Vakkað yfir lýðræðinu

Meginskilningur þeirra hópa sem hafa mótmælt á undanförnum misserum í ríkjum Evrópu og víðar er að vandinn sem við er að glíma sé sá að „no true democracy is attainable when the process is determined by economic power“ (sjá t.d. hér).

Það verður heldur ekki betur séð en þetta sé sameiginlegur skilningur mótmælenda  hvort sem þeir hafa risið upp á meginlandi Evrópu, vestur í Ameríku eða austur í Japan. Hvarvetna mótmæla bæði ungir og aldnir óréttlætinu sem kemur fram í því að stöðugt er gengið lengra í niðurskurði almannahagsmuna til bjargar bönkum og öðrum fjármálastofnunum (sjá t.d. hér).

Lýðræði til sölu

Af þessu verður ekki betur séð en skilningur fjöldans úti í hinum stóra heimi sé sá að skýringin á versnandi lífskjörum almennings sé fremur efnahagslegur en stjórnmálalegur. Hér á landi ætti þetta að liggja enn betur fyrir þegar litið er til þess litla árangurs sem hefur náðst með því að uppfylla kröfur Búsáhaldabyltingarinnar um að skipta út andlitum í yfirstjórnum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitins ásamt því að kjósa upp á nýtt.

Það sem ætti að standa upp úr eftir þetta kjörtímabil er sá lærdómur að efnahagsvandinn verður ekki leystur með því að skipta út fólki og kjósa nýja flokka.

Lausnin liggur í samstöðunni

Þegar mið er tekið af efnahagsatburðum kjörtímabilsins ætti það hins vegar að blasa við að samstaða almennings er miklu líklegri til að ná árangri gagnvart fjármálaöflunum en það að skipta út fólki hvort sem er inni á þingi eða í eftirlitsstofnunum fjármálageirans. Hér er að sjálfsögðu verið að vísa til Tunnumótmælanna og þeirrar öflugu samstöðu sem náðist í tvígang gegn Icesave.

  • Það er nánast útilokað að Icesave-samningarnir væru úr sögunni ef ekki hefði komið til gallhörð sjálfboðavinna þeirra einstaklinga sem skipuðu grasrótarhópana sem vöktu athygli almennings á innihaldi samninganna, afleiðingunum yrðu þeir samþykktir og svo lögfræðilegum möguleikum Íslendinga í málinu.
  • Sértækar vaxtabætur hefðu heldur aldrei orðið að veruleika nema fyrir hinn stórkostlega samtakamátt sem opinberaðist fyrir framan alþingishúsið í Tunnumótmælunum 4. október 2010. Væntanlega hafa framhaldsmótmælin dagana á eftir sannfært samráðsnefndina sem var kölluð saman í kjölfarið enn frekar um að hún varð að gera eitthvað til að draga úr mótmælunum.

Við þetta má líka bæta að það hefði væntanlega lítill sem enginn árangur náðst í baráttunni við miskunnarleysi gengistryggðu lánanna ef ekki hefði verið fyrir þrautseigju hjónanna sem kærðu þau og höfðu sigur í málinu. Það má auðvitað ekki gleymast að það voru sem betur fer einstaka þingmaður sem reyndi að sporna gegn þjónkun Alþingis við peningavaldið og skjóta a.m.k. inn þingsályktunartillögum til að koma hagmunamálum fjölskyldna og fyrirtækja í landinu að í umræðum kjörtímabilsins á þinginu ásamt breytingum á efnahagsumhverfinu.

Í ljósi þess hvaða viðtökur lausnarmiðaðar hugmyndir Lilju Mósesdóttur hafa fengið á kjörtímabilinu bæði inni á Alþingi og meðal fjölmiðlamanna, sem ítrekað annaðhvort hundsuðu þær eða réðust gegn persónu hennar, er ekki annað hægt en taka undir þessi orð hins 79 ára aktívista Ralph Nader:

Our democracy is in decay, with no end in sight unless there is a sustained response from an aroused citizenry to stop the corporatists from blocking so many proven solutions for our country‘s promblems. (sjá hér)

Kapítalisminn er dauður 

Í lok þessa kjörtímabils blasir nefnilega við sú sorglega staðreynd að: Í stað þess að almenningur brýni samstöðu sína lætur hann framagjörnum frambjóðendum það eftir að sundra samstöðu sinni og koma þannig í veg fyrir að kraftinum sem í samstöðu hans liggur verði beitt.

Það verður heldur ekki betur séð en þeim sem stafar ógn af sérfræðikunnáttu Lilju Mósesdóttur í efnahagsáföllum séu í aðstöðu til að nota bæði Alþingi og fjölmiðla til að útiloka hana.

Traust afturhald

Þorvaldur Gylfason er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Af einhverjum ástæðum hefur Prófessorinnekki farið mikið fyrir honum hér heima í allri þeirri efnahagsumræðu sem fram hefur farið á yfirstandandi kjörtímabili. Honum hefur þó brugðið fyrir þar sem hann hefur mært efnahagsráðgjöf Alþjóðagjaldeyris-sjóðsins og undirstrikað nauðsyn hennar (sjá t.d. hér). Afstaða hans í Icesave er líka löngu orðin fræg af endemum þar sem hann sagði:

[...] ítrekaðar yfirlýsingar íslenzkra stjórnvalda um, að staðið yrði við skuldbindingar íslenzku bankanna samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins um tryggingasjóði, bindi hendur stjórnvalda og samningar séu því nauðsynlegir og dómstólaleiðin komi af þeim sökum ekki til álita. Þetta sjónarmið verður ekki heldur vefengt. Hver vill vitandi vits eiga viðskipti við mann, sem er þekktur að því að víkja sér undan að efna gefin loforð með þeim rökum, að honum beri ekki lagaskylda til þess?“(sjá hér)

Sú hollusta sem kemur fram í málflutningi Þorvaldar, þar sem hann tjáir sig um málstað Íslendinga gagnvar erlendum fjármálastofnunum, ætti ekki að koma á óvart þegar það er haft í huga hversu nátengdur hann er bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Undanfarin ár hefur hann nefnilega ferðast um heiminn, einkum Afríku, Asíu og Mið-Austurlönd, sem ráðgjafi þessara stofnana.

In recent years, he has been a frequent consultant to the International Monetary Fund and also the World Bank, the European Commission, and the European Free Trade Association (EFTA). This work has included extensive lecturing at the Joint Vienna Institute in Vienna, in all parts of Africa, as well as in Asia and the Middle East. (sjá hér)

Þrátt fyrir þann tilfinnanlega skort sem er á stuðningi við hagsmuni almennings í málflutningi Þorvaldar hefur hann alla tíð verið hátt skrifaður af þeim hópi sem stóð á bak við Búsáhaldabyltinguna. Það liggur hins vegar ekki fyrir hvers vegna eða hver þáttur Þorvaldar var í hinni eiginlegu Búsáhaldabyltingu.

Hörður Torfasong og Þorvaldur Gylfason

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur Þorvaldur Gylfason verið eins og einhvers konar mentor Hreyfingarþingmannanna og margra þeirra sem tilheyrðu Borgarahreyfing- unni sálugu. Það var kannski þess vegna sem hann þótti ómissandi þegar fulltrúar þessara tveggja komu saman ásamt Frjálslynda flokknum í Grasrótarmiðstöðinni haustið 2011 í þeim tilgangi að blása til breiðfylkingar sem byði fram við alþingiskosningarnar sem nú eru framundan.

Strax í upphafi þessara viðræðna var ljóst að í augum Þorvaldar Gylfasonar þá skiptir ný stjórnarskrá meginmáli. Þegar það er haft í huga að samkvæmt 111. gr. stjórnarskrár-frumvarpsins, sem hann tók þátt í að setja saman ásamt öðrum stjórnlagaráðsfulltrúum, er heimilt að framselja valdi íslenska ríkisins „til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá hér) ætti það að vera ljóst að Þorvaldi eru hagsmunir vinnuveitenda sinna á erlendri grundu enn og aftur ofarlegar í huga en hagsmunir íslensku þjóðarinnar.

Stjórnarskráragent

Í stuttu máli þá var Þorvaldur Gylfason ekki fyrirferðarmikill á því meginsviði sem breiðfylkingarmyndunin, sem síðar varð Dögun, fór fram. Aftur á móti tók hann sviðið yfir þegar kom að því að Rokkrúta Dögunar fór um landið til að halda úti boðskap þeirra sem komu fram í því að hafa gert stjórnarskrána að sínu meginmáli haustið 2012. Þorvaldur hafði undirbúið sig vel fyrir þessa ferð því hann var tilbúinn með kennslugöng um það hvernig ætti að kjósa strax um miðjan mars eða sjö mánuðum áður en það kom að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána þ. 20. október (sjá hér.

Lýðræðisvakk

Það er ljóst að nokkuð var lagt í ferðalagið en litlum sögum hefur farið af viðtökum eða árangri en ferðalagið var tekið upp, klippt í áhorfendavæna tímalengd og sett inn á You Tube í níu hlutum. Er svo tíðindalaust af þætti Þorvaldar innan Dögunar um hríð. Þegar sex frambjóðendur voru búnir að gera uppskátt um framboð fyrir hönd Dögunar fóru að renna tvær grímur á ýmsa sem höfðu gert ráð fyrir því að Þorvaldur ætlaði sér tæplega að sitja hjá á næst komandi alþingiskosningavertíð enda birtust reglulega sögusagnir um það að í þetta skiptið ætlaði hann sér fram (sjá t.d. hér).

Af fundargerðum Dögunar, sem voru aðgengilegar á heimasíðu Dögunar á þessum tíma, varð heldur ekkert vart við Þorvald en á milli lína var þó tekið að hylla undir þær ryskingar sem leiddu til skálmaldarinnar sem varð opinber upp úr áramótunum. Upp úr sauð á framkvæmdaráðsfundi sem haldinn var skömmu upp úr áramótunum þegar varamaður þess vildi leggja fram vantrauststillögu á dýrasta frambjóðanda Dögunar sem hafði opinberað framboð sitt um miðjan desember en vildi samt fá ráðningarsamning sinn sem kosningastjóra framlengdan (sjá hér).

Finnbogi Vikar og Andrea J. Ólafs

Þó Finnbogi væri fyrstur til að yfirgefa Dögun opinberlega þá var flóttinn úr Dögun hafinn litlu fyrr  og fleiri áttu eftir að fara í kjölfarið. Ýmislegt bendir til að ein af meginástæðum þess að þessir heltust úr lestinni hafi verið ofuráhersla Andreu J. Ólafsdóttur, sem kosningastjóra, á sitt eigið framboð. Hér er yfirlit yfir þá sem yfirgáfu Dögun opinberlega fram að formlegri stofnun Lýðræðisvaktarinnar:

 

Úrsögn úr Dögun

Hlutverk hjá Lýðræðisvaktinni

Finnbogi Vikar

10. janúar 2012

1. sæti á lista XL í Suðurlandskjördæmi

Lýður Árnason

22. janúar 2012

1. sæti á lista XL í Suðvesturkjördæmi

Grétar Mar Jónsson

13. febrúar 2012

 var á stofnfundi Lýðræðisvaktarinnar

Daði Ingólfsson

16. febrúar 2012

var á stofnfundi Lýðræðisvaktarinnar


Rúmum mánuði eftir að frambjóðendaflóttinn hófst hjá Dögun var tilkynnt um stofnun Lýðræðisvaktarinnar.

Opinberir stofendur Lýðræðisvaktarinnar

Stofnendurnir áttu það allir sameiginlegt að hafa verið í stjórnlagaráði sem skilaði af sér drögum að nýrri stjórnarskrá sem gera ráð fyrir því að almenningur geti ekki farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um: „fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt“ en ríkið getur framselt valdi sínu „til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá hér).

Lýðræðinu sett vakt

Á formlegum stofnfundi flokksins sem haldinn var 17. febrúar voru allir helstu flóttamennirnir úr Dögun og vakti þar eflaust mesta athygli Gunnar Tómasson sem hefur farið mikinn undanfarna fjóra mánuði í gangrýni sinni á lausnarmiðaðar hugmyndir Lilju Mósesdóttur, Frosta Sigurjónssonar og Positive Money varðandi aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins. Þetta má t.d. sjá í umsögn hans frá 1. desember 2012 um þingsályktunartillögu Lilju Mósesdóttur (sjá frétt á xc.is) um þessa aðgerð en þar segir m.a:

Mistök við stjórn peningamála á liðinni tíð eru ekki rök fyrir kerfisbreytingu á útlánastarfsemi bankanna heldur þarf að draga nauðsynlegan lærdóm af þeim svo betur takist til í framtíðinni. Til dæmis er einfalt mál að takmarka umsvif bankakerfisins með svokölluðu útlánaþaki sem hefur verið þáttur í efnahagsáætlunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir mörg aðildarríki um langt árabil. (sjá hér)

Gunnar Tómasson skrifað líka grein nýlega til að vefengja bæði Frosta Sigurjónsson og fulltrúa Positive Money, sem kom hingað til lands og hélt fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands (sjá frétt um fundinn hér). Þar undirstrikar Gunnar Tómasson ágæti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins enn og aftur:

Í flestum hagkerfum heims er það hlutverk seðlabanka og fjármálaeftirlits að setja nýsköpun peninga af hálfu banka (útlánaþenslu) tilhlýðileg takmörk. Í starfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um langt árabil tók ég þátt í ákvörðun slíkra takmarka, en þau eru einatt lykilatriði í efnahagsáætlunum AGS og aðildarríkja sem glíma við óstöðugleika á fjármálamarkaði og halla á greiðslujöfnuði.

Ef það væri ríkjandi skoðun að ástæða slíkra erfiðleika væri að „bönkum hefði verið leyft að búa til peninga”, þá myndi þess gæta í ráðleggingum AGS til viðkomandi aðildarríkja, en þess sjást engin merki. (sjá hér)

Sú aðdáun og traust sem fyrrum starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Gunnar Tómasson, ber til sjóðsins virðist reyndar vera nokkuð almenn meðal oddvita Lýðræðisvaktarinnar eins og kom fram hjá Erni Bárði Jónssyni þegar hann sagði aðkomu sjóðsins hafa verið nauðsynlega til að koma hér á aga og festu í efnahagsmálum (sjá hér á mínútu 87). Þessi ummæli lét Örn Bárður falla í kosningasjónvarpi Sjónvarpsins, 9. apríl sl., þar sem efnahagsmálin voru til umræðu.

Lekinn úr Dögun verður að Lýðræðisvaktinni

Á stofnfundi Lýðræðisvaktarinnar sem var haldinn hinn 17. febrúar sl. vakti það og athygli að af þeim sjö sem voru kjörnir/skipaðir í stjórn Lýðræðisvaktarinnar voru fjórir sem komu að stofnun Dögunar og/eða störfuðu með þeim flokki að framboðsmálum.

Það er reyndar ekki síður athyglisvert þegar litið er til þess að fimm af þeim tíu sem voru kjörnir í framkvæmdaráð á stofnfundi Dögunar, sem haldinn var tæpu ári fyrr, starfa nú með Lýðræðisvaktinni. Helmingur oddvita á framboðslistum Lýðræðisvaktarinnar voru áður í Dögun og mætti því með réttu kalla Lýðræðisvaktina annað af tveimur klofningsframboðum Dögunar ásamt Pírötum.

Séð og heyrt

Það er margt sem vekur furðu varðandi flokksstofnun Þorvaldar Gylfasonar rétt rúmum tveimur mánuðum fyrir alþingiskosningar. Maður skyldi t.d. ætla að háskólaprófessor gerði meiri kröfur til faglegra vinnubragða en svo að hann ryki út í það að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn rétt fyrir kosningar og það í því offramboði sem blasti við þegar stofnun Lýðræðisvaktarinnar var opinberuð.

Annað sem vekur furðu eru áherslurnar í stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar,  skorturinn á kynningu hennar og svo það sem í versta falli myndi teljast óheiðarleiki. Takið t.d. eftir þessu myndbandi og því að Þorvaldur nefnir hvergi að hann hefur verði ráðgjafi þeirra tveggja erlendu fjármálastofnana sem hafa sett efnahagslegri framtíð þeirra Evrópuríkja sem hafa átt hvað erfiðast uppdráttar að undanförnu slík skilyrði að þau eru að kikna undan þeim.

 

Það hljóta margir að velta því fyrir sér hvaðan Lýðræðisvaktinni og fleiri nýjum framboðum kemur peningurinn til að halda málstað sínum á lofti með auglýsingum á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og með uppákomum. Það gefur væntanlega auga leið að þegar tveir mánuðir eru í kosningar gefst ekki mikill tími til fjáröflunar fyrir nýtt framboð. Hins vegar kostar myndband eins og þetta.

Í þessu sambandi má líka benda á að þetta er langt frá því að vera eina myndbandið sem hefur verið gert um frambjóðendur Lýðræðisvaktarinnar. Þau eru nokkur (sjá hér) Þau eru líka fleiri dæmin sem benda til þess að Lýðræðisvaktin sé langt frá því að vera á flæðiskeri stödd peningalega. Það kostar nefnilega að birta auglýsingar í blöðum, ljósvaka- og netmiðlum. Hönnun fjölmiðlaauglýsinga og barmmerkja kostar. Hönnun vefsíðna og plakata kosta líka.

Þegar litið er yfir frambjóðendur á lista Lýðræðisvaktarinnar vakna líka margar stórar spurningar. Margir meðal þeirra 114 sem eiga sæti á lista Lýðræðisvaktarinnar eru þjóðþekktir einstaklingar sem hafa lítt eða ekkert komið nálægt pólitík áður og fæstir haft nokkur afskipti af því sem fram hefur farið hér á fjórum síðastliðnum árum. Það er því eðlilegt að maður spyrji sig: Hvað veldur þeim brennandi áhuga þeirra nú svona rétt fyrir kosningar að þau taka sæti á framboðslista algjörlega óþekkts framboðs? 

Frambjóendur Lýðræðisvaktarinnar

Það er líka undrunarefni að allt þetta vel menntaða og þokkalega vel samfélagssetta fólk skuli hafa gengist inn á þá hugmynd að leggja enn einum nýja flokknum lið sem í grundvallaratriðum á flest allt sameiginlegt með öðrum flokkum sem voru til fyrir. Þegar litið er til stefnumála þá er nefnilega ekki að sjá að Lýðræðisvaktin skeri sig svo mjög úr stefnu fjórflokksins og þá einkum Samfylkingar.

Af nýju flokkunum er Björt framtíð, Dögun og Píratar líka í meginatriðum með sömu áherslur og Lýðræðisvaktin. Í þessu sambandi mál líka benda á að útlit er fyrir að Píratar og Lýðræðisvaktin hafi gert með sér einhvers konar samkomulag um einhvers konar samstarf (sjá hér).

Þegar litið er til málflutnings Þorvaldar Gylfasonar í því meginmáli sem hann heldur fram að hafi hrint honum til stjórnmálaþátttökunnar er full ástæða til að horfa til þess hvernig hann heldur málum á lofti. Hér verður aðeins tiltekið eitt dæmi sem snýr að þeirri fullyrðingu að það sé þjóðarvilji að hér verði tekið upp það stjórnarskrárfrumvarp sem inniheldur takmarkaðan rétt til þjóðaratkvæðagreiðslna og heimildina til fullveldisafsals til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að.

Samanburður á kosningaþátttöku

Það liggur nefnilega fyrir að innan við helmingur kjósenda sýndi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið áhuga þ. 20. október sl. Tveir þriðju þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við fyrstu spurningunni sem hljóðaði svo: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ (sjá hér).  

Vaktstjóri lýðræðisins

Í aðdraganda þess að núverandi þing lyki störfum opinberaði hagfræðiprófessorinn og vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar, Þorvaldar Gylfasonar, þessa túlkun sína á ofangreindum niðurstöðum:

„Alþingi svívirðir lýðræðið á þessum dögum með því að daðra við þá hugmynd frammi fyrir opnum tjöldum að drepa nýja stjórnarskrá sem tveir þriðju hlutar kjósenda hafa lýst með skýrum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu að þeir vilji sem grundvöll nýrrar stjórnskipunar Íslands,“ (sjá hér)

Það liggur fyrir að vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar telur það brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar að stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs verði samþykkt sem ný stjórnarskrá þjóðarinnar. Þessari skoðun deilir hann ekki aðeins með þingmönnum Hreyfingarinnar heldur líka nokkrum stjórnarskrárfélögum eins og Illuga Jökulssyni sem nýverið setti á stað undirskriftarlista sem snýst um það að þrýsta á það að aðlögunarferli Íslands að ESB verði klárað án þess að vilji þjóðarinnar til aðlögunarinnar verði kannaður áður (sjá hér).

Auglysing LýðræðisvaktarinnarÍ söluherferð Lýðræðisvaktarinnar svo og annarra stjórnarskrárliða hefur sá málflutningur verið mjög áberandi að eingöngu með nýrri stjórnarskrá verði þjóðareignin yfir náttúruauðlindunum tryggð. Í þessu samhengi er athyglisvert að 34. grein stjórnarskrárfrumvarpsins segir: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar“ (sjá hér (feitletrun er blogghöfundar)).

Það er líka vert að taka eftir því að spurningin varðandi þetta efni í ráðgefandi þjóðaratkvæða-greiðslu hljóðaði þannig: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“ (sjá hér (feitletrun er blogghöfundar)).

Í þessu sambandi er rétt að minna á að vatnalögin sem urðu til í ráðuneyti Katrínar Júlíusdóttur og voru samþykkt á Alþingi í september 2011 gera skýran greinarmun á yfirborðsvatni og grunn-vatni. Samkvæmt lögunum er grunnvatn enn í einkaeigu og getur hver ráðstafað af vild (sjá hér). Hér er líka ástæða til að minna á ásókn erlendra aðila í að kaupa hér lönd og vaxandi vatnsskort í heiminum. 

Núna á laugardaginn verður kosið til næsta Alþingis. Laugardagurinn er því síðasti dagurinn sem kjósendur hafa til að gera upp hug sinn um það hvort þeir ætli að kjósa og hvaða flokkur af þeim 11 til 14 sem bjóða fram fá þeirra atkvæði. Þeir sem falla fyrir framboðslista sem lítur að nokkru leyti út eins og forsíða á Séð og heyrt munu eflaust vera svolítið veikir fyrir Lýðræðisvaktinni.

Valkostur kjósenda

Vaktstjórinn

Þeir sem aðhyllast hugmyndina um foringja eða mentor eiga væntanlega ekki í miklum vandræðum með að sjá Þorvald fyrir sér í því hlutverki. Það hvort að tengsl hans við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópu-sambandið setur strik í reikninginn kemur væntanlega í ljós þegar talið verður upp úr kjörkössunum.

Það er nefnilega óvíst að kjósendur kunni að meta hollustu Þorvaldar við þessa vinnu-veitendur sína. Það er heldur ekki víst að þeir kunni honum miklar þakkir fyrir hvorki þá útkomu sem vinna hans í stjórnlagaráði skilaði né þá áherslu sem hann hefur lagt á afraksturinn.

Það er líka alveg möguleiki að kjósendum sé bæði rétturinn til þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál svo og sjálfstæði þjóðarinnar kærari en Þorvaldi. Það má líka vera að kjósendur sjái í gegnum áherslu Þorvaldar á stjórnarskrárbundna þjóðareign náttúruauðlinda þar sem þeir eru meðvitaðir um að það var tryggt að grunnvatnið væri undanskilið haustið 2011 án þess að Þorvaldur og aðrir stjórnarskrárliðar séu að taka það fram. 

Það má vera að einhverjir kjósendur séu á því að Þorvaldur Gylfason sé rétta andlitið til að draga úr valdi núverandi peningakerfis þrátt fyri afstöðu hans í Icesave og þrátt fyrir þögn hans og/eða loðinn málflutning hans um efnahagsmál á kjörtímabilinu. Það má vera að þeir telji tengsl hans og aðdáun á þeim alþjóðlegu peningastofnunum sem eru að leggja efnahag Grikklands, Spánar, Kýpur og fleiri ríkja Evrópu í rúst honum til tekna.

Afstaða kjósenda til stefnumála og verka Þorvaldar Gylfasonar og Lýðræðisvaktarinnar mun aðfararnótt n.k. sunnudags leiða í ljós. Það er m.a.s. möguleiki á því að af niðurstöðum kosninganna megi draga einhverjar ályktanir um það hvort íslenskur almenningur sé enn á því að skýring efnahagshrunsins sé stjórnmálaleg eða hafi hallast að skýringum annarra, sem standa í svipuðum sporum, um að hún sé fremur efnahagsleg.


mbl.is Reynt að bjarga í horn á síðustu stundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband