Lokaþáttur stjórnarskrármálþófsins

Það er útlit fyrir að sjái fyrir endann á umræðum um stjórnarskrárfrumvarpið í dag. Öndinni verður þó tæplega varpað léttar nema því verði vísað frá á grundvelli þeirra galla sem það inniheldur. Stærstu gallarnir eru 67. greinin og sú 111.

Greinarnar vega annars vegar að réttinum til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu „um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“ og hins vegar að fullveldinu með því að „Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá hér) Þrátt fyrir þessa galla hafa þingmenn Hreyfingarinnar, og væntanlega framboðin sem þau tilheyra nú, ásamt Lýðræðisvaktinni gert stjórnarskrá með þessum greinum að sínu meginbaráttumáli.

Stjórnarskrá frekasta fólksins

Í reynd virðist munurinn á Samfylkingunni, leifunum af Vinstri grænum, Bjartri framtíð, Lýðræðisvaktinni, Pírötum og Dögun vera enginn þegar kemur að stórum málum eins og Evrópusambandsaðild og stjórnarskrárbreytingum. Þetta hefur komið hvað skýrast fram í því að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi í raun verið fallin fyrir ári síðan þegar litið er á þingmannafjölda þá hefur hún setið keik fram á þennan dag í skjóli þingmanna Hreyfingarinnar og Bjartar framtíðar.

Lýðræðisvaktin á engan inni á þingi nema það ætti að vera augljóst sambandið sem er á milli a.m.k. Þorvaldar Gylfasonar og þingmanna Hreyfingarinnar. Nægir þar að nefna sameiginlegt ferðalag fulltrúa Dögunar og Þorvaldar hringinn í kringum landið sl. haust þar sem tilgangurinn var að kenna landsmönnum að kjósa rétt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um valdar greinar stjórnarskrárfrumvarpsins sl. haust (sjá kennslugögnin hér)

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með framgöngu Hreyfingarþingmannanna á Alþingi eftir að þeir gengu ríkisstjórninni á hönd fyrir ríkisráðsfundinn á Bessastöðum á gamlársdag, 2011. Af þessu tilefni fórnuðu þeir kosningaloforðum sínum sem sneru að efnahags- og lífskjaraumbótum fyrir stjórnarskrármálið. Síðan hafa þau lagt umtalsverðar upphæðir af fyrrum fjármunum Borgarahreyfingarinnar, nú Dögunar, til að fjármagna það að stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðs verði að nýrri stjórnarskrá.

Það er óhætt að segja að Hreyfingarþingmennirnir hafi barist með kjafti og klóm fyrir því að koma stjórnarskrárfrumvarpinu til þess að verða að nýrri stjórnarskrár. Oft og tíðum hafa meðul þeirra lyktað af óheilindum og annars konar undirferli. Dæmi um slíkt er myndin hér að neðan sem er tekin 1. október 2011 á útifundi sem Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir í tilefni þingsetningar sem fram fór þann sama dag.

Sögufölsun Hreyfingarinnar

Eins og lesendur rekur eflaust minni til var hin eiginlega Búsáhaldabylting háð undir lok janúar 2009 og fór að öllu jöfnu ófriðsamlegar fram en þessi mynd gefur til kynna. Sennilega eru þeir heldur ekki margir sem eru tilbúnir að kvitta undir það að þessa síðustu daga janúarmánaðar árið 2009 hafi það verið krafan um nýja stjórnarskrá sem hafi knúið þá áfram til þátttökunnar. Myndin hér að ofan er því í versta falli dæmi um sögufölsun.

Þeir sem hafa gert stjórnarskrármálið að forgangsmáli hafa orðið sífellt uppvöðslusamari í kröfu sinni um nýja stjórnarskrá og um leið hafa þeir gerst ósvífnari. Þingmenn Hreyfingarinnar eru þar engin undantekning sem opinberaðist ekki hvað síst í þeirri breytingartillögu sem Margrét Tryggvadóttir lagði fram fimmtudaginn 14 mars sl. (sjá hér)

Slægðin sem liggur í breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur er slík að jafnvel sumum samfylkingarþingmönnunum þótti nóg um eins og fram kemur í neðangreindum orðum Árna Páls Árnasonar. Eftirfarandi orð lét hann falla í andsvaraskiptum sínum við Birgittu Jónsdóttur þ. 18. mars sl. en alls tók umræðan um ný stjórnskipunarlög u.þ.b. tíu klukkustundir  þann dag.

Árni Páll Árnason 18. mars 2013

Þann 18. mars sl. var fyrsti dagurinn í þeirri lotu stjórnarskrárumræðunnar sem má búast við að ljúki í dag. Það er nokkuð víst að enn ríkir engin sátt um stjórnarskrármálið en mánudaginn, 18. mars, var töluverður titringur í þinginu sem hefur viðhaldist síðan og olli ekki síst breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur.

Breytingartillagan setti framhald umræðunnar nefnilega í algera óvissu sem mátti reyndar greina í máli Hreyfingarþingmannanna þó þeir létu sem svo að framlenging þingsins væri ekkert vandamál þegar stjórnarskrármálið er annars vegar. Birgitta Jónsdóttir, núverandi frambjóðandi Pírata, lýsti sig tilbúna til að ræða stjórnarskrána næstu daga og jafnvel vikur.

Birgitta Jónsdóttir 18. mars 2013

Þór Saari, núverandi frambjóðandi Dögunar, vildi ramma stjórnarskrárumræðuna inn í 100 klukkustunda umræðu sem hann ætlaði að tæki eina viku.

Þór Saari 18. mars 2013

Margrét Tryggvadóttir, núverandi frambjóðandi Dögunar, lofaði hins vegar kjósendum því að ef stjórnarskrárfrumvarpið yrði fellt á þessu þingi yrði það forgangsverkefni hennar á því næsta að leggja það fram aftur.

Margrét Tryggvadóttir 18. mars 2013

Þeim, sem vilja sannreyna að hér sé rétt eftir ofangreindum þingmönnum haft, skal bent á þessa slóð hér sem inniheldur fjögur myndbönd með völdum köflum úr stjórnarskrárumræðunni 18. og 19. mars sl.

Mánudaginn 18. mars tóku umræður um stjórnarskrármálið u.þ.b. 10 klukkustundir. Á meðan á þessum umræðum stóð var a.m.k. einum þingmanni sem blöskraði svo tilfinnanlega hvernig þessi umræða bitnaði á öðrum brýnni málefnum að hann þrusaði hnefanum í ræðupúltið og benti á að það væri ekki eitt einasta mál sem snerti skuldamál heimilanna á dagskrá þessa framlengda þings!

Sigurður Ingi Jóhannsson

Því miður er þetta bara eitt dæmið enn um það hvernig forgangsatriðum þessa þings hefur verið háttað og þá einkum stjórnarmeirihlutans. Þeir sem hafa varið ríkisstjórnina falli allt síðasta ár; þ.e. núverandi frambjóðendur Dögunar, Pírata og Bjartar framtíðar, hafa gengist inn á þessa forgangsröðun og stuðlað að henni líka. Þingmenn Hreyfingarinnar hafa gengið vasklega fram í þessum efnum.

Það sem er alvarlegast í því sem snýr að vantausts- og stjórnarskrármoldviðrinu sem þessi þingmannahópur hefur staðið fyrir er að á meðan þessu sprelli hefur farið fram í sölum Alþingis hafa erlendir hrægammasjóðir verið hér á landi að semja um íslenskar krónueignir í bönkunum.

Kröfuhafar Glitnis og Kaupþings hafa á síðustu vikum myndað hóp sem gengur undir nafninu krónuhópurinn (e. ISK working group), að því er segir í frétt Fréttablaðsins. Hlutverk hópsins er að kanna forsendur fyrir því að losa um eignir þrotabúanna, sérstaklega í íslenskum krónum. Þær nema tæpum 500 milljörðum króna. Stærstu íslensku eignir þeirra eru stórir eignarhlutir í Íslandsbanka og Arion banka [...] (sjá nánar hér og líka hér)

Stjórnmálamennirnir sem hafa þyrlað upp moldviðri um meingallað stjórnarskrárfrumvarp nú „blekktu velflesta kjósendur í síðustu alþingiskosningum til meðvitundarleysisins um samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samninga sem fólu það í sér að þjóðin skyldi borga Icesave. Strax eftir kosningar kom hið sanna í ljós og allt þetta kjörtímabil hefur farið í viðbragðsaðgerðir ýmissa sjálfboðaliðshópa til að viðhalda möguleikanum til mannsæmandi lífskjara hér á landi.“ (sjá hér)

Lykilframbjóðendur Bjartar framtíðar, Dögunar, Lýðræðisvaktarinnar og Pírata hafa tekið virkan þátt í sambærilegum leik að þessu sinni. Það er því ástæða til að hvetja kjósendur til að hafa afleiðingar meðvitundarleysisins vorið 2009 hugfastar þegar kemur að því að þessir haldi því fram síðustu daga fyrir kosningar að þeir muni breyta einhverju í forgangsröðun sinni og starfsháttum hljóti þeir fylgi kjósenda.

Þeir ættu að skammast sín!


mbl.is Lokasprettur á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Samstaða þjóðar

Frábær úttekt hjá þér Rakel, sem nær nákvæmlega kjarna málsins:

"Í reynd virðist munurinn á Samfylkingunni, leifunum af Vinstri grænum, Bjartri framtíð, Lýðræðisvaktinni, Pírötum og Dögun vera enginn þegar kemur að stórum málum eins og Evrópusambandsaðild og stjórnarskrárbreytingum."

Þetta fólk má ekki hafa forustu um nein mál, því að tilgangur þess er ávallt svik við sjálfstæði Íslands. Sem betur fer er komið að lokum núverandi kjörtímabilis og góðar horfur eru á, að kjölturakkar Evrópusambandsins komist ekki á nærstunni í þá lykilaðstöðu sem þeir hafa of lengi haft.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 27.3.2013 kl. 16:27

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Já, Rakel mín. Það eru kjölturakkar þeirra stóru, sem eru ósjálfstæðastir, óábyrgastir og hættulegastir. Þannig rakkar finnast um víða veröld, en ekki bara á Íslandi.

Það eru gerðir út öfgahópar til að starfa með þeim stóru og valdamiklu!

Svo fá viðhöldin sinn einkabókstaf, og komast í vel launaða og ábyrgðarlausa innivinnu, og gleyma því smátt og smátt alveg, hvers vegna þeir eiginlega lentu í þessari vinnu!

Ég veit að núna er ég mjög dómhörð, en ég tek því líka sem sjálfsögðum hlut að verða leiðrétt og dæmd, ef ég hef verið raunverulega ósanngjörn í mínum dómi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.3.2013 kl. 23:47

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Anna Sigríður, ef þér er það einhver huggun þá þykir mér þú ekki vera dómhörð. Mér finnst reyndar virkilega vænt um innleggin þín

Til að vekja athygli á því sem maður vill benda á þarf stundum að hvessa sig og taka jafnvel svo sterkt til orða að það kemur út sem dómharka. Ég fagna innleggjunum þínum af því að auðvitað hefur komið fyrir að ég hef hikað og reynt að halda mér í gírnum að vilja trúa því sem fólk segir og sleppa að taka með í reikninginn það sem það gerir og/eða gerir ekki.

Þeir sem ég gagnrýni hér að ofan væru ekki að berjast fyrir stjórnarskrá á lokadögum þingsins á meðan fólk sveltur og landið er selt ofan okkur og framtíðini frá okkur ef þeir væru það sem þeir segjast vera!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.3.2013 kl. 00:09

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hef ekki getað sett mig almennilega inn í einkennilega afstöðu þessa 4,manna flokks Hreyfingar,bæði mikið frá tölvu og afar sjaldgæft að ég þjáist af síhóstandi kvefi. Nú ætla ég (batnandi) að verða mér út um allt í sambandi við Samstöðu. Ég fer ekki leynt með að ég útiloka Bjarta fr.Pírata, L.V. og Dögun,fyrir nú utan stjórnarflokkana. Langar að vita hvernig/hvers vegna nýju flokkarnir þurfa fleiri atkv. til að ná manni/mönnum inn,en þeir gömlu 4-ir. Margir spyrja mig og telja að eg geti sagt þeim hvernig við fellum ríkisstjórnarflokkana,sem er þeirra æðsta,pólitíska ósk eins og mín ( en í vonleysi segjast ætla að skila auðu). Ég myndi ganga ansi langt svo að það yrði,en hafði heitið mér að kanna allt sem ég heyri og sé. Þegar talað er um þá 2 stóru andstöðuflokka,er oft getið í að þeir muni mynda stjórn með öðru hvorum VG. eða SF. Það ærir mig. Nú ber mér sem byrjaði án þess að heilsa,að segja góða nótt.

Helga Kristjánsdóttir, 28.3.2013 kl. 01:59

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég þakka þér fyrir innleggið þitt Helga svo og bloggvináttubeiðnina sem ég hef þegar samþykkt. Þú getur kynnt þér SAMSTÖÐU bæði á heimasíðu flokksins hér á Netinu svo og fésbókarsíðu hans en það er rétt að taka það fram að sú ákvörðun var tekin á landsfundi SAMSTÖÐU, sem var haldinn þ. 9. febrúar sl., að bjóða ekki fram að þessu sinni.

Ástæðurnar eru þær að það vantaði fjármagn, fylgi og verklegan stuðning. Hvað framboð í framtíðinni varðar verður að koma í ljós. Ég tek svo undir með þér að það er hreint ekki auðvelt að ákveða hvernig atkvæðinu verður varið í þessum kosningum. Það er reyndar í fyrsta skipti sem ég stend í þeim sporum að vera alveg blönk hvað það varðar. Það eina sem ég er með á hreinu er það hvað kemur ekki til greina að kjósa og hvers vegna.

Góða nótt

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.3.2013 kl. 02:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband