekki að hnýta í Ólaf Ragnar heldur þá sem standa að undirskriftarsöfnuninni. Þeir gera það þó flestir með síst vandaðra orðavali en þeir sem tjá sig um persónu forsetans og falla þannig í sömu gryfju.

Dónaskapur er vörn hins veika

Það er eðlilegt að spyrja sig hverjir standa að baki þessum ærslagangi og í hvaða tilgangi? Þar mætti byrja á því að spyrja sig hvað sameinar þá hópa sem taldir voru upp hér að framan. Í fljótu bragði er e.t.v. útlit fyrir að hér sé aðeins um samansafn af gremjufullri ófullnægju að ræða en þegar betur er að gáð þá sýnist mér að nafngiftin „Kratar allra flokka“ sé ekki alveg óviðeigandi. Kannski væri því við hæfi að kalla þann pólitíska leikþátt sem þessir eru þátttakendur í samstöðu-spuna kratismans en það er spurning í boði hvers hann er?

Dónaskapur er vörn hins veika

Mér sýnist tilgangurinn vera augljós en niðurstaðan verður tæplega önnur en framhald þeirrar sundrungar sem ofantöldum tókst að koma á það stig að vondirfskan sem kom fram í fjölskrúðugri viðspyrnu síðasta kjörtímabils brotnaði að endingu á skerjum einstaklingshyggju þess offramboðs sem annaðhvort meðvitað eða ómeðvitað bauð upp á sömu hugmyndafræði og er að finna í þeim kratisma sem Samfylkingin hefur gert út á.

Í stað þess að lengja mál mitt með rökum hvað þetta varðar þá bendi ég á að í aðdraganda síðustu alþingiskosninga setti ég saman ófáa bloggpistla þar sem ég velti því upp hvaða flokkar meðal offramboðsins væru eins og afrit eða skilgetin afkvæmi Samfylkingarinnar. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að endurtaka það allt saman aftur. Því vísa ég þeim sem vilja kynna sér þær vangaveltur mínar frekar í bloggfærslur frá því í mars og apríl á þessu ári.

Ég vil hins vegar ljúka þessu hér með því að taka það fram að ég leyfi mér að efast um að það sé beinlínis tilgangur þeirra, sem hafa sig mest í frammi í þeim hópi, sem hér er til umræðu að auka á sundrunguna. Hins vegar er ég sannfærð um það að þeir sem fjármagna þá eru sér fullkomlega meðvitaðir um það hvað þeir eru að gera og hverjar afleiðingar þess eru. Sundrungin hefur nefnilega alltaf orkað sem skilvirkasti fráfælingarmáttur skynseminnar og um leið þrándur í götu samstöðu til almennrar farsældar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú hefur fullan rétt á skoðunum þínum Rakel en að sama skapi verður þú að virða aðra þess að vera á öndverðri skoðun. Í þessari samantekt þinni úthúðar þú 35.000 fulltrúum 70% þjóðarinnar (samkvæmt skoðanakönnun) sem vildu ekki að núverandi stjórnvöld lækkuðu veiðigjaldið (ekki skattinn).

"Það er næstum því átakanlegt að horfa upp á það hvernig þokkalega vel gefið fólk getur misst sambandið við eigin dómgreind eins og í því tilviki sem þessi áskorun verður til fyrir."(sic) Já, Rakel, dónaskapur er sannarlega vörn heins veika :)

Þér til upplýsingar standa nú helstu lögspekingar landsins ráðþrota gagnvart vindhananum ORG eftir síðasta fitl hans við "öryggisventilinn". Með gerræðislegri framkomu sinni í þessu máli tekur hann sér í raun konungshlutverk á Íslandi.

Forsetinn hefur mótað sér sínar einkareglur um það hvenær honum þóknast að fara að vilja aukins meirihluta landsmanna og vísa lögum í þjóðaratkvæði. Um leið er ljóst að hann ber enga ábyrgð á stjórnarathöfnum sínum samkvæmt stjórnarskránni.

Þessi staða er í hróplegri andstöðu við allar hugmyndir um "lýðveldið" Ísland.

Þér virðist vera mjög í nöp við krata og er það mér að meinalausu. Athugaðu hins vegar að ORG er að innleiða autocracy í sinni tærustu mynd á Íslandi.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 15:31

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það ætti að vera þér að meinalausu að lesa það sem þú vitnar til að örlítið meiri gaumgæfni. Í tilvitnuðum orðum er ég að vísa í þá áskorun þar sem Ólafur Ragnar er hvattur til að segja af sér.

Við nánari lestur myndir þú væntanlega líka reka augun í það að ég er ekki að setja út á það að „helstu lögspekingar“ landsins svo og aðrir rökræði um ákvörðun forsetans í tilviki veiðigjaldafrumvarpsins og/eða rökin sem hann færði fyrir ákvörðun sinni.

Ég taldi þetta koma skýrt fram hér: „Nú er að sjálfsögðu ofur eðlilegt að það sé rökrætt hversu haldbær ofangreind rök Ólafs Ragnars Grímssonar eru og skoða um leið hvort og þá hvernig þau samrýmast rökum sem hafa komið fram í máli hans áður og/eða annarra málsmetandi einstaklinga um þjóðaratkvæðagreiðslur.“

Hins vegar er langt frá því að allar umræður byggi á rökrænum grunni og geti þar af leiðandi talist rökræður eða málefnaleg skoðanaskipti. Því miður finnst mér vera tilfinnanlegur skortur á bæði virðingu fyrir andstæðum skoðunum og hófsemd í því sem ég hef rekist á að andstæðingar Ólafs Ragnars hafa látið frá sér fara í kjölfar ákvörðunar hans sl. þriðjudag.

Mér er ekki í nöp við einn eða neinn enda skrif mín ekki sett fram í þeim tilgangi að gera lítið úr neinum heldur sett fram í þeim tilgangi að fólk velti því fyrir sér hverjir standa raunverulega á bak við það sem hefur tekið á sig þá mynd að vera enn ein tilraunin til „að koma böndum á forsetann“. Þetta orðalag kemur innan úr yfirlýstum stuðningsmannahópi Samfylkingarinnar og lítið við því að gera annað en horfast í augu við það.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.7.2013 kl. 15:59

3 Smámynd: Tryggvi Helgason

Ég lít svo á, að þessar 35.000 undirskriftir, undirstriki brýna nauðsyn þess að afnema nú þegar kvótalögin svokölluðu.

Alþingi ætti að kalla saman strax, - að mínu mati, - til aukaþings þar sem eina málið á dagsskrá væri það að afnema að fullu og öllu núverandi fiskveiðilög og jafnframt að gefa íslendskum sjómönnum og útgerðarmönnum fullt frelsi til fiskiveiða í íslendskri lögsögu, ... en að sjálfsögðu eftir sérstökum og þar til gerðum reglum, sem jafnframt væru settar þar um.

Tryggvi Helgason, 12.7.2013 kl. 17:15

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér sýnist að það megi fullyrða að allir séu sammála um að ekki verði undan því vikist lengur að taka fiskveiðistjórnunarkerfið til alvarlegrar skoðunar með það fyrir augum að gera á þeim nauðsynlegar breytingar varðandi bæði úthlutun aflaheimilda og útreikninga á skattinnheimtu á útvegsfyrirtækin.

Miðað við það sem fjölmiðlar hafa haft eftir Ólafi Ragnari Grímssyni frá blaðamannafundinum sl. þriðjudag var það engan vegin ætlun forsetans að gera lítið úr þeim sem skrifuðu undir áskorunina til hans um að vísa lögunum um veiðigjaldið til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þvert á móti tók hann það sérstaklega fram að það bæri að taka tillit til þess að þetta væri mál sem brynni mjög á þjóðinni og því brýn ástæða til að vanda til verka og ná breiðri samstöðu um þessi mál þegar kæmi að því að fiskveiðistjórnunarkerfið yrði tekið fyrir í heild sinni á næsta þingi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.7.2013 kl. 05:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband