Dögunarþrenna
20.4.2013 | 15:08
Dögun, Píratar og Lýðræðisvaktin rekja öll rætur sínar til þeirrar Breiðfylkingar sem stofnað var til í Grasrótarmiðstöðinni veturinn 2011-2012. Formlegar þreifingar milli málsaðila hófust einhvern tímann í nóvember árið 2011 en það voru fulltrúar Borgarahreyfingar, Hreyfingar, Frjálslyndra og einstaka stjórnlagaráðsfulltrúa sem að umræðunum komu.
Óformlegar viðræður höfðu þó hafist miklu fyrr um einhvers konar samstarf og jafnvel kosningabandalag í komandi alþingiskosningum á milli Borgarahreyfingarinnar og þingflokks Hreyfingar annars vegar og fulltrúa Hreyfingarinnar og Frjálslynda flokksins hins vegar. Sennilega fóru slíkar þreifingar fyrst af stað sumarið 2010. Fljótlega eftir að umræddir stjórnmálaflokkar gengu til samstarfs um leigu og rekstur Grasrótarmiðstöðvarinnar haustið 2011 fóru viðræður á milli þeirra af stað ásamt Gísla Tryggvasyni og Þorvaldi Gylfasyni sem komu báðir úr stjórnlagaráðshópnum.
Fréttir af samstarfsfálmi Hreyfingarþingmannanna við ríkisstjórnina undir lok desember 2011 virtust ekkert strik setja í samrunaviðræður fyrrnefndra flokka og einstaklinga. Aftur á móti urðu ábendingar um það að vinnuheiti hópsins væri sótt aftur til þýsks nasisma til þess að þegar stofnfundur samrunans var haldinn, þ. 18. mars 2012, var nafninu breytt í Dögun - samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.
Þrátt fyrir síendurteknar staðhæfingar Dögunarfélaga um vilja til samstarfs við SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar, sem var stofnuð tveimur mánuðum fyrr, varð þess vilja lítt vart í hópi þingmannanna þriggja enda ljóst að eftir leynifundi þeirra með ríkisstjórninni undir áramót ársins á undan áttu áherslur Dögunar og SAMSTÖÐU litla samleið.
Vatnaskil við síðustu forsetakosningar
Brestir voru teknir að myndast og verða meira áberandi meðal þess hóps, sem hefð hafði skapast um að kalla einu nafni grasrót, fyrir stofnun Grasrótarmiðstöðina. Með stofnun hennar tókst að draga það eitthvað að leiðir skildu en það er rétt að taka það fram að stofnunin skilaði aldrei þeim tilætlaða árangri að kalla hana saman aftur eins og vonir stóðu til með stofnuninni. Í aðdraganda forsetakosninganna vorið 2012 tóku þessir brestir að koma enn skýrar í ljós.
Þar kom t.d. greinlega fram að þeir sem höfðu tekið skýra afstöðu gegn Icesave-samningunum og tekið þátt í að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um samningana voru líklegri til að styðja framboð Ólafs Ragnars Grímssonar sem ákvað að gefa kost á sér til endurkjörs eftir að hafa tekið við áskorun 31.000 kjósenda þar um. Má vera að þau vatnaskil sem tóku að skýrast megi rekja til mismunandi afstöðu til þess hvort skýringar á ástæðum og afleiðingum efnahagshrunsins eru efnahagslegar eða stjórnmálalegar.
Þeir sem eru á því að skýringarnar séu fyrst og fremst efnahagslegar hafa þá væntanlega frekar stutt Ólaf Ragnar Grímsson en þeir sem studdu aðra frambjóðendur eru þá að öllum líkindum líklegri til að telja skýringar þess vera stjórnmálalegar. Sú er væntanlega líka skýringin á því offramboði sem var á mótframboðum gegn sitjandi forseta. Meðal þeirra sem komu fram í þessum kosningum var Andrea J. Ólafsdóttir núverandi oddviti framboðslista Dögunar í Suðurlandskjördæmi.
Hún hafði gert sig gildandi bæði í fjölmiðlum og víðar sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Í krafti þess hefur hún eflaust talið líklegt að hún fengi stuðning sem myndi duga henni til árangurs. Af þessu tilefni virkjaði hún þá grasrót sem hafði haldið sig við Grasrótarmiðstöðina til að safna meðmælum fyrir forsetaframboð sitt og gerði framboð sitt um leið að álitlegum valkosti þessa hverfandi hóps.
Framboð Andreu vakti vissulega og mörgum fannst hún standa sig vel (sjá hér) en sumir veittu því athygli strax þá að í tilefni framboðsins hafði þessi oft og tíðum frjálslega en þó skelegga kona tamið sér töluvert meiri mýkt bæði í útliti og framkomu auk þess að skipta alveg um fatastíl. Þessi þróun hefur haldið áfram eftir að hún varð fyrst kosningastjóri Dögunar og svo oddviti flokksins í Suðurlandskjördæmi.
Af þeirri áberandi breytingu sem hefur orðið frá því að hún kom fram fyrst í fjölmiðlum sem málsvari Hagsmunasamtaka heimilanna og síðan sem frambjóðandi, fyrst til forsetaembættisins og síðar til alþingiskosninga, hafa einhverjir velt því fyrir sér hver sé leiðbeinandi hennar? Þeir hinir sömu hafa bent á að það sé líklegra að það sé einhver sem kann til vel verka og viti nákvæmlega hvað hann er að gera.
Með þessari uppstillingu er ekki ætlunin að bera Andreu J. Ólafsdóttur saman við Margaret Thatcher að öðru leyti en því að benda á að ýmislegt varðandi þann fatastíl sem Andrea hefur tileinkað sér eftir að hún kom fyrst fram sem frambjóðandi er ekki ósvipaður þeim sem stílisti Margaret Thatcher hefur valið henni. Þar ber mikið á kóngabláum og öðrum bláum tónum, dragtarjökkum og efripörtum með kringdu hálsmáli. Það er af þessum ástæðum ekki fráleitt að láta sér detta það í hug að á bak við framboð Andreu standi fagaðili sem sér í henni þann efnivið sem hann telur að eigi erindi í pólitík.
Þverbrestir
Eftir forsetakosningarnar var kyrrt um hríð en þó bárust þær fréttir um miðjan júlí að Birgitta Jónsdóttir hefði yfirgefið hina tæplega fjögurra mánaða Dögun og hygðist stofna sérstakan flokk í anda Pírata. 24. nóvember var Píratapartýið stofnað (sjá hér). Birgitta Jónsdóttir og Jón Þór Ólafsson hafa verið tveir af helstu málsvörum flokksins.
Jón Þór var m.a. framkvæmdastjóri Borgarahreyfingarinnar í aðdraganda alþingiskosninganna 2009, dyggur stuðningsmaður Hreyfingarinnar allt kjörtímabilið og kom að rekstrarstjórn Grasrótarmiðstöðvarinnar fyrir hönd þingflokksins. Hann reyndist og Dögun haukur í horni við lagabreytingartillögur Borgarahreyfingarinnar og Dögunar til að gera það mögulegt að Dögun gæti tekið upp kennitölu Borgarahreyfingarinnar og þannig gengið að ríkisframlagi hennar sem sínu og ráðstafað að vild (sjá hér).
Í framhaldi þess að fjármagn hafði verið tryggt lögðust Dögunarfélagar í ferðalag um landið haustið 2012 ásamt þremur væntanlegum frambjóðendum sem allir höfðu verið fulltrúar í stjórnlagaráði. Þremenningarnir sem um ræðir eru þeir: Lýður Árnason, Þorvaldur Gylfason og Gísli Tryggvason. (myndin er tekin að láni frá Önnu Karitas Stefánsdóttur og klippt til)
Tilefni ferðarinnar var ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðs og tilgangurinn m.a. að segja landanum til um það hvernig hann skyldi svara þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Kostnaður af uppátækinu var greiddur af hinu nýfengna fé sem náðist til með framangreindu kennitölufifferíi.
Fjármagnið sem um ræðir er sá ríkisstyrkur sem skv. fjárlögum heftur verið tekinn af skattfé almennings til að standa straum af rekstri Borgarahreyfingarinnar sem kom fjórum þingmönnum inn á þing við síðustu alþingiskosningar. Tveir þeirra voru í Dögun á þessum tíma. Það má geta þess að ferðalag stjórnarskráragentanna var tekið upp á myndband og sett í níu þriggja - til fimm mínútna bútum inn á You Tube (sjá hér).
Þegar heim var komið var ráðist í mannaráðningar og brugðið til þeirrar nýlundu að ráða tvo kosningarstjóra og ritstjóra. Þau sem voru ráðin eru: Friðrik Þór Guðmundsson, ritstjóri, og Daði Ingólfsson og Andrea J. Ólafsdóttir, kosningastjórar.
Ráðning Andreu og Friðriks var opinberuð 18. október 2012 (sjá hér) en hálfum mánuði síðar var ráðinn annar kosningastjóri til Dögunar. Sá var Daði Ingólfsson, framkvæmdastjóri SaNS (Samtök um baráttu fyrir nýrri stjórnarskrá (sjá hér)). Það var einkum tvenn sem vakti athygli í sambandi við þessar mannaráðningar Dögunar.
Athyglisverðar mannaráðningar
Í fyrsta lagi er það fáheyrt að tveir kosningastjórar séu ráðnir til stjórnmálaflokks. Hvað þá þegar enn er hálft ár í hina eiginlegu kosningabaráttu. Í öðru lagi var það mannavalið. Ráðning Daða Ingólfssonar vakti ekki aðeins athygli fyrir það að hann var framkvæmdastjóri baráttusamtaka um nýja stjórnarskrá sem þingflokksmenn Hreyfingarinnar höfðu þá haft að meginbaráttumáli í yfir eitt ár heldur hafði Borgarahreyfingin styrkt samtökin sem hann stýrði umtalsvert (sjá hér).
Ráðning Andreu J. Ólafsdóttur vakti ekki minni athygli og þá ekki síst fyrir það að rétt rúmri viku áður en ráðning hennar var opinberuð hafði hún skráð sig í SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar og setið landsfund flokksins þar sem hún tók virkan þátt í kosningum til stjórnar flokksins og lagði sig fram um að hafa áhrif á ályktanir og breytingar á stefnuskrá SAMSTÖÐU sem lagðar voru fyrir fundinn.
Þegar launakjör starfsmanna voru opinberuð í fundargerð Dögunar, sem þá voru aðgengilegar á heimasíðu Dögunar, rifjuðu margir upp það sem Andrea lét hafa eftir sér í fjölmiðlum um markmið sitt varðandi launakröfur næði hún kjöri sem forseti. Einhverjir hafa bent á að mismunurinn hefði verið hóflegri í báðum tilvikum.
Tæpum tveimur mánuðum eftir að ráðning Andreu var gerð opinber var framboð hennar fyrir hönd Dögunar opinberað án þess að það væri tekið fram að samhliða þeirri ákvörðun myndi hún láta af störfum sem kosningastjóri flokksins (sjá hér) Með formlegri yfirlýsingu Andreu um framboð voru þau alls orðin sex sem höfðu gefið út slíka yfirlýsingu um framboð á lista Dögunar fyrir komandi alþingiskosningar.
Tveir drógu fyrirætlanir sínar um framboð á lista Dögunar til baka. Annar án þess að nokkuð kæmi um þá ákvörðun væntanlegs frambjóðanda en hinn, Lýður Árnason, gekk úr Dögun undir lok janúar (sjá hér). Rétt rúmum hálfum mánuði síðar hafði hann stofnað nýtt framboð með félaga sínum úr stjórnlagaráði, Þorvaldi Gylfasyni, sem lengi hafði verið orðaður við framboð á lista Dögunar enda gengið nokkuð fram í því að telja fólk á að bjóða fram fyrir Dögun.
Rétt rúmum þremur mánuðum eftir að Daði Ingólfsson var ráðinn sem kosningastjóri Dögunar hætti hann sem framkvæmdastjóri Dögunar. Í viðtali við DV sem er tekið þ. 16. febrúar svarar hann spurningu um það hvort hann hyggi á að ganga til liðs við Lýðræðisvaktina [...] Ég veit það ekki enn. En það eru margir góðir vinir mínir þarna inni. Ég verð örugglega eitthvað að þvælast. (sjá hér). Lýðræðisvaktin hafði verið stofnuð deginum áður (sjá hér) en daginn eftir að viðtalið er tekið er Daði á formlegum stofnfundi Lýðræðisvaktarinnar (sjá hér). Stofnendurnir voru fjórir karlar sem allir eru komnir yfir miðjan aldur. Einn stofnendanna er nú genginn til liðs við Flokk heimilanna.
Með stofnun Lýðræðisvaktarinnar um miðjan febrúar var komið fram það sem mætti kalla þríburaframboð: Dögunar, Pírata og Lýðræðisvaktarinnar enda ljóst að tengslin þar á milli hafa og eru náin. Þeir sem komu upphaflega að Borgarahreyfingunni hafa dreifst á milli þessara þriggja auk þess sem helstu talsmenn flokkanna þriggja lögðu saman að grundvelli Breiðfylkingarinnar sem varð að Dögun við formlega stofnun.
Andlitslyftingar og stolnar fjaðrir
Þegar litið er yfir sérkennilega þroskasögu Dögunar- samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði er býsna margt sem vekur spurningar og í reynd er það svo margt að ekki er unnt að gera því öllu skil í einni bloggfærslu enda tæplega allt sem skiptir máli. Þó er freistandi að nefna einhver dæmi. Það vekur t.d. athygli að frá því að Dögun var formlega stofnuð þ. 18. mars í fyrra þá hefur stjórnmálaflokkurinn þrisvar sinnum skipt um merki:
Upphafleg heimasíða Dögunar hefur gengið í gegnum umtalsverða andlitslyftingu auk þess sem Svipan, sem upphaflega var stofnuð sem vettvangur grasrótarinnar, er orðin að málgagni Dögunar. Það má taka það fram hér að Svipan hefur líka fengið andlitsupplyftingu en með henni hvarf allt það efni sem þar var varðveitt af fréttum, greinarskrifum og myndefni tengdu grasrótarstarfi undanfarin ár.
Þetta ásamt öllum þeim fjölda myndbanda sem hafa verið sett inn á You Tube af frambjóðendum Dögunar vísa til þess að það eru ekki lengur einhverjir grasrótaramatörar sem sjá um ásýnd og markaðssetningu flokksins heldur nýtur hann þjónustu markaðsskrifstofu sem hefur á að skipa bæði reyndum og vel þjálfuðum mannskap með yfirgripsmikla færni og þekkingu í því hvað virkar. Þetta sama handbragð má líka sjá á flettispjaldaauglýsingum t.d. inni á Svipunni og myndum af frambjóðendum inni á heimasíðunni og fésbókarsíðu flokksins.
Það sem vekur mesta athygli er að umtalsverður fjöldi þeirra sem komu að stofnun Dögunar og viðhaldi flokksins síðastliðið ár hafa yfirgefið hann og stofnað klofningsframboð eða gengið til liðs við annaðhvort þeirra. Tveir af þeim sex oddvitum sem gáfu út formlegar yfirlýsingar fyrir jól um framboð á lista Dögunar hafa horfið annað en eins og hendi væri veifað tókst öllum framboðunum þremur að manna lista.
Það er einkum þeim fjórum, sem gáfu það út fyrir jól að þau gæfu kost á sér til forystu á lista Dögunar, sem er teflt fram sem trompum Dögunar. Þetta eru þau Margrét Tryggvadóttir, Þórður Björn Sigurðsson, Gísli Tryggvason og Andrea J. Ólafsdóttir. Þrátt fyrir að ekkert þeirra hafi nýtt stöðu sínar síðastliðin ár til þess styðja eða vekja athygli á lausnarmiðuðum hugmyndum Lilju Mósesdóttur til lífskjaraumbóta almennings og efnahagsaðgerða þá kynna þau sig sem mikilvægt baráttufólk sem barist hefur fyrir réttlæti fyrir heimilin árum saman. (sjá hér) en tefla engu fram því til áréttingar nema stöðum sínum og niðursoðinni útgáfu af þeirri heildarlausn sem Lilja Mósesdóttir lagði fram í ýtarlegri þingsályktunartillögu á Alþingi þ. 11. febrúar sl. (sjá hér)
Andrea J. Ólafsdóttir, skrifaði grein ásamt Þorvaldi Geirssyni, sem birtist á hinum nýstofnaða netmiðli, Suðurfréttir, þ. 12. apríl sl. Þar er þetta dregið fram sem efnahagsstefna Dögunar:
Dögun vill tryggja farveg fyrir vilja þjóðarinnar. Leiðrétta lánin t.d. með 99% skatti af hagnaði bankanna og endurheimta ríkisaðstoðina sem þeim var veitt. Við erum líka skotin í skiptigengisleiðinni þar sem tekin yrði upp ný króna og gerð allsherjartiltekt í hagkerfinu með losun snjóhengjunnar og niðurfærslu bæði skulda og eigna líkt og Þjóðverjar gerðu í þýska efnahagsundrinu. Við viljum tryggja afnám verðtryggingar og nýtt lánakerfi með vaxtaþaki. Auðlindir í þjóðareigu og arð af þeim í ríkiskassann svo hægt sé að hækka persónuafslátt og lækka skatta. Nýja stjórnarskrá fólksins með beinu lýðræði sem veitir Alþingi nauðsynlegt aðhald. (sjá hér)
Hvort kjósendum finnist það álitlegur kostur að velja Dögun í alþingiskosningunum sem fara fram núna eftir viku verður aðfararnótt næsta sunnudags að leiða í ljós. Því er þó við þetta að bæta að rótleysið sem Dögun byggir á; þ.e. grunni þeirrar Borgarahreyfingar sem klofnaði yfir í Vinstri græna og þingflokk Hreyfingarinnar á innan við hálfu ári eftir síðustu kosningar og er nú komið í þrennt eftir að það sem var eftir af bæði Borgarahreyfingu og Hreyfingu gengu saman aftur ári fyrir kosningar ásamt þriðja stjórnmálaaflinu og nokkrum félögum úr stjórnmálaaflinu.
Þverbrestir valda slæmum sprungum
Þeir sem tefla fram efnahagsstefnu sem er tekin annars staðar frá en láta eins og þeir hafi fundið hana upp sjálfir eru tæplega traustvekjandi kostur heldur og breytir engu þó meðal oddavita flokksins sé að finna tvo fyrrverandi formenn Hagsmunasamtaka heimilanna, þingmann og talsmann neytenda.
Það er ekki til að bæta við trúverðugleikann þegar það er haft í huga að þingmaðurinn í þessum hópi var svo upptekinn af því að knýja stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs í gegnum þingið að hann fórnaði hagsmunum sem byggja á efnahagslegum forsenum fyrir von um upphefð af stjórnarskrárfrumvarpi sem inniheldur bæði takmarkandi möguleika til þjóðaratkvæðagreiðslu fullveldisafsal til afþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að.
Á lokadögum þingsins lofaði hann líka kjósendum sínum að næði hann kjöri yrði það hans fyrsta verk að leggja fram þetta sama stjórnarskrárfrumvarp (sjá hér). Því má svo við þetta bæta að verði Margrét Tryggvadóttir endurkjörin inn á þing fyrir efnahagsstefnu Dögunar væri það í annað skiptið sem hún settist inn á þing fyrir stefnu í efnahagsumbótum sem byggir á hugmyndum og þekkingu Lilju Mósesdóttur. Lilja hafði nefnilega unnið efnahagsstefnu Borgarahreyfingarinnar með Þór Saari áður en hún ákvað að ganga til liðs við Vinstri græna.
Dögun hefur líka hrósað sér að því að einn oddviti þeirra sé talsmaður neytenda. Þegar betur er að gáð þá hefur hann unnið það sér helst til frægðar að hafa litlu sem engu áorkað fyrir skjólstæðinga sína (sjá hér) en aftur á móti brennur hann af af ástríðu fyrir sama stjórnarskrárfrumvarpi og Margrét Tryggvadóttir enda á hann drjúgan þátt í því sjálfur að það varð að veruleika.
Það verður fjallað nánar um annan af tveimur formönnum Hagsmunasamtaka heimilanna sem er í þeim í þeim hópi sem stjórnmálaflokkurinn Dögun hefur teflt fram sem sínum helstu trompum. Hinn hefur verið starfsmaður Hreyfingarinnar frá haustinu 2009. Trúlega hefur hann reynst þingflokknum bæði traustur og gagnlegur starfskraftur. Það fer þó varla fram hjá neinum sem kynnir sér blogg viðkomandi að hann hefur líka lagt mikla rækt við það að koma sjálfum sér á framfæri (sjá hér). Að öllum öðrum ólöstuðum hafa þó sennilega fáir ef nokkur lagt jafnhart að sér við að gera Dögun að veruleika og halda stjórnmálaflokknum á lífi eins og hann.
Það dylst heldur engum sem horfði á þátt Sjónvarpsins, Alþingiskosningar 2013, um Efnahagsmál að Þórður Björn Sigurðsson hefur stúderað skiptigengisleið Lilju Mósesdóttur, sem er kölluð þýska leiðin hjá Dögun, afar gaumgæfilega og getur farið með allt það sem þar kemur fram utanbókar. Í ljósi menntunar hans og reynslu er þó útilokað að hann geti hrint hugmynd sérfræðings í efnahagsáföllum í framkvæmd þannig að vel fari frekar en hin þrjú.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:56 | Facebook
Athugasemdir
Rakel Sigurgeirsdóttir!
Ég vil þakka fyrir þessa grein hér að ofan. Mjög margt fróðlegt þar að finna sem ég hafði ekki hugmynd um. Það eina sem kemst að í mínum huga er að fjórflokkarnir+þeirra leki Björt framtíð komist ekki í meirihluta á alþingi. Ég hef gert upp hug minn nú þegar. Kosið utan kjörstaðar og gaf mitt atkvæði til Hægri Grænna. (finnst samt nafnið á flokknum bjánalegt) vonandi standa þeir við eitthvað ssem þeir hafa fram að færa komist þeir að.
Jóhanna (IP-tala skráð) 20.4.2013 kl. 21:45
Þessi ráðningarsamningur við Andreu er bara í 2 mánuði en var hún ekki í vinnu leingur en það?
Sigrún Inga (IP-tala skráð) 20.4.2013 kl. 23:25
Jóhanna, sjálf stend ég í þeim sporum að ég er í megnustu vandræðum með það hvað ég á að kjósa. Að stærstum hluta stafa vandræði mín af því að ég er full af vantrausti og treysti mér ekki til að kjósa neinn flokk án þess að vita hvort ég geti treyst þeim sem þar bjóða fram.
Ég vildi t.d. óska þess að einhver tæki sig til og drægi saman það sem hann veit um þá. Sjálf treysti ég honum ekkert frekar fyrir atkvæði mínu en flokkunum þremur sem ég treysti mér til að upplýsa aðra kjósendur eitthvað um þar sem ég þekki nógu vel þannig að ég ráði við það.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.4.2013 kl. 00:01
Sigrún Inga, skv. fundargerðum framkvæmdaráðs Dögunar var ráðningarsamningurinn við Andreu framlengdur. Mig minnir að ég hafi rekið augun í það að hann hafi átt að standa frram yfir landsfundinn sem var haldinn þ. 15 mars sl.
Þessar upplýsingar voru aðgengilegar á gömlu heimasíðunni en eru það ekki á þeirri nýju, komu reyndar inn um tíma nú fyrir stuttu en hurfu af einhverjum ástæðum út aftur, þannig að það er ekki hægt að ganga úr skugga um það hvort þetta er rétt munað eða ekki.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.4.2013 kl. 00:09
Sæl og blessuð Rakel.
Margt fróðlegt sem kemur fram hjá þér.
En erindi mitt var fyrst og fremst að benda þér á slóðina http://vefsafn.is/
ef þú hefur áhuga fyrir því að leita vefsíðum sem hafa "horfið".
Það er reyndar engin vissa fyrir því að það sem leitað er að finnist, en oft má finna gamlar íslenskar vefsíðru þarna.
G. Tómas Gunnarsson, 21.4.2013 kl. 07:41
Blessuð Rakel.
Þegar ég hóf morgunverkið með því að lesa þennan magnaða pistil þá flaug í huga mér undir lokun stef úr lagi sem annar strákurinn minn er reglulega hrifinn af, og skilur ekki ennþá spillinguna (hans skýring) sem lá að baki að það skyldi ekki vinna.
"I will be popular, I will be popular".
Er framsýnn aðili þarna að baki sem vill tryggja sér ítök ef atlagan að stjórnarskránni hefur í för með sér þær breytingar á kosningakerfinu að hið svokallaða persónukjör verði ráðandi.
Þá er það aðeins verkefni fyrir fjármuni að útbúa sér frambjóðenda svipað og duglegir upptökustjórar og útgefendur útbjuggu poppstjörnur.
Er það sem þú raktir aðeins dæmi um framsýni?
En eitt verð ég samt að segja, plottið að ná að fylla uppí allar hugsanlegar holur mögulegar andspyrnu hefur tekist frábærlega svo að eftirtektarvert er í markaðsfræðum. Þessi Coke Cola hagfræði, að hindra mögulega aðför að kjarnamerkinu með því að loka fyrirfram fyrir allar fótfestur á markaðnum með því að bjóða uppá allan möguleikann til hliðar, óháð nokkurrar kröfu um arðsemi, annarrar en þeirrar að láta hugsanlegan andstæðing endalaust kljást við samkeppni eða vöru sem var fyrir á markaðnum, virkað mjög vel fyrir þá hagsmuni sem óttuðust sameiningu fjöldans.
Nei-ið í ICEsave var sú aðvörun sem þessir hagsmunir tóku fullt mark á.
Næsta Nei hefði getað hrakið þá úr landi.
Verst þykir mér allt þetta góða fólk sem lætur fífla sig en þannig er það nú bara.
Takk fyrir þitt þarfa verk.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.4.2013 kl. 08:17
Þú skrifar margt sem gerir það að verkum að ég er hætt við þetta framboð. Hefurðu hugsað að senda þetta á fréttastofur?
Í vinnu í 5 mánuði hjá Dögun með 3 milljónir á meðan bótafólk fær ekki nema 2 milljóir á ári eða undir því? Ég hélt að þetta væri nýtt framboð sem ætti einga peninga eins og öll hin nýju framboðin en svo sé ég að þau eru að borga þreföld lægstu laun. En ef hún er ekki leingur á launum er Dögun þá ekki með neina starfsmenn leingur?
Sigrún Inga (IP-tala skráð) 22.4.2013 kl. 12:59
Ég þakka Tómasi fyrir ábendinguna og Ómari fyrir athyglisverðar vangaveltur. Einkum finnst mér þetta: „Nei-ið í ICEsave var sú aðvörun sem þessir hagsmunir tóku fullt mark á.“ merkilegt og svo tilvitnunin í dægurlagatextann.
Ég velti því upp í öðrum eldri bloggpistlum hvort innihaldsleysið sem verður ekki betur séð en einkenni marga frambjóðendur offramboðins væri e.t.v. vísbending um það að markaðsvæðingin hefði náð inn í stjórnmálin.
Þessi athugasemd: „Þá er það aðeins verkefni fyrir fjármuni að útbúa sér frambjóðenda svipað og duglegir upptökustjórar og útgefendur útbjuggu poppstjörnur.“ dregur fram aðferðarfræðina sem ég fæ ekki betur séð en hafi verið notuð í sambandi við nokkra oddvita: Dögunar, Pírata og Lýðræðisvaktarinnar.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.4.2013 kl. 13:39
Það sem ég hef dregið fram í þessum pistli er allt aðgengilegt á Netinu þannig að ég hef ekki gert annað en draga það saman. Tilgangurinn er að sjálfsögðu að vekja lesendur til umhugsunar en ég verð þó að viðurkenna að mér var svolítið brugðið þegar þú sagðir að þú værir hætt við þetta framboð.
Sjálf er ég í þeim sporum að ég á í stökustu vandræðum með að finna út hvort ég geti treyst einhverju framboðanna fyrir atkvæði mínu. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ég veit ekki hvort ég geti treyst einhverju þeirra.
Ég hef að mörgu leyti meiri ástæður til að vantreysta þríburaframbðinu; þ.e. Dögun, Pírötum og Lýðræðisvaktinni þar sem ég get tekið mið af kosningaloforðum Borgarahreyfingarinnar og efndum þeirra en eins og þú áttar þig kannski á þá er Dögun að meginstofni sama afl og Píratar og Lýðræðisvaktin sem eru klofningar út úr Dögun.
Þar sem margt af því sem hér kemur fram styðst við fréttamiðla geri ég ráð fyrir að þeir séu meðvitaðir um það sem hér hefur verið rakið þó þeir hafi ekki haft fyrir því að draga sögu þessara framboða saman eins og ég geri hér. Það veldur mér reyndar furðu hvað fjölmiðlar virðast vera vilhollir þríburaframboðinu og umburðarlyndir gagnvart mörgu því sem er útásetningarvert varðandi peningamál og ýmislegt annað viðkomandi framboðunum og framgöngu frambjóðenda þeirra. Spurning hvað veldur.
Dögun er ekki nýtt framboð heldur reist á rústum tveggja stjórnmálaflokka og örþingflokks Hreyfingarinnar. Borgarahreyfingin og Hreyfingin eru ríkisstyrkt. Borgarhreyfingin um svo umtalsverða fjárupphæð að Dögun tók upp kennitölu Borgarahreyfingarinnar sem var lögð niður.
Af einhverjum ástæðum er Dögun með tvær kennitölur: kennitölu Borgarahreyfingarinar og stofnkennitölu Dögunar. Ég veit ekki hvort það er til þess að geta tekið við tvöföldum hámarksstyrk: öðrum á upphaflegu kennitöluna og hina á þá sem var upphaflega Borgarahreyfingarinnar.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.4.2013 kl. 14:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.