Lítilsvirðing eða fíflska

Ómar Geirsson hefur fjallað þó nokkuð um þann fámenna hóp sem hefur haldið uppi þeim málflutningi að það sé þjóðarvilji að stjórnarskrárfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi verði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þessi hópur hefur nú endurvakið reglulega laugardagsfundi á Austurvelli með Hörð Torfason í broddi fylkingar til að krefjast þess að Alþingi láti þennan vilja „ná fram að ganga.“ (sjá hér)

Álfheiður Ingadóttir og Gísli Tryggvason

Í dag verður þriðji útifundurinn haldinn og eru tveir framsögumenn á fundinum. Það eru þau Katrín  Fjeldsted, heimilislæknir og Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði.

  • Katrín Fjelsted var kosin formaður Evrópusamtaka lækna (CPME)  á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í Brussel í júní í fyrra og tók við því embætti 1. janúar síðastliðinn. (sjá hér).
  • Þorvaldur Gylfason hefur á undanförnum árum verið tíður ráðgjafi AGS, framkvæmdarstjórnar ESB og EFTA auk þess sem hann hefur haldið fyrirlestra um efnahagsmál á vegum þessara í Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum. (sjá hér)

Því má svo bæta við að Þorvaldur og Katrín voru bæði í stjórnlagaráði.

Eins og þeir, sem hafa fylgst með umræðunni um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs, kannast við er langt frá því að vera einhugur um ágæti frumvarpsins. Ein þeirra greina stjórnarskrárdraganna sem margir gjalda varhug við er 67. greinin sem fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í ljósi nýfallins dóms EFTA-dómstólsins um Icesave-málið hafa fleiri tekið að velta inntaki hennar og tilgangi fyrir sér. Greinin hljóðar þannig:

Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. (sjá hér)

Lilja Mósesdóttir, þingmaður, er ein þeirra sem hefur vakið athygli á því hvað þetta þýðir. Í ræðu sem hún flutti í sérstökum umræðutíma þingsins um niðurstöðu dómsins sem var birtur síðastliðinn mánudag sagði hún um þetta atriði:

Íslendingar hafa nú eftir EFTA-dóminn sýnt fram á mikilvægi þess að þjóð hafi stjórnarskrártryggðan rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum og varðandi skattaleg málefni.

Við megum því ekki samþykkja stjórnarskrártillögur sem ekki tryggja rétt kjósenda til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál af sama toga og Icesave-málið. (sjá hér líka hér þar sem Lilja gerir grein fyrir afstöðu sinni til nýrrar stjórnarskrár)

Í ofangreindu ljósi orkar það mjög tvímælis að til stendur, eftir því sem kemur fram í auglýsingu inni á Fésbókinni um framangreindan útifund, að veita þeim grasrótarhópum viðurkenningu sem knúðu fram þjóðaratkvæðagreiðslurnar sem fram fóru um Icesave-málið. Texti auglýsingarinnar hljóðar þannig:

Í lok fundar mun Hróshópurinn veita þeim grasrótarhreyfingum og sjálfboðaliðum sem hafa starfað gegn IceSave-málinu viðurkenningu. Fjöldi manns hefur lagt á sig mikið starf í sjálfboðavinnu til að tryggja hagsmuni íslensks almennings. Þetta fólk á þakkir skildar. Vonumst við til að sjá fulltrúa frá þessum hópum; InDefence, Advice, kjosum.is og Samstaða þjóðar. (sjá hér)

Af þessu tilefni leyfi ég mér að spyrja hvort það sé til eitthvert kjarnyrt og lýsandi nafnorð um þá sem láta sem 67. grein stjórnarskrárfrumvarpsins snúist um eitthvað annað en útiloka það að knúnar verði fram þjóðaratkvæðagreiðslur um þjóðréttarskuldbindingar sem fram kunna að koma í framtíðinni og ganga m.a.s. svo langt í meintu skilningsleysi sínu að þeir vilja stefna þeim fjölda sem lagði „á sig mikið starf í sjálfboðavinnu til að tryggja hagsmuni íslensks almennings“ til að taka við einhverju, sem á að heita viðurkenning, á útifundi „um „betri stjórnarskrá“?

Ég get heldur ekki annað en spurt þess líka hvort það eru til orð til að lýsa þeirri niðurlægingu sem baráttufólkinu fyrir Icesave er sýnt með því fullkomna taktleysi að stefna þeim sem börðust fyrir Icesave til óbeinnar þátttöku í útifundi sem snýst um það að taka leiðina af komandi kynslóðum sem þessu fólki var fær til árangurs í þeirri baráttu? ... eða er þetta bara fíflska?

Mig langar að lokum til að vekja athygli á bloggpistli sem ég birti hér skömmu fyrir jól um vegvillta viðspyrnu þar sem pistillinn kemur mjög inn á það hvernig það vildi til að hluti þeirrar grasrótar sem barðist fyrir auknu lýðræði strax í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 snerist til þess að berjast fyrir skerðingu þess nú.
mbl.is „Stóra stríðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Rakel. Ég sé að þú hefur gert Ómar Geirsson að meistara lífs þíns og vitnað ákaft í boðskap Austfirðingsins.

Umræddur Ómar Geirsson hefur nákvæmlega ekkert afrekað á sviði þjóðfélagsumbóta frá Hruni. "Barátta" hans er fólgin í misgáfulegum upphrópunum á vefnum sem fæstir nenna að lesa.

Þú kýst að furða þig á þeirri staðreynd að fulltrúar InDefence, Advive og kjosum.is voru heiðraðir fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu þjóðarinnar á útifundi Radda fólksins á Austurvelli í dag(!)

Í því sambandi er rétt að benda þér á að Raddir fólksins störfuðu náið með InDefence veturinn 2008 - 2009 og stóðu m.a. fyrir útifundum gegn IceSave í júní 2009.

Baráttumál Radda fólksins hafa hlotið góðan hljómgrunn hjá þjóðinni. Veturinn 2008 - 2009 náðum við öllum okkar kröfum fram.  Mánudaginn 28. janúar sl. hafði þjóðin fullnaðarsigur í IceSave.

Við efumst ekki um að Alþingi muni virða vilja aukins meirihluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.2.2013 kl. 20:19

2 identicon

Heil og sæl Rakel; sem og aðrir gestir, þínir !

Hilmar frændi; af Gamla Hrauns torfunni !

Raddir fólksins hvað; Hilmar minn ?

Megnir tækifærissinnar; sem dönzuðu / og danza enn, eftir línum Jóhönnu og Steingríms, grímulaust.

Og; Hilmar minn. Svangt fólk; étur ekki - né drekkur, skruddurnar, þó Stjórnarskrár nafnbót hafi hlotið, gamlar eða nýjar.

Með beztu kveðjum; sem jafnan / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.2.2013 kl. 22:00

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það er ekki rétt að bendla Ómar Geirsson við Austurvalla-stjórnleysisruglið, bæði fyrr og nú.

Ég vara fólk við að hengja sinn áróður á velmeinandi og heiðarlega drengi, eins og Ómar Geirsson.

Fallvölt er vagga lífsins.

Það er öllum hollast að styðja sinn málflutning við sína eigin sannfæringu, og sleppa því að hengja hann á aðra klyfbera.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 2.2.2013 kl. 23:12

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hilmar, ég kannast ekki við að hafa séð þig áður á blogginu mínu þannig að ég skil ekki hrokafulla ályktun þína um að ég hafi get Ómar Geirsson að meistara lífs míns og vitni ákaft í hann þó ég geri það hér til að stytta mál mitt.

Annað sem þú leggur til málanna er á sömu bókina lagt. Sett fram að vísdómi þess sem kemur fram eins og hans sé sannleikurinn og rétturinn til að setja fram dóma. Það sem dregur úr gildi dóma þinna er hins vegar framsetningin.

Í stað þess að þú náir fram því sem virðist vera markmið þitt að gera lítið úr öllum sem eru ekki á sama og máli og þú þá orkar framsetning þín þannig að hún opinberar hroka þinn og dregur þannig úr vægi orða þinna.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.2.2013 kl. 02:04

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Óskar Helgi, áttu marga frændur sem heita Hilmar Hafsteinsson eða er þessi Hilmar sá hinn sami og gekk hér berserksgang undir nafninu N1 á dögunum. Sá fór slíku offari að moggabloggið hefur greinilega lokað á hann í kjölfarið.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.2.2013 kl. 02:06

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Anna Sigríður, ég get ekki skilið orð þín öðru vísi en svo að þú sést að tala til mín og ætlir mér að vera að „bendla Ómar Geirsson við Austurvalla-stjórnleysisruglið, bæði fyrr og nú.“ Miðað við þetta þá hefur þú misskilið orð mín í upphafi þessa bloggpistils þar sem ég vísa í Ómar.

Þar sem ég er ekki alveg viss um það til hvers þú beinir orðum þínum eða hvað þú ert að meina ætla ég að geyma það aðeins að svara þér ýtarlegar en vona að þú takir af allan vafa þannig að ég geti haldið áfram með svar mitt.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.2.2013 kl. 02:37

7 identicon

Komið þið sæl; sem fyrr !

Rakel; fornvinkona mæta !

Jú; um leið, og ég þakka þér drenglynda málafylgjuna - fyrr, og síðar, verð ég að ætla, að grunsemdir þínar, sem og mínar, um Hilmar Hafsteinsson, hér ofar, séu réttar, að þar sé frændi minn; títtnefndur kominn, sem oftar.

Man ekki í svip; eftir öðrum míns frændgarðs, þessa nafns, að minnsta kosti, Rakel mín.

Auðvitað; fór Hilmar offari, undir N1ns bloggs nafngiftinni - og ekki bætti úr skák fyrir honum, að klína mynd Bjarna Benediktssonar, við höfundar nafn sitt, aukinheldur.

Með; hinum sömu kveðjum - sem áður /     

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband